28.8.2010 | 16:43
Hús dagsins: Menningarhúsið Hof (Strandgata 12)
Held það hljóti að liggja beinast við að Hús dagsins sé Menningarhús okkar Akureyringa, Hof en það er vígt í dag (eða á nákvæmlega sama tíma og þessi orð eru skrifuð um 16:00). Er þetta óneitanlega dálítil undantekning hjá mér því langflest hús sem ég tek fyrir eru yfir sjötugt og oftar en ekki á öðru hundraðinu í aldursárum. En bygging þessa mikla húss, sem telst standa við Strandgötu 12 hófst haustið 2006 en 15.júlí þ.á. var fyrsta skóflustungan tekin en líklega telst byggingarár hússins vera 2010, þ.e.árið sem byggingu er lokið. Fjölmargir iðnaðarmenn og verktakar komu að byggingu hússins en hönnun var í höndum Arkþings ehf. En húsið mun vera 14m hátt á 4-5 hæðum, hringlaga að grunnfleti og klætt stuðlabergi. en í gegn um það mitt gengur mikill gangur ("almenningur") þar sem gengið er inní sali sem eru nokkrir misstórir. Þá er þarna kaffihús og minjagripaverslun og Tónlistarskóli Akureyrar hefur aðsetur sitt í húsinu. Hér er vefur hússins til nánari upplýsinga. Eins og allar stórframkvæmdir hefur bygging hússins ekki verið óumdeild og mörgum finnst húsið ljótt og óaðlaðandi og staðsetningin ekki til að bæta það. Margir telja einnig að fjármunum til byggingarinnar hefði verið betur varið í annað. En aðrir telja þetta mikla prýði og glæsilegt í alla staði og mikla lyftistöng fyrir menningarlífið í bænum. Að byggingin sé auk þess enn ein perlan í Miðbænum. Hinsvegar býst ég við að þegar fram líða stundir muni menn venjast húsinu og fyrr en varir þyki flestum það álíka sjálfsagt í bæjarmynd Akureyrar og t.d. kirkjan og kirkjutröppurnar, Samkomuhúsið og Lystigarðurinn. En myndin sem er hér efst t.h. er tekin fyrr í dag 28.ágúst 2010 á vígsludegi Hofs. Þá eru hér nokkrar svipmyndir innan úr húsinu:
Hér er horft inní og yfir aðalrými hússins. Á efri myndum er horft til suðurs inní kaffisal og út um glugga má greina glæsilegt útsýnið fram Eyjafjörð til Vaðlaheiðar. Á neðri mynd er svo horft yfir almenningin til norðurs, að aðalanddyri. Þar sjást inngangar inní salina Hamra og Hamraborgir ( nöfnin koma frá býlum í landi Akureyrar) og við aðalinngang er minjagripaverslun, sem mig minnir að heiti Hrím.
Hér er svo mynd frá 3.mars 2007 nokkrum mánuðum eftir að bygging hússins hófst. Komin mynd á kjallara og uppsláttur risinn fyrir útvegg.
Að lokum óska ég Akureyringum og landsmönnum öllum til hamingju með þetta nýja Menningarhús Akureyrar og vona að þetta eigi eftir að vera menninga- og listalífi og bæjarlífinu öllu til heilla.
![]() |
Menningarhús tekið í notkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2010 | 16:12
Myndir aðgengilegar
Myndir sem ég hef sett inn á síðuna hjá mér hef ég gert aðgengilegar undir albúminu "Hitt og þetta" hér til hliðar. Eru þetta allar myndir, aðrar en húsa- og bílamyndir, en þær hef ég ævinlega sett í sér albúm, samnefnd. Myndir sem settar eru í færslur utan albúma fara í hít sem kallast "Óflokkað" og virðast óaðgengilegar nema í færslunum sjálfum. (Má vera að hægt sé að stilla það þannig að óflokkaðar myndir sé hægt að gera aðgengilegar eins og albúmin, en ég hef ekki fundið útúr því). Svo er ekki útilokað að maður flokki hitt og þetta myndirnar enn frekar...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2010 | 01:19
Ekkert að vanbúnaði
Mörgum hættir til, þegar lagt er í lengri ferðir, að hoppa uppí bíl eins og þeir eru klæddir og halda svo af stað. Ef það er sól og blíða þaðan sem lagt er stað er sest inní bíl í stuttbuxunum og bolnum og svo- af stað...Það er að sjálfsögðu ekkert við því að segja- en hins vegar skyldi alltaf hafa með aukafatnað, skjólgóðar flíkur ef lagt er upp í langferðir. Og enda þótt bíllinn sé eins og hús á hjólum, þannig séð, þá er ágætis þumalputtaregla að búa sig í lengri bílferðir eins og maður sé á leiðinni út. Skjótt skipast veður í lofti og veðrið í Skagafirði getur t.d. verið allt annað veður en í Eyjafirði o.s.frv. Að auki liggur vegakerfið á löngum köflum í mörg hundruð metra hæð yfir sjó. Þó nútímabílar séu alls ekki bilanagjarnir og gangi að öllu jöfnu eins og klukkur má aldrei útiloka að bíllinn geti bilað eða verið stopp á leiðinni. Það getur hent hvaða farkost sem er. Og þá getur komið að því að einhver eða einhverjir þurfi að stíga út. Og ef t.d. enginn straumur er á bílnum, þá virkar heldur ekki miðstöðin, sem þýðir að í bílnum verður á endanum svipað hitastig og utan við hann.
Ein lítil saga þessu viðkomandi. Fyrir rúmum 10 árum var ég í helgarútilegu í Fálkafelli, sem er skátaskáli ofan Akureyrar. Þar í kring er á vetrum mikil umferð jeppa og vélsleða enda eru Súlumýrarnar alvöru öræfi, víðlendar og villugjarnar í ca 4-600m y.s. Þessa helgina var umferðin þarna nánast eins og á Miklubraut enda einmunablíða, skafheiðríkt og glampandi sól. Á laugardagskvöldinu sjáum við hvar einn verklegur jeppi er stopp, örfáum metrum frá skálanum. Fljótlega sjáum við að ekki er allt með felldu, hann reynir að hjakka en allt kemur fyrir ekki. Fljótlega eru jepparnir orðnir tveir, greinilega tveir félagar á ferð tvíbíla. Eins og sönnum skátum sæmir kíkjum við út og athugum hvort við getum ekki hjálpað. Maðurinn stekkur út og það var ógleymanleg sjón: Hann var í gallabuxum, stuttermabol og sandölum einum fata í jeppaferð um ófærur. Þess má geta að þetta var ekki að sumarlagi. Onei, þetta var um miðjan janúar, frostið var -15°C og allt um kring var um tuga cm jafnfallinn snjór. Vegna klæðnaðar gat fyrri maðurinn lítið aðhafst en mig minnir að vinur hans hafi þó allavega vega verið í einhverjum þykkri jakka. Hann var hins vegar bara með bara með derhúfu á höfði. Ekki man ég nákvæmlega hvernig þetta fór en þeir reyndust við eftirgrennslan hvorki hafa skóflu né kaðal og eftir klukkustunda árangurslaust bras og hjakk kom einhver á þriðja jeppanum og sótti þá. Einhvernvegin grunar mig að þessir tveir hafi ekki reiknað með að festast eða þurfa yfirleitt að fara útúr bílunum.
Bloggar | Breytt 24.8.2010 kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.8.2010 | 16:26
Hús dagsins: Aðalstræti 10; Berlín
Aðalstræti 10 reistu þeir Sigvaldi og Jóhannes Þorsteinssynir árið 1902. Var þetta verslunarhúsnæði frá fyrstu tíð og var verslunin á neðri hæð en íbúðir þeirra bræðra á efri hæðinni. Á gömlum myndum má sjá að inngangur var á miðri framhlið og gluggar voru talsvert stærri. Verslun þeirra kallaðist Berlín og húsið hefur gengið undir því nafni síðan. Erlendar stórborgir hafa verið bræðrunum nokkuð hugleiknar því um áratug síðar reistu þeir sitt hvort stórhýsið í Hafnarstræti og kölluðu þau París (Sigvaldi) og Hamborg (Jóhannes). Verslað var í þessu húsi um áratugaskeið en nú eru í húsinu tvær íbúðir, hvor á sinni hæð og geymslurými í kjallara. Húsið er þó nokkuð breytt frá upphaflegri gerð en er samt sem áður til mikillar prýði og vel við haldið. Þessi mynd er tekin þ. 31.7. 2010 í Sögugöngu Minjasafns Akureyrar um Innbæinn og eins og sjá má var hún vel sótt. (Þetta er raunar aðeins hluti þátttakenda sem sést á myndinni!)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2010 | 13:53
Fleiri tryllitæki; Trukkar ýmis konar
Hér koma nokkrar myndir af miklum trukkum sem hafa borið fyrir augu þar sem ég hef verið að viðra myndavélina á götum Akureyrar. Efst t.v. er Scania með allar græjur til vetrarviðhalds vega, snjótönn og hefil og sanddreifara á palli. (Í baksýn má greina mikinn gæðing, Land Rover árg. ca 1980 af lengri gerð). Myndin er tekin 17.mars 2007, við Borgarbraut. Þessi í felubúningnum mun vera Volvo. Þetta er ansi verklegur 6x6 hertrukkur sem nú hefur líkast til friðsamlegt hlutverk húsbíls. Þrátt fyrir dágóð snjóalög þarna er myndin nú samt tekin í maí, nánar tiltekið 10.5.2008. Þá koma næst þrjár glæsilegar Scaniur, fyrst "húddari" með sturtupalli af 141 gerð en næst er frambyggður "trailer". Aldursmunurinn á þeim gæti ég ímyndað mér að sé um 20-25 ár en trailerinn er glænýr "úr kassanum" á sýningu Bílaklúbbs Akureyrar 17.júní 2006. Næsta er einnig á sýningu BA 17.6.2006 en þar er önnur verkleg Scania, 4ra öxla tryllitæki. Veit ekki hvort hann hefur drif á þeim öllum, aftasti öxull gæti verið búkki til stuðnings. Allir framantaldir tryllitrukkar eiga það sameiginlegt að vera sænskir, en á myndinni neðst er þýska eðalstálið mætt til leiks; þetta er MAN trailer með malarpalli að leggja af stað frá Shell nesti (AK-Inn) við Hörgárbraut. Fyrsti vetrarsnjór liggur þarna yfir, en myndin er tekin í lok október 2004.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.8.2010 | 19:36
Held að það sé alveg kominn tími...
...á svosem eina tryllitækjafærslu. Hér eru nokkrar tryllitækjamyndir, teknar árin 2006-09 og þar sem ég sá að ég var búinn að setja þrjú rauð tryllitæki inn, fyrir tilviljun- þá var alveg eins gott að taka það bara alla leið- "rautt þema". Hér má m.a. sjá aldinn Willys, tveir Ford Mustang á misjöfnum aldri og traktorinn mun vera Massey Ferguson. Skoðanir kunna að vera skiptar á hvað telst tryllitæki og hvað ekki en ég mundi segja að allir þessir gæðingar verðskuldi svo sannarlega þá nafnbót.
Bloggar | Breytt 21.8.2010 kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2010 | 15:07
Hús dagsins: Þrjú hús (þ.a. ein kirkja) í Eyjafjarðarsveit, eftir Sveinbjörn Jónsson
Ég hef í sumar haldið mig nokkuð við hús Sveinbjarnar Jónssonar, sem jafnan er kenndur við Ofnasmiðjuna og hér eru nokkur þeirra til viðbótar. Húsin sem hann ýmist teiknaði, byggði eða kom að byggingu á, bara á Eyjafjarðarsvæðinu skipta tugum og sennilega hefði ég getað haldið úti þessum pistlum í svipaðan tíma (14mánuði) með svipuðu millibili og hingað til eingöngu um hús Sveinbjarnar. En hér birtast þrenn hús sem Sveinbjörn teiknaði og byggði úr R-steini árin 1920-25. Standa þau rétt framan Akureyrar en handan ár, og eitt raunar beint á móti.
Íbúðarhúsið að Syðri- Varðgjá stendur ofan við Vaðlareit, beint á móti Akureyri. En húsið er reist sumarið 1920 og er því með fyrstu R-steins húsunum. En fyrsta slíka húsið, Oddeyrargata 15 er jafn gamalt. Ábúendur þá munu hafa verið þau Stefán Stefánsson og Aðalbjörg Hermannsdóttir. En þau bjuggu hér frá 1904 til 1939. Árið 1990 hafði húsið skipt um ábúendur fjórum sinnum, síðast 1958 og eftir því sem ég best veit er enn sami ábúandi og þá. Fjárhús og hlaða eru sambyggð íbúðarhúsinu sem sjá má en þau komu nokkrum árum seinna eða 1927. Þessi mynd er tekin með aðdrætti frá vegamótum Leiruvegar og Eyjafjarðarbrautar Eystri.
Árið 1921 teiknaði Sveinbjörn hina glæsilegu kirkju við Kaupang, en hún var reist 1922 úr R-steini og vígð um jólaleytið það ár. Þetta glæsilega Guðs hús stendur um 6km frá Akureyri. Hún er nokkuð sérstæð að gerð og helsta sérkenni hennar er staðsetning turnsins á NV horni en eins og er alkunna er hefðin jafnan sú að kirkjuturnar séu á miðju, annað hvort uppá mæni eða framan við kirkjuskipið sjálft. Kaupangskirkja, sem tekur 90 manns í sæti, mun hafa verið tekin öll í gegn að innan árið 1988 og á henni virðist vera nýlegt þak. Þessi mynd er tekin frá Eyjafjarðarbraut eystri. Í baksýn eru klapparholt í hinu 700 m háa Kaupangssveitarfjalli. Það er kennt við sveitina sem aftur er kennd við Kaupang.
Hið forna burstabæjarform var Sveinbirni nokkuð hugleikið enda teiknaði hann þó nokkuð af þannig húsum.Eitt þeirra var íbúðarhúsið sem hann byggði sér að Knarrarbergi sem hér sést til hliðar. Knarrarberg stendur um 500m norðan við Kaupang. En það hús teiknaði hann og reisti 1924-25 og árið 1925 stofnaði hann þar nýbýli ásamt konu sinni, Guðrúnu Björnsdóttur. Hún var mikill garðyrkju- og hússtjórnarfrömuður og stundaði hún þarna húsmæðrakennslu. Bjuggu þau í Knarrarbergi til 1938 er þau fluttu suður til Reykjavíkur. En áður en þau fluttu hingað bjuggu þau í Gömlu Gróðrarstöðinnivið Eyjafjarðarbraut. Eitthvað hefur byggt við húsið í gegn um tíðina en það er tiltölulega lítið breytt annars og er vel við haldið. Þarna er einnig mjög gróskumikil garður, og mikil trjárækt. Nafnið Knarrarberg er dregið af því að skammt norðan bæjarins er Festarklettur en þar mun landnámsmaður Eyjafjarðar, Helgi magri hafa lagt skipi sínu, knerri en það voru einskonar flutningaskip landnámsmanna. Þá hefur sjórinn náð mikið lengra fram í fjörð en nú er þessi staður um 2km frá flæðarmáli. Myndirnar eru allar teknar sl. mánudag, þann 9.ágúst en þá brá ég mér í hjóltúr um þessar slóðir í brakandi blíðu og um 20°C.
Heimildir: Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson (1996). Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni 1896-1982. Reykjavík: Fjölvi.
Guðmundur Steindórsson, Jóhann Sigvaldason, Kristján Sigfússon (ritnefnd). (1993). Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Bloggar | Breytt 16.2.2022 kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.8.2010 | 14:15
Hús dagsins: Hafnarstræti 88
Bergsteinn Björnsson, athafnamaður, reisti hið mikla stórhýsi Hafnarstræti 88 árið 1900. Var það þá hæsta hús í bænum og eitt það stærsta en Snorrahús við Strandgötu 29 hefur líklega komist næst þessu húsi að stærð. En húsið er tvílyft timburhús á háum kjallara með háu risi og lofthæð virðist nokkuð mikil í húsinu. Húsið ber einkenni svokallaðra Sveitser húsa, en það voru norsk hús efnamanna, einkenndust af útskornu skrauti og miklum og oft sérstökum gluggum. Húsið er bárujárnsklætt og hefur líkast til verið það frá upphafi (sk. bárujárnssveitser). En sem áður segir mun húsið hafa verið það hæsta í bænum þegar það var reist. Trúlegast hefur það met ekki verið slegið fyrr en KEA húsið, 80 m norðar og hinu megin Hafnarstrætis, var reist 30 árum seinna. Ekki veit ég hæðina á húsinu en ég myndi giska á ca. 12-14 metra uppá mæni. En húsið hýsti bankastarfsemi á fyrstu áratugunum, Íslandsbanki hinn gamli var þarna frá 1904 til 1930 en 1930-39 starfaði Útvegsbankinn í húsinu. Þarna var einnig íbúð bankastjóra og þarna var einnig um tíma læknastofa og einnig íbúð læknisins Valdimars Steffensen. Þórbergur Þórðarson dvaldi í húsinu um tíma sumarið 1912 og gerði því seinna skil í Íslenskum Aðli (1938). Í kjallara og á 1. hæð hafa lengst af verið verslana- og skrifstofurými en íbúðir á efri hæðum. Um langt árabil var þó einnig búið á fyrstu hæð. Húsið hefur líkast til löngum verið eigu efnameira fólks eða fyrirtækja og því ævinlega hlotið nauðsynlegt viðhald og aldrei grotnað niður líkt og mörg ágæt hús á þessum aldri. Enda er húsið traustlegt og lýtur mjög vel út þó það sé komið á 12. áratuginn. Nýlega hefur verið skipt um glugga í húsinu. Nú er í húsinu skóvinnustofa í kjallara og fasteignasala á 1. hæð og að ég held þrjár íbúðir, tvær á annarri hæð og ein í risi. Þessi mynd er tekin þann 31.júlí sl. Mannfjöldinn framan við eru þátttakendur í Sögugöngu Minjasafns Akureyrar um Mið- og Innbæinn og leiðsögumaður, Gísli Sigurgeirsson kvikmyndagerðarmaður og fyrrum fréttamaður stendur í tröppunum.
Bloggar | Breytt 29.8.2022 kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2010 | 15:08
Hús dagsins: Spítalavegur 15
Spítalaveg 15 reistu í sameiningu þeir Ólafur Tr. Ólafsson verslunarmaður og Sigurgeir Jónsson söngkennari frá Stóruvöllum í Bárðardal árið 1906. Umsjón með byggingunni hafði Guðbjörn Björnsson timburmeistari. Þess má geta að sama sumar stýrði Guðbjörn einnig byggingu Samkomuhússins en það var reist á 6 mánuðum og þótti mikið afrek enda húsið mikið stórhýsi og verkfæri almennt ekki stórvirk á þeim tíma. Má því nærri geta að Guðbjörn hafi verið mikill dugnaðarmaður og haft í nógu að snúast sumarið 1906. En Spítalavegur 15 er all sérstakt að gerð, tvílyft timburhús með lágu risi á háum kjallara. Helstu sérkenni þess eru litlar tvílyftar útbyggingar, inngönguskúrar, á göflum. Önnur útbygging, stigahús er á bakhlið hússins. Upprunalega var húsið timburklætt en nú er það klætt svokölluðu steinblikki, amerískri blikkklæðningu sem algeng er á Akureyri en sjaldséð annars staðar. Það skýrist einfaldlega af því að aðeins einn maður flutti þetta inn á sínum tíma og var hann búsettur hér. Lóð hússins er mjög stór en var mikið stærri og tilheyrði húsinu tún sunnan við. Þá stóð steypt hlaða á baklóð hússins en hún var rifin fyrir áratugum. Húsið var mjög lengi í eigu sömu fjölskyldna en afkomendur Sigurgeirs munu hafa átt neðri hæð allt til 2002. Íbúðaskipan hefur alla tíð verið sú sama , ein íbúð á hvorri hæð. Húsið er tiltölulega lítið breytt frá fyrstu gerð. Þó hafa gluggar neðri hæðar verið síkkaðir og gluggapóstar munu upprunalega hafa verið krosspóstar en nú eru í húsinu sexrúðugluggar ( áttarúðu á neðri hæð ). En þeir gefa húsinu einnig svip og er það síst minna glæsilegt nú en áður fyrr. Húsinu er vel við haldið sem og gróskumiklum garði í kringum það. Þessi mynd er tekin í sól og 25 stiga hita þann 22.júlí 2010.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2010 | 19:14
Svipmyndir af hálendinu
Um síðustu helgi brá ég mér í dagsferð um Ódáðahraun, uppí Herðubreiðarlindir og inní Öskju. Hér koma nokkrar myndir sem ég ætla að mestu að láta tala sínu máli. En bæti þó kannski einhverjum tugum orða við þau 1000+ sem hver mynd segir. ATH. MYNDIRNAR LENDA SJÁLFSAGT ALLAR Í EINUM GRAUT (etv. misjafnt eftir vöfrum) EN ÞÆR STANDA VONANDI FYRIR SÍNU ÞRÁTT FYRIR ÞAÐ...
Grafarlönd eru gróðursæl vin á nokkurn vegin miðri leið frá þjóðveginum yfir Mývatnsöræfi að Herðubreiðarlindum. Þar er annað stóra vaðið á þeirri leið, yfir Grafarlandaá. Um 100 metrum ofan vaðsins er þessi glæsilegi foss. Ekki er mér kunnugt um að hann hafi nafn, (gæti heitað Grafarlandafoss) en ábendingar þess efnis eru vel þegnar. Sú skrautlega planta, Eyrarrós (Epibolium latifolium) vex einnig í Grafarlöndum.
Og hér er "sú gamla" fjalladrottningin Herðubreið og Þorsteinsskáli í Herðubreiðarlindum í forgrunni. En Herðubreið er 1682m y. s. en rís um 1000-1100 m yfir umhverfi sitt. ( Sú gamla er reyndar síður en svo réttnefni því fjallið er afar ungt af fjalli að vera, talin mynduð fyrir um 20.000 árum síðan. Er hún því mörg hundruð sinnum yngri en fjallabálkurinn í Eyjafirði sem er um 9-10 milljón ára. )
Þessi mynd ætti e.t.v. heima undir "Hús dagsins" en þetta er Eyvindarkofi í Herðubreiðarlindum. Þarna dvaldist hann veturlangt um 1772 og haft var eftir honum að þetta hafi verið einn hans erfiðasti vetur og munaði þar mest um að þarna var hann aleinn án Höllu sinnar. Undir hleðsluna rennur lind og þarna vaxa plöntur, hugsanlega sem Eyvindur hefur haft fyrir stofublóm
. Minni ljósu blöðin sem sjást neðst í skorum er líkast til tófugras ( Cystopteris fragilis ) en líklega eru dekkri stóru blöðin ætihvönn (Angelica archangelica ) sem brýst þarna um skorurnar. En sú eðla planta er mjög einkennandi fyrir Lindirnar.
Næst berum við niður í Öskju og er horft yfir Öskjuvatn frá Víti. Þangað liggur fjölfarin gönguleið frá litlu skarði, Öskjuopi. Það er alveg hreint magnað að ganga að þarna frá Öskjuopi. En þetta er um 2,5 km gangur frá bílastæði við Öskjuopinu og eiginlega áður en veit af er maður kominn inní Öskjuna sjálfa. Sér fjallahringinn sem mynda Öskjuna. OG ÞVÍLÍKT OG ANNAÐ EINS HVAÐ ÞETTA ER ALLTSAMAN STÓRT! Ég hafði aldrei komið í Öskju áður, bara séð hana úr lofti á myndum en að skoða ganga um hana á jörðu niðri og horfa um víðáttuna var bara frábært. Stærð Öskju mun vera svipuð og öll Reykjavík. Þannig að þegar maður kemur um Öskjuop getur maður ímyndað sér að maður sé staddur t.d. á Lækjartorgi og öskjubarmarnir hinu megin séu þá efst í Breiðholti. En á gönguleiðinni sér maður ekkert í Öskjuvatn þar til alveg í lokin að komið er fyrir litla hæð og þá birtist alltíeinu sprengigígurinn Víti og við blasir Öskjuvatnið eins og útbreitt landakort, og enn og aftur ÞVÍLÍK STÆRÐ og það svona skemmtilega falin bak við einn lítinn háls.
Hæsta fjall Íslands utan stóru jöklana, Snæfell (1833m y.s.) séð gegn um aðdráttarlinsu frá vegarslóðanum að Öskjuopi. Snæfell er eldkeila á borð við Snæfellsjökul og Eyjafjallajökul en mun vera útkulnuð.
Glæsilegur húsakostur Ferðafélags Akureyrar við Drekagil í Öskju. Fyrst var byggður þarna skáli 1968-69 en hann er nokkurn vegin fyrir miðri mynd, lítið risþak og er kallaður Gamli Dreki. Þarna er einnig tjaldsvæði. Ég verð nú að segja að mér finnst Herðubreiðarlindir mun fallegri staður en Drekagilið en Dreki er auðvitað magnaður og einstakur staður á sinn hátt. Þegar Askja nálgast breytist umhverfið skyndilega úr svörtu og gráu hrauni í ljósar "sandöldur". Það er þó ekki sandur heldur vikur úr Öskjugosum.
Enda þessar svipmyndir með orðunum sem meistari Ellý sló í gegn með fyrir um hálfri öld: "Vegir liggja til allra átta..."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.7.): 10
- Sl. sólarhring: 37
- Sl. viku: 284
- Frá upphafi: 450442
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 183
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar