Risarnir á Glerárdal

Tvö hæstu fjöll á Norðurlandi  liggja á sama svæðinu framarlega á Glerárdal. Eru þessi fjöll raunar sláandi lík í útliti frá vissum sjónarhornum, með þverhnípt hamrabelti og flata að ofan. Þetta eru fjöllin Kerling og Tröllafjall. Mér skilst að fyrr á tímum hafi menn verið alls ósammála um hvort fjallið væri hærra, en Kerling hefur vinninginn, 1538m y.s. á meðan Tröllafjall er 1483m. P7150093 Hér að neðan má sjá Tröllafjallið. Í fjallinu má vel sjá mismunandi hraunlög og skilin milli þeirra. Strýtulagaði tindurinn framan við fjallið kallast Tröllahyrna en heiðin neðan fjallsins mun kallast Tröllaskeið. Myndin er tekin 15.júlí 2006 neðan við Súlur.

 

 

 

 

 

Á hinni myndinni sem einnig er tekin 2006, þann 6.maí sést hinsvegar Kerling í öllu sínu veldi. 

 P5060003Hér er horft frá Akureyri, nánar tiltekið Giljahverfi. Norðvesturstall Súlumýra ber þarna í Kerlinguna. Ljósastaurinn ber í tind sem kallast Lambárdalsöxl. Um Kerlingu hef ég áður fjallað nokkuð ítarlega og er sú færsla hér.


Hús dagsins: Lækjargata 3

P3110021Lækjargata 3 stendur á skemmtilegum stað neðst í Búðargili. Húsið reisti maður að nafni Sigfús Jónsson árið 1896. Húsið er af nokkuð sígildri gerð timburhúsa þess tíma, einlyft með miðjukvisti og risið er portbyggt. Portbygging er þannig að í stað þess að ris myndi horn við gólfflöt hæðar er veggur eða upphækkun milli gólfs og þaks. Þetta má glögglega sjá á Lækjargötu 3, þar sem gluggar rishæðar  liggja neðar en þakkantur. Þetta fyrirkomulag nýtir mun betur gólfflöt rishæðar. Lækjargata 3 var alla tíð íbúðarhús, þar munu lengst af hafa búið efnamenn og húsinu því vel við haldið. Laust fyrir 2000 var húsið hins vegar orðið hrörlegt, enda hafði það staðið yfirgefið um árabil. Um það leyti hófst endurgerð þess sem nú mun lokið, en er langt komin þegar þessi mynd er tekin 11.mars 2007. Nú er húsið allt hið glæsilegasta. Meðan endurbygging hússins stóð yfir var m.a. skipt um kjallara, en húsinu var lyft af grunni, grunnurinn rifinn og nýr steyptur í staðinn.

Hús dagsins: Aðalstræti 15

P3110018Aðalstræti 15 reisti Sigtryggur Jóhannesson timburmeistari fyrir Magnús Kristjánsson árið 1903. Var húsið reist á uppfyllingu sem fengin var úr brekkunni ofan við götuna. Byggingargerð hússins er nokkuð sérstök, en það er plankabyggt. Húsið mun þannig byggt úr viðarplönkum, sem er hlaðið upp líkt og múrsteinahleðsla. Þetta hús var ef ég man rétt bárujárnsklætt þar til fyrir fáum árum, en nú er það klætt panel með kögruðum skrautlistum undir gluggum. Þeir munu hafa haldið sér frá upphafi. Húsið mun alla tíð hafa verið vel við haldið og talið einstaklega vel viðað. Nú eru að ég held tvær íbúðir í húsinu, ein á hvorri hæð. Þessi mynd er tekin í mars 2007. Næsta hús við hliðina, Aðalstræti 13, sem hér sést vinstra megin við 15, skemmdist töluvert í bruna sl. sumar. Af því húsi er það að frétta að endurbætur eru í gangi á því og virðist þeim miða vel áfram.


Hús dagsins: Hafnarstræti 3

p3110017.jpg Þar sem nú er Hafnarstræti 3 mun eitt fyrsta íbúðarhús Akureyrar hafa staðið. Var það reist 1777 fyrir kaupmann einokunarverslunarinnar, en á þeim tíma var  engin föst búseta á Akureyri heldur aðeins verslað á sumrin. Þarna stóðu einnig eldri hús frá einokunartímanum. Öll eru þessi hús horfin en íbúðarhúsið brann ásamt öllum húsum á þessum reit ( nema Laxdalshúsi ) í  stórbruna 1901. Húsið sem nú stendur á lóðinni reisti Sigtryggur Jónsson árið 1902 fyrir Klemenz Jónsson, en hann hafði búið í eldra húsinu. Húsið mun hafa komið tilhöggvið og er nokkuð dæmigert fyrir norsk sveitser hús, með útskornu skrauti á kvisti og skrautgluggum. Í þessu húsi var fyrsta símstöð Akureyrar og tók hún til starfa 1914 og var í húsinu um tíu ár. Þetta hús hefur lengst af verið íbúðarhús og nú eru líklega þrjár íbúðir í því en gætu hafa verið fleiri. Upprunalega mun þetta hins vegar hafa verið einbýlishús. Þessi mynd er tekin 11.mars 2007.

Afrek er afstætt hugtak

Einn blautan og kaldan vetrardag fyrir fáeinum árum var ég að mæta í fyrirlestur í Háskólan á Akureyri klukkan 8,10. Ég var mættur snemma eða rétt um átta. Fólk var að týnast í salinn en ca. 7 mínútur yfir komu inn tveir kvenmenn með ógurlegum fyrirgangi. Voru þær másandi og blásandi, rennblautar og dæstu "úff" og "jahérna" o.s.frv. Þær voru vel dúðaðar í goretex regnföt, í gönguskóm og gætu af búnaðinum að dæma verið á leið í langa háfjallaferð. Þær settust fáeinum sætaröðum frá mér og gerðu grein fyrir afreki sínu við sessunautana. Þær höfðu gengið frá stúdentagörðunum í Giljahverfi! Í þessu líka veðri ! ( það var nokkuð stíf norðanátt, hiti um frostmark og slyddurigning ). Til er að gera langa sögu stutta þá er þessi leið frá Giljahverfi niður í Sólborg um 1km, (tíu mínútna labb) og að mestu niðri móti. Þær virtust "hetjur dagsins" en annars staðar í salnum sat annar maður sem þagði þunnu hljóði. Hann hafði gengið af Eyrinni, rúmlega tvöfalt lengri leið uppímóti líkt og hann gerði hvern einasta dag og þótti ekkert tiltökumál.  Og af því að ég minntist á klæðnað, þá var hann aðeins í þunnum sumarjakka og gallabuxum en að sjálfsögðu með húfu. Lesendur geta svosem giskað á hver þetta er...

Hús dagsins: Hafnarstræti 20; Höepfnershús

p3110010.jpg Hin eiginlega Akureyri var upprunalega lítil eyri neðan Búðargils. Fyrir þá sem ekki þekkja Búðargil þá skal til glöggvunar nefnt að ísbúðin Brynja sem allir landsmenn þekkja stendur neðan við Búðargils. Eyrin hefur fyrir löngu verið umkringd af landfyllingum. En á þessum stað standa tvö vegleg timburhús frá fyrri hluta 20.aldar, Thulíníusarhús nr. 18 (byggt 1902) og húsið á myndinni hér til hliðar Höepfnershús. En húsið byggði Carl Johan Höepfner, danskur kaupmaður árið 1911. Húsið mun byggt eftir dönskum teikningum enda þykir það sýna dönsk einkenni. Húsið er eitt af seinustu stórhýsum "timburaldar" á Akureyri en á þessum tíma var steinsteypan að ryðja sér æ meira til rúms. Verslað var á neðri hæð en efri hæðir nýttar undir íbúðir, skrifstofur. KEA eignaðist síðar húsið og  þarna var rekin lítil verslun sem mig minnir að hafi kallast Kirnan. Mér þótti alltaf spennandi að koma við í þeirri sjoppu. Þarna fékk ég eitt sinn það besta kex sem ég hef smakkað. Ég sá það hvergi annars staðar og ekki sá ég það heldur aftur þarna. Ekki man ég hvað það hét, en kexið var nær eiginlega nær því að vera gegnheil súkkulaðiplata með kexi neðan á. Verslun þessi leið undir lok um 1993 en þar á eftir var rekin gæludýraverslun í verslunarrýminu til 2005. Nú er húsið að ég held allt notað sem gistiheimili, en efri hæðir hafa verið nýttar undir slíkt eitthvað lengur. Þessi mynd er tekin í mars 2007.


Hús dagsins: Minjasafnskirkjan

p6190026.jpg Í síðustu færslu tók ég fyrir Akureyrarkirkju og í framhaldi af því er sjálfsagt að taka fyrir elstu kirkju Akureyrar sem stendur við Aðalstræti 58 á "athafnasvæði" Minjasafns Akureyrar. En á þessum stað stóð Akureyrarkirkja hin eldri sem var  fyrsta kirkja Akureyrar, en áður áttu Akureyringar kirkjusókn að Hrafnagili. Gamla kirkjan var byggð 1862 og ári seinna var Kirkjugarður Akureyrar tekin í notkun á höfðanum ofan við. Það er hins vegar ekki sú kirkja sem nú stendur þarna. Gamla kirkjan var afhelguð þegar Akureyrarkirkja var vígð 1940 og rifin 1942. Í einhverri sögugöngu um Innbæinn heyrði ég að gamla kirkjan lægi ennþá í mörgum útihúsum við Eyjafjörð, en bændur munu hafa fengið úr henni ódýrt eða gefins byggingarefni. Minjasafnskirkjuna, sem er einföld og látlaus timburbygging, reisti hagleiksmaðurinn Þorsteinn Daníelsson frá Skipalóni árið 1846 og var hún reist á Svalbarði.  Þaðan var hún flutt til Akureyrar um 1970 og gerð upp þar sem hún stendur enn. Í kirkjunni eru geymdir ýmsir kirkjumunir og þar eru einnig haldnar ýmsar samkomur á vegum Minjasafnsins, söngkvöld e.þ.h. dagskrá. Ekki hef hins vegar heyrt af mörgum messum þarna. Þessi mynd er tekin 19.júní 2006.

Hús dagsins: Akureyrarkirkja

p2110031.jpg Í dag tek ég fyrir  eitt helsta  kennileiti Akureyrar, Akureyrarkirkju en hún stendur á einkar áberandi stað ofan Grófargils og sést langt að. Turnarnir eru tveir og snúa í norðaustur. En Akureyrarkirkju var reist árið 1940 eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Turnarnir eru um 28m háir og að öllum líkindum hefur þetta verið hæsta bygging Akureyrar á þeim tíma. Raunar eru fáar hærri byggingar í bænum í dag. Kirkjan er steinsteypt og klædd skeljasandi og rúmar um 500 manns í sæti.  Allir gluggar í skipi og kór eru steindir og einn þeirra á sér merkilega sögu en hann er fenginn úr dómkirkjunni í Coventry á Englandi eftir að hún eyðilagðist í loftárás í seinni heimstyrjöld, 1943. Um 1990 var reist safnaðarheimili við kirkjuna neðanjarðar og lengi vel var tyrft yfir það þannig að það var einna líkast því að gluggar þess væru á brekkunni sjálfri. Því var hins vegar breytt við endubætur á brekkunni og aðkomunni sunnan megin.

Ekki er hægt að fjalla um Akureyrarkirkju án þess að minnast á tröppurnar mörgu sem liggja upp að henni frá horni Kaupangshorni og Hafnarstrætis. Menn eru ekki sammála um hversu margar þær eru en ég hef oft talið þær og yfirleitt hef ég fengið út töluna 110. Einhvern tíma datt mér reyndar í hug að einfaldast væri að telja bara hjallana og telja tröppurnar í einum og margfalda svo fjöldan. En það er ekki svo einfalt, því tröppurnar eru mismargar í hverjum hjalli, á bilinu 9-11. Það sem getur aftur á móti ruglað menn varðandi fjöldi trappana eru aðrar tröppur við anddyri Hótel Kea, neðan við hinar eiginlegu kirkjutröppur. Þær eru ef ég man rétt sex, þ.a. ef við teljum þær með eru tröppurnar orðnar 116. Mæli ég eindregið með léttu skokki upp kirkjutröppurnar. Myndirnar í þessari færslu eru teknar í apríl 2006 og febrúar 2007.p4180084.jpg


Haustlitir í Vaðlaheiði

Sl. laugardag fór ég í gönguferð  um Vaðlaheiðina og að sjálfsögðu var myndavélin með í för. Heiðin og pollurinn skörtuðu sínu fegursta þrátt fyrir dumbung og haustlitirnir voru áberandi. Held ég láti myndirnar sjá um að tala sínu máli í þetta sinn og eins og fyrri daginn eru myndirnar ekkert breyttar eða "fótósjoppaðar". 

pb140057.jpg pb140061.jpg


Hús dagsins: Strandgata 11b

 

Um daginn þegar ég var sem oftar að blaða í Sögu Akureyrar e. Jón Hjaltason rakst ég á eina mynd sem vakti athygli mína. Þar sá ég standa stórum stöfum "Vélsmiðjan Mars" á húsi sem ég hélt raunar að væri miklu yngra en það er í raun ( myndin var frá ca 1930 ). Vakti þetta sérstaka athygli mína þar sem daginn áður hafði ég fullyrt hérna á síðunni að þessi sama vélsmiðja hefði verið í öðru húsi á sömu lóð og leiðrétti ég það tafarlaust. En húsið sem um ræðir er raunar efni í sér pistil.  En Óskar Sigurgeirsson  vélvirki reisti Strandgötu 11b árið 1915 og starfrækti þar vélsmiðju sína Mars um árabil, sennilega fram yfir 1940. Var þetta fyrsta vélsmiðjan á Akureyri en hún mun síðar hafa runnið inní Vélsmiðjuna Odda. Hún var starfandi fram til um 1990 í Strandgötu 49, Gránufélagshúsunum. Þetta hús hefur alla tíð verið iðnaðar- og verslunarhúsnæði seinna meir, þarna var lengi vel Gúmmíviðgerðarverkstæði KEA og fiskbúð var þarna starfrækt í suðurenda ( næst á mynd ) áratugina 1980-2000. Fiskbúðin hætti rekstri að mig minnir 2002 eða 3 og þar með varð Akureyri fiskbúðarlaus bær. Úr því rættist þó í fyrrahaust þegar fiskbúðin Heimur Hafsins var opnuð við Tryggvabraut. Nú er þarna innréttingasprautunarverkstæði.

pb130045_932441.jpg

Þetta hús virðist traustlegt og vel við haldið en nokkuð hefur verið byggt við það, m.a. tvílyft bygging að norðanverðu, sést í gaflinn á myndinni. Þá gæti ég trúað að syðri hlutinn með stóra verslunarglugganum sé seinni tíma viðbygging. En húsið er að öðru leyti lítið breytt frá fyrstu gerð og sums staðar eru upprunalegir gluggar, sem sjá á neðri mynd með þessari færslu. Eitthvað hef ég haft veður af því að flestöll hús á þessum reit, sk. Sjallareit sem afmarkast af Strandgötu, Glerárgötu, Gránufélagsgötu og Geislagötu eigi að víkja. Þó þetta hús sé lágreist og láti ekki mikið yfir er þetta þó nokkuð merkilegt. Þetta er með elstu steinsteypuhúsum Akureyrar og með elsta iðnaðarhúsnæði í bænum sem enn er í notkun og aukinheldur fyrsta vélsmiðjan á Akureyri. Það yrði því eflaust mikil eftirsjá af því ef þetta hús yrði rifið og ætti þessi bygging frekar að geta orðið til mikillar prýði ef það yrði gert upp á svipaðan hátt og næstu hús. Gamlir bogadregnir gluggar í Strandgötu 11b  Hér að neðan t.h. má sjá gamla bogadregna glugga með upprunalegum póstum og einföldu gleri.  Myndirnar með þessari færslu tók ég núna rétt fyrir hádegi í dag, 13.nóvember 2009.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.7.): 79
  • Sl. sólarhring: 160
  • Sl. viku: 398
  • Frá upphafi: 450682

Annað

  • Innlit í dag: 68
  • Innlit sl. viku: 303
  • Gestir í dag: 68
  • IP-tölur í dag: 67

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband