Færsluflokkur: Bloggar
16.2.2014 | 17:21
Hús dagsins: Hafnarstræti 108
Næstu vikur mun ég færa mig frá norðri til suðurs og upp Gilið í umfjölluninni minni og taka fyrir nokkur hús í þeim hluta Hafnarstrætis sem kallast í daglegu tali Göngugatan en hefur þó ekki verið göngugata í um áratug. Hafnarstræti 108 sést hér á myndinni en húsið er byggt árið 1930. Húsið byggðu í félagi hjónin Hulda Jensson og Snorri Guðmundsson byggingarmeistari og Friðjón Jensson kjörfaðir hennar en hann var læknir og tannlæknir. Húsið er þrílyft steinsteypuhús með háu risi og stórum miðjukvisti á framhlið og tveimur minni sitt hvoru megin. Þá eru einhverjir kvistir á bakhlið. Í gluggum eru þverpóstar með margskiptum efri gluggafögum. Friðjón rak þarna tannlæknastofu lengi vel og bjó jafnframt í húsinu en ýmis önnur starfsemi hefur verið í þessu húsi. Sennilega hefur alla tíð verið verslunarrekstur á jarðhæð. Meðal fjölmargra verslana sem þarna hafa verið eru skóverslun Hvannbergsbræðra og Bókabúð Jónasar var þarna um árabil fram yfir aldamót 2000. Síðustu sjö árin hefur Kristjánsbakarí verið þarna til húsa en bakaríið flutti úr Hafnarstræti 98 þegar til stóð að rífa það, en sú var ekki raunin. Íbúðir og eða leiguherbergi eru á efri hæðum hússins. Húsið lítur vel út og hefur líkast til ekki breyst mikið í útliti frá upphafi. Sérkennilegir gluggar og rammar og kantar utan um þá gefa húsinu skemmtilegan svip. Þessi mynd er tekin 18.janúar 2014.
Heimild: Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur
Bloggar | Breytt 25.2.2014 kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2014 | 09:26
Hús dagsins: Hólabraut 13; Zíon.
Næstu vikur mun ég taka fyrir hús í Miðbænum og færa mig upp Gilið. Fer ég þá frá norðri til suðurs að Gilinu, hugsanlega með einhverjum undantekningum og byrja hér á horni Hólabrautar og Gránufélagsgötu/Oddeyrargötu en síðarnefnda gatan er í beinu framhaldi þeirrar fyrrnefndu. Oddeyrargatan sveigir uppfrá Gránufélagsgötunni og klífur Brekkuna til suðvesturs. Á þeim stað stendur þetta hús, Hólabraut 13. Húsið er byggt árið 1933 af Kristniboðsfélagi Kvenna, en ekki er mér kunnugt um byggingarmeistara eða teiknara. Ég er hreinlega ekki klár á því hvort húsið steinsteypuhús eða forskalað (múrhúðað) timburhús. Húsið er einlyft á háum kjallara og með portbyggðu risi en aðeins er milliloft á litlum hluta rishæðar, vestan megin. Stór hluti hæðarinnar er nefnilega salur sem nær alveg upp í rjáfur. Það eru þverpóstar í flestum gluggum og í kjallara eru síðir verslunargluggar. Áratugum saman eða fram yfir 1990 var húsið notað til samkomuhalds KFUM og KFUK og einhvern tíma hlaut húsið viðurnefnið Zíon, vísun til kristilegrar starfsemi. Í kjallara hússins hefur síðustu árin verið verslunarstarfsemi, m.a. vídeóleiga og síðustu sjö árin skrautmunaverslunin Bakgarðurinn. Eftir að KFUM og K seldu húsið hefur hæðin verið m.a. sýningarsalur og nýttur til ýmiss samkomuhalds auk þess sem Framsóknarflokkurinn hafði þarna lengi kosningaskrifstofu og enn er Framsóknarmerkið á húsinu. Þessi mynd er tekin laugardaginn 18.janúar 2014.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2014 | 08:51
Hús dagsins: Norðurgata 2b
Umfjölluninni minni um Norðurgötuna lýkur á bakhúsinu á lóðinni við númer 2. Þetta látlausa hús á sér mikla sögu og hefur hýst ýmsa starfsemi en í bók Guðnýjar Gerðar og Hjörleifs um Oddeyrina segir að húsið hafi reist Sófanías Baldvinsson árið 1911. Hvort húsið var reist sem íbúðarhús eða undir aðra starfsemi fylgir ekki sögunni en húsið er einlyft steinsteypuhús með háu portbyggðu og tiltölulega aflíðandi risi. Þverpóstar eru í gluggum og bakatil er húsið sambyggt ýmsum seinni tíma skúrbyggingum. Líklegt gæti einnig verið að húsið hafi verið reist sem gripahús en þarna hafa verið hýstir hestar og ýmsar skepnur. Ég hef ekki mörg ártöl á hraðbergi um þetta hús en hitt veit ég að ýmis starfsemi hefur verið í þessu húsi auk þess sem það hefur búið í því. Þarna var lengi vel reykhús og þetta mun einnig vera fyrsta aðsetur Ríkisútvarpsins á Akureyri en útvarpið keypti húsið 1979 og hafði þarna hljóðver um nokkurt árabil og kallaðist húsið þá Hljóðhúsið. Lionshreyfingin hafði þarna aðsetur um nokkurt árabil þar til framyfir 2000 og var húsið þá notað til funda og samkomuhalds. Húsið er í góðu standi og lætur ekki mikið yfir sér og ekki áberandi í götumynd Norðurgötunnar en er engu að síður stórmerkilegt og skemmtilegt hús. Þessi mynd er tekin 30. jan. 2014.
Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri
+ Ýmsar munnlegar heimildir frá Oddeyringum og öðru góðu fólki í sögugöngum og á förnum vegi...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.2.2014 | 09:18
Hús dagsins: Norðurgata 8, söluturn
Enn held ég mig Norðurgötuna neðanverða en þessi hluti götunnar milli Strandgötu að Eiðsvallagötu liggur við að segja að sé eins og safn helstu húsagerða áratugina sitt hvoru megin við 1900, þarna eru einlyft timburhús með miðjukvistum, tvílyft með lágu risi, steinsteypuhús dæmigerð fyrir fyrstu gerð slíkra húsa og eina grjóthlaðna húsið á Akureyri. Þar er einnig annað tveggja húsa í bænum sem klætt er steinskífu. Þessi hluti götunnar er líka byggður í áföngum á löngum tíma, grjóthlaðna húsið þ.e. Gamla Prentsmiðjan og timburhúsin eru byggð 1880-1902 en svo er steinhúsahlutinn austan megin milli Gránufélagsgötu og Eiðsvallagötu byggður árið 1926.
Ég segi þarna að timburhúsin séu byggð síðustu tvo áratugi 19.aldar en á horninu við Gránufélagsgötu er undantekning en það er söluturninn við Norðurgötu 8 en hann er byggður 1933. Það var Axel Schiöth bakari kaupmaður sem reisti húsið sem sölubúð en teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson byggingarfulltrúi. Teikningarnar hans gerðu ráð fyrir skrautlegum turni efst á húsinu. Húsið er timburhús á lágum en djúpum steinsteypum kjallara með háu, pýramídalaga valmaþaki. Húsið er klætt steinblikki og hefur líkast til haft þá klæðningu frá upphafi. Stórir búðargluggar eru á götuhliðum sem snúa í suður og austur og aðaldyr á horni suðurhliðar sem snýr að Gránufélagsgötu og afgreiðsludyr fyrir vörur á bakhlið en einn gluggi með krosspósti á austurhlið. Lítil lóð fylgir húsinu og þar stendur lítill skúr bakatil byggður 2007. Lengi vel var aðeins helmingur lóðarinnar nýttur fyrir húsið en hinn helmingurinn "nytjaður" sem hluti lóðar Gránufélagsgötu 27. Þegar ég flutti í það hús sumarið 1997 var þarna starfandi verslunin Esja og hafði verið um nokkuð árabil en frá 1998-2005 starfaði þarna verslun undir nafninu Eyrarbúðin og 2006-12 var þarna verslunin Hreiðrið. Síðustu misserin hefur ekki verið verslunarrekstur í húsinu. Þarna hefur allt frá byggingu verið starfræktar verslanir undir ýmsum nöfnum og skilst mér að Eyrarbúðin hafi einnig verið eldra heiti á verslun í húsinu. Húsið er að líkindum að mestu óbreytt frá fyrstu gerð að utan en hefur nokkrum sinnum verið tekið í yfirhalningar að innan. Þessi mynd er tekin 30.jan 2014.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2014 | 14:21
Hús dagsins: Norðurgata 10
Norðurgata 10 og 12 eru ekki ýkja ósvipuð hús en þau eru jafn gömul , byggð 1926. Líkt og númer 12 er Norðurgata 10 tvílyft steinsteypuhús með háu risi og miðjukvisti á suðurhlið, en húsið snýr stafni að götu. Þverpóstar eru í flestum gluggum en sexskiptur krosspóstur í kvistglugga á suðurhlið. Húsið reistu þeir Magnús Halldórsson og Jón Sigurðsson og líkast til hefur húsið þannig verið tveir eignarhlutar í upphafi. Á norðurhlið rissins er mikill kvistur með aflíðandi skúrþaki sem nær eftir mest allri þekjunni, (einhvern tíma heyrði ég að slíkir kvistir væru kallaðir "Hafnarfjarðarkvistir") en hann var byggður árið 1960. Þá þykir mér ekki ólíklegt að núverandi íbúð hafi verið innréttuð í risi. Nú eru í húsinu fjórar íbúðir, þ.e. ein á neðri hæð, tvær á þeirri efri og ein í risinu. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og sjálfsagt hefur húsið skipt mörgum sinnum um eigendur og leigjendur. Húsið er í góðu standi og lítur vel út það hefur einhvern tíma verið einangrað og klætt upp á nýtt. Þá er lóðin mjög smekkleg, vel gróin og nokkur mikil reynitré í garðinum sem áreiðanlega eru orðin áratuga gömul. Þetta er eitt af þeim húsum sem nánast ógerningur er að ná á mynd yfir sumartímann vegna laufskrúðs, en þessi mynd er tekin 2.12.2013.
Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2014 | 15:17
Hús dagsins: Norðurgata 12.
Norðurgatan eða sá hluti hennar sem afmarkast af Strandgötunni í suðri og Eiðsvallagötu í norðri er umfjöllunarefnið þessar vikurnar. Ég hef nú þegar afgreitt oddatöluröðina eins og hún leggur sig auk 2-6 en nú færi ég mig yfir götuna og tek fyrir 8-12. Norðurgötu 16 fjallaði ég um fyrir tæpum þremur árum . Nú vill svo til að það er engin Norðurgata 14 og hefur sennilegast aldrei verið. Hvers vegna veit ég ekki, hitt má auðvitað nefna að við götuna finnast ekki heldur sléttutölunúmerin frá 18-24!
En næst neðan við N16 er Norðurgata 12. Húsið reisti maður að nafni Friðgeir Vilhjálmsson árið 1926. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með háu og bröttu risi og nokkuð dæmigert fyrir steinhús frá þessum tíma. Mikið var byggt af steinhúsum á Eyrinni árið 1926 m.a. öll röðin hérna megin Norðurgötunnar milli Gránufélagsgötu og Eiðsvallagötu. Húsið snýr stafni að götu en á suðurhlið þess er kvistur sem mun reistur tveimur árum eftir byggingu hússins þ.e. 1928 og fékk húsið þá það lag sem það hefur síðan. Krosspóstar eru í gluggum utan á miðhæð þar sem eru þverpóstar. Á norðausturhorni lóðarinnar stendur tvílyftur bárujárnsklæddur bílskúr með skúrþaki, sennilega umtalsvert yngri en húsið enda bílar ekki almenningseign þegar húsið var byggt. Hins vegar gæti hann upprunalega hafa verið gripahús en fram á miðja 20.öld var ekki óalgengt að Oddeyringar ættu kýr. Þeim var beitt uppá brekku og strákar fengnir til að reka þær upp Oddeyrargötuna sem kallaðist í daglegu tali Kúagata. Að reka kýrnar var mikil virðingarstaða og skilst mér að þessir drengir hafi fengið starfsheitið "kúarektorar" En þetta var eilítill útúrdúr. Húsinu er nú skipt í þrjár íbúðir, ein íbúð á hverri hæð og hefur sú skipting verið lengi. Sem áður segir er húsið lítið breytt frá fyrstu gerð og það er í góðu ásigkomulagi og lítur vel út. Þessi mynd er tekin 2.desember 2013.
Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2014 | 12:11
Hús dagsins: Norðurgata 19
Síðustu vikur hef ég verið staddur á Eyrinni í umfjölluninni og nú færi ég mig í Norðurgötuna nánar tiltekið að Norðurgötu 19. Húsið, sem stendur á horni götunnar og Eiðsvallagötu, byggði Árni Þorgrímsson árið 1920. Það er steinsteypt og var upprunalega aðeins ein hæð með lágu risi en 1931 var það hækkað um eina hæð til og hátt ris og líklega hefur stigabygging fylgt þeim framkvæmdum. Fékk húsið þá það lag sem það nú hefur en það er tvílyft steinsteypuhús með háu risi og inngönguskúr eða stigabyggingu á norðvesturhorni. Á suðurhlið hefur einnig verið byggður forstofuskúr fyrir neðri hæð en það er tiltölulega nýleg smíð (15-20 ára). Krosspóstar eru á efri hæðum en þverpóstar og einfaldir á neðri hæð. Teikningarnar að þessu endanlega útliti hússins frá 1931 voru eftir Halldór Halldórsson en hann hef ég sagt vera einn af "stóru nöfnunum" í byggingasögu Akureyrar, hann teiknaði m.a. fyrsta skipulagða fjölbýlishúsið og einnig fyrsta raðhúsið sem reis í bænum. Húsið er nú lítið breytt að utan, í húsinu eru tvær íbúðir hvor á sinni hæð. Lengi vel var mjög svo verkleg ösp á lóðinni sunnan við húsið en hún hefur nú verið fjarlægð og fyrir vikið sést húsið betur í götumyndinni. Húsinu er vel við haldið og vel útlítandi, látlaust og einfalt að gerð. Þessi mynd er tekin 2.des 2013.
Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2014 | 23:25
Hús dagsins: Lundargata 13
Lundargata 13 er af algengri gerð timburhúsa frá því um aldamótin 1900 og eitt margra samskonar húsa við götuna en mörg svipuð hús standa þar og við Norðurgötu. Húsið er klætt múrhúð- forskalað og þverpóstar í gluggum og sennilega hefur inngangur verið færður, en oftast voru dyr á framhlið húsa af þessari gerð. Húsið er lítið, látlaust og ekki stórt að grunnfleti, það er t.a.m. varla nema um 5 metrar á breiddina. En Lundargötu 13 reisti Runólfur Jónsson árið 1898 en öll þrjú húsin milli Gránufélagsgötu og Fróðasund, 11, 13 og 15 eru jafn gömul. Húsið er í meginatriðum svipað og upprunalega, einlyft á lágum steyptum kjallara með portbyggðu risi og miðjukvisti en á bakhlið er inngönguskúr með skúrþaki. Húsið er klætt múrhúð- forskalað og þverpóstar í gluggum og sennilega hefur inngangur verið færður, en oftast voru dyr á framhlið húsa af þessari gerð. Forskalning timburhúsa þykir nú í dag vera mikið slys en þetta var algengt um miðja 20.öld, auk þess sem kross- eða sexrúðupóstum var skipt út fyrir einfaldari pósta. Á baklóðinni var reist gripahús sem um 1926 var breytt í íbúðarhús en það hús var rifið um 2010. Lundargata 13 var í upphafi einbýli og hefur verið síðustu áratugi. Húsið sómir sér vel í götumynd Lundargötunnar sem er líklega sú gata á Eyrinni sem hefur hæstan meðalaldur húsa en við götuna teljast standa tíu hús og aðeins þrjú þeirra yngri en 110 ára! Þessi mynd er tekin í haustsólinni þann 10.september 2013.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2014 | 09:21
Hús dagsins: Lundargata 6
Fyrir áramót fjallaði ég um hús í neðanverðri Norðurgötu en nú færi ég upp um eina götu (ég tala um að fara upp eftir Eyrinni þegar stefnt er í vestur í átt að Brekkunni, enda þótt svæðið sé marflatt) og í Lundargötuna. Lundargata 6 er byggð árið 1897 af Birni nokkrum Ólafssyni. Húsið er af þessari algengu gerð timburhúsa frá ofanverðri 19.öld, einlyft á steyptum kjallara með háu portbyggðu risi og með miðjukvisti. Þessi ár, 1897-1900 var einmitt mikið byggt af svipuðum húsum á þessu svæði við Lundargötu og Norðurgötu. Merkilega mörg þeirra húsa standa enn og flest eru þau lítið breytt frá upphafi. Einhvern tíma minnir mig að ég hafi heyrt að Jóhann Pétursson eða Jóhann Svarfdælingur (eða Jói risi), hæsti Íslendingurinn fyrr og síðar hafi fæðst í þessu húsi en hann var fæddur 9.febrúar 1913. Jóhann er í hópi heimsfrægustu Íslendinga fyrr og síðar en hann var lengst af búsettur erlendis og fór víða sem skemmtikraftur og lék risa í kvikmyndum og um tíma var hann talinn hæsti maður heims. Húsið var upprunalega einbýlishús en trúlega hafa á tímabili búið þarna fleiri en ein fjölskylda þegar kjör voru kröpp og húsnæðisskortur mikill. Húsið var klætt steinblikki drjúgan hluta 20.aldar en árin 1985-93 fóru fram gagngerar endurbætur á húsinu þar sem skipt var um þak- algjörlega, risið hækkað og kvistur stækkaður en einnig settir nýjir sexrúðupóstar í glugga. Þá var ný timburklæðning sett á húsið. Á haustkvöldi einu árið 2004 var ég í kvöldgöngu um m.a. Lundargötu. Þegar komið var að mótum götunnar og Gránufélagsgötu tók ég eftir einhverju óvenjulega en var ekki viss hvað það var. Ég man enn hvað mér brá þegar ég tók allt í einu eftir því í rökkrinu að Lundargata 6 sneri vitlaust og hafði færst um nokkra metra! Þá var það tilfellið að húsinu hafði verið lyft af gamla grunninum á meðan til stóð að steypa nýjan. Steypti kjallarinn frá 2004 er mun hærri en sá gamli og því er húsið orðið mikið háreistara en í upphafi, en í fyrri endurbótum var risið hækkað sem áður segir. Húsið er nú eins og vænta má stórglæsilegt og í raun sem nýtt enda mikið endurbyggt. Sennilega er ekki margt í þessu húsi sem er frá skráðu byggingarári þess en það er auðvitað ekkert eindæmi með hús á þessum aldri. Myndin er tekin 10.september 2013.
Bloggar | Breytt 9.1.2014 kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2014 | 15:40
Hús dagsins: Sunnuhvoll
Það hús sem hlýtur þann heiður að vera fyrsta "Hús dagsins"árið 2014 stendur í ofanverðu Glerárþorpi, neðst við götuna Litluhlíð. Það er býlið Sunnuhvoll. Húsið er byggt árið 1938 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar og mun Angantýr Jónsson hafa verið þar að verki. Sunnuhvoll er steinsteypt, einlyft á lágum grunni og með háu risi og miðjukvistum. Það var upprunalega með flötu þaki og nokkuð dæmigert fyrir Funkis-hús, kassalaga með horngluggum. Grunnflötur var því sem næst ferningslaga en geymsluskúr eða forstofubygging á austurgafli. Húsið mun ekki hafa skipt oft um eigendur, var t.d. innan fjölskyldu frá 1941 og fram undir aldamót 2000. Árið 1959 var byggt ris ofan á húsið og fékk það þá það lag sem það nú hefur, þ.e. einlyft með háu risi. Kvistir með bröttu skúrþaki eru sitt hvoru megin á risinu. Hér eru teikningar af upprunalegu og breyttu útliti Sunnuhvolls. Sunnuhvoll er einkar skemmtilegt hús og einnig umhverfi þess en húsinu fylgir nokkur landareign sem er skógi vaxin. Húsinu er vel við haldið og lítur vel út og allt umhverfi þess er til prýði. Þessi mynd er tekin á vetrarsólstöðum, 21.desember 2013.
Bloggar | Breytt 27.6.2022 kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.9.): 16
- Sl. sólarhring: 18
- Sl. viku: 364
- Frá upphafi: 454934
Annað
- Innlit í dag: 14
- Innlit sl. viku: 188
- Gestir í dag: 14
- IP-tölur í dag: 13
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar