Hús dagsins: Gránufélagsgata 4

Eitt hinna margra stórhýsa sem setja svip sinn á norðanverðan Miðbæinn P8140182(eða sunnanverða efri Oddeyri eftir því hvernig á það er litið) er Gránufélagsgata 4, sem margir þekkja sem JMJ-húsið. Húsið var byggt fyrir Prentsmiðju Björns Jónssonar árið 1945. Var það Karl Jónasson, sem fyrir hönd Prentsmiðjunnar sótti um leyfi til að reisa „prentsmiðju og bókband við Gránufélagsgötu, næst vestan Georgs Jónssonar“. (Þar er væntanlega verið að vísa til Gránufélagsgötu 6, sem var tvílyft steinhús,  rifið um 2004 og hýsti síðustu árin m.a. rakarastofu).  Í bókun bygginganefndar kemur fram, að húsið verði 21,85x16,85m að grunnfleti, byggt úr steinsteypu, gólf og loft steinsteypt en þak úr timbri. Í Húsakönnun 2014 er hönnuður hússins sagður ókunnur en greinarhöfundur telur sig nokkuð örugglega geta greint undirritun Friðjóns Axfjörð á teikningum þeim, er aðgengilegar eru á Landupplýsingakerfinu (lesendur geta rýnt í teikninguna á framangreindri slóð).

Gránufélagsgata 4 er tvílyft steinsteypuhús með háu en aflíðandi risi. Á norðausturhorni er smá álma eða útskot á einni hæð. Á suðurhlið er kvistur með hallandi þaki og svalir fyrir honum miðjum, en kvisturinn nær yfir drjúgan hluta þekjunnar. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki og ýmis konar póstar í gluggum.  

Prentsmiðja Björns Jónssonar var árið 1945 orðið rótgróið fyrirtæki (stofnað 1852)  og hafði í meira en 60 ár verið starfrækt á neðri hæð Norðurgötu 17 (Steinhúsinu) Það hús reisti Björn Jónsson sem prentsmiðju og íbúðarhús um 1880. Það hús stendur enn og er eina grjóthlaðna húsið á Akureyri svo vitað sé. Úr Norðurgötu flutti prentsmiðjan árið 1943 og var um skamma hríð (1943-46) starfrækt að Hafnarstræti 96 (París), eða þar til Gránufélagsgata 4 reis af grunni. Gránufélagsgata 4 hefur alla tíð hýst verslun og þjónustu, og þegar heimilisfanginu er flett upp í gagnagrunninum timarit.is koma hátt í 3000 niðurstöður. Um miðja 20. Öld, þegar húsið var nýreist voru þarna, auk prentsmiðju Björns Jónssonar  m.a.  Efnalaugin Skírnir, Bókaverzlun Björns Árnasonar og gullsmíðaverkstæði Ásgríms Albertssonar. Prentsmiðjan var starfrækt í húsinu til 1958 en nokkrum árum síðar fluttist Herradeild JMJ í húsið.

Hina valinkunnu og rótgrónu fataverslun, sem fyrir löngu hefur skipað sér stóran sess í hugum Akureyringa og nærsveitarmanna, stofnaði Jón M. Jónsson klæðskeri árið 1956. Var þar um að ræða saumastofu og klæðaverslun og var hún starfrækt fyrstu árin að Glerárgötu 6 (Það hús var rifið fyrir um 40 árum vegna breikkunar Glerárgötu, eitt af mörgum). Árið 1966 fluttist verslunin að Gránufélagsgötu 4 og hefur því verið starfrækt hér í rúma hálfa öld.  Um árabil starfrækti JMJ auk verslunarinnar, fataverksmiðju í húsinu. Enn er verslun JMJ rekin á neðstu hæð hússins en fataverksmiðjan er liðin undir lok fyrir margt löngu.  Á efri hæðum hússins eru skrifstofurými og hefur þar verið ýmis rekstur í gegnum tíðina. Má þar m.a. nefna tattústofu, símaver, útvarpsstöð, vinnustofur, æfingarými hljómsveita o.m.fl. Þá hefur ýmislegt verið starfrækt í viðbyggingu suðaustan á húsinu. Ekki er greinarhöfundi kunnugt um, hvort búið hafi verið í húsinu.

Gránufélagsgata 4 er látlaust en reisulegt hús, mun í stórum dráttum óbreytt frá upprunalegri gerð og í afbragðs góðri hirðu. Húsið er eitt af kennileitum svæðisins og kallast nokkuð skemmtilega á við t.d. Sjallann handan Geislagötunnar og Hótel Norðurland. Í  Húsakönnun 2011 er húsið sagt hafa gildi fyrir götumynd Gránufélagsgötu og Hólabrautar en ekki talið hafa verulegt varðveislugildi. Húsið hefur eflaust töluvert gildi í hugum marga sem aðsetur JMJ um áratugaskeið; þarna hafa t.d. þó nokkrar kynslóðir Akureyringa og nærsveitarmanna fengið sín fermingar- og útskriftarföt. Myndin er tekin þann 14. ágúst 2015.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1018, 26. maí 1945. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 38
  • Sl. sólarhring: 48
  • Sl. viku: 616
  • Frá upphafi: 420781

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 495
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband