Hús dagsins: Ránargata 21

Þann 1. maí sl. fór ég göngutúr um Ránargötu og Ægisgötu og ljósmyndaði- að ég hélt- öll húsin við þær götur norðan Eiðsvallagötu. En við vinnslu pistlana komst ég að því, að einhverra hluta vegna, gleymt húsum nr. 20 og 21. En ég náði mynd af hinu síðarnefnda í dag...

Í maí 1949 fékk Sigfús Jónsson lóð og byggingarleyfi við Ránargötu.P9120991 Fékk hann að reisa hús samkvæmt meðfylgjandi, en húsinu ekki lýst frekar. En umræddar teikningar gerði Sigurður Hannesson.

Ránargata 21 er tvílyft steinhús með valmaþaki. Bárujárn er á þaki og veggir múrsléttaðir. Sólskáli úr gleri er áfastur á suðurhlið hússins. Á framhlið eru inngöngudyr og steypt skýli yfir þeim en á vesturhlið eru svalir á efri hæð. Samkvæmt teikningum er grunnflötur hússins 9,30x11,50 og telst þar sólskálinn ekki með, enda síðari tíma viðbót.

Þegar Ránargötu 21 er flett upp í bæjarblöðum Akureyrar koma eitthvað nálægt 40 niðurstöður. Þar af er ein frá haustinu 1952 þegar „eldur var uppi í Ránargötu 21“. Kviknaði þá í þakinu og skemmdist töluvert og mun hafa þurft að rjúfa það að hluta til þess að slökkva í reiðingi, sem hafður var til einangrunar. Í frétt Íslendings kemur fram, að í húsinu búi þeir Sigfús Jónsson, starfsmaður á Gefjun og Sigtryggur Þorbjarnarson rafvirki. Sá síðarnefndi seldi Jóni Stefánssyni sinn eignarhluta í húsinu árið 1958.

Sigfús Jónsson var fæddur á Goðdölum við Skagafjörð og starfaði lengst af á Gefjun, lengi vel sem verkstjóri. Kona hans var María Árnína Ísaksdóttir, sem fædd var á Raufarhöfn. Hún var lengst af húsmóðir en vann hin seinni ár á Sútunarverksmiðjunum. Þau hjónin unnu þannig bæði á Verksmiðjunum á Gleráreyrum, eins og svo fjölmargir Akureyringar á 20. öldinni. Þau bjuggu þarna um árabil en margir hafa átt og búið í tveimur íbúðum hússins.  Árið 1989 var sólskálinn að vestanverðu byggður við húsið, eftir teikningum Ágústs Hafsteinssonar. Að öðru leyti er húsið að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð.

Ránargata 21 er látlaust og stílhreint hús og er í mjög góðri hirðu. Það er hluti samstæðra en innbyrðis gjörólíkra húsa við norðanverða Ránargötu og er til mikillar prýði. Sömu sögu er að segja af lóð, sem öll er hin snyrtilegasta og vel hirt. Það er álit þess sem þetta ritar, að þessar húsaröð og einstök hús innan þeirra séu vel þess virði, að hljóta einhvers konar varðveislugildi. En það er auðvitað aðeins persónuleg skoðun höfundar, ekki sérfræðiálit. Meðfylgjandi mynd er tekin þ. 12. sept. 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr.1109, 6. maí 1949. Fundur nr.1109, 10. júní 1949. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Ránargata 20

Vorið 1948 fékk Guðmundur Jónatansson lóð við Ránargötu, næst P9010992norðan við Anton Benjamínsson [Ránargötu 18], ásamt byggingarleyfi. Teikningarnar að húsinu gerði Páll Friðfinnsson.

Ránargata 20 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki. Það er skv. teikningum 9x10,20m að grunnfleti. Útskot er á suðvesturhorni 5,20x1,5m að vestan (framan) og 7,50x1,0m að sunnan. Svalir eru suðurhlið til austurs út frá útskoti en inngöngudyr og tröppur til norðurs á framhlið. Veggir eru múrsléttaðir, einfaldir lóðréttir póstar og opnanleg þverfög í flestum gluggum og bárujárn á þaki.

Ein helsta heimildauppsprettan við samantekt þessa greina er timarit.is. Þar gefur að líta öll tilvik, þar sem viðkomandi húss er getið í dagblöðum og segir það heilmikið um, t.d. hvort og hvaða starfsemi hefur farið fram í húsunum og hvenær. Ef svo var. Einnig koma þar oftar en ekki fram nöfn ýmissa íbúa húsanna á hverjum tíma. Þegar um er að ræða götur, sem eiga „nöfnur“ annars staðar á landinu, eins og Ránargötu, getur málið orðið nokkuð snúið. En hins vegar að hægt að einskorða niðurstöður við bæjarblöðin Íslending, Dag, Verkamanninn o.fl. Samanlagt hefur heimilisfangið Ránargata 20 (í þgf.) komið um 40 sinnum fyrir í téðum bæjarblöðum og er það nokkuð í meðallagi þegar í hlut eiga ríflega 70 ára íbúðarhús í þéttbýli. En elsta heimildin sem timarit.is finnur um Ránargötu 20 á Akureyri er í Íslendingi, þ. 21. September 1949 þar sem auglýst er til leigu herbergi með „ljósi, hita og aðgang að baði“. Sú auglýsing hefur væntanlega verið frá Guðmundi Jónatanssyni þó ekki sé hann skrifaður fyrir henni.

En Guðmundur Jónatansson, sem byggði húsið var málarameistari. Hann var fæddur árið 1911 á Siglufirði en uppalinn í Hrísey. Hann mun m.a. hafa fengist sérstaklega við merkingar á skipum og bátum auk fjölmargs annars. Eiginkona Guðmundar var María Júlíusdóttir frá Hvassafelli í Saurbæjarhreppi, nú Eyjafjarðarsveit.  Þau Guðmundur og Maríu bjuggu hér í áratugi allt til æviloka, en hann lést 1989 og hún 1997. Þannig má með sanni segja, að íbúa- og eigendaskipti hafi ekki verið tíð fyrstu áratugina eða jafnvel fyrstu hálfu öldina. Húsið hefur frá upphafi tvíbýli.

Ránargata 20 er reisulegt og traustlegt hús í svipuðum stíl og nærliggjandi hús, sem aftur er nokkuð dæmigerð fyrir íbúðarhús frá miðri síðustu öld. Á milli glugga á útskoti framhlið eru lóðrétt, steypt bönd sem setja á húsið skemmtilegan svip, svo og steypt munstur á svölum. Á lóðarmörkum er steyptur veggur með járnavirki og skrautlegar kúlur á hliðstólpum og er hann í mjög góðri hirðu og setur einnig skemmtilegan svip á umhverfi hússins. Sá sem þetta ritar veit ekki til þess, að unnin hafi verið húsakönnun um þennan hluta Oddeyrar og því liggur ekki fyrir hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar álit síðuhafa, að þessar húsaröð og einstök hús innan þeirra séu vel þess virði, að hljóta einhvers konar varðveislugildi. En það er auðvitað aðeins persónuleg skoðun höfundar, ekki sérfræðiálit. Meðfylgjandi mynd er tekin þ. 1. sept 2021.

 Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1092, 24. apríl 1948. Fundur nr. 1096, 4. júní 1948. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Ránargata 19

Árið 1948 fékk Kristinn nokkur Karlsson lóð við Ránargötu P5010994og byggingarleyfi sumarið 1949. Hins vegar munu þau Jón Hallgrímsson og Cecilía Steingrímsdóttir hafa reist húsið. En byggingarleyfi Kristins hljóðaði upp á, að reisa hús samkvæmt meðfylgjandi teikningu, en teikningarnar gerði Tryggvi Sæmundsson og eru þær aðgengilegar á kortavef Akureyrar. Sex árum síðar teiknaði hann einnig viðbyggingu á bakhlið hússins.

Ránargata 19 er tvílyft steinhús með valmaþaki. Mjótt útskot er til suðvesturs en austanmegin á suðurhlið eru svalir á báðum hæðum. Á bakhlið er einnig útbygging norðanmegin, ein hæð með með flötu þaki. Gluggar hússins eru flestir breiðir krosspóstar og á útskoti eru margskiptir og víðir gluggar til suðurs. Þeir eru innrammaðar með steyptum, lóðréttum böndum sem ná frá grunni upp undir þakskegg. Sams konar steypt bönd eru svalahandriði neðri hæðar. (Þegar mynd er tekin vantar reyndar handrið á svalir efri hæðar, mögulega verið að endurnýja). Veggir eru klæddir steiningarmúr og bárujárn á þaki.

Sem fyrr segir munu þau Jón Hallgrímsson og Cecilía Steingrímsdóttir hafa reist húsið, enda þótt Kristinn Karlsson sé skrifaður fyrir því í bókunum Bygginganefndar og á teikningum hússins. Mjög snemma, eða 1952 eru þau Jóhann Þorkelsson héraðslæknir og Agnete Þorkelsson hjúkrunarfræðingur flutt í húsið, og mögulega hafa þau reist húsið í félagi við þau Jón og Cecilíu (?) en húsið hefur frá upphafi verið tvíbýli, ein íbúð á hvorri hæð. Jón Hallgrímsson var Ólafsfirðingur, en fæddur á Mó við Dalvík, en Cecilía var Akureyringur, nánar tiltekið úr Ránargötu en faðir hennar, Steingrímur Eggertsson reisti Ránargötu 1 árið 1930. Jón starfaði lengst af við Olíusöludeild KEA. Þau Jón og Cecilía bjuggu hér allt þar til Jón lést, 1994, eða í tæpa hálfa öld.

 Jóhann Þorkelsson héraðslæknir, sem hér bjó til æviloka, 1970, var fæddur í Fljótum árið 1903. Hann nam læknisfræði við Háskóla Íslands og lauk þaðan kandidatsprófi 1933 og hélt svo til Danmerkur í framhaldsnám. Þar kynntist hann Agnete Brinck Clausen, sem tók nafn hans, Þorkelsson er þau giftust. Jóhann tók við embætti héraðslæknis árið 1938 og gegndi því í þrjá áratugi. Má nærri geta, að mikið hafi mætt á héraðslækni á þessum árum, enda umdæmið stórt og berklar útbreiddir og afar skæðir. Jóhann gegndi einnig ýmsum embættis- og trúnaðarstörfum m.a. hjá Rauða Krossinum, styrktarfélagi vangefinna o.fl. og var m.a. einn helsti hvatamaður að stofnun sambýlisins Sólborgar, árið 1969. Þess má reyndar geta, að sl. þrjá áratugi hefur Sólborg hýst Háskólann á Akureyri en önnur  búsetuúrræði hafa tekið við hlutverki Sólborgar.  Þá var Jóhann ræðismaður Dana á Akureyri frá árinu 1957 til dánardægurs. Jóhann var sæmdur Fálkaorðunni árið 1968. Sem fyrr segir, lést Jóhann árið 1970 en Agnete bjó hér áfram, allt til æviloka, 1995. Þannig voru sömu eigendur að báðum hæðum hússins í tæpa hálfa öld. Ýmsir hafa búið hér í lengri eða skemmri tíma eftir tíð heiðurshjónanna tveggja, en líklega hafa eigenda- og íbúaskipti ekki verið tíð, sé tekið meðaltal allra þeirra rúmu sjötíu ára sem húsið hefur staðið.

Ránargata 19 er reisulegt og traustlegt hús og í mjög góðri hirðu. Steyptu böndin á suðurhlið gefa húsinu ákveðin sérkenni og setja á það skemmtilegan svip.P5010993 Lóðin er einnig gróskumikil og vel hirt og skartar m.a. tveimur reynitrjám fremst, nokkurn veginn beint á móti inngöngudyrum. Syðst á lóðinni, eiginlega við mörkin að nr. 17,  stendur gróskumikið birkitré, sem fljótt á litið virðist vera hengibjörk. Hins vegar ber að gæta, að einkenni hengibirkis þ.e. hangandi greinarendar geta einnig birst á „venjulegu“ birki.

Það er álit þess sem þetta ritar, að þessar húsaröð og einstök hús innan þeirra séu vel þess virði, að hljóta einhvers konar varðveislugildi. En það er auðvitað aðeins persónuleg skoðun höfundar, ekki sérfræðiálit. Meðfylgjandi myndir eru teknar þ. 1. maí 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1103, 15. okt 1948. Fundur nr. 1109, 10. júní 1949. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri


Hús dagsins: Ránargata 18

Ránargötu 18 reisti Anton Benjamínsson árið 1948. P5010996Bygginganefnd hafði ekki mörg orð um það, þegar honum var veitt byggingarleyfi, í júní 1947, aðeins að húsið væri reist samkvæmt teikningu. Framan af fylgdu jafnan nokkrar lýsingar á fyrirhuguðum húsum í bókunum bygginganefndar, en líklega hefur það þótt óþarfi eftir því sem störf bygginganefndar og fyrir lágu nokkuð fullkomnar teikningar. En teikningar að húsinu gerði Páll Friðfinnsson

Ránargata 18 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki, um 11,2x9,5m að grunnfleti auk mjórra útskota norðanmegin á og vestarlega á suðurhlið. Áfast síðarnefndu útskoti eru svalir. Einfaldir, lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum eru í flestum gluggum, veggir múrhúðaðir og bárujárn á þaki.

Anton Benjamínsson, sem reisti húsið, hét fullu nafni Arngrímur Anton Benjamínsson og var fæddur í Koti í Svarfaðardal árið 1909 en uppalin á Sauðaneskoti í sömu sveit. Eiginkona hans var Jónína Sæmundsdóttir frá Holti í Glerárþorpi en þau bjuggu sín fyrstu búskaparár í Glerárþorpi, nánar tiltekið í Sólheimum. Anton var vélstjóri og stundaði útgerð um árabil á eigin bátum. Á efri árum var hann vélstjóri á hinum valinkunna flóabát Drangi auk þess sem hann starfaði á Gefjun. Þau Anton og Jónína munu hafa búið á efri hæð hússins, en haft var eftir Antoni, að vegna fjárhagsörðugleika hefði hann orðið að selja neðri hæðina til þess að hafa efni á fullgera efri hæðina. Var það sjálfsagt ekkert einsdæmi. Anton bjó hér til æviloka, 1972, en Jónína bjó áfram hér í einhvern tíma. Hún lést í ársbyrjun 1997. Hafa síðan ýmsir átt og búið á tveimur hæðum hússins. Enn í dag er húsið tvíbýli, ein íbúð á hvorri hæð og er húsið næsta lítið breytt frá upphafi að ytra byrði.  

Ránargata 18 er snyrtilegt og vel hirt hús og til mikillar prýði í samstæðri götumynd tveggja hæða steinhúsa frá miðri síðustu öld. Það er álit þess sem þetta ritar, að þessar húsaröð og einstök hús innan þeirra séu vel þess virði, að hljóta einhvers konar varðveislugildi. En það er auðvitað aðeins persónuleg skoðun höfundar, ekki sérfræðiálit. Meðfylgjandi mynd er tekin þ. 1. maí 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1078, 13. júní 1947. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Ránargata 17

Í mars 1948 fengu þeir feðgar Kristján Magnússon og Sveinn KristjánP5010992sson lóð við Ránargötu. Í september sama ár fengu þeir, auk Antons Kristjánssonar, byggingarleyfi samkvæmt teikningu en ekki fylgir nánari lýsing húsinu. Framan af 20. öld tíðkaðist það í bókunum Bygginganefndar, að fyrirhuguðum húsum var lýst nokkuð gaumgæfilega en seinna var almennt látið nægja, að taka fram að teikningar fylgdu. Kannski réð þar aukinn fjöldi leyfa sem þurfti að afgreiða eða það að teikningar væru taldar fullkomnari en áður. Teikningarnar að Ránargötu 17 gerði Guðmundur Gunnarsson. Áður en húsið var reist gerði hann aðrar viðbótarteikningar að húsinu með viðbyggingu til norðvesturs. Fullbyggt mun húsið hafa verið 1949.

Ránargata 17 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki, 11x12,25m að grunnfleti skv. teikningum Við norðvesturhorn hússins er útskot,skv. teikningum 3,50x3,80m, ein hæð með flötu þaki. Í flestum gluggum eru einfaldir lóðréttir póstar, veggir múrhúðaðir og bárujárn á þaki. Á suðurhlið eru svalir á efri hæð Tveir inngangar eru á framhlið, norðan og sunnanmegin og dyraskýli yfir þeim.

Kristján Magnússon og Evgenia Jónsdóttir höfðu á fyrri hluta aldarinnar verið vinnuhjú, m.a. hjá Einar Árnasyni á Eyrarlandi í Öngulsstaðahreppi um 1920. Eftir að þau fluttu til Akureyrar fékkst hann við ýmis verkamannastörf. Þau byggðu árið 1930 húsið Eiðsvallagötu 22 og bjuggu þau þar uns þau byggðu hér, eða í tæpa tvo áratugi. Kristján var fæddur á Þórustöðum í sama hreppi en Evgenía var frá Ólafsfirði. Honum auðnaðist ekki að búa lengi í Ránargötu 17, en hann lést vorið 1950.  Kristján og Evgenía munu hafa búið á neðri hæðinni en á efri hæðinni bjuggu sonur þeirra, Sveinn, og kona hans, Undína Árnadóttir. Sveinn starfaði lengst af sem skrifstofumaður hjá KEA en Úndína var um árabil matráðskona hjá Landsbankanum. Hafa margir átt og búið í húsinu eftir þeirra tíð og íbúðaskipan haldist óbreytt, ein íbúð á hvorri hæð.  

Ránargata 17 er traustlegt og reisulegt hús í mjög góðri hirðu. Það er til prýði í umhverfinu, sem og snyrtileg og vel hirt lóð og er hluti yfirgripsmikillar heildar tveggja hæða steinhúsa frá miðri síðustu öld. Enda þótt húsin séu eins misjöfn og þau eru mörg og gjörólík innbyrðis er meginformið nokkurn vegin það sama, tvær hæðir, grunnflötur nokkurn veginn ferningslaga og valmaþök. Þessi húsaröð við Ránargötuna liggur  samsíða og austan við sams konar húsaröð við Norðurgötu. Það er álit þess sem þetta ritar, að þessar raðir og einstök hús innan þeirra séu vel þess virði, að hljóta einhvers konar varðveislugildi. En það er auðvitað aðeins persónuleg skoðun höfundar, ekki sérfræðiálit. Meðfylgjandi mynd er tekin þ. 1. maí 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1090, 12. mars 1948. Fundur nr. 1100, 3. sept. 1948. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Ránargata 16

Næstu vikur mun ég fjalla um ytri hluta Ránargötu, þ.e. númer 16-31. Sá sem kannar þessa síðu betur kemst fljótt að því, að hér hefur verið fjallað um hús nr. 1-14. Hvað með Ránargötu 15 ? Við því er einfalt svar: Ránargata 15 er ekki til. Hvers vegna veit ég ekki, en  sunnan Eyrarvegar standa við Ránargötu, nr. 13 (vestan megin) og nr. 14. Norðan gatnamótana standa Eyrarvegur 31 og 33 og norðan þeirra 16 og 17. Hér er Ránargata 16. 

Ránargötu 16  reistu þeir Sverrir Árnason og Garðar Magnússon árið 1947. Í bókunumP5010995 Bygginganefndar fylgir ekki lýsing á húsinu, aðeins tekið fram, að húsið byggi þeir samkvæmt meðfylgjandi teikningum. En þær teikningar gerði Guðmundur Magnússon. Þar má m.a. sjá að grunnflötur er 11x14m og kjallari er undir hálfu húsinu.

Ránargata 16 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og einfaldir, lóðréttir póstar í gluggum. Á framhlið eru tvennar inngöngudyr hlið við hlið og þær rammaðar inn með steyptu bogadregnu skýli.

Frá upphafi hefur húsið verið tvíbýli, ein íbúð á hvorri hæð og hafa margir búið hér um lengri tíma. Sverrir Árnason  og Andrea G. Jónsdóttir bjuggu hér um áratugaskeið. Sverrir var fæddur á Svalbarðseyri en Andrea var frá Stokkseyri.  Sverrir nam ketil- og plötusmíði og átti langan og glæstan starfsferil sem járnsmiður, tók m.a. þátt í smíðum fyrstu stálskipa hér á landi.  starfaði m.a. hjá Slippstöðinni og rak lengi vel eigin járnsmiðju, Járnsmiðjuna Mjölni. Svo fátt eitt sé nefnt. Faðir Sverris, Árni Valdimarsson, reisti árið 1923 Norðurgötu 30 og mun Sverrir hafa alist þar upp. Við heimildaöflun fyrir þessi skrif slær höfundur ætíð heimilisföngunum upp í gagnagrunninum timarit.is. Við „Ránargötu 16“ koma upp 160 niðurstöður, sem er umtalsvert þegar í hlut á íbúðarhús. Þetta skýrist auðvitað af því, að í Reykjavík er einnig Ránargata 16- og einnig á Siglufirði. Húsið á semsagt tvo „alnafna“ ef svo mætti segja. En fyrsta heimildin sem birtist um Ránargötu 16 í bæjarblöðum Akureyrar er frá nóvember 1953, þar sem auglýst er eftir rauðum gardínukappa í óskilum. Væntanlega voru það Andrea og Sverrir sem söknuðu þess gardínukappa, enda þótt það komi hvergi fram. Húsið er líklega að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð, að ytra byrði, en hefur líkast til alltaf hlotið hina bestu umhirðu.

Ránargata 16 er traustlegt og reisulegt hús og í mjög góðri hirðu. Húsið er hluti nokkuð langrar og heilsteyptrar raðar tveggja hæða steinhúsa frá miðri síðustu öld, sem spannar Ránargötu norðan Eyrarvegar. Enda þótt húsin séu eins misjöfn og þau eru mörg og gjörólík innbyrðis er meginformið nokkurn vegin það sama, tvær hæðir, grunnflötur nokkurn veginn ferningslaga og valmaþök. Þessi húsaröð við Ránargötuna liggur  samsíða og austan við sams konar húsaröð við Norðurgötu. Austan við, við Ægisgötu eru húsin hins vegar lágreistari og er þar um að ræða aðra, einstaka þyrpingu. Það er álit þess sem þetta ritar, að þessar raðir og einstök hús innan þeirra séu vel þess virði, að hljóta einhvers konar varðveislugildi. En það er auðvitað aðeins persónuleg skoðun höfundar, ekki sérfræðiálit. Meðfylgjandi mynd er tekin þ. 1. maí 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1076, 25. apríl 1947. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Grímsstaðir í Glerárþorpi (Háhlíð 3)

Um daginn lauk hér umfjöllun um hús við Norðurgötu. Næst á dagskrá er nyrðri hluti Ránargötu, sem er næsta gatan austan við á Oddeyrinni. Reikna ég með að ágúst og september verði helgaðir henni. Þá mun væntanlega Ægisgatan verða næst og Eyrarveginn reikna ég með að taka fyrir síðustu vikur ársins og fyrstu vikur ársins 2022. (Það er kannski ágætt að geta boðið upp á einhvern fyrirsjáanleika hér á þessum vettvangi, nú þegar veiruófétið hefur enn og aftur gert allt sem kallast getur fyrirsjáanleiki, almennt í þjóðfélaginu, að engu ). En áður en við höldum í Ránargötu skjótumst við norður yfir Glerá, að einu gömlu býla Glerárþorps...

Melgerðisás nefnist aflangt klapparholt neðarlega í Glerárþorpi.P5010015 Ásinn liggur fáeina hundruð metra frá gilkjafti til norðausturs neðra Glerárgils. Um Melgerðisásinn liggur gatan Háhlíð og við hana, númer þrjú, stendur húsið Grímsstaðir. Grímsstaði reistu reistu þau Arngrímur Jónsson og Sigríður Jónsdóttir árið 1929. Ekki gat sá sem þetta ritar fundið byggingarleyfi eða teikningar, enda var Melgerðisásinn langt utan lögsögu Bygginganefndar Akureyrar, þó ekki bókstaflega, því að mörkum Glerárþorps og Akureyrar, þ.e.a.s. Glerá voru aðeins 100 metrar. (Og eru að sjálfsögðu, en Glerárþorp hefur tilheyrt Akureyrar í hartnær sjötíu ár). Húsið mun í upphafi hafa verið nokkuð minna en það er nú, en austasti hlutinn virðist vera viðbygging. Á kortavef Akureyrar finnast engar teikningar af Grímsstöðum neinar teikningar, hvorki af upprunalegu húsi né viðbyggingu.

Grímsstaðir er einlyft steinhús með lágu risi og á lágum kjallara, um 7x10m að grunnfleti. Þverpóstar eru í gluggum, veggir múrsléttaðir og bárujárn á þaki.

Þau Sigríður og Arngrímur höfðu áður búið á öðru býli í Glerárþorpi, Sandgerði, áður en þau byggðu á Grímsstöðum. Hann var frá Holtakoti í Reykjahverfi en hún úr Öxnadalnum, nánar tiltekið frá Geirhildargörðum. Í ársbyrjun 1931, rétt rúmu ári eftir að húsið á Grímsstöðum var risið af grunni vildi sá voveiflegi atburður til, að  Arngrímur Jónsson lést í  vinnuslysi  í verksmiðju Gefjunar á Gleráreyrum.  Sigríður bjó hér með fimm börn þeirra áfram eftir lát hans. Hún starfaði einnig á Gefjun um langt árabil. Ekki fer mörgum skráðum sögum af miklum bústofni á Grímsstöðum en væntanlega hefur Sigríður  haft fáeinar skepnur. Þéttbýlismyndun hófst í Glerárþorpi nokkurn veginn jafn skjótt og það rann inn í Akureyri, einna fyrst neðst og syðst. Það var hins vegar ekki fyrr en upp úr 1980 að gatan Háhlíð tók að byggjast. Hlutu Grímsstaðir númerið 3 við þá götu. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, einbýli en mögulega hafa að fleiri en ein fjölskylda hafi búið þarna samtímis á einhverju tímabili. Á síðari hluta 9. áratugarins var starfrækt þarna keramikvinnustofa.

Grímsstaðir eru einfalt og látlaust hús en engu að síður til prýði í umhverfinu. Húsið er í mjög góðri hirðu og frágangur húss og lóðar allur hinn snyrtilegasti. Líkt og gengur og gerist með gömlu býli Glerárþorps fylgir húsinu stór lóð og er hún mjög gróskumikil og í mjög góðri hirðu. Síðuhafi veit ekki til þess, að húsakönnun hafi verið unnin fyrir þetta svæði og er því ekki kunnugt um hugsanlegt varðveislugildi hússins. Hins vegar telur síðuhafi, að Grímsstaðir og öll gömlu býli Glerárþorps eigi að hljóta óskorað varðveislugildi, ef ekki friðun. Myndin er tekin fyrir tæpum áratug, 1. maí 2012, og hefur áður birst hér, þegar síðuhafi tók nokkur Glerárþorpsbýli fyrir á „hundavaði“.


Norðurgata- eins og hún leggur sig

Sl. vikur hef ég tekið fyrir ytri og yngri hluta Norðurgötu, þ.e. þann hluta sem liggur norðan við Eyrarveg. Syðri hlutann tók ég fyrir að mestu árin 2009-14, m.a. var fyrsta greinin á þessum vef um Norðurgötu 17. Elstu pistlarnir eru reyndar ekki svipur hjá sjón í samanburði við þá nýjustu, sumir ekki nema fáeinar málsgreinar, en látum það gott heita. Norðurgata er að mínu áliti, ein af skemmtilegri götum bæjarins. Hún er byggð á mjög löngum tíma, í áföngum og við hana má finna mikla fjölbreytni í húsagerð síðari hluta 19. aldar og fram á miðja 20. 

En hér eru umfjallanir um húsin við Norðurgötu: 

Norðurgata 1 (1900)

Norðurgata 2 (1897)

Norðurgata 2b (1911)

Norðurgata 3 (brann haustið 2019, var byggt 1899).

Norðurgata 4 (1897)

Norðurgata 6 (1898)

Norðurgata 8 (1933)

Norðurgata 10 (1926)

Norðurgata 11 (1880)

Norðurgata 12 (1926)

Norðurgata 13 (1886)

Norðurgata 15 (1902)

Norðurgata 16 (1926)

Norðurgata 17 (1880)

Norðurgata 19 (1920)

Norðurgata 26 (1926)

Norðurgata 28 (1924)

Norðurgata 30 (1923)

Norðurgata 31 (1926)

Norðurgata 32 (1930)

Norðurgata 33 (1927)

Norðurgata 34 (1930)

Norðurgata 35 (1939)

Norðurgata 36 (1930)

Norðurgata 37 (1933)

Norðurgata 38 (1929)

Norðurgata 39   (1947)

Norðurgata 40   (1946)

Norðurgata 41   (1947)

Norðurgata 42   (1947)

Norðurgata 43   (1947)

Norðurgata 44   (1947)

Norðurgata 45   (1955)

Norðurgata 46   (1949)

Norðurgata 47   (1948)

Norðurgata 48   (1947)

Norðurgata 49   (1957)

Norðurgata 50   (1947)

Norðurgata 51   (1947)

Norðurgata 52   (1949)

Norðurgata 53   (1947)

Norðurgata 54   (1947)

Norðurgata 56   (1948)

Norðurgata 58   (1949)

Norðurgata 60   (1947)

Meðaltal byggingarára Norðurgötuhúsa er 1929,9 og meðalaldurinn árið 2021 þannig rúmlega 91 ár. Nokkur af elstu húsum Oddeyrar eru við Norðurgötu. 

 

ES. Nokkur „fyrrverandi“ Norðurgötuhús.

Nyrst af Völlunum á Oddeyri, eiginlega við Gleráreyrar, eru Furuvellir. Við Furuvelli standa iðnaðar- og þjónustuhús, m.a. Kaffibrennsla Akureyrar og Viking Brugghús að ógleymdri verslun Hagkaupa. Síðarnefndu tvö fyrirtækin eru austast við götuna en þau voru reist snemma á sjöunda áratugnum og stóðu þá yst við Norðurgötu. Í huga margra standa þessi hús alltaf við Norðurgötu og því e.t.v. rétt að geta þeirra hér:

Furuvellir 15,ÍSPAN; áður Norðurgata 55.

Fram til 1990 lá Norðurgatan frá Hjalteyrargötu að Strandgötu en við stækkun verslunar Hagkaupa var götunni lokað í norðurendann og ystu hús Norðurgötu töldust til Furuvalla. Norðurgata 55, nú Furuvellir 15 var byggð 1963 og hýsti m.a. stálhúsgagnagerð. Síðustu áratugi hefur glersmiðjan Íspan haft aðsetur í Furuvöllum 15.

 

Furuvellir 18, VIKING; áður Norðurgata 57

Hin valinkunna bruggverksmiðja, VIKING brugghús, áður Vífilfell og þar áður Sana er staðsett á horni Furuvalla og Hjalteyrargötu. Elsti hluti verksmiðjunnar var reistur árið 1963 og taldist Norðurgata 57.

 

Furuvellir 17, Hagkaup; áður Norðurgata 62

Húsið var upprunalega reist sem bifreiðaverkstæðið Baugur árið 1962. Baug ráku m.a. Finnur Daníelsson og Hörður Adólfsson, móðurafi þess sem þetta ritar, og stóðu þeir fyrir byggingu hússins. Upprunalega Baugshúsið mun nú austasti og miðhluti Hagkaupshússins. Um áramótin 1979-80 seldu þeir Hagkaupum húsið, sem stækkaði það umtalsvert og opnaði þar verslun. Húsið var stækkað aftur til vesturs árið 1990 og í kjölfarið var Norðurgata lokuð fyrir bílaumferð í norðurendann og telst nú ysti hluti hennar göngustígur að Furuvöllum. Aftur var Hagkaup stækkað um 1995, þegar apótek var opnað þar og nú síðast var byggt við húsið 2020-21.  

Stundum er það svo, að "gatan flyst frá húsunum" eins og í tilfellum ofangreindra húsa en þó er einnig til, að húsin flytjist frá götunum: Steinsnar vestan við sunnanverða Norðurgötu standa tvö hús, Fróðasund 10a og Fróðasund 11. Síðarnefnda húsið var reist við Norðurgötu 9 árið 1890 en Fróðasund 10a var líklega fyrsta húsið sem byggt var við Norðurgötu en það var byggt 1877. Húsin voru flutt að Fróðasundi um 1945. 

 

 

 

 


Hús dagsins: Norðurgata 60

Að frátöldum húsum ÍSPAN, Viking Brugg (áður SANA) og Hagkaupa, sem lengst af töldust til Norðurgötu 55, 57 og 62  en teljast hin síðari ár viðP4220997 Furuvelli, eru Norðurgata 60 og 53 ystu húsin við Norðurgötu. Í þessari umfjöllun verður miðað við núverandi norðurmörk götunnar. Hvers vegna þessi munur er á oddatölunum og sléttu tölunum (60-53) er höfundi ekki kunnugt um; lóðir nr. 39 og 41 eru auðvitað jafn langar og lóðirnar frá 42-50 en hins vegar er ekkert hús á bilinu 21-29, þar sem Eiðsvöllurinn liggur að götunni. Það er raunar ekki óalgengt með eldri og lengri götur Akureyrar að fáeinar meinlausar gloppur finnist í númerakerfunum.  

Það var haustið 1946 að Þorsteinn Þorsteinsson fékk lóðina og að reisa hús austan Norðurgötu, norðan „fyrirhugaðrar þvergötu“ sem síðar hlaut nafnið Grenivellir. Byggingarleyfi fékk hann einnig fyrir tveggja hæða húsi, 12,4x9,5m, tvær hæðir á lágum grunni, byggt úr steinsteypu og með valmaþaki. Húsið reisti hann eftir eigin teikningum.

Húsið er tveggja hæða steinhús með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar í flestum gluggum. Á austurhlið er útbygging sem skagar eilítið til norðurs út frá meginálmu hússins. Á suðausturhorni er inndregið skot á efri hæð og eru þar svalir en á vestanmegin á suðurhlið eru lóðrétt steypt bönd milli glugga, og upp að þakbrún ofan glugga efri hæðar. Setur þessi einfalda skreyting skemmtilegan svip á húsið.

Þorsteinn Þorsteinn skipasmiður, sem byggði húsið, var fæddur að Hálsi í Svarfaðardal. Hann starfaði hjá Skipasmíðastöð KEA og tók þátt í stofnun Slippstöðvarinnar árið 1952, ásamt Skapta Áskelssyni. Þeir voru einnig nágrannar, en Skapti byggði og bjó í Norðurgötu 53, beint handan Norðurgötu 60. Þorsteinn var kvæntur Þóru Steindórsdóttur  og bjuggu þau hér um áratugaskeið, Þorsteinn til æviloka (1980) og Þóra um árabil þar á eftir. Húsið hefur alla tíð verið tvíbýli og á móti þeim Þóru og Þorsteini bjuggu þau Anna Sigurðardóttir frá Syðra- Hóli í Öngulsstaðahreppi og Sveinn Brynjólfsson vélstjóri, frá Nesi í Saurbæjarhreppi . Hafa síðan ýmsir átt hér heima. Árið 1959 var byggt við húsið að norðvestan, eftir teikningum , tvílyft mjó álma með valmaþaki, í samræmi við upphaflegt útlit hússins á vesturhlið hússins og fékk húsið þá það lag sem það síðan hefur. Er húsið nokkurn veginn óbreytt að gerð síðan þá. Árið 1989 keyptu Hagkaup 10m breiða spildu nyrst af lóðinni vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar. Á sama tíma var Norðurgötu lokað í norðurendann og síðan liggur göngustígur milli Norðurgötu og Furuvalla. (Kannski telst sá stígur ysti hluti Norðurgötu).

Norðurgata 60 er glæst og reisulegt hús og til mikillar prýði. Það er í afbragðs góðri hirðu og allt hið snyrtilegasta og það sama má segja um lóðina. Á mörkum hennar er girðing með steyptum stöplum og skrautlegu járnavirki sem einnig er mjög vel við haldið. Steypt bönd á suðausturhorni hússins setja á það afar skemmtilegan svip; gefa húsinu ákveðin sérkenni. Þar sem höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hluti mikillar þyrpingar sambærilegra steinhúsa frá miðri 20. öld, sem nyrsti hluti Norðurgötu er hluti af.

Þá er það álit höfundar, að Norðurgatan í heild sinni sé virkilega varðveisluverð. Því hún er að mörgu leyti eins og þverskurður af íslenskri íbúðarhúsagerð frá ofanverðri 19. öld og fram á hina miðja 20. Þar má finna algengar gerðir timburhúsa 19. aldarsteinsteypuhús af þeirri gerð sem tíðkaðist fyrst hérlendis, verkamannabústaði Guðjóns Samúelssonar og hús í funkisstíl frá áratugunum 1930-50. Svo ekki sé minnst á, að við götuna stendur eina grjóthlaðna hús Akureyrar- svo vitað sé. Vitaskuld eru fjölbreyttar húsagerðir og frá ýmsum tímum við margar aðrar götur á Akureyri og annars staðar en Norðurgatan er svo skemmtilega uppbyggð, að gatan er nokkurn veginn byggð í tímaröð og er fyrir vikið eins og skipulagt safn um íslenska húsagerð. Þá er rétt að halda til haga, að í Húsakönnun sem unnin var um hluta Oddeyrar fyrir þremur áratugum er syðsti og elsti hluti götunnar metinn sem varðveisluverð heild. Myndin af Norðurgötu 60 er tekin þann 22. apríl 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1064, 20. sept. 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. (Ritið er einnig aðgengilegt á netinu, sjá tengil á pdf-skjal að ofan.


Einfalt reikningsdæmi

Svo virðist, sem ríkjandi hafi verið viss misskilningur eða óskhyggja þess efnis, að bóluefnin:

a) virki eins og teflon á kórónuveiruna þ.e. bólusettir einhvern veginn hrindi henni frá sér

b) ákveðið bólusetningarhlutfall myndi útrými veirunni alveg.

(Seinni punkturinn getur mögulega átt við- þ.e. ef hlutfallið á við alla 8.000.000.000 jarðarbúa. En það virðist því miður langt í land með það).

Nú liggur fyrir að vernd gegn smiti er 60 % og gegn alvarlegum einkennum sé 90 %. Einhvern tíma skildist mér að þetta þýði eftirfarandi:  Af 10 manns, bólusettum, sem annars hefðu allir smitast, myndu 6 sleppa (60% af 10); 4 smitast og þar af 1 veikjast alvarlega (10% af 10) alvarlega. Hvað þýðir þetta í stærra samhengi? Hér koma nokkrar hugleiðingar, með einföldum reikningsdæmum. Ekki skildi taka þessum reikningum sem neinum algildum vísindum

Ef við uppreiknum þetta í t.d. 10.000 manns eru það 4000 manns sem geta smitast og 1000 sem geta veikst alvarlega.

Ég hef ævinlega skilið þetta þannig, að þessi 90% vörn miðist við heildina. En ef gefum okkur hins vegar það, að bóluefnin veiti téðum 4000 bólusettum sem smitast 90 % vörn þýðir það, að 10% , þ.e. 0,1x4000 = 400 gætu veikst alvarlega

 

Nú munu 250.000 manns hérlendis bólusettir. Það þýðir, samkvæmd fyrri forsendu, vitaskuld að 0,6x250.000 = 150.000 manns eru varðir fyrir smiti og 0,9x250.000 = 225.000 varðir fyrir alvarlegum veikindum. Sem er auðvitað frábært og ljóst, að bólusetningin skilar miklum árangri.

Engu að síður þýðir það, að fræðilega gætu  100.000 manns smitast og 25.000 veikst alvarlega. Það er heill (afsakið orðbragðið undecided) helvítis hellingur.

Ef við hins vegar reiknum með því, að bóluefnin verndi þá 100.000 sem gætu smitast í 90% tilfella, fækkar mögulegum alvarlega veikindatilfellum niður í 0,1x100.000= 10.000. En 10.000 alvarlega veikir Covid-sjúklingar er auðvitað ekkert smáræði fyrir heilbrigðiskerfið. 

Svo ekki sé minnst á hina 120.000 sem eru óbólusettir. 

Það skal tekið fram, að þarna er um að ræða verstu mögulegu útkomu, miðað við einfaldaðar forsendur.

Engu að síður er staðan er þó vissulega víðsjárverð. sealed


mbl.is Búast má við að fólk veikist alvarlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • IMG_3045
  • P6171046
  • P6171045
  • IMG 3018
  • IMG 3024a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 34
  • Sl. sólarhring: 201
  • Sl. viku: 393
  • Frá upphafi: 445984

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 265
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband