Hús dagsins: Grundargata 6

Grundargata er stutt en stórmerkileg gata á Oddeyrinni. PC290877Liggur hún á milli Strandgötu og Gránufélagsgötu og er aðeins um 90 metra löng. Grundargötuhúsum gerði sá sem þetta ritar skil á vefnum fyrir um áratug en eins og í tilfellum margra elstu pistla taldi höfundur tíma kominn á uppfærslu. Grundargata er mjög stutt, aðeins 90 metrar og við hana standa sex hús. Grundargata hefur einhvern hæsta meðalaldur húsa sem þekkist í bænum en húsin sex, sem standa við götuna eru á aldrinum 99-138 ára á árinu 2023. Hornhúsið við Gránufélagsgötu austanmegin, Grundargata 6, er einmitt 120 ára í ár.

    Grundargata 6 er reisulegt og stórbrotið hús. Það er dæmi um hús, þar sem viðbyggingar og viðbætur hafa skapað ákveðin sérkenni og gefið því sitt einstaka lag. Við getum borið saman hús nr. 5 og 6 við Grundargötu. Þau eru reist um aldamótin 1900, hús nr. 5 raunar nokkuð eldra, og voru í upphafi nokkuð svipuð í útliti, þ.e. ein hæð með háu mænisrisi (A-laga þaki). Grundargata 5 er nokkurn veginn óbreytt frá upphafi en nr. 6 var breytt umtalsvert á árunum um 1920 og eru þess hús nú gjörólík. Grundargötu 6 reisti Jón Jónatansson járnsmiður árið 1903. Fékk hann lóð þar sem mættust Grundargata og „hin fyrirhugaða gata austur og vestur eyrina“ og þar átt við Gránufélagsgötu, sem ekki hafði hlotið nafn. Fékk hann að reisa hús 10x12 álnir (6,3x7,5m) einlyft með porti og gerði bygginganefnd kröfu um, að a.m.k. þrír gluggar væru á norðurstafni. 

     P6060005Húsið er stórt einlyft timburhús með portbyggðu risi. Risið, sem er gaflsneitt, er af svokallaðri mansard gerð. Mansard mætti lýsa þannig að risið sé tvískipt, efra risið að mæni er aflíðandi en upp frá veggjum er risið bratt. Þannig er brot í risinu, enda mansardþök stundum kölluð „brotið ris“. Kvistur er á austurhlið hússins. Að sunnanverðu skagar austurhluti hússins fram um líklega 1,5m og í kverkinni við útskotið eru útidyr. Á veggjum er panell eða vatnsklæðning, krosspóstar í gluggum og bárujárn á þaki. Skv. ónákvæmri mælingu grunnflatar á kortavefnum map.is mælist grunnflötur hússins um 11x8m, útskot að sunnanverðu um 5,5x1,5m.

    Jón Jónatansson (1850-1913), sem reisti húsið, var Þingeyingur. Hafði hann áður verið bóndi á Skriðulandi í Aðaldal en einnig verið í vistum á bæjum í Fnjóskadal og Aðaldal. Til Akureyrar flutti hann fyrir 1890 og árið 1901 er hann titlaður aukapóstur. Jón var kvæntur Guðrúnu Sesselju Jónsdóttur, sem einnig var Þingeyingur, nánar tiltekið úr Múlasókn. Á meðal barna þeirra var Kristján (1886-1972) bakari, en hann stofnaði árið 1912, Brauðgerð Kr. Jónssonar eða Kristjánsbakarí.  

     Árið 1912, eða mögulega síðla árs 1911, eignast Ágúst Jónsson tómthúsmaður Grundargötu 6. Tveimur árum síðar er sonur hans, Ólafur húsgagnasmiður, orðinn eigandi hússins ásamt föður sínum.   Ólafur fékk að byggja við húsið árið 1915, einlyfta byggingu, 5x5,65m að stærð suðaustanmegin við húsið. Þar hafði hann trésmíðaverkstæði.

    Árið 1917 var Grundargata 6 virt til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús einlyft með porti og háu risi á kjallara. Viðbygging við bakhlið ein lofthæð á kjallara. Á gólfi við framhlið 2 stofur. Við bakhlið forstofa og eldhús. P5010521Á lofti 2 íbúðarherbergi og 2 geymsluherbergi. Kjallara skipt í tvennt. Í viðbyggingunni er trésmíðaverkstæði (Brunabótafélag Íslands, 1917: nr. 237). Á uppdrætti með brunabótamati sést að viðbygging hefur staðið nokkuð innan við norðurstafn hússins en jafnframt skagað örlítið fram fyrir suðurstafninn. Húsið er sagt 7,5x6,3m að stærð en stærð viðbyggingar er ekki gefin upp.

    Árið 1920 sækir Ólafur Ágústsson aftur um að byggja viðbótarbyggingu við húsið og hefur bygginganefnd á orði, að þessar P5010520breytingar verði til prýði fyrir húsið. Ekki fylgja lýsingar, en fram kemur að breytingarnar séu samkvæmt uppdrætti. Breytingar þessar fólust væntanlega í því, að þak viðbyggingar var hækkað, sem og þak upprunalegs húss og núverandi þakgerð komið á. Þá hefur viðbyggingin væntanlega verið lengd til norðurs, að stafni upprunalega hússins. Í Húsakönnun 1995 eru leiddar að því líkur, að húsið hafi þá fengið það lag sem það hefur nú. Á mynd, sem tekin er 1931, sést að húsið hefur fengið núverandi útlit.  Mögulega hefur húsið verið járnklætt um svipað leyti, en á húsinu var löngum bárujárn og steinblikk.Hjaltalinshus_breytingasaga

     Nokkrum árum eftir þessar framkvæmdir reisti Ólafur Ágústsson stórhýsi við Strandgötu 33 og flutti þangað ásamt fjölskyldu sinni. Það var árið 1924. Þá eignaðist húsið, þ.e. Grundargötu 6, Bjarni Hjaltalín, fiskimatsmaður. Átti Hjaltalínsfjölskyldan heima þarna um áratugaskeið og húsið jafnan nefnt Hjaltalínshús. Íbúðaskipan hefur sjálfsagt verið margvísleg í gegnum tíðina, í manntölum frá 3. og 4. áratug eru ýmist tvö eða þrjú íbúðarrými skráð í húsinu. Síðustu áratugina hefur húsið verið einbýlishús.

    Á árunum 2010-18 fóru fram á húsinu viðamiklar endurbætur. Það hafði lengi verið járnklætt en þegar þeirri klæðningu var flett af, sumarið 2011, P8240313 mátti sjá móta fyrir útlínum upprunalega hússins á norðurstafni. Endurbæturnar hafa heppnast stórkostlega og er Grundargata 6 eða Hjaltalínshúsið nú sannkölluð perla í umhverfi sínu. Húsið er stórbrotið og sérstakt í útliti og svo sannarlega hægt að taka undir ríflega aldargamalt álit bygginganefndar, að breytingar Ólafs Ágústssonar séu til prýði. Í Húsakönnun 2020 hlýtur húsið miðlungs varðveislugildi og er að sjálfsögðu aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir árið 1923. Meðfgylgjandi myndir af Grundargötu 6 eru teknar 29. desember 2018, 1. maí 2017 og 24. ágúst 2011. Myndin af Grundargötu 5 er tekin 6. júní 2013. 

Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1  Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 252, 2. júlí 1903. Fundur nr. 404, 15. feb. 1915 Fundur nr. 473, 2. Ágúst  1920. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.


Hús dagsins: Fróðasund 10

Um uppruna Fróðasunds 10, eða 10a, er í raun ekki mikið vitað.P8081030 Það er að öllum líkindum þriðja elsta hús Oddeyrar, en gæti þó mögulega verið það annað elsta. Líkt og í tilfellum margra elstu húsa Oddeyrar liggur ekki fyrir byggingarleyfi en vitað, að Sigurður nokkur Sigurðsson er búsettur þarna árið 1877. Það er eflaust ekki óvitlaust, að miða við það, að hann hafi byggt húsið það ár. Á þessum árum voru fyrstu íbúðarhús Oddeyrar að byggjast upp og eigandi landsins, Gránufélagið, virðist ekki hafa kippt sér mikið upp við það, þó menn byggðu þar, svo fremi sem menn gengu frá lóðarmálum. Og þar lá heldur ekkert á, Snorri Jónsson fékk t.d. sína lóð um þremur árum eftir að hann reisti hús sitt. Þá fengu Björn Jónsson og Þorsteinn Einarsson lóð undir steinhús mikið, sem þeir reistu, fáeinum árum síðar. Bygginganefnd Akureyrar virðist einnig hafa kært sig kollótta, en hún útvísaði þó lóðum fremst á Eyrinni, þ.e. við Strandgötu. Og í tilfelli húss Sigurðar Sigurðssonar fylgdi raunar ekki lóð.

Húsið var upprunalega reist spölkorn sunnar og austar á Eyrinni, á austurbakka Fúlalækjar og varð síðar Norðurgata 7. Það er freistandi að áætla, að lega hússins hafi tekið mið af nýbyggðu húsi Jóns Halldórssonar (Strandgötu 27) í suðri. Árið 1877 lá nefnilega ekki fyrir neitt formlegt gatnaskipulag á þessum slóðum, það var ekki fyrr en sumarið 1885 að gatan, sem síðar fékk heitið Norðurgata, var ákvörðuð. Þá höfðu tvö önnur hús risið í sömu stefnulínu. Um aldamótin 1900 fékk sama gata nafnið Norðurgata.  

Fróðasund 10 er einlyft timburhús á háum kjallara og háu risi. Á suðurhlið er inngönguskúr. Veggir eru klæddir steinblikki eða múrhúðaðir (norðurveggur) og bárujárn á þaki og þverpóstar í flestum gluggum. Grunnflötur hússins mælist um 5,5x6m á kortavef, inngönguskúr 5x2m.

Sem fyrr segir stóð húsið við Norðurgötu 7. Árið 1890 er eigandi hússins Karl Kristinn Kristjánsson og húsið nefnt „Hús Karls Kristjánssonar, Oddeyri.“ Þá eru búsett þar Karl og kona hans, Guðný Jóhannsdóttir og þrjú börn. Á meðal þeirra var Jakob (1885-1957), síðar verslunar- og athafnamaður hjá Eimskipafélaginu og Skipaútgerð ríkisins. Hann byggði mikið sveitasetur, Lund, ofan Akureyrar (nú í miðri byggð) árið 1925. Karl Kristjánsson lést árið 1894 og árið 1901 býr Guðný og börn hennar í Aðalstræti 19. Fróðasund 10a, sem síðar varð, var eitt þeirra húsa, mögulega það fyrsta, sem hýsti Oddeyrarskólann hinn eldri. Barnakennsla hófst á Oddeyri árið 1879 og fór fram í hinum ýmsum íbúðarhúsum næstu tuttugu árin. 

     Einhvern tíma á þessu árabili flytur Bjarni Hjaltalín fiskimatsmaður frá Neðri Dálksstöðum á Svalbarðströnd ásamt fjölskyldu sinni í húsið. Var húsið löngum nefnt Hjaltalínshús eftir þeim. Húsið var þó í eigu Gránufélagsins og síðar Hinna sameinuðu íslensku verslana til ársins 1916, ef marka má manntöl. Árið 1917, þegar húsið er virt til brunabóta, er Bjarni hins vegar orðinn eigandi hússins, og kemur það einnig heim og saman við manntal það ár. En það var 8. mars það ár sem matsmenn Brunabótafélagsins sóttu Hjaltalínsfjölskylduna heim og lýstu húsinu þannig: Íbúðarhús einlyft með porti og háu risi á steingrunni, lítill skúr á bakhlið. Á gólfi við framhlið ein stofa, forstofa og búr, við bakhlið ein stofa og eldhús. Á lofti tvö íbúðarherbergi og gangur. Veggir timburklæddir og þak járnvarið. Grunnflötur 6,3x5,2m, hæð 5,7m, átta gluggar á húsinu og einn skorsteinn. (Brunabótafélagið, 1917, nr. 1917). Fylgir það sögunni, að skorsteinn þessi var ekki í samræmi við brunamálalög, þar eð hann var of þunnur. 

     Það er óneitanlega nokkuð sérstakt, að þau rúmlega 20 ár sem Bjarni Hjaltalín og fjölskylda eru búsett hér, eru  Hinar sameinuðu verslanir (Gránufélagið þar áður) skráðar eigandi hússins í öllum manntölum öðrum en 1917. Hjaltalínsfjölskyldan mun hafa flutt úr húsinu 1924 en í október það ár búa hér Jóhannes Jónsson verslunarmaður og Sigrúnpa100009_1045338.jpg Sigvaldadóttir.    

     Árið 1942 búa í Norðurgötu 9 þau Valdimar Kristjánsson og Þorbjörg Stefanía Jónsdóttir. Á meðal barna þeirra var Óðinn (1937-2001) stórsöngvari. Hann er m.a. þekktur fyrir ódauðlegan flutning margra dægurlagaperla á borð við Ég er kominn heim, Í kjallaranum, og Útlaginn.  Valdemar eignaðist einnig hús nr. 7. Daginn fyrir lýðveldisstofnun, 16. júní 1944, heimilar Bygginganefnd Valdimari að flytja húsið Norðurgötu 9 á lóð við Fróðasund, milli Fróðasunds og 9 og Norðurgötu 17. Um leið var Norðurgata 7 flutt á lóðina sunnan við. Þar með urðu húsin nr. 7 og 9 við Norðurgötu að Fróðasundi 10a og 11. (Fróðasund 10b stóð sunnan við nr. 10a, en það hús var rifið árið 1998).

Margir hafa átt húsið og búið hér frá því það varð Fróðasund 10a, en öllum auðnast að halda húsinu vel við og er það í fyrirtaks hirðu. Það stendur á gróskumikilli lóð og er til mikillar prýði í umhverfinu. Staðsetningu þess má lýsa þannig, að það leyni á sér en Fróðasund 10 og 11 eru bakatil á milli Lundargötu og Norðurgötu. Húsið hefur varðveislugildi sem hluti af heild, hlýtur miðlungs varðveislugildi í Húsakönnunn 2020. Það er vitaskuld aldursfriðað, enda byggt 1877 og líklega um að ræða þriðja elsta hús á Oddeyri, á eftir Gránufélagshúsunum og Strandgötu 27. Myndirnar eru teknar annars vegar 8. ágúst 2022 og 10. október 2010. 

Heimildir: Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Hskj.Ak. F-117/1  Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1941-1948. Fundur nr. 980, 16. júní 1944. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.


Hús dagsins: Lundargata 6

Árið 1897 hafði Bygginganefnd Akureyrar starfað í 40 ár og haldið 150 fundi. Í 151. fundargerð segir svo orðrétt: IMG_0073„Ár 1897 þriðjudaginn þ. 17. ágúst 1897 var byggingarnefndin í Akureyrarkaupstað til staðar á Oddeyri eftir beiðni Björns Ólafssonar frá Dunhaga til þess að mæla út lóð undir hús hans er hann ætlar að byggja og sem á að vera 12 ál. á lengd og 10 ál. á breidd. Byggingarnefndin ákvað að húsið skyldi standa 10 ál. í norður frá húsi Baldvins Jónssonar sem þá var í smíðum í og í beinni stefnu að vestan við það og hús Jakobs frá Grísará“ (Bygg.nefnd. Ak. 1897 nr. 150). Umrætt hús Björns Ólafssonar fékk nokkrum árum síðar númerið 6 við Lundargötu. Af hinum húsunum, sem nefnd eru þarna, skal sagt frá í örstuttu máli. Hús Baldvins Jónssonar var Lundargata 4. Það brann til ösku í janúar 1965. Hús Jakobs frá Grísará var Lundargata 10. Það var byggt árið 1894. Árið 1920 var það flutt spölkorn norður og yfir Lundargötu, á lóð nr. 17. Örlög þess urðu þau sömu og Lundargötu 4, það er, húsið skemmdist í bruna 6. maí 2007 og var rifið einhverjum misserum síðar. 

            Lundargata 6 er einlyft timburhús á háum steyptum grunni, með háu portbyggðu risi. Á veggjum er vatnsklæðning eða panell, sexrúðupóstar í gluggum og bárujárn á þaki. Grunnflötur hússins mun vera 7,62x6,39m. Kemur það heim og saman við upprunaleg mál, 10 álnir eru 6,3m og 12 álnir um 7,5m. 

            Björn Ólafsson virðist ekki hafa búið lengi í húsinu en árið 1902 er Lundargata 6 komin í eigu Gránufélagsins. Þá eru fjórar íbúðir skráðar í húsinu, og íbúarnir alls fjórtán að tölu. Á meðal sextán íbúa Lundargötu 6 árið 1912 voru þau Pétur Gunnlaugsson og Sigurjóna Steinunn Jóhannsdóttir.  Þann 9. febrúar 1913 fæddist sonur þeirra, Jóhann Kristinn, í þessu húsi en hann varð síðar þekktur undir nafninu Jóhann Svarfdælingur, hávaxnasti Íslendingur sem sögur fara af. Þau Pétur og Sigurjóna munu hafa flutt til Dalvíkur skömmu síðar og þaðan að Brekkukoti í Svarfaðardal. 

            Húsið var í eigu Gránufélagsins og síðar Hinna Sameinuðu íslensku verslana, arftaka Gránufélagsins, og leigt út til íbúðar. Árið 1931 eignaðist Tryggvi Jónatansson múrarameistari húsið. Hann reisti verkstæðishús á baklóð hússins, Lundargötu 6b. Tryggvi Jónatansson var mikilvirkur í teikningu húsa á Akureyri á fyrri helmingi 20. aldar, og á t.d. heiðurinn af drjúgum hluta stórmerkilegrar funkishúsaraðar í Ægisgötu. Kannski hefur hann teiknað þau og fjölmörg önnur hús heima í Lundargötu 6. 

            Mögulega hefur Tryggvi klætt húsið steinblikki, en sú klæðning var á húsinu, þegar gagngerar endurbætur hófust á því um 1985. Þeim endurbótum lauk um áratug síðar og hafði húsið þá fengið timburklæðningu og glugga í samræmi við upprunalegt útlit. Árið 2004 var steyptur nýr kjallari undir húsið og það hækkað um rúmlega hálfan metra. Teikningarnar að þessum endurbótum gerðu Haukur Haraldsson og Fanney Hauksdóttir. Nú er húsið í mjög góðri hirðu, enda hefur núverandi eigandi einnig gert mikla bragarbót á húsinu og umhverfi þess. Þannig er húsið til mikillar prýði í umhverfinu. Það er að sjálfsögðu aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir 1923 og hlýtur í Húsakönnun 2020 hátt varðveislugildi sem hluti heildstæðrar götumyndar Lundargötu. Meðfylgjandi mynd er tekin 26. febrúar 2023.

HeimildirBjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 151, 17. ágúst 1897. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni:  http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is,  greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2023
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 585
  • Frá upphafi: 420750

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 466
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband