Kerling í Eyjafirði

P5060003Í pistli mínum um Súlur minntist ég á Kerlingu, en hún liggur um 7km sunnan þeirra og sést á myndinni hér til hliðar. Kerling er 1538m y.s. og telst hæsta fjall á Norðurlandi. Hún er talin 8-9milljón ára gömul, hluti fornrar megineldstöðvar eins og hin fjöllin við Glerárdal. Háfjallið sjálft liggur í A-V á bakvið Súlnafjallgarðin sjálfan en framan við það er skagar önnur fjallaröð, Röðullinn, sem sést á neðri myndinni. Tindurinn fremst í röðlinum er kölluð Jómfrú ( örlítið vinstra megin við miðju á myndinni ). Á milli Röðuls og Súlnafjallgarðs er dalverpi sem kallast Kvarnárdalur. Sunnan Röðuls og Kerlingar er Finnastaðadalur en hann á vatnaskil með Glerárdal. Undir Kerlingu eru a.m.k. þrír grjótjöklar ( samskonar og skálarjökullinn í Hlíðarfjalli sem ég hef skrifað um hér.) Annar er NA megin, undir hamrastálinu sem sést á efri mynd. Hann heitir Lambárjökull. Hinn er í skál SA megin en mér er ekki kunnugt um nafn á honum ( ef hann er ekki nafnlaus ). Yfir síðarnefnda jökulinn er algengasta gönguleiðin á fjallið. Þriðja snjóskáli151n er síðan SV megin, skáhallt ofan við botn Glerárdals. Að ganga á Kerlingu er h.u.b. öllum fært en það er ólíkt erfiðara en að ganga á Súlur. Sennilega er Finnastaðaleið fjölförnust. Þá er gengið upp með Finnastaðaá að mynni Finnastaðadals en þar er stefnan tekin beint á Jómfrúnna upp klettastalla, en mikið gil eða dalur sker brekkuna hinu megin. Við efri kjaft gilsins, rétt undir Jómfrúnni er svo gengið eftir Röðlinum inn í skálina. Er þetta nokkuð löng leið þar sem hækkun er lítil. Í botni skálarinnar er svo afar brött fönn upp á hátindinn en þar bíður gestabók og varða. En skálin getur hins vegar verið varasöm yfirferðar. Sprungusvæði er þar neðst við brekkurætur og síðsumars og á haustin eru sprungurnar galopnar. Þá þarf að brölta upp á hátindinn að austanverðu upp lausagrjót og klungur. Sú leið er alls ekki hentug fyrir lofthrædda. Þessi ganga tekur á góðum degi um fimm tíma, hækkunin er 1450m. Auðveldasta leiðin á Kerlingu er líklega frá skálanum Lamba í Glerárdal. Er reyndar dálítil brött og stórgrýtt efst en þar munar mestu að ekki þarf að sigra nema rúman helming hæðarinnar, eða um 800m. Hins vegar þarf einhvern vegin að koma sér í Lamba, og þangað er 4-5 tíma gangur frá Ruslahaugum. Því er algengt að menn taki tvo daga í Lambaleiðina. Útsýnið af Kerlingu er hreint og út sagt stórkostlegt. Í besta skyggni má sjá alla stóru jöklana, Vatna-, Hofs,- og Langjökul og allt austurland frá Dyrfjöllum að Snæfelli, Herðubreið, Mývatnsöræfin, Ódáðahraun. Í vestri sjást svo fjöllin á Holtavörðuheiði og Strandir og næst er Tröllaskaginn eins og útbreitt landakort. Sennilega eru fáir "víðsýnni" útsýnisstaðir á landinu en Kerling. Þeir sem komið hafa á Súlur (Ytrisúlu ) kannast við að þar er plássið ekki mikið; ef margir eru í hópnum þurfa menn að skiptast á að vera á hátindinum. Uppi á Kerlingu er hins vegar geysi víðlend háslétta, flatarmál hennar er líklega svipað og hálf Akureyri. Ofan af Kerlingu má  fara niður á Súlnafjallgarðinn og fylgja honum eftir og niður af Súlum. Eða niður Glerárdalsmegin og koma niður í Lamba ef farin Finnastaðaleið upp eða öfugt. Ganga á Kerlingu tekur að öllu jöfnu um 8-10 klst. upp og niður. Myndirnar við þessa færslu eru teknar í maí 2006 og september 2004.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessir fjallapistlar eru algjör snilld... Haltu þessu áfram!

Mummi (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 10:32

2 identicon

Gaman að heyra ;-). Var að bæta örlítilli færslu við Kerlingarumfjöllun.

Arnór B. (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 48
  • Sl. sólarhring: 80
  • Sl. viku: 328
  • Frá upphafi: 420301

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 223
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband