Jólakveðja 2022

Óska ykkur öllum, nær og fjær, gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. smile

Jólakveðja_2022

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Jólamyndin að þessu sinni, er tekin á norðanverðum Eyrarlandshálsi, skammt neðan við Fálkafell, þ. 9. des. sl.)


Hús dagsins: Hafnarstræti 49; Amtmannshúsið, Hvammur

Fyrir Hafnarstræti miðju standa nokkur virðuleg og reisuleg timburhús frá árunum um aldamótin 1900, sérleg kennileiti þessa svæðis og sjást langt að. Syðst og elst þessara húsa er Hafnarstræti 49, sem byggt var 1895. Einhvern tíma kallað Sýslumannshúsið eða Amtmannshúsið en síðustu áratugi skátaheimilið Hvammur. Stendur það í svonefndri Barðslaut. PC151031 

Áður en vikið er að sögu Hafnarstrætis 49 væri rétt, að tæpa aðeins á því, hvernig landið lá (bókstaflega) um það leyti sem húsið var byggt.  Allt til ársins 1896 var lögsagnarumdæmi Akureyrarkaupstaðar aðeins tvær aðskildar „hólmlendur“ inni í Hrafnagilshreppi. Sú syðri, Akureyri og Fjaran; síðar almennt nefnt Innbærinn, var nokkurn veginn svæðið frá Hafnarstræti 23 að Krókeyri og sú ytri Oddeyrin. Þessi byggðalög skildu að snarbrattar og illfærar brekkur í sjó fram og var það ekki fyrr en 1892 að vegslóði var lagður á milli. Ári síðar, eða 1893, keypti  Akureyrarkaupstaður jörðina Stóra Eyrarland gagngert til þess að eignast land til húsbygginga (Sbr. Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason og Kristján Sigfússon 1993: 662).  Átti bærinn þannig mestalla brekkuna allt norður að Glerárgili enda þótt svæðið tilheyrði Hrafnagilshreppi. Ári síðar reistu þeir Bjarni Einarsson skipasmiður og Due Benediktsson lögregluþjónn hús á Torfunefi. Um var að ræða fyrsta húsið sem reis á landsvæði þessu eftir að bærinn festi kaup á því sem og það fyrsta við nýja veginn milli bæjarhlutanna. Fullyrða má, að sárafátt núlifandi fólk hafi séð þetta hús berum augum, en það var rifið árið 1929. Á þessari lóð, Hafnarstræti 91, risu ári síðar miklar höfuðstöðvar KEA.

     Ekki leið á löngu, uns húsunum fór að fjölga á þessari kílómetra löngu og örmjóu ræmu undir brekkunum í landi Eyrarlands. P5150365Veturinn 1895, nánar tiltekið þann 12. febrúar bókar bæjarstjórn eftirfarandi: „Amtmaður [Páll Briem] fær keypta lóð undir hús, garða, o.fl., eins og hún er upp á brún, sem sagt frá veginum fyrir miðri lautinni“. Þá fékk Páll leyfi til að grafa brunn. Ekki lágu fyrir lóðarmörk til norður og suðurs. Bæjarstjórn áskildi sér rétt til þess að byggingar yrðu háðar ákvörðun hennar og samþykki „meðan þessi lóð eigi komist undir bæinn“. Þar er væntanlega átt við, að landið var ekki undir umdæmi bæjarins, enda þótt hann ætti það. Í kjölfarið var Páli seldur húsgrunnur og mun hann hafa reist húsið þá um sumarið. Í svonefndri Jónsbók, sem varðveitt er á Héraðskjalasafninu á Akureyri segir orðrétt: „Byggingaheimild fyrir húsinu finnst ekki, enda ekki von, þar sem það er reist meðan allt þetta svæði, milli Akureyrar og Oddeyrar, þar sem húsið meðal annars stendur á, telst til Hrafnagilshrepps. En amtmaður, Páll Briem reisti íbúðarhúsið 1895-96 í sama stíl og það stendur enn“ (Jón Sveinsson, 1955).

     Hafnarstræti 49 er einlyft timburhús á lágum steyptum grunni, með háu portbyggðu risi og miðjukvisti að framan. Nyrsti hluti hússins er einlyftur með lágu, aflíðandi þaki. Veggir eru panelklæddir, bárujárn á þaki og sexrúðupóstar í gluggum. Grunnflötur hússins mun 17,1x8,9m, þar af er útbygging á neðri hæð 2,55m á breidd.

     Páll Briem var fæddur á Espihóli í Eyjafirði árið 1856. P1070712Hann nam lögfræði í Kaupmannahöfn og útskrifaðist þar árið 1884 og starfaði áratuginn eftir það m.a. við málaflutning, rannsóknir á lögum og sem sýslumaður m.a. í Dalasýslu og Rangárvallasýslu. Hann sat á Alþingi árin 1887-92, fyrir Snæfellinga. Árið 1894 var hann síðan skipaður amtmaður norður- og austuramts og valdi að hafa aðsetur sitt og heimili á Akureyri. Þegar Páll kom til Akureyrar var  nokkur rígur á milli bæjarhlutanna tveggja og þótti amtmanni ekki fara vel á því, að setjast að á öðrum hvorum staðnum. Hugðist hann því reisa sér aðsetur í miðjunni og sýna þannig hlutleysi sitt í verki. (Það hefur eflaust heldur ekki verið ókostur við þetta staðarval, að þarna gat hann fengið nokkurn veginn eins stóra lóð og honum sýndist). Mældi amtmaður vegalengdina milli Oddeyrar og Akureyrar og ákvarðaði, að hús hans skyldi standa þar mitt á milli.  Mörgum, þ.á.m. greinarhöfundi, hefur löngum þótt þetta ankannalegur miðpunktur milli Innbæjar og Oddeyrar, svo greinilega sem staðurinn er mun nærri fyrrnefnda bæjarhlutanum og telst raunar tilheyra honum nú. Vegalengdin að ystu lóð Akureyrar árið 1895 (þar sem nú er Hafnarstræti 23) að þessu húsi mælist 300 metrar en um 700 metrar að efstu húsum Strandgötu svo þessi munur er augljós. En voru mælitæki amtmanns og hans manna svona ónákvæm, eða voru þeir svona hallir undir Akureyrina fremur en Oddeyrina? Í raun er þarna um misskilning að ræða. Þetta á sér þá skýringu, að þessi mæling miðaðist ekki við ysta hús Akureyrar og syðsta hús Oddeyrar, sem margir kunna að gefa sér, heldur einmitt þveröfugt! Viðmiðið var nefnilega miðpunkturinn milli syðsta húss Akureyrar og ysta húss Oddeyrar (sbr. Hjörleifur Stefánsson, 1986: 26). Hvaða hús þetta voru nákvæmlega fylgir ekki sögunni, en freistandi að álykta að um hafi verið að ræða tvö torfhús, annað stóð þar sem nú er Norðurgata 31 og hitt, Syðstahús eða Sibbukofi við Aðalstræti 82. Ef við mælum vegalengdina nokkurn veginn í loftlínu meðfram brekkubrúnunum á kortavef map.is kemur í ljós, að nokkurn veginn sama vegalengd mælist milli Hafnarstrætis 49 og Norðurgötu 31 til norðurs annars vegar og frá Hafnarstræti 49 til suðurs að Aðalstræti 82 hins vegar. Það eru um 1300 metrar í hvora átt. Svo ekki hefur amtmanni skeikað.PA140848

     Eflaust hefur Páll haft þarna einhvern búskap og ræktun, hesta átti hann auðvitað og mun norðurhluti hússins, útbyggingin, hafa gengt hlutverki hesthúss. Þá var hann mikill áhugamaður um landbúnað og ræktun, var í hópi þeirra sem stofnuðu Ræktunarfélag Norðurlands og ennfremur formaður þess frá 1903-04. Skipulagsmál voru honum nokkuð hugleikin, og í febrúar 1904 birtist eftir hann stórmerk grein (að mati þess sem þetta ritar) í blaðinu Norðurlandi: „Um skipulag bæja í Akureyrarbæ og öðrum bæjum hér á landi“. Auk áhugaverðra vangaveltna um skipulag bæja hérlendis og borga erlendis, birtist þar mjög greinargóð lýsing á Akureyri frá þeim tíma og fyrirhugaðar hugmyndir um gatnaskipulag Brekkunnar.

      Í Manntali árið 1902 var þetta hús nr. 11 við Hafnarstræti. Þá bjuggu hér amtmannsfjölskyldan, Páll Briem og kona hans, Álfheiður Helga Helgadóttir, fjögur börn þeirra og tvö vinnuhjú. Auk þeirra bjó Halldór Briem, bróðir Páls, þarna. Tveimur árum síðar eða 1904 urðu vistaskipti hjá Briem fjölskyldunni í Barðslaut auk hræðilegs áfalls í lok ársins. Amtmannsembættin voru lögð niður 1. ágúst 1904 og fluttust fjölskyldan þá til Reykjavíkur, þar sem Páll gerðist bankastjóri Íslandsbanka. Um svipað leyti var hann einnig kjörinn alþingismaður Akureyringa. Honum auðnaðist ekki að taka sæti á þingi, því hann lést úr lungnabólgu 17. desember 1904, aðeins 48 ára að aldri. Í langri minningargrein um Pál í blaðinu Fjallkonunni sagði m.a. „Um alt þetta land og hvarvetna þar, sem íslendingar eru, verður þetta talin óvenjulega mikil harmafregn. Óhætt mun að fullyrða, að íslenzk þjóð yfirleitt, mótstöðumenn hins framliðna ekkert síður en vinir hans, hafi talið hann einhvern hinn mesta mann samtíðar sinnar á þessu landi. Þeir, sem honum voru kunnugastir, vissu líka, að hann var einn hinna allra beztu.“ Ennfremur „Um alt land er kunnugt, hve glögt auga Páll Briem hafði fyrir nær því öllum greinum framkvæmdalífsins. [...] Hann hafði meira vit á húsagjörð og vegalagning og skipulagi bæja en flestir menn hér á landi“ (Án höfundar, 1904).

     Enda þótt Páll flytti suður árið 1904 átti hann húsið hér áfram, en hingað flutti þá Guðlaugur Guðmundsson bæjarfógeti og eignaðist hann húsið eftir lát Páls. Árið 1906 fær húsið núverandi númer, 49, og skýrist það væntanlega af því, að húsaröðin frá 29-41 var reist árin þrjú á undan. Guðlaugur lést árið 1913 en ekkja hans, Olive Marie frá Svíþjóð, bjó hér áfram um skamma hríð. Árið 1915 eignaðist húsið Sigurður nokkur Fanndal og átti það um fimm ára skeið. Rak hann þar greiðasölu og gistihús í húsinu og munu hross ferðalanga hafa átt skjól í norðurhlutanum. Á þessum tíma var hesturinn ennþá þarfasti þjónninn, enda aðeins fáeinir bílar í landinu sem kom þó ekki að sök, því áratugir voru í sæmilega akvegi. Í fasteignamati árið 1918 var Hafnarstræti 49 lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðar- og gistihús úr timbri með járnklæddu þaki, einlyft með porti og kvisti og háu risi á kjallara, byggt 1895, stærð 14,4x8,8m. Skúr við norðurstafn notaður sem fjós og hlaða stærð 8,8x2,7m. Lóðin var sögð 11.709 m2 að mestu leyti ræktuð og girt með timbri og vír. Með öðrum orðum var lóðin rúmlega hektari að stærð. Hafði hún þó verið skert nokkuð frá upphafi, því árið 1915 var húsið Fagrastræti 1, nú Eyrarlandsvegur 35, „byggt úr landi“ Hafnarstrætis 49 (sbr. Steindór Steindórsson 1993: 84). Núverandi lóð hússins telst hins vegar „aðeins“ 2095 fermetrar skv. fasteignaskrá. Árið 1920 keypti húsið Steingrímur Jónsson frá Gautlöndum við Mývatn, en sama ár var hann skipaður sýslumaður.  Húsið dró löngum nafn af þeim embættismönnum sem þarna bjuggu, Amtmannshús eftir Páli Briem og Sýslumannshúsið eftir þeim Guðlaugi og síðar Steingrími. Gegndi Steingrímur embættum bæjarfógeta og sýslumanns Eyfirðinga uns hann fór á eftirlaun árið 1934. Hann bjó hér áfram eftir það, eða allt til í lok árs 1956. Akureyrarbær keypti húsið af erfingjum hans árið 1957 og leigði þar út íbúðir og herbergi.PB170851

     Árið 1962 hyllti undir kaflaskil í sögu hins tæplega sjötuga timburhúss í Barðslaut. En þá, á 100 ára afmælisári Akureyrarbæjar og þegar 50 ár voru liðin frá upphafi skátastarfs á Íslandi, færði bærinn skátum á Akureyri húsið að gjöf ásamt afnotum af lóðinni. Sú kvöð var á, að skátar máttu hvorki selja húsið, leigja til langframa eða gefa án samþykkis bæjarins. Það var svo ekki fyrr en fimm árum síðar, eða 1967, að skátar fengu húsið formlega afhent. Þá átti skátastarf á Akureyri 50 ára afmæli. En svo rausnarleg og þakkarverð sem þessi höfðinglega gjöf var, var það ekki svo, að skátarnir hafi fengið þarna fullbúið og fullkomið félagsheimili fyrir ekki neitt. Öðru nær. Ástand hússins var orðið nokkuð bágborið og þarfnaðist það ekki aðeins mikilla endurbóta heldur í raun algjörrar endurbyggingar svo það mætti þjóna sem félagsheimili. Fóru þær viðgerðir fram á næstu misserum, og voru þær endurbætur gerðar eftir teikningum Tómasar Búa Böðvarssonar. Sáu skátar nánast alfarið um framkvæmdina, bygginganefnd skipuðu þeir Aðalgeir Pálsson, Ingólfur Ármannsson, Finnbogi Jónasson, Jóhann Gunnar Ragúels, Richard Þórólfsson og Dúi Björnsson. Þá nutu skátar mikillar velvildar Skapta Áskelssonar í Slippnum en starfsmenn á hans vegum munu hafa annast meiri háttar framkvæmdir, ásamt meðlimum í St. Georgsgildinu á Akureyri. Auk þess lögðu skátar á öllum aldri hönd á plóg með einum eða öðrum hætti, framkvæmdir eða fjáraflanir, við þessa endurbyggingu (sbr. Hrefna Hjálmarsdóttir, 2016).

     Það er skemmst frá því að segja, að húsið þjónaði skátum á Akureyri í tæpa hálfa öld, síðustu áratugina undir nafni Skátafélagsins Klakks að ógleymdum St. Georgsgildunum; St. Georgsgildinu á Akureyri og St. Georgsgildinu Kvisti. Það var í september 1994 sem greinarhöfundur mætti á sinn fyrsta skátafund í kjallarann í Hvammi, nánar tiltekið hjá ylfingasveitinni Smáfólki og hefur hann verið viðloðandi skátastarf allar götur síðan; setið í stjórn skátafélagsins Klakks frá 2014 og meðlimur í St. Georgsgildinu á Akureyri. Það má einnig, til gamans, fylgja sögunni hér að sumarið 2001 var sá sem þetta ritar í sumarvinnu hjá skátunum, m.a. við slátt og aðrar framkvæmdir við Hvamm, og komst þar á bragðið við að drekka kaffi. Og hversu marga kaffibolla greinarhöfundur drekkur nú, dag hvern, skal ósagt látið hér enda myndu lesendur eflaust margir súpa hveljur við þær upplýsingar...

     Þegar greinarhöfundur var viðloðandi þetta hús á árunum 1994 til 2016 var innra skipulag þess einhvern veginn á þessa leið: Í kjallara voru fjögur flokksherbergi austanmegin (enda aðeins gluggar á þeirri hlið kjallara) auk sveitarherbergis í SV-horni. Sveitarherbergið, sem raunar var aðeins sjónarmun stærra en flokksherbergin, var gluggalaust. Þar voru einnig tvær kompur eða búnaðargeymslur. Á neðri hæð var gengið inn að vestan og tvennar inngöngudyr. Nyrðri inngangur var á útbyggingunni og þar voru anddyri og snyrtingar. Úr anddyrinu var gengið annars vegar inn í samkomusal sem náði að suðurenda hússins, austanmegin. Hins vegar inn á skrifstofu. Úr skrifstofunni var svo gengið inn á gang, þar sem voru stigar á efri hæð og niður í kjallara, smærri forstofa, eldhús og vinnuherbergi foringja syðst í vesturhluta. Í norðurenda rishæðar var húsvarðaríbúð en á „suðurlofti“ fundarherbergi St. Georgsgildisins á Akureyri, Róverstofan eða „Goggaherbergið“. Enda þótt skátastarf færi fram á hinum ýmsu stöðum í hverfum bæjarins var Hvammur ævinlega eins konar miðstöð skátastarfs í bænum. Það var svo árið 2005 sem umsvif Klakks fluttust að mestu að Hömrum, þar sem byggð hafði verið upp stórkostleg útilífsmiðstöð. Varð nú öllu rórra yfir Hvammi, enda þótt einhver starfsemi færi þar fram, einkanlega að vetrum, þegar illfært gat verið á Hamra. En þegar kom fram yfir 2010 var orðið ljóst, að Hvammur gæti ekki fullnægt þörfum Klakks til frambúðar. Kom þar til hvort tveggja, að húsið stóðst ekki öryggiskröfur varðandi brunavarnir og aðgengi auk þess sem mjög dýrar framkvæmdir við viðhald og endurbætur voru orðnar verulega aðkallandi. Árið 2016 flutti Klakkur síðan endanlega úr Hvammi og húsið selt, og var það afhent nýjum eigendum í ársbyrjun 2018.P8250936

     Nýir eigendur Hafnarstrætis 49 breyttu húsinu í einbýlishús og hafa unnið að gagngerum endurbótum hússins að innan jafnt sem utan.  Fyrir vikið er húsið í eins góðri hirðu og best verður á kosið og til sérlegra mikillar prýði á þessum skemmtilega og áberandi stað. Meðfylgjandi eru einmitt nokkrar myndir, sem sýna endurbyggingarferlið sl. ár.  Húsið er að sjálfsögðu aldursfriðað og fær í Húsakönnun 2012 umsögnina að það sé einstakt hús sem lagt er til að hljóti hverfisvernd. Efsta myndin með þessari grein er tekin 15. desember 2022.   Einnig myndir sem sýna Hafnarstræti 49 fyrir og á mismunandi stigi viðgerða (og á öllum árstíðum). Þær eru teknar 15. maí 2016, 7. janúar, 14. október og 17. nóvember 2018 og 25. ágúst 2019 og birtast hér í tímaröð.

Heimildir: 

Án höfundar. 1904. Páll Briem (minningargrein). Í Fjallkonunni. 21. árg. 51. tbl. 52612097 (timarit.is)

Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Fasteignamat 1918. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

Hrefna Hjálmarsdóttir. 2016. Hvammur. Skátaheimilið: Aukablað í Fermingarblað Skátastarf, 33. Árg. 1. tbl. Án blaðsíðutals.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. Handrit Jóns Sveinssonar bæjarstjóra um lóðaúthlutanir og byggingar á Akureyri til ársins 1933. Óútg. varðv. á Hsksjs. Ak.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur

Ýmis manntöl og gögn á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; og ýmsar vefsíður, sjá tengla í texta.


Hús dagsins: Strandgata 49; Gránufélagshúsin, Vélsmiðjan Oddi

Austast og syðst á Oddeyrinni er Oddeyrartangi. Þar eru að mestu leyti athafna- og fyrirtækjasvæði en slík starfsemi á sér 150 ára sögu á þessum slóðum. Það er, allt frá því að verslunarfélagið Gránufélagið festi kaup á Oddeyrinni um 1871 og reisti þar höfuðstöðvar sínar, skömmu síðar. Standa þær höfuðstöðvar enn og munu elstu hús á Oddeyrarsvæðinu (Greinarhöfundi skilst, að sitt sé hvort, Oddeyrin og Tanginn og því er hér talað um Oddeyrarsvæðið. Utar á sama svæði má e.t.v. líka heita álitamál, hvar Gleráreyrar taka við af Oddeyrinni).P9090798

Það er eiginlega óhjákvæmilegt, þegar fjallað er um upprunasögu Gránufélagshúsanna, að minnast aðeins á sögu Gránufélagsins sjálfs og Oddeyrar. Það var í ársbyrjun árið 1869 sem nokkrir bændur, með sr. Arnljót Ólafsson í broddi fylkingar, stofnuðu verslunarfélag sem þeir kölluðu Hið Íslenska hlutafjelag. Ári síðar var nafninu breytt í Gránufélagið. Nafnið var fengið af seglskútu, sem félagið hafði keypt og hugðist nýta til flutninga. Skip þetta, sem var franskt að uppruna og hét Emilie, hafði strandað, var í frekar bágbornu ástandi og því nefnt Grána í háðungarskyni. Þetta „uppnefni“ festist við skipið, félagið og löngu síðar var gata á Eyrinni nefnd eftir því (Gránufélagsgata). Helstu forvígismenn Gránufélagsins voru þeir Tryggvi Gunnarsson og téður sr. Arnljótur Ólafsson og gegndi sá fyrrnefndi stöðu forstjóra.

     Árið 1871 takmarkaðist Akureyrarkaupstaður af suðurhluta þess hverfis, sem nú kallast Innbærinn. Þó hafði Oddeyrin verið lögð undir lögsagnarumdæmi kaupstaðarins árið 1866 en var nokkurs konar hólmlenda. Snarbrattar melbrekkur norður af kaupstaðnum og víðlendur úthagi og holt þar ofan við tilheyrðu býlinu Stóra- Eyrarlandi, sem taldist til Hrafnagilshrepps. Oddeyrin var hluti Stóra Eyrarlands en árið 1850 hafði Björn Jónsson keypt hana af Geirþrúði Thorarensen, þáverandi eiganda jarðarinnar. Þorsteinn Daníelsson smíðameistari á Skipalóni keypti Eyrina af Birni árið 1863. Það var svo árið 1871 sem Gránufélagið keypti stærsta hluta Oddeyrar af Þorsteini. En Þorsteinn hafði áður selt Clausen nokkrum spildu neðst á Oddeyrartanganum og var það land aldrei eign Gránufélagsins, heldur Höepfnersverslunar. Og það var svo árið 1873 sem Gránufélagið reisti höfuðstöðvar sínar vestast og syðst á Oddeyrartanga. Löngu síðar fékk þetta hús, númerið 49 við Strandgötu.

     Strandgata 49 er í raun þrjú sambyggð hús, sem byggð eru í áföngum.Gránufélagshús_byggingasaga Allt er húsið eða húsin byggt úr timbri á lágum steingrunni. Vesturhlutinn, Vestdalseyrarhús, er einlyftur með háu og bröttu risi, veggir timburklæddir með svokölluðu slagþili (heilar fjalir yfir samskeytum veggfjala) og bárujárn á þaki. Sexrúðupóstar í gluggum. Grunnflötur þess mun 16,40x7,23. Miðhlutinn, Mikla bygging, er tvílyftur með háu mansardrisi (brotnu í topp) og snýr stafn þess mót suðri. Hinir hlutarnir snúa austur-vestur og því er miðhlutinn eins og stór kvistur í húsheildinni. Miðhluti er klæddur listaþili (mjóir listar yfir samskeytum veggfjala), bárujárn á þaki og sexrúðupóstar í flestum gluggum. Grunnflötur mun 12,89x7,98. Austurhluti, Skjaldarvíkurstofa, er einlyftur með háu risi og stórum miðjukvisti. Tveir smærri kvistir eru beggja vegna miðjukvists. Krosspóstar eru í flestum gluggum, listaþil á veggjum og bárujárn á veggjum. Grunnflötur þessa hluta er 19,24x7,63.   Alls eru húsin um 49m á lengd og 7,6-8m á breidd. Að austan tengist húsið Kalbaksgötu 1 með steinsteyptri byggingu.

     Húsið mun vera elsta hús sem enn stendur á Oddeyri. Miðað er við að byggingarár hússins sé 1873 þegar vestasti hlutinn var reistur. Þar var raunar um að ræða eldra hús sem var reist á Vestdalseyri við Seyðisfjörð en tekið niður og reist aftur hér. Þar mun húsið hafa verið byggt um 1850 fyrir verslunina, Örum og Wulffs. Þessi hluti hússins hefur því löngum kallast Vestdalseyrarhúsið. Líkast til hefur félagið verið ört vaxandi, því þremur árum síðar reis af grunni annað hús. Og enn stundaði félagið endurnýtingu, því í þetta sinn var tekið niður íbúðarhús, sem stóð í Skjaldarvík í Glæsibæjarhreppi, og það endurreist hér. Fékk austurhúsið þannig nafnið Skjaldarvíkurstofan. Skjaldarvíkurstofan var upprunalega reist árið 1835 fyrir Þórarinn Stefánsson og mun húsið hafa komið tilhöggvið frá Noregi og var því löngum haldið fram, að Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni hafi reist húsið. Það mun hins vegar vera rangt en hið rétta er að Ólafur Briem á Grund hafi byggt það (sbr. Kristmundur Bjarnason, 1961: 255).  Mætti þá e.t.v. með góðum vilja miða aldur Gránufélagshúsanna við upprunalegt byggingarár Skjaldarvíkurstofunnar, það er 1835!(?) Nú ber heimildum raunar ekki saman. Í Húsakönnun um Oddeyri sem unnin var 1990 eru leiddar líkur að því, að Skjaldarvíkurstofan hafi verið reist sem vörugeymsla norðan við húsin og brunnið fyrir 1939 (Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995:48). Umrætt geymsluhús brann var í nóvember 1935 (Jón Hjaltason 2016: 99). Samkvæmt Sögu Akureyrar e. Jón Hjaltason (1994: 217) má vera nokkuð ljóst, að austasti hluti Gránufélagshúsanna sé Skjaldarvíkurstofan. Í ævisögu Þorsteins Daníelssonar á Skipalóni, sem skrifuð er 26 árum eftir bruna vörugeymslunnar, segir einfaldlega: „Fyrrnefnt hús í Skjaldarvík er hins vegar enn til á Oddeyri, því að Gránufélagið keypti það laust eftir 1870 og lét reisa það að nýju þar“ (Kristmundur Daníelsson 1961: 255).  En svo er spurning, þegar hús er tekið niður og sett saman á öðrum stað, hvort miða eigi byggingarár við upprunalega byggingu eða þá síðari. En látum nú staðar numið í þessum vangaveltum, lesendum er sjálfsagt orðið ljóst, að greinarhöfundur er haldinn einhverri óskapa þráhyggju fyrir byggingarárum!

     En það var Jón Chr. Stephánsson timburmeistari, sem sá um uppsetningu Skjaldarvíkurstofunnar á Oddeyrartanga árið 1876. Tveimur árum síðar annaðist hann byggingu þriðja áfanga húsa Gránufélagshúsanna, þ.e. mikillar tvílyftrar byggingar, sem tengdi saman Skjaldarvíkurstofuna og Vestdalseyrarhúsið. Er það eini hluti Gránufélagshúsanna, sem ekki var aðfluttur. Enda þótt þessi húshluti hafi verið feikna stór á mælikvarða ársins 1878 tók byggingin ekki nema rúman mánuð! Hún hófst í júlí en „[...]Eftir miðjan ágúst var drykkjugildi mikið haldið í tilefni þess að nýja húsið var fullreist[...]“ (Jón Hjaltason 1994: 219).  Skjaldarvíkurstofan var íbúðarhús verslunarstjórans, Jakobs V. Havsteen en verslun, skrifstofur og annað slíkt var í Vestdalseyrarhúsinu og Miklu Byggingu. Einhvern tíma á bilinu 1885-87 lét Jakob byggja við Skjaldarvíkurstofuna til austurs og reisa mikinn kvist á húsið. Fékk húsið þá núverandi lag í grófum dráttum. Jakob bjó hins vegar ekki lengi í húsinu eftir þessar framkvæmdir því árið 1888 var honum sagt upp verslunarstjórastöðunni. En svo vildi til, að árið áður hafði hann fengið útmælda lóð spölkorn vestar á Eyrinni. Þar byggði hann ennþá stærra hús og hóf þar verslunarrekstur með meiru.

     Gránufélagið var nokkurs konar alhliða verslunarfélag, sem stundaði auk verslunar margvíslegan inn- og útflutning, m.a. á saltfiski og sauðfé. Flutninginn sá félagið um á eigin skipum, sem urðu fjögur þegar mest var. Þá rak félagið nokkurs konar kjörbúð eða dagvöruverslun í höfuðstöðvum sínum og hafði auk þess útibú á mörgum stöðum um landið. Lengst af, eða til 1893 var Tryggvi Gunnarsson forstjóri félagsins. Eftirmaður hans var Christen Havsteen, sem áður hafði verið útibústjóri á Siglufirði. Christen, fjölskylda hans og vinnufólk voru einmitt skráðir íbúar Gránufélagshússins á Oddeyri árið 1890. Var hann þá verslunarstjóri. Gránufélagið verslaði ekki einungis með varning og fénað heldur einnig land. Sem eigandi Oddeyrar höndlaði félagið með lóðir þar. Það er dálítið merkilegt, að Gránufélagsmenn virðast ekki hafa haft miklar áhyggjur eða gert neinar athugasemdir við það, að menn reistu hús á Eyrinni, svo fremi sem menn gengu formlega frá lóðarkaupum eftir á. Og þar lá heldur ekkert á, t.d. liðu líklega fjögur ár frá því að Snorri Jónsson timburmeistari hóf húsbyggingu að hann fékk lóð hjá Gránufélaginu. Sama gilti um lóð undir steinhús Þorsteins Einarssonar og Björns Jónssonar. Kannski hafa menn samið munnlega og óformlega við Gránufélagið áður en byggingar hófust en gengið frá formsatriðunum eftir á. Bygginganefnd Akureyrar skipti sér lítið af þessum byggingum á Eyrinni, enda lá starfsemi hennar niðri á árunum 1878-84. Af öðrum rekstri Gránufélagsins er það hins vegar að segja, að hann var með miklum ágætum síðustu áratugi 19. aldar en smátt og smátt tók að halla undir fæti m.a. vegna mikilla skulda sem það safnaði, m.a. við danska stórkaupmenn. Árið 1912 yfirtóku Hinar sameinuðu Íslensku Verslanir sem var, þrátt fyrir nafnið, danskt fyrirtæki, allan rekstur Gránufélagsins. Eignuðust sameinuðu verslanirnar einnig allar eignir Gránufélagsins, m.a. húsin við Strandgötu. Hafði félagið skrifstofur hér til ársins 1926 en þá eignaðist  Ragnar Ólafsson stórkaupmaður, áður verslunarstjóri hjá Gránufélaginu, húsin.

     Árið 1902 eru 10 manns skráðir hér til heimilis, Jón NordmannP1230979 verslunarstjóri, fjölskylda og vinnufólk. Þá er húsið nr. 33 við Strandgötu, einfaldlega vegna þess, að þá var ekki búið að byggja fleiri hús við götuna. Árið 1914 flutti í húsið verslunarstjóri Hinna sameinuðu íslensku verslana, Einar Gunnarsson.  Líkt og allar byggingar á Akureyrarsvæðinu var húsið virt til brunabóta árin 1916-17. Árið 1917 eru sex byggingar taldar hér, gripahús og safngryfja auk einlyfts geymsluskúrs. Þær byggingar eru löngu horfnar. Íbúðar- og verslunarhús er einlyft með háu risi á lágum grunni. Á gólfi við framhlið eru 3 stofur og forstofa, við bakhlið 2 stofur, eldhús, búr og geymsla. Í risi voru 7 íbúðarherbergi og geymslur voru. Hér er átt við austasta hlutann. Þrílyft vörugeymsluhús með verslun á jarðhæð en geymslur á lofti og loks vörugeymsluhús, einlyft á lágum steingrunni með háu risi. Veggir og þak timburklæddir, en á hinum tveimur hlutum hússins var járnþak. Þá er einnig nefnt vörugeymsluhús, tvílyft með háu risi, timburklætt með pappaþaki. Á gömlum ljósmyndum má sjá, að hús þetta hefur staðið fáeinum metrum norðan við framhúsin. Þetta hús, sem brann þann , er talið líklegt sem Skjaldarvíkurstofa í Húsakönnun 1995. Aðeins örfáir metrar skildu geymsluhúsið og Gránufélagshúsin að, svo litlu mátti muna, að allar byggingarnar brynnu til kaldra kola. Til allrar lukku var logn þessa sunnudagsnótt, 10. nóvember 1935. Hefði verið t.d. stíf norðanátt er alls óvíst, raunar ólíklegt, að Gránufélagshúsin stæðu enn.  

     Eftir að Ragnar Ólafsson eignaðist húsið, 1926, stundaði Einar Gunnarsson þar áfram sinn eigin verslunarrekstur. Árið 1927 auglýsir Einar m.a. kartöflur, hveiti, hrísgrjón, baunir, sykur og margar tegundir af kexi auk „nauðsynjavara“ til sölu í búð sinni hér. Þá auglýsir hann árið 1934 herbergi til leigu, sérstaklega handa einhleypu fólki. Eitt vekur sérstaka athygli greinarhöfundar varðandi eignarhaldið á húsunum frá 1929. Ragnar Ólafsson lést 1928 og þá er dánarbú hans skráð sem eigandi. Frá 1929 og næstu ár er Einar Gunnarsson sagður eigandi hússins en árið 1938 er húsið hins vegar sagt eign dánarbús Ragnars Ólafssonar. Hvernig sem á því stendur.   Árið 1939 eignast húsið vélsmiðirnir Gunnlaugur S. Jónsson og Jón Þorsteinsson. Það er svo í Sjómannadagsblaðinu 2. júní 1940 að auglýsing birtist í fyrsta sinn frá Vélaverkstæðinu Odda, til húsa að Strandgötu 49.

     Það er skemmst frá því að segja, að Vélsmiðjan Oddi var hér til húsa í ríflega hálfa öld en í ársbyrjun 1993 sameinaðist fyrirtækið Slippstöðinni. Vélsmiðjan hafði gegnum áratugina annast ýmsa smíði, en við sameiningu við Slippstöðina skiptist reksturinn í kælideild, þjónustudeild og veiðarfæradeild. Árið 1993 eignuðust húsið þeir Alfreð Gíslason, valinkunnur handboltakappi, og Sigurður Sigurðarson byggingameistari. Þá hófust endurbætur á húsinu að innan jafnt sem utan, eftir forskrift og leiðbeiningum Finns Birgissonar. Húsið var innréttað fyrir veitingarekstur og árið 1993 hófst rekstur veitinga- og skemmtistaðar undir heitinu „Við Pollinn“. Hefur verið veitingarekstur í húsinu  æ síðan. Á 10. áratugnum var einnig kínverski veitingastaðurinn Bing Dao til húsa þarna og á fyrsta áratug 21. aldar var rekinn í húsinu skemmtistaðurinn Vélsmiðjan, heitið vísun til fyrra hlutverks hússins. Nú er í húsinu veitingastaðurinn Bryggjan og telur greinarhöfundur fulla ástæðu til þess að mæla með þeim stað. Þá er gaman að segja frá því, að nýjasta flugfélag landsmanna, Niceair, er með skrifstofur í húsinu.

     Gránufélagshúsin voru friðlýst í B-flokki árið 1982, með fyrstu húsum hér í bæ sem hlutu friðlýsingu. Það þarf vart að fjölyrða til hversu mikillar prýði þessi elstu hús Oddeyrar eru, sérlegt kennileiti í götumynd Strandgötu. Jafnvel á ferð um Leiruveg, í 2,5 km fjarlægð eru húsin áberandi. Setur miðhlutinn, Mikla bygging, einmitt sérstakan svip á húsin með stafninn að götu og mansardrisið skagandi upp úr þakbrúnum Vestdalseyrarhúss og Skjaldarvíkurstofu. Á þakbrúnum hússins er ljósasería, sem kveikt er á allt árið og dregur hún skemmtilega fram útlínur hússins í myrkrinu.   Þessi staður, suðvestast á Oddeyrartanga er líklega einn fjölfarnasti í bænum yfir sumartímann, því h.u.b. hver einasti farþegi skemmtiferðaskipa, sem hér gengur á land, á hér leið um. Þess má reyndar geta, að fyrir nokkrum misserum komust þau dæmalausu áform nánast á framkvæmdastig, að reist yrðu fjögur sambyggð 8-11 hæða háhýsi, nánast ofan í Gránufélagshúsunum. Meðfylgjandi myndir eru teknar 9. sept. 2018 og 23. jan. 2021. Myndin af líkaninu af Gránu er tekin 30. júlí 2017 á Duus Safnahúsinu í Reykjanesbæ.

P7300686

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér má sjá líkan af Gránu, smíðað af Grími Karlssyni skipstjóra og líkanasmið með meiru.

Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu 

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 1995. Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri og Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Aðgengilegt á vefnum: https://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Jón Hjaltason. 1994. Saga Akureyrar II bindi. Akureyrarbær.

Jón Hjaltason. 2016. Bærinn brennur. Akureyri: Völuspá.

Kristmundur Bjarnason. 1961. Þorsteinn á Skipalóni. Reykjavík: Bókaútgáfa menningarsjóðs.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Des. 2022
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • P6171048
  • IMG_2893
  • IMG_2889
  • IMG_3045
  • P6171046

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.5.): 36
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 468
  • Frá upphafi: 447307

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 294
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband