Hús dagsins: Eyrarvegur 4

Þann 17. júní 1945 átti Lýðveldið Ísland ársafmæli.P6220993 Um mjög svipað leyti hóf Eggert Ólafsson byggingu á íbúðarhúsi við Eyrarveg 4, en byggingarleyfi fékk hann þann 15. júní þ.á. Fékk hann að reisa hús 11,7x9m að stærð, ein hæð úr r-steini með valmaþaki úr timbri. Lóðina hafði hann fengið árið áður. Upprunalegar teikningar liggja ekki fyrir á kortavef, en líkleg nöfn sem síðuhafa dettur í hug eru t.d. Tryggvi Jónatansson, Guðmundur Gunnarsson eða Guðmundur Magnússon.

Eyrarvegur 4 er einlyft steinhús á lágum grunni með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki. Horngluggar í anda funkisstíls á norðvestur og suðvesturhornum en í flestum gluggum eru lóðréttir póstar með skiptum fögum. Suðaustur úr húsinu er bakálma eða viðbygging og fast upp við hana er bílskúr. Á nýlegum (2016) teikningum Ágústs Hafsteinssonar kemur fram, að húsið sé byggt úr r-steini, einangrað með reiðingi þ.e. upprunalegir útveggir, en búið sé að einangra þá upp á nýtt með 50mm plasteinangrun og múrhúða.

Eggert Ólafsson (1910-1975) og Halldóra Sigurðardóttir (1904-1983) sem byggðu húsið 1945 bjuggu hér alla tíð síðan, eða til dánardægra. Eggert, sem lengst af starfaði sem vélstjóri, var Akureyringar að uppruna; nánar tiltekið Oddeyringur. Enn nánar tiltekið ólst hann upp í Norðurgötu 1 hjá Vébjörgu Árnadóttur og Árna Indriðason en í Manntali 1920 er hann sagður tökubarn þar. Norðurgata 1 kallaðist löngum Vébjargarhús. Halldóra Sigurðardóttir var úr Ólafsfirði, skráð í Manntali 1910 í Þorsteinshúsi þar í bæ. Hélst húsið í eigu afkomenda þeirra eftir þeirra dag. Um 1980 var byggt við húsið til suðurs, 42 m2 bygging og bílskúr fast við viðbyggingu sunnan og austanmegin. Teikningar að þessum byggingum gerði Haukur Haraldsson.  Um árabil, áratugina sitt hvoru megin við aldamót, var starfrækt hárgreiðslustofa í bílskúrnum, Studio Marilyn. Sú sem greiddi þar hár og klippti var Halldóra Vébjörnsdóttir, sonardóttir Eggerts Ólafsson og Halldóru Sigurðardóttur.

Eyrarvegur 4 er reisulegt hús og í mjög góðri hirðu. Það hefur nýlega hlotið miklar endurbætur og virðist sem nýtt að sjá og frágangur hússins og umhverfi allur hinn snyrtilegasti. Lóðin, sem er gróskumikill og  er af þeim stærstu við íbúðarhús á Oddeyri, um 1100 m2 . Lóðirnar á þessum slóðum, vestast við Fjólugötu eru býsna víðlendar, en það kemur til af mótstæðum sveigjum gatnanna; Eyrarvegur liggur sem beint strik í A-V á meðan Fjólugatan liggur í nokkurs konar breiðboga samstefna, með ákveðinni sveigju til suðurs, vestast. Á sömu slóðum sveigir Glerárgata mjög skarpt til vesturs, svo skiki sá, er afmarkast af þessum götum, ásamt Norðurgötu í austri, er í laginu eins og fleygur með skástæðum toppi. (Kannski hefði átt að vara þá við, sem ekki þekkja áttirnar á Akureyri við málsgreinunum hér á undan).  Eyrarvegurinn er ein af mörgum skemmtilegum og áhugaverðum götumyndum eldri hverfa Akureyrar. Hún er eiginlega tvískipt; sunnanmegin eru funkishús með valmaþökum, áþekk húsum við Ægisgötu en norðanmegin er þyrping verkamannabústaða með sérstæðu lagi. Að sjálfsögðu verðskulda öll þessi hús varðveislugildi að mati síðuhafa. Myndin er tekin þann 22. júní 2021.  

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 988, 25. ágúst 1944, nr. 1022, 15. júní 1945 Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Eyrarvegur 2

Eyrarveg 2 reisti Eggert Stefánsson árið 1945. P6220992Fimmtánda september 1944 afgreiddi bygginganefnd umsókn hans um lóð, vestan við Eggert Ólafsson [Eyrarveg 4]. Eins og jafnan tíðkaðist á þeim bænum var ekkert verið að flækja málin með götum og númerum, heldur legu lóðar einfaldlega lýst með afstöðu til næstu lóða og húsa, sem aftur eru kennd við eigendur sína. Þetta fyrirkomulag á það hins vegar til að flækjast verulega fyrir þeim sem þetta ritar. En nóg um það. Ekki fékk Eggert Stefánsson lóðina við hlið nafna síns Ólafssonar í það skiptið. En sumarið eftir, í júlí 1945, fær hann hins vegar byggingarleyfi á lóðinni, svo honum hefur hlotnast hún í millitíðinni. Fékk hann að reisa íbúðarhús á einni hæð á lágum grunni, byggt úr r-steini, valmaþak úr timbri, stærð 12,7x10,6m. Upprunalegar teikningar liggja ekki fyrir á kortavef Akureyrarbæjar en þar má hins vegar finna upprunalegar raflagnateikningar Sigtryggs Þorbjörnssonar.

Eyrarvegur 2 er einlyft steinhús, byggt úr r-steini sem áður segir, með lágu valmaþaki. Veggir eru klæddir steiningarmúr og bárujárn á þaki. Að suðaustan er áfastur bílskúr og bakálma til suðurs, vestanmegin. Á norðvesturhorni er nokkurs konar innskot, þar sem er inngöngutröppur og pallur og forstofuútskot í kverkinni milli framhliðar og inndregins, vesturhluta þeirrar hliðar.

Eggert Stefánsson og frú, Aðalheiður Þorleifsdóttir bjuggu hér um langt árabil. Árið 1965 byggðu þau við húsið, stofuálmu til suðurs eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar og fékk húsið þá það lag sem það nú hefur. Mögulega hefur Guðmundur einnig teiknað húsið í upphafi. Eggert og Aðalheiður voru bæði af Austurlandi, Eggert fæddur að Daðastöðum í Núpasveit en Aðalheiður frá Norðfirði. Eggert fluttist ungur að Eyrarlandi í Öngulsstaðahreppi og ólst þar upp. Stundaði hann sjómennsku til skamms tíma en nam vélvirkjun er hann kom í land. Stofnaði hann árið 1942 Vélsmiðjuna Atla, ásamt Alfreð Möller, og var forstjóri þar alla tíð síðan. Eggert lést árið 1972. Aðalheiður bjó hér áfram eftir hans dag. Hún var afar ötul við garðyrkju og ræktaði þarna um árabil sannkallaðan skrúðgarð, sem m.a. hlaut viðurkenningu Garðyrkjufélags Akureyrar árið 1986. Aðalheiður mun hafa búið hér fram yfir aldamót eða í meira en hálfa öld. Enn í dag er lóðin gróskumikil og vel hirt.

Eyrarvegur 2 er látlaust en glæst hús í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði. Það er hluti langrar og heilsteyptrar götumyndar áþekkra hús við sunnanverðan Eyrarvegar. Lóðin er, sem áður segir, mjög gróskumikil og vel hirt. Er hún er um 800 fermetrar að flatarmáli, sem er nokkuð víðlent miðað við íbúðarhúsalóð á Oddeyrinni. Á lóðarmörkum við götu er steyptur veggur með járnavirki, með steiningu í stíl við húsið. Eyrarvegurinn er ein af mörgum skemmtilegum og áhugaverðum götumyndum eldri hverfa Akureyrar. Hún er eiginlega tvískipt; sunnanmegin eru funkishús með valmaþökum, áþekk húsum við Ægisgötu en norðanmegin er þyrping verkamannabústaða með sérstæðu lagi. Að sjálfsögðu verðskulda öll þessi hús varðveislugildi að mati síðuhafa. Myndin er tekin þann 22. júní 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 991, 15. september 1944, nr. 1025, 27. júlí 1945 Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Eyrarvegur 2a

Veitingahúsið Greifann þekkja sjálfsagt flestir, sem sótt P6220990hafa Akureyri heim og auðvitað íbúar bæjarins líka. Hann stendur í þjóðbraut, bókstaflega, því Þjóðvegur 1 gegnum Akureyri liggur um Glerárgötu, þar sem Greifinn er hús nr. 20. Norðan við Greifann liggur Eyrarvegur til austurs fast við þau gatnamót liggja Hvannavellir til norðurs. Bak við Greifann, sunnan við gatnamótin þreföldu er efsta hús Eyrarvegar. Það ber númerið 2a. Það var fullbyggt árið 1950, en Eyrarvegur var að mestu fullbyggður fáeinum árum fyrr, þ.á.m. nr. 2, sem reis 1945.  Hús nr. 1 er t.d. nokkuð neðar en á móti Eyrarvegi 2a eru Hvannavellir 2 og Sólvellir 1. Þá var auðvitað enginn Greifi, heldur braggaþyrping þar sem veitingahúsið rómaða stendur nú.

En það var í júní 1949 að Adolf Ingimarsson fékk „hornlóðina við Eyrarveg“ og byggingarleyfi. Byggingarlýsing fylgdi ekki en tekið fram að vegna umferðar væri ekki hægt að láta nema nokkurn hluta lóðar af hendi. Hvort einhvern tíma bættist við lóðina fylgir ekki sögunni, en aðeins um fjórir metrar skilja að vesturhlið hússins og lóðarmörkin við Greifann. Teikningarnar að húsinu gerði Sigurður Hannesson.

Eyrarvegur 2a er einlyft steinhús með lágu valmaþaki undir áhrifum funkisstíls, horngluggi á norðvesturhorni. Gluggapóstar eru þrískiptir með lóðréttum fögum og lóðrétt fögum uppi og niðri, sem gefur gluggunum og þar með húsinu, sérstakan svip. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki. Grunnflötur er nokkurn veginn ferningslaga, 11x11,15m.

Adolf Ingimarsson (1914-1982) var frá Uppsölum í Öngulsstaðahreppi- nú Eyjafjarðarsveit og kona hans var Jóna Sigríður Jónsdóttir (1920-2012) frá Goðdölum í Skagafirði.  Adolf var mjög fær golfspilari og vakti athygli, þegar hann fór fyrstur holu í höggi á nýju golfvelli Akureyrar í júlí 1952. Þess má reyndar geta, að umræddur golfvöllur er nú löngu kominn undir byggð- í Byggðahverfi á syðri Brekkunni. Mun þetta hafa verið í þriðja skiptið, sem einhver fór holu í höggi í golfsögu bæjarins. Þau Adolf og Ingibjörg bjuggu hér um langt árabil, en þó nokkrir hafa átt og búið í húsinu eftir þeirra tíð, en öllum auðnast að halda því vel við í hvívetna. Það er nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð, m.a. eru gluggapóstar sömu gerðar og á upprunalegri teikningu. Bílskúr var byggður á lóðinni, suðaustan við húsið, árið 1967 eftir teikningum Tómasar Búa Böðvarssonar.

Eyrarvegur 2a er látlaust en glæst hús í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði. Lóðin er einnig mjög gróskumikil og vel hirt og er þar m.a. lítið gróðurhús. Eyrarvegurinn er ein af mörgum skemmtilegum og áhugaverðum götumyndum eldri hverfa Akureyrar. Hún er eiginlega tvískipt; sunnanmegin eru funkishús með valmaþök, áþekk húsum við Ægisgötu en norðanmegin er þyrping verkamannabústaða með sérstæðu lagi. Að sjálfsögðu verðskulda öll þessi hús varðveislugildi að mati síðuhafa (þarf kannski ekki að spyrja að því wink). Myndin er tekin þann 22. júní 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1948-57. Fundur nr.1110, 24. júní 1949. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Eyrarvegur 1-3

Sumarið 1939 mun hafa verið annálað góðviðris- og hlýindasumar. Þá varP6220995 Byggingafélag Akureyrar, með Erling Friðjónsson kaupfélagsstjóra í broddi fylkingar, stórhuga um byggingu verkamannabústaða. Þá, sem nú, var bráður húsnæðisskortur landlægur, einkum meðal tekjulægri einstaklinga. 1. ágúst 1939 sendi Erlingur beiðni til Bygginganefndar fyrir hvorki meira né minna en 50 lóðir til uppbyggingar verkamannabústaða. Óskaði hann eftir lóðum við Fjólugötu að norðan, Hörgárbraut [nú Glerárgata] að austan og niður með Eyrarvegi beggja megin. Ætlunin var, að byggja þar einlyft hús.

Niðurstaða bygginganefndar var sú, að Byggingafélagið fengi 3 lóðir við hvort tveggja Fjólugötu og Hörgárbraut en áréttaði, að ekki væri búið að skipuleggja byggð norðan Eyrargötu [svo]. Þá fékk Byggingafélagið lóðirnar við Eyrarveg. Bygginganefnd áréttaði einnig, að ekki væri í boði að fá svo mörgum lóðum úthlutað í einu, en þeim væri hægt að úthluta jafnóðum og byggt væri. Ætlun Byggingafélagsins, að reisa einlyft hús við Fjólugötu og Hörgárbraut, gekk í berhögg við fyrirliggjandi skipulag og var því vísað til Skipulagsnefndar. Þann 18. sept. lá fyrir erindi vegamálastjóra og formanns Skipulagsnefndar, Geirs Zoega: Heppilegast væri að reisa fyrirhugaða verkamannabústaði við þessar götur við Eyrarveg að norðan, á sérstökum reit, sem fyrirhugaður var til þess, samkvæmt uppdrætti. Féllst Bygginganefnd á, að Byggingafélagið fengi vestasta hluta þess reits. Fékk Byggingafélagið þrjár lóðir til að byrja með ásamt byggingarleyfi: „Húsin eru ein hæð án kjallara, 14,60x7,5m, úr steinsteypu með bárujárnsþaki. Tvær íbúðir í hverju húsi“. (Bygg.nefnd. Ak 1939:842) Sem áður segir, eru húsin reist eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar, en einnig mun Bárður Ísleifsson, sem starfaði náið með Guðjóni hafa komið að hönnun húsanna. Í einhverri sögugöngu um Oddeyrina minnist höfundur þess, að hafa heyrt þessi hús kölluð Erlingshús, væntanlega eftir téðum Erlingi Friðjónssyni.

Eyrarvegur 1-3 er einlyft steinhús með lágu risi. Húsið er samhverft A-V og á endum burstir eða álmur sem snúa stöfnum N-S. Veggir eru  múrsléttaðir, bárujárn á þaki og einfaldir lóðréttir póstar í flestum gluggum. Áfastir bílskúrar eru við báða enda hússins og þar um síðari tíma viðbyggingar að ræða.

Árið 1942 voru heimilaðar smávægilegar breytingar á húsunum, í samræmi við þau sem verið var að reisa þá, sem fólust í því, að geymslurými þeirra var stækkað um 1,20. Árið 1952 leyfir Bygginganefnd einnig breytingar á húsunum við Eyrarveg. Væntanlega er þar um að ræða endaálmurnar eða „burstirnar“ sem nú eru á flestum húsunum- þó ekki öllum. Fengu húsin þá flest það lag, sem þau nú hafa. Áfastir bílskúrar voru reistir við Eyrarveg 1-3, árið 1974 norðan við Eyrarveg 1 eftir teikningum Björns Mikaelssonar. Viðbygging til norðurs ásamt bílskúr, áföstum að austan var reist við nr. 3 árið 1978, einnig eftir teikningum Björns.

Í Manntali árið 1940 eru þrjú hús skráð við Eyrarveg, en ekkert þeirra með númeri. Eitt þeirra varð síðar Sólvellir 2-4. Í hverju húsi eru þó greinilega tvær íbúðir, svo húsin eru væntanlega Sólvellir 2-4, Eyrarvegur 1-3 og 5-7. Í Eyrarvegi 1 búa árið 1940 þau Jón M. Árnason og Dagmar Sveinsdóttir. Jón, sem var úr Svarfaðardalnum, nánar tiltekið frá Þverá, var vélstjóri og var um árabil verksmiðjustjóri á Krossanesi. Hann lést langt fyrir aldur fram árið 1962, aðeins 51 árs. Dagmar Sveinsdóttir (1913-1997)var fædd og uppalin á Akureyri og stundaði lengi verslunarstörf. Hún fluttist til Reykjavíkur 1972. Ýmsir hafa búið á Eyrarvegi 1 eftir þeirra tíð, en öllum auðnast að halda húsi og lóð vel við. Fyrstu íbúar Eyrarvegar 3 munu hafa verið þau Sigurjón Jóhannesson og Elín S. Valdemarsdóttir. Bjuggu þau hér til dánardægra, en Sigurjón lést 1970 og Elín 1976 (heimild: Íslendingabók). Þau voru bæði Þingeyingar, Sigurjón, sem mun lengst af hafa verið sjómaður,  var frá Götu á Húsavík en Elín frá Garðsvík á Svalbarðsströnd.

Parhúsið við Eyrarveg 1-3 er í mjög góðri hirðu og til P6220988mikillar prýði í umhverfinu. P6220989Lóðirnar eru einnig sérlega gróskumiklar og vestanmegin, við Eyrarveg 1 er lítill sígrænn lundur, sem einnig snýr að Sólvöllum. Ekki kann höfundur að tegundagreina þessi gróskumiklu og glæstu tré en þar munu vera m.a. greni, degli (getgáta höfundar)  og þinur.  Hver sá sem fer um horn Eyrarvegar og Sólvalla finnur ætíð ljúfan ilm af þininum við Eyrarveg 1, angan sem oftar en ekki er ríkjandi á jólatrjáasölum og gæti kallast „jólailmur“. Húsið er hluti mikillar þyrpingar sams konar húsa, verkamannabústaða Byggingafélagsins, og ætti þessi merka torfa að sjálfsögðu að njóta friðunar. Það er a.m.k. álit höfundar. Myndirnar eru teknar þann 22. júní 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar: Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 840, 10. ágúst 1939, nr. 842, 18. sept. 1939. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 920, 7. ágúst 1942. Fundargerðir 1948-57: Fundir nr. 1149, 22. feb. 1952, nr. 1158, 7. júlí 1952 Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Manntal á Akureyri 1940. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Eyrarvegur

Formálinn að pistli um hús nr.1-3 við Eyrarveg var orðin svo langur, að ég taldi réttast að gera hann að sjálfstæðum pistli, nokkurs konar kynningu á Eyrarvegi. Rati þessi skrif einhvern tíma á prent, hefði ég í hyggju, að í upphafi umfjöllunar um hverja götu kæmi inngangskafli á borð við þennan. 

Eyrarvegur liggur austur-vestur um nokkurn veginn miðja Oddeyri. Hann liggur frá Glerárgötu í vestri að Hjalteyrargötu í austri. Norðurgata, Ránargata og Ægisgata skera Eyrarveginn en vestast eða efst (á Oddeyrinni er nefnilega örlítill hæðarmismunur til vesturs, eða að rótum Brekkunnar) ganga göturnar Hvannavellir og Sólvellir til norðurs. Gatan er lögð eftir fyrsta Aðalskipulagi Akureyrar, sem samþykkt var árið 1927 og hannað af Guðjóni Samúelssyni, en gatan tók hins vegar ekki að byggjast fyrr en 1939 og byggðist að mestu upp á 5. áratugnum.   Guðjón Samúelsson  á einmitt líka heiðurinn af mikilli húsaþyrpingu, ansi áhugaverðri, sem stendur norðan götunnar. Um er að ræða eitt fyrsta skipulagða hverfi verkamannabústaða á Akureyri, en áður höfðu risið stök hús eða fáein, eftir lögum um verkamannabústaði frá 1929.

  Eitt helsta sérkenni götunnar er ríflega 1 ha. grasflöt eða skrúðgarðurP6221000norðanmegin við götuna, vestan Norðurgötu.  Garður þessi er sannkölluð græn perla í hverfinu og kallast skemmtilega á við Eiðsvöllinn, spölkorni sunnar á Eyrinni. Garðurinn er rammaður inn af nokkurs konar safngötu eða "undirgötu" innan Eyrarvegar. Er Eyrarvegur ein fyrsta gatan á Akureyri, sem skipulögð er með þeim hætti. Aðrar götur með „undirgötum“ eru t.d. Borgarsíða í Glerárþorpi, og Eikarlundur í Lundahverfi, en þær eru byggðar áratugum síðar. Svipað fyrirkomulag sést einnig í Giljahverfi, sem byggt er á síðustu árum 20. aldar. Fyrrgreindir verkamannabústaðir raðast margir hverjir í kringum garðinn.  Skrúðgarðurinn við Eyrarveg er til mikillar prýði í umhverfinu og setur skemmtilegan svip á umhverfið. Mun garðurinn þó allur hafa verið mun gróskumeiri áður fyrr, og hinni víðfrægu reglu stíft fylgt eftir: Gangið ekki á grasinu

Sunnanmegin götunnar og neðan Ránargötu standa hús, áþekk húsunum við Ægisgötu, einlyft steinhús með valmaþökum. Einu húsin við Eyrarveg, sem eru á tveimur hæðum, standa á hornunum við Norðurgötu og Ránargötu- í samræmi við húsin við þær götur. Við sunnanverðan Eyrarveg, vestast, er að finna nokkrar víðlendustu íbúðarhúsalóðir Oddeyrar, ásamt samliggjandi lóðum við Fjólugötu. Kemur það til af því, að göturnar sveigja hvor í sína áttina, Eyrarvegur liggur nokkurn vegin beina stefnu A-V milli Glerárgötu og Norðurgötu en Fjólugata sveigir hins vegar ákveðið til suðvesturs frá Norðurgötu. Norðurgata og Glerárgötu sveigja hins vegar til austurs annars vegar og vesturs hins vegar. (Framangreindar setningar eru eflaust afar torskildar þeim, sem ekki þekkja til á Akureyri wink) Eyrarvegur er um 520m að lengd, en götuboginn, sem liggur kringum græna svæðið er um 130m. Meðfylgjandi mynd er tekin 22. júní 2021 og sýnir garðinn geðþekka við Eyrarveg. 


Húsaannáll 2021

Hér eru öll "Hús dagsins" á árinu 2021. Fyrri hluta ársins tók ég að stærstum hluta fyrir fyrrum býli og stök hús sunnan þéttbýlis en einnig í Glerárþorpi, auk götunnar Klettaborgar. Stærstur hluti ársins var hins vegar helgaður Oddeyrinni, í maí, júní og júlí voru það hús við nyrðri hluta Norðurgötu. Í ágúst, september og október var það samliggjandi hluti Ránargötu og síðustu tvo mánuði ársins var það nyrðri hluti Ægisgötu. Hljóp nokkurt kapp í mig, að ljúka henni af fyrir áramótin, svosem sjá má á listanum hér að neðan. Vonandi kom það þó ekki niður á gæðum pistlana, en aðrir verða að dæma um það. 

JANÚAR

8. janúar Háteigur við Eyjafjarðarbraut (1946)

16. janúar Þrastalundur við Mýrarveg (1942)

22. janúar Klettaborg 1 (1939)

26. janúar Klettaborg 2 (1945)

29. janúar Klettaborg 3 (1941)

31. janúar Klettaborg 4 (1947)

FEBRúAR

9. febrúar Sundlaug Akureyrar (1949)

13. febrúar Kotá (Kotárgerði 26) (1949)

23. febrúar Kaupvangsstræti 4 (1935)

MARS

2. mars Melar (1938)

8. mars Brunná (1946)

13. mars Galtalækur (1961)

19. mars Lyngholt í Glerárþorpi (1927)

26. mars Hofsbót 4 (1988)

APRÍL

2. apríl Sandvík í Glerárþorpi (1929)

9. apríl Geislagata 9; Ráðhús Akureyrar (Gamla Slökkvistöðin) (1950)

20. apríl Hvoll í Glerárþorpi (1905)

29. apríl Strandgata 3 (2000)

MAÍ

1. maí Norðurgata 42   (1947)

7. maí Norðurgata 39 (1947)

15. maí Norðurgata 44   (1947)

19. maí Norðurgata 41   (1947)

23. maí Norðurgata 43   (1947)

28. maí Norðurgata 45   (1954)

JÚNÍ

7. júní Norðurgata 46   (1949)

12. júní Norðurgata 47   (1948)

15. júní Norðurgata 48   (1947)

21. júní Norðurgata 49   (1957)

24. júní Norðurgata 50   (1947)

30. júní Norðurgata 51   (1947)

JÚLí

4. júlí Norðurgata 52   (1949)

8. júlí Norðurgata 53   (1947)

12. júlí Norðurgata 54   (1947)

15. júlí Norðurgata 56   (1948)

19. júlí Norðurgata 58   (1949)

22. júlí Norðurgata 60   (1947)

31. júlí Grímsstaðir í Glerárþorpi (1929)

ÁGúST

5. ágúst Ránargata 16 (1948)

18. ágúst Ránargata 17 (1949)

21. ágúst Ránargata 18 (1948)

27. ágúst Ránargata 19 (1950)

SEPTEMBER

1. sept. Ránargata 20 (1949)

12. sept. Ránargata 21 (1950)

17. sept. Ránargata 22 (1947)

21. sept. Ránargata 23 (1950)

24. sept. Ránargata 24 (1951)

OKTóBER

1. okt. Ránargata 25 (1953)

6. okt. Ránargata 26 (1950)

12. okt. Ránargata 27 (1954)

19. okt. Ránargata 28 (1952)

22. okt. Ránargata 29 (1961)

26. okt. Ránargata 30 (1955)

28. okt. Ránargata 31 (1954)

NÓVEMBER

4. nóv. Ægisgata 15 (1942)

12. nóv. Ægisgata 16 (1945)

16. nóv. Ægisgata 17 (1944)

19. nóv. Ægisgata 18 (1943)

23. nóv. Ægisgata 19  (1944)

26. nóv. Ægisgata 20  (1943)

30. nóv. Ægisgata 21  (1944)

DESEMBER

5. des. Ægisgata 22  (1945)

8. des. Ægisgata 23  (1944)

10. des. Ægisgata 24  (1944)

14. des. Ægisgata 25  (1945)

17. des. Ægisgata 26  (1971)

20. des. Ægisgata 27  (1944)

22. des. Ægisgata 28  (1971)

23. des. Ægisgata 29  (1944)

26. des. Ægisgata 30  (1990)

27. des. Ægisgata 31  (1946)

Venju samkvæmt er einnig smáræðis tölfræði. Er það nú fyrst og fremst til gamans gert, enda kannski ekki þýðingarmikil, auk þess sem ætíð er fyrirvari á byggingarárum (Ef þessum húsum er flett upp í Fasteignaskrá eru birt byggingarár eflaust önnur en hér). 

Á árinu 2021 voru "Hús dagsins" 70 að tölu.

Meðaltal byggingarára er 1948,7 og meðalaldurinn því rúm 73 ár

Miðgildi byggingarára er 1947

Elsta "Hús dagsins" var byggt 1905, 116 ára, og það yngsta byggt 2000, 21 árs

Langflest "Húsa dagsins" voru byggð á 5. áratugnum (1940-49) eða 43 (61%) en 13 (19%) voru byggð 1950-59. 

Þannig voru 56 eða 80% Húsa dagsins byggð á áratugunum 1940-60. 

En hvað næst ?

Skemmst er frá því að segja, að enn held ég við Eyrina og næst á dagskrá er Eyrarvegur. En þá götu ljósmyndaði ég á einu bretti góðviðrisdag einn í júní sl. Við þá götu eru um 35 hús, svo sú umfjöllun mun standa eitthvað fram á útmánuði eða vor. Þá er líklegt að ég færi mig um set á Brekkuna, mögulega Þingvallastræti ofan Sundlaugar, elstu hluta Byggðanna. Þetta gæti tekið drjúgan hluta nýs árs.

Að því slepptu, er þessi yfirferð álíka fyrirsjáanleg og faraldur hinnar hvimleiðu og ógeðfelldu kórónuveiru. Mögulega bregð ég mér í meira mæli út fyrir bæjarmörk Akureyrar (sem hefur raunar gerst áður). Svo er hugsanlegt að umfjöllunin hér komi með tíð og tíma til með að breyta um svip- kannski fjalla um nokkur hús í einu- sérstakar heildir eða götur án þess að fara ítarlega í hvert hús. Ég vona, að ég gerist ekki sekur um  aldursfordóma gegn yngri húsum,wink en ég legg hér fyrst og fremst áherslu á hús og hverfi, sem byggð eru um eða fyrir miðju síðustu öld.  Svo gæti mér einhvern tíma hugkvæmst, að endurskrifa um hús, sem birtust hér á árdögum þessarar síðu- en í sumar verða liðin 13 ár frá því að þessi vegferð hófst.  (Elstu pistlarnir fara þannig að nálgast fermingaraldur). Svo er alltaf í eilífri skoðun að færa þetta á annan vef eða koma þessu á prent...en það er nú umtalsvert meira en að segja það!

 

 

 

 


Nýárskveðja

Óska lesendum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir það liðna.laughingcool

 

Þakka innlit, athugasemdir og annað slíkt á þessari síðu á liðnum ári - og árum.  

010122

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Nýársmyndin að þessu sinni er tekin laust eftir miðnætti, 1.1.2022. Myndin tekin á Ásbrú, flugeldunum sem þarna sjást skotið upp úr Ytri Njarðvík og Keflavík)


Hús við Ægisgötu

Hér eru færslur um húsin við Ægisgötu á Oddeyri. Hús nr. 1-14 standa sunnan Eyrarvegar og tók ég þau fyrir árið 2015 (nr. 14 árið 2011) en 15-31 tók ég fyrir á sl. tveimur mánuðum eða svo.

Ægisgata 1 (1939)

Ægisgata 2 (1936)

Ægisgata 3 (1939)

Ægisgata 4 (1936)

Ægisgata 5 (1939)

Ægisgata 6 (1937)

Ægisgata 7 (1939)

Ægisgata 8 (1936)

Ægisgata 10 (1937)

Ægisgata 11 (1937)

Ægisgata 12 (1936)

Ægisgata 13 (1937)

Ægisgata 14 (1936)

Ægisgata 15 (1942)

Ægisgata 16 (1945)

Ægisgata 17 (1944)

Ægisgata 18 (1943)

Ægisgata 19  (1944)

Ægisgata 20  (1943)

Ægisgata 21  (1944)

Ægisgata 22  (1945)

Ægisgata 23  (1944)

Ægisgata 24  (1944)

Ægisgata 25  (1945)

Ægisgata 26  (1971)

Ægisgata 27  (1944)

Ægisgata 28  (1971)

Ægisgata 29  (1944)

Ægisgata 30  (1990)

Ægisgata 31  (1946)

Við Ægisgötu, sem er um 370 metra löng, standa 30 hús á aldrinum 31-85 ára, byggð 1936-90 langflest eða öll nema þrjú byggð 1936-46. Meðaltal byggingarára er 1944,4 svo meðalaldur Ægisgötuhúsa um áramótin 2021-22 er rúmlega 77 ár

Hér má sjá skemmtilega mynd, sem tekin er um 1940 og sýnir eldri hluta Ægisgötu. Húsin eru byggð eftir sömu eða svipuðum teikningum Tryggva Jónatanssonar, en hann á heiðurinn af drjúgum hluta Ægisgötu. 

 


Hús dagsins: Ægisgata 31

Ægisgötu 31 reisti Sigfús Axfjörð árið 1946 eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar. P5011014Fékk hann lóðina og leyfi til að reisa hús, á einni hæð á lágum grunni, 11,6x9m að stærð. Fleiri orð hafði bygginganefnd ekki um það.

Ægisgata 31 er einlyft steinhús með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar í flestum gluggum.

Sigfús Snorrason Axfjörð (1916-1986) og Guðrún Sigurðardóttir (1918-1999) sem byggðu húsið bjuggu hér um nokkurra ára skeið. Sigfús var úr Skagafirði, skráður að Brókarlæk í Skefilsstaðahreppi í Manntali 1920 en Guðrún úr Öngulsstaðahreppi, en í sama Manntali er hún skráð að Brekku þar sem foreldrar hennar, Sigurður Júlíusson og Karólína Friðriksdóttir voru í húsmennsku. Sigfús og Guðrún hafa líkast til búið hér í 5 ár, en snemma árs 1952 er húsið auglýst til sölu. Bjuggu síðan ýmsir næsta hálfan annan áratuginn, en árið 1966 fluttu hingað Gestur Sæmundsson og Þorgerður Jóhanna Jónsdóttir og bjuggu hér um áratugaskeið. Hafði hann áður verið bóndi að Neðstalandi í Öxnadal en hún ráðskona, en þau gengu í hjónaband 1949. Gestur náði 100 ára aldri og bjó hér um nánast til æviloka. Enn er húsið í eigu sömu fjölskyldu.

Ægisgata 31 er, líkt og nærliggjandi hús, látlaust en reisulegt. Það er í afar góðri hirðu og hefur líkast til alla tíð hlotið gott viðhald. Sem hornhús tekur það þátt í götumyndum tveggja gatna, Ægisgötu og Grenivalla og er til mikillar prýði, hús og lóð. Lóðin er prýdd mörgum trjám, birki nokkuð áberandi en einnig er á lóðinni mikið grenitré, á að giska 15 m hátt.  

Ægisgata 31 var síðasta húsið sem reis við Ægisgötu í aldarfjórðung en árið 1971 og 1990 voru reist hús við lóðir austanmegin sem löngum höfðu verið óbyggðar. Það er nánast hægt að rekja byggingarsögu Ægisgötu í aldursröð, enda var lóðunum oftar en ekki úthlutað í röð. Ægisgatan er stórmerkileg heild, heilsteypt götumynd keimlíkra húsa í funkisstíl P5011015með valmaþökum. Enda þótt húsin séu auðvitað gjörólík innbyrðis, hvað varðar stærð, grunnflöt, gluggasetningu og slíkt eru þau öll með þetta sama yfirbragð.  Það er nokkuð sérstakt, að við svo langa götu sé hvert eitt og einasta hús með svipuðu lagi. Þó byggt hafi verið við fjölmörg þeirra og þeim breytt er heildarsvipurinn en sá sami. Og mörgum hefur húsunum verið breytt á sama hátt. Og þótt síðuhafi sé einungis áhugamaður í þessum fræðum og hafi hvorki fagþekkingu né aðrar forsendur til að meta slíkt, er það einlæg afstaða, að Ægisgötu eigi að friða í heild sinni. Myndirnar eru teknar þann 1. maí 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.1045, 1. mars 1946. fundur nr. 1046(?), 19. júlí 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Ægisgata 30

Ysta húsið við Ægisgötu að austanverðu er jafnframt það langyngsta.P5011016 Það er byggt 1990 eftir teikningum Gísla Kristinssonar og voru það Verkamannabústaðir sem stóðu fyrir byggingu þess. Stjórn Verkamannabústaða fékk lóðina í september 1989 og þremur mánuðum síðar var byggingin boðin út. Buðu SJS-verktakar lægst og hlutu þannig verkið. Fullbyggt mun húsið hafa verið árið eftir. Hafa ýmsir búið í húsinu þessi rúm 30 ár. Með byggingu Ægisgötu 30 var gatan fullbyggð, en þá var liðin rúm hálf öld frá því fyrstu byggingar risu þar, syðst við götuna. En húsin nr. 1-14, sunnan Eyrarvegar risu árin 1936-39.

Ægisgata 30 er einlyft steinhús með valmaþaki. Krosspóstar eru í gluggum, sléttur múr á veggjum og krosspóstar í gluggum. Horngluggar í anda funkisstefnunar eru til staðar en húsið er dæmi um sérstaklega vel heppnaða aðlögun nýbyggingar að rótgróinni götumynd. Húsið er í mjög góðri hirðu og sömu sögu er að segja af lóðinni.  Ægisgata 30 fellur vel inn í hina miklu og heilsteyptu götumynd lágreistra steinhúsa í funkisstíl með valmaþaki, sem síðuhafi telur að verðskuldi friðun í heild sinni. Svosem oft hefur komið fram hér. Myndin er tekin þ. 1. maí 2021.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • IMG_3045
  • P6171046
  • P6171045
  • IMG 3018
  • IMG 3024a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 124
  • Sl. sólarhring: 126
  • Sl. viku: 352
  • Frá upphafi: 445904

Annað

  • Innlit í dag: 80
  • Innlit sl. viku: 236
  • Gestir í dag: 75
  • IP-tölur í dag: 71

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband