Hús dagsins: Munkaþverárstræti 42

Páll Friðfinnsson byggingameistari frá Skriðu í Hörgárdal reisti Munkaþverárstræti P218074142  eftir eigin teikningum árið 1942. Þann 5. september 1941, úthlutaði byggingarnefnd Páli lóðina norðan við Óskar Gíslason [Munkaþverárstræti 40, sem yfirfærð var til Steindórs Steindórssonar vorið eftir] ásamt leyfi til byggingar húss skv. meðfylgjandi lýsing. Ekki fylgir þessi meðfylgjandi lýsing í fundargerð en Munkaþverárstræti 42 er einlyft steinsteypuhús með einhalla, aflíðandi þaki og á lágum kjallara, með mjóu útskoti að framan eftir hálfri hlið og inngöngudyr í kverkinni á milli og steyptar tröppur upp að þeim. Steyptur þakkantur  með tveimur stöllum auk þriðja og hæsta stalls á útskoti að framan.  Húsið er klætt steiningarmúr og dúkur eða pappi á þaki. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum og horngluggar í anda funkisstefnunar til suðurs og austurs. Páll Friðfinnsson var afar afkastamikill og laginn byggingameistari og á heiðurinn af mörgum húsum á Akureyri, bæði sem hönnuður og byggingameistari. Í næsta nágrenni þessa húss teiknaði hann m.a. Krabbastíg 4 (1936) og nokkur hús við Helgamagrastræti. Eitt fyrsta húsið sem hann byggði stóð skammt ofan við Gleráreyrar  og kallaðist Sólvellir. Það hús byggði hann 1933 en það var rifið á 10. áratug 20. aldar.

Munkaþverárstræti 42 er nokkuð dæmigert funkishús, einfalt og látlaust. Líklega má fullyrða, að það sé óbreytt frá upphafi, það er a.m.k. sagt í upprunalegri mynd í Húsakönnun 2015 en það er í engu að síður í góðri hirðu. Húsið hefur alla tíð verið einbýlishús og hafa margir átt þarna heima í lengri eða skemmri tíma, eins og gengur og gerist með ríflega 75 ára hús. Húsið er hluti hinnar löngu og heilsteyptu raðar funkishúsa við Munkaþverárstrætið. Myndin er tekin þ. 18. feb. 2018.

Þessi mynd er tekin við gatnamót Dalsbrautar og Borgarbrautar 20180911_170320og er horft upp Borgarbraut, spölkorn neðan við Háskólasvæðisins á Sólborg. Borgarbraut er stofnbraut utan úr Glerárþorpi og niður á Oddeyri. Trjálundurinn á miðri mynd stóð við Sólvelli, en það hús byggði Páll Friðfinnsson byggði 1933.  Stóð h.u.b. á þeim stað sem gatan liggur nú, en var þá langt utan þéttbýlis en þó í alfaraleið milli Glerárþorps og Akureyrar; gamla brúin er þarna beint neðan við. Enn stendur hluti snúrustaurs og sést glitta í hann á myndinni undan trjám vinstra megin. Myndin er tekin þ. 10. sept. 2018. 

 

 

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 883, 5. sept. 1941.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað er að frétta af næsta húsi, nr. 44, sem faðir minn byggði? Sá hét Guðmundur

Ólafsson byggingam., faðir Stefáns Reykjalín byggingam. m.m. Faðir okkar byggði líka

húsið nr. 29 við Brekkugötu, sem er í sama stíl og gamla íbúðarhúsið í Stóra-Holti í

fljótum, sem hann byggði, þegar hann var bóndi ár 1916-26.

Guðm. Ó. Guðmundsson (IP-tala skráð) 13.9.2018 kl. 18:20

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæll Guðmundur

og takk fyrir innlitið og skrifin.

Munkaþverárstræti 44 verður einmitt í næsta pistli (tek strætið í númeraröð). Hann birtist einhvern tíma á næstu dögum. Ég sá það í bókunum Bygginganefndar, að nefndin vildi ekki veita föður þínum byggingaleyfið í fysrtu þar eð lóðin væri of lítil (þú þekkir þessa sögu eflaust betur en ég). En hann fór og samdi við Þorstein Þorsteinsson í Brekkugötu 43 um að eftirláta litla ræmu af sinni lóð. Það virtist nefndin geta sætt sig við, og heimilaði bygginguna. 

Ég var einmitt að velta fyrir mér, hvort um sama Guðmund Ólafsson væri að ræða og byggði Brekkugötu 29. Það er einmitt í þessum burstastíl (kallað að mig minnir þjóðernisrómantísk steinsteypuklassík í Húsakönnun 2015) og mun, eftir því sem ég kemst næst, eina húsið í þeim stíl innan þéttbýlismarka Akureyrar. Svipuð hús má hins vegar finna víða til sveita.

Bestu kveðjur,

Arnór Bliki.

Arnór Bliki Hallmundsson, 13.9.2018 kl. 20:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 19
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 309
  • Frá upphafi: 420184

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 222
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband