22.3.2022 | 16:52
Hús dagsins: Eyrarvegur 16
Eyrarveg 16 mun Aðalsteinn Tómasson hafa reist árið 1942. Fékk hann úthlutað þriðju lóðinni austan við Hólmstein Egilsson og byggingarleyfi fyrir steinsteypuhúsi á einni hæð með valmaþak, að stærð 11x8,5m. Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson.
Eyrarvegur 16 er einlyft steinhús með lágu valmaþaki. Veggir eru múrklæddir, bárujárn á þaki og skiptir lóðréttir póstar í flestum gluggum. Grunnflötur hússins er nálægt 8x11m.
Aðalsteinn Tómasson, sem fæddur var og uppalinn á Bakkaseli og bóndi á Einhamri í Hörgárdal, hefur líkast ekki búið hér lengi, ef nokkuð. Elsta heimildin sem timarit.is finnur um húsið er einmitt þegar það er auglýst til sölu vorið 1944. Þá er húsið eign Önnu Sigfúsdóttur. Mögulega hefur hún keypt húsið nýreist af Aðalsteini eða jafnvel tekið við byggingu þess. Það er nefnilega eitt sem síðuhafi hefur rekist á þessari heimildaöflun að bókanir bygginganefndar eru ekki 100 % áreiðanlegar og heldur ekki timarit.is eða manntöl. Þó einhver búi í húsi örskömmu eftir byggingu þess, er ekki þar með sagt, að viðkomandi hafi endilega byggt húsið. Það skal þó tekið fram, að þetta eru undantekningatilfelli. Árið 1945 er Jón Rögnvaldsson búsettur þarna og tveimur árum síðar óskar Ólafur Stefánsson, þarna búsettur eftir húsnæði til leigu. Hefur þá e.t.v. leigt hjá Jóni. Margir hafa búið í Eyrarvegi 16 um lengri eða skemmri tíma.
Eyrarvegur 16 er látlaust og reisulegt hús í mjög góðri hirðu. Gluggasetning framhliðar, einn gluggi fyrir miðju og tveir smærri sitt hvoru megin við hann, gefa húsinu ákveðinn svip. Lóðin er einnig gróin og vel hirt og afmörkum af steyptum vegg með járnavirki. Húsið er líkt og nærliggjandi hús, hluti heilsteyptrar og skemmtilegrar götumyndir einnar hæðar funkishúsa með valmaþökum. Húsið, sem og lóðin eru í ákaflega góðri hirðu og til mikillar prýði í geðþekku umhverfinu. Um þennan hluta Oddeyrar hefur ekki verið unnin húsakönnun en lesendur geta svosem getið sér til um, hvað síðuhafi hefði um varðveislugildi húsanna og götumyndar Eyrarvegar að segja... Myndin er tekin 22. júní 2021
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. nr. 916, 26. júní 1942. Fundur nr. 918, 10. júlí 1942, Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2022 | 21:54
Hús dagsins: Eyrarvegur 14
Átjánda júní 1942 fékk Einar Sveinsson úthlutað lóð við Eyrarveg, aðra lóð austan við Hólmstein Egilsson. Ekki fann síðuhafi byggingaleyfi fyrir húsinu og ekki eru heldur teikningar af húsinu aðgengilegar á kortavefnum. Þar er hins vegar raflagnateikningar, sem virðast eftir Einar Sveinsson, dagsettar 15. maí 1945. Ekki er ólíklegt, að Einar, sem var múrarameistari sé einnig höfundur að húsinu.
Eyrarvegur 14 er einlyft steinhús með lágu valmaþaki. Veggir eru múrklæddir, bárujárn á þaki og skiptir lóðréttir póstar í flestum gluggum. Grunnflötur hússins er nálægt 8x11m.
Einar Sveinsson (1911-1981) sem reisti húsið var múrarameistari en skyldi ekki ruglað saman við alnafna sinn, Einar Sveinsson (1906-1973) arkitekt og húsameistara. Einar Sveinsson múrarameistari var Akureyringur, mögulega fæddur í Aðalstræti 63. Þar voru foreldrar hans, Sveinn Helgason og Svava Magnúsdóttir, alltént skráð til heimilis í Manntali 1910, en Einar fæddist í ársbyrjun 1911. Í Manntali 1920 er fjölskyldan skráð til heimilis í Húsi Karls Magnússonar við Lækjargötu. Líklega bjó Einar ekki lengi á Eyrarvegi 14 og mögulega hefur hann byggt húsið sem verktaki og selt svo.
Á meðal fyrstu eigenda og íbúa hússins, ef ekki þau fyrstu, voru þau Gísli M. Kristinsson frá Hruna í Húsavík og Elinóra Hólm Samúelsdóttir frá Höfða Langanesi. Bjuggu þau hér í um hálfa öld, eða fram yfir 1990. Gísli M. Kristinsson var húsgagnasmiður að mennt og starfaði við smíðaiðnina meira og minna allan sinn starfsaldur, lengi vel sem verkstjóri í Skipasmíðastöð KEA þar sem hann annaðist smíði ýmissa innréttinga í skip. Árið 1958 byggðu þau Gísli og Elinóra bílskúr á lóðinni, eftir teikningum Páls Friðfinnssonar. Húsið mun hins vegar næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð en hefur líkast til alla tíð hlotið gott viðhald.
Eyrarvegur 14 er látlaust og reisulegt hús í mjög góðri hirðu. Gluggasetning framhliðar, tveir misstórir gluggar nokkurn veginn fyrir miðju gefa húsinu ákveðinn svip. Húsið er líkt og nærliggjandi hús, hluti heilsteyptrar og skemmtilegrar götumyndir einnar hæðar funkishúsa með valmaþökum. Húsið, sem og lóðin eru til mikillar prýði í geðþekku umhverfinu. Um þennan hluta Oddeyrar hefur ekki verið unnin húsakönnun en lesendur geta svosem getið sér til um, hvað síðuhafi hefði um varðveislugildi húsanna og götumyndar Eyrarvegar að segja... Myndin er tekin 22. júní 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 915, 18. júní 1942, Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2022 | 18:47
Hús dagsins: Eyrarvegur 13-15
Á þeim ríflega 200 metra langa kafla Eyrarvegar, sem liggur á milli Norðurgötu í austri að Sólvöllum í vestri standa alls níu parhús Byggingafélags Akureyrar, samtals átján íbúðir. Fimmta í röðinni eða fyrir miðju er hús nr. 13-15. Það er reist í öðrum áfanga byggingaframkvæmda Byggingafélagsins, árið 1942 en þann 24. apríl fékk félagið heimild til að reisa þrjú hús: 14,6x7,50m að stærð með útbyggingum í báða enda, 4,3x3,8m. Byggð úr steinsteypu með járnklæddu timburþaki. Húsin byggð eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar frá 1939.
Eyrarvegur 13-15 er einlyft steinhús með lágu risi. Á austurenda (þ.e. nr. 15) er álma sem snýr stafni eða burst mót suðri. Á austurstafni, þ.e. á nr. 13 er útskot með hallandi þaki við austurstafn hússins. Þannig voru húsin teiknuð í upphafi, en burstirnar, sem einkenna þessar byggingar voru byggðar við síðar. Veggir alls hússins múrsléttaðir, bárujárn á þaki og einfaldir og lóðréttir póstar í flestum gluggum. Byggt var við Eyrarveg árið 1980, eftir teikningum Björns Mikaelssonar. Heimildin fyrir þeirri breytingu var fyrst veitt árið 1952 og virðist þá hafa verið fyrir öll húsin á einu bretti.
Fyrstu íbúar Eyrarvegar 13 munu hafa verið þau Tryggvi Helgason frá Akranesi og Sigríður Gróa Þorsteinsdóttir en hún var frá Reykjavík. Tryggvi Helgason var formaður Sjómannafélags Akureyrar í hvorki meira né minna en 40 ár en hann lét af því embætti 1976. Þá var einnig formaður Alþýðusambands Norðurlands um skeið. Sigríður var einnig ötul í hinum ýmsum trúnaðarstörfum, ritari Verkakvennafélagsins Einingar um árabil, í stjórn Sjúkrahúss Akureyrar og formaður Akureyrardeildar Mennningar- og friðarfélags kvenna eftir að hún var stofnuð 1956. Þá var hún einnig virk í starfsemi Skógræktarfélags Eyjafjarðar og ötul við garð og trjárækt. Þau Sigríður og Tryggvi bjuggu hér um áratugaskeið, eða allt þar til Sigríður lést árið 1982. Á meðal fyrstu íbúa Eyrarvegar 15 munu hafa verið þau Svana Karlsdóttir og Guðmundur St. Jacobsen, en ein fyrsta heimild sem timarit.is finnur um Eyrarveg 15, er einmitt tilkynning um brúðkaup þeirra í mars 1949. Guðmundur, sem var ketil- og plötusmiður, flutti árið 1956 gamla íbúðarhús forstjóra Tóvélanna á Gleráreyrum, sem byggt var 1898, upp á Byggðaveg 142. Þar má segja, að hann hafi í raun bjargað menningarverðmætum, því hálfri öld síðar, eða í ársbyrjun 2007, var allur fyrrum húsakostur verksmiðjanna, þar með talið verksmiðjuhúsið mikla sem kennt var við Gefjun, sem byggt var 1907. Er umrætt hús nú það eina sem eftir stendur af upprunalegum húsakosti verksmiðjana.
Parhúsið við Eyrarveg 13-15 er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði í umhverfinu. Lóðirnar eru einnig sérlega gróskumiklar og vel hirtar. Vesturhlutinn er óbreyttur að ytra byrði frá upphaflegri gerð en austurhlutinn skartar burst, sem einkennir mörg parhús Byggingafélagsins við Eyrarveg. Húsið er hluti mikillar þyrpingar sams konar húsa, verkamannabústaða Byggingafélagsins, og ætti þessi merka torfa að sjálfsögðu að njóta friðunar. Það er a.m.k. álit síðuhafa. Myndirnar eru teknar þann 22. júní 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 920, 7. ágúst 1942. Fundargerðir 1948-57: Fundir nr. 1149, 22. feb. 1952, nr. 1158, 7. júlí 1952. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2022 | 15:43
Hús dagsins: Eyrarvegur 12
Árið 1943 fékk Jón Sigurðsson, titlaður litari í bókunum Bygginganefndar, lóð við Eyrarveg ásamt byggingaleyfi. Fékk hann að byggja íbúðarhús á einni hæð á lágum grunni, byggt úr r-steini, með valmaþaki úr timbri 11,5x9m að stærð. Á kortavef Akureyrarbæjar liggja ekki fyrir neinar teikningar að húsinu.
Eyrarvegur 12 er einlyft r-steinhús með lágu valmaþaki, sléttum múr á veggjum, bárujárni á þaki og lóðréttum póstum með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum. Horngluggar, í anda funkisstefnu á vesturhornum. Á hornum hússins eru einnig lítið eitt upphleyptir steyptir kantar, sem mynda ásamt samsvarandi láréttum köntum við jörð eins konar umgjörð um húshliðarnar.
Jón Sigurðsson (1897-1985) var fæddur og uppalinn í Fnjóskadal, nánar tiltekið frá Snæbjarnarstöðum. Hann starfaði lengst af sem litari á Gefjun og hafði umsjón með allri litun á framleiðslu verksmiðjunnar. Var hann kvæntur Magnúsínu Kristinsdóttur (1900-1992)frá Samkomugerði í Eyjafirði. Magnúsína starfaði við kjólasaum og var mjög virk í hinni ýmsu félagastarfsemi. Hún mun hafa verið fyrsta konan sem gekk í Leikfélag Akureyrar og var mjög virk í starfsemi þess og lék þar í mörgum sýningum. Jón og Magnúsína byggðu árið 1926 húsið Brekkugötu 25 en bjuggu líkast til ekki lengi á Eyrarvegi 12. En skömmu eftir að húsið er byggt flytjast hingað Ólafur Aðalsteinsson og Hulda Svanlaugsdóttir. Ólafur vann lengst af á Vélsmiðjunni og var einnig mikilvirkur í starfsemi verkalýðs- og stéttarfélaga. Bjuggu þau hér um áratugaskeið, Ólafur allt til æviloka, 1987. Þess má geta, að Svanlaugur Ólafsson, sem um langt árabil bjó í næsta húsi vestan við, Eyrarvegi 10, var sonur þeirra. Ýmsir hafa búið á Eyrarvegi 12 eftir tíð þeirra Ólafs og Huldu, en öllum auðnast að halda húsi og lóð vel við í hvívetna.
Eyrarvegur 12 er látlaust og reisulegt hús í mjög góðri hirðu. Lóðin er einnig vel hirt og gróin og ber þar kannski mest á tveimur gróskumiklum birkitrjám framan við húsið. Húsið er líkt og nærliggjandi hús, hluti heilsteyptrar og skemmtilegrar götumyndir einnar hæðar funkishúsa með valmaþökum. Húsið, sem og lóðin eru til mikillar prýði í geðþekku umhverfinu. Um þennan hluta Oddeyrar hefur ekki verið unnin húsakönnun en lesendur geta svosem getið sér til um, hvað síðuhafi hefði um varðveislugildi húsanna og götumyndar Eyrarvegar að segja... Myndin er tekin 22. júní 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. nr. 940, 16. apríl 1943. Fundur nr. 943, 28. maí 1943, Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2022 | 17:27
Hús dagsins: Eyrarvegur 10
Eyrarveg 10 byggði Hólmsteinn Egilsson árið 1942 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Húsið er tvíburahús Eyrarvegar 8, en Hólmsteinn byggði þessi tvö hús og seldi svo.
Eyrarvegur 10 er einlyft steinhús með lágu valmaþaki, steiningarmúr á veggjum, bárujárni á þaki og einföldum lóðréttum póstum með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum. Að suðaustan er bílskúr áfastur húsinu, 4,4x9,0m að stærð en grunnflötur hússins er 11,50x8,60m Aðaldyr hússins snúa mót vestri en ekki að götu, líkt og á flestum húsunum við sunnanverðan Eyrarveg. Á teikningum er gert ráð fyrir dyrum þar, en líkast til fallið frá því fyrir eða við byggingu. Alltént eru ekki dyr til norðurs á raflagnateikningum, sem Hólmsteinn mun hafa gert sjálfur. Sömu sögu er að segja af Eyrarvegi 8, enda húsin byggð af sama manni á sama tíma og eftir sömu teikningu.
Hver keypti húsið nýbyggt af Hólmsteini hefur höfundur ekki náð að grafa upp, en á meðal fyrstu eigenda hússins, ef ekki sá fyrsti, var Hámundur Björnsson. Hámundur Eldjárn Björnsson (1917-2002), sem var frá Hámundarstöðum í Vopnafirði, var sjómaður og starfaði lengst af á skipum Guðmundar Jörundssonar sem vélstjóri. Eftir að hann kom í land var hann vélstjóri í verksmiðjum, m.a. hinni valinkunnu drykkjaverksmiðju Sana. Hann var kvæntur Guðrúnu Kristjánsdóttur (1909-1956). Hámundur Björnsson byggði bílskúrinn við húsið, eftir óárituðum, ódagsettum teikningum. Hámundur og hans fólk mun hafa búið hér til ársins 1960, en það liggur nákvæmlega fyrir, hvenær hann seldi húsið. Í Viðskiptatíðindum fyrir Eyjafjörð kemur fram, að Hámundur Björnsson selji Svanlaugi Ólafssyni húsið Eyrarveg 10, afsal dagsett 21. maí 1960 og skjalinu þinglýst þann 4. júní. Svanlaugur, sem var bifvélavirkjunarmeistari bjó hér, ásamt fjölskyldu sinni, um áratugaskeið. Hafa ýmsir búið í húsinu sl. áratugi og öllum auðnast að halda húsi og lóð vel við í hvívetna.
Eyrarvegur 10 er látlaust og reisulegt hús í mjög góðri hirðu. Lóðin er einnig gróin og vel hirt og girðing með stöplum og járnavirki að lóðarmörkum. Húsið er líkt og nærliggjandi hús, hluti heilsteyptrar og skemmtilegrar götumyndir einnar hæðar funkishúsa með valmaþökum. Húsið, sem og lóðin eru til mikillar prýði í geðþekku umhverfinu. Um þennan hluta Oddeyrar hefur ekki verið unnin húsakönnun en lesendur geta svosem getið sér til um, hvað síðuhafi hefði um varðveislugildi húsanna og götumyndar Eyrarvegar að segja... Myndin er tekin 22. júní 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. nr. 908, 5. maí 1942. Fundur nr. 910, 15. maí 1942, Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2022 | 17:05
Hús dagsins: Eyrarvegur 9-11
Eyrarveg 9-11 reisti Byggingafélag Akureyrar árið 1942. Þann 24. apríl þ.á. fékk Erlingur Friðjónsson, fyrir hönd Byggingafélagsins, leyfi til byggingar, jafnstórra húsa, 14,6x7,50m að stærð með útbyggingum í báða enda, 4,3x3,8m. Byggð úr steinsteypu með járnklæddu timburþaki. Voru þetta sams konar hús og byggð höfðu verið árið 1939 vestast við Eyrarveginn, verkamannabústaðir eftir Guðjón Samúelsson.
Eyrarvegur 9-11 er einlyft steinhús með lágu risi. Húsið er samhverft A-V og á endum burstir eða álmur sem snúa stöfnum N-S. Veggir eru klæddir sléttum múr, bárujárn á þaki og einfaldir lóðréttir póstar í flestum gluggum.
Umræddar útbyggingar, sem nefndar eru í byggingarleyfi voru útskot á bakhornum parhúsanna og í þeim voru kyndiklefar og geymslur. Burstirnar, sem einkenna parhúsin við Eyrarveg voru í flestum tilvikum stofur og voru þær reistar síðar- og ekki á sama tíma. En það var árið 1952, sem breytingar voru heimilaðar á húsunum við Eyrarveg. Ekki er þó nefnt í hverju þær breytingar felast, en tímasetningin rímar við, að elstu teikningar af burstum við Eyrarvegarhúsin eru dagsettar 31. jan. 1952 og eru undirritaðar af Sigurbirni Árnasyni. Þær teikningar eiga við Eyrarveg 5-7, en viðbyggingin við 5a er teiknuð af Tryggva Sæmundssyni árið 1957. Árið 1969 teiknar Mikael Jóhannesson viðbyggingu við Eyrarveg 11, stofa 4,60x6,14 ásamt anddyri, 1,50x3,50, alls rúmir 34 m2 og 107 m3. Árin 1981-83 svo byggt við Eyrarveg 9, fyrst hin hefðbundna stofuálma, eftir teikningum Hauks Haraldsson. Þá var byggt við húsið til norðurs, eftir teikningum Tómasar Búa Böðvarssonar.
Fyrstu íbúar Eyrarvegar 9 munu hafa verið þau Sveinbjörg Eiríksdóttir og Sveinn Þorsteinsson. Hún var frá Norðfirði en hann frá Hóli í Höfðahverfi. Líkt og svo margir frumbyggjar við norðanverðan Eyrarveginn bjuggu þau hér um áratugaskeið, raunar til æviloka, en Sveinbjörg lést 1972 og Sveinn árið 1980. Hafa síðan ýmsir búið hér um lengri eða skemmri tíma. Fyrstu íbúar Eyrarvegar 11 mun hafa verið Helga Sigfúsdóttir, og dóttir hennar Rannveig Kristjana. Helga, sem var frá Ásbyrgi í Kelduhverfi var þá orðin ekkja, en hún hafði verið gift Kristjáni Markússyni, sem lést 1932. Árið 1920 voru þau búsett í Ytra Melhúsi, á Brekkunni, norðan Grófargils. Helga Sigfúsdóttir naut hússins ekki lengi, en hún lést í nóvember árið 1944. Rannveig Kristjánsdóttir fórst í hinu hörmulega flugslysi í Héðinsfirði vorið 1947. Hafa síðan margir átt hér heima.
Parhúsið við Eyrarveg 9-11 er reisulegt og glæst hús. Er það í mjög góðri hirðu, virðist nýlega málað og þak nýlegt að sjá sem og þakkantar. Lóðin er einnig í góðri hirðu. Húsið er hluti mikillar þyrpingar sams konar húsa, verkamannabústaða Byggingafélagsins, og ætti þessi merka torfa að sjálfsögðu að njóta friðunar. Það er a.m.k. álit síðuhafa. Myndirnar eru teknar þann 22. júní 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar:. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 906, 24. apríl 1942. Fundur nr. 920, 7. ágúst 1942. Fundargerðir 1948-57: Fundir nr. 1149, 22. feb. 1952, nr. 1158, 7. júlí 1952. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2022 | 13:28
Hús dagsins: Eyrarvegur 8
Hólmsteinn Egilsson, sem síðar átti og rak Möl og Sand, virðist hafa verið nokkurs konar byggingarverktaki árin 1942-43. En hann þá byggði hann þrjú einbýlishús og seldi, og öll stóðu þau- og standa enn- við Eyrarveg. Vorið 1942 sótti Hólmsteinn um, og fékk lóðir við Eyrarveg, nr. 4 og 5 sunnan götu. Fékk hann að byggja tvö hús úr r-steini með valmaþaki, 11x8,5m að stærð. Teikningarnar að húsunum gerði Tryggvi Jónatansson.
Eyrarvegur 8 er einlyft steinhús með lágu valmaþaki, múrplötum (mögulega stení) á veggjum, bárujárni á þaki og einföldum lóðréttum póstum í flestum gluggum. Öfugt við flest nærliggjandi hús snúa aðaldyr hússins ekki til norðurs að götu heldur til vesturs. Á teikningum er gert ráð fyrir dyrum þar, en líkast til fallið frá því fyrir byggingu. Alltént eru ekki dyr til norðurs á raflagnateikningum, sem Hólmsteinn mun hafa gert sjálfur.
Hólmsteinn Egilsson var Skagfirðingur, fæddur að Þorleifsstöðum í Blönduhlíð. Hann stundaði lengst af hina ýmsu verkamannavinnu, keyrði vörubíla og fékkst einnig við húsbyggingar. Möl og sand keypti hann í félagi við Sverri Ragnars árið 1955 og stýrði því fyrirtæki í rúma tvo áratugi. Hólmsteinn Egilsson tók þátt í hinum frækilega og annálaða björgunarleiðangri, sem sótti áhöfn millilandaflugvélarinnar Geysis af Vatnajökli haustið 1950. Ók hann þar vörubíl, sem flutti vistir og búnað leiðangursmanna. Hólmsteinn mun sem áður segir, hafa byggt húsið og selt en ekki búið hér en margir hafa búið á Eyrarvegi 8 í þessa átta áratugi. Húsið mun að ytra byrði næsta óbreytt frá upphaflegri gerð, en engu að síður í afbragðs góðri hirðu.
Eyrarvegur 8 er, líkt og nærliggjandi hús, hluti heilsteyptrar og skemmtilegrar götumyndir einnar hæðar funkishúsa með valmaþökum. Húsið og næsta hús austan við, nr. 10 eru samstæð tvíburahús. Húsið, sem og lóðin eru í góðri hirðu og til mikillar prýði í geðþekku umhverfinu. Um þennan hluta Oddeyrar hefur ekki verið unnin húsakönnun en lesendur geta svosem getið sér til um, hvað síðuhafi hefði um varðveislugildi húsana og götumyndar Eyrarvegar að segja...Myndin er tekin 22. júní 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. nr. 908, 5. maí 1942. Fundur nr. 910, 15. maí 1942, Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt 19.2.2022 kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2022 | 17:34
Hús dagsins: Eyrarvegur 6
Eyrarveg 6 reisti Tryggvi Gunnlaugsson árið 1942. Hann fékk þriðju lóð sunnan Eyrarvegar ásamt byggingaleyfi fyrir húsi, 8,15x10,5m að stærð, byggt úr r-steini með járnklæddu valmaþaki. Upprunalegar teikningar að húsinu liggja ekki fyrir á kortavef.
Eyrarvegur 6 er einlyft r-steinhús á lágum grunni, með lágu valmaþaki. Bílskúr er áfastur austan og sunnanmegin og sunnan úr húsinu er bakálma 5x4,50m að stærð. Er sú einnig steypt og valmaþaki. Þar er um að ræða viðbyggingu frá 1961, eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar. Veggir eru múrsléttaðir, bárujarn á þaki og einfaldir, lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum.
Tryggvi Zophonías Gunnlaugsson var fæddur árið 1908 á Ytra Hvarfi í Svarfaðardal en uppalinn á Akureyri. Hann starfaði m.a. sem vélstjóri á sjó en einnig sem bifreiðastjóri, ók m.a. flutningabíl milli Akureyrar og Reykjavíkur um miðja síðustu öld. Hann var kvæntur Jóhönnu Soffíu Jónsdóttur en hún var frá Bakka í Viðvíkursveit í Skagafirði. Tryggvi og Jóhanna munu hafa búið hér í áratug en þau fluttu til Reykjavíkur árið 1953 og bjuggu þar alla tíð síðan. Jóhanna lést langt fyrir aldur fram árið 1956 en Tryggvi lést 1994. Ef skoðuð eru gögn af timarit.is, sést að árið 1946 er Jón B. Jónsson múrarameistari búsettur að Eyrarveg 6. Jón Bakkmann Jónsson var bróðir Jóhönnu Soffíu og bjó hann hjá þeim um nokkurra ára skeið. Hann stundaði nám í múrverki hjá Gaston Ásmundssyni og lauk prófi í þeirri iðn árið 1942- sama ár og Tryggvi mágur hans fékk byggingarleyfið fyrir Eyrarvegi. Það er alls ekki ólíklegt, að Jón hafi komið að eða stýrt byggingu hússins. Margir hafa búið á Eyrarvegi 6 eftir tíð Tryggva, Jóhönnu og Jóns en öllum auðnast að halda húsinu vel við. Lengst af bjuggu hér þau Magnús Jónsson bifvélavirki og Sigríður Loftsdóttir, eða í tæpa hálfa öld. Magnús var Akureyringur en Sigríður var frá Böggvisstöðum í Svarfaðardal. Eignuðust þau húsið 1953 og bjuggu hér allt þar til Magnús lést, en Sigríður seldi húsið ári síðar.
Eyrarvegur 6 er látlaust en glæst og reisulegt hús í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði. Það virðist nýlega hafa hlotið verulegar endurbætur, þak nýtt sem og gluggar, sem og múr á veggjum og frágangur allur hinn snyrtilegasti. Það er hluti langrar og heilsteyptrar götumyndar áþekkra hús við sunnanverðan Eyrarvegar. Eyrarvegurinn er ein af mörgum skemmtilegum og áhugaverðum götumyndum eldri hverfa Akureyrar. Hún er eiginlega tvískipt; sunnanmegin eru funkishús með valmaþökum, áþekk húsum við Ægisgötu en norðanmegin er þyrping verkamannabústaða með sérstæðu lagi. Að sjálfsögðu verðskulda öll þessi hús varðveislugildi að mati síðuhafa. Myndin er tekin þann 22. júní 2021
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 908, 5. maí 1942, nr. 909, 8. maí 1942. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt 17.10.2024 kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.2.2022 | 17:56
Hús dagsins: Eyrarvegur 5a-7a
Verkamannabústaðahverfið við Eyrarveg reisti Byggingafélag Akureyrar á um átta ára tímabili, eða frá 1939 1947. Ef tekin eru mið af skráðum byggingarárum húsanna virðast þau hafa verið reist í þremur áföngum, 1939, 1942-43 og loks 1947. Þá er árið 1942 veitt heimild til að byggja þrjú hús í viðbót, en síðuhafi fann ekki sérstakar bókanir hjá bygginganefnd fyrir síðasta áfanganum. Enda hafði Byggingafélagið í raun tryggt sér svæðið og byggingarréttinn á þessu svæði, og öll húsin eftir sömu teikningu. Svo kannski var ekkert ósagt af hálfu bygginganefndar varðandi frekari byggingar. Voru húsin byggð í röð til austurs, í fyrsta áfanga Eyrarvegur 1-3, 5-7 ásamt ónúmeruðu húsi vestast, sem fyrst um sinn taldist standa við Hörgárbraut en fékk síðar númerið 2-4 við Sólvelli. Þremur árum síðar voru það hús nr. 9-11, 13-15, 17-19 og 21-23 og síðasta áfanga hús 25-27 og 25a-27a. Síðasttöldu húsin standa austast eða næst Norðurgötu en í þessum byggingaráfanga var einnig byggt á lausri lóð á bakvið hús nr. 5-7: Eyrarvegur 5a-7a (Samkvæmt reglum stærðfræðinnar mætti taka a út fyrir sviga og skrifa þetta heimilisfang Eyrarvegur a(5-7).
) Lóðin var í krika sem myndaðist bakvið horn Sólvalla og Víðivalla, nýrrar götu norðan við Eyrarveg og vestan við hús nr. 9-11. Öll eru þessi hús byggð eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar.
Eyrarvegur 5a er einlyft steinhús með lágu risi. Á vesturenda (þ.e. nr. 5a) er álma sem snýr stafni eða burst mót suðri en útskot með hallandi þaki við austurstafn hússins. Þannig voru húsin teiknuð í upphafi, en burstirnar, sem einkenna þessar byggingar voru byggðar við síðar. Veggir 5a eru múrsléttaðir en steiningarmúr á 7a, bárujárn á þaki og einfaldir, lóðréttir póstar í flestum gluggum.
Fyrir heimilisfangið Eyrarveg 5a (í þgf.) birtast sex niðurstöður en 17 fyrir 7a. Sú elsta um 5a er tilkynning um brúðkaup þeirra Höllu Guðmundsdóttur og Óla Þórs Baldvinsdóttir í desember 1951. Eyrarvegar 7a er fyrst getið á prenti í andlátstilkynningu Guðbjargar Þóru Þorsteinsdóttur í júlí 1950. Hafa framangreind verið með fyrstu íbúum hússins. Um áratugaskeið bjuggu í Eyrarvegi 7a þau Ellert Marinó Jónasson (1914-1993)frá Brimnesi í Ólafsfirði, lengst af starfsmaður Rafveitu Akureyrar og Jónína Símonardóttir (1916-2008). Jónína frá Svæði í Svarfaðardal. Hafa ýmsir búið í húsinu um lengri eða skemmri tíma. Árið 1957 var byggð við vesturhlutann, það er 5a, álma með lágu risi með stöfnum til N-S, eftir teikningum Tryggva Sæmundssonar. Byggt var við mörg þessi hús við norðanverðan Eyrarveg á þennan sama hátt, en á þessu parhúsi var aðeins byggt við vesturenda. Þá var byggður bílskúr, eftir teikningum Jóns Geirs Ágústssonar, nyrst og austast á lóð 7a árið 1961.
Parhúsið við Eyrarveg 5a-7a er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði í umhverfinu. Lóðirnar eru einnig sérlega gróskumiklar og vel hirtar. Austurhlutinn er óbreyttur að ytra byrði frá upphaflegri gerð en vesturhlutinn skartar burst, sem einkennir mörg parhús Byggingafélagsins við Eyrarveg. Húsið er hluti mikillar þyrpingar sams konar húsa, verkamannabústaða Byggingafélagsins, og ætti þessi merka torfa að sjálfsögðu að njóta friðunar. Það er a.m.k. álit síðuhafa. Myndin er tekin þann 22. júní 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 840, 10. Ágúst 1939, nr. 842, 18. sept. 1939. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 920, 7. ágúst 1942. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2022 | 17:41
Hús dagsins: Eyrarvegur 5-7
Árið 1939 reisti Byggingafélag Akureyrar (eða Byggingafélag Verkamanna, er titlað hinu fyrrnefnda í bókunum Bygginganefndar), með Erling Friðjónsson í broddi fylkingar, þrjú parhús við Eyrarveg. Var um að ræða fyrsta áfanga af mörgum en fjöldi parhúsa reis við Eyrarveg og nærliggjandi götur á næsta áratug. Eitt þessara húsa fékk síðar númerið 2-4 við götuna Sólvelli, sem liggur til norðurs frá Eyrarvegi. Upprunasaga húsanna er rakin ítarlega í greininni um Eyrarveg 1-3 og kannski ekki þörf á að endurtaka hana hér. Húsin voru reist eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar.
Eyrarvegur 1-3 er einlyft steinhús með lágu risi. Húsið er samhverft A-V og á endum burstir eða álmur sem snúa stöfnum N-S. Veggir eru múrklæddir, bárujárn á þaki. Í gluggum vesturhluta, þ.e. nr. 5 eru víðir og skiptir krosspóstar en einfaldir lóðréttir póstar í austurhluta (nr.7) Á baklóð nr. 7 er stakstæður bílskúr.
Fyrstu íbúar Eyrarvegar 5 (Manntal 1940) voru þau Sigurbjörn Árnason og Þórdís Jónsdóttir en í Eyrarvegi 7 bjuggu árið 1940 þau Stefán Þórarinsson og Ingibjörg Sigurðardóttir. Munu þeir Stefán og Sigurbjörn hafa verið skólafélagar úr Iðnskólanum, báðir húsgagnasmiðir. Fjölskyldurnar tvær í Eyrarvegi 5 og 7 voru raunar nokkuð samhentar; [...]lifðu svipuðu lífi, feðurnir unnu við sömu iðn, börnin fæddust um líkt leyti, húsin voru stækkuð á sama tíma og fyrstu bílana eignuðust þær með stuttu millibili. Ef mæðurnar vanhagaði um einhverja smámuni var alltaf hægt að hlaupa yfir um og fá lánað. (Valborg Stefánsdóttir, 2000). Eflaust lýsandi fyrir yndislegt samlyndi og samhjálp íbúa á þessum slóðum (og víðar). Hið samhenta vinafólk í Eyrarvegi 5 og 7 voru öll að austan, Sigurbjörn Árnason og Þórdís Jónsdóttir úr Þingeyjarsýslum en Stefán Þórarinsson frá Vopnafirði og Ingibjörg Sigurðardóttir frá Seyðisfirði. Sigurbjörn Árnason varð bráðkvaddur aðeins 47 ára gamall árið 1959 en Þórdís bjó áfram hér um áratugaskeið eftir það. Sömuleiðis bjuggu Stefán og Ingibjörg hér allt til dánardægra eða í meira en hálfa öld. Hafa síðan ýmsir búið hér og öllum auðnast að halda húsi og lóðum vel við í hvívetna.
Parhúsið við Eyrarveg 5-7 er í mjög góðri og til mikillar prýði í umhverfinu. Lóðirnar eru einnig sérlega gróskumiklar og vel hirtar Húsið er hluti mikillar þyrpingar sams konar húsa, verkamannabústaða Byggingafélagsins, og ætti þessi merka torfa að sjálfsögðu að njóta friðunar. Það er a.m.k. álit síðuhafa. Myndirnar eru teknar þann 22. júní 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 840, 10. Ágúst 1939, nr. 842, 18. sept. 1939. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Manntal á Akureyri 1940. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 95
- Sl. sólarhring: 98
- Sl. viku: 323
- Frá upphafi: 445875
Annað
- Innlit í dag: 54
- Innlit sl. viku: 210
- Gestir í dag: 52
- IP-tölur í dag: 50
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar