Hús dagsins: Strandgata 19b

Eitt af tilkomumestu húsum Oddeyrar stendur bakatil á horni Glerárgötu og Strandgötu, en það er nr. 19b við síðarnefndu götuna. pa100014.jpgÞað er byggt árið 1906, einlyft timburhús með háu portbyggðu risi, (lofthæð virðist dálítið meiri en gengur og gerist) á miklum kjallara. Helstu sérkenni hússins er glæsilegur miðjukvistur sem skagar fram fyrir húsið og er neðri hæð kvistsins anddyri. Þar eru skrautpóstar í gluggum og einnig er húsið skreytt útskurði; hefur öll helstu einkenni Sveitserhúsa. En Strandgötu 19b reisti Sigurjón Jóhannesson og nefndi hann húsið Laxamýri en hann hafði verið bóndi á Laxamýri í S-Þingeyjarsýslu um  áratugaskeið áður en hann reisti húsið. Sigurjón var faðir Jóhanns Sigurjónssonar rithöfundar og ljóðskálds, en meðal þekktra verka hans eru  leikritin um Galdra-Loft og Útilegumennina. Ýmisleg starfsemi hefur verið í þessu húsi, en lengi vel um og eftir miðja 20.öld átti Hjálpræðisherinn húsið og hafði þar samkomusal og aðstöðu. Þá átti bærinn húsið um árabil og hafði þar skrifstofur. Sl. 15-20 ár hefur húsið hins vegar verið íbúðarhús. Húsið er stórglæsilegt  og vel við haldið og hefur líkast til verið það alla tíð. Í húsinu er ein íbúð. Myndin er tekin í brakandi haustblíðu rétt um hádegi sl. sunnudag á þeirri skemmtilegu dagsetningu 10.10.'10.


Haustlitir á Akureyri 10.10.10

Rétt fyrir hádegi í dag brá ég mér í göngutúr um Oddeyrina með myndavélina. Trjágróðurinn skartaði sínu fegursta í haustblíðunni og ætla ég að láta myndirnar að mestu tala sínu máli.

pa100005.jpg   pa100007_1033674.jpg 

pa100015.jpg  pa100013.jpg


Hús dagsins: Wathne hús (stóð neðst við Gránufélagsgötu)

Hvað hefur orðið af Húsum dagsins ? Einhverjir kunna að spyrja þessarar spurningar enda hefur ný færsla af því taginu varla sést svo vikum skiptir, og langur tími líður orðið á milli. En hér með bæti ég úr því. En ástæðan fyrir Húsaleysi er einfaldlega sú að farið er að fækka verulega í húsamyndasafni mínu og ég ekki komið í verk að mynda fleiri. Þá er ég nú búinn að gera stórum hluta af eldri bæjarhlutum Akureyrar skil, enda telst mér til að í myndasafninu Hús og Byggingar séu nú 113 myndir. Og ekki gengur að ég myndi of mörg hús og setji hér inn. Því þá myndi það enda með að enginn þyrfti að koma til Akureyrar, það myndi bara nægja að kíkja á síðuna hér og skoða bara bæinn eins t og hann leggur sig!! Smile 

En að húsinu hér á myndinni. Þetta hús stóð í 107 ár neðst við Gránufélagsgötu, alveg við sjávarsíðuna á (þar sem seinna varð ) athafnasvæði Kjötiðnaðarstöðvar KEA ( nú Norðlenska). p5290049.jpgEn það reisti norskur athafna- og útgerðarmaður, Wathne að nafni árið 1895 Húsið er einlyft með risi og miðjukvisti, og lofthæð og stærð hússins mikið meiri en almennt tíðkaðist þá Enda var þetta iðnaðarhúsnæði; þarna hafði Wathne síldarsöltunarstöð en hann reisti einnig ýmis önnur vöru- og verksmiðjuhús þarna á Oddeyrartanga. Á þessum árum voru umsvif norskra síldveiðimanna mikil á Eyjafjarðarsvæðinu og kannski einna mest við Siglufjörð. Reistu Norðmennirnir mörg hús sem fæst standa enn, enda var oft um að ræða tímabundin húsnæði sem ekki voru hugsuð til frambúðar. Síldarsöltunin var líkast til starfandi í húsinu einhver ár fram yfir 1900 en á eftir þjónaði það sem iðnaðar- og geymsluhúsnæði hvers konar. Ekki skal ég fullyrða um að aldrei hafi verið búið í því.  Um 2000 hafði húsið staðið lítið notað og lítið viðhald fengið svo árum skipti og farið að láta á sjá og til stóð að rífa það. En 2002 var það flutt þar sem það stendur nú á plan á Krókeyri, skammt norðan Akureyrarflugvallar. Þar bíður það þess að vera gert upp en ekki veit ég hvort ætlunin er að láta það standa þarna áfram eða finna því annan stað. Alltént er húsið ekki á varanlegum grunni. Þessi mynd er tekin 29.maí 2010. 


Hlíðarskál með mánaðar millibili.

p9300003.jpg  P8300081

Fyrir um mánuði síðan fjallaði ég um Hlíðarskál og setti þá inn myndina hér hægra megin. Hún er tekin 30.ágúst, fyrir réttum mánuði. Nú í kvöld átti ég leið uppá Súlumýrar og tók þá myndina vinstra megin. Hún er þ.a.l. tekin 30.sept þ.a. á milli myndana er réttur mánuður. Eins og sjá má hefur fönnin látið enn meira undan; sjá má t.d. í fönninni vinstra megin í skálinni grjót eða sandblett sem rétt er byrjað að bráðna ofanaf 30.8. en 30.9. er þetta efsta lag yfir blettinum nánast alveg farið, auk þess sem fönnin er snöggtum minni. Þetta gerist þrátt fyrir að komið hafi haustsnjóar og Hlíðarfjallið um tíma verið alhvítt í þessari hæð fyrir 1-2vikum síðan. Þessir fyrstu haustsnjóar hafa meira og minna látið undan miklum hlýindum sem hafa verið ríkjandi þessa vikuna. Hitinn að öllu jöfnu 10-15°C, sól og hressilegir sunnanvindar hafa verið ríkjandi. Og á morgun byrjar október.*

*Reyndar getur  10-15°C hiti og sunnanátt komið í hvaða mánuði sem er, jafnvel í janúar og febrúar. Því fylgja þá ógurlegar asahlákur.


Hús dagsins: Aðalstræti 6

Aðalstræti 6 er eitt af elstu húsum Akureyrar en það er byggt um 1845. p5290054.jpgFyrsti eigandi og íbúi var Grímur Laxdal bókbindari en óvíst er hvort hann byggði húsið. Húsið hefur líkast til upprunalega verið einfalt að gerð, einlyft með bröttu risi, ekki ósvipað og t.d. Laxdalshús. Stefán Thorarenssen, sem eignaðist húsið á eftir Grími (1862) stækkaði húsið hinsvegar og hefur líkast til byggt tvílyftu turnbygginguna sunnan við húsið.  Miðjukvistur hefur svo komið seinna og þá hefur einhverntíma verið byggt aftan við húsið, bæði skúr og inngöngupallur. Árið 1870 eignaðist húsið Hendrik Schiöth bakarameistari. Hendrik og Anna Schiöth, kona hans, voru áberandi fólk í bæjarlífinu á seinni hluta 19.aldar  en hann sinnti auk bakarastarfsins póstafgreiðslu og gjaldkerastörfum og mun sú afgreiðsla hafa verið í þessu húsi- og enn mun vera merki um peningaskáp í skorsteini hússins. Anna Schiöth var mikill garðayrkjufrömuður og ein stofnenda Lystigarðsins. Þá var hún mikilvirkur ljósmyndari og margar gamlar myndir til af Akureyri og Akureyringum eftir hana. Schiöth hjónin bjuggu hér til dauðadags, hún lést 1921 en hann 1923. Síðan hafa margir átt og eða leigt hér. Nú munu vera tvær íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð. Húsið er bárujárnsklætt og gluggapóstar einfaldir og enda þótt það sé gjörbreytt frá upphafi er það til mikillar prýði og vel við haldið. Þessi mynd er tekin sl. vor, 29.maí 2010.  ( Vegna staðsetningar er líklegt að vel flestir sem heimsótt hafa Akureyri kannist við Aðalstræti 6  en það er beint á móti mjög vinsælli ísbúð, Brynju. Það er í huga margra ein af skylduheimsóknum þegar komið er til Akureyrar að kíkja í Brynju og fá sér hinn óviðjafnanlega Brynjuís. ) 

 


Brjáluð stemning í Þorpinu

Ég var staddur á Þórsvellinum og sá þessa líka rosalegu flengingu á Austfirðingunum, og þvílíkt og annað eins! Á fyrstu 9 mínútunum sölluðust niður tvenn mörk og í fyrri hálfleik höfðu Þórsarar skorað hvorki meira né minna en 5 mörk.  Við félagarnir göntuðumst fyrir leikinn, spáðum sigri á borð 6-0 o.s.frv. og í byrjun spáði ég að þetta færi 7-1, en það var nú ekki mikli alvara á bakvið það. Fjarðarbyggð átti þarna nokkra stuðningsmenn sem höfðu hátt þar til að ca. sjötta, sjöunda mark var í höfn. Það var mikil stemning og fögnuður þegar flautað var til leiksloka en næstu mínútur strax á eftir voru rafmagnaðar og á stundum mátti heyra saumnál detta í stúkunni. Því nú var beðið tíðinda að sunnan, hvernig Leiknis- Fjölnisleikurinn færi. Þegar úrslitin sunnan heiða urðu ljós braust svo út rosalegur fögnuður- enda ærin ástæða til!  Óska Þórsurum til hamingju með úrslitin og úrvalsdeildarsætið! :-)
mbl.is Þór í úrvalsdeild - Fjarðabyggð féll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðarbyggðarfjall

P6190022Þegar horft er til suðurs frá Akureyri og fram Eyjafjörðinn blasir næst við þetta ábúðarmikla fjall sem sést fyrir miðri mynd hér til hliðar. Er það Staðarbyggðarfjall (1118m y.s.). Fjallið tengist mikilli og breiðri hásléttu sem liggur milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals/Bleiksmýrardals og er tálgað af ísaldarjöklum inní jarðlagastaflann sem mun elstur vera 9-10 milljóna ára. Austan fjallsins liggur Garðsárdalur, ákaflega langur og víðlendur en hann var í byggð fram undir 1965*. Þar er vinsæl gönguleið um skarð sem nefnist Gönguskarð yfir í Fnjóskadal. Að vestan er Þverárdalur og sést hann til hægri á myndinni ásamt Tungnafjalli (um 1100m) sem gægist þarna á milli aspartrjánna. Staðarbyggðarfjall er nokkuð bratt og hvasst syðst en eftir því sem norðar dregur verður það ávalara og er nyrðri hlutinn lægri og bungulaga, kallast Öngulstaðaöxl. Hæst rís fjallið í Uppsalahnjúk, 1118 m y.s. en Öxlin er um 5-600m. Auðvelt er að ganga á Staðarbyggðarfjallið og er þá hægt að velja um að fara að norðanverðu upp Öxlina eða bakatil frá Garðsárdal. Þá er hægt að fara beint upp að vestanverðu (framanverðu, af svæðinu við Laugaland og Uppsali) þar sem fjallið er hæst en það er töluvert brött leið. Tvisvar hef ég farið á Staðarbyggðarfjallið, sumarið 1991,  í fyrra skiptið frá Garðsárdal en í seinna skiptið upp Öngulstaðaöxlina að norðanverðu. Fyrra skiptið, 29.6.1991,  var einmitt í fyrsta skipti sem ég gekk uppá fjall. Garðsárdalsleiðin man ég að var ekki tiltakanlega brött, byrjaði í hálendismóum en fikraði sig upp í gróðursnauða mela. Efst eru miklar og ávalar bungur  og mikið af "fölskum tindum" og tekur maður varla eftir því að maður er komin á toppinn fyrr en maður sér útsýnið.  Það má sjá á myndunum hér að neðan; Eyjafjarðarsveitin blasir öll við fyrir neðan en útsýni til vestur er verulega takmarkað af Súlnafjallgarðinum sem er miklu hærri. Þá er geysigott útsýni út Eyjafjörðinn og einnig sést til austurs og suðurs inná hálendið.

Scan10002 

Hér er horft af efri hluta Öngulstaðaaxlar yfir fjörðinn og við blasir fjallaröðin austan ár; f.v. Möðrufellsfjall (900m) . Þá ber Kerlingu (1538m)  hæst ásamt tindaröðinni sem gengur framan úr henni og kallast Röðullinn. Dalurinn milli Möðrufellsfjalls og Kerlingar heitir Finnastaðadalur. Þá koma Þríklakkar (um 1400m) og Bóndi (1361m) ca. fyrir miðri mynd. Þá er mikil slétta sem er rofin af innskotunum Litla- og Stóra Krumma. Lengst til hægri rís svo líparítkamburinn sem gengur að Syðri Súlu. Lengst til vinstri ber í Hvassafellsfjall og Skjóldal sem liggur milli þess og Möðrufellsfjalls.  Myndin er tekin sumarið 1991, sennilega 29.júní. Scan10003

Hér er aftur horft til norðurs út fjörðinn þar sem Eyjafjarðaráin liðast að ósum við Hólmana. Súlumýrar, Kjarnaskógur og Akureyri vestan megin (t.v.) en Kaupangssveit, Svalbarðsströnd og hlíðar Vaðlaheiðar að austan (t.h.). Kaldbak má síðan sjá lengst í norðri. Ég man hreinlega ekki hvort þessar myndir eru úr sömu göngunni, en tel það þó líklegast.  Miðað við snjóalög í fjöllunum hinu megin (sjá mynd í miðju) sýnist mér þetta frekar vera tekið í lok júní en um miðjan ágúst. Alltént eru myndirnar frá sumrinu 1991. Efsta myndin er hins vegar tekin á miðnætti 19.júní 2006, en Staðarbyggðarfjallið fær þennan skemmtilega bleik-fjólubláa lit í miðnætursólinni.

* Síðasta býlið í Garðsárdal, Þröm, fór í eyði 1965.

 


Hús dagsins: Spítalavegur 9

P7310010Spítalaveg 9 reisti Guðmundur Hannesson héraðslæknir árið 1899. Mun hann hafa teiknað og ráðið allri gerð hússins en það er undir miklum áhrifum frá Sveitserstílnum norska og er eitt fyrsta hús slíkrar gerðar hér á landi. Sveitserhúsin voru vinsæl meðal efnamanna 1900-1910 en eftir það fór að draga úr byggingu timburhúsa og steinsteypan fór að sækja í sig veðrið. En húsið er einlyft timburhús á lágum kjallara. Skiptist í tvær "álmur", grunnflötur vinkillaga en hlutinn  sem sést á myndinni snýr göflum austur-vestur. Húsið var eins konar læknisbústaður en eftirmaður Guðmundar , Steingrímur Matthíasson (Jochumssonar) keypti húsið af honum. Sjúkrahús Akureyrar frá 1898 til 1953 stóð rétt ofan við Spítalaveg 9 og var hann reistur fyrir tilstilli Guðmundar. Var það mikið stórhýsi, einlyft með tveimur burstum og skreytt útskurði og þótti mikil bylting frá gamla sjúkrahúsinu í Aðalstræti. Það hús var svo tekið niður um 1955 en byggt upp aftur í Hlíðarfjalli sem skíðahótel. En Steingrímur Matthíasson bjó í húsinu til 1936 og síðan hefur það skipt um eigendur þó nokkrum sinnum. Húsið er einbýli og hefur að ég held verið það frá upphafi. En eins og sjá má er Spítalavegur 9 stórglæsilegt hús og í góðri umhirðu. Myndin er ein nokkurra sem ég tók á göngu um Innbæinn 31.7. 2010. En menn munu víst ekki vera sammála hvort telja eigi Spítalaveg til Innbæjar eða Brekkunnar. Hann tengir þessa bæjarhluta saman en sjálfum er mér tamt að telja Spítalaveginn til Innbæjarins og Brekkan byrji þá við Lystigarðinn.

Hús dagsins: Hafnarstræti 23

Hafnarstræti 23 reisti Peter F.H. SchiöthP7310004, danskur bakarameistari árið 1903. Hann hafði veitt Brauðgerð Höepfnersverslunar forstöðu í tugi ára, en brauðgerðin, sem hóf rekstur 1867 mun hafa verið sú fyrsta á Akureyri. Húsið kom í stað veglegs brauðgerðarhúss sem brann 1903 en á gömlum myndum má sjá að það var einlyft timburhús með mikilli turnbyggingu, þrílyftri á framhlið. Það hús reisti Vilhelmína Lever árið 1835 en hún var einn helsti stórlax bæjarins um og eftir miðja 19. öld og kaus m.a. fyrst kvenna hér á landi árið 1863. En Hafnarstræti 23 er einlyft timburhús á háum kjallara. Á suðurgafli er tvílyft inngönguhús með svölum og útskornu skrauti. Húsið ber einkenni svokallaðra Sveitserhúsa, en það voru stórhýsi að norskri fyrirmynd (mörg komu tilhöggvin að utan) og þóttu með fínasti húsakosti í byrjun síðustu aldar. Enda voru það yfirleitt efnamenn sem þau byggðu. En í húsinu var rekin brauðgerð um áratugaskeið, og tók sonur Peters, Axel við rekstri hennar. Hann eignaðist húsið 1927 en það hafði verið í eigu Höepfnersverslunar. Ekki veit ég hvenær nákvæmlega brauðgerð lagðist af í húsinu en einnig má vel vera að í kjallara hafi verið verslanir eða annar smáiðnaður eftir það. Nú eru í húsinu líklega einar fimm íbúðir. Knattspyrnufélag Akureyrar, KA, er stofnað í þessu húsi  8.janúar 1928. Meðfylgjandi mynd tók ég í Sögugöngu Minjasafns Akureyrar um Innbæinn laugardaginn 31.júlí 2010. Þarna sést drjúgur hluti þátttakenda en eins og sjá má var gangan nokkuð fjölsótt.


Hlíðarskál 30.8.2010

Það þótti á árum áður tíðindum sæta ef skálin í Hlíðarfjalli færi í sundur.

P8300081

Það er, að snjóhaft milli efri og neðri skálar nái að bráðna í sundur. Nú er það nánast orðið regla frekar en undantekning að það gerist og eins og meðfylgjandi myndir, sem teknar eru frá Sólborgarsvæðinu á 12.tímanum í morgun, sýna glögglega þá er Hlíðarskálin farin í sundur. (Það er reyndar svolítið síðan það gerðist, líklega rúm vika) En líklegt má telja að skálarnar komi saman aftur mjög fljótlega, því haft þetta er í um 1000m hæð og þar haustar ansi snemma. Það hefur t.d. þegar orðið vart við gráma í Súlum.

Á svipuðum tíma í fyrra tók ég Hlíðarskálina fyrir sjá hér og hér.

 

P8300082


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 276
  • Frá upphafi: 450434

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 176
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband