Hús dagsins: Aðalstræti 62

 pa230005.jpgAðalstræti 62 reisti Hallgrímur Kristjánsson gullsmiður árið 1850. Er það nokkuð hefðbundið að gerð fyrir hús þess tíma, einlyft með bröttu risi, dyr fyrir miðju og gluggar sitt hvoru megin við þær. Húsið er klætt steinblikki og bárujárni á þaki og í því eru nýlegir sexrúðugluggar Í Akureyrarbók Steindórs Steindórssonar (1993) er þetta hús sagt eitt af fáum eldri húsum sem enn standa lítið breytt frá upphafi og nefnt að þar séu enn upprunalegar hurðir, yfir 140 ára gamlar. Hafi þeim ekki verið skipt út gildir hið nákvæmlega sama- nema hvað hurðirnar eru þá orðnar 160 ára. Sennilega hefur lítið sem ekkert verið byggt við húsið. Húsið hefur tiltölulega sjaldan skipt um eigendur miðað við aldur var t.d. í eigu sama manns frá 1930-80 og dóttur hans eftir það, og er hún eigandi þess þegar áðurnefnd er Akureyrarbók er rituð 1993. Þessi maður var Ármann Dalmannsson, forstjóri og mikill skógræktarfrömuður og mun hann hafa ræktað lóðina upp að mestu. En hún er víðáttumikil og hana prýðir mikill og smekklegur trjágróður en slíkt er alls ekki óalgengt með húsin í Fjörunni. Bæði gróskumikill garðurinn og húsið eru til mikillar prýði í umhverfinu sem er svo sannarlega ekki af verri endanum- en margir telja Fjöruna og Aðalstrætið einn mest aðlaðandi stað Akureyrar, þar sem gömlu húsin og grónu garðarnir standa undir snarbrattri Bæjarbrekkunni. Ekki spillir að viðhald bæði húsanna og lóðana er nær undantekningalaust fyrsta flokks. Gatan er líka vel staðsett, því allir sem eiga leið til eða frá Flugvelli eiga leið þar framhjá og einnig blasir hún við öllum sem eiga leið um þjóðveg 1 austan að. Þessi mynd er tekin 23.okt. 2010. 

Heimild: Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

 


Hvítt um að litast

Þessar myndir bæta svosem litlu við fréttina en gefa einhverja mynd af skyggninu. Þær eru teknar núna laust um klukkan eitt norðarlega á Eyrinni við Grenivelli og við verslun Hagkaups. Þessi hvellur bætir einhverju við snjóalögin frá síðasta mánuði en þau voru nánast upp urin eftir miklar hlákur og "hitabylgju". Og m.t.t. þessarar sendingar af snjó þá ætla ég að fullyrða það að jólin verði hvít hér fyrir norðan Smile

.pc170025.jpg  pc170024_1048589.jpg pc170026.jpg


mbl.is Vonskuveður á Norðurlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Daginn fer fljótlega að lengja...

Einhvern vegin dettur mér í hug að þetta sé ekki tilviljun, að þessi tillaga komi á u.þ.b. 7. stysta degi ársins, þ.e. viku fyrir vetrarsólstöður.  En eftir það liggur leiðin víst uppávið og að tveim mánuðum liðnum verður farið að daga um svipað leyti og vinnudagur hefst um klukkan 8. Myrkir morgnar eru þannig eitt af örfáum "vandamálum" sem lagast af sjálfu sér. Á þessum tíma árs finnst mörgum það vissulega ónotalegt að vakna um sjöleytið- ef ekki fyrr, í svartamyrkri vitandi það að það mun ekki birta næstu 3-4 klukkustundirnar. En því miður er það líka svo að lengd dagsbirtu er ekki hægt að breyta- ef við látum daga seinna þá færist kvöldið að sama skapi fram og myrkvar fyrr. Og hvort er betra eða verra- það er svo aftur  álitamál. 


mbl.is Vilja seinka klukkunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús dagsins: Aðalstræti 80

 Aðalstræti 80 er eitt fyrsta steinsteypta íbúðarhúsið í Innbænum.pa230003.jpg Er það reist 1914 af Páli nokkrum Jónassyni. Er þetta einlyft á kjallara með risi og forstofubyggingu á norðurgafla; ekki er mér ljóst hvort hún hefur verið frá upphafi eða komið seinna. En húsið er nokkuð keimlíkt algengri gerð smærri timburhúsa, en slíkt er nokkuð einkennandi fyrir elstu steinhúsin. Enda um nýtt byggingarefni að ræða og kannski skiljanlegt að menn hafi ekki anað strax útí einhverja tilraunastarfsemi að byggja einhver furðuhýsi. Og Aðalstræti 80 er svo sannarlega ekkert furðuhýsi heldur stílhreint og látlaust og til mikillar prýði. Það mun vera einbýlishús og hefur líkast verið alla tíð. Eins og algengt er um húsin í Aðalstræti er lóðin stór og hana prýðir mikill gróður. Þessi mynd er tekin 23.október 2010.


Hús dagsins: Brekkugata 23-29

p6170059.jpgHér er kannski frekar um að ræða götu dagsins en meðfylgjandi er húsaröð við Brekkugötu. Brekkugata liggur skáhallt uppúr Miðbæ Akureyrar og að norðausturhorni Brekkunnar að Hamarkotsklöppum. Oddeyrargata gengur svo skáhallt í gagnstæða átt og sker götuna við Amtsbókasafnið sem er nr. 17. ( Það munar ca. 50m að Bókasafnið nái inn á þessa mynd). Neðan Oddeyrargötu er elsti hluti götunnar, þar eru hús frá 1900-1915 en efri hlutinn byggðist að mestu eftir 1920. Hús nr. 19 og 21 voru eldri en þau hafa nú bæði vikið, hið fyrra fyrir áratugum síðan en nr. 21, sem byggt var 1906 var rifið í júní 2002. Það hús var tvílyft timburhús með lágu risi, bárujárnsklætt á háum kjallara. En að húsunum á myndinni.

Talið frá vinstri er fyrst Brekkugata 23. Það er tvílyft steinhús með háu risi og miðjukvisti, byggt árið 1926. Það er með lagi gömlu timburhúsanna en það var ekki óalgengt með eldri steinsteypuhús; menn fóru varlega í að þróa steinsteypustíl. Hinsvegar er  skrautstíll á kvisti og göflum næsta húss, Brekkugötu 25 en það er árinu eldra, byggt 1925. Bogadregnir kantarnir eru undir áhrifum frá svokölluðum Jugendstíl- en hann er enn meira áberandi á næsta húsi, 27A sem byggt var 1930. Á milli 25 og 27a gengur Sniðgata. Númer 27 er reist 1924, einlyft steinsteypuhús með sérstöku kantskrauti, einskonar tröppum. Númer 29 sem byggt er 1926 er tvílyft fjórbýlishús með risi og á því húsi eru tvær burstir- en burstabæir veittu stundum innblástur við byggingu timbur- eða steinhúsa. Myndin er tekin um tvöleytið aðfararnótt 17.júní 2010. (Myndin minnir kannski á það að eftir tæpar tvær vikur eru vetrarsólstöður og daginn fer því senn að lengja ;)


"Gömul brú að landi skríður" II : Brúin hin nýja

pb140064.jpgÍ síðasta pistli var ég að fabúlera um  misskilning á dægurlagatexta og setti inn í tengslum við það mynd af einni af hinum 87 ára Þverbrautarbrúm, nánar tiltekið þeirri vestustu og stystu sunnan flugvallar. Nú liggur flugbrautin reyndar yfir gamla veginn örfáum metrum frá sporði þeirrar brúar. En í framhaldi af því er kannski rétt að birta mynd af brúnni og veginum sem tók við af þeim gömlu; Leiruveginn. Hann var lagður 1986, er nokkrum árum yngri en mjög svipaður vegarkafli sem er vegurinn yfir Borgarfjörð.  Hér er horft yfir Leiruveg og yfir á Innbæinn og Bæjarbrekkurnar ofan úr Vaðlaheiði þann 14.nóvember 2009.  Í forgrunni eru barrtré í Vaðlareit. Gatnamótin fyrir miðri mynd  geta stundum reynst varasöm, þ.e. beygjur og sveigjur geta villt þeim sýn sem koma framan að sýn þ.a. þeir vanmeta fjarlægðina í bílana sem koma austan og vestan að. Þarna hefði ég jafnvel sagt að sniðugt væri að hafa hringtorg.

 

 

 


Gömul brú að landi skríður...!?

Margir þekkja eflaust dægurlagið sígilda  með Náttúrubörnum, Vetrarnótt. Lagið og textinnp8090017.jpg er eftir Ágúst Atlason og kom út um 1970.  En í viðlaginu segir "Fögrum skrúða landið skrýðist  / slíkum vetrarnóttum á"  Þegar ég heyrði þetta lag fyrst heyrðist mér endilega eins og í textanum segði : "Gömul brú að landi skríður / slíkum vetrarnóttum á". (Hvernig svosem stóð á því að  brúin skriði Woundering.) Þennan texta læt ég fylgja með þessari mynd af einni af fyrstu steinbrúm yfir Eyjafjarðará en hún var reist 1923 og er ein af þrennum sem brúa óshólma Eyjafjarðarár sunnan Flugvallar (sem auðvitað kom löngu seinna)  og þóttu mikið stórvirki og samgöngubót. Brýr þessar voru hluti af Þjóðvegi 1 til ársins 1986 er Leiruvegur var opnaður en nú er þessi vegur sem kallast Þverbrautin notuð sem göngu- og reiðleið. Ég var þarna á ferðinni á hjóli þegar ég smellti þessari mynd af á góðviðrisdegi sl. sumar (9.ágúst). En brúm yfir Eyjafjarðará hef ég áður gert skil, sjá hér


Hús dagsins: Aðalstræti 36

pa230007.jpg

Aðalstræti 36 var reist af manni að nafni Geir Vigfússon árið 1877 en húsið reisti hann á rústum torfbæjar sem hann hafði reist um tuttugu árum fyrr. Þeir hafa verið nokkuð samtíða í því, nágrannarnir Geir og Davíð í Aðalstræti 34, því hann reif einnig torfbæinn sinn og reisti veglegt timburhús í staðinn sama ár, 1877. (Hugsanlega hefur ríkt góðæri þarna- allavega endaði árið á lukkutölunni 7 eins og alræmt góðærisár nokkrum mannsöldrum síðar Smile ) En nóg um það. Aðalstræti 36 er einlyft, látlaust timburhús með portbyggðu risi, klætt einskonar járni eða álklæðningu- en aftur úr gengur einlyft viðbygging með lágu risi. Hún er líkast til síðari tíma viðbót. Gluggum hefur verið breytt og eru í þeim einfaldir póstar en hafa líkast til verið sexrúðu eða krosspóstar í upphafi. Húsið er einbýli eftir því sem ég best veit og var í áratugi í eigu sömu fjölskyldu, afkomenda Geirs. Ein þeirra var alþýðulistakonan Elísabet Geirmundsdóttir (1915-1959) en eftir hana liggja mörg málverk, skrautmunir og styttur.

Þessi mynd er tekin  23.október 2010 og skartar snjóföl og nánast grænum trjám og gróðri. Haustið hér fyrir norðan var nefnilega með eindæmum gott og trén þurftu ekkert að flýta sér að gulna. Nánast ekkert var um stórrigningar eða hret og vind hreyfði lítið þ.a. laufin héldust lengi á trjánum. Í fleiri vikur september- október var sólskin í hitinn í tveggja stafa tölum. Svo kom veturinn bara alltíeinu í kringum 20.okt og aðra helgi í nóvember kom svo fyrsti stórhríðar- og ófærðarhvellurinn. Nú hefur haldist snjóalag samfleytt frá októberlokum - og er það orðið sjaldgæft. Og vel gæti ég trúað að jólin yrðu hvít. En það má nánast segja að ekkert haust hafi komið hér norðan heiða- bara sumar langt fram í október og svo veturinn svo beint í framhaldinu af fullum þunga. 


Hús dagsins aftur í gang.

Að þessu sinni eru hús dagsins tvö sem er óvanalegt- en kemur til að því að ég var búinn að skrifa pistlana en náði aldrei að setja inn myndirnar. Síðan komst ég að raun um það að ég var búinn að taka upp allt frítt pláss- enda telja myndirnar á síðunni yfir 200. Þannig að ég splæsti í auka diskpláss sem gæti rúmað myndir af ca. hálfri Akureyri og get því haldið áfram að birta eitthvað af húsum og fróðleiksmola um þau.

Hús dagsins II: Fróðasund 10a

Fróðasund pa100009_1045338.jpger stutt og yfirlætislaus gata á Oddeyrinni sem liggur gegn um Lundargötuna, samsíða Gránufélagsgötu og Eiðsvallagötu. Svona til útskýringar fyrir þá sem ekki þekkja til þá afmarkast elsti hluti Oddeyrar af Glerárgötunni sem er þjóðvegur nr.1 og liggur í N-S. Strandgata liggur síðan niðureftir eyrinni syðst og liggur í A-V. Norður úr henni ganga eftirfarandi þvergötur talið að ofan Lundargata, Norðurgata, Grundargata, Hríseyjargata og loks neðar er Hjalteyrargata. Samsíða Strandgötu er síðan Gránufélagsgatan og Eiðsvallagata. Fróðasund er semsagt götustubbur sem gengur gegn um Lundargötu á blettinum milli Gránufélagsgötu og Eiðsvallagötu. 

Fróðasund 10a stendur neðst við götuna. 

Það var Sigurður Sigurðarson verlsunarmaður hjá Gránufélaginu sem byggði húsið árið 1877. Þá mun húsið hafa verið einlyft timburhús með háu risi. Húsið mun vera þriðja elsta húsið, sem enn stendur á Oddeyri. Um 1890 er eigandi hússins Karl Kristjánsson. Árið 1917 voru öll hús á Akureyri brunabótavirt í fyrsta skipti. Eru þessar brunabótavirðingar mjög öflugar heimildir um byggingasögu húsa því þar kemur fram m.a. nákvæm lýsing húsa útlitslega séð og einnig eru þáverandi eigendur  tilgreindir. Eigandi árið 1917 var Bjarni Hjaltalín og mun húsið hafa kallast Hjaltalínshús á þeim tíma. Það heiti fluttist raunar um eina götu neðar á Eyrina seinna en nú þekkja margir Grundargötu 6 sem Hjaltalínshús.

Árið 1945 var komið að þáttaskilum hjá tveimur gömlum timburhúsum við Norðurgötu, nefnilega þessu húsi, Norðurgötu 7 en einnig næsta húsi Norðurgötu 9. Bæði húsin voru flutt í heilu lagi á auðar lóðir milli Lundargötu og Norðurgötu við götustubbinn Fróðasund, á lóðir númer 10a og 11 og bæði húsin standa enn á þeim stöðum.

Fróðasund 10a er einlyft timburhús með háu risi á steyptum kjallara, klætt steinblikki. Lítill inngönguskúr er stendur austan á húsinu. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús líkast til lengst af einbýli líkt og síðustu áratugi en þó er ekki ólíklegt að einhvern tíma á fyrri hluta 20.aldar hafi búið þarna nokkrar fjölskyldur í einu. Þessi mynd er tekin í haustsólinni 10.október 2010.

Fróðasund 10b var annað hús sem stóð austan við þetta hús, eiginlega bakhús við Gránufélagsgötu. Það var rifið um 1998. Var það einnig flutt á lóðina á svipuðum tíma og 10a en hafði áður staðið neðar á Eyrinni, upprunalega byggt sem lítið iðnaðarhús. Það var einlyft, forskalað timburhús með risi sem var all sérstætt, þ.e. það var síðara og meira aflíðandi öðru megin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 37
  • Sl. sólarhring: 41
  • Sl. viku: 300
  • Frá upphafi: 450429

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 197
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband