30.7.2022 | 09:16
Hús dagsins: Lækjargata 6
Laugardagsmorguninn 17. janúar 1998 var sá er þetta ritar, þá 12 ára, staddur í útilegu í Fálkafelli með skátasveit sinni, Örnum. Af einhverjum ástæðum var útvarp með í för, en í Arnaútilegum var jafnan strangur bannlisti og á honum voru m.a. öll raftæki nema armbandsúr á hönd. Vorum við að týnast út í morgunleikfimi og fána í fínu veðri, heiðríkju, algjöru logni en brunagaddi, 18 stiga frosti. Með þeim, sem síðast mættu út barst tilkynning, komin úr útvarpinu: Það brann hús á Akureyri í nótt. Eitthvað númer 6- býr einhver hér í númer 6, eitthvað. Þegar inn úr fánaathöfn var komið bergmálaði úr sama útvarpstæki sorgarsöngur Erics Clapton Tears in heaven, og einhvern veginn setti greinarhöfundur það lagaval í samhengi við, að einhver hefði farist. (Sem var til allrar hamingju ekki raunin). Um kvöldið safnaðist mannskapurinn saman á svefnlofti Fálkafells og heyrði kvöldfréttir Stöðvar 2 á Bylgjunni og þá upplýstist hvaða hús átti í hlut: Lækjargata 6.
Lækjargata 6 stendur neðst í Búðargili, á horninu við Spítalaveg. Húsið reistu þeir Þórður Thorarensen gullsmiður og Jakob Gíslason söðlasmiður árið 1886, en þeir tóku við lóðinni og meðfylgjandi réttindum af Páli Jónssyni. Páll fékk vorið 1885 útmælda lóð sunnan við lækinn, 10 álnir frá hlöðu sýslumannsins (Lækjargötu 4, síðar breytt í íbúðarhús), 2 álnir frá götu og í beinni stefnu með götunni. Ekki virðast fylgja frekari lýsingar eða byggingarleyfi en húsið var tvær hæðir og ris og steypt í binding. Það er, í stað reiðings eða spóna var grind hússins fyllt með kalksteypu og síðan klætt utan með láréttum timburborðum. Var þetta í samkvæmt danskri byggingahefð, en frábrugðið að því leyti, að hér var notuð steypa en í Danmörku notuðu menn múrsteina í bindingsverkið.
Lækjargata 6 er tvílyft timburhús með háu risi og stendur það á lágum steyptum grunni. Á vesturhlið er útskot eða forstofubygging á einni hæð en ofan á henni veglegur pallur og tröppur upp á hann. Húsið er klætt lóðréttum panel eða vatnsklæðningu, bárujárn á þaki og sexrúðupóstar í gluggum. Húsið er í raun sem nýtt þar eð það var endurbyggt, nánast frá grunni, fyrir rúmum tveimur áratugum.
Jakob Gíslason (1858-1923) söðlasmiður og bóndi frá Neðri-Mýrum Í Refasveit, A-Hún. hefur líkast til ekki búið lengi í húsinu. Hann er a.m.k. ekki skráður hér til heimilis í Manntali 1890. Þá var húsunum á Akureyri einfaldlega gefin númer, og var húsið skráð nr. 25. Þá býr hér téður Páll Jónsson, sem síðar tók upp nafnið Árdal, skáld og barnakennari og Þórður Stefánsson Thorarensen gullsmiður. Þórður byggði árið 1898 húsið Aðalstræti 13 og bjó þar síðan. Um aldamót er eigandi efri hæðar og rishæðar Magnús Blöndal. Gekk húsið þá undir nafninu Blöndalshús, en Magnús átti hins vegar ekki allt húsið, neðri hæðina átti frú Þóra Kristjánsdóttir. Í Manntali 1901 er húsið raunar ennþá kallað Þórðarhús, eftir upprunalegum eiganda. Þá leigja hjá Þóru, Oddur Björnsson prentari og Ingibjörg Benjamínsdóttir ásamt þremur börnum. Eitt þeirra var Ragnheiður, sem löngu síðar var til viðtals í bókaflokknum Aldnir hafa orðið. Segir hún svo frá aðstæðum í Lækjargötu 6 veturinn 1901-02: Íbúðin okkar í Lækjargötu 6, sem var hálf hæðin á móti eigandanum, frú Þóru Kristjánsdóttur frá Espihóli í Eyjafirði, var svo lítil, að þar var rétt hægt að sofa og aðeins eldhús með frú Þóru (Ragnheiður O. Björnsson (Erlingur Davíðsson) 1972: 192). Þess má geta að árið 1901 bjuggu aðeins 15 manns í húsinu, tuttugu árum síðar voru íbúarnir meira en tvöfalt fleiri! Þennan vetur varð einhver mesti stórbruni Akureyrarsögunnar, þegar Hótel Akureyri við Aðalstræti og mörg fleiri hús brunnu til grunna á einni nóttu. Blöndalshús var eitt þeirra húsa sem talið var í hættu. Grípum aftur niður í frásögn Ragnheiðar: Sunnanstormurinn æsti eldinn og eldtungurnar gengu alveg yfir Blöndalshúsið öðru hverju. Allt var borið út úr húsinu hjá okkur, því að húsið var talið í svo mikilli hættu í þessum ægilega eldsvoða. En það varð þó ekki og ekkert brann hjá okkur (Ragnheiður O. Björnsson (Erlingur Davíðsson) 1972: 194). Það fylgir einnig sögunni, að það sem borið var út skilaði sér misjafnlega til baka. Veggmyndir hurfu, en sáust síðar uppi á veggjum víða um bæinn en komu þó í leitirnar smám saman. Þá átti fjölskyldan fulla tunnu af sláturkeppum, sem borin var út; morguninn eftir stóð tunnan óhreyfð en sláturkeppirnir horfnir!
Árið 1916 var húsið brunabótavirt og þá sagt tvílyft íbúðarhús úr timbri á lágum steingrunni, 9,4 x 7,5m að grunnfleti. Einnig er húsið sagt 8,16m hátt og á því 25 gluggar. Veggir eru timburklæddir og þak járnklætt. Innra skipulagi hússins árið 1916 er lýst þannig orðrétt, [...]undir framhlið eru í gólfi 2 stofur og forstofa, við bakhlið 2 stofur og eldhús. Á lofti við framhlið 3 stofur, við bakhlið 1 herbergi 2 eldhús og gangur. Kjallari afþiljaður í 4 hólf. Efstaloft 2 íbúðarstofur og 4 geimsluherb. [svo] (Brunabótafélag Íslands 1916, nr. 59). Gólf merkir jarðhæð, loft er önnur hæð og efstaloft rishæð. Eigandi er Henrik Schiöth. Þetta ár, 1916, eru 17 manns búsettir í Lækjargötu 6, en árið 1920 er íbúafjöldi Lækjargötu 6, 32 manns. Þeirra á meðal eru Jón Emil Tómasson ökumaður og Sigurlína Sigurgeirsdóttir kona hans ásamt sjö börnum. Þau munu hafa flutt í húsið árið 1914. Jón var S-Þingeyingur, uppalinn m.a. á Hróarsstöðum í Fnjóskadal en Sigurlína var frá Öngulsstöðum í Eyjafirði. Jón Tómasson lést árið 1922 en Sigurlína bjó hér áfram um áratugaskeið og síðar börn og barnabörn. Afkomendur Jóns Tómassonar og Sigurlínu voru, og eru, kallaðir Tommarar og húsið löngum nefnt Tommhúsið eftir þeim. Margir hafa átt, og búið í húsinu á síðari hluta 20. aldar og voru jafnan tvær smáar íbúðir á neðri hæð og ein íbúð á efri hæð í risi.
Húsið slapp í bæjarbrunanum í desember 1901 en tæpri öld síðar, í ársbyrjun 1998 skemmdist það í bruna. Hafði bærinn þá fest kaup á því til niðurrifs, en um áratugi hafði staðið til að húsið viki, til þess að greiða fyrir umferð um Spítalaveg og Lækjargötu. Brött gatan og hornið þrönga, með byrgða sýn til beggja átta, hafði löngum verið vegfarendum óþægur ljár í þúfu. En við brunann kom í ljós hin fágæta byggingargerð hússins, þ.e. steypa í binding og ekki var talið forsvaranlegt að húsið yrði rifið. Varð húsið nú mikið deilumál innan bæjarins næstu misseri, margir vildu jú losna við húsið. Húsfriðunarnefnd lagðist eindregið gegn niðurrifinu og svo fór, að bæjarstjórn samþykkti að hætta við þau áform, eða a.m.k. slá þeim á frest. Sá sem þetta ritar fylgdist spenntur með fréttum af málinu, m.a. á akureyrsku sjónvarpsstöðinni Aksjón. Þar var sýnt frá bæjarstjórnarfundum og minnist greinarhöfundur þess, að tillaga kæmi, um að húsið yrði selt til endurbyggingar, á eina krónu. Mörg stór orð voru látin falla og sagði bæjarfulltrúi nokkur m.a. að sér þætti húsið ljótt! Á þeirri stöð var einnig sýndur sérstakur heimildaþáttur um Lækjargötu 6 og margar greinar skrifaðar í blöðin. Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri framkvæmdi meira að segja skoðanakönnun meðal bæjarbúa, hvort þeir vildu að húsið stæði eða yrði rifið. Aðeins 11 % bæjarbúa vildu að húsið stæði áfram en 69 % þeirra vildu að það burt. Einhverjar hugmyndir komu fram, um að hnika húsinu til um fáeina metra, til að greiða fyrir umferð. Á meðan bæjarbúar, bæjarstjórn og húsfriðunarnefnd deildu um húsið stóð húsið á sínum stað og beið örlaga sinna.
Sumarið 1999 keyptu þau Guðrún Jónsdóttir og Sölvi Ingólfsson Lækjargötu 6 og hófu þau gagngerar endurbætur á húsinu, sem var í raun endurbyggt frá grunni. Ekki var húsið fært, en það var hins vegar hækkað um 40cm og kjallari dýpkaður. Teikningarnar að endurbyggðu húsinu gerði Finnur Birgisson. Endurbæturnar tóku mið af upprunalegu útliti hússins og skemmst frá því, að segja, að þær heppnuðust einstaklega vel og eiga framangreindir aðilar mikinn heiður skilinn fyrir framtakið. Húsið er í rauninni sem nýtt og í afbragðs góðri hirðu. Þrjár íbúðir munu í húsinu. Lækjargata 6 er til mikillar prýði í umhverfi sínu og er svo sannarlega ein af (mörgum) perlum Innbæjarins. Og hvað umferðarmál varðar, er Spítalavegurinn nú orðinn einstefnugata til suðurs (þ.e.a.s. niður) með 30 km hámarkshraða, sem dregur nokkuð úr hættu við hið varasama horn. Lækjargata 6 er aldursfriðað hús og hefur auk þess varðveislugildi sem hluti einstakrar heildar, skv. Húsakönnun 2012.
Myndirnar eru teknar 2021; 17. júní og 14. nóvember og í lok október 1998.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 59, 23. maí 1885. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Elstu fundargerðabækur Bygginganefndar eru aðgengilegar á vef Héraðsskjalasafnsins.
Erlingur Davíðsson. 1972. Aldnir hafa orðið I bindi: Ragnheiður O. Björnsson. Akureyri: Skjaldborg
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf
Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns
Bloggar | Breytt 31.7.2022 kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2022 | 17:34
Hús dagsins: Strandgata 23
Strandgötu 23 tók ég fyrir í mjög stuttu máli haustið 2009. Hér er hins vegar ítarlegri umfjöllun...
Eitt af skrautlegri og tilkomumeiru húsunum við Strandgötu er hús nr. 23, sem stendur austanmegin við horn götunnar og Lundargötu. Húsið byggði Metúsalem Jóhannsson árið 1906 en fyrst var byggt á þessari lóð árið 1879. Upprunalega húsið var hins vegar flutt á næstu lóð norðan við árið 1902, Lundargötu 2 og stendur þar enn. Byggði þá téður Metúsalem nýtt hús, sem varð skammlíft því það brann til grunna 18. mars 1906. Það var einmitt í kjölfar mikilla bruna, sem menn fóru að huga að því, að klæða timburhús með óbrennanlegum efnum á borð við járn og stein. Klæddi Metúsalem nýja húsið með steinskífu, veggi jafnt sem þak. Steinskífur þessar eru rúnnaðar grjótflögur, að því er virðist úr granít, ca. 1-2 cm að þykkt. Skífan hefur þann kost, að ryðga ekki og ekki þarf að mála hana. En ekkert er viðhaldsfrítt og ekki steinskífan heldur; skífurnar veðrast eins og annað og með tímanum geta þær farið að losna. Þær munu einnig nokkuð brotthættar. Steinskífa prýddi þó nokkur timburhús á Akureyri, en þau hafa mörg hver týnt tölunni eða skífunni skipt út fyrir aðra klæðningu.
Það var sumarið 1906 að Metúsalem var leyft að byggja nýtt hús á grunni þess sem brann veturinn áður. Húsið var sagt tvílyft timburhús á kjallara, 14 álnir á breidd, suðurhlið 25 álnir en norðurhlið 24 álnir en grunnflötur er ekki hornréttur vestanmegin; gæti hafa átt að fylgja stefnu Lundargötu. Auk þess var getið altans á framhlið 8x2 álnir fyrir miðju húsi. Lagði hann fram teikningar, en þær virðast ekki hafa varðveist. Þann 18. september 1906 fundar Bygginganefnd m.a. um nýtt hús Metúsalems og virðist aldeilis ekki skemmt. Gerir hún m.a. athugasemdir við, að byggingin hafi verið hafin að miklu leyti áður en byggingaleyfi var í höfn, auk þess sem hann hafi grafið innganga og steypt tröppur niður í kjallara út í gangstétt. Þá gerði bygginganefnd athugasemd við það, að yfir altaninu hefði Metúsalem byggt risþak á stólpum, sem ekki var í samræmi við upprunalegar teikningar. Hvort þetta hafði einhverja eftirmála fylgir ekki sögunni, en risþakið þ.e. kvisturinn er enn yfir altaninu eða svölunum og enn eru niðurgrafnar kjallaratröppur að framanverðu.
Strandgata 23 er tvílyft timburhús á háum kjallara með háu risi og miðjukvisti og svölum undir honum. Á bakhlið, austanmegin er einlyft bygging með einhalla þaki auk hárrar og mjórrar útbyggingar fyrir miðri bakhlið. Steinskífa er á veggjum en bárujárn á þaki, en lengi vel var einnig skífuklæðning á þaki. Í flestum gluggum eru T-laga póstar en verslunargluggar fyrir miðri jarðhæð. Eru þeir rammaðir inn af sléttum plötum. Miðjukvist, prýðir útskorið skraut, eitt af einkennum Sveitserstíls, sem var áberandi í stærri einbýlishúsum og húsum efnamanna á fyrstu árum 20. aldar. Þessi hús, sem mörg hver komu tilhöggvin frá Noregi, einkenndust m.a. af útskornu skrauti og miklum íburði. Grunnflötur hússins er um 15,8x8,8m (norðurhlið 15,2m), viðbygging að NA, 6x6,3m og bakbygging 2,5x2,5m.
Metúsalem Jóhannsson (1874-1941), kaupmaður var utan úr Glæsibæjarhreppi, uppalinn á Einarsstöðum. Hann var kvæntur Sigrúnu Sörensdóttur (1872-1915) en hún var úr Þingeyjarsýslum, skráð til heimilis að Vargsnesi í Þóroddsstaðasókn árið 1880. Húsið var frá upphafi hvort tveggja verslunar- og íbúðarhús. Þau bjuggu ekki mjög lengi í húsinu, eða um sex ár. Þau og fjögur börn þeirra eru skráð hér í Manntali 1911, ásamt vetrarstúlku og leigjendum, alls 12 manns. Ári síðar búa aðeins fjórir í húsinu og eigandi sagður Metúsalem Jóhannesson, kaupmaður á Óspaksseyri. Hefur hann þá væntanlega flutt þangað árið 1912. Það er í rauninni svolítið óvenjulegt miðað við stærð hússins, að einungis fjórir einstaklingar búi þar árið 1912, en þá var ekki óalgengt að margar fjölskyldur, um eða yfir 20 manns byggju saman í miklu smærri húsum. En þessir fjórir einstaklingar eru þau Lárus Thorarenssen kaupmaður, Guðbjörg Friðbjarnardóttir ekkja, Amelía Klara Jóhannsdóttir búðarstúlka, dóttir Guðbjargar, og Jóhanna Guðmundsdóttir húskona. Árið 1913 er Pétur Pétursson orðinn eigandi hússins. Þá eru, auk Lárusar kaupmanns og mæðgnanna Guðbjargar og Klöru búsett hér Karl Nikulásson, skráður verslunarstjóri ásamt fjölskyldu sinni. Árið 1914 er Pétur Pétursson fluttur inn ásamt fjölskyldu sinni. Það yrði væntanlega afar löng lesning, að rekja eigenda- og íbúasögu hússins á þennan hátt til dagsins í dag en eins og nærri má geta hafa margir búið og verslað í Strandgötu 23. Af Metúsalem Jóhannssyni er það hins vegar að segja, að hann stundaði verslun og útgerð víða um land, m.a. á Óspaksseyri og síðar í Reykjavík. Hann lést í Kaupmannahöfn árið 1941.
Byggt hefur verið við Strandgötu a.m.k. tvisvar að aftanverðu, annars vegar byggingin austanmegin, sem enn stendur. Þá stóð steypt viðbygging vestanmegin við húsið, meðfram Lundargötu, byggð um eða rétt fyrir miðja 20. öld. (Á mynd frá 1931 er hún a.m.k. ekki risin). Sú bygging var rifin um 2000. Verslunargluggum á framhlið var breytt árið 1949 og um 1990 var skífu á þaki skipt út fyrir bárujárn. Að öðru leyti mun húsið lítt breytt frá upphafi að ytra byrði. Á þessari vel rúmlega öld hefur ýmis konar verslun og þjónusta verið starfrækt í húsinu sem og í viðbyggingunni. Það birtast tæplega 1400 niðurstöður fyrir Strandgötu 23 á timarit.is. Má þar nefna t.d. Atlabúðina, Kjöt og Fisk og hinn valinkunna Diddabar, svo fátt eitt sé nefnt. Ferðafélag Akureyrar hafði lengi aðsetur í viðbyggingunni, en fluttist í miðrýmið árið 1998, en þar hafði áður verið Snyrtistofa Nönnu.
Strandgata 23 er með reisulegri og skrautlegri húsum við Strandgötu og er til mikillar prýði. Útskurður á kvisti og skífuklæðningin gefa húsinu sérstakan og glæsilegan svip. Skífurnar mynda sérstætt munstur (sem kann að minna á fiskhreistur) og gefa húsinu þannig sérstætt og skemmtilegt yfirbragð. Þessi sérstaka klæðning var á þó nokkrum timburhúsum hér í bæ á öndverðri 20. öld, en kannski hæpið að segja hana mjög algenga, ekkert í líkingu við t.d. bárujárn eða steinblikk. Í mörgum tilfellum hefur steinskífu verið skipt út fyrir aðra klæðningu en einnig hafa nokkur steinskífuklædd hús verið rifin. Hafnarstræti 103 (síðast skóbúð M.H. Lyngdal, rifið 1998) og Snorrahús við Strandgötu 29 (rifið 1987) voru steinskífuklædd. Nú er höfundi aðeins kunnugt um tvö hús á Akureyri sem klædd eru steinskífu. Svo vill til, að þau standa bæði á sama hektaranum á sunnanverðri, Oddeyri en hitt steinskífuhúsið er Norðurgata 2.
Strandgata 23 er vitaskuld aldursfriðað hús, þar eð húsið er yfir 100 ára (116 þegar þetta er ritað). Húsið er með stærri húsum við götuna og er til mikillar prýði í umhverfinu. Það er í góðri hirðu og kvisturinn, svalaumbúnaður, skrautið og ekki síst steinskífan gefur húsinu sinn einstæða og glæsta svip. Í húsakönnun 1990 er húsið metið með varðveislugildi, sem hluti af heild. Þar er einnig mælt með því, að viðbygging mætti víkja, en sú bygging var einmitt rifin um 2000. Húsakönnun 2020 metur varðveisugildi hússins hátt og telst það friðað (vegna aldurs) og nýtur einnig varðveislu undir flokknum einstök/hús eða götumynd og þar er einnig ítrekað varðveislugildi hússins sem hluti merkrar heildar. Á miðri jarðhæð og kjallara hússins eru höfuðstöðvar Ferðafélags Akureyrar. Þrjár íbúðir eru á neðri hæð, tvær hvor sínu megin við skrifstofu Ferðafélagsins og ein í viðbyggingu norðaustanmegin. Lengi vel var samkomusalur á efri hæð en nú eru innréttaðar þær tvær íbúðir, eftir nýjum teikningum Valbjörns Ægis Vilhjálmssonar. Myndin er tekin þ. 15. júlí 2022.
Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)
Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-1921. Fundur nr. 312, 30. júní 1906. Fundur nr. 317, 18. sept. 1906. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf
Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
Bloggar | Breytt 25.7.2022 kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2022 | 18:06
Hús dagsins: Norðurgata 11
Snemma sumars 1880 var haldin mikil búfjársýning á Oddeyri. Um var að ræða sannkallaðan stórviðburð þar sem sýndar voru, auk búfjár, hinar ýmsar afurðir úr ull auk hannyrða og handverks, einnig tæki tengd búfjárhaldi og tóvinnu. Að sjálfsögðu voru einnig skemmtiatriði söngur og orgelleikur, glíma og dans frameftir kvöldi. Þá fluttu ræður m.a. Davíð Guðmundsson prófastur, sem setti hátíðina og Arnljótur Ólafsson auk þess sem flutt voru kvæði sem m.a. Matthías Jochumsson og fleiri höfðu samið sérstaklega af þessu tilefni. Sýningarsvæðið var allt prýtt fánum og ýmsu skrauti og voru reist þrjú tjöld undir hluta herlegheitanna, þar sem m.a. voru veitingar. Auk þess var leigt sýningarhús. Frá þessari sýningu var sagt ítarlega í 25. tölublaði Norðlings í júní 1880 (í sama tölublaði er einnig sagt frá útför Jóns Sigurðssonar). Grípum niður í frásögn Norðlings: Sýningarnefndin hafði búizt hið bezta við á sjálfum sýningarstaðnum, og leigt tvíloptað [svo] hús, er verið er að byggja á Oddeyri; voru hannyrðir, vefnaður, prjónles, smíðisgripir, listaverk, smærri verkfæri og varningur sýnt þar á fyrsta sal. (í Norðlingi nr. 25: 1880, án höf.)Þessi hluti sýningarinnar var svo fjölsóttur, að [...]hvað eptir annað varð að rýma mannfjöldanum af loptinu svo eigi yrði þar slys[...]. Á sýninguna munu hafa mætt á annað þúsund manns, úr Þingeyjarsýslum og Skagafirði auk Eyfirðinga. En hvert var þetta tvíloftaða hús, sem var í byggingu og tekið var á leigu og varð ítrekað að rýma vegna mannfjölda sem vildi skoða prjónles og handverk. Umrætt hús stendur enn og er Norðurgata 11 og er það elsta við götuna, lítið eitt eldra en Gamla prentsmiðjan.
Norðurgata 11 er tvílyft timburhús á háum kjallara og með lágu risi. Á vesturhlið er inngönguskúr eða stigahús, jafnhá húsinu. Bárujárn er á þaki en veggir eru klæddir steinblikki að frátöldum norðurvegg, sem er steyptur og gluggalaus. Í gluggum eru láréttir þverpóstar en í kjallaragluggum og á stigahúsi sexrúðupóstar. Grunnflötur mælist um 7x12m en bakbygging nærri 2,5x2,5m. (Ónákvæm mæling á kortavef map.is) Húsið stendur á horni Norðurgötu og Gránufélagsgötu, nánar tiltekið á norðvesturhorninu.
Snorri Jónsson (1848-1918), timburmeistari frá Hólárkoti í Svarfaðardal, hóf að öllum líkindum að byggja hús sitt á Oddeyri árið 1879. Í þá daga flæktust hvorki skriffinnska né formsatriði fyrir húsbyggjendum á Oddeyri. Menn einfaldlega byggðu húsin og þegar þau voru reist, fengu þeir lóðir hjá eiganda Oddeyrar, Gránufélaginu. Hjá Gránufélaginu voru menn þó ekkert að hafa áhyggjur af því formsatriði; hvorki meira né minna en þremur árum eftir búfjársýninguna miklu, 1883, fékk Snorri mælda út lóð hjá Gránufélaginu og þá kemur fram að húsið sé þegar risið. Miðaðist lóðin við síkið eða Fúlalæk, lygnrar lænu frá Glerá er rann til sjávar um það bil þar sem nú er milli Norðurgötu og Lundargötu. Bæjaryfirvöld virðast ekki hafa haft mikil afskipti af þessu samkomulagi milli frumbyggja Oddeyrar og Gránufélagsins um úthlutun byggingarreita og lóða. Höfum í huga, að á þessum tíma var Oddeyrin út í sveit miðað við Akureyrarkaupstað enda þótt hún tilheyrði lögsagnarumdæmi kaupstaðarins. Meira að segja tilheyrði hin illfæra brekka, er aðskildi eyrarnar tvær, Hrafnagilshreppi. Norðurgata 11 var í upphafi tvílyft timburhús á lágum grunni með mjög lágu risi með smáum inngönguskúr á bakhlið. Upprunalegt lag hússins sést mjög glögglega á mynd, sem tekin er 1882. Þar sést líka umræddur Fúlilækur en nafn sitt hlaut hann einfaldlega af því, að hann þjónaði sem sérlegur ruslahaugur og skólpræsi Oddeyringa um árabil.
Sem áður segir byggði Snorri Jónsson timburmeistari og skipasmiður húsið og var þetta fyrsta húsið sem hann reisti á Akureyri en langt frá því það síðasta. Hann stýrði byggingu margra húsa á áratugunum kringum aldamótin 1900 en eitt helsta stórvirki hans var mikið stórhýsi við Strandgötu 29 og var það kallað Snorrahús. Þá kom hann að byggingu sjúkrahúsbyggingar og læknisbústaðar 1898-99 auk byggingar Gagnfræðaskólans (MA) árið 1904. Snorri var kvæntur Lovísu Loftsdóttur frá Sauðanesi í Svarfarðardal. Árið 1890 búa þau hér, ásamt börnum sínum í Húsi Snorra Jónssonar á Oddeyri, en auk þeirra Valdimar Hallgrímsson húsmaður og kona hans Guðrún Þorbergsdóttir. (Götuheiti og númer kom löngu síðar) Þá býr einnig hjá Snorra lærlingur hans, Bergsteinn Björnsson (þar skrifaður Bjarnason). Bergsteinn reisti tíu árum síðar mikið stórhýsi í Bótinni, hús sem var einmitt um margt svipað húsi Snorra, læriföður hans, téðu Snorrahúsi við Strandgötu, að stærð og lögun. Húsin hafa væntanlega kallast skemmtilega á yfir Pollinn á sínum tíma, en sem áður segir var Snorrahús rifið árið 1987. Hús Bergsteins stendur enn og er Hafnarstræti 88.
Árið 1915 eignaðist Hermundur Jóhannesson húsið og átti það alla sína tíð og kallaðist húsið jafnan Hermundarhús. Sumarið 1922 fékk hann leyfi til að [...]byggja viðbótarbyggingu norðan við sitt nr. 11 í Norðurgötu ennfr[emur] að hækka húsið um ca. 2 ál. [tæplega 130cm] og setja undir það kjallara úr steinsteypu (Bygg.nefnd. Ak. 1922: nr. 518) hús sitt til norðurs Mun húsinu hafa verið lyft á svipaðan hátt og skip voru sjósett og kjallari steyptur undir. Mun húsið hafa staðið á tunnum á meðan. Fylgir einnig sögunni, að að allan tímann sem húsinu var lyft var búið í því og gengu klukkur rétt á veggjum. Þessari sögu deildi Jóhannes, sonur Hermundar, með þátttakendum í sögugöngu um Oddeyri, að greinarhöfund minnir, sumarið 1999. Þá byggði Hermundur við húsið nyrðri gluggabilin tvö auk núverandi stigabyggingar. Þá, eða um svipað leyti, hefur núverandi blikkklæðning líkast til verið sett á húsið. Líklegast hefur sú íbúðaskipan sem nú er, verið komið á um svipað leyti, þ.e. tvær íbúðir á hvorri hæð. Í manntölum 1930 og 1940 er húsinu skipt í 11a og 11b. Árið 1930 búa í húsinu 18 manns og tíu árum síðar eru íbúarnir sextán. Á timarit.is má finna um 100 niðurstöður í bæjarblöðum Akureyrar þar sem Norðurgata 11 kemur við sögu. Sú elsta mun vera tilkynning í Norðra haustið 1907. Þá voru foringjar Hjálpræðishersins, búsettir í húsinu og auglýsa þar skólahald fyrir börn á sínum vegum. Umræddir foringjar Hjálpræðishersins voru þær Sólveig Bjarnason (kapteinn) og Þóra Brynjólfsson (lautinant) og eru þær í manntali einfaldlega skráðar sem foringjar Hersins. Eflaust hefur kennslan farið fram þarna í húsinu. Þröngt hefur verið um þann skóla, en árið 1907 búa þrettán manns í húsinu í sex skráðum íbúðarrýmum. Og þá var húsið mun smærra en það er nú. Um langt árabil, frá 1935, var á húsinu brunaboði slökkviliðs. Fjölmargir hafa búið í húsinu um lengri eða skemmri tíma gegnum áratugina, en eigendaskipti hafa hins vegar ekki verið tíð, svo ekki sé meira sagt: Eftir lát Hermundar Jóhannessonar eignaðist sonur hans, téður Jóhannes, húsið og átti alla sína tíð en erfingjar hans seldu það um 2015. Hafði húsið þá verið í eigu sömu fjölskyldu í heila öld! Hermundur byggði síðar steinsteypt íbúðarhús á baklóðinni, sem varð Gránufélagsgata 23 og þar bjó Jóhannes Hermundarson og rak líkkistusmíðaverkstæði um áratugaskeið.
Norðurgata 11 er í senn látlaust og reisulegt hús og til mikillar prýði. Það er í góðri hirðu og til mikillar prýði í götumyndinni og hefur líkast til hlotið gott viðhald alla tíð. Í húsakönnun 2021 er það sagt Reisulegt hús en ekki íburðarmikið. Gott samræmi í formi og gluggasetningu. (Bjarki Jóhannesson 2021:93). Það tekur sem hornhús, þátt í götumynd Gránufélagsgötu og Norðurgötu. Tvær íbúðir eru á hvorri hæð hússins. Í Húsakönnun 1990 er það metið með varðveislugildi sem hluti byggðarinnar við Norðurgötu og það mat staðfest í Húsakönnun 2020, þar sem það fellur undir einstök hús og hverfisvernd. Þá er húsið friðað vegna aldurs og hefur mikið gildi fyrir byggðina á Oddeyri. Það er líklega fimmta elsta húsið á Oddeyri og á Akureyri allri eru aðeins um 30 hús eldri en Norðurgata 11. Gengt húsinu, handan Gránufélagsgötu er nokkuð víðlent, óbyggt svæði, lóðir nr. 3-9 við Norðurgötu. Fyrirhugað er að byggja á þessum lóðum og er það vel. Munu þá kallast á yfir hornið, elsta og yngsta hús Norðurgötu. Þar verður aldeilis að vanda til verka, svo að nýjar byggingar falli vel að hinni fornu og lágreistu götumynd! Myndin er tekin þann 19. júní 2022.
Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)
Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-1921. Fundur nr. 518, 13. júlí 1922. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf
Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
Bloggar | Breytt 13.7.2022 kl. 16:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2022 | 16:34
Húsakönnun um Oddeyri
Á vef Minjastofnunar er komið út mikið öndvegisrit sem ég fagna og mæli svo sannarlega með; nefnilega Húsakönnun (húsaskrá) fyrir Oddeyrina- nánast eins og hún leggur sig. Elsti og syðsti hlutinn var tekinn ítarlega fyrir í Húsakönnun fyrir um 30 árum síðan, og var gefin út á bók. Ég held að hver einasti pistill hér á síðunni um húsin við Eyrarveg og Ægisgötu, sl. mánuði, hafi endað á orðunum, að ekki hafi verið unnin húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar. En hér er hún komin. Höfundur er Bjarki Jóhannesson skipulagsfræðingur, sem m.a. gegndi stöðu skipulagsstjóra Akureyrarbæjar.
Sjón er aldeilis sögu ríkari en á meðal þess sem fram kemur er (sjá bls. 40-43):
- Gjörvallur syðsti hluti Oddeyrar er skilgreindur sem varðveisluverð heild
- Ægisgatan eins og hún leggur sig vernduð með hverfisvernd (sem mér skilst, að sé það sem næst kemst friðun á götumynd)
- Ysti hluti Norðurgötu vestanmegin er verndaður með hverfisvernd
- Ytri hluti Norðurgötu austanmegin og Ránargata metin sem varðveisluverð heild.
- Verkamannabústaðir Guðjóns Samúelssonar og Bárðar Ísleifssonar við Eyrarveg, Víðivelli og Norðurgötu eru skilgreindir sem varðveisluverðar heildir.
Húsakönnunin er aðgengileg á þessari slóð
Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)
Skjalið er um 100mb að stærð og telur hvorki meira né minna en 367 blaðsíður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2022 | 17:29
Þverárbrýr- myndasaga
Utarlega, austanmegin í Eyjafirði rennur ein af mestu þverám Eyjafjarðarár og heitir hún einfaldlega Þverá. Eyjafjarðarbraut eystri liggur yfir hana við bæina Hjarðarhaga og Þverá, síðarnefndi bærinn sunnanmegin, rúma 10 kílómetra frá Akureyri. Þverá var fyrst brúuð árið 1886 en vegleg steinbrú byggð á hana 1926. Sú brú, sem var endurbætt verulega um 1956, var í notkun allt til ársins 1993, að stóreflis brúarmannvirki, í raun var tröllaukið vegræsi var tekið í notkun. En fyrir ári síðan, um lok júní 2021 lét landfyllingin undan geysilegum vatnavöxtum. Skemmdist hún það mikið, að loka þurfti veginum. Þá kom sér nú aldeilis vel, að hin tæplega aldargamla steinbrú var enn til staðar og hægt var að hleypa umferðinni um hana. Endurbygging ræsisins var afar vandasöm, og tók nánast nákvæmlega eitt ár, en endurnýjað ræsi var tekið í notkun 28. júní sl. Hér eru nokkrar myndir af vettvangi:
Horft af brúnni: Vegræsið mikla á Þverá, mynd frá júlíbyrjun 2017.
Gamla brúin á Þverá. Hún er að stofni til frá árinu 1926 en mun hafa verið endurbyggð að miklu leyti á 6. áratugnum. Mynd frá 2. júlí 2017.
Hér má sjá stokkinn úr vegræsinu en hann stóð af sér hamaganginn, enda úr þykkri, járnbentri steinsteypu. Það var hins vegar landfyllingin sem gaf sig, einfaldlega af því að stokkurinn tók ég við öllum vatnsflaumnum, en honum fylgdi víst töluvert af aur og stórgrýti. Bílar á ferð yfir gömlu brúna. Myndin er tekin 3. okt. 2021.
29. mars 2022. Unnið að endurbyggingu ræsisins. Stokkurinn var lengdur og undirstöður styrktar umtalsvert.
30. júní 2022. Nýja ræsið komið í gagnið, þó enn vanti vegrið. Virðist traustlegt og stekbyggt; veitir enda ekki af, svo sem dæmin sanna.
Er svo ekki bara upplagt, að enda þessa brúafærslu á hinu sígilda og hugljúfa lagi Simon and Garfunkel um brúna yfir beljandi fljótið: "Bridge Over Troubled water".
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2022 | 10:52
Hús dagsins: Norðurgata 2
Norðurgötu 2 tók ég fyrir í fáeinum setningum á árdögum þessarar síðu. Nú hyggst ég bæta um betur.
Við Norðurgötu má finna mörg einstök og sérstæð hús, m.a. eina grjóthlaðna hús Akureyrar. Syðst við götuna er lágreist, snoturt og einstaklega skrautlegt hús, sem skartar steinskífu. Klæðning þessi minnir svolítið á fiskhreistur og gefur húsinu sérstakan, einkennandi svip. Í einhverri sögugöngu um Oddeyri hafði einn þátttakandinn á orði, að þetta minnti sig á pönnukökur, hús nornarinnar í sögunni um Hans og Grétu nefnt í því samhengi.
Syðstu lóð Norðurgötu austan megin, eða þvergötunnar út Oddeyri eins og hún kallaðist þá, fékk Þorvaldur Guðnason árið 1890 og leyfi til að reisa þar skúr. Hafði hann nýlega reist hús á svipuðum slóðum, nánar tiltekið Norðurgötu 13. Líkast til var þetta þó ekki syðsta lóðin þá, því í Manntali 1901 eru húsin sem nú teljast 2-6 við Norðurgötu númer 4-8. Hefur þannig verið gert ráð fyrir, a.m.k. einu húsi sunnar. Það var hins vegar ekki fyrr en 1897 að hann reisti húsið, sem enn stendur, en byggingaleyfið fékk Þorvaldur 22. mars það ár. Skyldi hús Þorvalds vera 14 álnir [8,8m] á lengd, 10 álnir [6,3m] á breidd og með kvisti. Legu hússins var lýst þannig, að það skyldi standa 7 ál. fyrir austan þvergötuna frá húsi Jóns Halldórssonar og 60 ál. norður frá Strandgötu (Bygg.nefnd. Ak. 1897:140). Götunafnið Norðurgata var ekki komið til sögunnar, en það er óneitanlega mun þjálla heiti en Þvergatan frá húsi Jóns Halldórssonar. Byggingaleyfi fyrir Þorvald var sameiginlegt með Ólafi Árnasyni og Jóni Jónatanssyni, sem reistu næsta hús norðan við, Norðurgötu 4 og kemur fram í byggingaleyfinu, að þeir reisi hús sín í sameiningu. Sjá má á framhlið og stærðarhlutföllum, að húsin tvö eru nokkuð greinilega sama hönnun, enda þótt síðari tíma breytingar geri þau í raun gjörólík hvort öðru. Nokkuð víst mun talið, að Snorri Jónsson byggingameistari eigi heiðurinn af hönnun og byggingastjórn þessara húsa (Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995: 64). Þess má til gamans geta, að þeir Þorvaldur og Snorri voru nágrannar, en hús þeirra stóðu hlið við hlið og hlutu síðar númerin 11 og 13 við Norðurgötu. Þá vildi einnig svo til, að þetta ár, 1897, var Snorri sjálfur í óða önn að reisa verslunar- og íbúðarhús á næstu lóð sunnan við Þorvald, þ.e.a.s. við Strandgötu 29. Um var að ræða eitt stærsta hús Oddeyrar og Akureyrar, löngum kallað Snorrahús. Norður úr því var mikil álma til norðurs svo þannig fór, að hús Þorvaldar Guðnasonar varð það syðsta við austanverða Norðurgötu. Snorrahús var, illu heilu, rifið í byrjun september 1987. Snorrahúsið var líkt og Norðurgata 2, klætt steinskífu.
Norðurgata 2 er einlyft timburhús með háu risi og miðjukvisti. Á bakhlið er inngönguskúr auk uppgöngu á rishæð, en þeim megin er þak aflíðandi (risi lyft). Á bakhlið er einnig útskot úr neðri hæð og inngöngudyr á efri hæð ásamt tröppum úr timbri. Bárujárn er á þaki, þverpóstar í gluggum en á veggjum er hin sérstæða steinskífa. Þessi sérstæða klæðning setur mikinn svip á húsið, en þess má einnig geta, að aðeins eru tvö hús á Akureyri sem skarta steinskífuklæðningu. Hitt steinskífuhúsið er Strandgata 23. Í fyrrnefndri sögugöngu um Oddeyri minnist síðuhafi þess, að einn þátttakandinn hafi upplýst, að þessar skífur kæmu frá Noregi, nánar tiltekið úr námum nærri Bergen.
Þorvaldur Guðnason var sjómaður, fæddur árið 1857 og uppalinn í Bárðardal. Hann var vinnumaður á Íshóli árið 1880 en stundaði sjóinn eftir að hann flutti á Oddeyri. Síðastu æviárin var hann utanbúðarmaður hjá athafnamanninum J.V. Havsteen. Þorvaldur var kvæntur Maríu Jónasdóttur (1862-1934), sem mun hafa verið úr Svarfaðardalnum, skráð til heimilis að Hofsá árið 1870. Þorvaldur og María og börn þeirra munu hafa búið hér í ein sjö ár. 1902 reisti Þorvaldur á lóðinni fjós og skúr en þær byggingar eru nú löngu horfnar. Árið 1904 eru Þorvaldur og fjölskylda flutt úr húsinu og reistu þá hús töluvert utar á Eyrinni, Norðurgötu 27. (Það hús var rifið fyrir mörgum áratugum). Þorvaldur Guðnason lést af slysförum við höfnina á Oddeyri árið 1914. Árið 1904 eignast húsið Soffanías Baldvinsson ökumaður eða keyrari. Hafði hann áður verið bóndi á Tungufelli í Svarfaðardal. Soffanías reisti árið 1911 bakhús sem enn stendur, Norðurgötu 2b en það hús þekkja margir sem Reykhúsið eða Hljóðhúsið, en þar hóf RúvAK útsendingar sínar á sínum tíma. Þá mun Soffanías einnig hafa sett núverandi skífuklæðningu á húsið. Eins og aðrir ökumenn keyrði Soffanías vagna en þegar bílaöld hófst, tileinkaði hann sér hinn nýja farkost. Soffanías tók bílpróf fyrstur Akureyringa og keypti sér Ford T-Model af árgerð 1914. Var hann væntanlega með fyrstu bílum sem hingað komu. Hér má sjá mynd af Soffaníasi og fleira heiðursfólki, ásamt Fordinum og hestvögnum fyrir utan Norðurgötu 2. Þarna má sjá, að steinskífa er komin á húsið en myndin er sögð tekin 1915-17. Í brunabótamati 1916 er húsið hins vegar sagt járnklætt. Íbúðaskipan hefur sjálfsagt tekið ýmsum breytingum gegnum tíðina og líklega hefur á tímabili verið búið ansi þröngt þarna. Árið 1910 bjuggu þarna t.d. 2 fjölskyldur, auk hjúa, 10 manns. Voru það Soffanías, kona hans Sigurveig Sigurðardóttir, börn þeirra, Njáll og Baldvina auk þriggja einstaklinga sem titluð eru hjú. Hjá þeim leigðu þau Júlíus Albert Árnason og Una Sigurðardóttir og áttu þau tvær dætur, Kristbjörgu og Úndínu. Sú síðarnefnda byggði löngu síðar hús norðar á Oddeyri á Ránargötu 17 ásamt manni sínum Sveini Kristjánssyni og tengdaföður. Árið 1920 mun húsið hafa skipst í þrjú íbúðarrými, miðað við manntal og þar búsettir átján manns, efst á blaði þar þau Sigurður Sigurðarson og Kristín Steinþórsdóttir.
Á árunum 1954-62 fóru fram töluverðar breytingar á húsinu. Árið 1954 var austurhluti rishæðar byggður upp á þann hátt, sem kallað er að risinu sé lyft. Var þannig byggður veggur með fullri lofthæð austanmegin, svo þeim megin er risið lágt og aflíðandi. Vestanmegin er risið hins vegar bratt, með upprunalegu lagi. Bætir þetta töluverðu rými við efri hæðina, þar eð aðeins helmingurinn hennar er undir súð. Árið 1962 voru svo byggðar sér inngöngutröppur á efri hæð, austanmegin og þær teikningar gerði Mikael Jóhannsson. E.t.v. hefur hann einnig teiknað breytingarnar á risinu.
Að framanverðu er húsið næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð. Sama er að segja af systurhúsinu, Norðurgötu 4, en bakhlið þess húss hefur einnig verið breytt töluvert, m.a. byggt við það. Ekki laust við að það sé svolítið skemmtilegt að bera saman, hvernig sams konar hús hafa þróast hvort í sína áttina á einni öld og aldarfjórðungi betur. Nú munu vera tvær íbúðir í Norðurgötu 2, á hæð og í risi. Húsið er í góðri hirðu og til mikillar prýði í umhverfinu enda gefur steinskífan húsinu einstakan svip. Þá er lóðin vel gróin og hirt og ber þar t.d. á ræktarlegu reynitré sunnan við húsið. Steinskífan prýddi þó nokkur hús á Akureyri á árum áður, þó ekki teldist hún sérlega algeng. Einhver þeirra hafa verið rifin en í öðrum tilfellum skífunni skipt út fyrir aðra klæðningu. Nú eru steinskífuhúsin aðeins tvö og myndi greinarhöfundur telja varðveislugildi þeirra umtalsvert fyrir vikið. En Norðurgata 2 er aldursfriðuð og í Húsakönnun um Oddeyri er þessi hluti Norðurgötunnar talin sérstaklega varðveisluverð heild. Myndin er tekin 19. júní 2022.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 140, 22. mars 1897. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Elstu fundargerðabækur Bygginganefndar eru aðgengilegar á vef Héraðsskjalasafnsins.
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf
Bloggar | Breytt 5.7.2022 kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2022 | 10:26
Hús dagsins: Norðurgata 17; Gamla prentsmiðjan, Steinhúsið
Í nóvember 1885 birtist í blaðinu Fróða mjög hnitmiðuð en greinargóð lýsing á staðháttum, mann- og atvinnulífi á Akureyri og Oddeyri. Höfundar virðist ekki getið, en trúlega nærtækast að skrifa Björn Jónsson ritstjóra og ábyrgðarmann blaðsins fyrir þeim. Oddeyri er sögð heyra undir lögsagnarumdæmi Akureyrar en liggja nokkuð norðar, aðskilin af landspildu er tilheyrir Hrafnagilshreppi. Þar eru sögð standa 11 timburhús , auk varningshúsa Gránufélagsins og eitt hús af íslenskum steini. Um það hús segir ennfremur: Þorsteinn Einarson blikksmiður gerði fyrstur manna í Eyjafirði tilraun til að byggja þar hús úr íslenzkum steini og heppnaðist vel, þó grjót sje hjer hart og illt að vinna. Skemmst er frá því að segja, að þessi tilraun heppnaðist svo vel, að tæpum 140 árum síðar stendur þetta hús enn og það með glæsibrag og er eitt af helstu kennileitum Oddeyrar. Og framangreint blað, Fróði, er einmitt prentað í húsi þessu.
Norðurgata 17 er eitt af elstu og sérstæðustu húsunum á Eyrinni, oft kallað Gamla Prentsmiðjan eða Steinhúsið en það er hlaðið úr tilhöggnu blágrýti, það eina þeirrar gerðar á Akureyri. Húsið byggðu téðir Þorsteinn Einarsson, blikksmiður og niðursuðumaður, og Björn Jónsson ritstjóri um 1881. Nákvæmt byggingarár liggur í rauninni ekki fyrir, því þeir félagar Björn og Þorsteinn fengu lóðina hjá Gránufélaginu, eiganda landsins, eftir að þeir byggðu húsið. Ekki var þannig um byggingaleyfi að ræða, heldur gerðust kaupin þannig á Eyrinni, að menn byggðu hús og fengu svo lóðir hjá Gránufélaginu eftir á; húsin þá jafnan notuð sem viðmið til útmælingar. Í sumum heimildum er húsið talið byggt í áföngum, 1882 og 1884 (norðurhlutinn síðar) en Þorsteinn mun hafa byggt sinn hluta hússins örlítið fyrr. Til er ljósmynd frá 1882 sem sannar með óyggjandi hætti, að báðir húshlutar voru risnir þá. Fasteignaskrá segir húsið byggt 1880. Freistandi er að álykta, að Þorsteinn hafi reist suðurhlutann 1880 en Björn norðurhlutann 1881 en enginn er skráður til heimilis hér árið 1880, svo væntanlega hefur ekki verið flutt inn það ár. Það var svo árið 1885 að þeir Björn og Þorsteinn gengu frá því formsatriði við Gránufélagið, að fá lóðina keypta. Ekki var hún stór, 5 álnir (rúmir 3 metrar) út frá húsinu á alla vegu. Hafði Þorsteinn óskað eftir lóðinni árið áður.
Norðurgata 17 er í raun tvö sambyggð hús, suðurhluti er tvílyftur með lágu risi á lágum kjallara og snýr N-S þ.e. framhlið snýr að götu og gafl í suður. Grunnflötur suðurhluta er 5,3x6,9m. Lítil forstofubygging, 1,3x2,4m er yfir tröppum á suðurgafli. Norðurhlutinn snýr A-V þ.a. gafl snýr að götu. Sá hluti er einnig tvílyftur á lágum kjallara en með háu risi og þar af leiðandi ívið háreistari. Grunnflötur norðurhluta er 8,5x7,7m. Á norðurhlið er einnig tvílyft viðbygging úr timbri og með einhalla þaki, 5,8x3,2m að grunnfleti. Húsið er að hluta múrhúðað en grjóthleðslan víðast sjáanleg. Viðbygging að norðan er klædd svokölluðu listaþili og efsti hluti vesturgafls panelklæddur. Á ljósmynd frá 1882 er að sjá, sem upprunalega hafi suðurhlutinn verið ein hæð með háu mansardrisi en líklega hafa veggir efri hæðar verið hlaðnir stuttu síðar, risþakið mögulega bráðabirgðaráðstöfun. Ekki löngu eftir byggingu hússins, líklega um eða fyrir 1890 byggir Björn Jónsson við húsið til norðurs tvílyfta byggingu úr timbri með aflíðandi, einhalla þaki. Á ljósmynd frá 1895 sést, að viðbyggingin er komin.
Þorsteinn Einarsson (1852-1902) frá Brú á Jökuldal, byggði syðri hluta hússins og bjó þar ásamt fjölskyldu sinni í nokkur ár en fluttist úr bænum árið 1886. Eignaðist Gránufélagið þá hans hluta hússins. Hann var járnsmiður en lagði stund á niðursuðu og starfrækti niðursuðuverksmiðju sína í Lundi, sem stóð fast vestan Steinhússins. (Lundur eða Gamli Lundur var rifin uppúr 1980 en í kjölfarið var hann endurbyggður frá grunni þ.e. nákvæmlega eins hús reist á grunni þess og telst hann Eiðsvallagata 14). Í norðurhúsinu (Stóra Steinhúsi) starfrækti Björn Jónsson (1854-1920) prentsmiðju á neðri hæð og bjó á efri hæð. Björn var uppalinn í Öngulsstaðahreppi, mögulega fæddur á Ytra Hóli en þar er hann skráður í Manntali 1855. Prentsmiðjan var starfandi í húsinu fram til 1943 og þarna voru prentuð helstu dagblöð og tímarit á borð við Fróða, Stefni og Norðra yngri og einnig margar bækur. Var prentsmiðjan jafnan kennd við blaðið Fróða og talað um Fróða-Björn. Skv. Steindóri Steindórssyni (1993:85) er ein kenning sú, að gatan Fróðasund, sem liggur einmitt til vesturs frá baklóð Norðurgötu 17, sé kennd við hann. Ef þú lesandi góður, rekst á gamla bók frá fyrstu tugum 20. aldar, merkt Prentverki Björns Jónssonar, er hún væntanlega prentuð í Norðurgötu 17. Eftir lát Björns 1920 tók Helgi sonur hans við rekstri prentsmiðjunnar og rak hana til dánardægurs, snemma árs 1943. Nýir eigendur fluttu prentverkið úr Norðurgötu 17 í Hafnarstræti 96, tímabundið, en árið 1945 fluttist prentsmiðjan í ný og fullkomin húsakynni í stórhýsi við Gránufélagsgötu 4 (síðar þekkt sem JMJ húsið). Enda þótt prentsmiðjan skipti um eigendur síðar meir var hún ævinlega kennd við Björn Jónsson
Á gagnagrunninum timarit.is birtast nærri 200 niðurstöður fyrir Norðurgötu 17 eða 17a eða Norðurgata 17 í nefnifalli. Hafa ber í huga, að götuheitið Norðurgata og númer við hana komu ekki til sögunnar fyrr en um tveimur áratugum eftir að húsið var byggt. Elsta heimildin er frá júlí 1907, en þar er eigandi hnakktösku beðinn um að vitja hennar til Tryggva Árnasonar, sem þar er búsettur. Árið 1901 er húsið sagt No. 15 Norðurgata (núverandi hús nr. 15 reis ekki fyrr en 1902) og þar voru búsettir 27 manns, fimm fjölskyldur, og efst á blaði þau Björn Jónsson og Guðrún Helgadóttir. Og þá var ekki búið í öllu húsinu þar sem prentsmiðjan var á neðri hæð í norðurhluta. Í Manntali 1890 eru hvorki meira né minna en 40 manns, sjö fjölskyldur búsettar í Prentsmiðjunni á Oddeyri. Þeirra á meðal eru Jósef Jónsson ökumaður og Kristín Einarsdóttir og fimm börn þeirra, þ.á.m. Jóhannes, síðar glímukappi og hótelstjóri á Hótel Borg, þá 7 ára gamall. Þau munu hins vegar á þessum áratugum hafa verið búsett í Lundi. Þegar manntalið er skoðað nánar, kemur í ljós, að Lundur á Oddeyri er hvergi nefndur á nafn. Því vakna óneitanlega hjá höfundi grunsemdir um, að Lundur hafi einfaldlega verið talinn undir Prentsmiðjunni í manntalinu 1890. Það er hins vegar ekkert útilokað, að Jósef og fjölskylda hafi verið búsett í húsinu þegar manntalið var tekið, enda þótt Jóhannes Jósefsson minnist aðeins á Lund sem sitt æskuheimili í ævisögu sinni. Á Oddeyri hófst barnaskólahald árið 1879 og stóð í rúma tvo áratugi. Ekki var um sérstakt skólahús að ræða, heldur kennt í hinum ýmsu húsum nokkur ár í senn. M.a. í Prentsmiðjunni en þar var hann til húsa síðustu tvö ár 19. aldar. Haustið 1900 var vandað skólahús tekið í notkun í Hafnarstræti 53 og þangað fóru börn af Oddeyri. (Barnaskóli reis ekki á Oddeyri fyrr en árið 1957). Eftir að prentsmiðjan fluttist úr húsinu mun það mestallt hafa verið lagt undir íbúðir. Íbúðaskipan hefur sjálfsagt verið nokkuð breytileg gegnum tíðina, lengst af voru t.d. tvær íbúðir í suðurhluta en nú mun hann ein íbúð. Árið 1989 voru fjórar íbúðir í húsinu öllu. Fjöldi íbúa hússins gegnum tíðina skiptir eflaust þúsundum, áratugina kringum aldamótum bjuggu t.d. að jafnaði tugir manna í húsinu í einu.
Norðurgata 17 var í hópi fyrstu húsa á Akureyri sem var friðað skv. Þjóðminjalögum, en það var árið 1982 og var það friðað í B-flokki sem þýddi að ytra byrði var friðað. Sem fyrr segir mun þetta eina húsið á Akureyri sem hlaðið er úr blágrýti en þó nokkur hús voru reist hérlendis með þeirri aðferð á svipuðum tíma. Mætti þar nefna stórar opinberar byggingar á borð við Hegningarhúsið (1874) og Alþingishúsið (1881) en einnig má nefna lítið grjóthlaðið sæluhús við Jökulsá á Fjöllum, (1883) sem mun alræmt fyrir draugagang. Þessi byggingaraðferð náði ekki slíkri útbreiðslu hérlendis, að hún teldist almenn. Sú skýring sem höfundi dettur helst í hug á því er einfaldlega sú, að það hljóti að hafa verið miklu erfiðara og seinlegra, eflaust dýrara líka, að reisa svona hús en hefðbundin timbur- eða torfhús. Það var ekki fyrr en löngu síðar, eða upp úr 1910 sem bygging steinhúsa varð almenn hérlendis og þá var það ekki þessi steinhleðsla sem varð ráðandi heldur steinsteypan.
Norðurgata 17 er sem áður segir friðlýst hús en friðun og friðlýsing er ekki það sama, öll hús yfir 100 ára eru t.d. aldursfriðuð en mun færri hús eru friðlýst sérstaklega og þá vegna sögu eða byggingargerðar eða þess háttar. Þessi hluti Norðurgötu (sunnan Eyrarvegar) er einnig metinn með varðveislugildi sem merk heild í Húsakönnun sem unnin var um Oddeyri fyrir um þremur áratugum og gefin út á bók. Norðurgatan í heild sinni er náttúrulega ein af áhugaverðari götumyndum bæjarins, hún er raunar eins og vel skipulagt safn íbúðarhúsagerðar hérlendis frá síðari hluta 19. aldar og fram á miðja 20. öld. Húsið er í góðri hirðu, skartar m.a. nýlegum gluggapóstum. Það setur óneitanlega svip sinn á umhverfið, sem eina húsið sinnar gerðar í bænum og er í raun visst kennileiti á þessum slóðum. Lóð hússins er öll vestan hússins og er hún mjög gróin og vel hirt. Norðvestantil á lóðinni ber mikið á gróskumiklu tré, sem höfundur giskar á, að sé silfurreynir. Síðustu ár hafa þrjár íbúðir verið í húsinu, ein í suðurhluta, og tvær ein á hvorri hæð- í norðurhluta, sem telst Norðurgata 17a. Myndirnar af húsinu eru teknar 19. júní 2022 en myndin af silfurreyninum 21. október 2017.
Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf
Jóhannes Jósefsson. 1964. Jóhannes á Borg. Minningar glímukappans. Stefán Jónsson skráði. Reykjavík: Ægisútgáfan
Minjastofnun. (án höf). Akureyri- Norðurgata 17 -Gamla Prentsmiðjan. Umfjöllun á vefsíðu, sótt 21. júní 2022 á slóðina https://www.minjastofnun.is/hus-og-mannvirki/fridlyst-hus-og-mannvirki/akureyri/nr/619
Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík. Örn og Örlygur
Manntöl og greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2022 | 10:20
13 ára afmæli "Húsa dagsins"
Þann 25. júní 2009 hugkvæmdist mér að setja inn mynd sem ég átti af Steinhúsinu við Norðurgötu 17 ásamt fáeinum setningum um það og kallaði herlegheitin "Hús dagsins". Ekki lét sá pistill mikið yfir sér, enda var það raunar ekki tilgangurinn. Það var ekki fyrr en löngu seinna sem ég taldi nauðsynlegt að hafa greinarnar ítarlegri. Í tilefni afmælisins að þessu sinni hyggst ég ekki horfa til baka heldur birtist hér ný og ítarlegri grein um Steinhúsið. Mun ég á næstunni gera eitthvað af því, að birta ný skrif um þau hús, sem hér birtust á upphafsárunum.
Fyrsta myndin sem birtist á síðunni, Norðurgata 17. Myndinar tók ég 5. júní 2006.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2022 | 13:17
Hús dagsins: Strandgata 7
Kannski mætti kalla Strandgötu 7 þjóðhátíðarhús, en byggingarleyfið fyrir því var afgreitt þann 17. júní. Var það reyndar löngu áður en sá dagur varð þjóðhátíðardagur Íslendinga...
Ofarlega við Strandgötu, í Miðbænum, standa fjögur reisulegt og glæst timburhús. Þau eru nr. 7-13 Strandgötu og eiga það sameiginlegt, að vera byggð 1907 og standa á einskonar brunareit en forverar allra þessara húsa brunnu til grunna þann 18. október 1906. Þar brunnu til ösku a.m.k. sjö tiltölulega nýleg hús (það elsta var byggt 1885 eða 21 árs) og misstu um 80 manns heimili sín en ekki varð manntjón. Hlýtur það að teljast kraftaverk, því menn lögðu sig í mikla hættu við slökkvistarf og einnig tíðkaðist þá, að hlaupa inn í brennandi hús til að bjarga verðmætum. Þá breiddist eldur hratt út í timburhúsunum, sem einangruð voru með m.a. hálmi, spónum og reiðingi, svo eflaust áttu margir fótum fjör að launa.
Oddeyrarbruninn mun hafa átt upptök sín í stórhýsinu Horngrýti, Strandgötu 5, og breiddist fljótt yfir í Strandgötu 7 og þaðan austur eftir götunni. Þessi hús voru byggð um 1902-1905 og voru ein þau stærstu og glæsilegustu í bænum. Strandgata 5 var þrílyft á háum kjallara og með burstum og nafnið Horngrýti til komið vegna sérkennilegra bursta sem skreyttar voru útskurði. Strandgata 7 var einnig þrílyft og með miklum turni á vesturenda og því kallað Turnhús. Af myndum að dæma virðast þessi hús hafa verið á stærð við t.d. Menntaskólann (Gamla Skóla, sem þá var Gagnfræðaskóli) og Samkomuhúsið. Fullyrða má, að upprunalegu glæsihýsin við Strandgötu 5 og 7 hafi enginn núlifandi maður séð berum augum.
En á grunni Turnhússins var það hús sem nú stendur á Strandgötu 7 byggt árið 1907. Var þar á ferðinni Jósef Jónsson sem átti Turnhúsið er það brann og hafði þar starfrækt verslun. Fékk hann að reisa hús, 20x15 álnir, á álnar háum grunni, með bakskúr upp að þaki, 3,5x3,5 álnir. [Ein alin, álnir í ft., er 63 cm] Framhlið hússins skyldi fylgja hinni ákveðnu húsalínu og austurstafn skyldi 10 álnir frá húsi Kolbeins Árnasonar [Strandgata 9]. Þetta ákvað Bygginganefnd á fundi sem hún hélt þann 17. júní, en árið 1907 voru jú tæp 40 ár í lýðveldisstofnun svo sá dagur var ekki orðinn sá hátíðisdagur sem hann nú er.
Strandgata 7 er tvílyft timburhús með lágu aflíðandi risi, panelklætt á veggjum og með bárujárni á þaki. Á bakhlið er viðbygging með aflíðandi, einhalla þaki. Krosspóstar eru í gluggum efri hæðar en síðir verslunargluggar á neðri hæð, og lætur nærri, að suður- og vesturhlið neðri hæðar sé einn gluggi. Bárujárn er á þaki og panelklæðning á veggjum. Um er að ræða tiltölulega nýlegar klæðningar, settar á húsið við endurbætur fyrir aldarfjórðungi. Frá upphafi var húsið klætt bárujárni en stórbrunar á borð við þann sem hér varð haustið 1906 vöktu menn til umhugsunar um eldvarnir. Fólust þær aðgerðir í því, að klæða hús að utan óbrennanlegum efnum á borð við járn, blikk og steinskífu og hefta þannig útbreiðslu elds á milli húsa.
Jósef Jónsson, sem byggði húsið, var frá Borgarhóli í Öngulsstaðahreppi. Hann starfaði lengi vel sem ökumaður þ.e. ók vögnum (bílar ekki komnir til sögunnar) en gerðist síðar verslunarmaður. Á meðal barna hans var Jóhannes, glímukappi og athafnamaður, löngum kenndur við Hótel Borg. Ekki er ólíklegt að Jóhannes glímukappi hafi komið að byggingu hússins með föður sínum. Árið 1915 er eigandi hússins Kristín Eggertsdóttir frá Kroppi í Hrafnagilshreppi og rak hún þarna hótel. Kaupfélag Verkamanna og verkalýðsfélög eignuðust húsið árið 1930. Þar höfðu þau fundarsal og skrifstofuaðstöðu um áratugaskeið og margir kannast við húsið sem Verkalýðshúsið, en á neðri hæð voru verslanir, m.a. vefnaðarvörudeild og saumastofa um miðja öldina. Síðustu áratugi 20. aldar var húsgagnaverslunin Augsýn þarna til húsa. Árið 1997 var hafist handa við endurbyggingu hússins sem þá var orðið nokkuð hrörlegt. Á meðal þeirra sem stóðu að þeim framkvæmdum voru hin valinkunnu Grétar Örvarsson og Sigríður Beinteinsdóttir (Sigga og Grétar í Stjórninni). Síðsumars 1997 var opnaður í Strandgötu 7 veitinga- og skemmtistaðurinn Kaffi Akureyri og var hann starfræktur fram yfir 2010. Frá endurbótum hefur veitinga- og skemmtistaðarekstur verið í húsinu og nú er þar veitingastaðurinn Sjanghæ.
Strandgata 7 er látlaust og reisulegt hús og í mjög góðri hirðu, enda aðeins rúmir tveir áratugir frá stórkostlegum endurbótum. Í Húsakönnun frá 2014 er húsið sagt hafa mikið gildi fyrir götumynd Strandgötu sem hluti heildstæðrar götumyndar (Landslag 2014:69) auk þess sem það er aldursfriðað þar sem það er orðið aldargamalt. Húsið mun að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð, að undanskilinni viðbyggingu og gluggaskipan hefur eitthvað verið breytt gegnum tíðina. Húsið er skemmtilegrar og snotrar götumyndar við miðbæjarhluta Strandgötu, vestan Glerárgötu. Um er að ræða fjögur hús, öll byggð árið 1907 eftir Oddeyrarbrunann og öll hlutu þau gagngerar endurbætur árin 1997-2004. Götumynd Strandgötu allrar, frá Bótinni og niður á Oddeyrartanga, er með þeim heilsteyptari og glæstari í bænum, að mestu skipuð húsum frá áratugunum 1880-1920. Myndin er tekin þann 8. desember 2021.
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 328, þ. 17. júní 1907. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vefnum: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1902-1921 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Jón Hjaltason. 2016. Bærinn brennur. Akureyri: Völuspá útgáfa
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík. Örn og Örlygur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2022 | 21:59
Hús við Eyrarveg
Hér er að finna færslur um hús við Eyrarveg. Hvert parhús frá 1-27 tók ég fyrir sem eina heild hvert um sig.
Eyrarvegur 1-3 (1939)
Eyrarvegur 2 (1945)
Eyrarvegur 2a (1950)
Eyrarvegur 4 (1947)
Eyrarvegur 5-7 (1939)
Eyrarvegur 5a-7a (1947)
Eyrarvegur 6 (1942)
Eyrarvegur 8 (1942)
Eyrarvegur 9-11 (1943)
Eyrarvegur 10 (1942)
Eyrarvegur 12 (1943)
Eyrarvegur 13-15 (1943)
Eyrarvegur 14 (1943)
Eyrarvegur 16 (1943)
Eyrarvegur 17-19 (1942
Eyrarvegur 18 (1943)
Eyrarvegur 20 (1943)
Eyrarvegur 21-23 (1942)
Eyrarvegur 25-27 (1947)
Eyrarvegur 25a-27 (1947)
Eyrarvegur 29 (1943)
Eyrarvegur 31 (1945)
Eyrarvegur 33 (1954)
Eyrarvegur 35 (1943)
Eyrarvegur 37 (1949)
Við Eyrarveg sem er um 520 metrar að lengd (að viðbættri nokkurs konar undirgötu, um 130m) standa 25 hús (34 númer) á aldrinum 68-83 ára, byggð 1939-54. Langmest virðist hafa verið byggt við götuna árin 1942-43. Meðalaldur húsa við Eyrarveg árið 2022 er um 78 ár (meðaltal byggingarára 1944,24).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 2
- Sl. sólarhring: 18
- Sl. viku: 230
- Frá upphafi: 445782
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 157
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar