30.11.2021 | 19:45
Hús dagsins: Ægisgata 21
Ægisgötu 21 reisti Halldór Jónsson árið 1945 en lóðina hafði hann fengið árið áður. Hann fékk leyfi til að reisa hús úr steinsteypu, ein hæð á lágum grunni, með valmaþaki úr timbri. Stærð hússins 12,9x12,2m auk útskots að vestan 1,6x4,8m. Upprunalegar teikningar eru ekki aðgengilegar á kortavef Akureyrarbæjar, en ekki er ólíklegt, að Halldór, sem var trésmíðameistari hafi sjálfur teiknað húsið. Hann teiknaði alltént bílskúr á lóðinni árið 1963.
Ægisgata 21 er líkt og hvert og eitt einasta hús við götuna, einlyft steinhús með valmaþaki. Lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum eru í gluggum, bárujárn á þaki og sléttur múr á veggjum.
Halldór Jónsson (1896-1974) var sem áður segir trésmíðameistari. Hann var uppalin á Grímsnesi á Látraströnd, norðan Grenivíkur eða er alltént skráður þar í Manntali 1901. Hann var kvæntur Elísabetu Jónsdóttur saumakonu (1902-1987), sem hét fullu nafni Guðný Elísabet Jónsdóttir. Hún var frá Fagraneskoti í Grenjaðarstaðasókn. Bjuggu þau hér um áratugaskeið, en Halldór lést árið 1974 og mun Elísabet hafa búið hér eitthvað eftir hans dag. Þau ræktuðu á lóðinni mjög skrautlegan garð og hlaut garðurinn verðlaun Fegrunarfélags Akureyrar árið 1956. Bílskúr byggðu þau, sem áður segir eftir teikningum Halldórs árið 1963. Húsið hefur nokkrum sinnum skipt um eigendur íbúa eftir þeirra tíð og öllum auðnast að halda því vel við.
Ægisgata 21 er reisulegt og snyrtilegt hús og í mjög góðri hirðu. Á því er m.a. nýlegt þak. Sömu sögu er að segja af lóð, nýleg stétt fyrir framan húsið og allur frágangur til fyrirmyndar. Ekki liggur fyrir húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar en eitt er víst: Ef sá möguleiki væri fyrir hendi, að friðlýsa heilar götur og götumyndir stæði Ægisgatan svo sannarlega undir því. Leitun er að jafn heilsteyptri og samstæðri götumynd í þetta langri götu en við hana standa 30 hús. Myndin er tekin 1. maí 2021
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.967. 10. mars 1944. Fundur nr. 1010, 13 apríl 1945. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2021 | 16:43
Hús dagsins: Ægisgata 20
Ægisgötu 20 reisti Pálmi S. Ólafsson árið 1944 en hann fékk haustið 1943 lóðina, er hann og Ottó Gottfreðsson sóttu í sameiningu um lóðir nr. 18 og 20.
Ægisgata 20 er einlyft timburhús, klætt einhvers konar múrplötum, mögulega steníplötum. Bárujárn er á þaki og krosspóstar í gluggum. Á bakhlið er þríhyrnt útskot, forstofubygging og sólskáli úr gleri á suðvesturhorni. Húsið virðist nokkurn veginn sams konar og næsta hús sunnan við, Ægisgata 18. Ekki er ólíklegt að húsin hafi verið byggð eftir sömu teikningu og þá hafa húsin hlotið sams konar breytingar við endurbyggingu.
Pálmi S. Ólafsson, sem er e.t.v. þekkastur fyrir að hafa staðið vaktina á Blaðavagninum sínum við Ráðhústorg um árabil, bjó líkast til ekki lengi í þessu húsi. Elsta heimildin sem timarit.is finnur um húsið í bæjarblöðunum er frá vorinu 1944, þegar húsið er auglýst til sölu. Hvort þau Þorsteinn Þorleifsson (1912-1989) vélstjóri frá Dalvík og Hrefna Sigurjónsdóttir (1917-1996), sem var fædd og uppalin á Akureyri hafi eignast húsið þá er greinarhöfundi ókunnugt um. En þau bjuggu hins vegar hér um áratugaskeið eða frá því um miðja öldina. Um 1993 var hlaut húsið gagngerar endurbætur, eftir teikningum Antons Arnar Brynjarssonar. Var þá m.a. byggður sólskáli úr gleri á suðvesturhorni hússins. Sams konar endurbætur voru gerðar á systurhúsinu sunnan við, Ægisgötu 20. Þannig hlutu þessi hús, sem eru líkast byggð eftir sömu teikningu, sams konar breytingu og eru fyrir vikið jafn svipuð og í upphafi.
Ægisgata 20 er látlaust og snyrtilegt hús og í mjög góðri hirðu. Það setur skemmtilegan svip á heildstæða götumyndina ásamt tvíburahúsinu nr. 18. Lóð er einnig gróin og vel hirt og ber nokkuð á verklegu og gróskumiklu reynitré suðvestanmegin á lóð, en einnig prýða hinir ýmsu runnar og skrautplöntur lóðina. Ekki veit síðuhafi til þess, að húsakönnun hafi verið unnin um þennan hluta Oddeyrar en eitt er víst: Ef sá möguleiki væri fyrir hendi, að friðlýsa heilar götur og götumyndir stæði Ægisgatan svo sannarlega undir því. Leitun er að jafn heilsteyptri og samstæðri götumynd í þetta langri götu en við hana standa 30 hús. Myndin er tekin 1. maí 2021
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 956, 10. sept. 1943 Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.11.2021 | 17:05
Hús dagsins: Ægisgata 19
Á þeirri skemmtilegu dagsetningu 3.3.´44 hélt Bygginganefnd Akureyrar fund nr. 966. Á meðal fundarefna var umsókn Kristins Kristjánssonar um lóð við Ægisgötu, næst norðan við Guðmund Magnússon. Var honum veitt lóðin en það látið fylgja, að óvíst væri hvenær skólplögn kæmi þangað. Þessi staður var nefnilega í útjaðri byggðarinnar á þessum tíma. Tæpum tveimur mánuðum eftir lóðarveitinguna fékk Kristinn leyfi til að byggja hús, eina hæð á lágum grunni, byggt úr r-steini með valmaþaki, 12x12m að stærð. Teikningarnar að húsinu gerði Þórður S. Aðalsteinsson.
Ægisgata 19 er einlyft steinhús með tiltölulega háu valmaþaki. Grunnflötur er ferningslaga, 12 metrar á kant svosem fram kemur í afgreiðslu bygginganefndar. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárna á þaki og lóðrétt fög í gluggum. Horngluggar í anda funkisstefnunar eru á suðurhornum.
Kristinn Gunnsteinn Kristjánsson (1916-1996) og Jóhanna Þorsteinsdóttir (1917-1998), sem reistu húsið árið 1944 bjuggu hér nánast allan sinn aldur eftir það, í hálfa öld. Kristinn var ættaður frá Ólafsfirði en Jóhanna fædd og uppalin á Akureyri. Þau unnu að jafnaði á sömu vinnustöðum, við skógerð. Lengi vel voru störfuðu þau á Skógerð J. Kvaran en síðar á skógerð Iðunnar á Gleráreyrum. Jóhanna var mjög virk í hinum ýmsu félagsstörfum, var t.a.m. í Kvenfélaginu Hlíf í meira en 50 ár og sat þar lengi í stjórn.
Eigendaskipti hafa ekki verið tíð eftir daga þeirra Kristins og Jóhönnu en húsið hefur nú verið í eigu sömu fjölskyldu í meira en 20 ár. Hefur húsið hlotið margvíslegar endurbætur, m.a. nýtt þak og er allt í hinni bestu hirðu. Er það þó nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð. Lóð er einnig gróskumikil og ber nokkuð á ræktarlegu reynitré suðaustanmegin á lóð, vafalítið gróðursett af Jóhönnu og Kristni á sínum tíma. Ekki veit síðuhafi til þess, að húsakönnun hafi verið unnin um þennan hluta Oddeyrar en eitt er víst: Ef sá möguleiki væri fyrir hendi, að friðlýsa heilar götur og götumyndir stæði Ægisgatan svo sannarlega undir því. Leitun er að jafn heilsteyptri og samstæðri götumynd í þetta langri götu en við hana standa 30 hús. Myndin er tekin 1. maí 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 966, 3. mars 1944. Fundur nr. 973, 28. apríl 1944. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt 24.11.2021 kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2021 | 16:07
Hús dagsins: Ægisgata 18
Sumarið 1943 hugðust tveir stórhuga ungir menn, Baldur Líndal og Þorsteinn Gunnarsson fá þrjár lóðir við Ægisgötu og reisa þar hús. Ekki gekk það eftir, en þeir fengu þó eina lóð, nr. 16, og reistu þar hús. Lóðina fengu þeir þann 30. júlí. Rúmum mánuði síðar eða 10. september var hinum tveimur lóðunum norðan úthlutað til tveggja manna, þeirra Pálma S. Ólafssonar og Ottós Gottfreðssonar. Sá síðarnefndi fékk nr. 18 en Pálmi S. Ólafsson, sem síðar var þekktur fyrir blaðasölu á vagni, fékk nr. 20.
Húsin sem þeir sóttu um að fá að reisa áttu að vera byggð úr timbri, ein hæð með háu risi, þak klætt asbesti og veggir múrhúðaðir. Þeir hugðust semsagt reisa múrhúðuð timburhús. Bygginganefnd samþykkti ekki fyrirliggjandi teikningu að húsunum. Það kemur ekki fram í fundargerð bygginganefndar en höfundur telur líklegast, að hús með háu risi hafi ekki verið vel séð við Ægisgötu, þar sem öll hús voru- og eru- með valmaþökum. En húsin risu, og eru sannarlega með valmaþökum. Líklega eru þau einu timburhúsin við Ægisgötuna. Upprunalegar teikningar að húsinu eru ekki aðgengilegar á kortagagnagrunni map.is en þar er að finna teikningar Antons Arnar Brynjarssonar frá 1993, þegar gerðar voru breytingar á húsinu.
Ægisgata 18 er einlyft timburhús, klætt einhvers konar múrplötun, mögulega steníplötum. Bárujárn er á þaki og krosspóstar í gluggum. Á bakhlið er þríhyrnt útskot, forstofubygging og sólskáli úr gleri á suðvesturhorni. Þess má geta hér, að lýsingar höfundar á Húsum dagsins byggjast að öllu jöfnu á nokkurs konar sjónrænu mati frá götu.
Ottó Gottfreðsson og Pálmi Ólafsson voru hálfbræður, sammæðra. Þeir voru framan úr Saurbæjarhreppi en móðir þeirra, Hólmfríður Bergvinsdóttir fór þar á milli bæja og tók að sér vinnu við saumaskap. Ottó starfaði m.a. á skrifstou Rafveitu Akureyrar. Ottó og eiginkona hans, Aðalheiður Halldórsdóttir frá Siglufirði bjuggu hér um áratugaskeið eða fram um 1990. Árið 1993 fékk húsið nokkra yfirhalningu, m.a. var byggður við það sólskáli og fékk húsið þá það útlit sem það nú hefur. Líklega er núverandi klæðning og gluggar frá svipuðum tíma.
Ægisgata 18 er snyrtilegt og glæst hús og í mjög góðri hirðu, enda allt tekið í gegn fyrir tæpum 30 árum og hefur greinilega verið vel við haldið síðan. Verklegir krosspóstar og sólskálinn og setja á húsið ákveðinn svip. Lóðin er vel hirt og prýdd blómabeðum upp við hús og ýmsum runnum. Ein íbúð er í húsinu, líkt og gengur og gerist með nær öll hús við Ægisgötuna. Ekki veit síðuhafi til þess, að húsakönnun hafi verið unnin um þennan hluta Oddeyrar en eitt er víst: Ef sá möguleiki væri fyrir hendi, að friðlýsa heilar götur og götumyndir stæði Ægisgatan svo sannarlega undir því. Leitun er að jafn heilsteyptri og samstæðri götumynd í þetta langri götu en við hana standa 30 hús. Myndin er tekin 1. maí 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 951, 30. júlí 1943. Fundur nr. 956, 10. sept. 1943 Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2021 | 18:00
Hús dagsins: Ægisgata 17
Ægisgötu 17 reisti Guðmundur Magnússon múrari. Hann fékk lóðina í júlílok 1943 og 10. september s.á. og fullbyggt mun húsið 1944. Byggingarleyfið var fyrir einlyftu húsi með valmaþaki, byggt úr r-steini með járnklæddu timburþaki, 10x8m að grunnfleti. Skemmst er raunar frá því að segja, að hvert einasta hús við Ægisgötu er einlyft með valmaþaki. Einlyft steinhús með lágu valmaþaki. Upprunalegar teikningar að húsinu er ekki finna á Kortavef Akureyrarbæjar, en þar má hins vegar sjá raflagnateikningu Alberts Sigurðssonar frá janúar 1944. Mögulega hefur Guðmundur teiknað húsið sjálfur.
Sú lýsing sem gefin er upp í byggingaleyfinu á að mestu leyti við um húsið í dag, en suðaustanmegin á húsinu er útskot eða viðbygging, sem einnig er með valmaþaki. Húsið er klætt steiningu að utan, þak bárujárnsklætt og einfaldir, lóðréttir póstar í gluggum.
Guðmundur Magnússon var fæddur á Akureyri árið 1910. Hann nam múriðn hjá Tryggva Jónatanssyni og lauk því námi árið 1934. Það er ekki ólíklegt að Guðmundur hafi teiknað húsið sjálfur en hann teiknaði þó nokkur hús á ferli sínum, m.a. Ránargötu 16. Lærifaðir hans, Tryggvi Jónatansson á einnig heiðurinn af drjúgum hluta Ægisgötu, þ.á.m. öllum húsunum við götuna sunnan við Eyrarveg. Guðmundur var kvæntur Kristínu Guðbjörgu Magnúsdóttur frá Lyngholti við Ólafsfirði. Bjuggu þau hér í tæpan áratug, en árið 1953 fluttu þau til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu allar götur síðan. Guðmundur lést 1972 en Kristín 2011. Næstu eigendur munu hafa verið þau Baldur Karlsson og Kristín Pálsdóttir. Ekki urðu eigendaskipti tíð, því þau bjuggu bæði hér til æviloka, Baldur lést 1986 og Kristín 2008 og hafði þá búið hér í rúmlega hálfa öld. Þau Baldur og Kristín byggðu við húsið árið 1960, stofuálmu til suðausturs, 6x4,50m, eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar.
Húsið er næsta lítið breytt frá því að byggt var við það og ekki um mikla breytingu þar að ræða frá upprunalegu útliti hússins. Húsið er snoturt, snyrtilegt og í mjög góðri hirðu, lóð gróskumikil og vel hirt. Ekki veit síðuhafi til þess, að húsakönnun hafi verið unnin um þennan hluta Oddeyrar en eitt er víst: Ef sá möguleiki væri fyrir hendi, að friðlýsa heilar götur og götumyndir stæði Ægisgatan svo sannarlega undir því. Leitun er að jafn heilsteyptri og samstæðri götumynd í þetta langri götu en við hana standa 30 hús. Myndin er tekin 1. maí 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 951, 30. júlí 1943. Fundur nr. 956, 10. sept. 1943 Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri
Bloggar | Breytt 17.11.2021 kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2021 | 13:47
Hatta frá Rauðhúsum
Það er óbærilegt að hugsa til þess, hvernig vist þess sauðfjár er, sem liggur vikum saman í fönn og alltaf ljúft þegar fréttir berast af björgun þess. Heppni að þessir ágætu rjúpnaskyttur áttu leið þarna hjá. Enda þótt gera megi ráð fyrir því, að sauðfé sem ekki skilast heim að hausti sé bráður bani búinn eru þó fjölmörg dæmi um kindur, sem legið hafa úti vikum- og jafnvel mánuðum saman undir fönn og fundist á lífi. Kannski er eitt frægasta tilfellið kind, sem uppi var í Eyjafirði fyrir um 300 árum síðan. Nokkuð ítarlegri frásögn af henni má finna í Búnaðarritinu 1. tbl. frá 1896 en hér stikla ég aðeins á stóru.
Þetta mun hafa verið á fyrri hluta 18. aldar. Þá bjó í Rauðhúsum (ofan Melgerðismela, um 25km frá Akureyri) Ólafur nokkur. Ein af hans eftirlætisám var höttótt, tvævetra þegar þetta gerðist og nefndist Hatta. Það mun hafa verið í október eða "skömmu fyrir veturnætur" sem Ólafur fór í skreiðarferð. Haustið hafði verið mjög milt og fé þannig ekki komið inn en haft í heimahögum. En eins og verða vill á þessum tíma árs, skall stórhríð á fyrirvaralaust. Var Ólafur þá enn ókominn. Fylgir sögunni, að "enginn karlmaður hafi verið á heimilinu" í fjarveru Ólafs og þannig mun ekki hafa reynst unnt að ná fénu inn. Það var væntanlega hvorki verk fyrir konur né börn/unglinga. Allt hafði fennt í kaf þegar Ólafur sneri til baka og tók hann til óspilltra málanna við að leita fjárins og fannst það allt, ýmist dautt eða lifandi. Nema hvað, Höttu vantaði. Var hún talin af og víst að liggja myndi hún dauð undir fönninni. Það finnst í hlákunni sem falið er snjónum og á útmánuðum fór að hlána verulega. Þetta var mögulega í byrjun mars. Athugaði Ólafur þá á hverjum degi skafl nokkurn, er hann taldi Höttu hafa drepist. Dag einn tók hann eftir dæld nokkurri í fönninni og er hann ætlaði að athuga hana, pompaði hann niður í holrými og hver leyndist þar undir nema Hatta- sprelllifandi! Var hún auðvitað orðin afar mögur en ótrúlega vel á sig komin miðað við allt, hafði t.a.m. ekki étið af sér ull. Ekki mun hún hafa komist í æti svo nokkru nemi, en sögunni fylgir, að snjór hafi verið allt í kringum hana. Voru þá liðnar 18 vikur frá stórhríðinni ógurlegu eða um fjórir mánuðir. Hatta braggaðist vel og náði 12 vetra aldri.
Rauðhús ofan Melgerðismela. Myndin er tekin af þjóðveginum en skaflinn, þar sem Hatta dvaldist um fjögurra mánaða skeið, mun hafa verið á svipuðum slóðum og vegurinn liggur. Rauðhús fóru í eyði fóru áratugum síðan, en nú eru þar sumarbústaðir. Mynd tekin 23. apríl 2020.
Hvort líklegt sé, að einhver þessara skjáta reki ættir sínar til Fannar-Höttu hef ég ekki græna glóru um. Hins vegar gæti hún einhvern tíma hafa gengið um þessar slóðir en þetta er á Eyjafjarðardal, myndin tekin 13. ágúst 2021.
![]() |
Fundu lifandi kind grafna í fönn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 15.11.2021 kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2021 | 19:29
Hús dagsins: Ægisgata 16
Ægisgötu 16 munu þeir Baldur J. Líndal og Þorsteinn Gunnarsson hafa reist árið 1943. Þeir voru líkast til í húsbyggingum í verktöku en í lok júlí 1943 sóttu þeir um þrjár lóðir fyrir einlyft hús, helst við Ægisgötu. Þeir fengu hins vegar aðeins eina lóð austan götunnar, norðan Eyrarvegar (gatan var þá þegar fullbyggð sunnan við Eyrarveg), en bygginganefnd vildi ekki festa fleiri lóðir, nema vissa fengist fyrir því, að bygging hefðist þar þá um sumarið. Ekki liggur fyrir hver teiknaði húsið, en höfundur telur nokkuð líklegt, að þar hafi Tryggvi Jónatansson verið að verki.
Ægisgata 16 er einlyft steinhús með tiltölulega háu valmaþaki, horngluggum í anda funkis. Það skiptist í tvær álmur, framhús er ca 9x12 en áfast bakhús eða suðausturálma er 7x7. Steiningarmúr er á veggjum, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum.
Það birtast eitthvað nálægt 20 niðurstöður á timarit.is í Akureyrarblöðunum þegar heimilisfanginu Ægisgötu 16 er flett upp, sú elsta frá 13. apríl 1945 þar sem nýlegur árabátur er auglýstur til sölu. (Þess má til gamans geta, að þann sama dag fæddist í Keflavík Rúnar nokkur Júlíusson, sá ástsæli tónlistarmaður). Árið 1953 eru eigendur hússins Jörundur Jónsson og Torfi Jörundsson. Þá var reist við húsið viðbygging til suðausturs, 7x7m að grunnfleti eftir teikningum Halldórs Jónssonar. Viðbyggingin er í sama stíl og upprunalega húsið, svolítið eins og smækkuð mynd af því. Í viðbyggingu var innréttuð sér íbúð og mun sú íbúðaskipan óbreytt enn í dag.
Þeir Baldur og Þorsteinn hafa líkast til ekki búið lengi í húsinu, væntanlega reist það í verktöku og selt fljótlega eftir að það var reist. Síðar sama ár og þeir reistu húsið, 1943, komu þeir, ásamt Agli Sigurðssyni, á fót kolsýruverksmiðju, þar sem þeir unnu kolsýru m.a. úr skeljasandi og töppuðu á kúta. Við þá starfsemi hugkvæmdist Baldri að tappa vetni á kút og prófa að keyra breskan offiserabíl af Humber-gerð og niðurstaðan var fyrsti vetnisbíll Íslandssögunnar. En Baldur keyrði semsagt fyrstur manna á Íslandi á vetnisbíl, en það var árið 1945. Baldur Líndal (1918-1991), sem var frá Lækjamóti í Víðidal, lauk nokkrum árum síðar, 1949, prófi í efnaverkfræði frá hinum virta háskóla MIT í Boston og starfaði við þá grein um árabil, var m.a. einn af frumkvöðlum við vinnslu kísilgúr í Mývatni.
Ægisgata 16 er líkt og nærliggjandi hús við Ægisgötuna, snoturt og reisulegt hús og í mjög góðri hirðu. Lóðin er einnig vel gróin og vel hirt, ber þar mest á tveimur gróskumiklum reynitrjám framan við húsið. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein í framhúsi og önnur í bakálmu og er húsið líklega eina tvíbýlishúsið við Ægisgötu. Myndin er tekin 1. maí 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 951, 30. júlí 1943 Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.11.2021 | 16:23
Hús dagsins: Ægisgata 15
Árið 1943 fengu þeir Jóhannes Jósefsson og Björn Jónsson lóð við Ægisgötu, næst norðan við Þórhall Guðmundsson (Eyrarvegur 35) og fengu jafnframt að reisa þar hús á einni hæð með lágum grunni með valmaþaki. Húsið, sem byggt var eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar var byggt úr r-steini 10x8,5m að grunnfleti.
Ægisgata 15 er einlyft steinhús með valmaþaki. Lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum eru í flestum gluggum, bárujárn á þaki og steinmulningur á veggjum. Ein íbúð er í húsinu.
Mögulega hafa þeir Jóhannes og Björn reist húsið sem byggingaverktakar og selt það svo. Hugsanlega Marinó Tryggvasyni, sem í febrúar 1945 auglýsir það til sölu. Þá flutti hingað inn Axel Jóhannesson frá Móbergi í Langadal og kona hans Birna Björnsdóttir frá Vopnafirði. Ekki er hægt að segja að eigendaskipti hafi verið tíð á þessu húsi, en Axel og Birna bjuggu þau hér alla sína tíð eða í um 65 ár. Birna lést 2010 en Axel bjó hér áfram, og hafði búið hér í um 70 ár er hann fluttist á Hlíð. Axel vann við húsgagnasmíði allan sinn starfsaldur, á verkstæðum m.a. í Glerárgötu 5, Eiðsvallagötu 18 hjá Níels Hanssyni en þeir sinntu húsgagnaframleiðslu fyrir Jón í Kjarna. Norðanmegin á lóðinni stendur bílskúr, en hann byggði Axel árið 1975. Þar kom hann upp verkstæði, þar sem hann smíðaði húsgögn fyrir hina valinkunnu húsgagnaverslun Augsýn. Axel Jóhannesson lést árið 2018 og var þá elstur karla á Akureyri, 102 ára að aldri.
Ægisgata 15 er látlaust en glæst hús og er í mjög góðri hirðu. Hefur það líkast til alla tíð hlotið fyrirtaks viðhald, en það er oftast tilfellið þegar sömu eigendur eru að húsunum svo áratugum skiptir. Að ekki sé talað um, þegar í hlut eiga hagleiksmenn. Lóðin er einnig vel gróin og við lóðarmörk eru steyptir stöplar með járnavirki. Ægisgatan er að mati síðuhafa sérlega merk og áhugaverð heild. Öll gatan, frá upphafi til enda, er skipuð keimlíkum hús, sem öll með tölu eru einlyft með lágum valmaþökum og undir áhrifum frá funkisstíl. Ekki hefur verið unnin húsakönnun fyrir þennan hluta Oddeyrar en það er mat síðuhafa að Ægisgötuna ætti að friða og varðveita sem götumynd. (Og hananú!). Myndin er tekin 1. maí 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 951, 30. júlí 1943. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2021 | 16:03
Hús við Ránargötu
Hér eru umfjallanir um húsin við Ránargötu. Hún er að mestu leyti byggð á bilinu 1931-55, eldri hluti götunnar sunnan Eiðsvallagötu.
Ránargata 1 (1931)
Ránargata 2 (1932)
Ránargata 3 (1931)
Ránargata 4 (1932)
Ránargata 5 (1933)
Ránargata 6 (1932)
Ránargata 7 (1934)
Ránargata 9 (1934)
Ránargata 10 (1950)
Ránargata 11 (1971)
Ránargata 12 (1946)
Ránargata 13 (1897)
Ránargata 14 (1985)
Ránargata 16 (1948)
Ránargata 17 (1949)
Ránargata 18 (1948)
Ránargata 19 (1950)
Ránargata 20 (1949)
Ránargata 21 (1950)
Ránargata 22 (1947)
Ránargata 23 (1950)
Ránargata 24 (1951)
Ránargata 25 (1953)
Ránargata 26 (1950)
Ránargata 27 (1954)
Ránargata 28 (1952)
Ránargata 29 (1961)
Ránargata 30 (1955)
Ránargata 31 (1954)
Meðaltal byggingarára er rúmlega 1945, svo meðalaldur húsa við Ránargötu er um 76 ár árið 2021. Aldursskipting er nokkuð greinileg við Eyrarveginn, en sunnan hans eru að stórum hluta hús frá fjórða áratugnum en norðan við Eyrarveg eru flest húsin byggð á bilinu 1947-55. Svo vill til, að á horninu við Eyrarveg standa annars vegar langelsta hús og yngsta hús Ránargötunnar. Yngst er Ránargata 14, byggð 1985. Ránargata 13 byggðu Júlíus Sigurðsson bankastjóri og Ragnheiður Benediktsdóttir (systir Einars skálds og athafnamanns)árið 1897 og er þannig í hópi elstu húsa Oddeyrar. Það hús var hins vegar byggt að Hafnarstræti 107 og var flutt á núverandi stað upp úr 1950, eða á svipuðum tíma og nyrðri hluti götunnar tók að byggjast. Á fyrri hluta 20. aldar var ysti hluti Hafnarstrætis skipaður veglegum timburhúsum, sem flest viku fyrir stórhýsum síðar á öldinni. Ránargata 13 er hið eina af þessum húsum, sem ekki er horfið af yfirborði jarðar, því til allrar hamingju var það flutt hingað er það vék fyrir Útvegsbankahúsinu. Ætíð æskilegra, að hús séu flutt sé þess nokkur kostur, verði ekki hjá því komist að þau víki, heldur en að þau séu rifin.
Ránargata er tæpir 400m á lengd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.10.2021 | 15:39
Hús dagsins: Ránargata 31
Ránargötu 31 reistu þeir Þór Steinberg Pálsson og Jóhannes Hjálmarsson árið 1954. Þeir fengu lóðina og byggingarleyfið þá um vorið en voru hins vegar gerðir afturreka með þá teikningu, sem þeir lögðu fram. Skyldu þeir lækka þak í 2 metra og að aðalstigi væri samkvæmt fyrirmælum byggingasamþykktar. Brugðust þeir skjótt við og lögðu fram nýja teikningu, en teikningarnar gerði Páll Friðfinnsson. Þess má geta, að hann var faðir Steinbergs.
Ránargata 31 er tvílyft steinhús með tiltölulega háu valmaþaki. Veggir eru með rauðleitum steiningarmúr, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar í flestum gluggum. Útskot eða inngöngu- og stigaálma er til norðurs en á suðurhlið er mjótt, skástætt útskot vestanmegin og bogadregnar svalir til austurs áfastar því.
Steinberg Pálsson, húsasmiður, sem fæddur var í Glerárþorpi árið 1933 var aðeins 21 árs þegar þeir Jóhannes byggðu húsið. Sá síðarnefndi var ekki gamall heldur eða 24 ára en Jóhannes Ingólfur Hjálmarsson var fæddur árið 1930 á Þórshöfn. Jóhannes stundaði sjómennsku um árabil en eftir að í land kom rak hann Smurstöð Shell og stundaði síðar ýmis verkamannastörf. Jóhannes var mjög virkur í hinum ýmsu félagasamtökum og einn af hörðustu Þórsurum bæjarins, kjörin heiðursfélagi þar 2005. Steinberg bjó ekki mörg ár hér, en árið 1960 byggði hús við Kringlumýri á Ytri Brekkunni og bjó þar ásamt fjölskyldu sinni um áratugaskeið, raunar allt til æviloka 2016. Á timarit.is fer ekki mörgum sögum af Ránargötu 31, aðeins 8 niðurstöður í Degi og ein einasta í Íslendingi. Hins vegar birtast 16 niðurstöður í Viðskiptatíðindum fyrir Akureyri og Eyjafjörð, en þar er um að ræða auglýsingar frá Þóri Jónssyni málarameistara. Hann var búsettur hér, líkast til í áratug en hann lést 1964 (var fæddur 1898). Þórir var, auk þess að vera farsæll í sinni iðn sem málarameistari, einn af stofnendum Karlakórs Akureyrar- Geysis.
Ránargata 31 er traustlegt og reisulegt hús. Skástætt útskot og bogadregnar svalir gefa húsinu ákveðin sérkenni og þá er rauðleitur steinmulningurinn auðvitað einkennandi. Húsið er hluti geysilega umfangsmikillar torfu tveggja hæða steinhúsa með (háum og lágum)valmaþökum, frá miðri 20. öld, sem nær yfir m.a. ytri hluta Ránargötu og Norðurgötu auk drjúgs hluta Grenivalla og Reynivalla. Sem hornhús tekur húsið þátt í götumyndum tveggja gatna, en húsið stendur austan Ránargötu og sunnan Grenivalla. Síðuhafi veit ekki til þess, að unnin hafi verið húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar svo ekki liggur fyrir hvort húsið, eða önnur hús við Ránargötuna, hafi varðveislugildi. Álit síðuhafa á því, hvort einstök hús við Ránargötu eða Ránargatan öll ætti að hafa varðveislugildi ætti að liggja ljóst fyrir. Lóðin er snyrtileg og vel hirt, þar er m.a. gróskumikið reynitré. Norðanmegin á lóðinni má einnig finna minnisvarða liðins tíma, nefnilega niðurgrafinn olíutank, frá tímabili olíufýringar. Skorsteinar eru einnig í mörgum tilfellum minnisvarðar um olíu- og kolakyndingar. Þjóni þeir ekki hlutverki sínu t.d. fyrir arna eða kamínur eru þeir oftast nær fjarlægðir þegar þök eru endurnýjuð því þeir bjóða oftar en ekki lekahættu heim.
Sem fyrr segir, eru tveggja hæða steinhús með valmaþökum einkennandi fyrir þessar götur yst á Oddeyrinni. Í næstu götu vestan við, Ægisgötu, er einnig að finna heilsteypta röð áþekkra húsa, en þau eru hins vegar ólík húsunum við t.d. Ránargötu að því leyti, að öll eru þau á einni hæð. Ytri hluti Ægisgötu verður einmitt til umfjöllunar á næstu vikum.
Meðfylgjandi mynd er tekin þ. 1. maí 2021
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr.1190, 23. apríl 1954. Fundur nr.1191, 7. maí 1954. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 2
- Sl. sólarhring: 170
- Sl. viku: 361
- Frá upphafi: 445952
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 239
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar