Hús dagsins: Norðurgata 15

Ég held mig enn við Norðurgötuna líkt og síðustu vikur en hér á þessari mynd má sjá Norðurgötu 15.PC020055 Húsið er byggt árið 1902 af þeim Páli Jónssyni og Brynjólfi Jónssyni. Það fylgir svo ekki sögunni hvort þeir voru bræður. Það var þá frá upphafi parhús sem skiptist í miðju og hefur haldist svo alla tíð, utan að miðja hússins hefur hliðrast til suðurs með viðbyggingum þannig að nú er suðurhluti stærri. Húsið er tvílyft timburhús á  háum steyptum kjallara og með lágu risi. Krosspóstar eru í flestum gluggum og er húsið klætt steinblikki. Þá klæðningu hefur húsið líkast til fengið á 2. eða 3. áratug 20.aldar en þá hóf Gunnar Guðlaugsson, húsasmiður í Lundargötu að flytja þetta inn frá Bandaríkjunum.  Byggt var við húsið til suðurs árið 1945 en sú viðbygging var einlyft bygging með steyptum gafli og flötu þaki. Í Oddeyrarbók Guðnýjar Gerðar og Hjörleifs (1995) er sú bygging talin til lýta en árin 2001-02 var byggð hæð ofan á viðbygginguna og húsið því allt orðið tvílyft. Húsið er þó nokkuð líkt þarnæsta húsi neðan við, Norðurgötu 11 (sjá neðri mynd) og í einhverri sögugöngu um Oddeyrina var einhver að velta fyrir sér hvort um "systurhús" væri að ræða. Svo er raunar alls ekki, hús númer 11 er miklu eldra (byggt 1880) og er auk þess þó nokkuð breytt frá upphafi. Ég gæti ímyndað mér að þessi hús hafi líkst hvað mest hvoru öðru milli 1923-45, eftir að byggt var við N-11 til norðurs og áður byggt var við þetta hús til suðurs en þá hafa þau sennilega verið svipuð á lengdina, bæði klædd steinblikki og með krosspóstum.  Meðal fjölmargra sem átt hafa heima í þessu húsi er Indriði G. Þorsteinsson rithöfundur en hann mun hafa búið þarna um tíma á yngri árum.  Sem áður segir er húsið frá upphafi parhús, skipt í miðju en vel gæti ég trúað að íbúðir hafi verið fleiri en tvær, enda húsið nokkuð stórt og rúmgott. Síðustu áratugi hefur verið ein íbúð í hvorum hluta. Húsið lítur mjög vel út og er í góðu standi og eftir að efri hæðin var lengd ofan á viðbygginga lítur það enn betur út en áður. Lóðin er nokkuð stór á mælikvarða elsta hluta Oddeyrarinnar og vel gróin og smekkleg. Myndin hér að ofan er tekin 2.12. 2013 en myndin að neðan af Norðurgötu 11 er frá sumrinu 2006, nánar tiltekið 5.júní.

P6050018

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri


Hús dagsins: Norðurgata 13

Norðurgötu 13 reisti maður að nafni Þorvaldur Guðnason árið 1886.

PC020053

 Það gerir húsið það þriðja elsta við Norðurgötuna en næsta hús sunnan við númer 11 og þar næsta hús númer 17 (Steinhúsið) eru jafn gömul eða frá 1880. Lóðin var einmitt mæld út þannig að hún væri á milli húsa Snorra Jónssonar og Björns Jónssonar en á þessum tíma tíðkaðist almennt að kenna hús frekar við eigendur en götur og númer.  Húsið er einlyft timburhús með háu risi og á háum steyptum kjallara. Stór kvistur með flötu þaki er á bakhlið og nær hann alveg að gafli og því raunar ekki ósvipað og að risi sé lyft að hluta. Húsið hefur líkast til fengið það útlit sem það hefur nú á 3.áratug 20.aldar en þá var húsið hækkað upp og klætt steinblikki. Húsið hefur mjög nýlega fengið nýja sexrúðu gluggapósta en það var áratugum saman með þverpóstum. Margir hafa átt og búið í þessu húsi gegn um tíðina en um eða eftir miðja 20.öldina mun húsið hafa kallast Ósvaldshús. Húsið er í góðu standi og er all sérstakt að gerð, látlaust og lætur mjög lítið yfir sér en hefur þó mjög sterkan "karakter". Það er í frábæru standi, er eins og áður segir með glænýjum  gluggapóstum og hefur líkast til alla tíð fengið gott viðhald. Þessi mynd er tekin 2.desember 2013. ( Ég minntist áður stuttlega á Norðurgötu 13 í annarri húsafærslunni á þessari síðu fyrir rúmum fjórum árum en þótti húsið verðskulda aðeins meira en 1-2 setningar.)

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri


Hús dagsins: Norðurgata 6

P9100043

Norðurgötu 6 reisti Metúsalem Jóhannsson árið 1898 á lóð þess sem hann fékk á horni Norðurgötu og "fyrirhugaðrar þvergötu" sem síðar fékk nafnið Gránufélagsgata. En húsið er einlyft timburhús á háum steinkjallara og með portbyggðu háu risi og klætt steinblikki. Miðjukvistur er á húsinu framantil fyrir miðju og er þetta ein algengasta gerð lítilla timburhúsa frá ofanverðri 19.öld. Einhvers staðar heyrði ég að líklega hefði húsið verið hækkað upp og steyptur undir það nýr kjallari en það var gert með húsin skáhallt á móti, Norðurgötu 11 og 13 uppúr 1920. Þá er líklegt að steinblikk hafi verið sett á húsið um svipað leiti en sú klæðning fór að berast hingað á því bili. Eftir 1910 voru flest timburhús nefnilega varin með járni eða steinskífu í færri tilfellum en brunarnir miklu sátu fast í mönnum og þetta ein öflugasta eldvörn þessa tíma. Það er, að ef kviknaði í, þá brynni aðeins eitt hús í stað sjö eða tíu. Á baklóð hússins stóð einlyft smáhús með lágu risi, óvíst með byggingarár en því var breytt í íbúð 1922 af Guðrúnu Jónsdóttur en þá var eigandi hússins Sölvi Halldórsson. Bakhúsið, Norðurgata 6b var lengst af íbúðarhús en það var rifið um 1996.  Sú lóð stóð um nokkurra ára skeið auð og í órækt eftir að húsið var rifið en var fyrir fáeinum árum aftur sameinuð við lóð framhússins. Norðurgata 6 er sennilega það hús í þessari þrenningu 2-6 sem minnst hefur verið breytt frá upphafi en öll eru húsin sviplík að framanverðu en á nr. 2 hefur risi verið lyft að aftan og það hefur einnig verið gert á nr.4 ásamt viðbyggingu bakatil. Húsið er í góðri hirðu og hefur líkast til alla tíð verið vel við haldið, það er t.d. nýmálað síðan síðsumars 2013.  Umhverfi hússins er einnig einkar áhugavert en  þar hafa núverandi eigendur, Sigurvin Jónsson og Perla Fanndal sett upp mikinn og stórglæsilegan búgarð; þarna er eitt alstærsta og veglegasta hænsna-og fuglabú á Akureyri auk töluverðrar ræktunar í gróðurhúsum. Þessi mynd er tekin í morgunsólinni þann 10.september síðastliðin.

Áður hef ég fjallað um hina skemmtilegu röð við Norðurgötu 2-6 hér:

http://www.arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/entry/1109607/

http://www.arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/entry/958152/

Heimildir:  Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.


Hús dagsins: Norðurgata 4

Á næstu vikum má segja að sé um endurtekningu að ræða, en nú ætla ég að taka fyrir nokkur hús við neðanverða Norðurgötu en ég hef tekið þau fyrir áður stuttlega í "hópumfjöllunum".

P9100041

 En Norðurgatan eins og hún liggur í dag er byggð upp á mjög löngum tíma. Gatan er lengsta þvergatan á Eyrinni að undanskildum Hjalteyrargötu og Glerárgötu og eru elstu húsin (nr. 11 og 17) byggð 1880 en yngstu húsin nyrst byggð um 1955. Svona til að setja þetta gríðarlega langa árabil í samhengi getum við hliðrað því til um eina öld- ímyndað okkur götu sem hefði verið að byggjast smán saman síðan 1980 og yrði ekki fullbyggð fyrr en um 2055! Neðst í götunni eru nokkur hús með sama svipmóti, einlyft með risi og miðjukvisti og fjallaði ég um þau sem heild hér  fyrir einum þremur árum síðan.

En að húsinu á myndinni, Norðurgötu 4. Það er 116 ára gamalt, byggt árið 1897 af  tveimur mönnum, Ólafi Jónssyni og Jóni Jónatanssyni. Húsið er einlyft timburhús á lágum steinkjallara og með portbyggðu risi, háu en frekar aflíðandi og miðjukvisti. Járn og steinblikk er utan á húsinu.  Ég gæti ímyndað mér að það hafi í upphafi skipst í tvo eignarhluta í miðju en alltént skiptist það þannig í dag. Íbúðaskipan hefur þó tekið ýmsum breytingum gegn um tíðina. Sennilega bjuggu þarna margar fjölskyldur á fjórða áratugnum en árið 1936-37 var húsið stækkað verulega, byggð einlyft viðbygging aftan til og risi lyft að aftanverðu og fékk húsið þá það lag sem það nú hefur. Hugsanlegt að núverandi járnklæðning hafi komið á húsið þá. Þrátt fyrir breytingar hefur húsið haldið upprunalegu svipmóti sínu á götuhlið. Að vísu eru þverpóstar í gluggum en líkast hafa verið krosspóstar eða sexrúðugluggar upprunalega. Nú eru í húsinu tvær íbúðir og hafa verið í áratugi og er húsið í raun parhús- skiptist í miðju. Þessi mynd er tekin 10.sept. 2013.  

 Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.


Uppfærsluleti og næstu færslur

Ég hef verið asskoti óduglegur við að uppfæra hér uppá síðkastið. Bæjarbrunarnir í síðustu færslu voru eitthvað sem ég vann að í tvær vikur en ég hef ekkert unnið að slíku síðustu daga en þessi bæjarbrunaumfjöllun var eitthvað sem ég hafði hugsað mér að skrifa um lengi, eiginlega nánast frá upphafi þessarar síðu. En hvað er framundan í húsaumfjölluninni? Það skal ég segja ykkur. Ég mun á næstu dögum og vikum fjalla um nokkur stök hús sem mér finnst ég eiga eftir í Norðurgötu (4,6,13,15) og Lundargötu (6, 13) auk nokkurra í Aðalstræti og Hafnarstræti. Sjallinn mun líka fá sína umfjöllun hér en það verður líkast til ekki fyrr en á nýju ári og þar að auki ætla ég að taka Listagilið fyrir en þar eru merkar byggingar sem áratugum saman hýstu m.a. stóran hluta iðnaðar KEA. Það er lengi von á einu hvað húsin varðar....

Bæjarbrunarnir miklu á Akureyri.

Ég hef lengi ætlað mér að skrifa um Bæjarbrunana svokölluðu hér á þessa síðu. En árin 1901, 1906 og 1912 urðu miklir stórbrunar á Akureyri og hef ég stundum minnst á þá í húsaumfjöllunum. Einhver þeirra húsa sem ég hef fjallað um hér voru reist á grunni húsanna sem þar brunnu auk þess sem þessir brunar  höfðu talsverð áhrif á það hvernig menn byggðu og frágang bygginga. Menn fóru að járnklæða hús og fóru frekar að horfa til steinsteypuhúsa. Brunarnir ýttu undir að hugað væri að brunavörnum, slökkvibúnaði og vafalítið má leiða að því líkur að þessir atburðir hafi ýtt undir lagningu vatnsveita og rafmagns til ljósa en fyrsti "Bæjarbruninn" sem átti einmitt upptök sín út frá steinolíulampa.

Bæjarbruninn 1901:

Um klukkan fjögur aðfararnótt 19.desember 1901 voru Akureyringar vaktir upp með hrópunum "Bærinn er að brenna!" Var þar eldur laus í húsatorfunni sem afmarkaðist af Hótel Akureyri (Aðalstræti 12) í suðri og barst eldhafið hratt út til norðurs. Þarna voru góð ráð dýr en í þorpinu undir Búðargilinu var engin slökkvidæla til staðar og ekkert slökkvilið og í raun enginn sem hafði vald til að stjórna slökkvistarfi. Eldvarnir voru ekki heldur háþróaðar og húsin sem slík ekki heldur neitt óeldfim, timburhús einangruð með hálmi, spónum og reiðingi, mörg hver tjörguð og olíuborin í bak og fyrir.

Fljótlega var hafist handa við slökkvistarf og af lýsingum að dæma virðast viðbrögðin almennt hafa verið fumlaus og yfirveguð. Fólk myndaði færiband neðan úr fjöru með fötur fullar af sjó en einnig snerist slökkvistarf mikið um að verja nærliggjandi hús svo eldurinn bærist ekki lengra. Gamli Spítalinn var t.d. hætt kominn en hann var varinn með járnplötum sem snjó var mokað á. Einnig var mikið lagt upp úr því að bjarga verðmætum. Meðal þeirra húsa sem eyðilögðust þarna var eitt fyrsta íbúðarhús bæjarins, byggt 1777, einlyft hús með háu bröttu risi og miðjukvisti og Hótel Akureyri sem reist var 1866 en stækkað 1885. Vertinn þar, Vigfús Sigfússon hafði keypt húsið og reksturinn þremur árum áður. Hann byggði svo annað Hótel Akureyri á þeirri lóð, miklu stærra hús- sem einnig brann til grunna löngu eftir hans tíð (1955).

Þau hús sem brunnu til grunna voru eftir því sem ég kemst næst: Hótel Akureyri (Aðalstræti 12), nýbyggt (1899) verslunarhús Jóhannesar og Sigvalda Þorsteinssonar (Aðalstræti 10), Möllershús og séra Geirshús (stóðu bæði á Aðalstræti 8) og elsta íbúðarhús á Akureyri á Hafnarstræti 3, en það hús var reist 1777 og var þá í eigu Klemenzar Jónssonar bæjarfógeta. Þau hús sem skemmdust og stóðu uppi voru Stephensenshús (Lækjargata 2), hús Schiöth póstmanns (Aðalstræti 6), Lyfjabúðin (Aðalstræti 4), Gamli skólinn (Hafnarstræti 7, húsið stóð uppi en var rifið 1942) auk þess sem Laxdalshús skemmdist töluvert. Í Öldinni okkar 1901-1930 er húsanna ekki getið með götunúmerum en á þessum tíma tíðkaðist frekar að kenna húsin við eigendur og íbúa. Þar er minnst á Christensenshús og hús Magnúsar Blöndal en ég get ekki áttað mig á því nákvæmlega út frá heimildum hvar þau hús voru staðsett.

 p5290054.jpg P6050024

Aðalstræti 6 t.v. skemmdist töluvert í brunanum 1901 en það var síðar bárujárnsklætt. Gamli spítalinn (t.h.) var í mikilli hættu og snerist slökkvistarf að miklu leyti um að verja hann. Sextíu árum síðar brann norðurhluti hússins (sá ljósgræni) og fékk í kjölfarið það lag sem hann hefur nú.

p3110017.jpg

Alls voru þetta 12 hús brunnu til grunna eða skemmdust og á þessum fjórum klukkustundum urðu 52 manns heimilislausir og eignatjón varð auðvitað gríðarlegt. Það má eflaust kalla kraftaverk að þarna varð ekki manntjón en eldurinn breiddist hratt út og menn voru í stórhættu við frumstæð slökkvistörf auk þess sem þá tíðkaðist mikið að vaða inn og út úr brennandi húsum að bjarga varningi. Upptök eldsins voru rakin til gests á Hótel Akureyri (það fylgdi meiraðsegja sögunni að sá gestur frá Öxnadal!) sem hengt hafði olíulampa upp í rjáfur og helst til nærri timburklæddu loftinu. En ekki leið á mjög löngu þar til annar mikill bruni átti sér stað og þá á Oddeyrinni.

Hafnarstræti 3 er byggt 1903 á grunni íbúðarhúss sem eyðilagðist í brunanum 1901. Það hús var byggt 1777 og var því ekki miklu eldra en núverandi hús er núna...

Oddeyrarbruninn 1906.

Átjánda október árið 1906 kváðu eldlúðrar bæinn. Þarna voru slíkir lúðrar komnir til sögunnar og slökkvidæla og ekki þykir mér ólíklegt að slíkir gripir hafi verið til komnir eftir atburðinn fimm árum áður. Þá er talað um það í Öldinni okkar að bjarminn af eldinum hafi verið slíkur að engu væri líkara en að göturnar hefðu fengið raflýsingu. Sem bendir til þess að þarna hafi menn þekkt til slíkrar lýsingar en þá voru enn tæpir tveir áratugir að bærinn fengi notið slíkrar lýsingar. Þykkan reykjarmökk lagði yfir alla Oddeyrina en vindur stóð að vestan.

Tvö hús ofarlega við Strandgötuna, ein þau stærstu og glæsilegustu á Akureyri loguðu stafnanna á milli en eldurinn mun hafa komið upp í Strandgötu 5, sem var í eigu Halldórs Jónssonar. Það hús var nýbyggt, þrílyft timburhús með þremur burstum skreyttum útskurði. Vegna þessara sérkennilegu bursta var húsið kallað Horngrýti. Strandgata 7 var einnig tiltölulega nýtt hús, reist um 1900 af Sigurði Bjarnasyni og Jóni Guðmundssyni en það hús átti Jósef Jónsson. Húsið var þrílyft timburhús með lágu risi og miklum turni og kallað Turnhús. Þessi hús virðast af myndum að dæma hafa verið sambærileg við t.d. Samkomuhúsið sem þá var í byggingu og nýreistan Gagnfræðaskólann (Gamli Skóli).

Eldurinn breiddist hratt út austur eftir Strandgötunni enda stóð vindur af vestri. Hús Kolbeins Árnasonar kaupmanns við Strandgötu 9 fuðraði næst upp, sömuleiðis Strandgata 11, hús Magnúsar Blöndal og Strandgata 13, kennt við Norðmaðurinn Ole Lied sem það byggði húsið árið 1885 en þarna var það í eigu Sigurðar Bjarnasonar. Þá brann einnig vörugeymsla í eigu hans og þar einn vélbátur sem þá voru miklir nýmóðins kostagripir. Slökkvistarf snerist að mestu um að verja nærliggjandi hús en handan örmjórrar Glerárgötunnar var hús Halldórs Halldórssonar söðlasmiðs á Strandgötu 15. Talið var að ef eldurinn bærist í það hús væri öll Oddeyrarbyggðin í hættu. Þarna var brugðið segli og járnplötum á gafl Strandgötu 15 og vatni skvett eða sprautað á og þannig náðist að bjarga efri húsum. En þegar eldurinn var kulnaður lágu þessi sjö hús í valnum og þarna misstu 79 manns heimili sín og hóf bæjarstjórnin söfnun fyrir þá sem misstu allt sitt þarna. Enginn fórst en einhverjir brenndust við slökkvistörf. Þarna hefur hurð eflaust oft skollið nærri hælum þegar menn voru hlaupandi inn og út brennandi húsunum til bjargar verðmætum og varningi.

Þess má einnig geta að í blaðinu Norðurland var þeirri skoðun lýst að óálitlegt sé að byggja úr timbri og þau hús sem reist væri á þessum lóðum ættu að vera sambyggingar úr sementi en helstu örðugleikar þess væru að bæjarbúar kynnu þar lítt til verka og yrðu líklega að fá aðstoð erlendis frá í því. En menn létu þessi orð svo sem ekki á sig fá þarna því  sumarið eftir voru reist mikil timburhús á þessum lóðum. Hús sem öll standa enn, 106 árum síðar. Hins vegar fór að draga mjög úr byggingum stórra timburhúsa fáum árum seinna og kannski sérstaklega eftir næsta stórbruna sem var í Innbænum, sex árum síðar.

P6170016Á mynd: Vettvangur Oddeyrarbrunans. Þarna eru húsin Strandgata 7, 9 og 11 böðuð í miðnætursólinni að kvöldi 17.júní 2013. Þessi hús eru öll reist sumarið 1907 á rústum Oddeyrarbrunans.

Bruninn í Innbænum 1912

Þriðji bæjarbruninn átti sér stað aðfararnótt 17.desember 1912. Þarna brunnu 12 hús milli sk. Breiðagangs og Búðarlækjar en Breiðigangur lá (og liggur raunar enn) nokkra metra norðan Laxdalshúss. Þetta voru vörugeymsluhús sem verslanir Höepfners, Gudmanns Efterfölgere og Tuliniusar áttu einnig íshús og saltskemma í eigu þess síðasttalda. Stóðu þessi hús m.a. á lóðunum Aðalstræti 1, 3,5 og 7 og Hafnarstræti 15 en tvílyft hús frá 1793 ná Hafnarstræti 13  bjargaðist naumlega, en það var illu heilli rifið 1934.

 Þessi bruni var frábrugðin hinum að því leytinu til að ekki nærri eins margir misstu heimili sín en þarna mun aðeins ein íbúð hafa skemmst. Það varð hinsvegar mikið tjón á verðmætum, um 70 þúsund krónur. (Ég ætla ekki einusinni að reyna að snara þeirri upphæð yfir á núvirði.) Flestar lóðirnar voru óbyggðar áratugum saman, en á Aðalstræti 3 var reist hús 1946 og þar er nú hin þjóðþekkta ísbúð Brynja. Bílaplanið fyrir þá verslun er einnig á brunareitnum. Líkt og í fyrri "bæjarbrunum " fórst ekki einn einasti maður í þessum bruna.

Það má sannarlega kalla kraftaverk  að í öllum þessum brunum varð aldrei manntjón og það sérstaklega þegar það eftirfarandi er haft í huga að:

1)Húsin voru mjög eldfim, timburhús einangruð með spónum, hálmi og reiðingi og eldur breiddist út á miklum hraða en í öllum þessum tilfellum sem hér er lýst var talsverður vindur. Að sjálfsögðu voru eldvarnir engar og útgöngu- og flóttaleiðir þröngar og erfiðar enda þekktist ekki að hugað væri að slíku við byggingu húsa. 

2)Þarna voru menn vaðandi inn og út úr brennandi húsunum gegn um hita og reyk til að bjarga verðmætum og húsgögnum.  Það sem ég hef reyndar ímyndað mér að kynni að hafa hjálpað til var að þarna voru menn e.t.v. betur "aðlagaðir" reykjarkófi en nú gengur og gerist; Á þessum tíma hafði nefnilega hvert mannsbarn alla sína tíð andað að sér reyk frá kolavélum, hlóðum og ljósum, floti sem ljósmeti eða ósandi olíulömpum. Sennilega hafa menn líka sofið lausar og verið e.t.v. verið varari um sig, enda oft kalt í húsum og loftgæði e.t.v. ekki almennt mikil auk þess sem eldur var ævinlega logandi í kolavélum og hitunartækjum og fólk meðvitað um þá eldhættu. Þá dettur mér í hug að fyrir rúmri öld var heldur ekki eins mikið af húsgögnum og lausamunum og alls engin gerviefni og reykurinn innandyra því ekki jafn hættulega eitraður og þegar húsbrunar verða í dag. Þetta eru aðeins getgátur hjá undirrituðum.

Á 2.áratug 20.aldar dró verulega úr byggingum timburhúsa almennt eftir m.a. þessa bruna og stórbruna í miðbæ Reykjavíkur vorið 1915, enda urðu menn almennt smeykir við timbur sem byggingarefni. Áratuginn 1920-30 mætti alveg kalla áratug steinsteypunnar í því samhengi en einnig færist í vöxt að timburhús séu járnklædd eða eldvarinn, í sumum tilvikum voru settar á hús steinskífur og á Akureyri var flutt inn sérstakt blikk frá Bandaríkjunum, sk. steinblikk.  

P5290055 

Elsta stóra steinhúsið á Akureyri, Hafnarstræti 19, er byggt árið 1913, nokkrum mánuðum eftir seinni Innbæjabrunann en steinsteypuhús fóru mjög að ryðja sér til rúms. Það munar aðeins götubreiddinni að brunareiturinn frá 1912 sjáist vinstra megin á myndinni.

 Heimildir: Gils Guðmundsson ritstjóri (1950): Öldin okkar; minnisverð tíðindi 1901-1930. Reykjavík: Forlagið Iðunn.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


Hús dagsins: Hafnarstræti 25

Ég hef síðustu vikur tekið fyrir miðhluta Hafnarstrætis frá 29 að 47 en ætla nú að færa mig niður fyrir húsaröð Jónasar og Sigtryggs númer 29 til 41.P9100030 Hafnarstræti 23 hef ég gert skil fyrir einhverjum árum en nú er það Hafnarstræti 25. Lóðin er ein þeirra  sem téðir Jónas Gunnarsson og Sigtryggur Jóhannesson eignuðust 1904 og áttu þeir hana til 1908 en þá keypti Kristján Sigurðsson verslunarmaður lóðina. Árið 1912 var húsið hans sem enn stendur risið. Um er að ræða tvílyft timburhús á lágum en djúpum steyptum og með háu en aflíðandi risi. Húsið er bárujárnsklætt og ekki ósennilegt að svo hafi verið frá upphafi en bárujárn tók að berast hingað um þetta leyti og menn farnir að huga mikið að því að verja timburhús vegna tíðra stórbruna m.a. á Akureyri. Var þetta líklega ein öflugasta eldvörn þessa tíma. Ef það kviknaði í timburhúsi um 1910 var það hús eiginlega bara búið að vera en það gat oft skipt sköpum að verja næstu hús til að koma í veg fyrir "raðbruna". Á þessum tíma fer samhliða að draga úr byggingum stórra timburhúsa og steinsteypuöld hefst, t.d. reis eitt fyrsta stóra steinhús Akureyrar ári á eftir þessu húsi nokkrum lóðum neðar. Á framhlið hússins er miðjukvistur en tvílyft bakbygging með risi er á norðanverðu húsinu. Í gluggum er þverpóstar, en gluggar eru nokkuð stórir og breiðir. Ég hef tekið eftir því í húsagrúskinu gegn um árin að eftir því sem húsin eru yngri eru gluggar íbúðarhúsa almennt stærri. Hlutföllin milli hæðar og breiddar eru þó yfirleitt svipuð og það er almennt ekki fyrr en í funkishúsum frá því eftir 1930 sem gluggar verða ferningslaga og seinna fara að sjást stórir stofugluggar, meiri á breidd en hæð. Og talandi um glugga þá eru gluggar neðri hæðar hússins áberandi stærri enda var þar áður verslun. Kristján Sigurðsson verslaði þarna um árabil og  bjó á efri hæð. Árið 1915 reisti hann fjós og hlöðu á lóðinni og er þar um að ræða bárujárnsklæddu skúrbygginguna sem stendur norðan við húsið og sést á myndinni. Nú eru þar geymslur. Kristján hefur átt húsið í rösk 30 ár en eigendaskipti verða að öllu húsinu 1942 og átján árum seinna var neðri hæð innréttuð sem íbúð. Síðustu hálfa öldina hefur húsið þ.a.l. eingöngu verið íbúðarhús og í húsinu tvær íbúðir hvor á sinni hæð. Húsið er tiltölulega nýmálað og virðist í góðu ásigkomulagi. Þess má geta að neðri hæð er til sölu og sýnist mér á myndum að húsið sé einnig í góðu standi að innan. Hér geta áhugasamir skoðað neðri hæð Hafnarstrætis 25: http://eignaver.is/soluskra/eign/288285/ (ath. þessi tengill verður líkast til óvirkur þegar eignin selst og upplýsingar hverfa af síðu fasteignasölunnar) Þessi mynd er tekin í haustblíðunni 10.september 2013.

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


Hús dagsins: Hafnarstræti 47; Bakkahöllin

 P9100038Hafnarstræti 47 reistu þrír bræður þeir Haukur, Jón og Örn Péturssynir árið 1946. Húsið er þrílyft steinsteypuhús með háu risi en vegna þess hve húsið er breitt það ekki mjög bratt og virkar þ.a.l. frekar lágt. Veggir eru klæddir kvarsmúrblöndu, sem í daglegu tali er kallað skeljasandur og gluggar eru breiðir með einföldum póstum og er bárujárn á þaki. Bogadregið útskot er sunnarlega á framhlið 2. og 3.hæðar. Það er ekki mikil umfjöllun um Hafnarstræti 47 í Innbæjarbók Hjörleifs, enda húsið svosem ekki gamalt á mælikvarða húsasögunnar. Á þessu ári telst húsið "löggiltur ellilífeyrisþegi" sem fyrir hús í Innbænum telst ekki hár aldur þar sem stór hluti bygginga er komin vel á annað hundraðið í aldursárum. En þar kemur allavega fram að húsið er 1570 rúmmetrar að stærð. Á risinu eru tveir flatir kvistir hvor á sinni hlið en mér er ekki ljóst hvort þeir séu seinni tíma viðbót eða hafi verið á húsinu frá upphafi. Á bakhlið eru svalir á kvistinum en svalir eru bakatil á húsinu á öllum hæðum utan jarðhæð sem er niðurgrafin á brekkuhlið. Húsið hefur löngum verið kallað Bakkahöllin og hélt ég lengst af að það kæmi til af því að þegar það var reist stóð það vissulega á sjávarbakkanum og var talsvert stórt og háreist miðað við næstu hús- hálfgerð höll. En í einhverri sögugöngunni um Innbænum heyrði ég að þetta viðurnefni hússins kæmi til af því að þeir bræður sem reistu það voru frá Bakka (fylgdi ekki sögunni hvar á landinu sá Bakki væri, en þeir eru jú nokkrir Bakkabæirnir). Í húsinu eru fjórar íbúðir og hafa verið síðustu áratugi en mér dettur í hug að upprunalega hafi bræðurnir innréttað hver sína íbúð á sinni hæð en íbúð í risi komið seinna. Þrír sambyggðir bílskúrar eru við húsið norðanmegin. Húsið er traustlegt og stæðilegt og í góðri hirðu sem og umhverfi hússins sem er býsna skemmtilegt. Þessi mynd af Bakkahöllinni er tekin 10.september 2013.

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.


Hús dagsins: Hafnarstræti 45

Hafnarstræti 45 reistu þeir Karl Ásgeirsson og Jón Þorvaldsson árið 1923.P9100036 Húsið er tvílyft steinsteypuhús á háum kjallara og með lágu valmaþaki. Á þessum tíma var algengast að steinhús væru með timburhúsalagi þ.e. annað hvort með háu risi eða tvílyft með lágu (líkt og t.d. húsaröðin á undan) og alltént áberandi lengri en þau voru breið. Hafnarstræti 45 er hinsvegar nærri ferningslögun og með valmaþaki og minnir að því leyti á funkisstíl og byggingarlag sem varð algengt nærri miðri 20.öld. Svipuð hús frá sama tíma eru t.d. Litli-Garður,  og Brekkugata 31. Það fylgir ekki sögunni hver teiknaði húsið en mér þykir freistandi að giska á annaðhvort Tryggva Jónatansson eða Halldór Halldórsson. Hússins er ekki getið í ævisögu Sveinbjarnar Jónssonar en þar er jafnframt tekið fram að ekki séu öll kurl komin til grafar og ekki hafi tekist að hafa uppi á öllum húsateikningum hans. Ég gæti nefnilega alveg trúað að húsið sé verk Sveinbjarnar. Húsið er næsta lítið breytt frá upprunalegri gerð að ytra byrði en þó virðast upprunalega hafa verið krosspóstar í gluggum (byggi þetta á mynd frá 1938-40 en hún er á bls. 53 í Steindóri:1993 og sýnir m.a. þetta hús)   og áfastur steyptur garðveggur við suðurhlið er seinni tíma bygging. Húsið er líkt og flest hús í nágrenninu í frábærri hirðu sem og allt nærumhverfi þess. Nýlega hafa verið byggðar voldugar timbursvalir út af annarri hæð bakatil, þ.e. vestan megin. Í því eru þrjár íbúðir hvor á sinni hæð auk einnar í kjallara. Kjallaraíbúð hefur verið innréttuð eftir 1986 en í bók Hjörleifs síðan þá um Innbæinn er aðeins minnst á íbúðir á hæðunum tveimur. Þessi mynd er tekin 10.sept. 2013.

Heimildir: Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni 1896-1982. Reykjavík: Fjölvi

Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


Hús dagsins: Hafnarstræti 41

Nyrsta húsið í langri röð sviplíkra tvílyftra timburhúsa með lágu risi við Hafnarstræti er hús númer 41.P9100037 Það er jafnframt það elsta en það er reist árið 1903 af Hallgrími Einarssyni ljósmyndara en mér þykir freistandi að áætla að timburmeistararnir Jónas Gunnarsson og Sigtryggur Jóhannesson hafi komið þar nærri, en þeir munu hafa reist alla röðina 33-39. Ári seinna kaupa þeir svo allar lóðirnar og byggja næstu hús að lóð númer 31, en fyrir henni lá að standa óbyggð í tæpa öld eftir að byggt hafði verið sitt hvoru megin við hana. En Hallgrímur var einn af fyrstu atvinnuljósmyndurunum á Akureyri og ef skoðaðar eru rúmlega gamlar myndir frá Akureyri þá eru góðar líkur á að þær séu eftir Hallgrím. Í húsinu hafði hann ljósmyndastofu eða atelíer, sem var á efri hæð en skrifstofa og verslun var í kjallara en líkast til hefur neðri hæð verið íbúð. Hallgrímur lést 1948 og stundaði ljósmyndaiðn í húsinu allt til dauðadags en synir hans Jónas og Kristján tóku við rekstrinum eftir hans dag en árin 1965-70 skiptist húsið milli nýrra eiganda í þrjá eignarhluta. Þegar Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga er skrifuð, 1986, á Hallgrímur Guðmundsson, afkomandi Hallgríms Einarssonar allt húsið en ekki er mér kunnugt um eigendasöguna síðan þá. Allavega virðist vera að í húsinu séu tvær íbúðir og geymslurými í kjallara og er húsið í frábæru standi og hefur líkast alla tíð fengið gott viðhald og fékk ágæta andlitslyftingu fyrir einhverjum árum síðan. Það sem helst gefur húsinu svip eru svalir á framhlið sem skreyttar eru útskurði og er þetta dálítið í ætt við Sveitserstílinn norska. Þessi mynd er tekin 10.sept. sl.

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 112
  • Sl. viku: 403
  • Frá upphafi: 450725

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 299
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband