10.5.2022 | 14:02
Hús dagsins: Eyrarvegur 29
Eyrarveg 29 reisti Kristján Jakobsson árið 1943. Síðsumars 1942 var honum úthlutuð lóðin á horninu neðan Norðurgötu, norðan Eyrarvegar. Bókaði bygginganefnd, að lóðin væri utan skipulagðs byggingasvæðis en hana fékk Kristján engu að síður. Það var svo 12. mars 1943 að Kristján fékk leyfi til að reisa hús á tveimur hæðum með valmaþaki, 7,75x10m auk útbyggingar að norðvestan, 1,5x6,6m. Byggt úr steinsteypu með járnklæddu timburþaki. Teikningarnar að húsinu gerði Böðvar Tómasson. Næstu árin á eftir var lóðunum við austanverða Norðurgötu úthlutað, einni af annarri. Var þá hús Kristján Jakobssonar notað sem eins konar viðmið við staðsetningu(t.d. var Norðurgata 48 kölluð fjórða lóð norðan við Kristján Jakobsson).
Eyrarvegur 29 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki, steiningarmúr á veggjum, bárujárn á þaki og lóðréttum póstum í flestum gluggum. Horngluggar í anda funkisstefnunnar snúa mót suðri. En suðurhlið hússins snýr að Eyrarvegi og vesturhlið að Norðurgötu. Á norðurhluta þeirrar hliðar er útskot og áfast því tröppur upp að inngöngudyrum annarrar hæðar. Steypt handrið með tröppulagi setur þar nokkurn svo á húsið.
Kristján Jakobsson vélstjóri og kona hans Soffía Jóhannesdóttir bjuggu um tíma á Syðra- Hvarfi í Skíðadal en höfðu búið á Akureyri um nokkurt árabil er þau reistu Eyrarveg 29. Kristján Jakobsson var fæddur og uppalinn á Oddeyri, nánar tiltekið í Lundargötu 5, árið 1901. Það er dálítið athyglisvert að skoða manntalið árið 1901 fyrir Lundargötu 5. Þar búa alls 23 manns, fjórar fjölskyldur, í húsi sem er um 5,5x7m að grunnfleti og þá var efri hæðin undir súð. (Lundargata 5 fékk núverandi lag um 1925). Þarna er húsið reyndar sagt nr. 4, en árið 1910 hefur húsið fengið núverandi númer. Soffía Jóhannesdóttir mun hins vegar hafa verið úr Svarfaðardal, nánar tiltekið Jarðbrúargerði. Bjuggu þau Kristján og Soffía hér til æviloka, hún lést árið 1962 en hann 1973. Hafa síðan margir búið hér á báðum hæðum hússins, en húsið mun frá upphafi hafa verið tvíbýli.
Eyrarvegur 29 er látlaust en reisulegt tveggja hæða funkishús. Það er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði í umhverfinu og stendur á nokkuð áberandi stað, á horni tiltölulega fjölfarinna gatna. Þá er lóðin gróin og í góðri hirðu, frágangur og ástand húss og lóðar hinn snyrtilegasti. Ekki hefur verið unnin húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar svo ekki liggur fyrir hvort húsið, eða önnur hús við Ránargötuna, hafi varðveislugildi. Húsið er hluti mikillar heildar sams konar húsa við Norðurgötu og Ránargötu. Er þessi heild dæmi um þyrpingu samstæðra húsa, órofa heild í rótgrónu hverfi. Slíkar heildir ættu ætíð að hafa eitthvert varðveislugildi. Meðfylgjandi mynd er tekin þ. 22. júní 2021
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 922, 28. ágúst 1942 og nr. 937, 12. mars 1943. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri
Bloggar | Breytt 11.5.2022 kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2022 | 16:34
Hús dagsins: Laugarborg
Um daginn tók ég fyrir Freyvang, aðsetur hins valinkunna Freyvangsleikhúss og fyrrum félagsheimili Öngulsstaðahrepps. Ég sá það í hendi mér, að ég yrði að fylgja þeirri grein eftir með sambærilegum greinum um hin tvö félagsheimilin í hreppum þeim, er saman mynda Eyjafjarðarsveit. (Einhvers konar félagsheimilaþríleik). Nú er komið að Laugarborg í fyrrum Hrafnagilshreppi.
Laugarborg, sérlegt tónlistarhús Eyjafjarðarsveitar og fyrrum félagsheimili Hrafnagilshrepps stendur um 13 km framan Akureyrar skammt ofan Eyjafjarðarbrautar vestri. Laugarborg var byggð á svonefndum Reykáreyrum, í landi Hrafnagils, beint undir Reykárgili en það skartar m.a. myndarlegum fossi. Laugarborg, félagsheimili Hrafnagilshrepps, var vígð vorið 1959 og leysti af hólmi þing- og samkomuhús hreppsins, sem tekið var í notkun 1925. Það hús stendur enn, spölkorn norðan Laugarborgar og er nú leikskólinn Krummakot. Laugarborg telst standa nr. 2 við götuna Laugartröð en nærri lætur, að Laugarborg standi inn í miðju Hrafnagilshverfi. Þegar húsið var byggt voru næstu hús hins vegar bærinn að Hrafnagili og Þinghúsið. Að frátöldum fáeinum bröggum, sem enn stóðu eftir af miklum kampi setuliðsins frá stríðsárunum.
Það er ekki endilega ljóst hvenær nákvæmlega íbúar Hrafnagilshrepps ákváðu að þinghúsið frá 1925 væri orðið ófullnægjandi til frambúðar samkomuhalds en það hefur verið um eða uppúr miðri öldinni. En það var árið 1956 sem ákvörðun var tekin um byggingu nýs félagsheimilis og hófust byggingaframkvæmdir 1. október það ár. Ýmsar staðsetningar komu til greina en það var að lokum jarðhitinn við Hrafnagil sem réði úrslitum um staðarvalið. Þarna eru nefnilega volgrur og laugar, sem síðar voru virkjaðar til hitaveitu, og nýttust einmitt til upphitunar hins nýja félagsheimilis. Undir brekkunum skammt norðan Laugarborgar var einmitt sundlaug Hrafngilshrepps frá árunum um 1935 og fram til 1961. (Löngu síðar var sá sem þetta ritar oft á vappi þarna sem barn og stóð þá myndarleg fjárrétt á fyrrum laugarstæðinu. Er mér það minnisstætt, hversu ótrúlegt og hreinlega fjarstæðukennt mér þótti, að þarna hefði einhvern tíma verið sundlaug!)
Laugarborg mætti skipta í þrjár álmur, austurálman er tvílyft á kjallara og með lágu risi og snýr stöfnum N-S. Þar, austanmegin, er aðalinngangur í húsið, sem og inngangur í húsvarðaríbúð og fundarsal á efri hæð. Miðálma, sem einnig er tvílyft á lágum kjallara, snýr stöfnum A-V. Vesturhluti hennar er einn geymur, þ.e. samkomusalur hússins. Norður úr austurálmunni er einlyft álma með lágu risi og er þar eldhús. Það orkar e.t.v. tvímælis að kalla þann hluta hússins álmu en ekki útskot. Inngönguskúr til norðurs er úr salarálmu og svalir til vesturs á efri hæð suðurálmu. Laugarborg er byggt úr steinsteypu, múrhúðuð með bárujárn á þaki. Gluggar eru ýmist með þverpóstum eða póstlausir og háir og mjóir gluggar eru í sal. Syðst í húsinu eru anddyri og snyrtingar og úr anddyrinu gengið inn í sal annars vegar og hins vegar kaffistofu. Kaffistofan er austasti hluti miðálmu, aðskilin frá meginsalnum með upphækkun og handriði. Þaðan er gengt inn í eldhúsálmu. Í mjög ítarlegri og greinargóðri frétt Íslendings þann 8. maí 1959 af hinu nýja félagsheimili Hrafnagilshrepps er húsið sagt 350 fermetrar og skiptast þeir eftirfarandi: Salur 120 fermetrar, leiksvið 60 fermetrar, kaffisalur 40 fermetrar, fundarsalur ofan hans annað eins, anddyri og snyrtingar 30 fermetrar, eldhúsálma 42 fermetrar og húsvarðaríbúð 83 fermetrar. Í Byggðum Eyjafjarðar 1990 er salurinn sagður taka 170 manns í sæti.
Sem áður segir hófust byggingarframkvæmdir við Laugarborg haustið 1956 og stóðu þær yfir í tvö og hálft ár. Hönnuðir hússins voru þeir Gísli Halldórsson og Ólafur Júlíusson. Gísli Halldórsson (1914-2012), fæddur og uppalinn á Kjalarnesi, lauk prófi í húsasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík 1935 og hélt í kjölfarið til Danmerkur þar sem hann nam byggingarverkfræði og arkitektúr. Hann stofnaði, á fimmta áratugnum, teiknistofu með Sigvalda Thordarsyni og ráku þeir hana saman til 1948. Eftir það starfrækti Gísli teiknistofu sína einn og síðar í félagi við aðra. Gísli á heiðurinn af mörgum félagsheimilum og þekktum stórbyggingum. Má þar nefna Hótel Esju, Hótel Loftleiðir, Lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík en einnig íþróttamannvirki á borð við Laugardalshöll og íþróttavöllinn þar. Þá teiknaði Gísli einnig félagsheimili Öngulsstaðahrepps, Freyvang, sem stendur nokkurn veginn beint andspænis Laugarborg, austan Eyjafjarðarár. Auk þess teiknaði hann og samstarfsmenn hans á teiknistofunni fjölmörg íbúðarhús, einbýli og fjölbýli. Gísli hlaut Fálkaorðuna 1963 og Stórriddarakross árið 1974.
Til undirbúnings byggingu Laugarborgar var skipuð átta manna bygginganefnd úr röðum hreppsbúa. Í henni sátu þau Aðalsteina Magnúsdóttir á Grund, Svanhildur Eggertsdóttir (Holtsseli) Jón Heiðar Kristinsson (Ytra Felli), Óttar Skjóldal (frá Ytra Gili), Hallgrímur Indriðason (við Kristneshæli), Snæbjörn Sigurðsson (Grund) Frímann Karlesson (Dvergsstöðum) og Halldór Guðlaugsson (Hvammi). Yfirsmiður við bygginguna var Þórður Friðbjarnarson, en hann hafði einnig stýrt byggingu Freyvangs í Öngulsstaðahreppi og Sólgarðs í Saurbæjarhreppi. Bygging var sameiginleg framkvæmd hreppsins, ungmennafélagsins og kvenfélagsins og skiptist eignarhaldið þannig, að Hrafnagilshreppur átti 60%, Ungmennafélagið Framtíð 20% og Kvenfélagið Iðunn 20%. Við byggingu Laugarborgar lögðu þar margir hönd á plóg, sveitungar sem og verktakar og margt unnið í sjálfboðavinnu svo sem tíðkaðist hvarvetna við byggingu félagsheimila. En helstu verktakar, sem komu að einstaka verkefnum við byggingu Laugarborgar voru eftirfarandi: Múrarameistari var Jón Bachmann Jónsson, Þorvaldur Snæbjörnsson rafvirki og Ólafur Magnússon pípulagningameistari sáu um raflögn, pípulögn og miðstöð og vatnsleiðslu, á vegum fyrirtækja KEA en Slippstöðin sá um útihurðir, glugga og ýmsar innréttingar. Friðrik Kristjánsson smíðaði einnig hurðir, afgreiðslu, auk þess sem hann innréttaði húsvarðaríbúð. Málningarvinnu önnuðust Kristján og Hannes Vigfússynir frá Litla- Árskógi. Byggingarframkvæmdir leiddu þeir Snæbjörn Sigurðsson á Grund og Halldór Guðlaugsson í Hvammi og tók sá síðarnefndi við af hinum um leið og húsið var fokhelt. Þá tóku konur í hreppnum sig saman um saumaskap gluggatjalda og gáfu þau. Eftir um tveggja og hálfs árs byggingaframkvæmdir rann loks vígsludagurinn upp, 30. apríl 1959. Frá henni var sagt mjög ítarlega í blöðunum Degi og Íslendingi og eru þær greinar meginheimild þessara skrifa hér.
Fyrstu húsverðir og íbúar Laugarborgar voru Bernharð Pálsson, sem einnig var mjólkurbílstjóri, frá Torfufelli og Guðrún Sveinbjörnsdóttir frá Kolgrímastöðum. Guðrún kenndi m.a. handavinnu við Barnaskóla Hrafnagilshrepps, starfaði í mötuneyti Hrafnagilsskóla eftir stofnun hans og vann síðar í mötuneyti Dvalarheimilisins Hlíðar. Bernharð lést árið 1969 en Guðrún bjó hér áfram og sinnti húsvörslu til ársins 1980. Hafa síðan margir átt heima, og sinnt húsvörslu í Laugarborg. Þegar Laugarborg er flett upp á timarit.is birtast 1367 niðurstöður. Sé þeirri tölu deilt á aldursár hússins, 63, fæst það út, að Laugarborg hefur að jafnaði komið fyrir í prentmiðlum 22 sinnum á hverju ári; það er næstum tvisvar í hverjum einasta mánuði frá maí 1959. Á fyrstu árum ber nokkuð á vormótum stjórnmálaflokka, ásamt héraðsmótum, að ógleymdum dansleikjum. Hafa ófáar hljómsveitir sem og kórar, söngvarar og skemmtikraftar stigið á svið í Laugarborg á þessum rúmum sex áratugum. Hrafnagilsskóli nýtti Laugarborg löngum sem kennsluhúsnæði, þar fór t.d. fram íþróttakennsla áður en núverandi íþróttahús var tekið í notkun og heimilisfræði var kennd í eldhúsi Laugarborgar. Þá hafa árshátíðir skólans um áratugaskeið verið haldnar í Laugarborg.
Þegar hrepparnir þrír framan Akureyrar sameinuðust undir nafni Eyjafjarðarsveitar féll hinu nýja sveitarfélagi þrjú félagsheimili í skaut: Freyvangur Öngulsstaðahrepps, Laugarborg Hrafngilshrepps og Sólgarður Saurbæjarhrepps. Var sú stefna tekin, að þau skyldu hvert þjóna sínum hlutverkum. Freyvangur yrði nýttur sem aðstaða og sýningarhús samnefnds leikfélags og Laugarborg sem tónlistar- og viðburðahús en Sólgarður varð safnahús. (Nú munu blikur á lofti hvað varðar framtíð Freyvangsleikhússins, samhliða mögulegri sölu hússins en félaginu mun einmitt hafa boðist Laugarborg til afnota). Um aldamótin var þannig ráðist í endurbætur á húsinu, miðaðar að því, að bæta aðstæður til tónlistarflutnings. Tónlistarhúsið Laugarborg var formlega tekið í notkun í byrjun árs 2002. Var Laugarborg raunar eina slíka húsið, sérhannað til tónlistarflutnings, á Eyjafjarðarsvæðinu til ársins 2010 er Hof á Akureyri var tekið í notkun. Laugarborg er enn nýtt sem félagsheimili og þar haldin þorrablót, jólaskemmtanir og hinir ýmsu tónleikar og viðburðir. Þá er húsið eftirsótt fyrir hina ýmsar veislur og mannfagnaði s.s. afmælisveislur, fermingar, brúðkaup o.s.frv. Þá hefur Karlakór Eyjafjarðar æfingaraðstöðu í Laugarborg.
Laugarborg er að ytra byrði nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð og í grófum dráttum hefur upprunalegu lagi ekki mikið verið breytt innandyra. Húsið er reisulegt og stórbrotið og til mikillar prýði og stendur á áberandi stað við fjölfarinn þjóðveg. Og enda þótt höfundur hafi hvorki forsendur né þekkingu til að meta varðveislugildi bygginga leyfir hann sér, venju samkvæmt, að lýsa áliti sínu á því. (Það er öllum frjálst). Laugarborg og önnur félagsheimili til sveita hljóta að hafa hátt varðveislugildi eða jafnvel verðskulda friðun. Enda þótt húsið teljist ekki mjög gamalt (m.v. aldursfriðun húsa miðast við 100 ár) hlýtur menningarsögulegt gildi þess að vera ótvírætt. Þá eru félagsheimili mörg hver ansi skemmtilegar byggingar hvað varðar útlit og arkitektúr og Laugarborg sannarlega engin undantekning þar. Myndin af Laugarborg er tekin þann 29. mars 2022.
Heimildir: Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Upplýsingar um byggingaframkvæmdir, hverjir komu að byggingu og bygginganefnd er að mestu fengin úr forsíðufrétt og ítarlegum greinum Dags og Íslendings frá maí 1959 (sjá tengla í texta).
Hér hefur verið nokkuð minnst á Þinghúsið á Hrafnagili, forvera Laugarborgar. Áður en við bregðum okkur fram í Sólgarð telur höfundur óhjákvæmilegt, að gera því merka húsi skil í pistli sem þessum og birtist sá mjög fljótlega. Þessi mynd er tekin 17. apríl 2014.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2022 | 15:08
Hús dagsins: Eyrarvegur 25a-27a
Við Eyrarveg norðanverðan er nokkurs konar undirgata, um 60 metra götustubbur sem hliðraður er um 30 metra til norðurs frá götunni sjálfri. Innst eða austast við þessa hliðargötu stendur Eyrarvegur 25a-27a, eitt eitt margra parhúsa sem Byggingafélag Akureyrar reisti á árabilinu 1939-47, eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Stendur húsið í nokkurs konar krika á milli Eyrarvegar 25-27 og Norðurgötu 41. Næsta hús sunnan við er hins vegar Eyrarvegur 17-19. Húsið er árið 1947, í síðasta áfanga Byggingafélagsins við Eyrarveg.
Eyrarvegur 25a-27a er einlyft steinhús með lágu risi. Húsið er samhverft A-V og á endum, burstir eða álmur sem snúa stöfnum N-S. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og einfaldir lóðréttir póstar í flestum gluggum. Burstirnar á endunum eru viðbyggingar, reistar eftir heimild frá Bygginganefnd Akureyrar árið 1952. Byggt var við flest húsin á 6. og 7. áratugnum, en fáein hús eru enn í upprunalegri mynd. Teikningarnar að þessum viðbyggingum gerðu m.a. Tryggvi Sæmundsson og Mikael Jóhannsson hjá teiknistofu KEA.
Það koma ekki upp margar upp niðurstöður þegar heimilisföngunum Eyrarvegi 25a og 27a er flett upp á timarit.is. Það er í raun ósköp eðlilegt, þegar í hlut á hús, sem alla tíð hefur verið íbúðarhús. Því hafa ber í huga, að til þess að hús rati í hinn ágæta gagnagrunn þarf heimilisfangið að hafa birst á síðum dagblaða. En upp úr miðri síðustu öld er það skrúðgarður á Eyrarvegi 25a sem nokkrum sinnum ratar á síður blaða. En Haraldur Jónsson, sem þarna bjó um langt árabil, ræktaði þarna mikinn skrúðgarð. Hlaut garðurinn II verðlaun Fegrunarfélagsins árið 1951 og árið eftir 1. verðlaun. Sumarið 1955 auglýsir Haraldur á Eyrarvegi 25a til sölu tvær snemmbærar kýr. Hvort hann hafi hýst þær á Eyrinni eða fylgir þó ekki sögunni. Hins vegar var það löngum svo, að íbúar Oddeyrar héldu kýr, sem beitt var á beitarlönd á Brekkunni. Var þeim jafnan smalað saman og reknar upp Oddeyrargötuna, sem fyrir vikið var kölluð Kúagata. Voru það jafnan ungir strákar sem sáu um kúarekstur þennan og var það mikil virðingarstaða að verða kúarektor. Á Eyrarvegi 27a bjuggu lengst af Ingvi Árnason og Anna Soffía Vigfúsdóttir frá Hliðskjálfi í Grýtubakkahreppi. Ingvi var uppalinn á Oddeyri, nánar tiltekið í Norðurgötu 19, en faðir hans, Árni Þorgrímsson, reisti það hús árið 1920.
Parhúsið við Eyrarveg 25a-27a er reisulegt og glæst hús. Er það í mjög góðri hirðu. Þó margt hafi breyst frá tíð verðlaunaskrúðgarðs Haraldar Jónssonar fyrir 70 árum síðar eru lóðin, og lóð nr. 27a, enn gróskumiklar og vel hirtar og þær prýða hinn ýmis tré og runnar. Við Eyrarveg standa 9 parhús Byggingafélagsins, og ætti þessi merka torfa að sjálfsögðu að njóta friðunar. Þá er Eyrarvegartorfan hluti stærri heildar sams konar húsa; alls um 20 húsa, flestra parhúsa sem standa við göturnar Sólvelli og Víðivelli, sem og hluta Norðurgötu. En það er ekki aðeins húsin, sem vert að varðveita og friða. Þessi þyrping Byggingafélagshúsanna við Eyrarveg ramma nefnilega inn myndarlegan og geðþekkan garð, um 1200 fermetra grænt svæði. Þessa grænu perlu ber að sjálfsögðu að varðveita og hlúa að, enda menn sífellt að gera sér betur grein fyrir gildi og mikilvægi grænna svæða í byggðum. Myndirnar eru teknar þann 22. júní 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 840, 10. ágúst 1939, nr. 842, 18. Sept. 1939. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 920, 7. ágúst 1942. Fundargerðir 1948-57: Fundir nr. 1149, 22. feb. 1952, nr. 1158, 7. júlí 1952. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2022 | 17:44
Hús dagsins: Eyrarvegur 25-27
Eyrarvegur 25-27 er eitt margra parhúsa sem Byggingafélag Akureyrar reisti á árabilinu 1939-47, eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Húsið stendur austast af hinni miklu torfu Byggingafélagshúsanna, á horni Eyrarvegar og Norðurgötu og markar raunar suðausturhorn hennar. Í vestri og norðri afmarkast þessi þyrping af götunum Sólvöllum og Víðivöllum. Húsið er reist 1947, í síðasta áfanga þessara bygginga við Eyrarveg. Voru húsin reist eftir byggingarleyfum sem veitt voru 1939 og 1942. Um var að ræða leyfi fyrir húsum, 14,6x7,50m að stærð með útbyggingum í báða enda, 4,3x3,8m. Byggð úr steinsteypu með járnklæddu timburþaki. Síðar voru byggðar stofuálmur við þó nokkur þessara húsa. Síðar voru byggðar stofuálmur við þó nokkur þessara húsa.
Eyrarvegur 25-27 er einlyft steinhús með lágu risi. Húsið er samhverft A-V og á endum, burstir eða álmur sem snúa stöfnum N-S. Á veggjum er steiningarmúr, bárujárn á þaki og einfaldir lóðréttir póstar í flestum gluggum. Burstirnar á endunum eru viðbyggingar, reistar eftir heimild frá Bygginganefnd Akureyrar árið 1952. Byggt var við flest húsin á 6. , 7. og 8. áratugnum, en sum húsin er enn óviðbyggð. Á 27 var byggt við árið 1959 en viðbyggingin við 25 var nokkurn veginn fullbyggð vorið 1960.
Það er saga margra þessara húsa Byggingafélagsins, að þar hafa íbúaskipti ekki verið tíð. Þetta hús er þar engin undantekning, en í báðum hlutum hússins bjuggu sömu fjölskyldurnar, upprunalegir eigendur, í meira en 60 ár. Á Eyrarvegi 25, vesturhlutanum bjuggu frá upphafi þau Torfi Vilhjálmsson (1918-1966), frá Torfunesi í Köldukinn og Ólöf Valgerður Jónasdóttir (1916-2013) frá Vogum í Mývatnssveit. Á 27, austurhlutanum bjuggu þau Frímann Guðmundsson (1917-2000), frá Gunnólfsvík á Langanesi og Soffía Guðmundsdóttir (1918-2011) frá Syðsta Mó í Fljótum.
Torfi Vilhjálmsson (1918-1966) stundaði lengst af byggingavinnu og kom m.a. að byggingu Oddeyrarskóla, sem tekinn var í notkun 1957. Þar var hann húsvörður eða umsjónarmaður og sinnti því starfi til dánardægurs. Ólöf (1916-2013) starfaði í Oddeyrarskóla, við ræstingar, en hún vann einnig hjá Útgerðarfélaginu. Ólöf Jónasdóttir bjó á Eyrarvegi 25 allt til ársins 2013, eða í 66 ár og var tæplega 97 ára er hún fluttist á Dvalarheimilið Hlíð.
Frímann Guðmundsson, Frímann í Alaska, vann lengst af sínum starfsaldri hjá KEA, en þar hóf hann störf hjá matvörudeildinni árið 1939. Hann var lengi vel útibústjóri í versluninni Alaska við Strandgötu 25. Deildarstjóri hjá KEA var hann frá 1957. Líkt og nágrannarnir vestanmegin bjuggu þau Frímann og Soffía á Eyrarvegi 27 til æviloka, hann lést árið 2000 en hún árið 2011.
Parhúsið við Eyrarveg 25-27 er reisulegt og glæst hús. Er það í mjög góðri hirðu, á því er t.d. nýlegt þak. Þá hefur húsið væntanlega hlotið afbragðs viðhald í tíð upprunalegra eigenda og sú tíð sem spannaði meira en 60 ár. Austurendi hússins tekur þátt í götumynd Norðurgötu. Lóðir eru grónar og vel hirtar, á 27 ber mikið á verklegum og gróskumiklum birkitrjám. Trjám sem þau Frímann og Soffía hafa væntanlega gróðursett á sínum tíma. Húsið er hluti mikillar þyrpingar sams konar húsa, verkamannabústaða Byggingafélagsins, og ætti þessi merka torfa að sjálfsögðu að njóta friðunar. Það er a.m.k. álit síðuhafa. Myndirnar eru teknar þann 22. júní 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 840, 10. Ágúst 1939, nr. 842, 18. Sept. 1939. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 920, 7. ágúst 1942. Fundargerðir 1948-57: Fundir nr. 1149, 22. feb. 1952, nr. 1158, 7. júlí 1952. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Pétur Torfason veitti einnig góðfúslega upplýsingar m.a. um byggingarár viðbygginga og eru honum færðar bestu þakkir fyrir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2022 | 23:06
Hús dagsins: Eyrarvegur 21-23
Eyrarvegur 21-23 er eitt margra parhúsa sem Byggingafélag Akureyrar reisti á árabilinu 1939-47, eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Húsið er reist 1947, í síðasta áfanga þessara bygginga. Voru húsin reist eftir byggingarleyfum sem veitt voru 1939 og 1942. Um var að ræða leyfi fyrir húsum, 14,6x7,50m að stærð með útbyggingum í báða enda, 4,3x3,8m. Byggð úr steinsteypu með járnklæddu timburþaki. Síðar voru byggðar stofuálmur við þó nokkur þessara húsa. Síðar voru byggðar stofuálmur við þó nokkur þessara húsa.
Eyrarvegur 21-23 er einlyft steinhús með lágu risi. Húsið er samhverft A-V og á endum, burstir eða álmur sem snúa stöfnum N-S. Veggir eru klæddir sléttum múr, bárujárn á þaki og einfaldir lóðréttir póstar í flestum gluggum. Burstirnar á endunum eru viðbyggingar, en byggt var við nr. 21 (vesturhluta) árið 1965 eftir teikningum Tryggva Sæmundssonar. Samsvarandi teikningar að viðbyggingu austurhluta finnast ekki á kortavef, en viðbyggingarnar við byggingafélagshúsin við Eyrarveg voru allar eftir sams konar teikningum. Voru þessar viðbyggingar reistar eftir heimild frá Bygginganefnd. árið 1952.
Margir hafa átt og búið á Eyrarvegi 21-23 gegnum tíðina. Á Eyrarvegi 23 bjó frá upphafi, 1947, Heiðrekur Guðmundsson, skáld og verslunarmaður. Heiðrekur (1910-1988) var frá Sandi í Aðaldal. Faðir hans, Guðmundur Friðjónsson, sem einnig var skáld var jafnan kenndur við þann bæ. Heiðrekur var kvæntur Kristínu Kristjánsdóttur frá Bergstöðum í Skriðuhreppi. Heiðrekur var nokkuð afkastamikið skáld og rithöfundur, sendi m.a. frá sér sjö ljóðabækur Heiðrekur stundaði búskap á yngri árum en eftir að hann flutti til Akureyrar fékkst hann við verslunarstörf og síðustu ár starfsævinnar (1969-83) sem forstöðumaður Vinnumiðlunarskrifstofu Akureyrar. Stóð Heiðrekur um árabil verslunarvaktina í Lárusarhúsi á horni Eiðsvallagötu og Norðurgötu og hét sú verslun í Eyrarbúðin. Heiðrekur var þannig einn af mörgum kaupmönnum á horninu bæjarins. Heiðrekur bjó hér til æviloka, 1988 og bjó Kristín hér áfram eftir hans dag. Hún lést 2001.
Parhúsið við Eyrarveg 21-23 er reisulegt og glæst hús. Er það í mjög góðri hirðu. Lóð vesturenda, nr. 21, prýða nokkur stórvaxin og gróskumikil reynitré en lóðin og lóðirnar eru grónar og vel hirtar. Húsið er hluti mikillar þyrpingar sams konar húsa, verkamannabústaða Byggingafélagsins, og ætti þessi merka torfa að sjálfsögðu að njóta friðunar. Það er a.m.k. álit síðuhafa. Myndirnar eru teknar þann 22. júní 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 840, 10. ágúst 1939, nr. 842, 18. Sept. 1939. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 920, 7. ágúst 1942. Fundargerðir 1948-57: Fundir nr. 1149, 22. feb. 1952, nr. 1158, 7. júlí 1952. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2022 | 11:18
Gleðilega páska
Óska ykkur öllum, nær og fjær gleðilegra páska.
Páskamyndin í ár er tekin þ. 29. mars sl. af Eyjafjarðarbraut eystri við afleggjarann að Freyvangi og horft til suðurs, þ.e. fram Eyjafjörð. Ytra Laugaland, Laugarholt og Vökuland í forgrunni og fjallahringurinn vestanmegin baðaður síðvetrarsól. Kerling, hæsta fjall Norðurlands er falin inn í skýjabólstrum lengst til hægri en fjær sjást Möðrufellsfjall, Hvassafellsfjall og fram í Djúpadal.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.4.2022 | 12:54
Hús dagsins: Eyrarvegur 20
Eyrarveg 20 reisti Ágúst Brynjólfsson árið 1943. Hann fékk lóðina og leyfi til að reisa hús úr r-steini með járnklæddu timburþaki, 7,75x6,75m að stærð. Árið 1952 er risin þarna bílskúr, mögulega hefur hann risið á sama tíma og húsið, en ekki er á hann minnst í upprunalegu byggingaleyfi. Upprunalegar teikningar að húsinu eru ekki aðgengileg á teikningavef map.is/akureyri en þar má finna teikningar Mikaels Jóhannssonar af teiknistofu KEA að viðbyggingu, dagsetta 13. maí 1952.
Eyrarvegur 20 er einlyft steinhús á lágum grunni, með lágu valmaþaki, sléttum múr á veggjum, bárujárni á þaki og einföldum lóðréttum póstum eða með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum. Kjallari er undir hluta hússins, norðanmegin. Grunnflötur hússins er 9,20x12,70m en upprunalegra mála hússins var getið hér í upphafi og má hafa þau til samanburðar. Áfastur húsinu að austan er steyptur bílskúr og mun hann 3,45x5,85m.
Ágúst Jón Brynjólfsson járnsmiður (1909-1985) sem byggði húsið, eða alltént skráður fyrir byggingaleyfinu, var Reykvíkingur, nánar tiltekið af Bræðraborgarstíg. Hann hefur að öllum líkindum ekki búið hér um langa hríð, ef nokkuð. E.t.v. hefur hann aðeins byggt húsið sem verktaki og selt svo. Það tíðkaðist í einstaka tilfellum fyrir miðja öldina, að verktakar byggðu hús og seldu, en hitt var algengara, að einstaklingar byggðu, eða stæðu fyrir byggingum eigin húsa. Á þessum tíma voru byggingafélög einnig nokkuð umsvifamikil, en drjúgur hluti Eyrarvegarhúsa er einmitt reist af einu slíku. Heimilisfangið Eyrarvegur 20 kemur fyrst fyrir í dagblöðum í lok ágúst 1948 og þá býr þar Stefán Halldórsson múrarameistari. Hann var kvæntur Brynju Sigurðardóttur frá Möðrudal á Fjöllum en Stefán var fæddur í Mývatnssveit og uppalinn á Húsavík. Stefán starfaði sem byggingameistari, m.a. hjá KEA en um árabil var hann húsvörður í Tónlistarskólanum á Akureyri. Á sama tíma starfaði Brynja þar við ræstingar. Bjuggu þau hér í um hálfa öld, eða til æviloka, en þau létust bæði árið 1996.
Í upphafi var húsið frekar smátt, eða aðeins um 50 fermetrar að grunnfleti, en Stefán og Brynja byggðu við húsið árið 1952, álmu til vesturs, 4,80x9,20m að stærð. Skagaði sú álma út úr húsinu til suðurs. Árið 2008 var svo byggt við húsið sunnanmegin, svo nú er grunnflötur hússins, að frátöldum bílskúr, því sem næst ferhyrningslaga. Teikningarnar að þeirri viðbyggingu gerði Árni Gunnar Kristjánsson.
Eyrarvegur 20 er reisulegt hús og í mjög góðri hirðu. Það hefur á síðustu árum hlotið gagngerar endurbætur og er frágangur allur hinn snyrtilegasti. Húsið er líkt og nærliggjandi hús, hluti heilsteyptrar og skemmtilegrar götumyndir einnar hæðar funkishúsa með valmaþökum. Húsið, sem og gróskumikil og vel hirt, lóðin eru til mikillar prýði í geðþekku umhverfinu. Um þennan hluta Oddeyrar hefur ekki verið unnin húsakönnun en lesendur geta svosem getið sér til um, hvað síðuhafi hefði um varðveislugildi húsanna og götumyndar Eyrarvegar að segja... Myndin er tekin 22. júní 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. nr. 940, 16. apríl 1943, Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2022 | 12:06
Hús dagsins: Eyrarvegur 18
Hólmsteinn Egilsson á heiðurinn af þremur húsum við sunnanverðan Eyrarveg. Eyrarveg 18 byggði hann árið 1943 en árið áður byggði hann Eyrarveg 8 og 10. Að vorlagi 1943 fékk hann lóðina og byggingarleyfi fyrir húsi á einni hæð á lágum grunni með valmaþaki úr timbri, húsið úr r-steini 11,5x8,0m að stærð. Byggingaleyfi Hólmsteins fyrir Eyrarveg 18 var afgreitt þann 14. maí 1943 en þess má geta að þann sama dag fæddist á Ísafirði Ólafur Ragnar nokkur Grímsson. Elstu teikningar, sem aðgengilegar eru á kortavef Akureyrar eru raflagnateikningar Ingva Hjörleifssonar að húsinu, dagsettar í ársbyrjun 1944.
Eyrarvegur 18 er einlyft steinhús með lágu valmaþaki, steiningarmúr á veggjum, bárujárni á þaki og einföldum lóðréttum póstum eða með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum. Bakálma, 4,64x4,70m að grunnufleti er suðvestanmegin á húsinu.
Hólmsteinn Egilsson, sem síðar tók þátt í stofnun og rak steypufyrirtækið Möl og sand, hefur að öllum líkindum byggt þetta hús, sem og nr. 8 og 10 sem verktaki og selt svo. Á meðal fyrstu íbúa hússins voru þau Hugljúf Jónsdóttir og Jóhann Indriðason. Elsta heimildin sem gagnagrunnurinn timarit.is finnur um húsið, frá 11. júní 1947, er einmitt tilkynning í Íslendingi um brúðkaup þeirra. Jóhann Indriðason var ketil- og plötusmiður, var fæddur og uppalin á Botni í Hrafnagilshreppi en Hugljúf var frá Ólafsfirði. Þau munu hafa búið hér til 1957, en þá kaupa húsið Sigtryggur Þorbjörnsson og Brynhildur Eggertsdóttir. Þau munu hafa byggt við húsið. Var það árið 1964, eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar . Þar var um að ræða tæplega 30 fermetra stofuálmu til suðvestur. Þau Sigtryggur og Þorbjörn munu hafa búið hér í 16 ár, eða til 1973. Hafa síðan margir átt húsið og búið hér um lengri eða skemmri tíma og öllum auðnast að halda húsi og umhverfi þess vel við í hvívetna.
Eyrarvegur 18 er látlaust og reisulegt hús í mjög góðri hirðu.. Lóðin er einnig gróin og vel hirt og afmörkum af steyptum vegg með járnavirki. Húsið er líkt og nærliggjandi hús, hluti heilsteyptrar og skemmtilegrar götumyndir einnar hæðar funkishúsa með valmaþökum. Húsið, sem og lóðin eru í ákaflega góðri hirðu og til mikillar prýði í geðþekku umhverfinu. Um þennan hluta Oddeyrar hefur ekki verið unnin húsakönnun en lesendur geta svosem getið sér til um, hvað síðuhafi hefði um varðveislugildi húsanna og götumyndar Eyrarvegar að segja... Myndin er tekin 22. júní 2021
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. nr. 941, 30. apríl 1943. Fundur nr. 942, 14. maí 1943, Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2022 | 16:49
Hús dagsins: Freyvangur
Skammt ofan Laugalands, í fyrrum Öngulsstaðahreppi, um 14 km framan Akureyrar, er að finna eina af helstu menningarmiðstöðvum Eyjafjarðarsvæðisins. Freyvangur, í upphafi félagsheimili Öngulsstaðahrepps, var vígt 1957, en hefur sl. áratugi verið aðsetur samnefnds leikfélags, sem sett hefur upp hverja stórsýninguna á fætur annarri. Freyvangsleikhúsið hefur löngum verið orðlagt fyrir metnað og sýningar jafnan lofaðar í hástert af gagnrýnendum. Og það verðskuldað. Nú eru uppi áform um sölu Freyvangs og svo geti því farið, að leiksýningar og samkomur í Freyvangi heyri sögunni til. Þannig hillir undir viss vatnaskil í sögu þessa ágæta húss, enda þótt það muni standa áfram en hlutverk þess og kannski útlit og yfirbragð breytt. En kannski (og vonandi) verður ekkert úr þessum fyrirætlunum og Freyvangur og Freyvangsleikhúsið við lýði um ókomna tíð.
Fyrri hluta síðustu aldar sóttu íbúar Öngulsstaðahrepps samkomur sínar í þinghús hreppsins. Það hús var reist um 1905 og stóð í víðum hvammi sunnan Þverár, undir Þverárhöfða. Um miðja öldina var sú bygging komin að fótum fram og þótti orðið með öllu ófullnægjandi. Það var því snemma árs 1953 að með hreppsnefnd funduðu öll þau félög hreppsins, sem komið gætu að byggingu nýs félagsheimilis. Hófust nú samningaviðræður um hlutdeild hvers félags og lauk þeim í ágúst sama ár. Þau félög sem komu að byggingu hússins voru kvenfélögin Aldan og Voröld, Slysavarnarfélagið Keðjan, ungmennafélögin Árroðinn, Ársól og Væringjar ásamt Framfarafélaginu. Þess má reyndar geta að téð ungmennafélag Ársól reisti einnig samkomuhús á Munkaþverá um 1924 (rifið um 1980) sem íbúar syðri hluta hreppsins nýttu til samkomuhalda, en íbúar norðurhluta hreppsins sóttu samkomur á Þverá. Framkvæmdanefnd skipuðu þeir Garðar Halldórsson á Rifkelsstöðum, Jónas Þórhallsson á Stóra - Hamri og Kristinn Sigmundsson á Arnarhóli. Þess má geta að sá síðasttaldi var föðurafi þess sem þetta ritar. Það var svo 21. nóvember 1953 sem jarðvinna hófst. Nýja félagsheimilinu var valinn staður í landi Ytra Laugalands, í aflíðandi hlíð ofan þjóðvegarins, neðan Stekkjarhjalla (skv. Örnefnakorti LMÍ). Margir komu að byggingu hins nýja félagsheimilis en byggingu stýrðu þeir Sigfús Hallgrímsson og Þórður Friðbjarnarson. Tók sá síðarnefndi við af hinum fyrrnefnda. Tryggvi Sæmundsson sá um járnabindingu og þeir Jóhann Þórisson og Jóhannes Pétursson um múrverk. Miðstöðvar- og raflagnadeildir KEA sáu um þær framkvæmdir, sem að því laut, Ólafur Magnússon sá um uppsetningu miðstöðvarkerfis en Ingvi Hjörleifsson um raflögnina. Bræðurnir Kristján og Hannes Vigfússynir önnuðust málningarvinnu en innréttingar voru smíðaðar í Lundi og Slippstöðinni. Þess ber einnig að geta, að margir komu að byggingunni í sjálfboðavinnu og lögðu þar flestir íbúar sveitarinna, karlar jafnt sem konur, hönd á plóg. Í upphafi var ákveðið að kostnaðurinn skyldi skiptast milli félagana átta, hreppsins og annarra á þá leið að hreppurinn legði til 52 % á móti hinum félagasamtökunum. Við vígslu skiptist þeir fjármunir, sem þessir aðilar höfðu lagt til á þessa leið: Hreppurinn 370 þúsund krónur, félögin átta 195 þúsund frjáls framlög 90 þúsund, Menningarsjóður KEA kr. 5000. Þá hafði félagsheimilasjóður lagt til 170 þúsund og fylgdi sögunni, að sá sjóður væri langt á eftir með sínar lögboðnu greiðslur. Vart þarf að taka fram, að mun dýrari hefði byggingin verið, ef ekki hefði verið sjálfboðavinnu þeirri, sem sveitungar sinntu af eljusemi og dugnaði. Fullbúin kostaði byggingin 1,5 milljónir. Ekki kann síðuhafi að snara þeirri upphæð á núvirði. i. Nú munu skráðir eigendur hússins vera Eyjafjarðarsveit, Búnaðarfélag Eyjafjarðarsveitar, Kvenfélagið Aldan Voröld og ungmennafélagið Samherjar (ekki útgerðarfélagið Samherji) en raunar ríkir ákveðin óvissa um eignarhaldið.
Freyvangur er steinsteypuhús í tveimur álmum, önnur þeirra tvílyft með lágu, aflíðandi risi og sú fremri ein hæð með aflíðandi, einhalla þaki. Samkomusalur og húsvarðaríbúð er í hærri álmunni en í lægri álmunni m.a. anddyri, búningsherbergi, salerni, fatahengi, eldhús. Nú kann einhver að gera þá athugasemd, að samkomusalur með 7m lofthæð telst vitaskuld ekki tvílyftur; með tvo loft- en hluti álmunnar er sannanlega á tveimur hæðum. Veggir hússins eru múrhúðaðir og bárujárn á þaki en einfaldir lóðréttir póstar í gluggum. Gólfflötur hússins mun 445 m2 og lofthæð í sal 7 metrar. Í upphafi var leiksvið 60 m2 , salur 115 m2 og veitingastofa 50 m2 . Húsið mun að mestu óbreytt að ytra byrði frá upphaflegri gerð, þó mun þaki á framálmu hafa verið breytt lítillega um 1990. Á bakvið stendur geymsluhúsnæði, sem byggt mun árið 1963.
Vígsluhátíð Freyvangs var haldin á sumardaginn fyrsta, 25. apríl 1957. Um var að ræða mikil hátíðahöld, en þar voru samankomnir 350 manns. Veislustjóri var yfirvald sveitarinnar Árni Jóhannsson en athöfnin hófst með guðsþjónustu sr. Benjamíns Kristjánssonar. Héldu margir ræður og mikið sungið og borð svignuðu undan kræsingum. Hið nýja félagsheimili Öngulsstaðahrepps, Freyvangur, var komið í gagnið. Efnt hafði verið til samkeppni innan sveitarinnar um nafn á nýja félagsheimilið og var tillaga Sigurpáls Helgasonar á Þórustöðum, um nafnið Freyvang, hlutskörpust. Fyrstu íbúar Freyvangs og húsverðir voru þau Theódór Kristjánsson og Guðmunda Finnbogadóttir. Bjuggu þau hér frá 1957 til 1965. Þess má líka geta, að tveir synir þeirra, Kristján Helgi og Ólafur Helgi gegndu einnig stöðu húsvarðar, Kristján frá 1972 til 1974 og Ólafur frá 1981-88.
Ef Freyvangur eða Freyvangi er flett upp á gagnagrunninum timarit.is birtast alls um 2500 niðurstöður, mestmegnis auglýsingar um hina ýmsa viðburði og leiksýningar. Ef þessari tölu er deilt með aldursárum Freyvangs (65) fæst út, að Freyvangur hefur að jafnaði birst í prentmiðlum 40 sinnum á ári frá byggingu. Svo ljóst má vera, að alla tíð hefur verið nóg að gerast í Freyvangi. Á fyrstu árum má sjá þar auglýsta dansleiki, sem og héraðsmót. (Um svipað leyti og Skapti Ólafsson söng um héraðsmótin) Þá stóðu bæði Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn fyrir mótum, fundum og viðburðum þarna, þannig að segja má, að Freyvangur hafi verið þverpólítískur samkomustaður. Líkt og tíðkast með félagsheimili var Freyvangur auðvitað miðpunktur samkvæmis- og félagslífs Öngulsstaðahrepps: Þorrablót, jólaskemmtanir, árshátíðir, tónleikar og aðrar slíkar samkomur. Með sameiningu hreppana þriggja framan Akureyrar um áramótin 1990-91 breyttust forsendur alls þessa nokkuð. Freyvangur var einnig nýttur sem skólahúsnæði um nokkurra ára skeið, eða veturna 1967-69 og 70-71. Um var að ræða sérstakan unglingaskóla Öngulsstaðahrepps en honum var sjálfhætt 1971 þegar Hrafnagilsskóli var stofnsettur. Þess má geta, að á þeim tíma var vegalengdin milli Freyvangs og Hrafnagils um 30 kílómetrar, þar eð næstu brýr yfir Eyjafjarðará voru Hólmabrýrnar við Akureyrarflugvallar eða Stíflubrú við Möðruvelli fram. Miðbrautin, milli Laugalands og Hrafnagils, kom löngu síðar en með henni styttist þessi leið h.u.b. tífalt.
Það sem e.t.v. hefur haldið merkjum Freyvangs hæst á lofti hin síðari ár, og raunar áratugi er hið rómaða Freyvangsleikhús. Leikverk hafa verið sett upp í Freyvangi frá byggingu hússins en stofnfundur leikfélags í Öngulsstaðahreppi var haldinn þann 9. apríl 1962. Formleg leiklistarstarfsemi í húsinu á þannig 60 ára afmæli um svipað leyti og þetta er ritað. Leikfélag Öngulstaðahrepps var að einhverju leyti forveri Freyvangsleikhússins sem nú heitir svo. Sem áður segir nær saga leiklistar í Freyvangi raunar lengra aftur, en leikrit höfðu verið sýnd í Freyvangi frá vígslu hússins eða þar um bil. Það yrði auðvitað alltof langt mál að telja upp öll þau verk sem Freyvangsleikhúsið hefur sett upp gegnum tíðina, en síðustu ár og áratugi hefur leikfélagið sett upp mörg sígild og vinsæl verk. Má þar nefna t.d. Dagbók Önnu Frank, Góða dátann Svejk, Fiðlarann á þakinu, Fló á skinni auk þess sem leikfélagið er ötult við að setja upp barnasýningar en m.a. hafa Lína Langsokkur, Emil í Kattholti og Dýrin í Hálsaskógi farið á fjalir Freyvangsleikhússins á sl. áratug eða svo. Þegar þetta er ritað sýnir Freyvangsleikhúsið Kardemommubæinn. Að auki hefur Freyvangsleikhúsið sett upp ýmis frumsamin leikverk, eða leikrit samin sérstaklega fyrir og frumsýnd í Freyvangi. Freyvangsleikhúsið hefur löngum verið rómað fyrir metnað og sýningar þess jafnan hlotið einróma lof og notið mikilla vinsælda. Síðuhafi fullyrðir, að Freyvangsleikhúsið sé ein af helstu menningarstofnunum Eyjafjarðarsvæðisins og jafnvel Norðurlands alls.
En nú munu blikur á lofti. Tíðindi hafa borist af hugsanlegri sölu Freyvangs og framtíð þessa stórmerka og rótgróna leikfélags jafnvel í tvísýnu. Félaginu mun raunar hafa boðist önnur aðstaða, nánar tiltekið Laugarborg við Hrafnagil, en starfseminni mun þó svo gott sem sjálfhætt, ef félagið missir húsið. (Það þætti nú líklega sérstakt, ef selt yrði ofan af Þjóðleikhúsinu og því gert að gera sér Hörpuna eða Háskólabíó að góðu!). Auðvitað er það skiljanlegt, að sveitarfélagið leiti leiða til fjáröflunar við uppbyggingu innviða og auðvitað margt hægt að gera, íbúum Eyjafjarðarsveitar til hagsbóta, fyrir andvirði Freyvangs. Það væri hins vegar synd ef Freyvangsleikhúsið legði upp laupana vegna sölu hússins. Og tæpast mun áhugaleikfélag sitja á slíkum fjármunum, að það geti fest kaup á húsinu og sinnt viðhaldi. (Uppsett verð mun um 65 milljónir). Nú mun liggja fyrir samningur til tveggja ára um áframhaldandi leigu félagsins á húsnæðinu og er það svo sannarlega vel.
Freyvangur er látlaust en glæst hús og í góðri hirðu. Túnið framan við er umgirt trjágróðri en á síðustu árum hefur trjágróður og skógar sett æ meiri svip á fyrir blómlegar og grösugar sveitir Eyjafjarðar. Freyvangur og öll hin gömlu félagsheimili um sveitir landsins eiga að sjálfsögðu að hljóta hátt varðveislugildi, ef ekki friðun. Oft er um að ræða stórkostlegar byggingar hvað byggingarlist varðar en menningarsögulegt gildi Freyvangs og sambærilegra húsa hlýtur að vera ótvírætt. En auk þess sem friða ætti bygginguna Freyvang væri ekki síður mikilvægt að varðveita þá merku menningarstofnun sem þar á skjól og tryggja þar áframhaldandi starf. Meðfylgjandi myndir eru teknar 13. júní 2020 og 29. mars 2022.
Gula örin bendir nokkurn veginn á staðinn, þar sem fyrrum þinghús Öngulsstaðahrepps, forveri Freyvangs, stóð í Þverárhvammi. Myndin er yfirlýst af síðdegis-síðvetrarsól- en greina má Þverá í baksýn. Í forgrunni eru viðgerðir á brúarstokki, en landfyllingin yfir honum- brúarmannvirkið yfir Þverá, gaf sig undan ofsafengnum vatnavöxtum sl. sumar. Af þinghúsinu er það að segja, að því var breytt í hlöðu og útihús en stóð síðustu árin eða áratugina ónotað og opið fyrir veðri og vindum. Það var jafnan við jörðu um 2015, líkast til orðið það ónýtt að viðgerð var ekki raunhæf.
Heimildir:
Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Upplýsingar um byggingaframkvæmdir, fjármögnun og forsögu er að mestu fengin úr forsíðufrétt og ítarlegri Dags, 27. apríl 1957: Stórglæsilegt félagsheimili í Öngulsstaðahreppi vígt með hátíðlegri athöfn fyrsta sumardag. (Ekkert nafn er skrifað undir greinina) Vísað er beint í aðrar heimildir í tenglum í texta.
Þá þakka ég öllum þeim, sem veittu mér upplýsingar, á Facebook-hópnum Öngulsstaðahreppur hinn forni.
Bloggar | Breytt 11.4.2022 kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.3.2022 | 15:03
Hús dagsins: Eyrarvegur 17-19
Eyrarvegur 17-19 er eitt margra parhúsa sem Byggingafélag Akureyrar reisti á árabilinu 1939-47, eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Var reist í öðrum áfanga þeirra framkvæmda, árin 1942-43. ann 24. apríl 1942 fékk Erlingur Friðjónsson, fyrir hönd Byggingafélagsins, leyfi til byggingar, jafnstórra húsa, 14,6x7,50m að stærð með útbyggingum í báða enda, 4,3x3,8m. Byggð úr steinsteypu með járnklæddu timburþaki. Síðar voru byggðar stofuálmur við þó nokkur þessara húsa.
Eyrarvegur 17-19 er einlyft steinhús með lágu risi. Húsið er samhverft A-V og á endum burstir eða álmur sem snúa stöfnum N-S. Veggir eru klæddir sléttum múr, bárujárn á þaki og einfaldir lóðréttir póstar í flestum gluggum. Burstirnar, eða stofuálmurnar, sem byggðar voru við mörg Byggingafélagshúsin við Eyrarveg, prýða bæði 17 (vesturhluta) og 19. Við bæði 17 og 19 var byggt eftir teikningum Tryggva Sæmundssonar frá 1957 , líklega um það leyti. Þá er viðbygging til norðurs og bílskúr áfastur á 19, einnig byggt eftir teikningum Tryggva Sæmundssonar, en þær eru dagsettar í mars 1965.
Elsta heimild, sem gagnagrunnurinn timarit.is finnur um Eyrarveg 17 er auglýsing frá Lofti Einarssyni. Loftur mun væntanlega með fyrstu íbúum hússins. Loftur var frá Höfn í Höfnum á Reykjanesskaga og starfaði m.a. sem loftskeytamaður á skipum. Hann var kvæntur Ásthildi Guðlaugsdóttur frá Ytra Hóli í Öngulsstaðahreppi. Bjuggu þau Loftur og Ásthildur hér um nokkurra ára skeið, en þau fluttu til Borgarness 1951. Um áratugaskeið bjuggu í Eyrarvegi 17 þau Guðmundur Jörundsson, fæddur á Akureyri og uppalinn í Hrísey og Vilborg Guðmundsdóttir, sem ólst upp í Laufási. Guðmundur starfaði lengst af sem varðstjóri hjá Slökkviliða Akureyrar. Bjuggu þau hér til dánardægra, en Guðmundur lést 1984 en Vilborg 15 árum síðar. Á meðal barna Vilborgar og Guðmundar er Jörundur, valinkunnur skemmtikraftur og athafnamaður, löngum þekktur fyrir eftirhermur sínar.
Á Eyrarvegi 19 bjuggu um áratugaskeið þau Unnur Friðriksdóttir frá Svertingsstöðum í Öngulsstaðahreppi og Þórður Árni Björgúlfsson frá Eskifirði. Þórður, sem var rennismiður, vann lengi við heildverslunina Þ. Björgúlfsson en synir hans áttu og ráku fyrirtækið. (Algengur misskilningur, að hann hafi rekið verslunina þar eð hún hét eftir honum). Þau bjuggu hér framyfir aldamót en Unnur lést í árslok 2006. Þórður Björgúlfsson lést árið 2020, 102 ára að aldri.
Parhúsið við Eyrarveg 17-19 er reisulegt og glæst hús. Er það í mjög góðri hirðu, virðist nýlega málað og þak nýlegt að sjá sem og þakkantar. Lóðin er einnig í góðri hirðu. Vestanmegin, á 17, er snotur og settleg timburgirðing en austanmegin (19) er steypuveggur með járnavirki, sem móðins var á lóðamörkum og fyrir miðja 20. öld, einnig í mjög góðri hirðu. Húsið er hluti mikillar þyrpingar sams konar húsa, verkamannabústaða Byggingafélagsins, og ætti þessi merka torfa að sjálfsögðu að njóta friðunar. Það er a.m.k. álit síðuhafa. Myndirnar eru teknar þann 22. júní 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 840, 10. Ágúst 1939, nr. 842, 18. Sept. 1939. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 920, 7. ágúst 1942. Fundargerðir 1948-57: Fundir nr. 1149, 22. feb. 1952, nr. 1158, 7. júlí 1952. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt 18.9.2022 kl. 00:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 91
- Sl. sólarhring: 95
- Sl. viku: 319
- Frá upphafi: 445871
Annað
- Innlit í dag: 50
- Innlit sl. viku: 206
- Gestir í dag: 48
- IP-tölur í dag: 46
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar