Hús dagsins: Ránargata 30

Ránargötu 30 reistu Árni og Svan Ingólfssynir árið 1955. P5010981Þeir fengu vorið 1954 byggingarleyfi en sett var það skilyrði, að húsið væri með valma og breytt þannig, að allar hliðar væru með sama halla. Þremur árum hafði Kristinn Halldórsson falast eftir þessari lóð en verið synjað á grundvelli þess, að ekki var búið að úthluta lóðum nr. 26 og 28. Fékk hann lóð og byggði á nr. 26, en bygginganefnd gaf engan afslátt af því, að „eigi væri hlaupið yfir lóðir“. Upprunalegar teikningar liggja ekki fyrir á kortavef Akureyrarbæjar en þar má hins vegar finna raflagnateikningar Hrólfs Sturlaugssonar af húsinu, frá 1955.

Ránargata 30 er tvílyft steinhús með háu valmaþaki. Á hverri hlið eru kvistir með aflíðandi, einhalla þökum og svalir á suðurkvisti. Kjallari er undir húsinu að hálfu. Útskot er nyrst á framhlið (vesturhlið) og svalir sunnanmegin á þeirri hlið. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar í gluggum.

Þeir bræður, Árni Magnús (1927-1998) og Svan Ingólfssynir (1925-2017) voru innfæddir Akureyringar, fæddir og uppaldir á Oddeyri. Þeir voru synir þeirra Ingólfs Árnasonar og Margrétar Magnúsdóttur, sem lengst af bjuggu í Hríseyjargötu 8 en bjuggu áður í húsi neðarlega við Gránufélagsgötu, á Oddeyrartanga, sem kallað var Litla-Reykjavík. (Það hús var rifið 1991). Svan starfaði lengi vel við sjómennsku en fékkst síðar við ýmis störf, m.a. hjá Hitaveitu Akureyrar. Síðar var innréttuð sérstök á rishæð, en árið 1972 eru auglýstar til sölu tvær íbúðir, annars vegar efri hæð og hins vegar rishæð. Á timarit.is kemur heimilisfangið að öðru leyti u.þ.b. 30 sinnum fyrir í Akureyrarblöðum á þessum 66 árum. Eitt fyrsta skipti sem Ránargötu 30 er getið í blöðum er tilkynning um það í Viðskiptatíðindum í mars 1955, að Svan Ingólfsson selji Árna bróður sínum og hins vegar Indíönu Kristjánsdóttir sinn hluta lóðarinnar, 44% til Árna og 26% til Indíönu.

Ránargata 30 er traustlegt og reisulegt hús og í afar góðri hirðu. Lóð er einnig gróin og vel hirt. Kvistirnir til allra átta gefa því ákveðin sérkenni en þau eru nokkur húsin við utanverða Ránargötuna sem skarta kvistum á háum valmaþökum. Sem hornhús tekur húsið þátt í götumyndum tveggja gatna, en húsið stendur austan Ránargötu og sunnan Grenivalla. Síðarnefnda gatan er nyrst af Völlunum, íbúðagötum sunnan og Eyrarvegar og vestan Norðurgötu.  Þrjár íbúðir eru í húsinu, ein á hverri hæð. Síðuhafi veit ekki til þess, að unnin hafi verið húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar svo ekki liggur fyrir hvort húsið, eða önnur hús við Ránargötuna, hafi varðveislugildi. Álit síðuhafa á því, hvort einstök hús við Ránargötu eða Ránargatan öll ætti að hafa varðveislugildi ætti hins vegar að liggja ljóst fyrir. Meðfylgjandi mynd er tekin þ. 1. maí 2021

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr.21. maí 1954. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Ránargata 29

Um miðjan 6. áratug 20. aldar bjuggu í Norðurgötu 60 þeir Sveinn Brynjólfsson, P5010982vélstjóri frá Nesi og Stefán H. Jakobsson. Þeir áttu það einnig sameiginlegt, að fá á leigu aðra ystu lóð við Ránargötu, sem liggur fáeina tugi metra sunnan Norðurgötu 60. Sveinn fékk hana í maí 1954 án þess þó að byggja, en árið 1956 fékk Stefán hana. Ekki liggur fyrir byggingarleyfi honum til handa í bókunum Bygginganefndar árin 1956-57. Svo vill til, að í bók þeirri innbundinni, sem geymir fundargerðir Bygginganefndar Akureyrar fyrir árin 1957-1959 (og æ síðan) eru engar nafnaskrár eða „registur“. Þannig er nánast ógerningur að fletta upp í þeim einstaka nöfnum, sem er eiginlega lykilatriði, í heimildaleit undirritaðs í þessum fundargerðarbókum. Það er í raun ekki ósvipað því, að ætla að leita að stöku nafni í 200 blaðsíðna símaskrá, þar sem nöfnum væri raðað tilviljanakennt upp!

Það liggur hins vegar engu að síður fyrir, að hvorki Sveinn né Stefán reistu Ránargötu 29, heldur Árni Valmundsson árin 1960-61. Það kemur fram á raflagnateikningum Jóh. Sigurðarsonar, sem aðgengilegar eru kortavef Akureyrarbæjar. Teikningarnar að húsinu gerði Páll Friðfinnsson.

Ránargata 29 er tvílyft steinhús með háu valmaþaki. Útskot eða álma er til norðurs og þar eru inngöngudyr og kvistur í kverkinni á milli á þaki. Einnig er kvistur með einhalla þaki á framhlið. Á suðurhlið er einnig mjótt, skástætt útskot vestanmegin og svalir til austurs. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum.

Árni Valmundsson sem reisti húsið, var fæddur og uppalinn á Akureyri. Hann var vélsmiður og starfaði við þá iðn lengi en hóf síðar störf hjá Skipaskoðun ríkisins, þar sem hann varð umdæmisstjóri. Árni var kvæntur Önnu  Pétursdóttur, sem var úr Svarfaðardalnum, til heimilis að Brekkukoti í Manntali 1920. Bjuggu þau hér um langt árabil en fluttust síðar í Espilund á Brekkunni. Hafa síðan margir búið og átt húsið, sem alla tíð hefur verið tvíbýli.

Ránargata 29 er reisulegt og glæst, í senn stórbrotið og látlaust og setja P5010986skástæð útskot og bogadregnar svalirnar með skrautlegum steyptum handriðum vissan svip á húsið. Húsið er í frábærri hirðu og allt hið snyrtilegasta. Þá er lóð mjög gróin og vel hirt og ber þar mikið á grenitré miklu, suðaustan við húsið. Sá sem þetta ritar giskar á, að tréð sé sitkagreni (?) en það er a.m.k. 15 m hátt. Mögulega hafa Árni eða Anna gróðursett það á sínum tíma, en ljóst er af hæðinni, að tréð er áratuga gamalt. Síðuhafi veit ekki til þess, að unnin hafi verið húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar svo ekki liggur fyrir hvort húsið, eða önnur hús við Ránargötuna, hafi varðveislugildi. Álit síðuhafa á því, hvort einstök hús við Ránargötu eða Ránargatan öll ætti að hafa varðveislugildi ætti að liggja ljóst fyrir. Meðfylgjandi myndir eru tekin þ. 1. maí 2021

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1192, 21. maí 1954. Fundur nr.1246, 12. júní 1956. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Ránargata 28

Ránargötu 28 reistu þeir Jón Þorvaldsson og Þorvaldur Jónasson árið 1952.P5010983 Sá síðarnefndi fékk leyfi til byggingar íbúðarhúss, eftir Hauk Árnason, snemmsumars 1952. Ári síðar veitir bygginganefnd honum leyfi til þess að reisa á húsið bráðabirgðaþak þar sem hann hefur „ekki fjárhagslegt bolmagn til að reisa efri hæð“. Var honum veittur frestur til þriggja ára til að reisa efri hæðina en neðri hæð skyldi gerð íbúðarhæf sem fyrst. Væntanlega hefur þetta gengið efir, en alltént er húsið tveggja hæða.

Ránargata 28 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki. Á suðurhlið er mjótt útskot austanmegin en svalir á báðum hæðum vestanmegin á sömu hlið. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar í flestum gluggum. Á gluggum efri hæðar eru víðir krosspóstar.

Þeir Jón og Þorvaldur sem reistu húsið voru, eins og lesendur hafa kannski getið sér til um, feðgar. Þorvaldur Jónasson, sem fullu nafni hét Magnús Þorvaldur Jónsson, sem starfaði lengst af sem netagerðarmaður, var fæddur 1867 og var því kominn vel á níræðisaldur þegar húsið þeir feðgar byggðu húsið. Hann var úr S-Múlasýslu og er í Manntali 1880 skráður til heimilis að Árnagerði í Kolfreyjustaðasókn og bjó m.a. í Norðfirði og á Seyðisfirði (Manntal 1910). Hvort hann var fæddur þar fylgir ekki sögunni. Þorvaldur lést snemma árs 1954. Jón Ágúst, sonur hans, sem fæddur var á Norðfirði, bjó hér áfram um áratugaskeið. Hann stundaði sjómennsku, var m.a. kyndari á togurum sem sigldu til Englands á árum síðari heimstyrjaldar.  Hann var kvæntur Auði Sigurpálsdóttur, frá Nesi í Saurbæjarhreppi. Hún lést árið 1984 og var þá búsett hér en skömmu síðar fluttist Jón á Kristneshæli, þar sem hann lést 1991. Hafa síðan ýmsir átt og búið í Ránargötu 28 en öllum auðnast að halda húsinu vel við. Það mun að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði.    

Ránargata 28 er reisulegt og glæst hús og í mjög góðri hirðu. Sömu sögu er að segja af lóð, en Jón Þorvaldsson mun hafa ræktað þarna ræktarlegan skrúðgarð. Sjálfsagt er lítið eftir af þeim plöntum nú en lóðin er vel hirt og gróin og römmuð inn af steyptum vegg, líkt og flest hús í nágrenninu. Síðuhafi veit ekki til þess, að unnin hafi verið húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar svo ekki liggur fyrir hvort húsið, eða önnur hús við Ránargötuna, hafi varðveislugildi. Álit síðuhafa á því, hvort einstök hús við Ránargötu eða Ránargatan öll ætti að hafa varðveislugildi ætti að liggja ljóst fyrir. Meðfylgjandi mynd er tekin þ. 1. maí 2021

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr.1156, 30. Maí 1952. Fundur nr.1169, 5. júní 1953. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Ránargata 27

Ránargötu 27 reistu þeir Haddur og Ingvi Júlíussynir árið 1953. P5010985Fengu þeir lóðina og byggingarleyfið samkvæmt meðfylgjandi teikningum, sem Mikael Jóhannsson gerði. Um og eftir 1950 virðist sú hefð bygginganefndar bæjarins, að lýsa húsunum sérstaklega í veitingu byggingaleyfa, nokkurn veginn leggjast af. Fram að þeim tíma var ævinlega tekið fram hve stórt húsið væri á grunnfleti, hæðir, byggingarefni o.s.frv. en þegar nær dregur miðri 20. öld er þess yfirleitt aðeins getið, að húsið sé reist eftir meðfylgjandi teikningum. Hvort þetta stafi af því, að teikningar hafi þótt fullkomnari eða ítarlegri en áður en einfaldlega vegna þess, að fleiri byggðu og fleiri umsóknir þurftu að afgreiða, er síðuhafa ekki kunnugt um en þykir þetta ekki ólíklegar kenningar. Þá getur það einnig haft áhrif, að í flestum nýjum hverfum lá fyrir eitthvert heildarskipulag. Á þessum slóðum á Eyrinni áttu t.d. að rísa tveggja hæða steinhús með valmaþökum.

Húsið er tvílyft steinhús með háu valmaþaki, og kvistum á þaki. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn eða stál á þaki og lóðréttir póstar í gluggum. Þegar þetta er ritað standa yfir viðamiklar endurbætur á húsinu, nýtt þak og pallur á þaki bílskúrs með tengingu með efri hæð hússins. Þær framkvæmdir eru eftir teikningum Valbjörns Ægis Vilhjálmssonar.

Líkt og hús næsta hús sunnan við, Ránargata 25, var númer 27 reist af tveimur bræðrum. Ingvi og Haddur Júlíussynir voru frá Svalbarðsströnd, sá fyrrnefndi fæddur á Halllandsnesi árið 1923 en þegar síðarnefndi fæddist, 1928, höfðu foreldrar þeirra flutt að Sólheimum. Þeir bræður voru um tíma báðir starfandi hjá Vegagerðinni og vann Ingvi þar allan sinn starfsaldur, mestmegnis á jarðýtum. Haddur var vélstjóri að mennt, og vann sem vélamaður hjá Vegagerðinni, síðar í eigin rekstri sem ýtustjóri. Þá var hann vélstjóri á skipum Útgerðarfélags Akureyrar síðustu ár starfsævinnar en hafði í millitíðinni viðkomu á hinum valinkunna fljótabáti Drangi. Ingvi var kvæntur Guðrúnu Jónsdóttur en Haddur var kvæntur systur hennar, Elínu Rannveigu Jónsdóttur. Þær systur voru frá bænum Brekku í Aðaldal.  Skemmst er frá því að segja, að öll bjuggu þau hér til æviloka,  Ingvi lést 1995 og Guðrún lést 2008,  Haddur árið 2011 og Elín Rannveig árið eftir. Þannig hélst húsið innan sömu fjölskyldu í hartnær 60 ár.  

Húsið er reisulegt og glæst og statt í miðri yfirhalningu þegar þetta er ritað. Ekki er annað að sjá, en að þær endurbætur sem standa yfir á húsinu verði til mikilla bóta fyrir húsið, sem var býsna prýðilegt fyrir. Síðuhafi veit ekki til þess, að unnin hafi verið húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar svo ekki liggur fyrir hvort húsið, eða önnur hús við Ránargötuna, hafi varðveislugildi. Álit síðuhafa á því, hvort einstök hús við Ránargötu eða Ránargatan öll ætti að hafa varðveislugildi ætti að liggja ljóst fyrir. Meðfylgjandi mynd er tekin þ. 1. maí 2021

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr.1168, 18. maí 1953. Fundur nr.1169, 5. júní 1953. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Ránargata 26

Ránargötu 26 reisti Kristinn Halldórsson P5010988eftir teikningum Tryggva Sæmundssonar árið 1951. Sá síðarnefndi sótti um lóð og byggingarleyfið fyrir hönd Kristins, sem vildi fá hornlóðina austan Ránargötu, milli Norðurgötu og Ægisgötu. Bygginganefnd veitti honum hins vegar lóð nr. 26, svo „eigi sé hlaupið yfir lóðir“. Þannig áttu hús að byggjast í röð, hlið við hlið. En þess má geta, að á hornlóðinni, Ránargötu 30, reis hús fjórum árum síðar.

Ránargata 26 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki. Á suðurhlið er mjótt útskot austanmegin en svalir á báðum hæðum vestanmegin á sömu hlið. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar í flestum gluggum.

Kristinn Halldórsson, sem byggði húsið, vélstjóri að atvinnu var fæddur á Vémundarstöðum í Kvíabekkjarsókn árið 1905. Hann lést aðeins 48 ára gamall árið 1953. Í húsinu bjó síðustu æviár sín Maron Sölvason (1881-1958) trésmiður frá Ólafsfirði. Hann kom að byggingum margra húsa hér í bæ á fyrri hluta 20. aldar. Meðal annars má nefna eigið hús sem hann reisti  Ránargötu 5 árið 1933 og var hann byggingameistari hússins Breiðabliks, Eyrarlandsvegar 26 árið 1911. Mun það hús hafa verið brúðargjöf til Sigurðar Hlíðar dýralæknis og Guðrúnar Guðbrandsdóttur. Þar er um að ræða tilhöggvið norskt timburhús, eitt af kennileitum Syðri Brekkunnar og með glæstari timburhúsum bæjarins. Maron Sölvason varð bráðkvaddur á göngu um Brekkugötuna í mars 1958, 76 ára að aldri.

Margir hafa átt og búið í húsinu gegnum tíðina og öllum auðnast að halda húsinu og vel við. Alltént er það í mjög góðri hirðu nú og til prýði í götumyndinni. Þá er lóð vel gróin m.a. eru tvö gróskumikil reynitré framan við húsið. Síðuhafi veit ekki til þess, að unnin hafi verið húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar svo ekki liggur fyrir hvort húsið, eða önnur hús við Ránargötuna, hafi varðveislugildi. Álit síðuhafa á því, hvort einstök hús við Ránargötu eða Ránargatan öll ætti að hafa varðveislugildi ætti að liggja ljóst fyrir. Meðfylgjandi mynd er tekin þ. 1. maí 2021

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr.1138, 22. júní 1951. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Ránargata 25

Ránargötu 25 reistu þeir Anton og Guðmundur Finnssynir árið 1952. Fengu þeir lóð og byggingarleyfi samkvæmt meðfylgjandi teikningum. P5010987En umræddar teikningar gerði Gunnar Sigurjónsson.

Ránargata 25 er tvílyft steinsteypuhús með tiltölulega háu valmaþaki. Útskot er til austurs og suðurs og á suðurhlið eru svalir  vestur úr kverkinni á milli. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum.

Anton og Guðmundur Finnssynir voru tveir af 20 systkinum frá Ytri-Á við Ólafsfjörð, synir þeirra Finns Björnssonar og Mundínu Þorláksdóttur. Segja má, að þau Finnur og Mundína hafi orðið landsfræg fyrir þetta mikla barnalán, en börnin 20 eignuðust þau á 28 árum eða frá 1917 til 1945. Á síðasta ári kom einmitt út bókin „Á Ytri Á“ eftir Óskar Þór Halldórsson, sem segir frá lífshlaupi þeirra og afkomenda sem, eins og gefur að skilja, eru orðnir fjölmargir.

Anton Baldvin Finnsson (1920-2014) var skipasmiður og vann í Slippnum um áratugaskeið, en vann áður um skamma hríð hjá hinum valinkunna Nóa Kristjánssyni eða Nóa bátasmið. Kona hans var Steinunn Ragnheiður Árnadóttir (1920-2017). Guðmundur Sigurjón Finnsson (1925-2009)var bifvélavirki og vann lengi vel hjá Vegagerðinni. Hann var kvæntur Stefaníu Guðlaugu Steinsdóttur (1928-2007), frá Stíflu í Skagafirði . Þau fluttu árið 1966 til Borgarness, þar sem Guðmundur gerðist verkstæðisstjóri hjá Vegagerðinni. Anton og Steinunn bjuggu hér nánast alla sína tíð og skemmst er frá því að segja, að húsið er enn að hluta í eigu sömu fjölskyldu og núverandi eigandi neðri hæðar og íbúi er Jóhanna Maríanna, dóttir þeirra Antons og Steinunnar. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein á hvorri hæð og hefur svo verið frá upphafi.

Húsið er í mjög góðri hirðu og hefur alla tíð hlotið fyrirtaks viðhalds, auk þess sem lóð er vel gróin og hirt. Ber þar mikið á gróskumiklu reynitré sunnarlega á lóðinni. Líkt og víða við Ránargötuna er lóðin afmörkuð með steyptum vegg með járnavirki og er hann einnig í góðri hirðu. Síðuhafi veit ekki til þess, að unnin hafi verið húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar svo ekki liggur fyrir hvort húsið, eða önnur hús við Ránargötuna, hafi varðveislugildi. Álit síðuhafa á því, hvort einstök hús við Ránargötu eða Ránargatan öll ætti að hafa varðveislugildi ætti að liggja ljóst fyrir. Meðfylgjandi mynd er tekin þ. 1. maí 2021

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr.1151, 25. apríl 1952. Fundur nr. 1153, 9. maí 1952. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Ránargata 24

Sumarið 1950 fékk Þorsteinn Jónsson lóð og byggingarleyfi við Ránargötu 24. P5010989Fékk hann að reisa hús samkvæmt meðfylgjandi teikningum Sigurðar Hannessonar. Fékk hann einnig að gera á húsi sínu smávægilegar breytingar, sem fólust í því, að breyta gluggum og setja sérinngang í íbúðir á hvorri hæð. Teikningarnar að húsinu gerði Sigurður Hannesson. Upprunalegar teikningar liggja ekki fyrir, en árið 2005 var húsið mælt og teiknað upp af Eiríki Jónssyni, vegna eignaskiptayfirlýsingar.

Ránargata 24 er tvílyft steinhús með valmaþaki. Lóðréttir póstar eru í gluggum, bárujárn á þaki og veggir múrsléttaðir. Syðst á vesturhlið er mjótt útskot og svalir áfastar því, á til vesturs. Grunnflötur hússins er 11,50x8,80m, metrabreitt útskot á vesturhlið 4,45m á lengd. 

Þorsteinn Jónsson verkstjóri frá Engimýri í Öxnadal og Sigrún Ingibjörg Björnsdóttir frá Skagafirði sem byggðu húsið, bjuggu hér um áratugaskeið, eða allt til dánardægra. Hann lést 1968 en hún árið 1984. Þegar heimilisfanginu er flett upp á timarit.is birtast u.þ.b. 25 niðurstöður í Akureyrarblöðunum. Árið 1975 kom upp eldur í húsinu en til allrar hamingju urðu skemmdir ekki miklar af völdum eldsins, sem var bundinn við baðherbergi.

Húsið er reisulegt og í mjög góðri hirðu og  mikillar prýði í umhverfinu, hinni geðþekku götumynd Ránargötu og sama á við um lóðina, sem er snyrtileg og vel hirt. Þá setur skrautlegur, steyptur veggur á lóðarmörkum með einhvers konar tíglamynstri skemmtilegan svip á umhverfið. Tvær íbúðir eru í húsinu og hefur svo verið frá upphafi. Myndin er tekin þann 1. maí 2021. 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr.1123, 16. júní 1950. Fundur nr.1125, 11. ágúst 1950. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Miðgarðakirkja 1867-2021

Þetta eru hræðilegar fréttir og mikið tjón, sem að mörgu leyti fæst engan veginn bætt. Í kirkjum eru að öllu jöfnu ómetanlegir og einstakir gripir og Miðgarðakirkja mun þar engin undantekning. En fyrir öllu er, að ekki varð manntjón. Timburhús, yfir 150 ára gömul, eins og Miðgarðakirkja var, eru eldhafi því miður afar auðveld og fljótunnin bráð. Enda mun kirkjan hafa fuðrað upp á innan við hálftíma. Í einhverjum fréttum skildist mér, að eldsupptök séu talin út frá gamalli rafmagnstöflu. Þær geta svo sannarlega verið varasamar, ef þær slá ekki út við útleiðslu eða bilanir. Kannski væri ráð, að gamlar timburkirkjur væru almennt búnar vatnsúðarakerfi eða einhverju slíku...(e.t.v. er það þó hægara sagt en gert)

Lengi hefur það verið á langtímaplönum hjá mér, að gera mér ferð út í Grímsey- sem er auðvitað eitt af hverfum Akureyrar- og ljósmynda þar m.a. Miðgarðakirkju og hún yrði "Hús dagsins". Af því verður víst ekki úr þessu cry. En hér er hins vegar mjög ítarleg umfjöllun um Miðgarðakirkju úr bókaflokknum Kirkjur Íslands. Höfundar eru Katrín Gunnarsdóttir, Guðmundur L. Hafsteinsson, Þóra Kristjánsdóttir og Gunnar Bollason

 


mbl.is Grímseyjarkirkja brunnin til grunna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús dagsins: Ránargata 23

Þann 6. maí 1949 var tveimur samliggjandi lóðum,P5010990 nr. 21 og 23, við vestanverða Ránargötu úthlutað. Voru þær sagðar norðan við Kristján Magnússon, sem þá hafði reist hús við Ránargötu 17, en hús nr. 19 var þá rétt ókomið. Sigfús Jónsson fékk nr. 21 en númer 23 fékk Hans Hansen. Rúmum mánuði síðar, eða 10. júní 1949 var Hans heimilað að reisa tvílyft íbúðarhús á Ránargötu 23. Þess má reyndar geta, að byggingarleyfi Sigfúsar fyrir húsi nr. 21 var einnig afgreitt þann sama dag. Ekki liggja fyrir upprunalegar teikningar af húsinu á kortavef Akureyrarbæjar, en þar má hins vegar finna teikningar Þrastar Sigurðssonar, frá 1999, vegna endurbóta á húsinu.

Ránargata 23 er tvílyft steinsteypuhús með háu valmaþaki. Á þaki eru alls sex kvistir, tveir á hvorri hlið austan og vestan (fram- og bakhlið) á til suðurs og norðurs, einn á hvorri hlið. Víðir, skiptir krosspóstar eru í flestum gluggum, bárujárn á þaki og veggir eru múrsléttaðir.

Hans Hansen og Sóley Tryggvadóttir, sem byggðu húsið, bjuggu hér um nokkurt árabil. Frá upphafi var húsið tvíbýli og fram til 1952 bjó á móti þeim maður að nafni Finnbogi Jónsson. Þann 15. október 1952 birtist í Degi auglýsing, þar sem téður Finnbogi auglýsir íbúð sína, 2/3 hluta hússins Ránargötu 23 til sölu vegna burtflutnings úr bænum.  Hans Hansen (d. 1978), sem fullu nafni hét Hans von Ahnen Hansen var fæddur í Noregi árið 1913. Móðir hans var Sesselía Stefánsdóttir frá Kollugerði í Kræklingahlíð (Glerárþorpi), en hún hafði flust til Noregs ásamt manni sínum Hans Hansen, sem gegnt hafði stöðu síldaverksmiðja á Dagverðareyri. Hans Hansen eldri var af þýskum ættum, og frá honum var millinafn Hans yngri, von Ahnen komið. Hans eldri lést árið 1913, sama ár og Hans yngri og fluttist Sesselía aftur til Akureyrar eftir lát hans. Hans von Ahnen Hansen hóf ungur störf á Gefjun og vann þar allt til æviloka, eða í um hálfa öld. Lengi vel var hann verkstjóri loðbandsdeildarinnar.

 Um áratugaskeið bjuggu í Ránargötu 23 þau Vilhelm Þorsteinsson  og Anna Kristjánsdóttir. Vilhelm var valinkunnur skipstjóri og útgerðarmaður og var forstjóri Útgerðarfélags Akureyrar í tæpa þrjá áratugi, eða frá 1965 til 1992. Hlaut hann Fálkaorðuna árið 1985 og heiðursmerki Sjómannadagsins á Akureyri árið 1989. Eftir honum er nefnt eitt af flaggskipum útgerðarfélagsins Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA 11, en sonur Vilhelms, Kristjáns er einn af stofnendum Samherja.

Ránargata 23 er reisulegt og glæst hús og í mjög góðri hirðu. Um aldamótin var byggð á það ný rishæð, eftir teikningum Þrastar Sigurðssonar, en að öðru leyti mun húsið lítt breytt frá upphaflegri gerð.  Húsið er til mikillar prýði í umhverfinu, hinni geðþekku götumynd Ránargötu og sama á við um lóðina, sem er snyrtileg og vel hirt. Tvær íbúðir eru í húsinu og hefur svo verið frá upphafi. Myndin er tekin þann 1. maí 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr.1107, 6. maí 1949. Fundur nr.1109, 10. júní 1949. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Ránargata 22

Ránargötu 22 reisti Ólafur Jónsson árið 1950. Haustið 1949 fékkP5010991 hann lóð næst norðan við Guðmund Jónatansson og leyfi til að reisa sér hús samkvæmt meðfylgjandi teikningu, en hana gerði Stefán Reykjalín. Skilyrði fyrir byggingunni var, að hvort tveggja loft væru úr járnbentri steinsteypu.

Ránargata 22 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki, bárujárni á þaki, krosspóstum í flestum gluggum og steiningarmúr á veggjum. Að norðaustan er mjótt útskot, en grunnflötur hússins skv. teikningum er um 8,20x10,45m. Fyrir miðri framhlið er nokkurs konar rammi eða steyptar súlur utan um glugga og ná þær uppeftir öllu húsinu. Á milli gluggana, sem eru nokkuð stærri en aðrir gluggar hússins og með margskiptum póstum, eru steypt, lóðrétt bönd. Setur þetta skemmtilegan svip á svip og gefur því ákveðið sérkenni. Á teikningum var gert ráð fyrir bílskúr, sambyggðum húsinu, að norðaustan. Hann reis hins vegar nokkrum árum síðar og þá stakstæður, en árið 1956 sóttu þeir Tryggvi Sæmundsson og Ólafur um byggingarleyfi fyrir bílskúr, eftir teikningum hins síðarnefnda.

Á timarit.is virðist ekki fara mörgum sögum af Ólafi Jónssyni og fjölskyldu hans í Ránargötu 22. Raunar fer fáum sögum af húsinu þar, en niðurstöður þar eru eitthvað á þriðja tuginn, en 40-50 er ekki óalgengur fjöldi niðurstaða, þegar í hlut eiga íbúðarhús frá miðri 20. Öld. (Að sjálfsögðu er timarit.is ekki upphaf og endir alls, hvað heimildir varðar). Árið 1954 auglýsir Konráð Sæmundsson neðri hæð Ránargötu 22 til sölu, svo væntanlega hefur Ólafur búið á þeirri efri. Líklega hefur bróðir Konráðs, Tryggvi Sæmundsson keypt af honum íbúðina, en hann er fluttur í húsið árið 1955. Tryggvi, sem fæddur var og uppalin á Hjalteyri starfaði sem múrari og byggingameistari og teiknaði fjölmörg hús, m.a. við Ránargötu og Norðurgötu. Hafa svo ýmsir búið hér í lengri eða skemmri tíma og mun húsið næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð.

Ránargata 22 er reisulegt glæst hús undir áhrifum frá funkisstíl. Umbúnaður í kringum gluggana á framhlið gefur því skemmtilegan og skrautlegan svip. Það er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði í umhverfinu. Sama á við um lóðina, sem er vel gróin og í góðri hirðu. Hana, líkt og flestar lóðir við götuna, prýðir vandaður steyptur veggur á lóðarmörkum. Síðuhafi veit ekki til þess, að unnin hafi verið húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar svo ekki liggur fyrir hvort húsið, eða önnur hús við Ránargötuna, hafi varðveislugildi. Álit síðuhafa á því, hvort einstök hús við Ránargötu eða Ránargatan öll ætti að hafa varðveislugildi ætti að liggja ljóst fyrir. Meðfylgjandi mynd er tekin þ. 12. sept. 2021

    

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.1114, 21. okt. 1949. Fundur nr.1252, 3. ágúst 1956. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • IMG_3045
  • P6171046
  • P6171045
  • IMG 3018
  • IMG 3024a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 176
  • Sl. viku: 367
  • Frá upphafi: 445958

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 245
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband