23.10.2022 | 10:49
Hús dagsins: Lækjargata 2a; Frökenarhús
Í miðju hinnar skemmtilegu húsaþrenningar á horni Aðalstrætis og Lækjargötu er svokallað Frökenarhús. Það telst standa nr. 2a við Lækjargötu enda þótt það standi, strangt til tekið, við Aðalstræti. Samkvæmt Fasteignaskrá er skráð byggingarár Lækjargötu 2a, 1824. Ef það er rétt, er Lækjargata 2a annað elsta hús Akureyrar, hafandi rúman áratug framyfir Gamla Spítalann (1835). Hins vegar liggja fyrir nokkuð óyggjandi heimildir fyrir því, að húsið sé ekki byggt fyrr en 1839-40. Þar kemur við sögu enginn annar en amtmaðurinn og skáldið valinkunna Bjarni Thorarensen. Við könnun á uppruna húsa eru fundargerðarbækur bygginganefndar með áreiðanlegustu og mest afgerandi heimildunum sem bjóðast. En Bygginganefnd tók ekki til starfa fyrr en 1857, þannig að hús sem byggð eru fyrir þann tíma rötuðu ekki í bókanir hennar.
Lækjargötu 2a byggði Margrét Thorarensen, dóttir Stefáns amtmanns Thorarensen á Möðruvallaklaustri. Að öllum líkindum er húsið annað húsið í Akureyrarsögunni sem kona byggir, en nokkrum árum fyrr, 1834, hafði Vilhelmína nokkur Lever byggt hús þar sem nú er Hafnarstræti 23. Þess má geta, að þessar tvær heiðurskonur, sem fyrstar kvenna byggðu hús á Akureyri, voru nánast jafnöldrur, Vilhelmína fædd 1802 en Margrét 1803. Þess má líka geta, að þær létust sama ár, 1879.
Lækjargata 2a er einlyft timburhús með háu risi og tveimur smáum kvistum á framhlið. Á bakhlið er einn kvistur og viðbygging, einlyft með einhalla þaki og mun hún að hluta til grjóthlaðin. Á veggjum er timburklæðning, lóðrétt borð með listum yfir samskeytum, svonefnd listasúð, og bárujárn á þaki. Grunnflötur hússins er um 7,54x5,75m og bakbygging um 3x3m (ónákvæmt). Vesturhlið er örlítið lengri en húsið og Aðalstræti 6, sem áfast er húsinu að norðan, liggja ekki alveg hornrétt hvort að öðru.
Það var í febrúar árið 1840 sem Bjarni Thorarensen skrifar í bréfi til Gríms Jónssonar að Margrét frænka hans sé að byggja sér hús. Og einnig hafa varðveist reikningar frá Gudmannsverslun sem staðfesta, að Margrét tók út efni til efni til húsbyggingar á svipuðum tíma og timbur til girðingar við nýtt hús í júní sama ár. (Sbr. Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012) Það má því nokkurn veginn slá því föstu að Margrét hóf byggingu þessa húss sumarið 1839 og vann að byggingu þess fram á árið 1840. Árið 1845 er Margrét skráð í Manntali sem fröken og jarðeigandi til heimilis að Akureyri öðrunafni Eyjafjarðar höndlunar eður verðslunarstaður og virðist hús hennar teljast númer 43 í verslunarstaðnum. En Margrét giftist aldrei og var ætíð nefnd fröken, meira að segja titluð sem slík í Manntölum og húsið nefnt Frökenarhús.
Sem fyrr segir, lést Margrét Thorarensen árið 1879 og skömmu síðar eignaðist Stephan Stephansson húsið. Hann reisti árið 1894 viðbyggingu sunnan við húsið, sem síðar varð séreign og er nú Lækjargata 2. Frökenarhús varð þá Lækjargata 2a og er svo enn. Stephan Stephansson bjó hér til æviloka, 1919 og ekkja hans, Anna G. Melstad, orðlögð fyrir gestrisni og rausnarskap, flutti héðan ári síðar. Eignaðist þá Eggert Stefánsson símritari húsið og sama ár var húsið virt til brunabóta: Íbúðarhús einlyft og tvílyft, einlyfti parturinn með háu risi og tvílyfti parturinn með láu [svo] risi Við framhlið voru 3 stofur, við bakhlið var ein stofa, eldhús og forstofa. Á lofti voru fimm íbúðarherbergi, tvær geymslur og lítill skúr við bakhlið. Tveir skorsteinar voru á húsinu. Húsið var þá sagt timburklætt með steinplötum og þak úr timbri og járnvarin. Athuga ber, að þessi lýsing á við bæði húsin, Lækjargötu 2 og 2a. Það var hins vegar á fimmta áratug síðustu aldar sem húsunum var skipt í tvo eignarhluta þegar Kristinn Jónsson keypti húsið af Pétri Guðmundssyni. Hafa síðan margir átt og búið í Frökenarhúsi, sem lengst af hefur verið einbýlishús.
Húsið var frá upphafi timburklætt, líkt og tíðkaðist lengst af. Árið 1956 var húsið hins vegar múrhúðað eða forskalað og gluggum breytt og var það svo til ársins 2021. Fóru þá fram gagngerar endurbætur á húsinu, eftir teikningum Róberts Svavarssonar. Miðuðu þær að því, að færa húsið sem næst upprunalegu útliti, múrhúð tekin af og lóðrétt timburborð sett í staðinn og lóðréttum póstum skipt út fyrir sexrúðuglugga. Í stað stallað bárustáls kom bárujárn. Skemmst er frá því að segja, að þær endurbætur hafa heppnast stórkostlega og er nú mikill sómi af þessu þriðja elsta húsi bæjarins. Rétt að nefna, að húsið var þó ekki til neinnar óprýði enda mjög vel við haldið.
Frökenarhús er að sjálfsögðu friðlýst skv. aldursákvæði Þjóðminjalaga og tilheyrir auk þess einni elstu húsasamstæðu bæjarins. Í Húsakönnun 2012 segir á einum stað: Húsin á horni Aðalstrætis og Lækjargötu mynda eina elstu húsaþyrpingu á Akureyri. Þau eru hluti af sögulegum kjarna gömlu byggðarinnar í hjarta gömlu Akureyri. Elsta húsið, Frökenarhús, Lækjargata 2A er byggt um 1840 og og er friðað nú þegar en það er órjúfanlegur hluti heildarinnar sem myndar þessa þyrpingu og því ætti friðunin að ná til hennar allrar (Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012: 19). Skemmst er frá því að segja, að nú eru öll húsin í þessari torfu aldursfriðuð en hin svokallaða 100 ára regla gekk í gildi skömmu eftir að umrædd húsakönnun var gerð. Myndirnar eru teknar 19. Desember 2015 og 9. ágúst 2022.
Heimildir:
Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012.â¯Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinniâ¯http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf
Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík. Örn og Örlygur
Ýmis manntöl og gögn á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,⯠greinar á timarit.is; sjá tengla í⯠texta.
Bloggar | Breytt 28.10.2022 kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2022 | 00:10
Hús dagsins: Lækjargata 2
Norðanmegin á horni Lækjargötu og Aðalstræti er að finna einhverja áhugaverðustu og elstu húsasamstæðu Akureyrar. Um er að ræða Aðalstræti 6, Lækjargötu 2a og Lækjargötu 2. Yst er Aðalstræti 6, sem byggt er 1850, þá Lækjargata 2a, sem mun þriðja eða fjórða elsta hús bæjarins. Heimildum ber raunar ekki saman um byggingarár, en nokkuð víst þykir, að það sé byggt 1840. Skráð byggingarár þess er hins vegar 1824, og sé það rétt, er húsið það annað elsta á Akureyri. Yngst og syðst, á horni Aðalstrætis er hins vegar Lækjargata 2. Það hús er byggt árið 1894 sem viðbygging við téða Lækjargötu 2. Eldri húsin tvö voru stakstæð fyrstu árin en tengdust með viðbyggingu árið 1862. Þessa ágæta, ef ekki heilögu, þrenning verður tekin fyrir í næstu tveimur pistlum frá suðri til norðurs og hefjum við leikinn við Lækjargötu 2. Svo vill til, að framan af voru núverandi Lækjargata 2 og 2a sama eignin, sem getur ruglað einhverja í ríminu, en hér er yfirleitt talað um núverandi Lækjargötu 2a (áður hluta nr. 2) sem Frökenarhús.
Það var í apríl árið 1894 að bygginganefnd bæjarins kom saman á fundi til þess, eftir beiðni Stephans Stephansen, að mæla fyrir viðbyggingu við hús hans, Lækjargötu 2: Til suðurs 8 ½ al. á lengd og 11 ál. á breidd. Austurhliðin á þessari nýbyggingu nær 1 ¼ ál. frá grundvelli hússins, í beina línu við gestgjafa Jensens hús[...]. (Bygg.nefnd. Ak. 1894:102) M.ö.o. byggingin yrði u.þ.b. 5,4x6,9m að grunnfleti og austurhlið skagaði um 80cm út frá hlið eldra hússins. Þá setti bygginganefnd ýmis skilyrði varðandi hæð rissins og gluggasetningu suðurhliðar og nefndi, að ef hækka þyrfti grindina, mætti Stephan lækka risið sem því næmi.
Lækjargata 2 er tvílyft timburhús með lágu, aflíðandi risi, á lágum steingrunni. Það er klætt panel eða vatnsklæðningu á veggjum og bárujárni á þaki og krosspóstar eru í gluggum. Grunnflötur mun um 5,4x6,9m. En í upphafi var húsið, líkt og Lækjargata 2a, Frökenarhús, einlyft með háu risi og sneri stafn til suðurs, þ.e. að Lækjargötu. Á myndum má sjá, að tveir gluggar hafa verið á framhlið, pappi á þaki og vatnsklæðning á veggjum. Á suðurstafni voru inngöngudyr og gluggi fyrir miðju efri hæðar og annar smærri undir súð. Núverandi lag fékk húsið árið 1902 er Stephan endurbyggði það eftir brunann mikla í desember 1901. Hafði þá einkum rishæðin skemmst, svo hann reif risið og byggði aðra hæð á húsið og sneri því á þann hátt, að með breytingunni sneru stafnar hússins austur-vestur.
Stephan Stephansson (1843-1919) sem reisti húsið, hafði eignast Lækjargötu 2, svonefnt Frökenarhús, árið 1883. Stephan, sem var frá Höfðabrekku í V-Skaftafellssýslu, var jafnan titlaður umboðsmaður en hann var umboðsmaður klausturjarða Möðruvalla og var auk þess bankagjaldkeri. Kona hans, Anna Guðrún Pálsdóttir Melstad, sem tók upp ættarnafn Stephans, Stephensen. Hún var sagnfræðingur og fræðikona, sem m.a. tók að sér að kenna ungum stúlkum m.a. tungumál, hannyrðir og hljóðfæraleik. Í tímaritinu Hlín frá 1927 má finna sérlega ítarlega minningargrein um Önnu Stephensen eftir Kristínu Matthíasson og rétt að grípa aðeins niður í henni, en hún lýsir því fyrst þegar hún kom að Lækjargötu 2 Akureyrar haustið 1902: í nánd við [Hótel Akureyri, Aðalstræti 12] það stóð einkennilega lagað hús, sem auðsjáanlega ekki hafði farið varhluta af brunanum. Helmingur þess var með háu risi, lágt undir þakskegg og gluggarnir með smáum rúðum. En við suðurendann hafði verið bygt [svo] með alt [svo] öðru sniði tvílyft, með flötu þaki og stórar rúður gluggunum. Ribsberjarunnar uxu upp við húsið og teygðu sig upp með veggnum báðum megin við gluggana. Þrátt fyrir ósamræmið í byggingarlaginu, var húsið aðlaðandi og heimilislegt. Það fylgir einnig sögunni, að heimilið ilmaði af nellikum og rósum í gluggum og veggina prýddu hinar ýmsu myndir af ættingjum. Þá segir Kristín: Viðkunnanlegt með afbrigðum var að vera gestur hjá frú Stephensen. Auðsjeð [svo] var að henni var unun að sjá ný andlit, kynnast nýjum hugsunum og heyra nýjungar annarstaðar. Viðræður hennar báru vott um mikinn fróðleik og víðsýn. Ræddi hún jafnan hin ýmsu málefni við gesti sína og skemmti þeim með hljóðfæraspili, söng og góðgæti: En þegar fór að rökkva var kveikt á stórum lampa með rauðu glasi. Varpaði ljósið hlýjum bjarma á ljósbláa veggina en frú St.[ephensen ] tók fram gítar sinn og ljek[svo] undir söng sínum. Voru það gömul lög eftir Mozart, Weber og Boieldieu. Inni í borðstofunni, sem lá þrepi neðar, glampaði á messingketil, kínverska bolla og rauð begóníublóm. Frú Stephensen hugsaði líka um líkamlegar þarfir gesta sinna, og þegar söngnum var lokið, sótti hún allskonar góðgæti inn í hurðhvelfdan hornskáp og bar fram. (Kristín Matthíasson 1927: 81-84). Stephan Stephensen bjó hér til dánardægurs 1919 en Anna Pálsdóttir Melstad Stephensen fluttist til Reykjavíkur árið 1920. Hún lést árið 1922, tæplega 77 ára gömul.
Árið 1920 er eigandi hússins Eggert Stefánsson símritari frá Þóroddsstöðum í Ljósavatnshreppi. Svo virðist sem höfundi hafi orðið á örlítil yfirsjón við lestur manntala við skrifin um Lækjargötu 2b, þar sem hann telur Eggert og Yrsu Nielsen búsett í Lækjargötu 2b. Staðreyndin er sú, að þar bjó árið Karl Magnússon, sem breytti því húsi úr hlöðu í íbúðarhús. Árið 1920 eru raunar tvö hús skráð sem Lækjargata 2, Karl skráður í öðru og Eggert í hinu. Það er einmitt 16. júlí 1920 sem Lækjargata 2 er virt til brunabóta. Þá er það sagt Íbúðarhús einlyft og tvílyft, einlyfti parturinn með háu risi og tvílyfti parturinn með láu [svo] risi Við framhlið voru 3 stofur, við bakhlið var ein stofa, eldhús og forstofa. Á lofti voru fimm íbúðarherbergi, tvær geymslur og lítill skúr við bakhlið. Tveir skorsteinar voru á húsinu. Húsið var þá sagt timburklætt með steinplötum og þak úr timbri og járnvarin. Umræddar steinplötur munu hafa verið steinskífur, sem prýddu þó nokkrum Akureyrsk timburhúsum framan af 20. öld en er nú aðeins á tveimur húsum á Oddeyri.
Um 1940 eignast Pétur Guðmundsson húsið og selur Kristni Guðmundssyni, Frökenarhús. Komst þá núverandi íbúðaskipan á, þ.e. Frökenarhúsið varð Lækjargata 2a. Sjálfsagt hafa fá hús á aldur við Lækjargötu 2, sem er 128 ára þegar þetta er ritað, skipt jafn sjaldan um eigendur og íbúa. Árið 1948 eignuðust húsið þau Aðalheiður Albertsdóttir og Sigtryggur Jónsson og skemmst er frá því að segja, að sonur þeirra, Jóhann býr hér enn. Árið 2016 tók Kristín Aðalsteinsdóttir viðtal við hann í bókinni og segir hann m.a. frá því, að hér hafi þau verið 13 þegar mest var, einn vaskur og engin þægindi. Húsið var klætt steinskífunni þegar hann flutti hingað ásamt foreldrum sínum, síðar var þeim skífuklæðningunni út fyrir asbest og að lokum kom núverandi vatnsklæðning. Jóhann segir húsið hlýtt og vandað. (sbr. Kristín Aðalsteinsdóttir 2017: 133) Í lok árs 1965 kviknaði í húsinu og skemmdist það töluvert en Jóhann Sigtryggsson og hans fólk endurbyggði það. Þannig hefur tvisvar kviknað í húsinu, því sem fyrr segir skemmdist það í bæjarbrunanum 1901.
Lækjargata 2 er í senn látlaust og stórglæst hús. Það er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði, hvort heldur sem það er skoðað eitt og sér, eða í samhengi við næstu hús í þessari áhugaverðu og einni elstu húsasamstæðu bæjarins. Í Húsakönnun 2012 er það metið með hátt varðveislugildi, einstakt hús og hluti einstakrar götumyndar, auk þess sem húsið er friðað vegna aldurs. Meðfylgjandi myndir eru teknar 9. ágúst 2022 og 14. nóv. 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 102, 13. apríl 1894. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Elstu fundargerðabækur Bygginganefndar eru aðgengilegar á vef Héraðsskjalasafnsins Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Brunabótamat 1917-22. Varðveitt á Héraðsskjalafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1917-1922 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf
Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Húsin og Fólkið. (Viðtal við Jóhann Sigtryggsson). Akureyri: Höfundur.
Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík. Örn og Örlygur
Ýmis manntöl og gögn á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.10.2022 | 22:59
Svívirðilegt athæfi
Svívirðilegt athæfi og ekkert minna en tilræði. Ég veit ekki hvernig þetta bar að, en af frásögninni að dæma virðist þetta hafa verið einhver undirliggjandi pirringur gerenda, sbr. frásögn Maríu Agnar: "Ég er ekki búin að átta mig á því hvað fólk getur hatað hjólreiðafólk mikið". Því miður virðist vera til örsmár hópur fólks sem telur hjólreiðafólk þriðja flokks borgara eða allt að því réttdræpt: Af því að hjólreiðafólk er "alltaf fyrir" og "fer ekki eftir reglum" séu svona djöfuls ofbeldisverk allt að því réttlætanleg. Til allrar lukku er það mest "í kjaftinum" eða kannski öllu heldur á lyklaborðum þessa smáa hóps. Þetta kom nokkuð berlega í ljós fyrr í sumar, þegar ekið var á hjólreiðamann á Laugavegi. Það var nánast ótrúlegt að horfa upp á það á athugasemdakerfum, að fjölmargir tóku beinlínis upp hanskann fyrir ódæðismanninn og að hjólreiðamaðurinn, eða hjólreiðamenn yfirhöfuð gætu bara sjálfum sér um kennt fyrir svona lagað. Af því að hjólreiðafólk "tefur umferðina", er "alltaf fyrir" og "fer ekki eftir umferðarreglum" veldur ótta og óþægindum hjá gangandi vegfarendum. Alhæfingar-rugl og þrugl- þó vissulega séu til dæmi um þetta allt saman. Sem betur fer virðast ekki hafa verið borið á sömu viðbrögðum við þessa frétt. Og af því nú haustar og styttist og veturinn og þá hljómar reglulega söngurinn um að "hjól eiga að vera inni á veturna" og "það á bara að hjóla á sumrin" og að það sé peningasóun að ryðja hjólastíga. Auðvitað má fólk hafa sínar skoðanir á hjólreiðafólki og hjólreiðum sem samgöngumáta. En allir hljóta að vera sammála um það, að svona lagað er ólíðandi- eins og allt annað ofbeldi!
![]() |
Lenti næstum undir bíl eftir árás |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.9.2022 | 17:27
Hús dagsins: Lækjargata 4
Þeir sem kynnt hafa sér sögur Jóns Sveinssonar, Nonna, eða farið í sögugöngur Minjasafnsins um Nonnaslóð kannast við söguna um það, þegar Nonni, þá 12 ára, hugleiddi sína örlagaríkustu og stærstu ákvörðun á lífsleiðinni á göngu um brekkubrúninar ofan Fjörunnar. Hann mun hafa sest á stóran stein og hugleitt tilboð um inngöngu í kaþólskan skóla í Frakklandi. Virti hann fyrir sér Eyjafjörðinn á fögru sumarkvöldi og minnist m.a. skipa og báta á firðinum. Á þessari leið sinni gæti hann hafa séð húsaþyrpinguna neðst í Búðargilinu og þar á meðal nýbyggða hlöðu (eða á byggingarstigi) ofan við hús Stephans Thorarensen. Löngu síðar var þeirri hlöðu breytt í verslun og síðar íbúðarhús og fékk númerið 4 við Lækjargötu.
Það var sumarið 1870 sem Nonni fór í þennan sögufræga göngutúr um Naustahöfða. Fyrr um vorið, 30. apríl, hafði Stephan Thorarensen sýslumaður, sem búsettur var í Aðalstræti 6 (götunafn og númer kom síðar) fengið að setja heyhlöðu á balann vestan við íbúðarhús hans og bygginganefnd ekki séð neitt því til fyrirstöðu. Ekki fylgja neinar lýsingar en hlaðan var byggð úr timbri, vegghæð samsvarandi einni hæð og með háu risi. Hugtakið einlyft á nefnilega tæplega við um hlöðu, sem er einn geymur, því til þess að hús sé einlyft þarf væntanlega að vera milliloft.
Lækjargata 4 er tvílyft timburhús með á lágum steingrunni og með háu risi. Skv. Húsakönnun 2012 er húsið bindingsverkshús (Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012:124), þ.e. grindin full af steini eða steypu. Á risi eru smáir kvistir fyrir miðju og á vesturstafni er steinsteypt viðbygging, tvílyft með lágu risi. Veggir eru klæddir panel eða vatnsklæðningu, sexrúðupóstar í gluggum og bárujárn á þaki. Að austan er áfast húsið Lækjargata 2b. Grunnflötur hússins mælist 6,28x9,61m skv. teikningum Þrastar Sigurðssonar en viðbygging mun 4,59x1,9m að sunnan en 4,59x2,51m að vestan. M.ö.o. byggingin er breiðari að norðan og er grunnflötur því ekki hornréttur. Fylgir viðbygging þannig stefnu Spítalavegar, sem liggur þarna á milli stafna húsa nr. 4 og 6 við Lækjargötu.
Velti lesendur því fyrir sér, hvort Stephan Thorarensen, sem byggði Lækjargötu 4 og Þórður Thorarensen, sem byggði næsta hús ofan við, Lækjargötu 6, hafi verið feðgar upplýsist hér, að það voru þeir ekki. Börn Stephans, eða Stefáns Thorarensen og hinnar dönsku Oliviu Juby, hétu Sólveig, Oddur, Jóhann og Emma. Stephan var fæddur árið 1825 að Nesi við Seltjörn. Lögfræði nam hann í Danmörku og tók við embætti sýslumanns Eyjafjarðarsýslu árið 1859. Gegndi hann því í röska þrjá áratugi eða til 1891. Þegar Akureyri fékk kaupstaðarréttindi árið 1862 varð hann einnig bæjarfógeti. Stephan tók m.a. þátt í stofnun Gránufélagsins og sparisjóðs, sem og fyrsta leikfélags bæjarins. Um Stephan, sem lést í nóvember 1901, segir m.a. í minningargrein Skapta Jósepssonar í Austra: Sáttfús maður var Stefán sýslumaður fyrir sjálfan sig og aðra, og eru ótalin þau mál, er hann sætti milli sýslubúa sinna, til friðar og einingar fyrir héraðs- og bæjarbúa. Eptir því sem dómar hans stóðu sig vel að öllum jafnaði fyrir hæstarétti, þá hefir Stefán sýslumaður hlotið að vera góður lagamaður, enda mun enginn héraðsbúa hans hafa nokkru sinni ætlað honum, að hann hafi dæmt eptir öðru en sanni og rétti. Þá orti Matthías Jochumsson langan minningarbálk eftir Stephan, sem hófst á erindunum:
Hví birtir hjá blinds manns rúmi?
hví brosir hér skrúð og rós?
Því hann er nú burt úr húmi,
sem hrópaði: Meira ljós!
En hjá oss er hryggð í ranni,
og hnípin er bæjarþjóð,
því föður og fyrirmanni
vér flytjum vor hinnstu ljóð.
Stephan seldi hús sitt, Aðalstræti 6, um svipað leyti og hann byggði hlöðuna, sem nú er Lækjargata 4. Væntanlega hefur hlaðan fylgt með í kaupunum en engu að síður er það svo, að þegar lóðin Lækjargata 6 var útmæld fimmtán árum síðar, miðaðist hún við hlöðu sýslumannsins. E.t.v. hefur hlaðan verið kölluð því nafni, enda þótt hún hafi löngu skipt um eiganda. Sá sem keypti af Stephan var danski bakarinn Hendrik Schiöth. Hann breytti hlöðunni í sölubúð og hefur þá væntanlega sett inngöngudyr að Lækjargötu og gluggasetningu, sem þjónaði sem búðargluggar. Þ.e. tveir samliggjandi gluggar hægra megin dyra og aðrir tveir með mjög stuttu bili vinstra megin. Síðar tók Carl, sonur Hendriks, við eignunum.
Árið 1916 var húsið virt til brunabóta og þá lýst á eftirfarandi hátt: Skrifstofu- og vörugeymslubygging, einlyft á kjallara, með háu risi. Á gólfi er ein skrifstofa og tvö vörugeymsluherbergi. Á lofti ósundurþiljað geymslupláss fyrir vörulager. Kjallari tvíhólfaður notaður til geymslu. [...] Við vesturenda hússins er skúr" (Brunabótafjelag Íslands 1916:102). Enn fremur kemur fram, að húsið sé 9,2x6,3m að grunnfleti, 5,2m hátt og á því átta gluggar. Veggir eru timburklæddir og þak járnklætt.
Árið 1920 fékk Carl Schiöth leyfi til þess að byggja aðra hæð ofan á húsið. Var honum leyft það, svo fremi sem byggingin stæðist brunamálalög. Þá fékk hann leyfi til að reisa steinsteypta viðbyggingu, inngöngu og stigabyggingu, á vesturstafn hússins árið 1923. Var leyfið veitt með því skilyrði, að byggingin næði ekki meira en 3,5 álnir frá suðvesturhorni. Af Manntölum ráða, að ekki hafi verið flutt inn í húsið fyrr en 1924, en þá eru búsett í húsinu téður Carl F. og Jónína Schiöth, fjögur börn þeirra og fósturdóttir og vinnukona. Þann 17. mars 1927 auglýsir Carl Schiöth húsið til sölu og ekki nóg með það, heldur fylgir nákvæm lýsing á herbergjum og búnaði hússins ásamt því að hann rekur framkvæmdir sínar við húsið síðustu ár á undan. Líklega var um að ræða eina ítarlegustu fasteignaauglýsingu sem birst hafði á síðum blaða hérlendis. Raunar er hún á pari við, eða jafnvel ítarlegri, en eignalýsingar sem birtast í auglýsingum. Carl segir Hús þetta er að mestu nýbygt, og með öllum nútíma þægindum. Ennfremur að það sé [...]raflýst hátt og lágt, og í göngum og við tröppur er tvöföld leiðsla svo hægt er að kveikja og slökkva á víxl, hvert sem maður fer upp eða ofan, allaleið frá götudyrum og upp á háaloft. Þá segir hann Breyting sú, er eg gerði á húsinu, sem var vörulagerhus áður, er í því innifólginn að eg setti í húsið miðstöð, vatnsleiðslu, rafleiðslu, skorstein og bygði vestan við húsið steinhús, með kjallara og tvær hæðir þar ofan á, þiljaði sundur húsið hátt og lágt til íbúðar, þar, sem það áður að mestu leiti voru stórir salir, vatnslaust, ljóslaust og eldstæðislaust (Carl Schiöth, Íslendingur 17. mars 1927). Svo fátt eitt sé nefnt. Húsið bauð hann til sölu á 16-18 þúsund og taldi ódýrt, sem það vissulega var, því breytingarnar kostuðu hann 17-19 þúsund og húsið var virt á 29.400 kr.
Hver var svo heppinn, að tryggja sér þetta nýuppgerða glæsihýsi, á slíkum kostakjörum? Það var Jakob Kristinsson sjómaður. Bjuggu hann og Filippía Valdemarsdóttir og börn þeirra hér um langt árabil. Í þeirra tíð hér, þann 13. febrúar 1936, kom upp eldur í húsinu og mun tæpt hafa staðið, að það brynni til grunna. Barðist allt slökkvilið bæjarins, 40 manns, við eldinn í þrjá tíma (Jón Hjaltason 2016: 100). Kom fram í mjög stuttri frétt Íslendings að húsið hafi brunnið allmikið að innan áður en tókst að slökkva. Engum sögum virðist fara af afdrifum fólks í bruna þessum en ljóst að engan sakaði. Jakob og Filippía byggðu húsið upp aftur og munu hafa búið hér allt til ársins 1967 og ári síðar fluttust á Hrafnistu. Hafa síðan margir átt og búið í húsinu um lengri og skemmri tíma og lengst af voru tvær íbúðir í húsinu.
Húsinu hefur verið mjög vel við haldið síðustu áratugi, klæðningar að utan, gluggar og þak er allt tiltölulega nýlegt. Árin 2012-16 fóru fram gagngerar endurbætur á húsinu að innan jafnt sem utan, eftir teikningum Þrastar Sigurðssonar. Á þeim teikningum var gert ráð fyrir stórum miðjukvistum. Er húsið nú allt í fyrirtaks hirðu og frágangur allur hinn snyrtilegasti. Er það til mikillar prýði og svo sannarlega eitt af mörgum perlum Innbæjarins. Það er hluti einnar elstu og merkustu húsaþyrpingar bæjarins neðst í Búðargili og hefur þannig óskorað varðveislugildi og er vitaskuld aldursfriðað. Húsið myndar, ásamt næstu húsum afar skemmtilegar heildir, stafn Lækjargötu 2b gægist framfyrir vesturgafl hússins. Og þessir tveir vinalegu öldungar, nr. 4 og 6 við Lækjargötu má segja, að myndi einhvers konar hlið inn í Innbæinn þar sem Spítalavegurinn greinist frá götunni um örmjótt sundið milli gafla þeirra. Ein íbúð er í Lækjargötu 4. Myndirnar eru teknar 17. júní 2021 og 19. mars 2020.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 38, 30. apríl 1870. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 472, 12. Mars 1920. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 537, 2. Júní 1923. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Elstu fundargerðabækur Bygginganefndar eru aðgengilegar á vef Héraðsskjalasafnsins.
Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Fasteignamat 1918. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf
Jón Hjaltason. 2016. Bærinn brennur. Akureyri: Völuspá útgáfa
Ýmis manntöl og gögn á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
Bloggar | Breytt 4.10.2022 kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2022 | 17:17
100 ár frá rafvæðingu Akureyrar
30. september 1922 var svo sannarlega stór dagur í sögu Akureyrar en þá birti mjög til og það í bókstaflegri merkingu; þá var nefnilega í fyrsta skipti hleypt á bæinn rafmagni frá rafveitu, nánar tiltekið Rafveitu Akureyrar. Á einstaka stöðum höfðu fram að því verið rafstöðvar en þarna var tekin í notkun rafveita til almennings.
Þeim sem rýnir í samtímaheimildir t.d. á timarit.is kynni að þykja lítið fjallað um þennan stórviðburð; hefði þetta ekki á vera forsíðufrétt í bæjarblöðunum. Ef við rýnum t.d. í Dag, Íslending og Verkamanninn eru þessi frétt aðeins ein af stuttum fréttum á meginopnum blaðanna, í sama dálki og fréttir af bátum, landbúnað og ekkert endilega efst á listanum. Tilkynningar um skólasetningar, hjúskap og skipaferðir eru t.d. ofar á blaði í tveimur blaðanna. Þetta kann okkur, sem ekki geta hugsað okkur daglegt líf án rafmagns, kannski einkennilegt; þvílík bylting og straumhvörf sem þetta hljóta að hafa verið. En það er nú ekki eins og bæjarbúar fyrir einni öld hafi beðið í ofvæni eftir því að stinga sjónvörpum, hljómflutningstækjum, kaffivélum, tölvum eða hárþurrkum í samband, eða að hlaða síma eða spjaldtölvur. En auðvitað var mikil bylting fólgin í því, að geta kveikt rafljós.
Það dró líka e.t.v. úr hátíðleika þessa merku tímamóta, að ekki nutu allir rafljósa þetta fyrsta kvöld og einhver vandræði höfðu skapast varðandi ljósaperur og íhluti í rafbúnað. Það vill nefnilega svo til, að á forsíðu Dags tæpum tveimur vikum síðar er frétt um rafveituna, enn viðameiri en fréttirnar af fyrstu straumhleypingunni. Svo virðist sem röð mistaka og misskilnings hafi leitt til þess, að afleitir kaupsamningar hafi verið gerðir við birgja hinnar nýju rafveitu, íhlutir, búnaður og mælar hafi verið of fáir, af röngum gerðum og ekki borist í tæka tíð. Því hafi sárafáir geta notið rafmagnsins þessa fyrstu daga og enn löng bið. Eða eins og segir orðrétt: Afleiðingar þessa alls eru þær, að fyrirtækið verður af tekjum sínum, fjöldi bæjarbúa er óánægður, svo að bærinn er fullur af öfund og ljótum munnsöfnuði og í stað þess að umbót þessi veki almenna hrifningu og að á móti henni væri tekið með tilhlýðilegri viðhöfn, er enn ekki búið, að leggja inn í Samkomuhús bæjarins og rafmagnið kemur hægt og drattandi eins og íslenzkur framkvæmdahugur. (Dagur 5. árg, 41. tbl. 12. okt 1922. Ekkert nafn)
En Bandaríkjamaðurinn James Normann Hall, sem var einmitt staddur á Akureyri þennan merka dag í septemberlok hafði aðra sögu að segja, svo sem sjá má hér, á vef Grenndargralsins. Hann lýsir mikilli hrifningu og fögnuði bæjarbúa og talar um, að hvarvetna hafi logað rafljós í gluggum. (Hann virðist alltént ekki hafa orðið var við öfund og ljótan munnsöfnuð bæjarbúa). Það er ástæða til þess, að vera þakklátur fyrir blessaða raforkuna, sem er algjör grundvallarforsenda nútíma lífshátta. Flest tökum við henni sem sjálfgefinni og erum stundum minnt á það, að það er hún alls ekki. T.d. þegar flutningskerfi hennar verða fyrir skakkaföllum vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi þátta.
UPPHAFIÐ. Glerárstífla var reist árin 1921-22. Þaðan kom fyrsta rafmagnið, sem hleypt var á Akureyri. Byggingunni stýrði sænskur verkfræðingur, Olof Sandell. Hann þótti harður í horn að taka, stýrði mannskapnum með heraga og rak menn miskunnarlaust fyrir minnstu yfirsjónir. Glerárvirkjun dugaði þó sívaxandi bæjarfélaginu skammt og ekki mörgum árum síðar fóru menn að horfa til frekara virkjanakosta t.d. í Þingeyjarsýslum. Fyrsta Laxárvirkjunin var tekin í notkun 1938. Þessi mynd er tekin í júlí 2009. Greinilega eru leysingar í ánni.
RAFORKUMANNVIRKI. Endastöð háspennulínu. Þessi er reyndar komin ofan í jörð fyrir nokkrum árum síðan en þessi lá upp að borholuskúrum neðarlega á Glerárdal, norðan og við Fálkafell. Myndin er tekin í júní 2004.
RAFLÝST AKUREYRI. Uppljómaður Akureyrarbær á síðvetrarkvöldi, apríl 2018.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2022 | 11:55
Hús dagsins: Lækjargata 2b
Á horni Aðalstrætis og Lækjargötu er að finna eina elstu og áhugaverðustu húsaþyrpingu bæjarins. Hús þessi eru flest frá 5. 8. áratug 19. aldar. Eitt þessara húsa er Lækjargata 2b. Lega hússins er sérlega skemmtileg, stafninn skagar út í götuna á milli húsa nr. 2 og 4 og er húsið áfast því síðarnefnda. Á milli húsa 2 og 2b er örmjótt sund, á að giska um 2m breitt. Á bak við þessa staðsetningu hússins er sérstök saga.
Lækjargötu 2b reisti Edvald Eilert Möller verslunarstjóri, mögulega árið 1871, sem heyhlöðu á baklóð sinni en hús hans stóð þar sem nú er Aðalstræti 8. Það hús, sem byggt var 1836, var kallað Möllershús og var eitt margra húsa sem eyddist í bæjarbrunanum í desember 1901. Hlaðan (þ.e. Lækjargata 2b) mun hafa staðið nokkurn veginn þar sem nú eru mót Aðalstrætis og Lækjargötu. Þannig var mál með vexti, að þegar ráðist var í lagningu í nýrrar götu upp Búðargil, var upprunalega hugmyndin að miða legu hennar við heyhlöðu þessa. En árið 1884 var ákveðið að rífa hlöðuna sunnan við hús St. Stephenssens (Lækjargata 2a). Í stað þess að rífa hana var hún hins vegar dregin inn á lóð Lækjargötu 2, áfast annarri hlöðu sem síðar varð Lækjargata 4. Hvers vegna húsið var flutt norður á lóð Lækjargötu 2, en ekki nær Möllershúsinu við Aðalstræti, virðist ekki liggja fyrir en bærinn hafði keypt hana til niðurrifs, svo hún tilheyrði ekki eigendum lóðarinnar. Mögulega hefur eigandi Lækjargötu 2 (nú 2a) Stephan Stephansson, keypt hana af bænum.
Það er í raun ekki vitað með vissu hvenær húsið var byggt, en í bókunum bygginganefndar má finna byggingaleyfi dagsett 22. júní árið 1871 til handa Factor E. Möller, þar sem hann fær að reisa heyhlöðu úr timbri sunnan við bakarísins grunn og skyldi austurgafl hennar er sneri til götunnar halda stefnu og línu með plankverki því sem reist er fyrir austan pakkhús bakarans. Umrætt bakarí er væntanlega Aðalstræti 6 en þar bjó á þessum tíma Hendrik Schiöth bakari. Það er nokkuð freistandi að leiða líkur að því að umrædd heyhlaða sé sú, sem tæplega hálfum öðrum áratug síðar stóð, í bókstaflegri merkingu, í vegi fyrir lagningu Lækjargötu. Það er, Lækjargata 2b.
Lækjargata 2b er einlyft timburhús á lágum grunni, með porti og háu risi. Sexrúðupóstar eru í gluggum og bárujárn er á veggjum og þaki. Grunnflötur hússins er um 5,7x5,9m en vesturhlið er eilítið lengri en austurhlið, stafninn sunnanmegin m.ö.o. ekki hornréttur. Húsið er áfast næsta húsi vestan við, Lækjargötu 4 en sundið austan við er líklega aðeins um tveir metrar.
Um Edvard Eilert Möller er það að segja, að hann var fæddur árið 1812 á Akureyri. Um hann segir í Íslendingabók, að hann hafi verið verslunarstjóri á Siglufirði 1832-40 og á Akureyri eftir það. Hann var verslunarstjóri í 50 ár, tók mikinn þátt í atvinnulífi á Akureyri og Eyjafirði, m.a. síldveiðum og hákarlaveiðum. Um hann segir Steindór Steindórsson ennfremur: Hann þótti áreiðanlegur í viðskiptum og ákaflega húsbóndahollur. Hann skoraðist undan að taka sæti í bæjarstjórn þegar hann var kjörinn til þess, taldi það ekki hæfa verslunarstjóra sem þyrfti að hafa margs konar viðskipti við bæinn (Steindór Steindórsson 1993: 24). Þá gróðursetti hann fyrstur manna eplatré á Akureyri, en það var árið 1884. Edvard var náskyldur síðasta einokunarverslunarkaupmanni bæjarins. En móðurafi Edvards var Rasmuss Lynge, bróðir Friðriks Lynge, sem síðastur veitti einokunarversluninni forstöðu. Friðrik Lynge þessi átti heiðurinn af byggingu fyrsta íbúðarhúss Akureyrar, 1777, en það hús var eitt þeirra sem eyddist í bæjarbrunanum 1901.
Það er raunar góðar líkur á því, að hefði hlaða Möllers hvorki verið rifin né flutt hefði hún einnig orðið bæjarbrunanum 1901 að bráð. Möllershús brann til ösku og miklar skemmdir urðu á nýlegu húsi Stephans Stephanssonar, sem nú er Lækjargata 2, en þarna á milli stóð hlaðan upprunalega. Óljóst er hvort hlaðan gegndi áfram hlutverki hlöðu eftir flutninginn en síðar varð það geymsla. Í brunabótamati síðla árs 1916 er því lýst sem geymsluhúsi, einlyftu með háu risi á lágum steingrunni. Á gólfi eru sögð tvö geymsluherbergi og loft ósundurþiljað byggt úr timbri með járnklæddu þaki. Mál hússins eru 5,7x5,9m og hæð sögð 5 metrar. Í fasteignamati 1918 er því lýst á svipaðan hátt; geymsluhús úr timbri á lágum steingrunni, 5,7x5,8m.
Árið 1920 var eiganda hússins, Karli Magnússyni, heimilað að breyta útliti hússins og innrétta þar íbúð samkvæmt uppdrætti. Umræddur uppdráttur hefur varðveist en teikningin er óundirrituð. E.t.v. hefur Karl gert teikningarnar sjálfur. Og þegar Manntal er tekið sama ár er eigandi hússins Eggert Stefánsson símritari, sem þarna býr ásamt konu sinni, Yrsu Stefánsson og syni þeirra Stefáni. Einnig er búsett þarna Sesselja Theódórsdóttir vetrarstúlka. Skiptist húsið í tvö íbúðarrými og í öðru þeirra býr Karl Ásgeirsson, sem einnig er símritari. Þegar flest var munu hafa búið hér tólf manns. Í manntölum síðar á þriðja áratugnum og á þeim fjórða virðist húsið hins vegar teljast einbýlishús. Árið 2016 segja þáverandi eigendur og íbúar hússins, Patricia Huld Ryan og Sylvain Franck Zaffini svo frá, að húsið sé mjög skakkt og það valdi stöðugum höfuðverk. Einnig að við endurbætur á húsinu hafi þau fundið m.a. barnaskó, kindahorn, dagblöð frá 1899 á milli veggja. Einnig fannst tunnubotn í kjallaranum frá því að hér bjó beykir. (sbr. Kristín Aðalsteinsdóttir 2017: 136).
Lækjargata 2b er snoturt og látlaust hús og í mjög góðri hirðu. Útlit og kannski ekki síst staðsetning hússins er mjög skemmtileg og ekki síst sagan á þar á bak við; Hlaða sem átti að rífa en var mjakað á næstu lóð og stendur þar enn, 140 árum síðar. Lækjargata 2b er að sjálfsögðu aldursfriðað hús og talið í Húsakönnun 2012 hluti varðveisluverðrar og einstakrar húsaþyrpingar. Myndin er tekin 3. apríl 2022.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 32, 22. júní 1871. Fundur nr. 59, 15. apríl 1884. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Elstu fundargerðabækur Bygginganefndar eru aðgengilegar á vef Héraðsskjalasafnsins.
Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Fasteignamat 1918. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf
Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Húsin og Fólkið. (Viðtal við Patriciu Huld Ryan og Sylvain Franck Zaffini). Akureyri: Höfundur.
Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur
Ýmis manntöl og gögn á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta. Upplýsingar af ættfræðigagnagrunninum islendingabok.is.
Bloggar | Breytt 19.9.2022 kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2022 | 16:36
Löng bið á milli greina
"Það líður víst langt á milli fría / og löng og stundum erfið verður bið". Svo orti Jónas Friðrik og Ríó Tríó söng inn á plötu fyrir um hálfri öld síðan.
Lesendur hafa e.t.v. tekið eftir því, að lengra líður á milli pistla en oft áður hjá mér. Fyrir því er einföld ástæða. Samhliða ritun pistla á akureyri.net tók ég upp á því, að endurskrifa um eldri hús, sem ég birti áður í stuttu máli í árdaga þessarar síðu. Þessir pistlar eru lengri og ítarlegri en margir fyrri pistlar og segir sig sjálft, að þeir eru lengur í bígerð. Ég er stundum spurður að því hvað ég eyði löngum tíma í þessi skrif en staðreyndin er sú, að ég hef ekki hugmynd um það. Því fyrir mér er þetta bara eins og hvert annað áhugamál; fæstir halda neina skrá yfir það hvað þeir eyða löngum tíma í sjónvarpsáhorf, tölvuleiki, golf eða slíkt. En lesendur þurfa ekki að örvænta þó kannski líði meira en tvær vikur og löng bið verði á milli Húsapistla...ég er ekkert að dala í þessu heldur þvert á móti!
PS: það er nú ekkert varið í það, að vitna í dægurlagatexta, án þess að birta umrætt lag í heild sinni:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2022 | 15:59
Hús dagsins: Lundargata 15
Snemma sumars árið 1998 var sá sem þetta ritar á meðal þátttakenda í sögugöngu um Oddeyri. Hafandi árið áður komist í bókina um Oddeyri og drukkið í sig fróðleikinn um byggingarár húsanna og sögu þeirra en einnig rekist einhvers staðar á ævisögu Jóhannesar Jósefssonar á Borg. Þegar staldrað var við Lundargötu 15 fullyrti einn þátttakenda, roskinn maður, að Jóhannes á Borg væri fæddur í þessu húsi. Höfundi er það sérstaklega minnisstætt, hvað hann dauðlangaði til þess að koma því á framfæri, að þetta stæðist engan veginn, því Jóhannes var fæddur 1883 en húsið byggt 1898! En ákvað að láta það ógert; var fullviss um, að enginn þarna tæki mark á strák sem var rétt að verða 13 ára; svona athugasemd yrði jafnvel álitin framhleypni og dónaskapur! (En þetta var nú ekki alveg út í hött hjá karlinum, því faðir téðs Jóhannesar byggði jú húsið).
Haustið 1898 afgreiddi Bygginganefnd Akureyrar umsókn Jósefs Jónssonar í Lundi um hús sem hann hugðist byggja. Ætlaði hann að byggja hús, 10 álna (6,3m) langt og 8-9 álnir (u.þ.b 5,5m) á grunnfleti. Bygginganefnd ákvað hins vegar að fresta þessari ákvörðun þar til fyrir lægi uppdráttur. Það fylgir hins vegar ekki sögunni hvort sá uppdráttur hefur borist og hvað þá, að hann hafi varðveist. Hver gerði umræddan uppdrátt liggur heldur ekki fyrir, en höfundi þykir freistandi að giska á, að Snorri Jónsson, sérlegur húsasmíðameistari Oddeyrar á þessum árum, hafi verið þar að verki. En húsið reisti Jósef og fjórum árum síðar, 16. júní 1902, var honum leyft að lengja það um 6 álnir (3,7m) til norðurs. Í upphafi var húsið ein hæð og hátt ris.
Lundargata 15 er tvílyft timburhús með lágu risi og stendur á háum steyptum kjallara. Veggir eru klæddir steinblikki, bárujárn á þaki og þverpóstar í flestum gluggum, tvískiptir efri póstar á gluggum neðri hæðar. Undir rjáfri á suðurstafni er tígullaga smágluggi undir hanabjálka. Húsið mun 5,6x10,4m á grunnfleti.
Það er orðin viðtekin venja undirritaðs að segja örlítið frá húsbyggjendum, hvaðan þeir voru og hvað þeir störfuðu o.s.frv. Í tilfelli þeirra Jósefs Jónssonar frá Borgarhóli í Öngulsstaðahreppi og Kristínar Einarsdóttur, er líklega nærtakast að gefa syni þeirra, Jóhannesi, orðið. Kristín var komin austan úr Þingeyjarsýslu og átti uppruna á Geirþjófsstöðum og Sandi, komin af harðduglegu myndarfólki, en fátæku (Jóhannes Jósefsson 1964: 15). Jósef er öllu fyrirferðarmeiri í frásögn sonar hans: Jósef faðir minn var Eyfirðingur í báðar ættir. [...] Faðir minn var hár maður og þrekinn og rammur að afli, en enginn áflogamaður þrátt fyrir óskaplegan geðofsa. Kristín kona hans var hins vegar [...]þýðlynd kona og svo skapstillt í visku sinni að undrun sætti (Jóhannes Jósefsson 1964: 15). Jósef [...]var talinn duglegasti verkamaður við Eyjafjörð. Við slátt var hann meira en tveggja manna maki og var ávallt goldið tvöfalt kaup. Í grjótvinnu fór hann hamförum og var svo laginn að honum nýttist þetta heljarafl sitt margfaldlega (Jóhannes Jósefsson 1964: 15). Var Jósef orðlagður fyrir dugnað og harðfylgi og svo mjög, að ekki þótti nema eðlilegt, að hann fengi tvöfalt kaup á við aðra í sömu störfum! Jósef gerðist síðar ökumaður eða keyrari, fyrstur manna við Eyjafjörð og ók þá ýmsum hlössum á vögnum; þetta var löngu fyrir bílaöld. Síðar hóf Jósef verslunarrekstur.
Jóhannes, sonur þeirra Jósefs og Kristínar, var auðvitað glímukappinn og athafnamaðurinn sem löngum var og er kenndur við Hótel Borg. Hann átti glæstan feril sem glímukappi, hvort tveggja sem íþróttamaður og sem skemmtikraftur í fjölleikahúsum. Hann mun hafa keppt fyrstur Íslendinga á Ólympíuleikum, 25. júlí 1908 í London en hann var fyrirliði glímuliðs Íslendinga. Tveimur árum fyrr, í ársbyrjun 1906, stofnaði hann ásamt fleirum Ungmennafélag Akureyrar og fór sá stofnfundur einmitt fram á heimili hans hér í Lundargötu 15. Eftir áratuga feril sem glímukappi og skemmtikraftur byggði hann Hótel Borg í Reykjavík árið 1930 og rak það í röska þrjá áratugi. Sá sem þetta ritar mælir eindregið með ævisögu Jóhannesar, sem heitir einfaldlega Jóhannes á Borg og er skráð af Stefáni Jónssyni. Frásögn af ótrúlegu lífshlaupi hans er í senn skemmtileg, átakanleg en fyrst og fremst afar áhugaverð. Þá er hún með betri heimildum um mannlífið og samfélagið á Oddeyrinni um og fyrir aldamótin 1900 og hefur reynst greinarhöfundi mjög gagnlegt í húsasögugrúskinu. Bókin var gefin út af Ægisútgáfunni árið 1964 og er sjálfsagt að finna á flestum bókasöfnum eða fornbókabúðum. Ævisögu Jóhannesar mætti að ósekju endurprenta og gefa út. Kannski er tilefni sumarið 2023, þegar liðin verða 140 ár frá fæðingu hans. Þessari hugmynd er hér með komið á framfæri til bókaútgefenda.
Í upphafi var húsið aðeins um ein hæð og hátt ris 6,3x5,6m eða um 35 fermetrar að grunnfleti en Jósep fékk að stækka það um 3,7m (6 álnir) til norðurs árið 1902, sem fyrr segir. Ef gluggað er í Manntal frá 1901 er hægt að ímynda sér, að sú þörf hafi verið nokkuð brýn, en þá eru búsettir í húsinu 16 manns! Jósef Jónsson stundaði auk ökumennskunnar, verslunarrekstur. Byggði hann verslunarhús, eitt það stærsta á Oddeyri fyrr og síðar, Turnhúsið við Strandgötu 7, árin 1905-06. Þangað fluttist fjölskyldan árið 1906 en Jósef átti Lundargötu 15 áfram og leigði húsið út. Árið 1907 eru þau hins vegar flutt aftur í Lundargötu, en hin nýreista, glæsta og turni prýdda höll Jósefs við Strandgötu, eyddist í Oddeyrarbrunanum haustið 1906. Árið 1917 var húsið brunabótavirt og þá sagt einlyft með porti og háu risi á kjallara. Á gólfi við framhlið 2 stofur og forstofa, við bakhlið stofa, eldhús og búr. Geymsla var á lofti og kjallara skipt í tvennt og tveir skorsteinar á húsinu. Mál hússins voru 10,4x5,6m, húsið 6,3m á hæð og því 22 gluggar. Þá stóð á baklóð gripahús, einlyft með porti og háu risi og þiljað fyrir gripi o.fl. Gripahúsið er löngu horfið, hefur hugsanlega vikið fyrir húsinu Fróðasundi 4, sem byggt var 1943. Þá er Kristín, ekki Jósef, skráð eigandi hússins.
Það var hins vegar Jósef sem sótti um leyfi til þess að byggja hæð ofan á húsið. Var leyfið veitt með því skilyrði, [...]að gamla húsið, að dómi fagfróðra manna, sé nægilega sterkt (Bygg.nefnd. Ak. nr. 571, 1925). Við þá framkvæmd, sem fram fór 1925-26, fékk húsið núverandi lag og ekki ósennilegt, að steinblikkið hafi verið sett á húsið um svipað leyti. Jósef og Kristín bjuggu hér til æviloka en Jósef lést 1927 en Kristín árið 1929. Hafa síðan fjölmargir búið í eða átt Lundargötu 15 og öllum auðnast að halda húsinu vel við. Síðustu áratugi hafa tvær íbúðir verið í húsinu.
Lundargata 15 er reisulegt hús og í góðri hirðu og til mikillar prýði. Sömu sögu er að segja af lóð. Húsið er hluti af götumynd Lundargötu, sem er að mestu skipuð smáum timburhúsum frá lokum 19. aldar. Brunar og ekki síst niðurrif hafa því miður höggvið stór skörð í þessa einu áhugaverðustu götu Oddeyrar en flest húsin sem enn standa eru í góðri hirðu og til prýði. Þegar Húsakönnun var unnin um Oddeyrina um 1990 fékk Lundargata 15 umsögnina Húsið sem er látlaust og einfalt, fellur vel að götumynd og hefur varðveislugildi sem hluti af henni. (Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995:60). Húsakönnun 2020 staðfestir þetta og metur varðveislugildi hússins hátt. Þá er húsið aldursfriðað þar eð það var orðið 114 ára þegar lög um aldursfriðun húsa 100 ára og eldri tóku gildi árið 2012. Myndin er tekin 24. febrúar 2019 en hér er einnig meðfylgjandi, til gamans, tilgátuteikning höfundar að útliti Lundargötu 15 á ýmsum tímum. Byggjast þær á ljósmyndum og lýsingum en fyrst og fremst getgátum höfundar út frá þeim upplýsingum.
Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)
Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 170, 26. sept. 1898. Fundur nr. 224, 16. júní 1902. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 571, 25. ágúst 1925. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf
Jóhannes Jósefsson. 1964. Jóhannes á Borg. Minningar glímukappans. Stefán Jónsson skráði. Reykjavík: Ægisútgáfan
Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.8.2022 | 16:23
Hús dagsins: Hafnarstræti 18; Tuliniusarhús
Einhver skrautlegustu og veglegustu híbýlin, sem fyrirfundust hérlendis í upphafi 20. aldar voru hin norskættuðu sveitserhús, einnig nefnd katalóghús. Þessi hús var hægt að panta úr sölubæklingum (katalógum) og fá þau send tilhöggvin frá Noregi. Helstu sérkenni þessara húsa voru einna helst mikil útskorin skraut á slútandi þakskeggjum og kvistum, stórir gluggar, oft með skrautlegum póstum. Þá voru flest þessara húsa talsvert stærri í sniðum en tíðkaðist hér, grunnflötur stærri, lofthæð meiri og kjallarar hærri og dýpri. Þakskegg oft slútandi og sperruendar útskornir. Svo fátt eitt sé nefnt. Húsin voru mörg hver forsmíðuð í Noregi, síðan tekin í sundur og hver einasti biti og bjálki merktur þannig að hægt væri að setja þau saman eftir leiðbeiningum. Einnig voru mörg dæmi þess að hús væru smíðuð hér að öllu leyti og katalóghús notuð til fyrirmyndar. Hafnarstræti 18, Tuliniusarhús er einmitt talið dæmi um slíkt. Heimildum virðist raunar ekki bera saman um hvort hönnuðir þess hafi verið íslenskir eða húsið komið að öllu leyti tilsniðið frá Noregi. Tuliniusarhús, sem byggt er 1902, er eitt af reisulegri og skrautlegri húsum bæjarins. Það stendur á horni Aðalstrætis og Hafnarstrætis og snýr framhlið þess að nokkurs konar torgi (bílastæði) norðan við ísbúðina Brynju. Stendur húsið á hinni eiginlegu Akureyri, smárri eyri sem mynduð er af framburði Búðarlækjar en er löngu runnin saman við síðari tíma landfyllingar.
Það var hinn 25. júní 1902 sem bygginganefnd Akureyrar kom saman á 225. fundi sínum og afgreiddi byggingaleyfi til handa kaupmanni Otto Tulinius. Húsið yrði 19x16 álnir, 10 álnir sunnan við bryggjuna en parallellt með henni. Að vestan [m.v. legu hússins við götu, ekki vesturhlið hússins] sé parallellt með götunni og standi húsið 10 álnir austur frá fortagi götunnar (Hafnarstrætis). Hafði Thulinius gert ráð fyrir þessum 10 álnum (6,3m) á uppdrætti, sem fyrir lá. En ekki mátti Tulinius ráðstafa þessari spildu sinni að vild: Þetta 10 álna svæði skal hann umgirða og nýta eingöngu sem blómgarð. (Og hananú!) Einhverjum lesendum kann mögulega að þykja nokkur orð framandi sem þarna birtast og skulu þau því útskýrð hér: Parallellt þýðir einfaldlega samsíða, fortag (einnig nefnt fortó) er gangstétt og ein alin (álnir í fleirtölu) er 63 centimetrar.
Jónas Gunnarsson og Sigtryggur Jóhannesson munu hafa hannað húsið en ekki hafa varðveist af því upprunalegar teikningar. Á kortavef Akureyrarbæjar má hins vegar finna uppmælingarteikningar Haraldar S. Árnasonar af húsinu, frá 1991. Það virðast raunar ekki liggja fyrir óyggjandi heimildir fyrir hönnun hússins. Sem fyrr segir hafa ekki varðveist af því teikningar en allar líkur til þess, að þeir Jónas og Sigtryggur hafi hannað húsið. Í húsakönnun 2012 er það raunar fullyrt (Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012: án bls.) en í bókinni Af norskum rótum er það ekki talið óyggjandi. Í þeirri bók kemur fram, að allt burðarvirki hússins sé merkt með rómverskum stöfum. (Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2003:195). Það gæti bent til þess, að húsið hafi verið forsmíðað og burðarvirkinu raðað saman eftir númerum.
Tuliniusarhús er tvílyft timburhús með háu, portbyggðu risi og stendur á háum steinhlöðnum kjallara. Á framhlið er stór miðjukvistur en stigahús á bakhlið. Á suðurstafni er útskot á einni hæð, nokkurs konar sólstofa með skrautgluggum. Svalir til vesturs eru áfastar útskotinu á neðri hæð en einnig eru svalir ofan á og gegnt út á þær af annarri hæð. Veggir eru timburklæddir, lóðrétt vatnsklæðning á neðri hæð en lárétt borðaklæðning. Skreytt bönd eru við hæðarskil. Þakbrúnir og þakskegg slúta yfir veggi og þar eru sperrutær útskornar. Þaksbrúnir eru skreyttar nokkurs konar kögri og útskurður á hanabjálkum á stöfnum og kvisti. Í flestum gluggum eru sexrúðupóstar en krosspóstar á neðri hæð. Grunnflötur er 10x12m en stigabygging á bakhlið 1,8x3,0m. Útskot að sunnan er um 1,77x6,20m. Húsið er að mestu óbreytt frá upphafi að ytra byrði, að frátöldum miðjukvistinum, sem byggður var rúmum áratug eftir að húsið byggt.
Otto Fredrik Tulinius (1869-1948) verslunar- og útgerðarmaður, var fæddur og uppalinn á Eskifirði. Hann stundaði verslunarrekstur m.a. á Papósi og á Hornafirði til 1901 er hann flutti til Akureyrar. Hann rak verslun sína á neðri hæð hins nýja og veglega húss en bjó á efri hæðum. Tulinius gegndi ýmsum embættisstörfum og sat í ýmsum nefndum, vísikonsúll Svía, formaður Verslunarmannafélags Akureyrar sat m.a. í bæjarstjórn, 1906-09 og 1911-20. Var hann kjörinn forseti bæjarstjórnar árið 1919, fyrstur manna til að gegna því embætti. Ekki varði sú embættisseta hans lengi, því árið eftir flutti hann til Kaupmannahafnar. Hann seldi þó ekki húsið, en við verslunarrekstrinum tók Jón C.F. Arnesen. Bjó hann hér ásamt fjölskyldu sinni á meðan hann rak verslunina. Árið 1915 fékk Ottó að breyta húsi sínu. Í bókun bygginganefndar kemur ekki fram í hverju þær breytingar felast, en þar var um að ræða kvistinn á framhlið.
Árið 1916 var húsið virt til brunabóta. Þá er húsið sagt tvílyft íbúðar- og verslunarhús með kvisti, háu risi og á háum kjallara. Veggir eru timburklæddir og pappi á þaki. Á gólfi var sögð sölubúð þvert yfir húsið fyrir stafni, við framhlið geymsluherbergi og forstofa, bakhlið 2 skrifstofur og 1 stofa fyrir stafni. Á lofti við framhlið voru 2 stofur og forstofa, en undir bakhlið 2 stofur, eldhús og búr. Á efra lofti voru 5 íbúðarherbergi og gangur. Kjallara var skipt í þrennt og tveir skorsteinar. Húsið var sagt 11,6x10,4m að stærð og 10,6m hátt og á því 40 gluggar og í húsinu 9 ofnar og ein eldavél. Væntanlega allt kynt með kolum eða mó. Í matinu eru gerðar þær athugasemdir, að skorsteinsveggir [séu] of þunnir í loftum og þekja ójárnvarin og stenst þannig ekki brunamálalög. (Brunabótafélag Íslands 1917:nr.105).
Sem áður segir dvöldu Otto Tulinius og fjölskylda í Kaupmannahöfn frá 1920. Sex manns eru skráðir til heimilis það ár, m.a. tveir innanbúðarmenn, vinnukona og eldabuska, mögulega starfslið Tulinius. Jón C.F. Arnesen tók við versluninni í ársbyrjun 1921. Það er fróðlegt að bera saman íbúafjölda Tuliniusarhúss, sex manns, þá eins af stærstu húsum bæjarins árið 1920 við t.d. Lundargötu 2, þar sem búsettir voru 20 manns. Þá bjuggu einnig 32 í Lækjargötu 6, sem reyndar er ekkert smáhýsi en miklum mun minna í sniðum en Tuliniusarhús.
Otto, Valgerður og fjölskylda sneru aftur frá Danmörku árið 1929 og fluttu þá aftur í Hafnarstræti 18. Þau munu hafa búið hér til um 1940, eru skráð hér í Manntali árið 1939. En 1940 og ´41 er Hafnarstræti 18 ekki að finna í manntölum Akureyrar. Á stríðsárunum var húsið nefnilega leigt breska setuliðinu. Eftir því sem líða tók á 20. öldina, sérstaklega síðari helming hennar, tók tímans tönn þó að naga hina hátimbruðu bæjarprýði. Steindór Steindórsson segir (1993:103): Kreppuárin settu síðar hnignunarmerki sín á Tuliniusarhús eins og mörg önnur gömul hús í Innbænum og Fjörunni. Um 1975 var rætt um nauðsyn þess, að húsið, sem orðið var mjög hrörlegt yrði rifið. En til allrar hamingju varð það ekki raunin. Upp úr 1970 hófst nefnilega ákveðin vitundarvakning í samfélaginu um verndun gamalla húsa og marka eflaust gjörningar við Bernhöftstorfuna og stofnun Torfusamtakanna 1972 nokkurs konar vatnaskil þar. Friðun húsa hófst um þetta leyti. Tuliniusarhús var í hópi fyrstu húsa á Akureyri, sem voru friðlýst, árið 1977. Var það friðlýst í B-flokki en sá flokkur náði yfir ytra byrði húsanna. Endurbygging þess hófst um svipað leyti og um 1980 mun húsið hafa endurheimt sinn fyrri glæsileika. Og þeim glæsileika hefur húsið haldið með fyrirtaks viðhaldi allar götur síðan. Tuliniusarhús er sérlega skrautlegt og tilkomumikið hús og ein af helstu perlum og kennileitum Innbæjarins. Myndirnar eru teknar 7. janúar 2018 (framhlið) og 29. mars 2015 (bakhlið).
Heimildir: Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 225, 25. júní 1902. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 411, 18. maí 1915. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf
Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir: Akureyri-Höfuðstaður norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.)(2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning.
Minjastofnun. (án höf). Akureyri. Hafnarstræti 18. Tuliniusarhús. Á slóðinni https://www.minjastofnun.is/hus-og-mannvirki/fridlyst-hus-og-mannvirki/akureyri/nr/611
Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur
Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
Bloggar | Breytt 25.8.2022 kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2022 | 17:06
Hús dagsins: Lundargata 2
Lundargata 2 var þriðja húsið sem ég tók fyrir á þessari síðu fyrir 13 árum síðan. Sú umfjöllun var tæp 200 orð. Hér er tæplega 1400 orða grein, öllu umfangsmeiri og ítarlegri...
Lundargata 2 er eitt af elstu húsum og helstu kennileitum Oddeyrar og ræður þar mestu ferkantaður turn, sem er í raun kvistur, fyrir miðju hússins. En húsið byggði Jósef Jóhannesson járnsmiður árið 1879 á lóð sem hann fékk á leigu, væntanlega hjá Gránufélaginu. Ekki liggja fyrir lóðaúthlutanir eða byggingaleyfi á vegum bygginganefndar eða heldur byggingarlýsingar. Raunar lágu fundir Bygginganefndar niðri um sex ára skeið, frá 1878-´84. Jósef fékk hins vegar leyfi amtmanns til veitinga- og greiðasölu; seldi í húsinu m.a. kaffi, mat, vín og gistingu. Í Norðlingi 11. október 1879 segir, undir fyrirsögninni Nýtt veitingahús: Eptir [svo] leyfi amtsins ds. 23. f. m. hefi eg undirskrifaður byrjað greiðasölu á Oddeyri, hvers vegna allir þeir er þarfnast að fá keypt: mat, kaffi, vín og gisting, vildu gjöra svo vel að snúa sér til mín. Jósef bauð einnig upp á húsrúm og hey handa hestum viðskiptavina sinna, enda voru þeir auðvitað farartæki þess tíma. Þess má reyndar geta, að heimildum virðist ekki bera saman um, hvort húsið sé byggt 1879 eða 1882 en það skiptir e.t.v. ekki máli í stóra samhenginu. Alltént er nokkuð ljóst, að einhvers staðar var Jósef með greiðasölu sína á Oddeyri haustið 1879. Húsið var upprunalega reist á lóðinni sem síðar varð númer 23 við Strandgötu og vissi framhliðin til suðurs.
Lundargata 2 er einlyft timburhús á lágum steingrunni, með háu risi og miðjukvistum. Suðaustanmegin er viðbygging með einhalla þaki. Grunnflötur er um 8,9x6,4 og bakbygging um 3x2m. Á bakhlið er kvistur með einhalla þaki og á framhlið er annar slíkur, undir háum flötum kanti. Stendur kvistur framhliðar hátt upp úr þekjunni, eins konar ferhyrndur turn og setur mikinn og skemmtilegan svip á húsið. Í gluggum hússins eru sexrúðupóstar, bárujárn á þaki og timburklæðning, svokölluð listasúð á veggjum. Yfir útidyrum á framhlið er þríhyrnt tréverk, svokallaður bjór í nýklassískum stíl. Í miðjum bjórnum hefur nýlega verið máluð áletrunin 1879, sem vísar til byggingarárs hússins. Líklegast er talið, að turninn hafi verið á húsinu frá upphafi, hann sést alltént á elstu myndum af Oddeyri.
Jósef Jóhannesson (1839-1915), sem var Eyfirðingur, nánar tiltekið frá Gilsbakka í Grundarsókn, stundaði sem áður segir veitinga- og greiðasölu í húsinu. Með þeim rekstri hugðist hann drýgja tekjur sínar en hann taldi sig ekki geta framfleytt sér með járnsmíðinni einni saman. Var hann þó talinn með þeim færari í sinni grein og smíðaði m.a. byssur, sem fáir lögðu fyrir sig. Jóhannes Jósefsson glímukappi og athafnamaður, löngum kenndur við Hótel Borg, segir frá Jósef Jóhannessyni í ævisögu sinni: Jósef smiður var tröll að vexti, stærri en pabbi [Jósef Jónsson ökumaður]. Hann var einn af höfðingjunum við Eyjafjörð. Í smiðjunni var hann krímugur guð og hendurnar á honum höfuðskepnur, stórar og blakkar, sem teygðu járn (Jóhannes Jósefsson 1964: 52). Jóhannes, þá á barnsaldri, heimsótti Jósef daglega í smiðjuna og aðstoðaði við vinnuna. Vakti áhuga hans byssa, hangandi upp á vegg, sem Jósef hafði smíðað. Jósef var mjög artarlegur við drenginn og skemmti honum jafnan með sögum. Ein sagan var af sumbli Jósefs og Skapta nokkurs Jósefssonar frá Seyðisfirði á knæpu í Kaupmannahöfn: Þegar þeir voru orðnir fullir og farnir að syngja Björt mey og hrein, fannst þeim óþægileg nærvera Dana á knæpunni og Jósef spurði. Hvort vilt þú rétta eða kasta? Og Skafti svaraði: Rétt þú ef ég kasta. Og svo ruddu þeir knæpuna (Jóhannes Jósefsson 1964: 35). Það má svo fylgja sögunni, að þegar Jóhannes spurði, hve margir mennirnir voru, sem þeir fleygðu út af öldurhúsi þessu svaraði Jósef um leið: Langar þig mjög mikið að eignast þessa byssu?" (Jóhannes Jósefsson 1964: 35).
Jósef átti húsið ekki lengi en árið 1883 mun hann hafa selt húsið norskum síldarútgerðarmanni, Oules Hausken og húsið síðan nefnt Hauskenshús. Af Jósef er það að segja, að hann færði út kvíarnar í veitingarekstrinum og reisti mikið stórhýsi, veitinga- og gistihús neðar við Strandgötu, um 1886. (Nýja veitingahús Jósefs varð því miður ekki langlíft en það brann til grunna árið 1908). Miðað við frásagnirnar af Jósef Jóhannessyni mætti ætla, að hann hafi ekki tekið vægt á drykkjulátum eða leiðindum á meðal gesta sinna. Þó að húsið væri jafnan kennt við Oules Hausken átti hann það ekki mikið lengur en Jósef, því Hausken mun hafa haldið af landi brott árið 1887. Í mjög vandaðri og ítarlegri grein Finns Birgissonar í Degi, janúar 1994 kemur fram, að árið 1895 hafi Sigurður Sigurðsson eignast húsið, en ekki sé vitað um eigendur í millitíðinni, eftir brotthvarf Hauskens. Af Manntali 1890 má ráða, að húsið hafi verið í eigu Einars Hallgrímssonar Thorlacius það ár. Höfundur ræður það einfaldlega af því, að í manntalinu virðast húsin við Strandgötu raðast upp frá vestri til austurs. Hafa þau ekki númer, heldur eru kennd við eigendur sína. Númerin komu löngu síðar. Á milli Húss Einars Pálssonar, þ.e. Strandgötu 21 og Húss Kristjáns vert, þ.e. forvera Strandgötu 25 (Alaska) er Hús Einars Hallgrímssonar. Á árunum 1879-1900 var starfræktur Oddeyrarskóli hinn eldri. Ekki var um eiginlegt skólahús að ræða heldur fékk skólinn inni í nokkrum húsum og þeirra á meðal var Hauskenshús. Mun kennsla hafa farið fram hér, árin sem Hausken átti húsið en hann stundaði útgerð sína á sumrin og dvaldist í Noregi á veturna og því hæg heimatökin að nýta húsið. Það útilokaði þó ekki hvort annað, að búið væri í húsunum og skólahald færi þar fram.
Sem áður segir stóð húsið upprunalega lítið eitt sunnar en nú, við Strandgötu. Sumarið 1902 var húsið flutt og því snúið um 90°, framhlið til vesturs, þar sem það hefur staðið síðan. Fyrir þeirri framkvæmd stóð Medúsalem Jóhannesson, þáverandi eigandi hússins. Fékk hann að flytja [...]hið svokallaða Hauskenshús [...] paralellt með Lundargötu í línu með húsi Baldvins Jónssonar og 10 al. suður frá því húsi (Bygg.nefnd. Ak. nr 224: 1902). Umrætt hús Baldvins Jónssonar var Lundargata 4, en það hús brann snemma árs 1965. Það er eiginlega erfitt að gera sér í hugarlund, hvernig sú framkvæmd hefur farið fram á þeim tíma þegar engir voru kranarnir eða flutningatækin. Freistandi er að geta sér þess til, að við húsaflutninga þess tíma hafi menn notfært sér þá verkkunnáttu og aðferðafræði, sem höfð var við sjósetningu skipa. Eftir húsaflutningana byggði Medúsalem nýtt hús Strandgötumegin en lóðinni var skipt upp og taldist Hauskenshús nú standa við Lundargötu 2. Nýja hús Medúsalems brann fjórum síðar og reisti hann þá stórhýsi það, er enn stendur á Strandgötu 23.
Eftir 1902 var húsið leigt út til íbúðar og bjuggu þá jafnan margar fjölskyldur í húsinu samtímis. Þegar Pétur Pétursson keypti Strandgötu 23 af Medúsalem Jóhannessyni eignaðist hann einnig Lundargötu 2 og munu eignirnar jafnan hafa fylgt hvorri annarri um árabil eftir það. Þannig er því t.d. enn háttað í febrúar 1972 þegar Valdemar Baldvinsson auglýsir húsin til sölu. Á fyrstu áratugum 20. aldar munu nokkrar fjölskyldur hafa búið þarna samtímis, stök herbergi voru leigð út. Árið 1920 er íbúafjöldi hússins 20 manns og virðist húsið þá skiptast í fimm íbúðarými. Á meðal íbúa það ár má nefna þau Konráð Friðgeir Jóhannsson og Svövu Jósteinsdóttur og syni þeirra Jóhann Friðgeir og Gunnar (þá óskírður). Konráð, sem var gullsmiður, gekk undir nafninu Konni gull og eru afkomendur þessa heiðursfólks kallaðir Konnarar. Fjöldi þeirra sem búið hefur í Lundargötu 2 þessa tæpu hálfa aðra öld, hlýtur að skipta hundruðum, ef ekki þúsundum! Síðustu áratugi hefur húsið verið einbýli.
Húsið hlaut gagngerar endurbætur á 10. áratug 20. aldar og miðuðust þær við upphaflegt útlit hússins. Fyrir þeim framkvæmdum stóðu þau Gylfi Gylfason og María Jóhannesardóttir, eftir teikningum Finns Birgissonar. Hlutu þau viðurkenningu Húsfriðunarsjóðs Akureyrarbæjar vorið 1996 fyrir framtakið og voru sannarlega vel að því komin. Hefur húsið æ síðan hlotið afbragðs viðhald. Húsið hefur skv. Húsakönnunum 1995 og 2020 hátt varðveislugildi sem hluti af heild, eitt af elstu húsum Oddeyrar og hluti heildstæðrar götumyndar. Þá er það vitaskuld aldursfriðað. Nú munu reyndar blikur á lofti varðandi aldursfriðun; rætt er um að afnema 100 ára regluna svokölluðu. Þykir höfundi það afleitt, nema til komi mjög rúm skilyrði til friðunar yngri húsa og þætti verulega fúlt, hreint út sagt, ef ævarandi skotleyfi til niðurrifs yrði á hús frá þriðja og fjórða áratug 20. aldar! En það er efni í annan pistil. Lundargata 2 er til mikillar prýði og setur skemmtilegan svip á umhverfi sitt, turninn meðal kennileita á Oddeyrinni. Myndirnar eru teknar 8. ágúst 2022.
Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)
Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 224, 6. júní 1902. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf
Jóhannes Jósefsson. 1964. Jóhannes á Borg. Minningar glímukappans. Stefán Jónsson skráði. Reykjavík: Ægisútgáfan
Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
Bloggar | Breytt 9.8.2022 kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 2
- Sl. sólarhring: 18
- Sl. viku: 230
- Frá upphafi: 445782
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 157
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar