"Vilt þú ekki bara sjálfur"

Láti maður í ljós það álit, að einhver hús eða byggingar skulu varðveittar (sem ég geri nú æði oft, u.þ.b. í hverri einustu færslu hér cool) fær maður stöku sinnum viðkvæðið: "Vilt þú ekki bara taka það að þér" eða "Ætlar þú að sjá um halda þessu við". O.s.frv. Eins og skilyrðið fyrir því, að hafa skoðun á varðveislu minja eða mannvirkja, sé að viðkomandi hafi sjálfur öll tök á (fjármagn, fagþekkingu, o.fl.) til þess að annast slíkt sjálfur. Með sömu röksemdarfærslu mætti segja, svo dæmi sé tekið, að þeim einum, sem PERSÓNULEGA væru tilbúin að grafa, sprengja eða bora í fjöll, leyfðist að hafa þá skoðun að grafa ætti einhver jarðgöng!

Kannski mætti kalla þetta "Vilt þú ekki bara sjálf(ur)"-rökvilluna laughing


Hús dagsins: Lundur

Bæjarland hins upprunalega Akureyrarkaupstaðar afmarkaðist af smárri eyri undir Búðargili, þ.e. Akureyri, og mjórri landræmu í fjörunni sunnan við. Upp úr miðri 19. öld komst Oddeyrin undir lögsagnarumdæmið og var þar komið heilmikið undirlendi. Í ört stækkandi kaupstað horfðu menn eflaust einnig upp fyrir brúnir brekknanna miklu, en þar voru fleiri ferkílómetrar aflíðandi landsvæðis sem aldeilis mætti nýta til ræktunar og uppbyggingar. Varð það úr, að Akureyrarbær keypti Stóra Eyrarland árið 1893 og lagði undir lögsagnarumdæmi sitt þremur árum síðar. Yfirlýstur tilgangur með kaupunum var einmitt að útvega bæjarbúum svæði til húsbygginga og landbúnaðar (Sbr. Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason og Kristján Sigfússon 1993:662). Þannig komst ysti hluti þessara miklu lenda, sem nú kallast einfaldlega Brekkan, undir bæinn. Löngu síðar hafði bærinn tryggt sér þrjár næstu jarðirnar sunnan við Stóra Eyrarland; Naust, Hamra og Kjarna. Á fyrri hluta 20. aldar voru margar smærri bújarðir og grasbýli byggð á Brekkunni. Eitt þeirra sem mest kvað að, með stærri kúabúum Eyjafjarðarsvæðisins og síðar búfjárræktarstöð, var Lundur. Þar standa enn vegleg bæjarhús sem Jakob Karlsson reisti árið 1925 en mögulega hyllir senn undir endalok þeirra.  P1141030

 

Það var árið 1922 sem þeir Friðgeir H. Berg, Gísli R. Magnússon og téður Jakob Karlsson fengu 20 hektara erfðafestuland á svokölluðum Flóa eða Krossholti. Um var að ræða móa og mýrlendi en þeir félagarnir settu það ekki fyrir sig, því þeir höfðu afnot af hinum annálaða Þúfnabana. Tryllitækið mikla braut á endanum 60 dagsláttur lands í Flóanum, en það munu vera nálega 20 hektarar.  

Á fundi Bygginganefndar þann 26. mars árið 1925 afgreiddi bygginganefnd Akureyrar leyfi Jakobs Karlssonar og meðeiganda hans fyrir húsbyggingu, íbúðar- og peningshúsi á erfðafestulandi þeirra í svonefndu Krossholti. Húsið átti að byggjast úr steini og var „vinkilbygging“; tvær álmur hornréttar hvor á aðra, austurálma 26,45x9m en norðurálma 22,10x9m.  

Fram kemur að húsið byggist samkvæmt framlögðum uppdrætti en sá uppdráttur hefur líkast til ekki varðveist, alltént er hann ekki aðgengilegur á kortagagnagrunni Akureyrar á map.is. En hver teiknaði Lund? Húsunum svipar að mörgu leyti til hugmynda sem Guðjón Samúelsson hafði um íbúðarhús til sveita á þessum árum.  Sótti hann þá fyrirmynd í danska búgarða, og birtast nokkrar slíkar teikningar í bók Péturs H. Ármannssonar; Guðjón Samúelsson húsameistari (2020), sem er sannkallað stórvirki. En er Guðjón Samúelsson hönnuður Lundar? Lundar er ekki getið í bók Péturs, svo því er til að svara, að líklega er það ekki raunin. Það gæti einnig verið, að hönnuður Lundar hafi verið Sveinbjörn Jónsson, löngum kenndur við Ofnasmiðjuna en hann teiknaði mörg hús á Akureyri og nærsveitum á þessum árum. Lundar er þó heldur ekki getið í ævisögu Sveinbjarnar. Önnur tilgáta um hönnuð Lundar gæti verið Tryggvi Jónatansson, en hann teiknaði einnig mörg hús á Akureyri á þessum árum og síðar.  Einnig gæti Jakob Karlsson hafa teiknað húsið sjálfur. Sannast sagna hefur greinarhöfundur ekki glóru um hver teiknaði Lund og eru þær upplýsingar raunar vel þegnar, lumi einhver lesandi á þeim 

Íbúðarhúsið á Lundi er einlyft steinhús með háu , gaflsneiddu risi og smáum kvisti á suðurhlið. Vestur úr húsinu er einlyft viðbygging með flötu þaki. Norðurálma, sem í upphafi var gripahús er ein hæð með háu risi auk tveggja gaflsneiddra kvista til norðurs, Þá er lítill kvistur á norðausturhorni, þar sem eru síðari tíma inngöngudyr, auk þess sem nýlegt „gluggastykki“ er u.þ.b. á miðri framhlið norðurálmu. Allar eru byggingarnar múrhúðaðar og þök bárujárnsklædd. Grunnflötur íbúðarhúss mælist skv. ónákvæmri mælingu á map.is u.þ.b. 9x10m auk viðbyggingar 8x6m en gripahúsálma mælist um 17x9m í N-S og 26x9m í A-V. Í Byggðum Eyjafjarðar 1970 er íbúðarhúsið sagt 653 rúmmetrar að stærð (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson 1973: 247).  

Af þeim þremenningum, Friðgeiri, Gísla og Jakob virðist aðeins sá síðastnefndi hafa lokið við uppbyggingu býlisins. Mögulega hefur hann „keypt þá út“ eða þeir einfaldlega snúið sér að öðru. Framkvæmdir Jakobs Karlssonar uppi á Flóanum vöktu töluverða athygli og mun hann hafa þótt stórhuga. Margir lögðu þar hönd á plóg og mun Jakob hafa fengið mikið lið kvenna og unglinga til að reyta upp lyng og kjarrgróður þar sem hann hugðist rækta upp tún (Sbr. Jón Hjaltason 2004: 134). Kannski var þessi lyngleiðangur farinn sumarið 1925, en 6. ágúst það ár gerði dagblaðið Dagur uppbyggingu og ræktun Jakobs skil: „Landið [Jakobs Karlssonar] er í þann veginn að komast í góða rækt. Lætur Jakob nú í sumar byggja á landinu snoturt íbúðarhús, fjós, hesthús, haughús og hlöðu og súrheysgryfju í hlöðunni. Er öll byggingin úr steini. Er þarna að rísa upp laglegur búgarður, þar sem áður voru óræktarmóar. Mun Jakob hafa þarna sumarbústað“ (Í Degi, án höfundar, 32 tbl. 1927:127). Þarna hefur eflaust verið um að ræða einn veglegasta sumarbústað landsins á þeim tíma, húsið á pari við mörg stærri einbýlishús í kaupstöðum.  P1141035

Jakob Karlsson (1885-1957) hafði þegar þarna var komið sögu stundað verslunarstörf á Akureyri en sinnti ræktunar- og uppbyggingarstarfinu ofan Akureyrar af áhuga. Hann gegndi alla tíð sínum störfum við Eimskipafélagið og síðar Skipaútgerð Ríkisins og var auk þess umboðsmaður Olíuverslunar Íslands. Búskapurinn var þannig aldrei aðalstarf Jakobs, en hann hafði ætíð vinnuhjú. Ekki leið á löngu  uns Jakob, kona hans Kristín Sigurðardóttir, börn þeirra og foreldrar hennar fluttu búferlum úr Hafnarstræti 93 (hús sem kallað var Jerúsalem, brann árið 1945)  í sumarbústaðinn. Var það árið 1928, en þá eru þau í Manntali skráð til heimilis í „Búgarði Jakobs Karlssonar“  í Manntali. Heitið Lundur kemur fyrst fyrir í Manntali árið 1930. Nafnið Lundur mun tilkomið af því, að Kristín var fædd og uppalin að Lundi í Fnjóskadal (Sbr. Jón Hjaltason 2004: 134).  Búgarðurinn að Lundi var annálaður fyrir metnað og myndarskap búrekenda og var á tímabili stærsta kúabú í Eyjafirði (sbr. Steindór Steindórsson 1993: 152). Gefum Tryggva Emilssyni orðið: „[...]Var mér sagt að þúfnabaninn mikli hefði verið þar að verki og allt landið gert að flagi á skömmum tíma, jafnvel einu sumri. Á sama tíma hafist handa við byggingu búgarðs í norðurjaðri túnbreiðunnar, var það íbúðarhús, fjós fyrir milli 20 og 30 nautgripi, hesthús, hlaða og súrheysturnar, allt í stíl erlendra búgarða og var þetta þá ein vandaðasta bygging sem þá hafði risið undir Súlutindum“ (Tryggvi Emilsson 1977: 214). Getur Tryggvi þess einnig, að þau sextán ár sem hann hafi verið í nábýli við Lund hafi verið þar sömu vinnumenn og vinnukonur og þar hafi ríkt fyrirmyndar regla og stundvísi. 

 

Lundur var virtur til brunabóta í desember árið 1925 og þá lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús úr steini, 9,5x9m, einlyft með háu risi á kjallara. Á gólfi (neðri hæð) voru 3 stofur, eldhús, forstofa og gangur. Á lofti voru 3 stofur, eldhús og forstofa og í kjallara 4 geymsluherbergi. Áfast við íbúðarhúsið var gripahús og heyhlaða úr steini, 34,5x9m, einlyft með háu risi á kjallara. Næst íbúðarhúsi var fjós fyrir 23 kýr, þar næst hesthús fyrir 6 hesta og heyhlaða fjærst (nyrst) fyrir 1000 hesta (hestur er forn mælieining fyrir hey, miðaðist við hestburð og jafngildir um 100kg.). Undir fjósi og hesthúsi var safngryfja og stórt pláss fyrir svörð við enda hesthússins. Þá var þess getið að í húsinu væri skólp, vatns- og rafleiðsla. (sbr. Brunabótafélag Íslands 1922-29: 141). Slíkt var aldeilis ekki sjálfgefið í íbúðarhúsum til sveita á þeim tíma, og raunar mörg hús í kaupstöðum án þeirra.  P1141026

Jakob Karlsson og Kristín Sigurðardóttir bjuggu hér myndarbúi allt til ársins 1949. Árið 1940 byggðu þau við íbúðarhúsið, einlyfta byggingu til vesturs. Árin 1949-52 virðist hafa verið tvíbýlt á Lundi en þá eru samtímis búsett þar þau Ásgrímur Stefánsson og Guðrún Adolfsdóttir annars vegar og hins vegar Þorvaldur Jónsson og María Stefánsdóttir. Frá 1952 til 1956 eru aðeins síðarnefndu hjónin skráð ábúendur að Lundi. Árið 1955 keypti Samband Nautgriparæktarfélaga í Eyjafirði, S.N.E., Lund. Einnig keypti sambandið jörðina Rangárvelli, rétt handan Glerár. Kallaðist býlið þá Búfjárræktarstöðin í Lundi. Var hin nýja búfjárræktarstöð formlega tekin í notkun 1. júní 1956 og var bústjóri fyrstu árin Ingólfur Lárusson frá Gröf í Kaupangssveit. Hófst enn á ný uppbygging á Lundi. ÁriP1141029ð 1958 reisti sambandið nýtt fjós fyrir 48 gripi og 2000 hesta heyhlöðu. Með tilkomu nýja fjóssins var eldra fjósið nýtt sem sæðingastöð, en sú hafði fram að því (1959) verið starfrækt að Grísabóli (þar sem nú er verslunarmiðstöðin Kaupangur). Nýbyggingar þessar voru reistar norðan eldri bygginga.  

Árið 1970 taldi bústofninn að Lundi eftirfarandi: 48 kýr, 83 geldneyti, 12 naut til undaneldis og hvorki meira né minna en 488 svín, auk sex hrúta og einnar ær. Svínin voru hýst á Rangárvöllum og nýtti S.N.E. einnig þá jörð. Þannig varð túnstærð Lundarbúsins alls 78,4 hektarar (Ármann, Eggert og Sveinn 1973: 247). En þá var þéttbýlið óðfluga að nálgast stórbýlið að Lundi og farið að þrengja nokkuð að. Árið 1974 lauk búrekstri að Lundi og ári síðar seldi nautgriparæktarsambandið öll húsin að Lundi. Áfram var búið í íbúðarhúsinu og hefur verið búið þar alla tíð síðan, munu þar nú tvær íbúðir. Í fjósunum voru síðar innréttuð verslunarrými. Fjósið og hlaðan frá 1958 standa enn og eru þar nú verslunarrými og samkomusalur, auk höfuðstöðvar og verslunar Rauða Krossins á Akureyri. Þar voru áður m.a. smíðaverkstæði, vídeóleigur og skyndibitastaðir  áratugina fyrir og um aldamótin.  

Áratug eftir að síðustu nautgripirnir yfirgáfu gamla fjósið á Lundi, eða 1984, komst húsnæðið í eigu Hjálparsveitar skáta. Keyptu þeir húshlutann af Snorra Friðleifssyni, byggingameistara, sem hafði innréttað þar smíðaverkstæði. Hann hafði áður selt skátunum húsnæði í Kaldbaksgötu á Oddeyri.  Þar innréttaði hjálparsveitin aðsetur sitt, fundaraðstöðu og stjórnstöð í austurálmu og vélageymslu í vesturálmu. Voru þær breytingar gerðar eftir teikningum Birgis Ágústssonar. Það fylgir sögunni, að með fyrstu verkum Hjálparsveitarmanna, áður en endurbyggingin hófst, var að moka út nokkrum tonnum af kúaskít, 15-20 ára gömlum, eða frá síðustu árum Búfjárræktarstöðvarinnar. Nýtt húsnæði var formlega tekið í notkun í nóvember 1984 og var Hjálparsveit skáta þarna til húsa allt til ársins 2000. Hefur síðan ýmis starfsemi verið í þessu rými. P1141048 

Lundur og nærumhverfi hans eru til mikillar prýði í umhverfinu og í ágætri hirðu. Sunnan hússins er stór lóð og þar gróskumikil tré. Spölkorn (um 300m) suðvestan Lundar, nokkurn veginn á milli lóðar Mjólkursamlagsins og götunnar Daggarlundar rís Hestklettur, um 20 metra hár klettahamar, upp úr landinu. Er klettur þessi að mestu skógi klæddur og er þar m.a. um að ræða tré, sem Jakob Karlsson gróðursetti á sínum tíma. Eru þar m.a. reyni- og birkitré og þau elstu væntanlega meira en 75-80 ára gömul. Þegar greinarhöfundur fór í ljósmyndaleiðangur að Lundi um daginn brá hann sér einnig á Hestklett. Skógurinn var auðvitað í vetrarham, um miðjan janúar, en fyrir vikið sást kletturinn betur.  P1141038

Greinarhöfundur veit ekki til þess, að Lundur hafi varðveislugildi, en sögulegt gildi hans hlýtur að vera allnokkurt. Gömul býli í þéttbýli eru í eðli sínu merkar byggingar og setja oftar en ekki skemmtilegan svip á umhverfi sitt. Þá fylgja þeim oftar en ekki miklar og gróskumiklar lóðir. Greinarhöfundur hefur ítrekað lýst þeirri skoðun, að fyrrum býli í þéttbýli eigi að vera friðuð og er Lundur þar engin undantekning. Þá einkum og sér í lagi vegna sérstæðrar og áhugaverðrar sögu hans auk þeirrar staðreyndar, að nærliggjandi götur eru nefndar eftir honum. Þar má m.a. nefna Hrísalund, Tjarnarlund, Heiðarlund, Hjallalund og Furulund. Raunar má segja að hverfið dragi nafn sitt af hinu fyrrum stórbýli; sbr. Lundahverfi. En auðvitað hefur höfundur einnig skilning á því og veit, að ekki verða allar byggingar friðaðar eða varðveittar. Líkt og hjá Jakobi Karlssyni og félögum fyrir einni öld og Sambandi Nautgriparæktarfélaga þrjátíu árum síðar er nú enn einu sinni fyrirhuguð uppbygging á Lundi. Uppi eru nefnilega áform um byggingu tveggja fjölbýlishúsa á lóðinni og Lundi þá gert að víkja. Gangi það eftir, munu vörpuleg sex hæða stórhýsi leysa af hólmi „eina vönduðustu byggingu“ sem á sinni tíð „hafði risið undir Súlutindum“. (Tryggvi Emilsson 1977: 214)  

Myndirnar eru teknar þann 14. janúar 2023. 

 

Heimildir: Ármann Dalmannson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II bindi. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar  

Brunabótafélag Íslands. Virðingabók fyrir Akureyrarkaupstað 1922-29. Óprentað óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_3_virdingabok_1922_1929?fr=sMTZmNDQzODI5ODU 

Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 564, 26. mars 1925. Óprentað óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu 

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi.  

Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. II bindi. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar. 

Jón Hjaltason. 2004. Saga Akureyrar IV bindi. Akureyrarbær. 

Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.  

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík. Örn og Örlygur 

Tryggvi Emilsson. 1977. Baráttan um brauðið. Reykjavík: Mál og menning.  

Manntöl á manntal.is og greinar á timarit.is; sjá tengla í texta 

Umreikningur á hinum fornu mælieiningum landbúnaðarins, hestum og dagsláttum fengin af Vísindavefnum, sjá tengla í texta. 


Lund ætti frekar að friða!

Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, hef ég lýst því áliti mínu, að fyrrum býli eigi að njóta friðunar. Hvað þá ef um ræðir fyrrum stórbýli og nokkurs konar herragarð, sem umlykjandi hverfi dregur nafn sitt af! (sbr. LUNDAhverfi). Lundarhúsin eru sérlega glæstar byggingar og til mikillar prýði í umhverfi sínu. Ojú, ég veit að það er skortur á íbúðarhúsnæði og að núverandi nýtingarhlutfall á Lundarlóð er eflaust lélegt. Það kemur nefnilega fyrir, að okkur sem viljum varðveita eldri hús og byggðir, sé borið það á brýn, að vera á móti uppbyggingu nýrra íbúða og húsnæðis og framþróun byggða. En lóðin kringum Lund er víðlend, og það HLÝTUR AÐ VERA HÆGT hægt að byggja eitthvað smærra að grunnfleti, eða kannski bara eitt fjölbýlishús, í stað tveggja, án þess að slátra hinum tæplega aldargömlu byggingum. Þá er eflaust hægt að innrétta nokkrar íbúðir í Lundi sjálfum, íbúðarhúsinu jafnt sem fjósinu. Auðvitað er þetta líka spurning um kostnað og hagkvæmni en þau sjónarmið ein og sér mega ekki valta yfir öll önnur.Varðveisla menningarminja skiptir líka máli.

Ég tók Lund fyrir á þessari síðu fyrir áratug síðan, sjá hér:

https://arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/entry/1280679/

Lundur

 

 

 


mbl.is Lagt til að Lundur verði rifinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús dagsins: Hríseyjargata 1; Steinöld

Syðsta húsið við vestanverða Hríseyjargötu lætur kannski ekki mikið yfir sér, fremur en gatan yfirleitt, sem er skipuð lágreistum og snotrum húsum. En eftir því sem greinarhöfundur kemst næst, er hér um að ræða elsta steinsteypuhús Akureyrar. Fyrsta steinsteypta hús landsins mun vera íbúðarhúsið að Sveinatungu í Borgarfirði, byggt 1895. Hið steinsteypta hús við Hríseyjargötu 1 er aðeins átta árum yngra. Það er byggt 1903 og á því 120 ára stórafmæli á hinu nýhafna ári.

     Hríseyjargötu 1 reisti Árni Pétursson árið 1903.PC211027 Í júní það ár bókar bygginganefnd að hún sé „[...]að mæla út hússtæði fyrir hús það, er Árni kaupmaður Pétursson ætlar að reisa á baklóð sinni, með austurhlið að hinni fyrirhuguðu götu, „parallellt“ við húsalínu Grundargötu og 100 álnum (63m) frá henni. Húsið að stærð 10x10 álnir eða 6,3,x6,3m“ (Bygg.nefnd. Ak. nr. 250: 1903).   Fyrirhuguð gata var auðvitað Hríseyjargata en það nafn kom löngu síðar og framan af taldist þetta hús Strandgata 39b. Árni Pétursson kaupmaður var búsettur í Strandgötu 39 og stundaði þar verslunarrekstur og var húsið reist sem bakhús á þeirri lóð.

     Ekki  minnist bygginganefndin á byggingarefni en Árni reisti húsið úr steinsteypu. Það var ekki algengt á þessum árum, að heilu húsin væru steypt, það voru fyrst og fremst sökklar og kjallarar- og auðvitað skorsteinar en lítið um það, að hús væru steypt. Vegna þessarar framandi byggingargerðar gekk húsið undir nafninu Steinöld.  Það var raunar ekki fyrr en 1-2 áratugum síðar, að steinsteypan varð almenn í byggingu íbúðarhúsa. Fyrsta steinsteypuhús á Íslandi mun hafa verið íbúðarhúsið að Sveinatungu í ofanverðum Borgarfirði, byggt 1895, átta árum á undan Hríseyjargötu 1. Steinöld hlýtur því að vera í hópi elstu steinsteypuhúsa á landinu! Athuga ber, að hér er gerður greinarmunur á steinhúsum og steinsteypuhúsum, því steinhús geta jú einnig verið hlaðin. Um langt skeið höfðu verið reist steinhús hérlendis, m.a. hlaðin úr blágrýti, en sú byggingargerð náði aldrei almennri útbreiðslu. Eitt slíkt hús stendur enn á Akureyri, við Norðurgötu 17 á Oddeyri.

     Hríseyjargata 1 er tvílyft steinhús með háu risi. Á bakhlið er útbygging; stigahús. Krosspóstar eru í gluggum efri hæðar en þverpóstar á neðri, bárujárn er á þaki og veggir múrsléttaðir. Grunnflötur hússins mælist um 6,3x13m en bakbygging er 2,50x3,50m.  PC211029

     Árni Pétursson var fæddur að Oddsstöðum á Sléttu árið 1862 og var því jafnaldri Akureyrarkaupstaðar. En til þess kaupstaðar fluttist hann 12 ára gamall og bjó þar hjá frænda sínum, Jósef Jóhannessyni, járnsmið. Árni nam verslunarfræði í Kaupmannahöfn einn vetur og hóf eftir það verslunarstörf hjá J.V. Havsteen á Oddeyri. Starfaði hann þar í fjögur ár en árið 1888 hóf Árni eigin verslunarrekstur. E.t.v. verslaði hann fyrstu árin í húsi Jósefs frænda síns, þar sem hann var búsettur árið 1890 skv. manntali. Hús Jósefs stóð þar sem nú er Strandgata 31 en brann árið 1908. En árið 1894 reisti Árni Pétursson hús á lóðinni, sem nú er Strandgata 39, þar sem hann bjó og verslaði. Verslaði hann einna helst með áfengi og smávöru. Og það var svo sumarið 1903 sem Árni reisti bakhús á lóð sinni. Sem fyrr segir, var það reist sem geymsluhús og var ein hæð með lágu risi. Var það með fyrstu steinsteypuhúsum Akureyrarkaupstaðar, ef ekki það fyrsta, en um það verður ekki fullyrt hér. Alltént er það líkast til það elsta slíkrar gerðar, sem nú stendur.

     Ekki naut Árni Pétursson þessa steinhúss lengi, því hann lést 2. ágúst 1904, aðeins 42 ára að aldri. Ráðskona hans, Kristín Árnadóttir, mun hafa erft húseignir hans og átt um áratugaskeið. Lesendur kunna e.t.v. að velta fyrir sér hvort, hún hafi verið dóttir Árna Péturssonar, en það var hún ekki. Kristín, sem hét fullu nafni Guðrún Kristín Árnadóttir, var fædd árið 1858, líkast til á Völlum í Saurbæjarhreppi, og uppalin þar og í Rauðhúsum í sömu sveit. Mjög fljótlega eftir að Kristín ráðskona eignaðist húsin,  innréttaði hún íbúðarrými í steinhúsinu og leigði út. Í Manntali 1906 virðist fyrst getið íbúa í Steinhúsi, Strandgötu og það eru þeir Benedikt Sveinbjarnarson, lausamaður frá Hrafnagili og Jón Jónsson frá Króksstöðum.  Sjálf bjó Kristín Árnadóttir áfram í Strandgötu 39. Þar brann árið 1907 en Kristín reisti nýtt hús, sem enn stendur. (Kannski hefði bakhúsið brunnið líka, hefði það ekki verið steinsteypt?)

     Árið 1925 byggði Kristín Árnadóttir hæð ofan á Hríseyjargötu 1. Þess má geta, að í bókunum Bygginganefndar er húsið sagt nr.1 við Hríseyjargötu eða „svonefnd Steinöld“. Breytingarnar sem Kristín sóttu um fólust í því, að bæta hæð ofan á húsið, lækka (?) risið ofan í 2m og breyta gluggaskipan. Samþykki nefndarinnar var háð ýmsum skilyrðum. M.a. mátti þakskegg ekki vera minna en 15 cm, eldvarnarveggur skyldi vera á norðurhlið og gluggi á götuhlið, norðan við útidyr skyldi í sömu hæð og aðrir gluggar hússins. Við þessar breytingar fékk húsið í grófum dráttum það útlit, sem það enn hefur. Stigabygging á bakhlið kom þó ekki fyrr en löngu síðar. Í bókun Bygginganefndar frá 1925 er vísað í fyrirliggjandi uppdrátt en ekki kemur fram hver teiknaði. Uppdráttur þessi er ekki aðgengilegur í gagnagrunni map.is/akureyri, hefur e.t.v. ekki varðveist.  Árið 1924 búa sex manns í húsinu, í tveimur íbúðum. En ári síðar, þegar búið var bæta hæð ofan á húsið, eru íbúarnir hins vegar sautján og íbúðirnar orðnar fjórar.  Árið 1961 var byggð við húsið stigabygging og gerður þar sér inngangur á efri hæð. Teikningar að þeirri byggingu gerði Guðmundur Gunnarsson.

     Í Húsakönnun 1995 segir um staðsetningu hússins að það standi „[...]frekar illa undir háum húsagafli við Strandgötu“ (Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995:96). En húsið blasir þó engu að síður við þeim, sem leið eiga vestur eftir Strandgötunni frá Oddeyrartanga, og þá leið fer nánast hver einasta farþegi skemmtiferðaskipa, sem heimsækja Akureyri. Og fjölmargir aðrir. Að öllum líkindum er Hríseyjargata 1 eða Steinöld eitt elsta, ef ekki allra elsta, steinsteypuhús Akureyrar og ætti að njóta friðunar í samræmi við það. Það er nú tilfellið, að á Oddeyrinni leynast margar perlur, sögufrægar jafnt sem stórmerkilegar í byggingasögulegu tilliti. Stundum heyrast því miður þær raddir, að byggðin á Eyrinni sé að mestu leyti lágkúruleg og ómerkileg; bara kofar eða hreysi sem eigi ekkert annað skilið en stórfellt niðurrif; og helst skuli reisa nýmóðins stórhýsi í staðinn. Hreint út sagt ömurlegt og alrangt en auðvitað á hver maður rétt á sínum skoðunum. Í Húsakönnun 2020 hlýtur húsið miðlungs varðveislugildi en það er að sjálfsögðu aldursfriðað skv. hinni svokallaðri 100 ára reglu. Húsið sem er einfalt og látlaust er í góðri hirðu og sómir sér vel í skemmtilegri götumynd. Nú munu tvær íbúðir í húsinu.  Myndirnar eru teknar á vetrarsólstöðum, 21. des. 2022.

Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 1995. Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri og Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Aðgengilegt á vefnum: https://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-1921. Fundur nr. 250, 24. júní 1903. Fundargerðir 1921-35. Fundur nr. 565, 6. apríl 1925. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.


Húsaannáll 2022

Kannski má segja, að ákveðin kúvending hafi orðið í umfjöllunum mínum um söguágrip eldri húsa á Akureyri og nágrenni á árinu 2022. Sá sem skoðar þessa vefsíðu aftur að árdögum sér væntanlega, að ólíku er saman að jafna, hvort um ræðir pistla, skrifaða árin 2009 eða ´10 eða árin 2021-22. Kemur þar ýmislegt til. Ég hafði löngum lofað sjálfum mér því, að ef ég væri búinn að fjalla um hús hér, þá væri ég búinn að því. Það yrði óvinnandi vegur, að ætla að endurrita pistla um húsin eða uppfæra hina eldri. En að því kom, að ég gat ekki setið á mér lengur hvað þetta varðaði. Ég var nokkuð spurður að því, hvort ég væri búinn að taka fyrir hin og þessi hús, sem var yfirleitt tilfellið. Hins vegar þóttu mér þau skrif næsta hjákátleg, í samanburði við þau sem hafa tíðkast hér sl. 4-5 ár, svo mér fannst varla hægt að benda á þau. Ekki það, að ég skammist mín fyrir þessar fyrri umfjallanir en þær mega heita börn síns tíma. Þá hefur mér, eins og gefur að skilja, áskotnast hinar ýmsu heimildir til viðbótar á þessum 10-13 árum, stundum leiðréttingar á einhverju sem var rangt, auk margs sem mig langar að koma á framfæri. Þá var og mikil hvatning til þessara endurskrifa, að ég fór í samstarf við akureyri.net og þar birtast flestir þeirra nýju pistla, sem ég birti hér.  Þar hef ég og fengið góðar viðtökur og það eru þær, sem og vitneskjan um það, að fjöldi fólks hefur að þessum skrifum mínum gagn og gaman sem ævinlega hvetja mig áfram í þessari vegferð. Og hún mun svo sannarlega halda áfram á komandi ári og árum. Það mun að öllu jöfnu líða lengri tími á milli pistlanna en það kemur einfaldlega til af því, að lengri umfjöllun er lengur í smíðum. 

Fyrri hluti ársins var að mestu helgaður húsum við Eyrarveg á Oddeyrinni, auk þess sem ég brá mér "fram eftir" og fjallaði um fyrrum félagsheimili hreppana, sem saman mynda Eyjafjarðarsveit. Það var svo um miðjan júní, sem ég tók upp á því, að endurskrifa um eldri hús bæjarins, lengri og ítarlegri pistla og þau hús tekin fyrir af svo að segja af handahófi, líkt og í upphafi þessarar vefsíðu. 

JANúAR

12. jan. Eyrarvegur 1-3  (1939)

16. jan. Eyrarvegur 2      (1945)

20. jan. Eyrarvegur 2a    (1950)

29. jan. Eyrarvegur 4      (1947)

FEBRúAR

3. feb. Eyrarvegur 5-7  (1939)

7. feb. Eyrarvegur 5a-7a (1947)

10. feb. Eyrarvegur 6      (1942)

13. feb. Eyrarvegur 8      (1942)

17. feb. Eyrarvegur 9-11  (1943)

20. feb. Eyrarvegur 10    (1942)

25. feb. Eyrarvegur 12    (1943)

MARS

8. mars Eyrarvegur 13-15  (1943)

14. mars Eyrarvegur 14    (1943)

22. mars Eyrarvegur 16    (1943)

27. mars Eyrarvegur 17-19  (1942

31. mars Freyvangur (fyrrum félagsheimili Öngulsstaðahrepps) (1957)

APRÍL

6. apríl Eyrarvegur 18    (1943)

12. apríl Eyrarvegur 20    (1943)

19. apríl Eyrarvegur 21-23  (1942)

27. apríl Eyrarvegur 25-27   (1947)

30. apríl Eyrarvegur 25a-27  (1947)

MAÍ

4. maí Laugarborg (fyrrum félagsheimili Hrafnagilshrepps) (1959)

10. maí Eyrarvegur 29    (1943)

18. maí Þinghúsið á Hrafnagili (1924)

21. maí Eyrarvegur 31    (1945)

27. maí Eyrarvegur 33    (1954)

30. maí Sólgarður (fyrrum félagsheimili Saurbæjarhrepps) (1934)

JÚNÍ

3. júní Eyrarvegur 35    (1943)

10. júní Eyrarvegur 37    (1949)

15. júní Strandgata 7 (1907)

25. júní Norðurgata 17; Gamla prentsmiðjan, Steinhúsið (1880)

JÚLÍ

1. júlí Norðurgata 2 (1897)

10. júlí Norðurgata 11 (1880)

21. júlí Strandgata 23 (1906)

30. júlí Lækjargata 6 (1886)

ÁGúST

8. ágúst Lundargata 2 (1879)

18. ágúst Hafnarstræti 18; Thuliniusarhús (1902)

SEPTEMBER

2. sept. Lundargata 15 (1898)

17. sept. Lækjargata 2b (1871)

30. sept. Lækjargata 4 (1870)

OKTÓBER

12. okt. Lækjargata 2 (1894)

23. okt. Lækjargata 2a (1840)

NóVEMBER 

7. nóv. Aðalstræti 6 (1851)

18. nóv. Strandgata 27 (1876)

DESEMBER

1. des. Strandgata 49; Gránufélagshúsin (1873)

15. des. Hafnarstræti 49 (1895)

 

Á árinu 2022 tók ég fyrir 45 hús á aldrinum 63-182 ára. Yngst var Laugarborg í Eyjafjarðarsveit, byggð 1959 en elst var Lækjargata 2a, Frökenarhús, annað elsta hús Akureyrar, byggt 1840. Svo skemmtilega vill til, að meðaltal byggingarára er 1922 svo "Hús dagsins" á árinu 2022, voru að meðaltali nákvæmlega 100 ára gömul. 

Að sjálfsögðu eru á þessum útreikningum miklir fyrirvarar, enda tölfræði þessi fyrst og fremst hugsuð til gamans. Þar ber fyrst og fremst að nefna, að oft eru byggingarár húsa frá 19. öld nokkuð á reiki og getur skeikað um einhver ár. Stundum er einfaldlega ekki hægt að slá því föstu, vegna skorts á skýrum heimildum. Og hvenær telst hús byggt ? Já, þið lásuð rétt; þetta getur verið vafa undirorpið. Eitt slíkt dæmi eru Gránufélagshúsin. Hér að ofan og almennt er miðað við að byggingarár þeirra sé 1873. En sá hluti hússins, sem reistur var þá, er úr viðum húss sem reist var á Vestdalseyri árið 1850. Húsið var vissulega tekið niður og nýtt hús byggt úr viðunum. Annar hluti hússins, sem reistur var á þessum stað árið 1876 er að öllum líkindum hús sem byggt var í Skjaldarvík árið 1835. Það mun hafa verið tekið niður og reist aftur í nokkurn veginn sömu mynd. Hvert er þá raunverulegt byggingarár Gránufélagshúsanna? Er það 1835, 1850 eða 1873? (Eða e.t.v. 1878, þegar miðhlutinn var reistur og húsið fékk í grófum dráttum núverandi lag. Látum það bara liggja milli hluta hér...en ef við miðum við byggingarár Gránufélagshússins við byggingu Skjaldarvíkurhússins á sínum upprunalega stað telst húsið það annað elsta á Akureyrar (eða deilir 2.-3. sætinu með Gamla Spítalanum). 

Á nýju ári hyggst ég halda uppteknum hætti og birta nýja og ítarlegri pistla um eldri hús Akureyrar og e.t.v. víðar. Kannski tek ég einhverjar yngri götur fyrir með skipulögðum hætti. Það kemur bara í ljós...


Nýárskveðja 2023

Óska lesendum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir það liðna.laughing

 

Þakka innlit, athugasemdir og annað slíkt á þessari síðu á liðnum ári - og árum.

Svona blasti "nýárs blessuð sól" við á Miðnesheiði um hádegisbil í dag. cool

P1011051


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2023
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 28
  • Sl. sólarhring: 45
  • Sl. viku: 613
  • Frá upphafi: 420815

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 489
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband