Færsluflokkur: Bloggar
21.6.2016 | 09:31
Árstíðir á Brekkugötu
Sunnan við húsið Brekkugötu 30 stendur myndarlegt kirsuberjatré. Ég þekki ekki uppruna þess, en verið gæti að Jónas Þór forstjóri sem byggði húsið hafi gróðursett það. Hann var mikill áhugamaður um trjárækt og gerði t.d. tilraunir með ræktun eplatrjáa í garði sínum að Brekkugötu 34, sem hann byggði síðar. Sé það tilfellið að Jónas Þór hafi gróðursett tré er það a.m.k. 70-80 ára gamalt, því Jónas reisti þetta hús 1923 en flutti 1944 í þar næsta hús, nr. 34. Ég fór í ljósmyndaleiðangur um þennan hluta Brekkugötunnar núna í ársbyrjun. Eins og gefur að skilja var gróskan ekki mikil í trjánum þá (10.janúar) og því hugsaði ég með mér, að ég yrði nú að mynda þetta ágæta tré aftur þegar sumraði. Það gerði ég í gærkvöld, á miðnætti á Sumarsólstöðum. Hér til hliðar er myndin af Brekkugötu 30 frá 10.janúar sl. kirsuberjatréð lengst til hægri. Hér má sjá kirsuberjatréð góða að Brekkugötu 30 í sumarskrúða:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2016 | 09:14
Hús dagsins: Bjarmastígur 15
Efri hluti Bjarmastígs liggur á norðurbarmi Skátagils, austur og niður frá Oddeyrargötu. Efst við götuna stendur hið reisulega steinhús Bjarmastígur 15. Það er meðal elstu húsa við götuna, byggt 1930 af Gunnari Jónssyni. Höfundur hússins er ókunnur en hér eru teikningar af húsinu, uppmælingarteikningar, dagsettar í mars 1938.
Bjarmastígur 15 er tvílyft steinsteypuhús með háu risi. Á þaki eru miðjukvistur á framhlið eða austurhlið (suðurstafn hússins snýr að götu) en kvistur með hallandi þaki á bakhlið eða vesturhlið. Á þeirri hlið eru einnig steyptar tröppur upp á aðra hæð og þar eru tveir inngangur, hvor fyrir sína hæð. Á götuhlið eru einnig inngöngudyr fyrir miðju. Krosspóstar eru í gluggum en nýlegt stallað bárujárn á þaki. (Þessa klæðningu hef ég einnig stundum nefnt skífustál en mér þykir hún líkja nokkuð eftir steinskífuklæðningu). Efst, upp undir í rjáfri eru tígullaga gluggar, líklega á háalofti. Nyrsti hluti hússins er álma með flötu þaki. Þar er á teikningunum sem vísað er til hér að framan gert ráð fyrir kvisti með aflíðandi risi (stafnkvisti). Þar er gert ráð fyrir stofu til austurs en tveimur herbergjum til vesturs og gangi á milli. Á teikningunni kemur fram að hann verði byggður 1942 þ.e. fjórum árum eftir að teikningarnar eru gerðar. Mögulega hafa teikningar þessar verið gerðar vegna áforma um stækkun hússins, því þar er einnig að finna geymsluálmu sem standa átti áföst húsinu við norðausturhornið. Bygginganefnd gaf grænt ljós á byggingu norðurkvistsins vorið 1942, en ekki varð þó úr framkvæmdunum.
Húsið er byggt sem íbúðarhús og hefur alla tíð þjónað sem slíkt. Nú eru þrjár íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð og í risi. Húsinu er vel við haldið og virðist í góðu standi og er til mikillar prýði í umhverfinu. Það er nokkuð stærra en nærliggjandi hús- en þó ekki svo að það skeri sig úr. Skv. Húsakönnun frá 2014 er varðveislugildi hússins ekki metið verulegt umfram önnur hús við Bjarmastíg en húsið er líkast til annað elsta hús götunnar. Oft er það tilfellið, að litlir hlutir eða smáatriði gefa húsum ákveðinn svip eða skemmtileg sérkenni. Það geta verið t.d. útskornir sperruendar undir þakskeggi, gluggar, handrið, dyraskýli o.s.frv. Í tilfelli Bjarmastígs 15 myndi ég segja að tígullaga smágluggarnir flokkist undir þetta. Myndin er tekin sl. haust, 28.október 2015.
Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933.
Bygginganefnd Akureyrarbæjar: Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 908, 30.4.1942,
Óprentaðar heimildir, varðveittar á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinnihttp://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2016 | 15:38
Hús dagsins: Bjarmastígur 13
Árið 1928 fékk Guðrún Sigurgeirsdóttir leigða lóð við Bjarmagötu og leyfi til að reisa þar tvíloptað íbúðarhús með valmaþaki, 8,4x8,8m. Heitið Bjarmagata er notað í bókun Bygginganefndar en svo vill til, að elsta heimildin sem leitarvél timarit.is finnur, þar sem heitið Bjarmastígur kemur fyrir er einmitt frétt um veitingu byggingaleyfa fyrir 5 íbúðarhúsum í Verkamanninum. Þar með talið er hús Guðrúnar Sigurgeirsdóttur við Bjarmastíg. En húsið er líkast til elsta húsið við Bjarmastíg, byggt 1929. Hönnuður hússins er ókunnur, upprunalegar teikningar hafa mögulega ekki varðveist en húsið er ekki ósvipað húsum sem Halldór Halldórsson og Tryggvi Jónatansson teiknuðu. Húsið er raunar af nokkuð útbreiddri gerð steinhúsa frá síðari hluta þriðja áratugarins og mörg svipuð hús má t.d. finna við Oddeyrargötu, í næsta nágrenni.
Bjarmastígur 13 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki og stendur húsið á kjallara. Á austurhlið er tvílyft álma með flötu þaki og svalir ofan á, gengið út á þær af annarri hæð. Þar eru einnig inngangar sem snúa mót suðri, annars vegar á kjallara og á hæð hins vegar og þangað eru steyptar tröppur að götu. Hvít timburhandrið á tröppum og svölum gefa dálítið skemmtilegan svip. Krosspóstar eru í gluggum en bárujárn á þaki. Húsið stendur hærra en gatan, líkt og flest oddatöluhúsin við Bjarmastíg og er steyptur kantur á lóðarmörkum.
Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús en þar hefur m.a. verið starfrækt saumastofa (hér er auglýsing frá 1933). Upprunalega voru tvær íbúðir í húsinu, væntanlega hvor á sinni hæð en við gagngerar endurbætur á húsinu um 2010 var húsinu breytt í einbýlishús. Húsið lítur vel út og virðist sem nýtt en er þó að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð að yrta byrði. Fyrir fáeinum árum var unnin Húsakönnun á þessu svæði og metur hún sem svo, að húsið hafi ekki varðveislugildi umfram önnur hús við Bjarmastíg. En húsið er til mikillar prýði, vel hirt og snyrtilegt og sömu sögu er að segja um lóðina.
Framan við húsið stendur stórt og mikið döglingsviðartré. Dögglingsviður, sem einnig er kallað Douglasviður eða douglasgreni (sem er rangnefni- er ekki grenitegund) er amerískættað barrtré af þallarætt. Það er í hópi þeirra trjátegunda í heiminum sem verða hæst, allt að 100 m, í heimkynnum sínum og er einnig fyrirtaks smíðaviður. Viðargerðin Oregon Pine er unnin úr dögglingsviði. Hér er mynd, sem tekin var í trjágöngu Skógræktarfélags Eyfirðinga í lok ágúst 2013 en þar var numið staðar við Bjarmastíg 13 og haldin tala um dögglingsviðartréð. Myndin af húsinu er tekin 28.febrúar 2016.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 619, 17.sept. 1928. Óútgefið, varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinnihttp://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2016 | 10:36
Hús dagsins: Barð (áður Aurora) við Eyrarlandsveg 25.
Eyrarlandsvegi á Brekkunni mætti skipta í tvo hluta, efri og syðri hluta, sem liggur á brekkubrúninni framan Lystigarðs og lóð Menntaskólans á Akureyri. Hið tilkomumikla timburhús skólans, Gamli Skóli frá 1904 stendur nr. 28 við götuna. Neðri og nyrðri hluti liggur frá Grófargili bak Akureyrarkirkju og upp á brún Barðsgils. Upp það gil liggur hinn svokallaði Menntavegur frá Hafnarstræti norðan Samkomuhúss. Á þessu stað mætast Eyrarlandsvegur og Hrafnagilsstræti en þarna einnig liggur gatan Barðstún á brekkubrúninni, samsíða efri hluta Eyrarlandsvegar. En við hvaða Barð er gilið og gatan kennd ? Því verður svarað hér.
Gegnt Gamla Skóla standa sex íbúðarhús, Eyrarlandsvegur 25, 27, 29, 31, 33 og 35. Á nr. 25 stendur hús nokkuð frábrugðið næstu húsum, steinhús með flötu þaki. En þarna stóð áður smábýlið Barð, hjáleigan úr landi Stóra- Eyrarlands. Hér ætla ég að mestu að fjalla um það hús sem síðast stóð þar . Hér til hliðar má sjá teikningu höfundar að Barði eins og það mun hafa litið út fyrstu áratugi 20.aldar. Stuðst var við ljósmynd sem birtist í Húsakönnun um MA-reit (sjá tengil í heimildaskrá) Íbúðarhúsið á Barði stóð nokkurn veginn þar sem Eyrarlandsvegur 25 stendur nú. Það var ekki stórt eða háreist, aðeins um 35 fermetrar (3,9x8,8m segir í Fasteignamati 1918) en saga þess var nokkuð sérstök. Það kom t.d. hingað til lands með skipi og hýsti nokkuð merkilega starfsemi áður en það settist að á Barði.
Um aldamótin 1900, þ.e. 1899-1900 var hópur danskra vísindamanna staddur á Akureyri við rannsóknir á norðurljósum. Fyrir þeim hópi fór Adam Paulsen eðlisfræðiprófessor en með í för voru einnig þeir Harold Moltke greifi og listmálari, Dan B. La Cour, eðlisfræðingur og Ivar B. Jantzen nemi. Þeir höfðu bækistöðvar á nokkrum stöðum við bæinn í litlum húsum, ekki ósvipuðum vegavinnuskúrum, sem þeir fluttu með sér. Mun ein stöðin hafa verið sem næst hátindi Ytrisúlu en eitt húsið, sem þeir kölluðu Auroru settu þeir niður ofan Naustagils. Kom þetta hús til Akureyrar forsmíðað frá Danmörku, þann 9.ágúst 1899. Þarna var bækistöð Norðurljósamanna en einnig vinnustofa Moltke greifa en eftir hann liggja mörg málverk af norðurljósum. Í húsinu voru einnig geislavirk efni fyrst notuð á Íslandi, en Paulsen notaði þau við segulmælingar. Efnin sem hann notaði fékk hann hjá Pierre Curie en hann og kona hans Marie voru frumkvöðlar í uppgötvun og nýtingu geislavirkra efna. Til er fræg mynd sem m.a. prýðir anddyri Icelandair hótels á Akureyri, sem sýnir prúðbúið fólk skála í kampavíni á tindi Súlna. Þar má m.a. sjá Moltke greifa í félagi við heiðursfólk á Akureyri m.a. Axel og Önnu Schiöth. Aurora stóða á barmi Naustagils, nærri suðurmörkum Kirkjugarðs Akureyrar. Hér er ítarleg ritgerð um Norðurljósamennina (sem margir Akureyringar kölluðu svo) og málverk Moltkes. Þess má einnig geta, að við mælingu grunnlínu Akureyrar sumarið 1900 höfðu landmælingamennirnir dönsku bækistöð í Auroru.
Á sama tíma, snemma sumars árið 1900 hugðist Olgeir Júlíusson bakari (faðir Einars alþingismanns) byggja á Barði. Fékk hann leyfi til að reisa hús 14x7al.að stærð suðvestan við gamla bæinn. Ekki kemur neitt frekar fram í bókunum Bygginganefndar frá þessum árum, en vitað er að einhvern tíma á bilinu 1901-05 (mögulega síðla árs 1900) var húsið Aurora flutt á þennan stað og varð að íbúðarhúsi á Barði. Hvort tilfellið hafi verið, að Olgeir hafi fengið leyfi til byggingar húss af þessari stærð og síðan óvænt fengið það tilboð að flytja Auroru-húsið í stað byggingar, eða að hann hafi strax í júní 1900 haft augastað á húsinu og fengið leyfi til að flytja það þangað fæst ekki upplýst. Mögulegt er, að byggingaleyfið vísi til steypts grunns sem undir húsinu var. En árið 1918 fást þessar upplýsingar um Barð í Fasteignamati. Húsið er sagt íbúðarhús úr timbri með járnklæddu þaki, einlyft með lágu risi 3,9x8,8m að stærð, 3 herbergi og byggt 1900. Þar standa einnig gripahús og heyhlaða úr steinsteypu með járni á þaki. Húsakosturinn er metinn á kr. 2900 en lóðin sem sögð er 448 fermetrar á kr. 400. ( Ég ætla ekki að reyna að snara þessum tæplega 100 ára krónutölum til núvirðis! ). Eigandi er Haraldur Júlíusson, bróðir Olgeirs. Þar er Barð sagt nr. 2 við Eyrarlandsveg en fékk að öllum líkindum númerið 25 þegar húsin nr. 27-31 tóku að byggjast um 1923.
Líklegt má telja að búskapur hafi verið stundaður vel framan af 20.öld en á 4.áratugnum var næsta nágrenni hússins að mestu fullbyggt.
Kjallari var undir húsinu, og til er sú saga að bankaræningi hafi verið þar í felum þar til hann komst í skip frá Akureyri. Þessi saga er rakin nokkuð skilmerkilega í rammagrein á bls. 66 í bók Steindórs Steindórssonar (1993), Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Var þar um að ræða bankastjóra, sem einn daginn virtist gufaður upp og á sama tíma kom í ljós að sjóðir bankans virtust í verulegi ólagi. Bankastjórans var leitað lengi en í raun var hann allan tíman í felum hjá Maríu [Flóventsdóttur] í Barði (móður Olgeirs og Haraldar) sem einnig kom honum til hjálpar með hest og söðul. Síðar fréttist af þessum sama bankastjóra í Ameríku. Það kemur fram í frásögninni að aldrei var Maríu álasað fyrir þetta tiltæki, heldur þótti þetta til marks um fádæma góðmennsku fátæku húsfreyjunnar í Barði.
Húsið breyttist lítið þann tíma sem það stóð og aldrei var það stækkað, þrátt fyrir að vera aðeins þessir 30 fermetrar á einni hæð. Húsið var upprunalega panelklætt að utan en fékk síðar steinblikkklæðningu, líkt og mörg timburhús. Um 1968 var húsið flutt upp í Hlíðarfjall þar sem hugmyndin var að nýta það sem skýli fyrir gönguskíðafólk. Á myndinni hér til hliðar má sjá Barðshúsið eða Auroru fyrir framan Skíðahótelið. Myndina fékk ég senda frá Víði Gíslasyni en hana tók Hermann Sigtryggsson um 1969.Veitti hann góðfúslegt leyfi til notkunar á henni hér. Ef rýnt er inn í myndina má sjá áletrunina "Eyrarlandsvegur 25" á horni hússins.
Húsið reyndist ekki fullnægjandi þar uppfrá og fór ekki betur fyrir því en svo að það fauk í aftakaveðri og skemmdist og var rifið í kjölfarið. Lauk þar með sögu þessa stórmerkilega húss, sem 70 árum áður hafði verið flutt á skipi til Akureyrar í þeim tilgangi að vera bækistöð vísindarannsókna. Alla tíð bjó sama fjölskyldan í barði, Júlíus Kristjánsson og áðurnefnd María Flóventsdóttir og börn þeirra, Olgeir (flutti reyndar í Strandgötu 41 á Oddeyri fljótlega eftir að hann reisti húsið) Haraldur, Þorgerður, Jakobína og Kristrún Júlíusbörn. Sú síðasttalda var kölluð Rúna í Barði og er hún mögulega einn annálaðasti ræstitæknir sem sögur fara af. Í nær hálfa öld, frá árinu 1912 starfaði hún við þrif á göngum Menntaskólans á Akureyri og margir fyrrum nemendur skólans muna eftir henni. Hér er minningargrein um þessa heiðurskonu úr skólablaði Menntaskólans á Akureyri, Muninn frá vetrinum 1967 en Rúna lést í nóvember 1966 (fædd 1882).
Núverandi hús á Eyrarlandsvegi 25 er byggt árið 1970 eftir teikningum Jóns Geirs Ágústssonar. Það er einlyft steinsteypuhús með flötu þaki en stendur á kjallara. Lóðin er mishæðótt og er inngangur í kjallara austanmegin. Austurhlið hússins snýr einmitt að götunni Barðstúni- sem heitir eftir Barði.
Á þessari mynd er horft á Eyrarlandsveg 25 úr norðri. Austurhlið hússins snýr að götunni Barðstúni, sem gengur þarna til suðurs frá Eyrarlandsveginum á barmi Barðsgils. Þarna stóðu íbúðarhús og byggingar á Barði. Myndin er tekin 18.maí 2015.
Upprunalega stóð Barðshúsið, eða Aurora, á höfðanum á suðurbarmi Búðargils, sunnan Kirkjugarðsins. Það er u.þ.b. á þeim slóðum sem þessi mynd er tekin þann 8.nóv. 2015.
Heimildir:
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 189, 6.júní 1900.
Óprentað, varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Fasteignamat á Akureyri 1918
Ópr. varðveitt á Hskjs. Ak.
Leó Kristjánsson. (Án árs) Þrjár greinar um norðurljósaleiðangra til Íslands á árunum 1883-1910. Pdf-skjal á slóðinni https://notendur.hi.is/leo/Nordurljos.pdf
Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf
Nordlysets maler. Harald Moltkes Malerier på Meteorologisk Institut. Höf. Peter Stauning og Sören Henrikssen, Köbenhavn 2008. Vísað er á greinina í krækju í texta.
Steindór Steindórsson. (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Sérlegur heimildamaður minn við skrif þessarar greinar heitir Víðir Gíslason. Hann veitti mér margvíslegar heimildir, bæði gegn um símtöl og tölvupósta og kann ég honum bestu þakkir fyrir.
Hermanni Sigtryggssyni þakka ég einnig kærlega fyrir góðfúslegt leyfi til birtingar á ljósmyndinni af Barði við Skíðastaði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2016 | 12:14
Hús dagsins: Oddeyrargata 4
Þann 15.maí sl.birti ég grein hér á síðunni um Oddeyrargötu 6. Sú dagsetning var engin tilviljun því þann dag voru 100 ár liðin frá útgáfu byggingarleyfis fyrir húsinu. Og þar eð ég hafði þann háttinn á varðandi Oddeyrargötu 6 er mér að sjálfsögðu ljúft og skylt að birta í dag, 7.júní pistil um næsta hús neðan við. (Strangt til tekið hefði þessi grein átt að birtast í fyrradag en þann 5.júní 1916 fékk Jón Ísfjörð leyfi til að byggja Oddeyrargötu 4- en dagsetningar eru ekki heilagar, nema e.t.v. hjá þeim er þetta ritar)
Það var fyrir réttri öld eða snemma sumars 1916 sem Jón Ísfjörð skósmiður fékk leyfi til að reisa hús einlyft á kjallara með lágu risi að við framhald af Gránufélagsgötu. Hann hafði falast eftir lóð á sama stað og Trausti Reykdal (Oddeyrargata 6) en fékk lóðina við hliðina. Í byggingarleyfi og eins Fasteignamati 1918 er húsið sagt 6,3x6,3m að stærð en það munu vera 10x10 álnir. Það er raunar ekki óalgengt í bókunum frá þessum tíma, að stærðir húsa séu gefnar upp sem margfeldi af 0,63 metrum. Dettur mér í hug, að þarna hafi menn nýlega innleitt metrakerfið í opinberu tali en hugsað í álnum. Í bókum Bygginganefndar eru álnirnar alls ráðandi fyrstu árin eftir 1900 en víkja smám saman fyrir metrunum upp úr 1910 en þó má lengi vel sjá eina og eina alin á stangli fram undir 1920. Eftir það víkja þær h.u.b. algjörlega fyrir metrunum. Nóg um það.
Oddeyrargata 4 er einlyft steinsteypuhús með lágu risi og stendur það á háum kjallara, raunar svo háum að kalla mætti jarðhæð. Húsið er raunar tvær álmur, önnur þ.e. Sá hluti hússins sem byggður er 1916 snýr NA-SV en hín gengur vestur úr húsinu bakatil. Þar er um að ræða viðbyggingu frá því um 1980. Á NA-gafli hússins er forstofubygging og steyptar tröppur upp að henni en inngangar á jarðhæð eru m.a. á framhlið hússins og undir tröppum. Á suðvesturhlið er sólpallur. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki en veggir hæðar eru múrsléttaðir en múrklæðning jarðhæðar með e.k. hraun áferð; í húsakönnun 2014 kallast það einfaldlega grófur múr. Upprunalegur hönnuður hússins er ekki þekktur en vitað er að Sveinbjörn Jónsson teiknaði viðbyggingu við húsið 1920, þ.e. skömmu eftir að það var byggt. Þar er að öllum líkindum um að ræða inngönguhúsið á gafli. Viðbygginguna vestan til teiknaði Tómas Búi Böðvarsson.
Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús en líkt og margir iðnaðarmenn á öndverðri 20.öld stundaði Jón Ísfjörð iðju sína á heimili sínu. Hann starfrækti skóvinnustofu í þessu húsi og hér má sjá auglýsingu frá honum frá hausti 1919. Húsið er einfalt og látlaust að gerð; einföld steinsteypuklassík en engu að síður glæst og sjarmerandi. Eitt smáatriði, sem sá sem þetta ritar tekur eftir og þykir gefa húsinu sérstakan og einkennandi svip eru skrautlegir sperruendar sem standa út undir þakskeggi. Þetta er ekki óalgengt á Sveitserum eða Katalóghúsunum hinum glæstu norskættuðu timburhúsum frá upphafi 20.aldar mögulega arfur frá þeirri húsagerð. Steyptur kantur með sömu áferð á jarðhæð á lóðarmörkum gefur umhverfinu skemmtilegan svip. Húsinu er vel við haldið og virðist raunar sem nýtt að sjá, þrátt fyrir að bygging þess hafi hafist fyrir réttum 100 árum. Í húsakönnun er vel látið af húsinu og hefur það varðveislugildi sem hluti af götumynd Oddeyrargötu. Viðbygging þykir einnig sérlega vel heppnaðar og falla þær vel að húsinu, en slíkt er raunar alls ekki sjálfgefið þegar byggt er við eldri hús. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 3.maí 2015.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 428, 5.júní 1916. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2016 | 15:36
Hús dagsins: Bjarmastígur 11
Bjarmastíg 11 reisti Guðjón Bernharðsson gullsmiður eftir teikningum Gunnars Pálssonar árið 1933 Upprunalegar teikningar af húsinu eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu góða, en hér eru hins vegar raflagnateikningar frá vorinu 1935. Höfundar er ekki getið þar.
Húsið er tvílyft steinsteypuhús á kjallara og með lágu og aflíðandi þaki. Útskot er á vesturhlið og svalir þar ofan á en einnig er forstofubygging og steyptar tröppur upp að henni á austurhlið. Gluggapóstar eru ýmist einfaldir lóðréttir (neðri hæð) eða með láréttu og skiptu efra fagi og á húsinu eru nokkrir horngluggar, í anda Funkisstefnunar. Þá eru einnig nokkrir gluggar með þríhyrningslagi að ofan m.a. á forstofubyggingu. Dyr á forstofubyggingu er einnig með þríhyrningslagi.
Húsið, sem alla tíð hefur verið íbúðarhús, er að mestu óbreytt frá upphafi. Þaki mun að vísu hafa verið breytt lítillega. Á húsinu má m.a. sjá gamlar einangrunarkúlur og króka frá því að rafmagn var leitt inn í húsið með loftlínum. Húsið er í góðri hirðu og lítur vel út og lóð er gróin og vel hirt. Steypt girðing á lóðarmörkum, með tígullaga munstri gefur umhverfi hússins skemmtilegan svip. Hún er í góðu standi og virðist vel við haldið, en hvort hún er jafn gömul húsinu þekki ég ekki. Húsið hefur skv. Húsakönnun 2014 ekki varðveislugildi framyfir önnur hús við Bjarmastíg. Það er þó álit þess sem þetta ritar, að steypti veggur á lóðarmörkum ætti að njóta sama varðveislugildis og húsið sjálft. Þrjár íbúðir eru í húsinu. Myndin er tekin sólríkan síðsumardag, 18.ágúst 2015.
Heimildir: Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinnihttp://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2016 | 11:32
Hús dagsins: Bjarmastígur 9
Árið 1933 reistu þeir Kristján Aðalsteinsson og Gunnlaugur S. Jónsson hús það á Bjarmastíg 9 sem enn stendur. Teikningarnar gerði Sveinbjörn Jónsson í ágúst 1932. Húsið er parhús, tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki og stendur það á lágum grunni. Krosspóstar eru í gluggum og tvær inngöngudyr á framhlið og steypt dyraskýli ofan þeirra. Er framhliðin algjörlega samhverf eða symmetrísk, þannig að næst miðás eru gluggar með einföldum krossi ofan dyra en tvöfaldir nær hornum á báðum hæðum. Upprunalega og raunar fyrstu hálfu öldina eða svo, var húsið með flötu en árið 1982 var valmaþak sett á húsið, eftir teikningum Birgis Ágústssonar. Að öðru leyti mun húsið að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor í sínum hluta þess, nyrðri og syðri. Sú íbúðaskipan hefur haldist frá upphafi. Húsinu er vel við haldið og virðist fljótt á litið sem nýtt, þótt komið sé á níræðisaldur. Húsið stendur á nokkuð stórri hornlóð en Bjarmastígur liggur í vinkil, þannig að frá 1-10 snýr gatan Norður-Suður en á þessum stað sveigir til vesturs og upp brekkuna, á norðurbakka Skátagils. Lóðin er vel gróin, svo sem sjá má að meðfylgjandi mynd sem tekin er á hásumri. Í Húsakönnun frá 2014 er varðveislugildi hússins ekki talið verulegt umfram önnur við Bjarmastíg. Myndin er tekin þ. 18.ágúst 2015.
Heimildir: Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson (1996). Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni 1896-1996. Reykjavík: Fjölvi.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinnihttp://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2016 | 11:49
Tilraun með göngunesti
Af og til hef ég skotist upp á fjöll eða óbyggðir gegn um tíðina- þó drjúgur hluti minna göngutúra fari fram innan þéttbýlismarka Akureyrar. Í einni Súlnagöngu ákvað ég að gera eina tilraun með nesti, sem ég ætla að rekja hér. Þannig var mál með vexti, að í gönguferðum- oftar en ekki þegar langt var liðið á og ég orðinn þreyttur og svangur - lét ég huga reika til "gúmelaðis" á borð við hamborgara, pizza, samloka og gosdrykkja eða alls konar brasaðra stórsteika. Vitaskuld hafði maður aldrei slíkt meðferðis - og hef aldrei haft - utan þetta eina skipti sem segir frá hér. En í þessari tilteknu Súlnagöngu ákvað ég að taka með mér langloku með einhvers lags sinnepsmajónessósu, skinku, ananas og einhverju slíku- þetta var eiginlega eins nálægt hefðbundnu "skyndibita-sjoppu-fæði" og hægt var að komast í fjallgöngu. (Hugmyndin var raunar sú, að splæsa í eina hamborgaramáltíð með frönskum en það taldi ég of óhentugt). Til drykkjar hafði ég hálfan lítra af gosi, hvort það var appelsín, mix eða 7-UP man ég ekki nákvæmlega.
Ég gekk nokkuð greitt yfir Súlumýrar og eftir nokkra göngu, skammt ofan Stórakletts eða Skussa var áð. Var ég orðinn svangur og verulega þyrstur, en nokkuð heitt var. Ekkert hafði ég borðað utan einn skyrdisk um morguninn kl.9, og nú var klukkan að nálgast 2. Tók ég góðan bita af langlokunni og góðan gúlsopa af gosinu. Og þvílíkt og annað eins ógeð; mig klígjaði óskaplega og í stuttu máli gekk það kraftaverki næst að ég hélt þessu niðri! Það var eins og maginn tæki bara hreinlega ekki við þessu gúmmelaði. Þessi góða skyndimáltíð sem átti að vera svo kærkomin eftir hálfa leið á Ytri-Súlu hafði áhrif sem hin versta ólyfjan. Ég hafði hins vegar sýnt þá fyrirhyggju og tekið með vatn á flösku og haft meðferðis flatbrauðsneið- en þær veitingar voru hins vegar algjört lostæti þarna. Aldrei hafa majonessamlokur og gos verið meðferðis í gönguferðum mínum síðan.
Þessa mynd af Syðri-Súlu tók ég í gönguferðinni sem sagt er frá hér að ofan. Var þetta 16.júlí 2006. Ég komst semsagt upp, þrátt fyrir að við magakrampa hafi legið á leiðinni fyrir glórulaust nestisval
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2016 | 10:32
Hús dagsins: Oddeyrargata 6
Oddeyrargötu 6 tók ég mjög stuttlega fyrir, í nokkrum setningum á fyrstu vikum þessarar síðu en í dag ætla ég að birta nokkuð ítarlegri skrif um þetta ágæta steinhús á Neðri- Brekkunni. Það er engin tilviljun að þessi dagur, Hvítasunnudagur verði fyrir valinu. Í dag, 15.maí 2016, eru nefnilega liðin 100 ár frá útgáfu Byggingarnefndar Akureyrar á byggingarleyfi til handa þeim Trausta Reykdal og Sigurþóri Gunnarssyni fyrir Oddeyrargötu 6.
Árið 1916 fengu þeir Trausti Reykdal fiskmatsmaður og Sigurþór Gunnarsson lóð og byggingarleyfi við framhald af Gránufélagsgötu líkt og gatan er kölluð í bókun Byggingarnefndar. Þess má þó geta, að nafnið Oddeyrargata finnst í bókunum frá 1904 eða tólf árum fyrr. Þá er ákveðið var að flytja hana sunnar en fyrirhugað hafði verið áður. Það er að vísu ekki útilokað, að í bókuninni frá 1904 sé um aðra götu að ræða.
Oddeyrargata 6 er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi. Krosspóstar eru í gluggum en bárujárn er á þaki. Á norðurgafli er viðbygging með skúrþaki og steyptar tröppur og á norðurhluta er einnig timburpallur með tröppum og inngang á efri hæð. Húsið er parhús og hefur verið svo frá upphafi. Í Manntali árið 1920 eru skráðir þarna Trausti Reykdal og Guðmundur Halldórsson og fjölskyldur þeirra. Ljóst er að Trausti hefur byggt suðurhlutann og búið þar því árið 1921 fær Guðmundur leyfi til að reisa gangpall vestur með norðausturgafli. Húsið hefur líkast alla tíð verið íbúðarhús. Ég gat allavega ekki fundið neinar auglýsingar um verslun eða iðnað er ég sló heimilisfanginu inn í gagnagrunn timarit.is. Sennilega hefur fjöldi íbúða verið nokkuð breytilegur gegn um tíðina; á fyrstu áratugum 20.aldar var t.a.m. ekki óalgengt að margar fjölskyldur byggju saman í húsum sem voru kannski um 150 fermetrar alls- kjallari og ris meðtalin ! Nú eru þrjár íbúðir í húsinu, tvær á hvorri hæð í norðurhluta en ein í suðurhluta. Oddeyrargata 6 er einfalt hús og látlaust og virðist traustlegt og gott og vel við haldið. Lóðin er einnig vel hirt og gróin og hleðsla úr gömlum símastaurum eða háspennustaurum á lóðarmörkum við götu þykja undirrituðum skapa skemmtilega umgjörð. Þegar gengið er framhjá Oddeyrargötu 6 á heitum og sólríkum dögum leggur ágætan tjöruilm (undirrituðum þykir sú lykt góð- sjálfsagt margir ósammála því) frá áðurnefndri símastaurahleðslu og blandast hún ljúfum ilmi af reynitrjám og öðrum gróðri nágrennisins. Þessi mynd er orðin átta ára, tekin 19.apríl 2008.
Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir nr. 269 5.júní 1904, nr. 427, 15.maí 1916 og 497 23.maí 1921.
Manntal á Akureyri 1920. Bæði þessi rit eru varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2016 | 08:53
Hús dagsins: Bjarmastígur 7
Bjarmastíg 7 reisti Ragnheiður Benediktsdóttir húsfrú eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar.
Hún fékk vorið 1938 leyfi til að reisa hús, 2 hæðir á lágum grunni með flötu þaki 8,2x7,5m að stærð. Bygginganefnd taldi hins vegar að stærra hús færi betur á þessum en veitti byggingaleyfið með ákveðnum skilyrðum, m.a. þeim að umsækjandi gengist inn á skipti á lóðarræmu við bæinn norðan lóðar og að húsið skyldi sett 4-5 m frá suðurmörkum lóðar skv. tilvísun byggingarfulltrúa. Bjarmastígur 7 er nokkuð dæmigert funkishús, tvílyft steinsteypuhús með flötu þaki og horngluggum. Í flestum tilvikum eru þök funkishúsa að vísu ekki flöt sem slík, heldur standa þakkantar hærra en þekja og þök aflíðandi; einhalla. Flöt þök eru almennt ekki talin heppileg við íslenskar aðstæður. Inngöngudyr eru á norðausturhorni hússins og aðrar á norðurhlið, pappi á þaki og einfaldir lóðréttir póstar í gluggum.
Ragnheiður Benediktsdóttir, sú er reisti þetta hús fædd 1860 og var því orðin 78 ára þegar hún réðist í byggingu hússins. lengi vel búsett í Hafnarstræti 107, sem stóð nokkurn vegin hér beint fyrir neðan. Hún og maður hennar Júlíus Sigurðsson, útibússtjóri munu hafa reist það hús um 1897. Áttu þau dágóðan túnskika á bakvið, þar sem nú er einmitt Bjarmastígur. Ragnheiður stóð fyrir miklum búskap, hélt m.a. kýr og var með karla í vinnu og ræktaði trjágarð við hús þeirra sem skv. Steindóri (1993: 128 ) var sá eini í Hafnarstræti norðan Schiöthshúss. (nr. 23). Hafnarstræti 107 var timburhús með háu risi og miklu kvisti og var síðar flutt á Oddeyri, nánar tiltekið á Ránargötu 13 þar sem það stendur enn. Júlíus Sigurðsson lést árið 1936 og tveimur árum síðar byggði Ragnheiður Bjarmastíg 7, líkast til á miðjum fyrrum túnbletti hennar, til dánardægurs (1951). Þess má geta að Ragnheiður var systir Einars Ben, skálds og athafnamanns. Húsið er byggt sem einbýlishús og hefur alla tíð verið. Það er nokkuð dæmigert fyrir einföld og látlaust funkishús fjórða áratugs 20.aldar. Það er að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð og er í mjög góðu standi. Myndin er tekin sólríkan síðvetrardag, 5.mars 2016.
Hér er horft niður Skátagilið þ. 29.9.2015. Ingimarshús, Hafnarstræti 107b fyrir miðju en neðar er Hafnarstræti 107, þar sem Ragnheiður Benediktsdóttir og Júlíus Sigurðsson byggðu um aldamótin 1900. Þar stendur nú stórhýsi sem Útvegsbankinn reisti um 1954 og hýsir nú m.a. skrifstofur Sýslumanns. Trjágarðurinn til vinstri er á lóð Bjarmastígs 10 en þar var áður tún Ragnheiður Benediktsdóttur.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1935-40. Fundur nr. 817, 30.maí 1938. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Steindór Steindórsson (1993). Akureyri, höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Bloggar | Breytt 8.11.2021 kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.9.): 1
- Sl. sólarhring: 30
- Sl. viku: 517
- Frá upphafi: 454748
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 298
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar