10.6.2022 | 16:10
Hús dagsins: Eyrarvegur 37
Árið 1947 fékk Óskar Gíslason lóðina og leyfi til þess að byggja íbúðarhús samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti en ekki fylgir frekari lýsing. Fullbyggt mun húsið hafa verið 1949. Þessi tiltekna lóð virðist hafa verið nokkuð óþægur ljár í þúfu hjá bygginganefnd því tekið er fram sérstaklega að hann hafi greitt af henni leigu og hann lofi að hefja byggingu strax. En þremur árum fyrr, sumarið 1944, hafði Óskar sótt um lóðina hjá bygginganefnd, eftir að hafa keypt rétt að henni. Engu að síður synjaði bygginganefnd honum frekari réttindum þar sem lóðin hafði gengið kaupum og sölum milli fleiri manna. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson.
Eyrarvegur 37 er einlyft steinhús með lágu valmaþaki. Á austurhlið, sem snýr að Ægisgötu, er útskot að norðan. Veggir eru múrsléttaðir og skiptir, lóðréttir póstar í flestum gluggum. Þegar þetta er ritað stendur yfir endurnýjun á þaki hússins.
Ekki er að sjá í Manntalsspjaldskrá fyrir Akureyri að Óskar Gíslason hafi nokkurn tíma verið búsettur að Eyrarvegi 2. Sá eini með því nafni var búsettur í Ránargötu 2. Hann hefur þannig væntanlega byggt húsið sem verktaki og selt öðrum. Óskar Gíslason var múrarameistari, fæddur árið 1900 í Svarfaðardal og uppalinn á Hálsi í þeirri sveit. Hann sat m.a. í bygginganefnd bæjarins og stjórn Útgerðarfélags Akureyrar. Sem múrarameistari tók hann þátt og stýrði byggingu fjölmargra húsa og bygginga, m.a. hraðfrystihúss téðs Útgerðarfélags. Óskar lést árið 1957, langt fyrir aldur fram. Elsta heimildin, sem finna má á timarit.is um Eyrarveg 37 er auglýsing frá júlí 1949. Þar er herbergi auglýst til leigu á sanngjörnu verði, gegn því að líta eftir krakka tvö kvöld í viku. Fljótlega eftir byggingu hússins eignuðust það þau Jóhann Guðmundsson frá Saurbrúargerði í Grýtubakkahreppi og Freyja Jónsdóttir frá Ólafsfirði. Jóhann stundaði sjóinn á ýmsum Akureyrartogurum, m.a. sem vélstjóri en árið 1960 stofnaði hann fyrirtækið Sandblástur og Málmhúðun og var þar forstjóri um árabil. Bjuggu þau hér um árabil og voru annáluð fyrir gestrisni, m.a. fyrir Ólafsfirðinga, sveitunga Freyju, sem komu með póstbátnum Drangi. En á áratugunum uppúr miðri síðustu öld voru samgöngur með töluvert öðrum hætti en nú er og Ólafsfjörður með afskekktari byggðalögum landsins. Hafa síðan margir átt húsið og búið hér. Hefur það alla tíð verið einbýlishús, en dæmi um að einstaka herbergi hafi verið leigð út, svo sem sjá má framar í þessum texta.
Eyrarvegur 37 í góðri hirðu, þakviðgerðir standa yfir þegar þetta er ritað og hefur húsið fengið ýmsar yfirhalningar á sl. árum. Lóðin er einnig mjög gróskumikil og skrautleg, ber þar á miklum reynitrjám, eflaust frá tíð Jóhanns og Freyju. Í einu þeirra er myndarlegt trjáhýsi sem setur skemmtilegan svip á umhverfi hússins. Steyptur kantur afmarkar lóðina og er hann einnig í mjög góðri hirðu. Húsið stendur á horninu við Ægisgötu. Það er útlitslega í samræmi við götumynd Ægisgötu og tekur þátt í þeirri götumynd, sem er heilsteypt götumynd funkishúsa á einni hæð. Um er að ræða einstaklega yfirgripmsikla og heilsteypta götumynd einlyftra steinhúsa með valmaþökum, sem ætti að hafa hátt varðveislugildi ef ekki bara vera friðuð. Það er a.m.k. álit síðuhafa. Myndin er tekin þ. 22. júní 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1082, 22. ágúst 1947 og nr. 988, 25. ágúst 1944. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2022 | 17:25
Tilræði
Svona hegðun er auðvitað ekkert annað en TILRÆÐI, í besta falli líkamsárás og eignaspjöll. Ekki er það skárra, sem sést á athugasemdakerfum fjölmiðlana, að sumir, allt að því réttlæta þetta; af því hjólreiðamenn virði ekki umferðarlög og taki ekki tillit til annarra. Og að hjól eigi ekki heima á götum (þau eru raunar rétthærri þar en á gangstéttum). Þetta sá maður líka um árið, þegar hið svokallaða "Cyclothon" (liðakeppni í hjólreiðum hringinn um landið) stóð yfir; brögð voru að því, að fáeinir einstaklingar lýstu þeirri skoðun, reyndar frekar í "gamni" en alvöru, að þetta "helvítis pakk sem tefur umferðina á þjóðveginum" og það væri réttast að keyra það niður. Bara vegna þess, að það vogar sér að mögulega tefja (sjálfskipaða) mikilvæga einstaklinga um fáeinar mínútur. Það er rétt vonandi, að fólk með slíkan hugsunarhátt veljist ekki til þess að setja umferðarlög eða fylgja þeim eftir...En bara svo það sé sagt; hjólreiðafólk er aldeilis ekki heilagt og í þeim hópi fyrirfinnast líka tillitslausir einstaklingar. Í allri umferð hlýtur alltaf að gilda, að gagnkvæm tillitssemi og þolinmæði skuli í fyrirrúmi, hvaða farartæki sem í hlut.
![]() |
Hann vísvitandi keyrir mig niður og stingur af |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 8.6.2022 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.6.2022 | 11:46
Hús dagsins: Eyrarvegur 35
Vorið 1943 fékk Þórhallur Guðmundsson lóðina á horni vestan Ægisgötu og Eyrarvegar og byggingarleyfi. Hann fékk að byggja hús á einni hæð á lágum grunni með valmaþaki, 11,50x11 auk útskots að sunnan 3,8x1,4m. Húsið byggt úr steinsteypu með járnklæddu timburþaki. Engar teikningar að húsinu eru fyrirliggjandi á kortavef map.is/akureyri. Það er hins vegar freistandi að leiða að því líkur, að Tryggvi Jónatansson eða einhver lærlinga hans eigi heiðurinn af hönnun Eyrarvegar 35.
Eyrarvegur 35 er einlyft steinhús á lágum grunni og með lágu valmaþaki. Á bakhlið eða norðurhlið er áfastur bílskúr. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar með þverfögum í flestum gluggum.
Fljótlega eftir byggingu hússins eða vorið 1944 auglýsir Þórhallur Guðmundsson húsið til leigu. Hann og kona hans, Lilja Pálína Kristjánsdóttir, munu hins vegar hafa búið þarna til ársins 1949. Þórhallur var frá Dæli í Hálshreppi í S- Þingeyjarsýslu, lengi vel bóndi þar en Lilja var frá Vatnsenda í Saurbæjarhreppi. Næstu eigendur hússins og íbúar voru þau Jónína Sigmundsdóttir og Einar Jónsson en þau komu frá Vopnafirði. Einar var frá Hraunfelli í þeim firði en Jónína frá Torfastöðum í Jökulsárhlíð. Þau bjuggu hér um áratugaskeið með miklum myndarskap. Garðinn ræktuðu þau af mikilli alúð og hlaut hann verðlaun Fegrunarfélags Akureyrar árið 1956. Í þá daga skartaði Oddeyrin mörgum litlum skrúðgörðum við húsalóðir, og enn eru margir glæstir garðar á Eyrinni. Á meðal barna Jónínu og Einars er Jóhann Árelíuz rithöfundur. Hann er fæddur hér (1952) og uppalinn og hafa bernskuárin á Eyrinni löngum verið honum sérlegt yrkisefni. Oddeyrin, á árunum uppúr miðri síðustu öld, var nefnilega alveg sérstakt samfélag og sérlega áhugavert. Jóhann lýsir lífinu í Eyrarvegi 35 og samfélaginu á Oddeyrinni á þessum tíma á einstaklega litríkan og skemmtilegan hátt í bók sinni Eyrarpúkanum, sem út kom 2003. Sjón er sögu ríkari, síðuhafi hvetur lesendur endilega til þess að verða sér út um eintak af Eyrarpúkanum; áður en pistill þessi breytist í eina allsherjar bókagagnrýni.
Eyrarvegur 35 er reisulegt en látlaust hús og í afbragðs góðri hirðu. Sama er að segja af lóðinni, sem einstaklega smekkleg og snyrtileg. Þar standa nokkur ræktarleg og gróskumiklum reynitrjám, væntanlega frá tíð Einars og Jónínu. Lóðin er römmuð inn af steyptri girðingu með járnavirki sem einnig er í frábæru standi. og Eyrarvegur 35 stendur á horninu við Ægisgötu og tekur þannig þátt í götumyndum tveggja gatna. Það er útlitslega í samræmi við götumynd Ægisgötu og tekur þátt í þeirri götumynd, sem er heilsteypt götumynd funkishúsa á einni hæð. Ekki hefur verið unnin húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar, svo ekki liggur fyrir hvort húsið hafi varðveislugildi en um álit síðuhafa í þeim efnum þarf vart að fjölyrða. Myndin er tekin þann 22. júní 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 943, 28. maí 1943.
Manntalsspjaldskrá fyrir Akureyri 1941-50.
Hvort tveggja varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2022 | 10:08
Hús dagsins: Sólgarður
Síðustu vikur hef ég tekið saman söguágrip um félagsheimilin í hreppunum framan Akureyrar, sem nú eru Eyjafjarðarsveit. Rétt að geta þess, áður en lengra er haldið, að í kjölfar skrifa um Þinghúsið á Hrafnagili, hafði samband við mig Jóhann Ólafur Halldórsson. Benti hann mér á það, að leikskólinn Krummakot muni von bráðar flytja úr Þinghúsinu í nýbyggingu við Hrafnagilsskóla. Eftir það er framtíð hins tæplega aldargamla Þinghúss óljós, en vonandi fær það eitthvert hlutverk um ókomin ár. En nú er komið að þriðja félagsheimili Eyjafjarðarsveitar en Sólgarður, í fyrrum Saurbæjarhreppi, hýsir nú eitt af áhugaverðari söfnum landsins...
Sólgarður, fyrrum félagsheimili og skólahúsnæði Saurbæjarhrepps, stendur fast við Eyjafjarðarbraut, undir svonefndum Kirkjuhól, um 28 km framan Akureyrar. Síðastliðna tvo áratugi hefur húsið hýst eitt af áhugaverðari söfnum landsins, Smámunasafnið, en nánar um það síðar í greininni. Sólgarður er byggður í áföngum og er elsti hlutinn byggður 1934 en tveimur áratugum síðar var byggt við húsið og það vígt formlega sem félagsheimili, eftir lögum um félagsheimili.
Sólgarður er þriðja samkomuhúsið, sem reist er á þessum stað neðan við Saurbæ. En fyrst var reist þarna þinghús árin 1897-98. Það reisti Jóhann Jóhannsson í Torfufelli og fór fyrsti fundur þar fram 5. mars 1898. Þinghús þetta reyndist æði skammlíft, því í annáluðu aftakaveðri þann 20. september árið 1900 tók það af grunni og brotnaði í spón. Nýtt hús var tekið í notkun ári síðar og stóð í rúm 30 ár og segir í Byggðum Eyjafjarðar 1990 að endalok þess hafi verið af mannavöldum en ekki veðurguða. Það hafa því miður verið örlög æði margra húsa, sem hefðu verið til prýði, ánægju og yndisauka, stæðu þau enn. Síðar í þessari grein verður einmitt vikið að einu slíku.
Sólgarður er einlyft steinsteypuhús með háu risi. Skiptist húsið í þrjár álmur, miðálmu sem snýr N-S og tvær burstir sem snúa A-V. Kvistir með hallandi þökum eru á báðum burstum. Burstálmurnar skaga eilítið fram til austurs miðað við miðálmu en sú nyrðri er ívið lengri en sú syðri. Miðálman nær aftur lengra til vestur en syðri álman. Húsið er byggt í áföngum á tæplega hálfrar aldar tímabili, miðhlutinn um miðjan 4. áratug, suðurálma 1953-54 og norðurálma 1979-80. Afar ónákvæm mæling á grunnfleti hússins á kortavef gefur til kynna, að suðurálma sé því sem næst 17x10m, miðálma 14x16m og suðurálma 13x10m. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki. Í gluggum eldri hluta hússins eru margskiptir póstar en lóðréttir póstar í yngstu álmunni, þ.e. norðurálmu.
Heimildum ber ekki nákvæmlega saman um byggingarár elsta hluta Sólgarðs. Í Byggðum Eyjafjarðar 1970 er húsið sagt reist 1935-36 en flestar aðrar heimildir segja 1934. Fasteignaskrá segir byggingarárið 1935. En alltént er húsið reist um miðjan fjórða áratug sl. aldar. Þetta tímabil hefur verið nokkurt framfaraskeið á þessum slóðum, því ekki aðeins var reist nýtt þinghús, heldur risu í Saurbæjarhreppi, tvær brýr yfir Eyjafjarðará sumarið 1933. Að byggingu hússins stóðu hreppsfélagið og ungmennafélag hreppsins. Hreppsnefnd Saurbæjarhrepps er nokkuð fáorð um byggingu hins nýja þinghúss. Á fundi hennar 27. mars 1934 nefnir þó Valdimar Pálsson að hreppsfélagið ásamt Ungmennafélaginu og Kvenfélaginu skyldu hugsa til þess, að koma upp nýju samkomuhúsi, sem um leið yrði skólasetur fyrir hluta hreppsins. Þetta mál var síðasta mál fundarins, undir lið 4b sem önnur mál og bókað að málið hafi lítið verið rætt og tekið af dagskrá þar sem fundarmenn voru flestir farnir. Í rúmlega tvö ár minnist hreppsnefnd ekki einu aukateknu orði á þinghús eða samkomuhús, nema hvað, 14. júní 1936 er fundur nefndarinnar haldinn í þinghúsi hreppsins. Mætti þannig álykta, að hreppsbúar hafi einfaldlega látið verkin tala og byggt sér nýtt þinghús án þess að hafa um það mörg orð á blaði. Þá er lítið sem ekkert að finna í dagblöðum þess tíma um nýtt þinghús í Saurbæjarhreppi. Má það heita nokkuð sérstakt, því húsið hlýtur jú að hafa talist nokkurt stórvirki. Í lok ágúst 1936 er hið nýja samkomuhús brunabótavirt og er þá sagt eftirfarandi: Steinsteypt samkomuhús með tvöföldum veggjum. Húsið er einlyft. Fyrirkomulag hússins: Í norðurenda er samkomusalur með leiksviði. Í suðurenda er forstofa, skólastofa og eldhús. Tvö eldstæði eru í húsinu og tveir reykháfar, allt samkvæmt brunamálalögum. Stærð 16,7x7,7m og hæð 4 m (Brunabótafélag Íslands, nr. 64, 1936). Húsið er þá virt á 10.000 kr en til samanburðar má nefna, að árið 1936 kostaði þvottaefnispakki 55 aura. Eins og oft tíðkaðist í sveitum landsins varð hið nýja samkomuhús einhvers konar fjölnotahús (löngu áður en það hugtak varð til) því fljótt var húsið nýtt undir kennslu. Fyrst sóttu skólann börn af næstu bæjum en árið 1946 var húsið nýtt sem skólahúsnæði fyrir allan hreppinn og reyndist það einfaldlega allt of lítið.
Árið 1947 voru sett ný lög um félagsheimili og á næsta áratug eftir það voru byggð þrjú vegleg félagsheimili í hreppunum framan Akureyrar, eitt í hverjum hreppi. Freyvangur í Öngulsstaðahreppi var reistur árin 1954-57 og Laugarborg í Hrafnagilshreppi árin 1956-59. En fyrsta félagsheimili Eyjafjarðar, samkvæmt nýju lögunum var Sólgarður og var húsið tekið í notkun í lok október 1954. Það má e.t.v. segja, að Saurbæjarhreppur hafi þarna haft ákveðið forskot, því um var að ræða viðbyggingu við hús sem var fyrir, á meðan hin húsin voru nýbyggingar frá grunni. En engu að síður var um stórkostlega framkvæmd að ræða. Þessar byggingarframkvæmdar fólust í því, að byggt var við húsið til suðurs, álma á einni hæð með háu risi. Þá hefur upprunaleg álma líkast til verið stækkuð, því í upprunalegu brunabótamati er breidd hennar sögð 7,7 m en nú mun hún um tvöfalt breiðari. Bæjarblöðin á Akureyri segja mjög ítarlega frá vígslu hússins og byggingasögu. M.a. er þessi grein úr Degi 3. nóv. 1954 sem ber yfirskriftina Fyrsta félagsheimilið í Eyjafirði vígt sl. laugardag og skírt Sólgarður. Er hún ein helsta heimild þessa söguágrips hér. En það var árið 1948 sem Daníel Sveinbjörnsson í Saurbæ, formaður skólanefndar, hóf undirbúningsvinnu. Sótti hann ítrekað um í félagsheimilasjóði en hafði þó ekki erindi sem erfiði fyrr en fjórum árum síðar. Skipuð var bygginganefnd sem samanstóð af fulltrúum frá hreppsnefndinni, skólanefnd og félögum hreppsins. Það var svo vorið 1953, nánar tiltekið þann 14. maí sem framkvæmdir hófust. Byggingastjóri var Þórður Friðbjarnarson og téður Daníel Sveinbjörnsson formaður bygginganefndar en flestir hreppsbúar komu að byggingu hússins með einum eða öðrum hætti, hvort heldur sem var með sjálfboðavinnu eða gjöfum. En á meðal verktaka, sem að byggingunni komu voru m.a. Tryggvi Sæmundsson og Pétur Gunnlaugsson sem önnuðust múrverk, Viktor Kristjánsson lagði raflagnir, lagnadeild KEA annaðist pípulagnir og Herbert Sveinbjarnarson málningarvinnu. Trésmíðaverkstæðið Lundur setti upp eldhúsinnréttingar og terrasso annaðist terrassolagningameistarinn Christofferssen. Teikningarnar voru gerðar á Teiknistofunni Ármúla 6, en ekki fylgir sögunni hver hélt þar á blýanti.
Eftir ríflega 17 mánaða framkvæmdir rann vígsludagurinn, 30. október 1954, upp. Voru þar veisluföng og ræðuhöld, söngur og dans fram eftir nóttu. Þar fór einnig fram kosning meðal veislugesta um nafn á hinu nýja félagsheimili. Um var að ræða fimm tillögur að nöfnum og varð Sólgarður hlutskarpast. Hinar nafnatillögurnar voru Végarður, Árgarður, Hólmgarður og Miðgarður. Í Degi 1. sept. 1954 birtist lýsing á skipulagi hússins, sem þá var í byggingu. Grunnflötur var sagður 260 fermetrar. Í kjallara var kyndirými, fatageymslur, snyrtingar og fundarsalur. Á aðalhæð forstofa, samkomusalur, leiksvið, kennslustofa, eldhús og bókasafn. Í risi var svo íbúð og kvikmyndaklefi. Kostnaður við húsið um 500 þúsund. Fjárframlög til byggingarinnar skiptust með eftirfarandi hætti: Sveitarsjóður hreppsins lagði til 105 þúsund kr., Félagsheimilissjóður 95.200 kr., Menningarsjóður KEA 10 þúsund kr., Ungmennafélag Saurbæjarhrepps 17 þús. kr., Ungmennafélagið (Bindindisfélagið) Dalbúinn 10.550 kr., Kvenfélagið Hjálpin 5.745.00 kr., Búnaðarfélag Saurbæjarhrepps 5000 kr., (það félag veitti einnig 10.000 kr. lán), Mjólkurflutningafélag Saurbæjarhrepps 10.000 kr. og Slysavarnadeild Saurbæjar- og Hrafnagilshrepps 1000 kr. Þá námu peningagjafir frá einstaklingum 10.200 kr. og sjálfboðavinna metin 30 þúsund. Munaði þar eflaust miklu, að bílstjórafélag hreppsins gaf alla vinnu við flutninga. Og til þess að setja upphæðirnar í eitthvert samhengi má nefna, að 1954 kostaði kílóið af Jaffa appelsínum 9,50 kr., döðlur 11 kr. og sveskjur 16 kr.
Næstu áratugi fóru hinar ýmsar samkomur hreppsins, dansleikir, leiksýningar, þorrablót, jólaskemmtanir, fundir, markaðir og ýmis konar mót fram í Sólgarði. Auk þess sem það var skólahús hreppsins. Um 1980 var byggt við húsið til norðurs, sams konar álma og norðanmegin, ein hæð með háu risi. Fékk húsið þá það lag sem það nú hefur, nokkurs konar samhverft burstalag. Þannig fékk skólinn viðbygginguna frá 1954 til afnota og stækkaði kennslurýmið sem því nam, en í nýju viðbótinni voru bókasafn, kaffistofa, anddyri og snyrtingar. Þar var auk þess íbúð skólastjóra. Teikninguna að þessari stækkun gerði Mikael Jóhannsson. Sólgarður hýsti skóla Saurbæjarhrepps allt þar til hrepparnir framan Akureyrar sameinuðust í Eyjafjarðarsveit árið 1991. Og gott betur en það, því í Sólgarði var skólasel fyrir yngstu nemendur Hrafnagilsskóla, búsetta fremst í firðinum, allt til 1995. Síðustu ár 20. aldar var nokkurs konar óvissutímabil fyrir félagsheimilin í hreppunum þremur sem saman mynduðu Eyjafjarðarsveit. En fljótlega var mörkuð stefna fyrir framtíð þeirra, Laugarborg skyldi vera tónlistarhús, Freyvangur aðsetur samnefnds leikfélags en í Sólgarð flutti eitt af áhugaverðari söfnum landsins, Smámunasafnið, og er þar enn.
Smámunasafnið var opnað í Sólgarði í júlí 2003. Safninu er eiginlega erfitt að gera skil í fáum málsgreinum, sjón er sögu ríkari. En það geymir afrakstur mikillar munasöfnunar Sverris Hermannssonar, húsasmiðs, sem lengst af var búsettur í Aðalstræti 38. Söfnun Sverris fólst ekki hvað síst í því, að hann henti aldrei nokkrum sköpuðum hlut; á safninu má m.a. sjá safn blýantsstubba, notaðra nánast upp til agna. Auk handverkfæra, penna, reykjarpípa, hnífa, bora, barmmerkja, smárra heimilistækja og eins og sagt er; nefndu það bara og það má finna á Smámunasafninu. Sverrir kom að endurgerð fjölmargra gamalla húsa og tók þá ævinlega spýtur, nagla eða annað smálegt úr þeim. Á Smámunasafninu er m.a. varðveitt fjöl úr hinu mikla Snorrahúsi, sem stóð við Strandgötu 29 og var eitt af stærstu timburhúsum bæjarins. Er það eitt þeirra húsa, sem betur hefði farið á, að varðveita og væri þá bæjarprýði hin mesta en var, illu heilli, rifið haustið 1987. Greinarhöfundur mælir eindregið með heimsókn í Smámunasafnið.
Sólgarður er glæst og reisulegt hús, burstirnar setja á það skemmtilegan svip, og er til mikillar prýði í fögru umhverfi. Húsakönnun, sem unnin var um fundarhús og skóla í sveitum landsins metur ekki varðveislugildi einstakra húsa en segir hús á borð við Sólgarð almennt; [...] hafa nánast öll menningarsögulegt gildi fyrir viðkomandi byggðir, íbúa þeirra og þá sem eiga ættir að rekja til svæðisins. Sameiginlegar minningar tengjast húsunum og því starfi sem þar fór fram. Það eitt er næg ástæða til að réttlæta varðveislu þeirra. Í sumum tilvikum eru skóla- og fundarhús eini áþreifanlegi vitnisburðurinn um samfélag sem nú er horfið eða hefur tekið miklum breytingum (Árni Kjartansson og Pétur H. Ármannsson 2010: 14). Greinarhöfundur tekur að sjálfsögðu undir hvert orð, sem þarna kemur fram. Myndirnar eru allar teknar 13. júní 2020 að undanskildum myndunum af bakhlið Sólgarðs og skiltinu (Sólgarður 1954) en þær eru teknar 20. maí 2022.
Heimildir:
Án höf. Félagsheimilið í Saurbæ nær fullbyggt. Í Degi, 37.árg., 38. tbl., 1. sept. 1954.
Án höf. Fyrsta félagsheimilið í Eyjafirði vígt sl. laugardag og skírt Sólgarður Í Degi, 37. árg. 47. tbl., 9. nóv. 1954.
Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar I bindi. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Brunabótafjelag Íslands: Virðingabók Brunabótafélags Íslands Saurbæjarhreppsumboð, bók I (1930-1944) Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Gjörðabók Hreppsefndar Saurbæjarhrepps 1917-1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Gláma-Kím; Árni Kjartanson og Pétur H. Ármannsson. 2010. Fundarhús og skólar í sveitum landsins. Könnun á fjölda og ástandi varðveittra húsa frá fyrri hluta 20.aldar. Reykjavík: Minjastofnun. Pdf-skjal aðgengilegt á slóðinni Microsoft Word - Fundarhus inngangur PHA yfirl-ÁK.doc (minjastofnun.is)
Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Hér eru svipmyndir af Smámunasafni Sverrir Hermannssonar í Sólgarði:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2022 | 15:18
Hús dagsins: Eyrarvegur 33
Þeir Ásgeir og Jóhannes Kristjánssynir fengu lóðina Eyrarveg 33 árið 1949 og í kjölfarið, leyfi til þess að byggja tveggja hæða hús. Er það í maí og júní, en í byrjun september 1949 fá þeir leyfi til þess að setja kjallara undir hluta hússins, nánar tiltekið austurhlutann. Árið 1954 fær Jóhannes leyfi til þess að byggja bráðabirgðaþak, þar eð hann geti ekki byggt efri hæðina að sinni. Endanlegt útlit mun húsið hafa fengið um 1962, er gerðar voru á því breytingar, eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar. Upprunalegt útlit hússins sést hins vegar á raflagnateikningum Gústavs Jónassonar frá 1949, þar er húsið sýnt tvær hæðir með lágu valmaþaki, ekki ósvipað næstu húsum við Ránargötu. Núverandi lag mun húsið hafa fengið eftir breytingar 1962, en teikningarnar að þeim gerði Mikael Jóhannsson
Eyrarvegur 33 er þrílyft steinhús með einhalla þaki. Þriðja hæðin nær aðeins yfir hluta grunnflatar hússins, nánar tiltekið nyrðri helminginn en á lægri hluti hússins er einnig einhalla þak, sem hallar á móti þaki hærri hluta. Lóðréttir póstar eru í flestum gluggum, veggir múrsléttaðir og bárujárn á þaki. Á framhlið eða suðurhlið er útskot og svalir.
Ekki hafa eigendaskipti á húsinu verið tíð, en Jóhannes Kristjánsson og Ólafía Jóhannesdóttur sem byggðu húsið bjuggu hér fram allt til ársins 2017, að þau fluttu á Dvalarheimilið Hlíð. Jóhannes var frá Syðra- Hvarfi í Skíðadal en Ólafía mun hafa verið að vestan, árið 1930 á Ytrihúsum í Ísafjarðarsókn (heimild: Íslendingabók). Jóhannes var bifvélavirkjameistari og rak bílaverkstæði um áratugaskeið í Gránufélagsgötu 47. Jóhannes Kristjánsson var landsþekktur skot- og stangveiðimaður, valinkunnur fyrir fengsæld og góða veiði, hvort heldur sem var með veiðistöng eða byssu. Jóhannes var sonur þeirra Kristjáns Jakobssonar og Soffía Jóhannesdóttur, sem byggðu Eyrarveg 29 árið 1943. Þau Jóhannes og Ólafía höfðu verið gift í 72 ár þegar Jóhannes lést, 2017, en þau fögnuðu platínubrúðkaupi sumarið 2015.
Eyrarvegur 33 er stórbrotið og reisulegt hús. Það er í mjög góðu ástandi og hefur líkast til alla tíð hlotið fyrirtaks umhirðu og viðhald. Steypt lóðrétt munstur undir þakbrúnum setja skemmtilegan svip sem og sérstakt byggingalag þess, en húsið sker sig nokkuð úr umhverfinu en það skemmtilega og til prýði. Lóðin er einnig gróin og vel hirt og ber þar mikið á litríkum blómabeðum sem og gróskumiklum trjám, m.a. reynitrjám og stórvöxnu greni. Hafa þau heiðurshjón, Jóhannes og Ólafía, væntanlega lagt í garðinn mikla alúð og natni þá mörgu áratugi, sem þau bjuggu þarna. Á lóðarmörkum er steyptur veggur með járnavirki og er honum einnig vel við haldið. Ekki hefur verið unnin húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar svo ekki liggur fyrir hvort húsið, eða önnur hús við Ránargötuna, hafi varðveislugildi en húsið er hluti mikillar heildar sams konar húsa m.a. við Norðurgötu og Ránargötu og hluta Eyrarvegar. Er þessi heild dæmi um þyrpingu samstæðra húsa, órofa heild í rótgrónu hverfi. Slíkar heildir ættu ætíð að hafa eitthvert varðveislugildi. Í húsinu hafa jafnan verið tvær íbúðir, ein á neðri hæð og önnur á efri hæðum.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1108, 20. maí 1949. Nr. 1109, 10. júní 1949. Nr. 1113, 2. sept. 1949. Nr. 1200, 20. ágúst 1954 Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2022 | 17:54
Hús dagsins: Eyrarvegur 31
Gunnar Jósepsson reisti Eyrarveg 31 árið 1944 eftir teikningum Hjalta Espólín. Í aprílmánuði 1944 fékk Gunnar Jósepsson, sem tekið er fram í bókun Bygginganefndar, að sé búsettur á Hótel Gullfossi fékk lóðina á horni norðan Eyrarvegar og vestan Ránargötu. Ekkert byggingarleyfi virðist að finna undir hans nafni en árið 1945 fær Gunnar löggildingu sem byggingameistari innan Akureyrar. Haustið 1946 fær Gunnar leyfi til þess að steypa girðingu og er þá húsið risið. Upprunalegar teikningar að húsinu eru ekki aðgengilegar á kortavefnum en þar má hins vegar raflagnateikningar Ingva Hjörleifssonar frá 1945.
Eyrarvegur 31 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki. Allt er húsið bárujárnsklætt, veggir og þak, og lóðréttir póstar með þverfögum í flestum gluggum. Horngluggar í anda funkisstefnu eru til suðausturs og norðvesturs, og svalir til suðausturs á efri hæð. Í upphafi var húsið með flötu þaki og var lítill ferkantaður turn á horni hússins en hann var tekinn niður þegar þak var endurnýjað um 2006.
Gunnar Jósefsson (1909-1984), sem byggði húsið, var frá Atlastöðum í Sléttuhreppi. Hann var búsettur hér í bæ frá 1944 er hann byggði Eyrarveg 31 og til 1955 er hann flutti til Reykjavíkur. (Ath. í heimildum er Gunnar ýmist sagður Jóseps- eða Jósefs-son, f eða p). Á þeim árum rak hann Dráttarbraut Akureyrar en Gunnar fékkst jafnt við húsbyggingar og skipasmíðar. Eftir að hann flutti suður var hann m.a eftirlitsmaður hjá Hitaveitu Reykjavíkur en fékkst síðar við byggingaframkvæmdir m.a. við hafnaframkvæmdir víða um land. Gunnar og kona hans, Ólöf Magnúsdóttir frá Ólafsfirði, bjuggu hér í rúman áratug. Árið 1955, er þau fluttu suður seldu þau húsið Steindóri Jónssyni. Hafa síðan margir átt húsið og búið hér. Um 2006 voru gerðar smávægilegar breytingar á húsinu, eftir teikningum Árna Gunnars Kristjánssonar M.a. var turn á þaki tekinn burt og nýtt þak byggt á húsið og það klætt að utan.
Eyrarvegur 31 er reisulegt og traustlegt hús og í mjög góðri hirðu og skartar m.a. nýlegu þaki og klæðningu á veggjum. Það er hluti mikillar þyrpingar tveggja hæða steinhúsa í funkisstíl, frá 5. og 6. áratug sl. aldar. Lóðin er einnig gróin og vel hirt og enn stendur hluti steypta veggjarins, sem Gunnar reisti árið 1946. Á suðausturhorni lóðarinnar stendur myndarlegur hlynur, líklega garðahlynur. Setur hann mikinn svip á umhverfið og er til mikillar prýði, en hlyntré eru ekki algeng í görðum Akureyrar. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein á hvorri hæð. Myndirnar eru teknar þ. 22. júní 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 972, 21. apríl 1944, nr. 1022, 8. júní 1945, nr. 1065, 7. okt. 1946 Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri
Bloggar | Breytt 24.5.2022 kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2022 | 18:02
Hús dagsins: Þinghúsið á Hrafnagili
Um daginn tók ég fyrir Laugarborg, fyrrum félagsheimili Hrafnagilshrepps og var umfjöllunin hluti nokkurs konar "félagsheimilaþríleiks" um félagsheimili hreppanna þriggja framan Akureyrar. En eins og góðum þríleik sæmir, endar hann í fjórum greinum, því áður en við bregðum okkur fram í Saurbæjarhrepp, að Sólgarði, þótti mér nauðsynlegt að taka fyrir forvera Laugarborgar, hið tæplega aldargamla Þinghús.
Í miðju Hrafnagilshverfi, skammt norðan Reykárgils, nánar tiltekið við Laugartröð 4, stendur leikskóli Eyjafjarðarsveitar, Krummakot. Húsnæði hans á sér merka sögu sem spannar tæp 100 ár en elsti hlutinn, sá vestasti, er fyrrum þinghús og samkomuhús Hrafnagilshrepps. Húsið var reist árið 1924 og formlega tekið í notkun í mars 1925. Byggingin var á sínum tíma afrek metnaðarfullra og eljusamra hreppsbúa með Ungmennafélagið Framtíð í broddi fylkingar.
Í upphafi 3. áratugarins hafði lengi staðið til að reisa samkomuhús. Skriður komst þó fyrst fyrir alvöru á málið snemma árs 1923 þegar Ungmennafélagið Framtíð leitaði samkomulags við sveitarstjórn um byggingu samkomuhúss. Bauðst félagið m.a. til þess að leggja fram 2000 krónur í peningum og gefa vinnu við bygginguna en skilyrði var, að verkinu lyki á árinu 1925. Skemmst er frá því að segja, að stjórnin gekk að þessu tilboði Ungmennafélagsmanna. Hófst þar með vinna að undirbúningi málsins, ásamt frekari samningum við Ungmennafélagið. Einar Jóhannesson múrarameistari á Akureyri var fenginn til þess að gera kostnaðaráætlun og hljóðaði hún upp á 10 þús kr., 7500 í efniskostnað og 2500 í vinnu. Það var svo á útmánuðum 1924 sem samþykkt var endanlega að reisa þinghús á Reykáreyrum á landareign Hrafnagils og hófst byggingin um vorið. Yfirsmiður var ráðinn Jónas Kristjánsson en að byggingunni komu margir innan hreppsins, meðlimir Ungmennafélagsins og fleiri. Það var raunar saga flestra félagsheimila, að þau voru reist fyrir samtakamátt hreppsbúa og allir vildu þar leggja hönd á plóg. Ekki liggja fyrir heimildir um hönnuð hússins, en fram kemur að Ungmennafélagið hafi lagt fram uppdrátt á fyrstu stigum málsins. En hvorki kemur fram hver teiknaði, né heldur hvort sú teikning réði endanlegu útliti hússins. Kannski hefur Einar Jóhannesson múrarameistari, sem vann kostnaðaráætlunina fyrir húsið, einnig gert endanlegar teikningar að húsinu. Á meðal húsa sem Einar hannaði er t.d. Brekkugata 23.
Þinghúsið frá 1924 er tvílyft steinhús með háu risi. Að norðan er viðbygging sem er m.a. stigahús til norðurs. Grunnflötur þess er u.þ.b. 9x12m og viðbyggingin að norðan u.þ.b. 8x4m en þar er um að ræða ónákvæma mælingu á kortavef map.is. Húsið er klætt steníplötum á veggjum, bárujárni á þaki og krosspóstar eru í flestum gluggum. Að austan eru viðbyggingar (álmur) og eru þær byggðar úr timbri. Miðálman, byggð 1984 er með lágu risi en austasta álman, frá 1998 er með háu risi. Krosspóstar eru í flestum gluggum elsta hluta hússins en ýmist þverpóstar eða krosspóstar í viðbyggingum.
Eins og gjarnt er með stórvirki hafði meðgöngutími þessarar framkvæmdar verið æði langur, en þegar bygging hússins hófst var liðinn aldarfjórðungur frá því fyrst var hreyft við hugmyndum um byggingu þinghúss. En það var á hreppsnefndarfundi þann 7. mars 1899. Komu þær fyrstu hugmyndir eiginlega til af því, að hreppsnefndin lenti á hrakhólum er Jónas Jónasson prófastur á Hrafnagili hugðist segja henni upp afnotum af húsnæði sínu. Hvers vegna kom ekki fram, enda bar honum varla nein skylda til þess að sjá hreppsnefndinni fyrir fundaraðstöðu. Jónas bauðst hins vegar til þess að lána húsrúm með því skilyrði, að byggt yrði sérstakt þinghús á svokölluðum Kóngshúsum [þar sem nokkrum árum síðar hófst skógrækt og er nú þekkt sem Ungmennafélagsreiturinn eða Aldísarlundur]. En hinn valinkunni stórbóndi og athafnamaður Magnús Sigurðsson á Grund bauðst þá til þess að lána hreppsnefndinni húsnæði til funda, og það til næstu 50 ára. Var hreppsnefnd því komin í öruggt skjól til frambúðar. En það hefur varla verið opinber stefna hreppsnefndar að vera inni á gafli hjá Magnúsi eða afkomendum hans til eilífðarnóns. Svo má sjá á bókunum Hreppsnefndar, að á árunum upp úr 1920 fundar hún víða um sveitina, m.a. Hrafnagili, Litla-Hóli, Kroppi og Hranastöðum og giskar undirritaður á, að nefndarmenn hafi einfaldlega skipst á að hýsa fundina.
Fyrsti fundur mun hafa verið haldinn í húsinu 25. janúar 1925 (sbr. Eyjafjarðarsveit 2005: 59) en formlega var það tekið í notkun þann 15. mars það ár. Dagblöð þess tíma hafa ekki mörg orð um vígsluna, en fundargerð hreppsnefndar frá vígslunni (sem var í raun hreppsnefndarfundur)lýsir henni nokkuð nákvæmlega. Þar segir að oddviti hafi afhent húsið hreppsbúum til almennra afnota, ásamt yfirliti um byggingakostnað, minnst þeirra sem komu að byggingunni. og rakið all ítarlega sögu þinghúsbyggingarmálsins allt frá 1899 er hugmyndir komu fyrst fram. Þá minntist hann þeirra hugsjóna, framtíðarvona og ætlunarverka sem við þetta hús væru og ættu að vera tengdar. Svo segir orðrétt: Var þá fundinum snúið í skemmtisamkomu. Hófst þá söngur og óbundin ræðuhöld og kvæðaupplestur. Frumsamin vígslukvæði fluttu þeir Davíð Jónsson hreppstjóri á Kroppi og Júlíus bóndi Ólafsson í Hólshúsum. Stóð fagnaður þessi alt [svo] til kvölds, og voru fundarmenn hinir ánægðustu Hreppsnefnd Hrafnagilshrepps 1925:15. mars (án nr./bls.).
Í upphafi var samkomusalur á efri hæð og upphækkað leiksvið syðst í salnum en hesthús og eldhús á neðri hæð. Þann 19. mars 1925 mátti sjá í degi auglýsta íbúð í Þinghúsi Hrafnagilshrepps en búið var í húsinu um árabil (síðast mun fólk hafa búið þarna yfir sumartíman um 1970). Og tveimur mánuðum síðar auglýsir Kristinn Jónsson opnun kaffistofu í húsinu. Hér (Dagur, 9. sept. 1995) segir fyrrum íbúi Þinghússins frá minningum frá 4. áratug síðustu aldar. Þarna má einnig sjá mynd af Þinghúsinu frá þeim tíma og sýnir hún upprunalegt útlit þess. Í húsinu fóru fram, auk funda sveitastjórna hinir ýmsu viðburðir, dansleikir og leiksýningar og á tímabili ráku Kvenfélagið Hlíf og Verkakvennafélagið Eining barnaheimili í húsinu. Þegar nálgaðist miðja öldina þótti einsýnt, að Þinghúsið á Hrafnagili væri orðið ófullnægjandi sem félagsheimili hreppsins. Hafði þó verið byggt við húsið til norðurs (óvíst hvenær, líklega á fjórða áratugnum, eftir 1935) en ljóst var að hreppurinn þyrfti meira rými til samkomuhalda. Það var því árið 1956, að hafist var handa við byggingu nýs félagsheimilis, Laugarborgar, sem tekið var í notkun vorið 1959. Var hinu nýja félagsheimili einnig valinn staður á Reykáreyrum, skammt sunnan við Þinghúsið. Eftir það þjónaði húsið sem skólahúsnæði en áður hafði kennslan farið fram að Grund og Kristnesi. Í fjóra áratugi var barnaskóli í húsinu, fyrst Barnaskóli Hrafnagilshrepps og fram til 1998 hýsti þinghúsið yngstu bekki Hrafnagilsskóla, sem stofnaður var 1971. Árið 1984 var byggt við húsið til álma til austurs, timburhús á einni hæð með lágu risi, tengd eldra húsinu með anddyrisbyggingu. Í viðbyggingunni voru tvær kennslustofur, næsta rúmgóðar í samanburði við stofurnar í eldra húsinu. Þess skal að sjálfsögðu getið hér, að í húsi þessu hóf greinarhöfundur sína grunnskólagöngu haustið 1991. Nánar tiltekið var það í stofunni syðst á efri hæðinni. Árið 1998 fluttist leikskólinn Krummakot í húsið, samhliða því, að öll starfsemi Hrafnagilsskóla fluttust í aðalbyggingu hans austan Eyjafjarðarbrautar. Var þá byggt við vesturálmuna, timburhús með háu risþaki og fékk húsið þá það lag sem það nú hefur.
Þinghúsið á Hrafnagili eða Leikskólinn Krummakot er glæst bygging og í mjög góðri hirðu og sömu sögu er að segja af lóð og nánasta umhverfi. Frágangur viðbygginga og tengingar á milli álma eru eins og skólabókardæmi um það, hvernig standa skal að viðbyggingu gamalla húsa. Skil á milli Þinghússins frá 1924 og nýrri byggingahluta eru skörp og greinileg og þannig að upprunalega húsið nýtur sín nokkurn veginn til fullnustu. (Það hefur semsagt ekki verið kaffært í nýrri viðbyggingum). Húsakönnun, sem unnin var um 2010, um fundarhús og skóla metur það engu að síður svo, að steníklæðning og viðbyggingar dragi úr útlitsgildi hússins. Þar er varðveislugildi hins vegar ekki metið. Það hlýtur hins vegar að vera ljóst, að varðveislu- og ekki síst menningarsögulegt gildi hússins hlýtur að vera töluvert. Þá styttist í að elsti hluti hússins verði aldursfriðaður, en það gerist við 100 ára markið. Og í þessa tæpu öld hefur alla tíð verið líf og fjör í Þinghúsinu, fyrst samkomur og skemmtanir hreppsbúa og fundir sveitarstjórna og síðar meðal skóla- og leikskólabarna. Og um ókomin ár munu yngstu íbúar Eyjafjarðarsveitar væntanlega eiga skjól á Krummakoti, í hinu aldna Þinghúsi á Reykáreyrum. Meðfylgjandi myndir eru teknar 11. maí 2022.
Myndin er tekin af hól nokkrum norðan Reykárgils og sýnir Reykáreyrar. Horft til austurs. Þinghúsið til vinstri en Laugarborg til hægri. Gatan Laugartröð liggur þarna undir brekkunum en Hrafnagilsskóli neðan Eyjafjarðarbrautar vestri.
Teikningar að húsinu virðast ekki aðgengilegar á vefnum. Hins vegar ákvað höfundur að freista þess, að teikna upp húsið eftir minni. En eins og fram kemur, sat undirritaður þarna fyrstu fjóra bekki grunnskóla. Tekið skal fram, að höfundur hefur ekki komið þarna inn fyrir dyr í 27 ár. Myndin er undir áhrifum frá teikningum Jónasar Rafnar, sem um miðja síðustu öld teiknaði upp torfbæi í hreppunum framan Akureyrar. Meðfylgjandi teikning sýnir þannig grunnfleti Þinghússins eða yngstu deilda Hrafnagilsskóla á 10. áratug sl. aldar, eingöngu eftir (stopulu) minni greinarhöfundar. Auðvitað er þessi teikning aðeins til gamans, með öllum fyrirvörum, og án nokkurrar ábyrgðar.
Heimildir:
Eyjafjarðarsveit. 2007. Aðalskipulag 2005-25. Greinargerð. Pdf skjal, sótt í nóvember 2021 á slóðina. https://www.esveit.is/static/files/Adalskipulag%202005-2025/Greinagerd%20II%20%20%20%20Forsendur.pdf
Gláma-Kím; Árni Kjartanson og Pétur H. Ármannsson. 2010. Fundarhús og skólar í sveitum landsins. Könnun á fjölda og ástandi varðveittra húsa frá fyrri hluta 20.aldar. Reykjavík: Minjastofnun. Pdf-skjal aðgengilegt á slóðinni Microsoft Word - Fundarhus inngangur PHA yfirl-ÁK.doc (minjastofnun.is)
Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Hreppsnefnd Hrafnagilshrepps. Fundargerðir 1899-1928. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu og aðgengilegt á vefnum: Gjörðabók hreppsnefndar Hrafnagilshrepps 1899-1928 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. (Meðfylgjandi teikning er gerð eftir þeirri forskrift, sem þar birtist og því telst það rit til heimildar hér)
Hreiðar Hreiðarsson veitti góðfúslega heimildir um m.a. hvenær búið var í húsinu, hvenær skólastarf hófst þar, gegnum Facebook-síðuna Hrafnagilshreppur hinn. Eru honum færðar bestu þakkir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2022 | 21:13
Meðmæli: Húsin í bænum
Einn af áhugaverðari þáttum, ef ekki sá áhugaverðasti, sem í boði eru á dagskrá íslenskra sjónvarpsstöðva um þessar mundir er sýndur á N4 á fimmtudagskvöldum. Um er að ræða þáttinn Húsin í bænum í umsjón Árna Árnasonar arkitekts. Í þáttunum leiðir Árni áhorfendur um götur bæjarins og kynnir ekki aðeins húsin sem fyrir augu bera heldur hverfin og byggingaheildir og raunar allt nánasta umhverfi þeirra. Hann fjallar um húsin og hverfin út frá sjónarhorni arkitektúrs og skipulags og hefur þar einstaklega næmt auga fyrir því, hvernig byggingarnar og umhverfin "tala saman" og mynda órofa heildir og kynnir auk þess margar áhugaverðar hugmyndir um, hvernig hlutirnir gætu verið eða ættu að vera. Það er nefnilega svo, að heilmikil fræði liggja á bak við það, hvernig best er að haga byggingum, stærð þeirra og byggingamagni, til þess að hámarka ánægju og vellíðan íbúana. En sjón er sögu ríkari. Mæli með Húsunum í bænum.
Sérstaklega hvet ég nýkjörna bæjarfulltrúa eindregið til þess að kynna sér þessa þætti- um leið og ég óska þeim til hamingju með kosningar sl. helgar. Eins öll þau, sem að skipulagsmálum bæja koma.
Hér er síðasti þáttur Húsanna í bænum, þar sem umfjöllunarefnið er Búðargil og nágrenni:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2022 | 14:02
Hús dagsins: Eyrarvegur 29
Eyrarveg 29 reisti Kristján Jakobsson árið 1943. Síðsumars 1942 var honum úthlutuð lóðin á horninu neðan Norðurgötu, norðan Eyrarvegar. Bókaði bygginganefnd, að lóðin væri utan skipulagðs byggingasvæðis en hana fékk Kristján engu að síður. Það var svo 12. mars 1943 að Kristján fékk leyfi til að reisa hús á tveimur hæðum með valmaþaki, 7,75x10m auk útbyggingar að norðvestan, 1,5x6,6m. Byggt úr steinsteypu með járnklæddu timburþaki. Teikningarnar að húsinu gerði Böðvar Tómasson. Næstu árin á eftir var lóðunum við austanverða Norðurgötu úthlutað, einni af annarri. Var þá hús Kristján Jakobssonar notað sem eins konar viðmið við staðsetningu(t.d. var Norðurgata 48 kölluð fjórða lóð norðan við Kristján Jakobsson).
Eyrarvegur 29 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki, steiningarmúr á veggjum, bárujárn á þaki og lóðréttum póstum í flestum gluggum. Horngluggar í anda funkisstefnunnar snúa mót suðri. En suðurhlið hússins snýr að Eyrarvegi og vesturhlið að Norðurgötu. Á norðurhluta þeirrar hliðar er útskot og áfast því tröppur upp að inngöngudyrum annarrar hæðar. Steypt handrið með tröppulagi setur þar nokkurn svo á húsið.
Kristján Jakobsson vélstjóri og kona hans Soffía Jóhannesdóttir bjuggu um tíma á Syðra- Hvarfi í Skíðadal en höfðu búið á Akureyri um nokkurt árabil er þau reistu Eyrarveg 29. Kristján Jakobsson var fæddur og uppalinn á Oddeyri, nánar tiltekið í Lundargötu 5, árið 1901. Það er dálítið athyglisvert að skoða manntalið árið 1901 fyrir Lundargötu 5. Þar búa alls 23 manns, fjórar fjölskyldur, í húsi sem er um 5,5x7m að grunnfleti og þá var efri hæðin undir súð. (Lundargata 5 fékk núverandi lag um 1925). Þarna er húsið reyndar sagt nr. 4, en árið 1910 hefur húsið fengið núverandi númer. Soffía Jóhannesdóttir mun hins vegar hafa verið úr Svarfaðardal, nánar tiltekið Jarðbrúargerði. Bjuggu þau Kristján og Soffía hér til æviloka, hún lést árið 1962 en hann 1973. Hafa síðan margir búið hér á báðum hæðum hússins, en húsið mun frá upphafi hafa verið tvíbýli.
Eyrarvegur 29 er látlaust en reisulegt tveggja hæða funkishús. Það er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði í umhverfinu og stendur á nokkuð áberandi stað, á horni tiltölulega fjölfarinna gatna. Þá er lóðin gróin og í góðri hirðu, frágangur og ástand húss og lóðar hinn snyrtilegasti. Ekki hefur verið unnin húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar svo ekki liggur fyrir hvort húsið, eða önnur hús við Ránargötuna, hafi varðveislugildi. Húsið er hluti mikillar heildar sams konar húsa við Norðurgötu og Ránargötu. Er þessi heild dæmi um þyrpingu samstæðra húsa, órofa heild í rótgrónu hverfi. Slíkar heildir ættu ætíð að hafa eitthvert varðveislugildi. Meðfylgjandi mynd er tekin þ. 22. júní 2021
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 922, 28. ágúst 1942 og nr. 937, 12. mars 1943. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri
Bloggar | Breytt 11.5.2022 kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2022 | 16:34
Hús dagsins: Laugarborg
Um daginn tók ég fyrir Freyvang, aðsetur hins valinkunna Freyvangsleikhúss og fyrrum félagsheimili Öngulsstaðahrepps. Ég sá það í hendi mér, að ég yrði að fylgja þeirri grein eftir með sambærilegum greinum um hin tvö félagsheimilin í hreppum þeim, er saman mynda Eyjafjarðarsveit. (Einhvers konar félagsheimilaþríleik). Nú er komið að Laugarborg í fyrrum Hrafnagilshreppi.
Laugarborg, sérlegt tónlistarhús Eyjafjarðarsveitar og fyrrum félagsheimili Hrafnagilshrepps stendur um 13 km framan Akureyrar skammt ofan Eyjafjarðarbrautar vestri. Laugarborg var byggð á svonefndum Reykáreyrum, í landi Hrafnagils, beint undir Reykárgili en það skartar m.a. myndarlegum fossi. Laugarborg, félagsheimili Hrafnagilshrepps, var vígð vorið 1959 og leysti af hólmi þing- og samkomuhús hreppsins, sem tekið var í notkun 1925. Það hús stendur enn, spölkorn norðan Laugarborgar og er nú leikskólinn Krummakot. Laugarborg telst standa nr. 2 við götuna Laugartröð en nærri lætur, að Laugarborg standi inn í miðju Hrafnagilshverfi. Þegar húsið var byggt voru næstu hús hins vegar bærinn að Hrafnagili og Þinghúsið. Að frátöldum fáeinum bröggum, sem enn stóðu eftir af miklum kampi setuliðsins frá stríðsárunum.
Það er ekki endilega ljóst hvenær nákvæmlega íbúar Hrafnagilshrepps ákváðu að þinghúsið frá 1925 væri orðið ófullnægjandi til frambúðar samkomuhalds en það hefur verið um eða uppúr miðri öldinni. En það var árið 1956 sem ákvörðun var tekin um byggingu nýs félagsheimilis og hófust byggingaframkvæmdir 1. október það ár. Ýmsar staðsetningar komu til greina en það var að lokum jarðhitinn við Hrafnagil sem réði úrslitum um staðarvalið. Þarna eru nefnilega volgrur og laugar, sem síðar voru virkjaðar til hitaveitu, og nýttust einmitt til upphitunar hins nýja félagsheimilis. Undir brekkunum skammt norðan Laugarborgar var einmitt sundlaug Hrafngilshrepps frá árunum um 1935 og fram til 1961. (Löngu síðar var sá sem þetta ritar oft á vappi þarna sem barn og stóð þá myndarleg fjárrétt á fyrrum laugarstæðinu. Er mér það minnisstætt, hversu ótrúlegt og hreinlega fjarstæðukennt mér þótti, að þarna hefði einhvern tíma verið sundlaug!)
Laugarborg mætti skipta í þrjár álmur, austurálman er tvílyft á kjallara og með lágu risi og snýr stöfnum N-S. Þar, austanmegin, er aðalinngangur í húsið, sem og inngangur í húsvarðaríbúð og fundarsal á efri hæð. Miðálma, sem einnig er tvílyft á lágum kjallara, snýr stöfnum A-V. Vesturhluti hennar er einn geymur, þ.e. samkomusalur hússins. Norður úr austurálmunni er einlyft álma með lágu risi og er þar eldhús. Það orkar e.t.v. tvímælis að kalla þann hluta hússins álmu en ekki útskot. Inngönguskúr til norðurs er úr salarálmu og svalir til vesturs á efri hæð suðurálmu. Laugarborg er byggt úr steinsteypu, múrhúðuð með bárujárn á þaki. Gluggar eru ýmist með þverpóstum eða póstlausir og háir og mjóir gluggar eru í sal. Syðst í húsinu eru anddyri og snyrtingar og úr anddyrinu gengið inn í sal annars vegar og hins vegar kaffistofu. Kaffistofan er austasti hluti miðálmu, aðskilin frá meginsalnum með upphækkun og handriði. Þaðan er gengt inn í eldhúsálmu. Í mjög ítarlegri og greinargóðri frétt Íslendings þann 8. maí 1959 af hinu nýja félagsheimili Hrafnagilshrepps er húsið sagt 350 fermetrar og skiptast þeir eftirfarandi: Salur 120 fermetrar, leiksvið 60 fermetrar, kaffisalur 40 fermetrar, fundarsalur ofan hans annað eins, anddyri og snyrtingar 30 fermetrar, eldhúsálma 42 fermetrar og húsvarðaríbúð 83 fermetrar. Í Byggðum Eyjafjarðar 1990 er salurinn sagður taka 170 manns í sæti.
Sem áður segir hófust byggingarframkvæmdir við Laugarborg haustið 1956 og stóðu þær yfir í tvö og hálft ár. Hönnuðir hússins voru þeir Gísli Halldórsson og Ólafur Júlíusson. Gísli Halldórsson (1914-2012), fæddur og uppalinn á Kjalarnesi, lauk prófi í húsasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík 1935 og hélt í kjölfarið til Danmerkur þar sem hann nam byggingarverkfræði og arkitektúr. Hann stofnaði, á fimmta áratugnum, teiknistofu með Sigvalda Thordarsyni og ráku þeir hana saman til 1948. Eftir það starfrækti Gísli teiknistofu sína einn og síðar í félagi við aðra. Gísli á heiðurinn af mörgum félagsheimilum og þekktum stórbyggingum. Má þar nefna Hótel Esju, Hótel Loftleiðir, Lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík en einnig íþróttamannvirki á borð við Laugardalshöll og íþróttavöllinn þar. Þá teiknaði Gísli einnig félagsheimili Öngulsstaðahrepps, Freyvang, sem stendur nokkurn veginn beint andspænis Laugarborg, austan Eyjafjarðarár. Auk þess teiknaði hann og samstarfsmenn hans á teiknistofunni fjölmörg íbúðarhús, einbýli og fjölbýli. Gísli hlaut Fálkaorðuna 1963 og Stórriddarakross árið 1974.
Til undirbúnings byggingu Laugarborgar var skipuð átta manna bygginganefnd úr röðum hreppsbúa. Í henni sátu þau Aðalsteina Magnúsdóttir á Grund, Svanhildur Eggertsdóttir (Holtsseli) Jón Heiðar Kristinsson (Ytra Felli), Óttar Skjóldal (frá Ytra Gili), Hallgrímur Indriðason (við Kristneshæli), Snæbjörn Sigurðsson (Grund) Frímann Karlesson (Dvergsstöðum) og Halldór Guðlaugsson (Hvammi). Yfirsmiður við bygginguna var Þórður Friðbjarnarson, en hann hafði einnig stýrt byggingu Freyvangs í Öngulsstaðahreppi og Sólgarðs í Saurbæjarhreppi. Bygging var sameiginleg framkvæmd hreppsins, ungmennafélagsins og kvenfélagsins og skiptist eignarhaldið þannig, að Hrafnagilshreppur átti 60%, Ungmennafélagið Framtíð 20% og Kvenfélagið Iðunn 20%. Við byggingu Laugarborgar lögðu þar margir hönd á plóg, sveitungar sem og verktakar og margt unnið í sjálfboðavinnu svo sem tíðkaðist hvarvetna við byggingu félagsheimila. En helstu verktakar, sem komu að einstaka verkefnum við byggingu Laugarborgar voru eftirfarandi: Múrarameistari var Jón Bachmann Jónsson, Þorvaldur Snæbjörnsson rafvirki og Ólafur Magnússon pípulagningameistari sáu um raflögn, pípulögn og miðstöð og vatnsleiðslu, á vegum fyrirtækja KEA en Slippstöðin sá um útihurðir, glugga og ýmsar innréttingar. Friðrik Kristjánsson smíðaði einnig hurðir, afgreiðslu, auk þess sem hann innréttaði húsvarðaríbúð. Málningarvinnu önnuðust Kristján og Hannes Vigfússynir frá Litla- Árskógi. Byggingarframkvæmdir leiddu þeir Snæbjörn Sigurðsson á Grund og Halldór Guðlaugsson í Hvammi og tók sá síðarnefndi við af hinum um leið og húsið var fokhelt. Þá tóku konur í hreppnum sig saman um saumaskap gluggatjalda og gáfu þau. Eftir um tveggja og hálfs árs byggingaframkvæmdir rann loks vígsludagurinn upp, 30. apríl 1959. Frá henni var sagt mjög ítarlega í blöðunum Degi og Íslendingi og eru þær greinar meginheimild þessara skrifa hér.
Fyrstu húsverðir og íbúar Laugarborgar voru Bernharð Pálsson, sem einnig var mjólkurbílstjóri, frá Torfufelli og Guðrún Sveinbjörnsdóttir frá Kolgrímastöðum. Guðrún kenndi m.a. handavinnu við Barnaskóla Hrafnagilshrepps, starfaði í mötuneyti Hrafnagilsskóla eftir stofnun hans og vann síðar í mötuneyti Dvalarheimilisins Hlíðar. Bernharð lést árið 1969 en Guðrún bjó hér áfram og sinnti húsvörslu til ársins 1980. Hafa síðan margir átt heima, og sinnt húsvörslu í Laugarborg. Þegar Laugarborg er flett upp á timarit.is birtast 1367 niðurstöður. Sé þeirri tölu deilt á aldursár hússins, 63, fæst það út, að Laugarborg hefur að jafnaði komið fyrir í prentmiðlum 22 sinnum á hverju ári; það er næstum tvisvar í hverjum einasta mánuði frá maí 1959. Á fyrstu árum ber nokkuð á vormótum stjórnmálaflokka, ásamt héraðsmótum, að ógleymdum dansleikjum. Hafa ófáar hljómsveitir sem og kórar, söngvarar og skemmtikraftar stigið á svið í Laugarborg á þessum rúmum sex áratugum. Hrafnagilsskóli nýtti Laugarborg löngum sem kennsluhúsnæði, þar fór t.d. fram íþróttakennsla áður en núverandi íþróttahús var tekið í notkun og heimilisfræði var kennd í eldhúsi Laugarborgar. Þá hafa árshátíðir skólans um áratugaskeið verið haldnar í Laugarborg.
Þegar hrepparnir þrír framan Akureyrar sameinuðust undir nafni Eyjafjarðarsveitar féll hinu nýja sveitarfélagi þrjú félagsheimili í skaut: Freyvangur Öngulsstaðahrepps, Laugarborg Hrafngilshrepps og Sólgarður Saurbæjarhrepps. Var sú stefna tekin, að þau skyldu hvert þjóna sínum hlutverkum. Freyvangur yrði nýttur sem aðstaða og sýningarhús samnefnds leikfélags og Laugarborg sem tónlistar- og viðburðahús en Sólgarður varð safnahús. (Nú munu blikur á lofti hvað varðar framtíð Freyvangsleikhússins, samhliða mögulegri sölu hússins en félaginu mun einmitt hafa boðist Laugarborg til afnota). Um aldamótin var þannig ráðist í endurbætur á húsinu, miðaðar að því, að bæta aðstæður til tónlistarflutnings. Tónlistarhúsið Laugarborg var formlega tekið í notkun í byrjun árs 2002. Var Laugarborg raunar eina slíka húsið, sérhannað til tónlistarflutnings, á Eyjafjarðarsvæðinu til ársins 2010 er Hof á Akureyri var tekið í notkun. Laugarborg er enn nýtt sem félagsheimili og þar haldin þorrablót, jólaskemmtanir og hinir ýmsu tónleikar og viðburðir. Þá er húsið eftirsótt fyrir hina ýmsar veislur og mannfagnaði s.s. afmælisveislur, fermingar, brúðkaup o.s.frv. Þá hefur Karlakór Eyjafjarðar æfingaraðstöðu í Laugarborg.
Laugarborg er að ytra byrði nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð og í grófum dráttum hefur upprunalegu lagi ekki mikið verið breytt innandyra. Húsið er reisulegt og stórbrotið og til mikillar prýði og stendur á áberandi stað við fjölfarinn þjóðveg. Og enda þótt höfundur hafi hvorki forsendur né þekkingu til að meta varðveislugildi bygginga leyfir hann sér, venju samkvæmt, að lýsa áliti sínu á því. (Það er öllum frjálst). Laugarborg og önnur félagsheimili til sveita hljóta að hafa hátt varðveislugildi eða jafnvel verðskulda friðun. Enda þótt húsið teljist ekki mjög gamalt (m.v. aldursfriðun húsa miðast við 100 ár) hlýtur menningarsögulegt gildi þess að vera ótvírætt. Þá eru félagsheimili mörg hver ansi skemmtilegar byggingar hvað varðar útlit og arkitektúr og Laugarborg sannarlega engin undantekning þar. Myndin af Laugarborg er tekin þann 29. mars 2022.
Heimildir: Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Upplýsingar um byggingaframkvæmdir, hverjir komu að byggingu og bygginganefnd er að mestu fengin úr forsíðufrétt og ítarlegum greinum Dags og Íslendings frá maí 1959 (sjá tengla í texta).
Hér hefur verið nokkuð minnst á Þinghúsið á Hrafnagili, forvera Laugarborgar. Áður en við bregðum okkur fram í Sólgarð telur höfundur óhjákvæmilegt, að gera því merka húsi skil í pistli sem þessum og birtist sá mjög fljótlega. Þessi mynd er tekin 17. apríl 2014.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 3
- Sl. sólarhring: 19
- Sl. viku: 231
- Frá upphafi: 445783
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 158
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar