Jólakveðja

Óska ykkur öllum, nær og fjær, gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. smile

 

Jólakveðja_2021

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Jólamyndin að þessu sinni er tekin skammt norðan við Teig í Eyjafjarðarsveit, tæpa 8 km framan Akureyrar, horft til suðurs. Mynd tekin 4. des. sl.) 


Hús dagsins: Ægisgata 29

Ægisgötu 29 reisti Páll Friðfinnsson árin 1944-45.P5011012 Hann fékk síðsumars og haustið 1944 lóðina og byggingarleyfi fyrir húsi, 11,5x8,5m auk útskots að austan 1,2x5,5m. Húsið skyldi vera ein hæð úr steinsteypu með valmaþaki úr timbri, eins og tíðkaðist á þessum slóðum. Upprunalegar teikningar eru ekki sjáanlegar á kortavefnum en ekki er ólíklegt, að Páll hafi sjálfur gert þær. Á kortavef má hins vegar sjá raflagnateikningar Gústavs Jónssonar af húsinu, dagsettar 30. apríl 1945.

Ægisgata 29 er eins og önnur hús við götuna einlyft steinhús með lágu valmaþaki. Að suðaustanverðu er bakálma, viðbygging, sem samkvæmt teikningu er 4,3x10m að grunnfleti. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum. Horngluggi í anda funkisstefnunnar til suðurs.  

Mögulega hefur Páll Friðfinnsson reist húsið sem eins konar verktaki en ekki búið þar sjálfur. Hann var á þessum tíma búsettur í Munkaþverárstræti 42. En hér bjuggu lengi vel,hússins, þau Árni Sigurpálsson og Valgerður Magnúsdóttir frá Borgarnesi. Árni (1907-1964) er í Manntali 1910 er skráður í Brimnesi við Ólafsfirði og tíu árum síðar sem léttadrengur á Eyvindarstöðum í Sölvadal. Hann lést árið 1964 en Valgerður og börn hennar bjó hér áfram. Árið 1979 var byggt við húsið til suðausturs, á sama hátt og við næstu hús sunnan við. Járnateikningar að þeirri byggingu gerði Haraldur S. Árnason og eru mál viðbyggingar um 4,30x10m, skagar um 2 m út fyrir suðurvegg hússins. Fékk húsið þá það lag sem það enn hefur, en árið 1987 var gluggum breytt eftir teikningum Jónasar Vigfússonar.  Margir hafa átt húsið og búið í gegnum tíðina en öllum auðnast að halda því vel við. En húsið er í mjög góðri hirðu og sem nýtt að sjá og sama er að segja af lóðinni. Húsið er hluti hinnar miklu og heilsteyptu götumyndar lágreistra steinhúsa í funkisstíl með valmaþaki, sem síðuhafi telur að verðskuldi friðun í heild sinni. Svosem oft hefur komið fram hér. Myndin er tekin þ. 1. maí 2021.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.985, 11. ágúst 1944. Fundur nr. 992, 22. sept 1944. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Ægisgata 28

Ægisgötu 28 reisti Hannes Pálmason 1971 eftir teikningum Hauks Haraldssonar.P5011013 Fékk hann ásamt Matthíasi Þorbergssyni, tvær nyrstu lóðirnar austan Ægisgötunnar. Hannes fékk þá nyrðri, nr. 28.  Fengu þeir að reisa sitt einbýlishúsið hvor, eftir teikningu Hauks Haraldssonar og segir í bókun Bygginganefndar að Matthías fái að reisa einbýlishús úr holsteini eftir teikningu Hauks Haraldssonar. Fékk hann undanþágu hvað varðaði glugga á norðurhlið og fjarlægð frá lóðarmörkum var 1,5 m.

Ægisgata 28 er einlyft steinhús með lágu valmaþaki, með múrsléttuðum veggjum, bárujárni á þaki og lóðréttum póstum í flestum gluggum. Nyrsti hluti hússins skagar eilítið fram en í þeirri álmu er bílskúr, sambyggður húsinu eða kannski öllu heldur innbyggður.

Ægisgata 28 er byggt sem einbýlishús og hefur verið það mest alla tíð. Húsið er reisulegt og snyrtilegt og í góðri hirðu. Það er byggt töluvert seinna en nærliggjandi hús en við hönnun þess hefur greinilega verið tekið mikið af þeirri húsaröð sem þarna var (og er) fyrir. Það er mjög mikilvægt að mati síðuhafa, að þegar byggt er við rótgrónar götumyndir, að ný hús séu í samræmi við þá götumynd sem fyrir er. Enda þótt fjölbreyttar götumyndir geti jú verið skemmtilegar. Í tilfellum nyrstu húsa Ægisgötunnar hefur þetta heppnast nokkurn veginn fullkomlega, og varla hægt að segja að þau skeri sig nokkuð úr, nema ef vera skyldi, að grunnflötur húsa nr. 26 og 28 er ívið stærri en nærliggjandi húsa. En það flokkar síðuhafi sem smámuni í þessu samhengi. Síðustu pistlar hafa endað á orðunum: Að lokum legg ég til að Ægisgatan verði friðuð í heild sinni. Það á svo sannarlega líka við um yngri húsin austanmegin og yst við götuna. Myndin er tekin þ. 1. maí 2021.

Heimildir:. Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir ársins 1971. Fundur nr.1640, 27. janúar.


Hús dagsins: Ægisgata 27

Ægisgötu 27 mun Guðmundur Magnússon múrarameistari (Sjá Ægisgötu 17) P5011011hafa reist fyrir nafna sinn Guðmund Gíslason. Mögulega hefur sá fyrrnefndi einnig teiknað húsið. Guðmundur Gíslason fær lóðina og byggingarleyfið í apríl 1944 og fær að reisa hús á einni hæð á lágum grunni með valmaþaki (það var í rauninni ekki annað í boði en að reisa með því lagi). Stærð hússins 8x10m. Árið 1951 fékk Guðmundur Gíslason að byggja við húsið skv. meðfylgjandi teikningu, en honum var gert að fjarlægja glugga til austurs og viðbygging skyldi færð 70 cm til norðurs (hefur mögulega verið of nærri lóðarmörkum). Sama ár var byggt við húsið sunnan við, Ægisgötu 25, á sama hátt. Upprunalegar teikningar að húsinu liggja ekki fyrir, en teikningarnar að viðbyggingunni gerði Hannes H. Pálmason.

Ægisgata 27 er eins og önnur hús við götuna einlyft steinhús með lágu valmaþaki. Að suðaustanverðu er bakálma, viðbygging, sem samkvæmt teikningu er 6,7x5,1m að grunnfleti. Á veggjum er steiningarmúr, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum.

Guðmundur Gíslason, skipstjóri, var úr Fljótum, fæddur árið 1893 að Minna Holti. Samkvæmt manntalsspjaldskrá fyrir árin 1941-50 flutti hingað inn 5. maí 1945, frá Ólafsfirði. Kona hans var Jónína Jónsdóttir (1898-1985). Þau bjuggu hér í rúman áratug, eða til ársins 1958. Árið 1951 byggðu þau við húsið til suðausturs, samtímis Jóni og Jóhönnu Norðfjörð í næsta húsi sunnan við, en viðbyggingin hér var ívið stærri. Árið 1957 hlutu þau Guðmundur og Jónína silfurbikar Fegrunarfélagsins fyrir garðinn. Ári síðar   auglýsir Guðmundur húsið til sölu. Sá sem keypti húsið var Vilhjálmur Jóhannesson, sem fram að því hafði verið stórbóndi á Litla Hóli. Í dálki í Alþýðumanninum, 10. júní 1958, þar sem segir frá jarðakaupum og flutningum bænda kemur fram, að Vilhjálmur sé að bregða búi og flytjast hingað. Sjálfsagt hefur fyrrum bóndinn ræktað garðinn áfram af alúð og natni.

Ægisgata 27 er reisulegt en látlaust hús og í mjög góðri hirðu, hefur sjálfsagt alla tíð hlotið gott. Lóðin er einnig mjög gróskumikil og þar eru mikil og skrautleg blómabeð ásamt gróskumiklum trjám. Hefur honum líkast verið vel við haldið alla tíð, allt frá því tíð Guðmundar og Jónínu. Á lóðarmörkum eru steyptir stöplar með járnavirki er hún einnig í góðri hirðu. Húsið er hluti hinnar miklu og heilsteyptu götumyndar lágreistra steinhúsa í funkisstíl með valmaþaki, sem síðuhafi telur að verðskuldi friðun í heild sinni. Svosem oft hefur komið fram. Myndin er tekin þ. 1. maí 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 971, 14. apríl 1944. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1138, 22. júní 1951.

Manntalsspjaldsspjaldskrá 1941-50.

Hvort tveggja varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Ægisgata 26

Ysti hluti Ægisgötu að austanverðu var óbyggður um áratugaskeið og var hús Helga Steinarr,P5011010 Ægisgata 24, lengi vel það nyrsta austanmegin. En í ársbyrjun 1971 dró til tíðinda þegar þeim Matthías Þorbergssyni og Hannesi Pálmasyni var úthlutað lóðum og byggingarleyfum á lóðum nr. 26 og 28. Fengu þeir að reisa sitt einbýlishúsið hvor, eftir teikningu Hauks Haraldssonar og segir í bókun Bygginganefndar að Matthías fái að reisa einbýlishús úr holsteini eftir teikningu Hauks Haraldssonar. Gluggar staðsettir á norðurhlið en fyrir liggi samþykki lóðarhafa nr. 28 [Hannesar Pálmasonar] og fjarlægð að lóðarmörkum.

Ægisgata 26 er einlyft steinhús með lágu valmaþaki, með múrsléttuðum veggjum, bárujárni á þaki og lóðréttum póstum í flestum gluggum. Nyrsti hluti hússins skagar eilítið fram en þar var upprunalega bílskúr, síðar breytt í íbúðarrými.

Ægisgata 26 er byggt sem einbýlishús og hefur verið það mest alla tíð. Akureyrarbær starfrækti um árabil í þessu húsi sambýli fyrir fatlaða, en því var lokað árið 2012 og húsið síðan einbýlishús. Árið 1991 var bílskúr breytt í íbúðarrými eftir teikningum Hauks Haraldssonar, sem teiknaði húsið í upphafi. Hefur það væntanlega verið í tengslum við nýtt hlutverk hússins sem sambýli. Ægisgata 26 er reisulegt og snyrtilegt  hús í góðri hirðu. Það er byggt töluvert seinna en nærliggjandi hús en við hönnun þess hefur greinilega verið tekið mikið af þeirri húsaröð sem þarna var (og er) fyrir.

Það er mjög mikilvægt að mati síðuhafa, þegar byggt er við rótgrónar og heilsteyptar götumr, að ný hús séu í samræmi við þá götumynd sem fyrir er. Enda þótt fjölbreyttar götumyndir geti jú líka verið skemmtilegar. Í tilfellum nyrstu húsa Ægisgötunnar hefur þetta heppnast nokkurn veginn fullkomlega, og varla hægt að segja að þau skeri sig úr, nema ef vera skyldi, að grunnflötur húsa nr. 26 og 28 er ívið stærri en nærliggjandi húsa. En það flokkar síðuhafi sem smámuni í þessu samhengi. Síðustu pistlar hafa endað á orðunum: Að lokum legg ég til að Ægisgatan verði friðuð í heild sinni. Það á svo sannarlega líka við um yngri húsin austanmegin og yst við götuna. Myndin er tekin þ. 1. maí 2021.

Heimildir:. Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir ársins 1971. Fundur nr.1640, 27. janúar.


Kannski ekki svo slæmt...

Einhverjir kunna að hvá við að heyra minnst á sorpbrennslu- þetta hljóti nú að tilheyra fortíðinni og sé á mengandi og subbulegt. En er urðun endilega eitthvað skárri ? Auðvitað skiptir máli að sorp sé flokkað í hvívetna (og að hið flokkaða sorp sé endurunnið- safnist ekki fyrir geymslum í Svíþjóð eða öskuhaugum í öðrum heimsálfum!), þannig að sem allra minnst endi í urðun eða brennslu. 

Einhvern tíma sá ég flennifyrirsögn í tímaritinu Lifandi vísindum "Við verðum afmáð úr sögunni" sem vísar til skammlífis stafrænna gagna samanborið við skinnhandrit og bókrollur sem varðveist hafa í aldir og jafnvel þúsaldar. (Finn þetta ekki á timarit.is) Þetta er rétt hvað varðar umrædd gögn en aldeilis ekki hvað varðar úrgangsefni. Flest það sorp sem fellur til og er urðað er nefnilega þeim eiginleikum gætt, að það verður til staðar í jarðveginum næstu aldir ef ekki þúsundir ára. En flest þessi efni brotna eitthvað örlítið niður og alls konar ógeðsefni seytla af því í jarðveg, grunnvatn og lífríkið. Og svo auðvitað metan, sem er hátíð hjá örplasti og efnum sem finnast í gerviefnum sl. áratuga, en engu að síður um 70 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur. 

Þá hlýtur eiginlega að vera skömminni skárra að sorpinu sé "eytt" af yfirborði jarðar með hátæknibrennslu. Ég veit ekki nákvæmlega hvað átt er við með hátæknibrennslu en væntanlega er um ræða sérlega hátt hitastig- sem dregur úr myndun skaðlegra efna og sjálfsagt yrði til staðar öflugur hreinsibúnaður. Því það er auðvitað ekki svo, að reykur úr svona brennslu sé eitthvert heilsubótarefni né heldur að skaðlegu efnin hverfi við brennsluna. Efni verður nefnilega aldrei eytt heldur breytir aðeins um form

Sorpbrennsla framleiðir líka orku. Það er í sjálfu sér ákveðið form af endurvinnslu; ef við nefnum plast sem dæmi. Því af því sorpi, sem urðað er í dag má örugglega áætla, að plast telji einhver tugi prósenta.  Plast er auðvitað ekkert annað en olía. Ef það er mögulega hægt að brenna plasti sem ekki er hægt að endurvinna er auðvitað skárra að sé gert í stað þess að ný olía sé sótt einhverja kílómetra í jarðskorpuna og svo flutt aðra þúsundir kílómetra á áfangastað. Auðvitað er æskilegt að plast sé endurunnið en hitt hlýtur að vera skárri kostur að því sé brennt til orkuvinnslu en að það sé urðað, brotni niður og safnist fyrir höfum og jarðvegi. Örplast er líklega með stærri umhverfisslysum. Brennsla, með réttu hitastigi og hreinsibúnaði, að ekki sé minnst á að hún framleiði orku hlýtur þannig í öllu falli að vera skárri en urðun. Lesendur mega ekki misskilja sem svo, að ég telji sorpbrennslu einhverja allsherjar lausn á förgun úrgangs. Svo það sé sagt, er auðvitað best, að allt sé endurunnið sem mögulega hægt er-  (Jafnvel enn betra, að dregið sé úr neyslu og umbúðanotkun...) 


mbl.is Brennsla álitin betri kostur en urðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús dagsins: Ægisgata 25

Einstaka sinnum kemur það fyrir, að síðuhafa tekst ekki aðP5011007 rekja uppruna húsa, þ.e.a.s. hver byggði. Kemur það yfirleitt til af því, að ekki liggja fyrir teikningar eða byggingarleyfi finnast ekki (þar getur allt eins komið til, að höfundur leiti ekki nógu gjörla heldur en hitt, að þau séu ekki til staðar). Þannig er því farið í tilfelli Ægisgötu 25.

Þann 14. apríl 1944 fær Jóhann Ólafsson, sem sagður er skipasmíðanemi á Hótel Gullfossi lóðina. Hvergi er að finna byggingaleyfi honum til handa en næst segir af Ægisgötu 25 haustið 1946 þegar Jón Norðfjörð fær leyfi til að reisa bílskúr á lóðinni. Er húsið þá risið, enda kemur það skýrt og skilmerkilega fram í Manntalsspjaldskrá, að hann og kona hans Jóhanna Norðfjörð hafi flutt í húsið 1945. (Það er meira að segja skráð, að Jóhanna hafi flutt í bæinn frá Reykjavík 1. október 1945) Jón og Jóhanna eru þannig fyrstu íbúar hússins og mögulega hafa þau byggt húsið. En Jóhann Ólafsson gæti einnig hafa byggt það. Þegar hann fær lóðina í apríl 1944 býr hann á hóteli en Jóhann að hann er sagður flytja til Akureyrar 30. október 1944. Mun hann hafa flutt í Laxagötu 2 þar sem hann er skráður til heimilis næstu ár á eftir, en mun aldrei hafa verið búsettur hér. Upprunalegar teikningar liggja ekki fyrir á kortavef, en þar eru hins vegar teikningar frá 1951 að viðbyggingu við húsið. Hana teiknaði Oddur Kristjánsson. En upprunalegar teikningar eru oftast lykillinn að því, hver byggði. Þegar nafn liggur fyrir, leitar höfundar að því í bókunum Bygginganefndar.

Ægisgata 25 er eins og önnur hús við götuna einlyft steinhús með lágu valmaþaki. Að suðaustanverðu er bakálma sem samkvæmt teikningu er 4,3x4,5m en grunnflötur meginálmu er 8x9m. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum.

Sem fyrr segir voru þau Jón Aðalsteinn og Jóhanna Ingvarsdóttir Norðfjörð fyrstu íbúar hússins. Jóhanna var seinni kona Jóns, en þau giftust einmitt í október 1945 um líkt leyti og þau fluttu í þetta hús. Árið 1951 byggðu þau við húsið til suðausturs, eitt herbergi eða stofu. Síðar var byggt á sama hátt við fleiri hús við Ægisgötuna, m.a. húsin norðan og sunnan við, 25 og 27, sem og nr. 17. Voru þau einnig ötul við garðrækt og hlutu m.a. verðlaun fyrir garðinn árið 1955. Ægisgatan hefur löngum státað af gróskumiklum görðum. Bjuggu þau hér allt þar til æviloka Jóns, en hann lést í mars 1957, aðeins 52 ára að aldri. Í maí það ár auglýsir Jóhanna húsið til sölu og fluttist hún þá suður aftur. Jóhanna var sem áður segir úr Reykjavík, nánar tiltekið Njálsgötu. Hún var mikilvirk hannyrða- og saumakona, með meistarapróf í kjólasaum og starfaði við saumaskapinn um áratugaskeið. Á efri árum gerðist hún mikilvirkur listmálari. Jóhanna lést árið 2009, 98 ára að aldri.  Jón Norðfjörð), lengst af starfandi sem bæjargjaldkeri var einn af helstu leikurum Leikfélags Akureyrar um árabil, lék í fjölmörgum sýningum og leikstýrði. Þá var hann einnig mjög virkur í skátastarfi og fór m.a. fyrir hinni valinkunnu skátasveit Fálkum, sem m.a. byggðu skátaskálann Fálkafell yst og efst á Eyrarlandshálsi og gróðursettu plöntur í gili norðan Grófargils, sem þá var nafnlaust en heitir síðan Skátagil. Þeir gáfu einnig út tímaritið Akurliljuna, sem reyndar kom aðeins út einu sinni. Jón var fæddur á Akureyri og ólst upp hjá móður sinni og stjúpföður, Álfheiði Einarsdóttur og Halldóri Friðjónssyni í Lundargötu 5. Hafa ýmsir eigendur verið að húsinu eftir daga þeirra Jóns og Jóhönnu en öllum auðnast að halda húsi og lóð vel við í hvívetna.

Ægisgata 25 er reisulegt og snyrtilegt hús og í mjög góðri hirðu. Húsið er hluti langrar og heilsteyptar götumyndar Ægisgötunnar og til mikillar prýði, eins og götumyndin öll.P5011008 Á lóðarmörkum er steypt grindverk með járnavirki, einnig í mjög góðri hirðu. Lóðin er til mikillar prýði, þar eru þó nokkur gróskumikil tré, vafalaust einhver gróðursett af Norðfjörð-hjónunum. Þá er enn á lóðinni steypt tjörn eða gosbrunnur frá þeirra tíð, sést glitta í á myndinni hér til hliðar, undir grenitrénu mikla. Ef sá möguleiki væri fyrir hendi, að friðlýsa heilar götur og götumyndir stæði Ægisgatan svo sannarlega undir því. Að lokum legg ég til að Ægisgatan, einstök hús og götumyndin verði friðuð í heild sinni. Myndirnar eru teknar þ. 1. maí 2021.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 971, 14. apríl 1944. Fundur nr.1067. 26. okt. 1946.

Manntalsspjaldsspjaldskrá 1941-50.

Hvort tveggja varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Ægisgata 24

Ægisgötu 24 reisti Helgi E. Steinarr árið 1944. Hann sótti í mars þ.á.PC080994 um lóðina norðan við Pálma Ólafsson (þ.e. 22) en gat ekki fengið hana „sökum háspennuleiðslunnar“ en fékk næstu lóð norðan við. Það er ekki útskýrt nánar, en mögulega  hefur rafstrengur annaðhvort legið þar yfir, eða verið þar fyrirhugaður. Alltént fékk Marinó Tryggvason lóð nr. 22 ári síðar. Um vorið 1944 fær Helgi byggingarleyfi: Hús úr r-steini á einni hæð með lágum grunni með valmaþaki, 9,5x7,8m auk útskots að austan 3,5x3,2m. Teikningar gerði Tryggvi Jónatansson.

Ægisgata 24 er einlyft r-steinhús með lágu valmaþaki. Útskot eru að framanverðu fyrir miðju og bakálma nyrst. Veggir eru klæddir steiningarmúr og bárujárn á þaki og krosspóstar í flestum gluggum. Horngluggar í anda funkisstefnunnar eru til suðurs.

Helgi E. Steinarr hét fullu nafni Helgi Marinó Einarsson Steinar og var fæddur árið 1892 og er í Manntali 1901 skráður í Pálshúsi í Hvanneyrarsókn í Siglufirði. Hann mun lengst af hafa starfað sem kjötmatsmaður en einnig verkstjóri. Hann var kvæntur Laufeyju Jónsdóttir, frá Syðra Krossanesi (sbr. Manntal 1901). Bjuggu þau hér um áratugaskeið. Árið 1956 fékk Helgi leyfi til að byggja við húsið, 3,5 metra til norðurs eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Helgi og Laufey voru ötult garðyrkjufólk og var garðurinn við Ægisgötu 24 annálaður fyrir fegurð og grósku. Var t.a.m. margverðlaunaður, hlaut verðlaun Fegrunarfélags Akureyrar 1951.   Tuttugu árum síðar, 1971 vakti Fegrunarfélagið aftur athygli á garði Helga og Laufeyjar, auk tveggja annarra sem verðlaunin höfðu hlotið, og að garðinum hefði verið haldið við af sömu alúð og natni.

Ægisgata 24 er reisulegt og traustlegt hús og í mjög góðri hirðu. Það er nýmálað og viðgert að utan og þak er nýlegt eða frá 2010. Samtímis var byggt við húsið að norðaustan, eftir teikningum Bergs Steingrímssonar, framlenging á útskotinu til austurs. Er húsið til mikillar prýði og frágangur allur hinn snyrtilegasti. Lóðin er afmörkuð með steyptum kanti, svo sem tíðkaðist þegar húsið var byggt. Svo sem fram kom hér að framan var garðurinn hinn gróskumesti og glæsilegasti í áraraðir. Enn í dag er lóðin við Ægisgötu 24 með þeim gróskumeiri og fegurstu í bænum, prýdd ýmsum trjátegundum, runnum og plöntum og haldið við og hirt í hvívetna. Er um sannkallaða fagmennsku að ræða, því þar er að verki Tryggvi Marinósson, garðyrkjufræðingur með meiru, sem hér hefur búið í á fjórða tug ára. Trúlega eru ekki margir af þeim görðum, sem Fegrunarfélagið verðlaunaði um og upp úr miðri síðustu öld, sem hafa haldið grósku sinni jafn vel í seinni tíð, og garðurinn við Ægisgötu 24.

Ef sá möguleiki væri fyrir hendi, að friðlýsa heilar götur og götumyndir stæði Ægisgatan svo sannarlega undir því. Leitun er að jafn heilsteyptri og samstæðri götumynd í þetta langri götu en við hana standa 30 hús. Lesendur kannast orðið við þetta stef sem kannski mætti taka saman í eina setningu: Að lokum legg ég til að Ægisgatan í heild sinni verði friðuð. (Enda þótt síðuhafi hafi hvorki fagþekkingu né forsendur til þess að meta varðveislugildi húsa eða gatna getur hann auðvitað haft á því skoðanir). Myndin er tekin þ. 8. desember 2021.

 Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.970, 31. mars 1944. fundur nr. 974, 5. maí 1944. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1241, 20. apríl 1956. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Ægisgata 23

Þann 13. júní 1944, fjórum dögum fyrir lýðveldisstofnun, kom Bygginganefnd saman á fundi. Var hann sá 979. frá upphafi nefndarinnar, sem þá hafði starfað í tæp 90 ár.P5011006 Á meðal þess sem nefndin tók fyrir var, að úthluta Pálma nokkrum Jónssyni lóð við vestanverða Ægisgötu, ásamt byggingarleyfi fyrir húsi úr r-steini, ein hæð á lágum grunni með valmaþaki, 10x8m. Upprunalegar teikningar að húsinu liggja ekki fyrir en ekki er ólíklegt, að Tryggvi Jónatansson hafi teiknað húsið. Hann átti heiðurinn af flestum húsunum við Ægisgötuna.

Ægisgata 23 er einlyft r-steinhús með valmaþaki. Bakálma, 5x8,20m að grunnfleti er sem einnig skagar nokkuð til suðurs er á húsinu og er hún einnig með valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki en lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum.

Pálmi Jónsson var kvæntur Sveinbjörgu Björnsdóttur. Hún var Skagfirðingur, í Manntali 1910 til heimilis að Mánavík í Ketusókn en hann var úr Öxnadalnum, skráður að Hólum þar í sama manntali. Þau bjuggu hér allan sinn aldur eftir byggingu hússins, en þau létust bæði árið 1971. Skemmst er frá því að segja, að núverandi eigandi er sonur þeirra, Sigurður Pálmason. Hefur húsið þannig haldist innan sömu fjölskyldu frá upphafi. Árið 1975 var byggt við húsið til vesturs og suðurs, eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar. Um er að ræða nokkuð áþekka viðbyggingu og við Ægisgötu 17, en hana teiknaði Mikael Jóhannesson einnig, töluvert fyrr eða 1960. Fékk húsið þá það lag sem nú hefur.

Ægisgata 23 er reisulegt og snyrtilegt hús og í mjög góðri hirðu. Eitt sérkenni þess, sem reyndar ber ekki mikið á, enda húsið í eðli sínu látlaust, er steypt stuðlabergsmynstur við útidyrahurð. Á lóðarmörkum er steypt grindverk með járnavirki, einnig í mjög góðri hirðu. Lóðin er til mikillar prýði, þar eru mörg ræktarleg tré og mætti jafnvel tala um lítinn lund í því samhengi. Þétt belti reynitrjáa er framan við lóðarmörk að framan (austan) og sunnanverðu. Ef sá möguleiki væri fyrir hendi, að friðlýsa heilar götur og götumyndir stæði Ægisgatan svo sannarlega undir því. Leitun er að jafn heilsteyptri og samstæðri götumynd í þetta langri götu en við hana standa 30 hús. Það er a.m.k. álit síðuhafa. Sem áður segir er þessi lóð sérlega trjám prýdd. En það er einnig sammerkt með hinni samstæðu og glæstu götumynd Ægisgötunnar, að við flest húsin eru mjög gróskumiklar lóðir. Myndin er tekin þ. 1. maí 2021.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 979, 13. júní 1944. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Ægisgata 22

Ægisgötu 22 reistu þau Marinó Tryggvason og Sigrún Finnsdóttir árið 1945.P5011004 Marinó fékk þann 16. febrúar þ.á. lóð nr. 22 við Ægisgötu. Það var raunar sjaldgæft á þeim tíma, að lóðir væru tilgreindar með númerum í bókunum Bygginganefndar. Reglan var fremur sú, að lýsa staðsetningu lóða einfaldlega með afstöðu til næstu þekktu lóða eða húsa (t.d. þriðja lóð norðan við Jón Jónsson eða næsta lóð sunnan við hús Péturs Péturssonar o.s.frv.) En þarna hét það lóð númer 22. Rúmum tveimur mánuðum síðar eða 20. apríl fékk Marinó byggingarleyfi. Hljóðaði það uppá hús úr r-steini, þak úr timbri, stærð hússins 8,6X10,6m auk útskots til vesturs 0,9x5,3m. Húsið ein hæð á lágum grunni með valmaþaki, líkt og öll önnur hús við Ægisgötuna. Upprunalegar teikningar liggja ekki fyrir á kortavef Akureyrarbæjar, en líklegast er hönnuður hússins Tryggvi Jónatansson. Á kortavef má hins vegar sjá raflagnateikningar Ingva Hjörleifssonar   

Sú lýsing sem gefin er upp í bókun bygginganefndar á að mestu við enn í dag, Ægisgata 22 er r-steinhús á einni hæð með valmaþaki.   Einlyft steinhús með lágu valmaþaki. Útskot er að vestan auk þess sem byggt var við húsið til norðurs rúmum áratug eftir að það var byggt. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar með opnanlegum fögum í flestum gluggum. Horngluggar í anda funkisstefnunar eru til suðurs.

Þau Marinó og Sigrún voru bæði úr Saurbæjarhreppi, hann frá Jórunnarstöðum og hún frá Ártúni, sem vill svo til að er næsti bær sunnan við. Marinó fékkst við hin ýmsu störf m.a. hjá Akureyrarbæ og Gefjun, en lengst af hjá Mjólkursamlagi KEA. Sigrún vann lengst hjá Brauðgerð Kr. Jónssonar. Marinó og Sigrún bjuggu hér alla tíð eftir byggingu hússins, eða í rúma hálfa öld, hún lést 1997 en hann 2001. Árið 1957 byggðu þau við húsið til norðurs og austurs en finna má járnateikningar Á. Valdemarssonar af þeirri byggingu á áðurnefndum kortavef Akureyrarbæjar. Mun húsið hafa fengið það lag sem það enn hefur.

Ægisgata 22 er reisulegt og snyrtilegt hús og til mikillar prýði. Það er í mjög góðri hirðu og hefur líkast til alla tíð fengið afbragðs viðhald. Húsið er einbýli, eins og flestöll hús við Ægisgötu. Lóð, sem afmörkuð er við götu með steyptum vegg, er einnig vel hirt og gróin, þar eru m.a. tvö ræktarleg reynitré. Glöggir lesendur hafa kannski tekið eftir því, að alla pistlana um Ægisgötu endar síðuhafi á sama hátt: Ef sá möguleiki væri fyrir hendi, að friðlýsa heilar götur og götumyndir stæði Ægisgatan svo sannarlega undir því. Leitun er að jafn heilsteyptri og samstæðri götumynd í þetta langri götu en við hana standa 30 hús. Það er a.m.k. álit síðuhafa. Myndin er tekin 1. maí 2021

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.1005, 16. feb. 1945. fundur nr. 1011, 20. apríl 1945. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • IMG_3045
  • P6171046
  • P6171045
  • IMG 3018
  • IMG 3024a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 166
  • Sl. sólarhring: 166
  • Sl. viku: 394
  • Frá upphafi: 445946

Annað

  • Innlit í dag: 107
  • Innlit sl. viku: 263
  • Gestir í dag: 101
  • IP-tölur í dag: 97

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband