Hús dagsins: Sandvík í Glerárþorpi (Lyngholt 30)

Sandvík stendur um skammt  sunnan og ofan Sandgerðisbótar og er númer 30 við götunaP5220054 Lyngholt.  Húsið byggði Kristján Jósefsson trésmiður og síldarmatsmaður árið 1929. Hann var Þingeyingur, fæddur að Ytri-Leikskálaá í Þóroddsstaðasókn.

Sandvík er reisulegt einlyft steinhús á háum kjallara (aðeins niðurgrafinn öðru megin þar eð húsið stendur í brekku) og með miðjukvisti. Á norðurstafni er útskot, lítið eitt lægra en húsið, hornsneitt með risi. Krosspóstar eru í gluggum, timburklæðning á veggjum og  bárujárn á þaki. Ekki liggur fyrir hver teiknaði húsið, en það er af nokkuð dæmigerðri gerð stærri steinsteyptra íbúðarhúsa frá fyrri hluta 20. aldar.

Þegar steinhúsið á Sandvík var byggt var það með þeim stærri og veglegri í Þorpinu, ekki ósvipað húsum við t.d. Munkaþverárstræti og Eyrarlandsveg, á Akureyri. Glerárþorp var þá þyrping smábýla og tilheyrði Glæsibæjarhreppi. Sjaldnast var um stórbúskap að ræða á býlum Glerárþorps, enda lönd fæstra þeirra það víðlend, að þau gætu framfleytt miklum bústofni.  En ekki fara endilega saman magn og gæði og ekki allt fengið með því fyrrnefnda einu og sér. Síðuhafa er ekki kunnugt um skepnuhald á Sandvík (Glerárþorpsbýlin eru ekki á síðum bókanna góðu, um Byggðir Eyjafjarðar) en vafalítið hafa þar verið fáeinar kindur, kýr og hænsni.  Eftir að Þorpið var lagt undir Akureyri hófst þar uppbygging þéttbýlis, þ.á.m. við göturnar Lyngholt og Steinholt. Var þá búskap, hversu smár eða stór sem hann var í sniðum, sjálfhætt. Býlin fengu flest númer við hinar nýju götur, og varð Sandvík hús númer 12 við Steinholt.   Árið 1976 var götuheitunum breytt og Steinholt lagt niður. Þau hús, sem staðið höfðu við Steinholt fengu þannig ný númer við Lyngholt. Sandvík eða Steinholt 12, varð Lyngholt 30.

Áðurnefndur Kristján Jósefsson, sem byggði húsið lést 1951, en sonur hans, Jósep og tengdadóttir Guðrún Jóhannesdóttir bjuggu þar áfram um áratugaskeið. Jósep Kristjánsson, eða Jósep í Sandvík var mikilvirkur myndlistarmaður og var annálaður fyrir landslagsmálverk. Eflaust státa fjölmörg heimili af einhverju verka Jóseps í Sandvík uppi á veggjum.

Sandvík er reisulegt hús og í góðri hirðu. Það var gert upp af mikilli vandvirkni og natni um 1995, m.a. klætt upp á nýtt og er síðan allt hið glæstasta. Voru þær framkvæmdir eftir teikningum Aðalsteins V. Júlíussonar. Umhverfi hússins er einnig mjög snyrtilegt, gróskumikið og í góðri hirðu. Þá stendur húsið á skemmtilegum stað og blasir við hverjum þeim sem leið eiga um Krossanesbrautina til norðurs. Eðlilega mynda býlin gömlu í Glerárþorpi ekki heildstæðar götumyndir, heldur standa á víð og dreif, innan um yngri byggð. Við götuna Lyngholt standa nokkur gömul býli auk Sandvíkur, m.a. Kristnes, Bergstaðir og Lyngholt, sem gatan dregur nafn sitt af. Um varðveislugildi býlana í Glerárþorpi er síðuhafa ókunnugt um, en að hans áliti ættu þau öll að njóta varðveislugildis- ef ekki friðunar. Myndin er tekin þann 22. maí 2011.

Heimildir: Lárus Zophoníasson.1980. „Glerárþorp – 100 ára byggð“. Súlur X. árg. (bls. 3-33)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 24
  • Sl. sólarhring: 70
  • Sl. viku: 304
  • Frá upphafi: 420277

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 207
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband