Hús dagsins: Norðurgata 58

Í fundargerðum Bygginganefndar Akureyrar eru ekki höfð mörg um Norðurgötu 58.P4220998 Aðeins er minnst á, að Stefán Magnússon og Hermann Stefánsson fái lóðirnar þ. 12. mars 1948 og hálfum öðrum mánuði síðar, 24. apríl fá þeir byggingarleyfi. Húsinu er ekki lýst sérstaklega. Upplýsingar um teikningar eða hönnuð liggja ekki fyrir á kortavef, en þar má hins vegar finna raflagnateikningar Gústavs Jónssonar af Norðurgötu 58, frá 1949.

Norðurgata 58 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki. Útskot er norðanmegin að framan (vestan) og svalir til suðurs áfastar því. Bárujárn er á þaki, veggir múrsléttaðir og einfaldir,lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum.

Þegar heimilisfanginu „Norðurgötu 58“ er flett upp á timarit.is birtast 33 niðurstöður. Sú elsta er frá júní 1951, þegar tilkynnt er um brúðkaup þeirra Hermanns Stefánssonar og Kristínar Friðbjarnardóttur. Hermann (d.2010), sem starfaði lengst af sem bifreiðarstjóri,  var fæddur á Ásgarði á Svalbarðsströnd en þar stundaði faðir hans búskap. Stefán Magnússon var hins vegar fæddur hinu megin við Eyjafjörðinn, eða í Ytri Skjaldarvík árið 1901. Hann stundaði sem áður segir búskap í Ásgarði en vann ýmis störf, titlaður verkamaður, eftir að brá búi.  Þeir feðgar bjuggu  í húsinu með fjölskyldum sínum um árabil. Hafa síðan margir búið hér og átt íbúðir, en húsið mun alla tíð hafa verið tvíbýli með einni íbúð á hvorri hæð.  Árið 1973 var reistur bílskúr á lóðinni, eftir teikningum Tómasar Búa Böðvarssonar.

Húsið er í mjög góðri hirðu og líkast til lítið breytt frá upphaflegri gerð. Lóð er einnig vel hirt og frágangur allur hinn snyrtilegasti. Húsið tekur, sem hornhús, þátt í götumynd Grenivalla og Norðurgötu. Líkt og húsin við Norðurgötu norðan Eyrarvegar er húsið hluti mikillar þyrpingar tveggja hæða steinhúsa frá miðri síðustu öld. Húsin eru langflest svipuð, nokkurn vegin ferningslaga að grunnfleti með útskotum og svölum og ýmist með háum eða lágum valmaþökum. Oftar en ekki prýða lóðirnar gróskumikil tré. Þessi torfa samanstendur af nokkrum götum og er mjög gott dæmi um vel heppnað skipulag með samræmdu yfirbragði byggðar.

Höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar, eða þennan hluta Oddeyrar yfirleitt, svo ekki liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar eindregið álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Þ.á.m. hin langa og heilsteypta röð steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. öld, norðan Eyrarvegar. Sú röð er raunar, sem áður segir einnig hluti og eiginlega miðja fyrrgreindrar steinhúsaþyrpingar,  sem mætti segja að afmarkist af norðurhluta Ránargötu í austri, hluta Grenivalla í norðri, Reynivalla í vestri og eystri hluta Eyrarvegar í suðri. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1090, 12. mars 1948. Fundur nr. 1092, 24. apríl 1948. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Norðurgata 56

Norðurgötu 56 reisti Þorsteinn Símonarson árin 1946-47. P4220994Hann fékk lóðina í júní 1946 og byggingarleyfi í september sama ár. Byggingarleyfið var fyrir húsi, á tveimur hæðum á lágum grunni og með valmaþaki. Húsið úr steinsteypu, þ.e.a.s útveggir og gólf yfir kjallara. Efri hæð innréttuð úr timbri, stærð 10,45x8,2m. Teikningarnar að húsinu gerði Stefán Reykjalín.

Húsið er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum.

Þorsteinn Marinó Símonarson var frá Grímsey en fæddur á Dalvík. Hann stundaði lengi vel útgerð á smáum bátum og sinnti ýmsu störfum eftir að hann kom í land. Á efri árum lagði hann stund á bókband. Hann bjó hér til æviloka, 1988 eða í rúm 40 ár. Ekkja Þorsteins, Bára Kjartansdóttir frá Miðhvammi í Aðaldal bjó hér um tíma eftir lát hans. Hún hafði flust til hans sem ráðskona árið 1969 og tveimur árum síðar gengu þau í hjónaband. Annars hafa margir búið í húsinu um lengri eða skemmri tíma. Líkt og nánast öll tveggja hæða steinhúsin við utanverða Norðurgötu var Norðurgata 56 tvíbýli frá upphafi, íbúð á efri og neðri hæð og svo er enn.

Húsið er í senn látlaust og reisulegt og til mikillar prýði í umhverfinu. Það er líkast til lítið sem ekkert breytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði en er engu að síður í mjög góðri hirðu. Það er nefnilega alls ekki samasemmerki þar á milli, að hús séu óbreytt frá upphafi og að þeim hafi ekki verið haldið við. Fjarri því.  Þar sem höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar eindregið álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Þ.á.m. hin langa og heilsteypta röð steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. öld, norðan Eyrarvegar. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1058, 9. júní 1946. Fundur nr. 1064, 20. sept. 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Norðurgata 54

Norðurgötu 54 mun Svavar Björnsson vélstjóri hafa reist árið 1946P4220993 eftir teikningum Páls Friðfinnssonar. Ekki gat höfundur fundið neitt um húsið í bókunum Bygginganefndar en það getur einfaldlega skýrst af því, að hann hafi ekki leitað nógu vel. Ein helsta forsenda þeirra leitar byggist á því, að nöfn húsbyggjenda komi fram á einhverjum þeirra teikninga, sem finna má á kortavef bæjarins. Það er hins vegar ekki tilfellið hér. (Það þýðir nefnilega ekkert, að ætla að fletta upp húsum eftir götum og númerum í bókunum bygginganefndar frá miðri, eða fyrri hluta 20. aldar).

Norðurgata 54 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki. Bárujárn er á þaki. Á veggjum er steiningarmúr og lóðréttir póstar Suðurhluti framhliðar skagar eilítið til vesturs (fram) og á suðausturhorni eru yfirbyggðar svalir eða sólskáli.

Elsta heimildin af þeim 71 sem birtast, þegar „Norðurgötu 54“ er flett upp á timarit.is, er úr Verkamanninum, frá vorinu 1950. Þá var Svavar Björnsson  í hópi bátaeigenda, sem skoruðu á bæjarstjórn að sækja um undanþágu fyrir Eyjafjörð, frá banni við dragnótaveiðum. Svavar, sem fæddur var á Grenivík, starfaði sem vélstjóri og síðar í Slippnum. Hann bjó hér um áratugaskeið ásamt fjölskyldu sinni, en hann var kvæntur Emelíu Kristjánsdóttur. Margir hafa búið hér um lengri eða skemmri tíma, en húsið mun alla tíð hafa verið tvíbýli með einni íbúð á hvorri hæð. Það er að lítt breytt frá upphaflegri gerð og er í mjög góðri hirðu. Sólskáli á efri hæð var byggður árin 2003-04 eftir teikningum Svans Eiríkssonar (sjá tengil á teikningar efst í textanum).

Húsið er traustlegt og reisulegt og með vissum sérkennum, sem gefa því skemmtilegt yfirbragð. Þar ber helst að nefna steypt lóðrétt bönd yfir og á milli inngöngudyra á framhlið og smáan, kringlóttan gluggi með mjóum þverpóstum norðarlega á framhlið. Á lóðarmörkum er steyptur veggur með járnavirki, sem einnig er í góðri hirðu og myndar skemmtilega heild með húsinu. Hvort húsið njóti varðveislugildis er höfundi ókunnugt um, en ítrekar það álit sitt að  hin langa og heilsteypta röð steinhúsa í funkisstíl við Norðurgötu eigi skilið hátt varðveislugildi. (Og öll gatan eins og leggur sig ef út í það er farið...) Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.

Heimildir: Sjá tengla í texta.

 


Hús dagsins: Norðurgata 53

Skapti Áskelsson, löngum kenndur við Slippinn, reisti Norðurgötu 53 árið 1947P4220996 ásamt bróður sínum, Þóri. Lóðina fékk hann í apríl 1946. Skapti hafði áður fengið Norðurgötu 51, en skipti á henni við Ármann Magnússon. Á sama fundi Bygginganefndar og lóðaskipti Ármanns og Skapta voru afgreidd fékk Skapti einnig leyfi til húsbyggingar á lóðinni. Fékk hann að reisa hús úr steinsteypu en tekið fram að loft yfir efri hæð, þak og nokkur hluti af skilrúmum efri hæðar verði úr timbri. Húsið yrði 13x11m og bílskúr 5x6,87m. Teikningarnar gerði Halldór Jónsson.

Norðurgata 53 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki. Á austurhlið er útskot og þar eru svalir til suðurs. Veggir eru steinaðir og bárujárn á þaki og lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum. Áfastur bílskúr er á norðurhlið og eru á honum einskonar svalir, en svalir til suðurs eru áfastir útskotinu að austan.

Þeir bræður Skapti (1908-1993)og Þórir (1911-2000) Áskelssynir voru uppaldir á Skuggabjörgum í Dalsmynni og sá síðarnefndi fæddur þar. Skapti var fæddur að Austari-Krókum í Fnjóskadal. Bjuggu þeir hér allt til dánardægra ásamt fjölskyldum sínu, Skapti og Guðfinna Hallgrímsdóttir á efri hæð en Þórir og Dóra Ólafsdóttir á neðri hæð. Skapti Áskelsson, „Skapti í Slippnum“ er nafn sem flestir Akureyringar og nærsveitarmenn kannast við. Hann var um árabil forstjóri Slippstöðvarinnar og var einn af helstu máttarstólpum í atvinnulífi bæjarins á síðari hluta 20. aldar. Gegndi hann starfi framkvæmdastjóra Slippstöðvarinnar í tæpa tvo áratugi og undir hans forystu fór fram mikil uppbygging og afrek unnin í skipasmíðum. Eftir að hann hætti hjá Slippnum stofnaði hann byggingarvöruverslun, Skapta hf. sem hann starfrækti í Furuvöllum, skammt frá heimili sínu. Var sú verslun við lýði fram undir 1995. Árið 1985 kom út ævisaga Skapta, rituð af Braga Sigurjónssyni, og heitir hún einfaldlega Skapti í Slippnum.

 Þórir Áskelsson stundaði sjómennsku en vann síðar við skipasmíðar, hjá Skipasmíðastöð KEA og Slippstöðinni. Hann stundaði einnig seglasaumar, hafði sveinspróf í þeirri iðn og var með verkstæði hér í Norðurgötu. Dóra Ólafsdóttir, ekkja Þóris Áskelssonar er frá Sigtúnum á Kljáströnd í Grýtubakkahreppi starfaði lengst af sem talsímakona hjá Símanum. Bjó hún hér allt til ársins 2012 er hún fluttist á hjúkrunarheimili á Höfuðborgarsvæðinu. Dóra er elsti núlifandi Íslendingurinn, varð 109 ára þ. 6. júlí sl.

Norðurgata 53 er reisulegt og traustlegt hús og tekur sem hornhús, þátt í götumyndum tveggja gatna, Norðurgötu og Grenivalla. Það er líkast til næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð, að ytra byrði, en er engu að síður í mjög góðri hirðu  og til mikillar prýði og lóð einkar gróskumikil, smekkleg og snyrtileg. Líkt og fram hefur komið í síðustu færslum er höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um þetta svæði svo ekkert verður fullyrt hér um varðveislugildi hússins eða húsaraðarinnar. Það er hins vegar eindregið álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Þ.á.m. hin langa og heilsteypta röð steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. öld, norðan Eyrarvegar. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1051, 26. apríl 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Á gosslóðum

Fyrir liðlega mánuði, nánar tiltekið þann 31. maí sl. heimsótti ég gosstöðvarnar á Fagradalsfjalli. Fór ég eins nærri og frekast var unnt, en þann dag var orðið ófært á svokallaðan "Gónhól"- og nú mun sá staður sem ég heimsótti orðinn óaðgengilegur. Þetta er svo sannarlega spennandi að sjá og tíminn einn mun leiða í ljós hvað verður.

Hér er horft ofan í Nátthaga. Því miður þekki ég lítt til örnefna eða átta á þessu svæði svo lítið verður um slíkar upplýsingar- en myndirnar tala þeim mun meira sínu máli.

P5310992

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Áður en komið var upp á "útsýnishólinn" blasti hraunjaðarinn í Geldingadölum við. Ekki þótti mér ráðlegt að fara þar mjög nærri, þar sem undir jaðrinum er glóandi hraun. Því notfærði ég mér aðdráttarlinsu til þess að ná myndinni að neðan. Hraunveggurinn getur skriðið fram og fleiri tonn af 1200°C glundri ruðst yfir allt sem fyrir verður. En margir virtust þó kæra sig kollótta um það...

P5310999

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P5311000

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Og svo, þegar komið var upp á áðurnefndan "útsýnishól", sem skv. örnefnakorti virðist vera einn Merardalshnjúka, blasti þetta við:

P5311008 P5311009

Myndavélin var umsvifalaust dregin upp og hafðar hraðar hendur- því gígurinn gæti allt eins lagst í dvala eftir þessa "gusu". En annað átti eftir að koma á daginn. Um var að ræða "púlsa" sem endurtóku sig á u.þ.b. 5-10 mínútna fresti: 

Fyrst fór að flæða út úr kantinum...

P5311023

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P5311024Svo jókst flæðið og það byrjaði að vella í gígnum...

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Og svo kom ágætis strókur. Hljóðið var einna líkasP5311025t þotu í flugtaki.

Óviðjafnanlegt!

 

Hvers vegna ég segi frá þessu öllu í þátíð, enda þótt gosi sé hvergi nærri lokið, skýrist auðvitað af því, að virknin nú er gjörólík því sem gerðist þarna í maílok. 

 

 

 

 

 

 

 

(Að sjálfsögðu var kaffi og "meððí" með í för)cool.

P5311014

 


Hús dagsins: Norðurgata 52

Árið 1948 fékk Jón Guðjónsson leyfi til að reisa hús, skv. meðfylgjandi teikningu.P4220989 Ekki kom fram frekari útlistun eða lýsing á húsinu. Lóðina fékk Jón árið áður en fullbyggt var húsið 1949. (Til gamans má geta, að þegar þessi skrif birtast eru 74 ár upp á dag síðan Jón fékk lóðina, 4. júlí 1947). Á kortavef Akureyrar er ekki að finna upprunalegar teikningar, en þar má hins vegar sjá járnateikningar Ásgeirs Markússonar og raflagnateikningar Sig. Þorbjarnarsonar.

Norðurgata 52 er tvílyft steinhús á lágum grunni og með lágu valmaþaki. Þá er bílskúr áfastur á norðurhlið og er hann með flötu þaki. Hann mun eilítið yngri en húsið, byggður 1955.  Á framhlið er útskot og þar svalir til suðurs með sólskála. Veggir eru með fíngerðum steiningarmúr og bárujárn á þaki. Lóðréttir póstar, sumir með opnanlegum þverfögum eru í flestum gluggum en við norðausturhorn hússins, ofan inngöngudyra er nokkuð skrautlegur hringlaga gluggi, sem vikið verður að síðar í umfjöllun þessari.  

Margir hafa búið í húsinu um lengri og skemmri tíma en húsið hefur alla tíð verið tvíbýli, ein íbúð á hvorri hæð. Jón Guðjónsson bakari sem byggði húsið, bjó hér til dánardægurs, 1969, en hann var fæddur í Reykjavík. Dóttir hans og Ingibjargar Þórhannesdóttur (1902-1941) var Jóna Berta (1931-2017). Jóna Berta Jónsdóttir vann hin ýmsu störf, lengi vel á verksmiðjum Sambandsins en einnig á Sjúkrahúsinu. Hin síðari var hún e.t.v. þekktust fyrir að standa vaktina hjá Mæðrastyrksnefnd, en þar var hún formaður um árabil og vann þar, ásamt öðrum heiðurskonum, mjög ötult og óeigingjarnt starf. Hlaut hún árið 2013 Fálkaorðuna fyrir störf sín að mannúðarmálum.

Það sem kannski helst einkennir og prýðir húsið er kringlóttur gluggi nyrst á framhliðinni, skreyttur stjörnu sem svipar til Davíðsstjörnunnar. Skemmtilegt sérkenni og skraut á látlausu en glæstu húsi. Húsið er í mjög góðri hirðu og hefur greinilega fengið ýmsar viðgerðir á umliðnum árum. Það er að mestu leyti óbreytt frá upphaflegri gerð, en sólskáli á svölum mun frá því um 2003. Húsið og lóðin er í mjög góðri hirðu og frágangur allur hinn snyrtilegasti. Þar sem höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar eindregið álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Þ.á.m. hin langa og heilsteypta röð steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. öld, norðan Eyrarvegar. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1079, 4. júlí 1947. Fundur nr. 1092, 24. apríl 1948. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Norðurgata 51

Norðurgötu 51 reistu þeir Ármann og Sverrir Magnússynir P4220995árið 1946, eftir teikningum þess fyrrnefnda. Í bókunum Bygginganefndar eru ekki höfð fleiri orð um það, en að þeir  bræður fái lóðina og byggingaleyfi. Engin lýsing fylgir eða slíkt.

Húsið, sem stendur á suðvesturhorni gatnanna Norðurgötu og Grenivalla er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki, á lágum grunni. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum. Á norðanverðri framhlið (austurhlið) er útskot og svalir til suðurs áfast því.

Ármann Tryggvi og Sverrir Magnússynir voru Akureyringar, nánar tiltekið Oddeyringar, en árið 1920 eru þeir skráðir til heimilis að Strandgötu 9 og voru mögulega fæddir þar (?). Sverrir var fæddur 1916 en Ármann 1919. Ármann, sem starfaði sem húsasmiður var kvæntur Maríönnu Valtýsdóttur, frá Selárbakka á Árskógsströnd, og bjuggu þau hér um langt árabil. Ármann lést árið 1963 en Maríanna og börn bjuggu áfram hér eftir það. Sverrir Magnússon, sem kvæntur var Guðbjörgu Ingimundardóttur var blikksmiður. Hann lést árið 1984, þá búsettur hér. Guðbjörg Jóhanna Ingimundardóttir, sem fædd var og uppalin á Norðfirði, bjó einnig hér til æviloka, 1994. Húsið hefur alla tíð verið tvíbýli, ein íbúð á hvorri hæð. Þó stök herbergi og stofur hafi verið leigðar út á einhverjum tímapunktum hefur „formleg“ íbúðaskipting  ætíð verið sú sama. Þegar heimilisfanginu Norðurgötu 51 er flett upp á timarit.is koma upp um 60 niðurstöður, sem er ekkert óalgengt þegar í hlut eiga 75 ára gömul hús, sem alla tíð hafa verið íbúðarhús. Elsta heimildin er frá 1947, en hvorki Ármann né Maríanna, Sverrir né Guðbjörg eru skráð fyrir henni. En þar auglýsir Falur nokkur Friðjónsson hest og kú til sölu. Hefur hann líkast til leigt hjá þeim bræðrum á þeim tíma.

Norðurgata 51 er reisulegt og traustlegt hús í ágætu standi. Það er líkast til nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði. Það er hluti mikillar og heildstæðrar þyrpingar tveggja hæða steinhúsa frá miðri 20. öld, þyrpingar sem nær yfir mestalla Norðurgötu norðan Eyrarvegar- og raunar eru sams konar hús við göturnar Reynivelli í vestri, Grenivelli í norðri og Ránargötu í austri. Sem hornhús tekur húsið þátt í götumynd tveggja gatna, Norðurgötu og Grenivalla. Þar sem höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar eindregið álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Þ.á.m. hin langa og heilsteypta röð steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. Öld, norðan Eyrarvegar. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1054, 20. maí 1946. Fundur nr. 1055, 7. júní 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


12 ár af "Húsum dagsins"

25. júní 2009 minnist líklega drjúgur hluti hinnar vestrænu heimsbyggðar, sem dánardægurs Michael Jackson. Þau sorgartíðindi bárust um öldur ljósvakans og alnetsins um kvöldið, en á ellefta tímanum fyrir hádegi þann dag settist ég hins vegar niður og skrifaði inn fáeinar línur um Gömlu Prentsmiðjuna eða Steinhúsið við Norðurgötu 17. Hugðist ég "henda inn" þeim húsamyndum sem ég átti þá (um 80 stk.) ásamt einhverjum stuttum textum næstu vikurnar þar á eftir....

Ég held ég hafi rakið það sem eftir kom á hverju einasta ári síðan, svo ekki hef ég mörg orð um það. 

Á 12 ára afmæli "Húsa dagsins" er ég einmitt staddur við Norðurgötu, fjalla um yngsta og ysta hluta götunnar (þessi yngsti hluti er að mestu skipaður húsum á aldrinum 70-75 ára).

Ég íhuga reglulega hina ýmsa möguleika, t.d. að færa þetta á eitthvert annað vefsvæði eða gagnagrunn. Það sem kannski helst aftrar mér í því er einfaldlega gríðarlegt umfang, ætli það láti ekki nærri að pistlarnir séu á áttunda hundrað. Það yrði heljarinnar streð að afrita allt heila klabbið inn á annan vef. 

Þá hefur það oft verið nefnt, að ég þurfi endilega að koma þessu út á bók. Hvort ég er rétti maðurinn til þess, svona í ljósi þess, að ég er aðeins áhugamaður og hef enga fag- eða sérfræðiþekkingu á viðfangsefninu. En það myndi ekki standa á mér, að koma einhverjum hluta þessara skrifa hér á vefnum á bókarform. Þess má reyndar geta, að allar mínar greinar sem birtast hér sl. misseri eru skrifaðar með það í huga, að þær geti farið nánar óbreyttar á bók (Lesendur tekið eftir því, að sl. misseri hef ég ævinlega talað um mig, s.s. höfundur, sá sem þetta ritar o.s.frv.). Hins vegar er það gríðarmikið fyrirtæki sem krefst óheyrilegs fjármagns og vinnu; prentun á "húsabók" yrði afar kostnaðarsöm þar sem um yrði að ræða fleiri hundruð stórra litmynda. Raunar gerði ég tilraun vorið 2018, til þess að safna fyrir prentun og útgáfu bókar um elsta hluta Ytri Brekku á Karolina Fund en það gekk ekki sem skildi. 

En hvað sem því öllu líður hef ég svosem ákveðnar hugmyndir um hvernig ég myndi koma "Húsum dagsins" í bókarform, skapist tækifæri til þess. Sé ég fyrir mér sex til sjö bindi t.d. í þessari röð, eftir aldri og landfræðilegri legu hverfana:

Fyrsta bindi myndi fjalla um Innbæinn og stök býli þar í grennd.

Annað bindi myndi fjalla um eldri hluta Syðri Brekku (sunnan Þingvallastrætis, neðan Þórunnarstrætis auk gamalla býla á Brekku),

Þriðja bindi fjallaði um Ytri Brekku (yrði nokkurn vegin sama bók og ég hugðist gefa út 2018, nema nú hafa Helgamagrastræti, Holtagata, Hlíðargata og Lögbergsgata bæst við)

Fjórða bindi myndi fjalla um Miðbæjarsvæðið. Hugsanlega myndi Oddeyrin skiptast í tvö bindi, þar sem markalína yrði dregin t.d. um Eiðsvallagötu og þá myndi eitt bindið fjalla um gömlu býlin í Glerárþorpi. Svo væri auðvitað ein leiðin að pakka öllum þessum skrifum í einn doðrant, en sá yrði eitthvað yfir 1000 blaðsíður. En nóg af draumórum og pælingum um rithöfundarferil síðuhafa. 

Þannig mun þetta ágæta vefsvæði verða minn vettvangur til þessara skrifa hér eftir sem hingað til -síðustu 12 árin. Sem fyrr segir, er ég staddur í Norðurgötu í umfjölluninni þessar vikurnar. Reyndar stóð alltaf til, að láta staðar numið í umfjöllun um Oddeyrina við Eyrarveg. Taka þá aðeins fyrir syðri hluta Norðurgötu, svo og Ránargötu og Ægisgötu. En svo vindur það auðvitað upp á sig: Fyrst ég fjalla um alla Norðurgötu hlýtur það sama að eiga að ganga yfir Ránargötu og Ægisgötu. Og ekki er mér stætt á því að fjalla um þennan hluta Eyrarinnar án þess að taka fyrir Eyrarveg. Þá eru þó nokkur fyrrum býli í Glerárþorpi sem verðskulda lengri umfjöllun en það sem komið hefur hér. Því má ljóst vera, að enn er af nægu að taka hvað varðar "Hús dagsins" á næstu mánuðum. Sl. þriðjudag, 22. júní, var ég einmitt á ferð um Eyrarveg á Oddeyrinni og ljósmyndaði húsin þar. Þá ljósmyndaði ég ytri hluta Ránargötu og Ægisgötu í vor. Hér eru nokkrar svipmyndir. Þessi verða "Hús dagsins" einhvern tíma á næstu mánuðum. 

 P5010995 

 P5010985

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P5011006P5011014

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P6221004  P6221007


Hús dagsins: Norðurgata 50

Árið 1946 fékk Sigfús Grímsson „fimmtu lóð norðan við Kristján Jakobsson“P4220988 og byggingarleyfi. Hann fékk að reisa hús á tveimur hæðum byggt úr steinsteypu með valmaþaki, 11x11m að stærð með viðbyggðum bílskúr, 5,30x3,75m. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson.

Norðurgata 50 er tvílyft steinhús á lágum grunni og með lágu valmaþaki. Þá er bílskúr áfastur á norðurhlið og er hann með flötu þaki. Grunnflötur þess er nokkurn veginn ferningslaga að viðbættu útskoti norðanmegin á framhlið (vesturhlið). Sunnan úr framskoti eru svalir til suður og eru þar einnig inngöngudyr á neðri hæð. Steiningarmúr er á veggjum og var hann endurnýjaður fyrir ekki margt löngu og bárujárn er á þaki. Breiðir, skiptir krosspóstar eru í flestum gluggum.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, með einni íbúð á hvorri hæð en einnig voru stök herbergi og stofur leigðar út. Elstu heimildir sem timarit.is finnur um Norðurgötu eru frá 1947, þar sem Sigfús Grímsson auglýsir stofu og herbergi til leigu í húsinu og árið 1952 auglýsir hann neðri hæðina til sölu. Sigfús Grímsson (d. 1978) , sem reisti húsið, var fæddur árið 1893 í Tunguseli í Sauðanessókn, N-Þing. Hann var húsasmíðameistari en stundaði framan af ævi búskap á Ærlækjarseli en fluttist til Akureyrar um 1930 en 1931 byggði hann húsið Laxagötu 4. Sigfús fluttist á efri árum til Reykjavíkur. Margir hafa búið í húsinu um lengri eða skemmri tíma og á tímabili var KB bólstrun til húsa í Norðurgötu 50. Tvær íbúðir eru í húsinu og hefur svo verið frá upphafi, sem fyrr segir.

Norðurgata 50 er reisulegt og stæðilegt steinhús í mjög góðri hirðu. Það hefur nýlega fengið gagngerar endurbætur, m.a. nýjan múr og veggi og er sem nýtt að sjá. Allur er frágangur húss og lóðar, þ.m.t. steypts veggjar og járnavirkis á lóðarmörkum,  hinn snyrtilegasti og til fyrirmyndar. Húsið er þó næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði. Höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar eindregið álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Þ.á.m. hin langa og heilsteypta röð steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. öld, norðan Eyrarvegar. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1044, 8. mars 1946. Fundur nr. 1050, 12. apríl 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Norðurgata 49

Norðurgata 49, sem byggð er 1956-57 er eitt af yngstu húsum götunnar og eitt P4220992örfárra sem byggt er eftir 1950. (Raunar eru þó nokkur hús við götuna byggð fyrir 1900). Norðurgötu 49 reistu þeir Árni og Jóhann Böðvarssynir. Húsi þeirra er ekki lýst í bókun bygginganefndar þann 29. júní 1956 er þeim var veitt byggingarleyfið. Teikningarnar að húsinu gerði Mikael Jóhannsson.

Norðurgata 49 er tvílyft steinhús á lágum grunni og með valmaþaki. Á suðurhlið er útskot með áföstum svölum til vesturs en austast eru tröppur ásamt inngöngudyrum á efri hæð. Lóðréttir póstar eru í flestum gluggum, bárujárn á þaki og veggir múrsléttaðir.

Þeir bræður Árni og Jóhann Böðvarssynir voru fæddir á Akureyri en ólust upp á Melum sunnan Nausta. Árni hafði áður stundað búskap á Melum en einnig á Brunná. Þar byggði hann hús árið 1946, sem hann bjó í uns hann fluttist hingað árið 1957. Árni var einnig lengi vel verkstjóri hjá Vegagerðinni. Þegar „Norðurgötu 49“ er flett upp á timarit.is birtast, þegar þetta er ritað, 87 niðurstöður, langflestar frá 7. áratugnum en þá var Árni Böðvarsson um afgreiðslu og auglýsingar fyrir Íslending. Þeir bræður bjuggu ásamt fjölskyldum sínum í húsinu um árabil, Jóhann til æviloka, 1983.

Norðurgata 49 er reisulegt og glæst hús og í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði. Líkt og við flest nærliggjandi hús er steyptur veggur með járnavirki á lóðarmörkum. Þar sem höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar eindregið álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Þ.á.m. hin langa og heilsteypta röð steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. öld, norðan Eyrarvegar. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1248, 29. júní 1956. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • IMG_3045
  • P6171046
  • P6171045
  • IMG 3018
  • IMG 3024a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 118
  • Sl. sólarhring: 249
  • Sl. viku: 477
  • Frá upphafi: 446068

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 329
  • Gestir í dag: 92
  • IP-tölur í dag: 90

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband