9.11.2009 | 17:26
Hús dagsins: Strandgata 9,11 og 13.
Í síðustu færslu á miðvikudaginn var fjallaði ég um stórhýsið Strandgötu 3 og Strandgötu 7. En síðarnefnda húsið er hluti af torfu timburhúsa frá 1907 sem liggja milli Geislagötu og Glerárgötu og því liggur beinast við að fjalla um hin þrjú húsin 9, 11 og 13. Þessi hús eru reist á grunni mikilla stórhýsa sem brunnu í Oddeyrarbrunanum 18.október 1906. Þar eyðilögðust þrjú stærstu hús Oddeyrar og ef ekki Akureyrar allrar, en allt voru þetta nýreist hús á þrem eða fleiri hæðum. Þar sem þessar myndir eru teknar 2007 eru húsin öll á 100.aldursári þarna. Fyrir ca. 12-15árum voru öll þessi hús að niðurlotum komin ef svo mætti segja, en voru öll tekin í gegn árin 1997-2003 og líta nú frábærlega út og eru til mikillar prýði í innkeyrslu Miðbæjarins.
Strandgata 7 sjá síðustu færslu. Hér á myndinni sést húsið raunar mun betur.
Strandgata 9: Er þriggja hæða húsið fyrir miðju. Byggt af manni að nafni Kolbeinn Árnason og hafði Alþýðuflokkurinn lengi aðsetur í húsinu. Verslanir voru í kjallara en íbúðir á efri hæðum. Að morgni 25.apríl 1998 kviknaði í húsinu og skemmdist það nokkuð. Ég var einmitt á sunnudagsgöngu þarna framhjá þegar það gerðist. Þá hafði húsið staðið yfirgefið í nokkurn tíma. Á næstu tveimur árum var húsið allt byggt upp frá grunni og nú eru þarna 4 íbúðir á 2. og 3. hæð og verslun Tölvulistans og hárgreiðslustofa á 1. hæð. Fáeinum misserum eftir að endurgerð hússins lauk heyrði ég eldri konu í strætó segja frá því að hún hefði búið í Strandgötu 9 fyrir 60 árum og það hefði aldrei litið betur út en núna.
Strandgata 11 Hvíta tvílyfta húsið til hægri. Þarna var lengi vel vélsmiðja og vélaverkstæði sem hét Mars og mun hafa verið fyrsta vélsmiðja á Akureyri. Yfirmaðurinn þar hét Óskar Sigurgeirsson. Neðri hæðin hefur alla tíð verið iðnaðar- og síðar verslunarrými en íbúð eða skrifstofur á efri hæð. Nú er rekin á neðri hæð hamborgarastaðurinn DjGrill en íbúð á efri hæð. Leiðrétting 10.11.: Var að blaða í 4.bindi Sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason. Þar sá ég í myndatexta að vélsmiðjan Mars var ekki í þessu heldur í steinhúsi á baklóð hússins, Strandgötu 11b. Það hús stendur enn og var þar rekin fiskbúð um áratugaskeið og flestir þekkja það hús einfaldlega sem Fiskbúðina.
Strandgata 13 stendur á horni Glerárgötu og Strandgötu og er stundum kallað Horngrýti eða Hornskekkja vegna sérkennilegar lögunnar sem sést vel á þessari mynd. Var þetta íbúðarhús lengst framan af en þetta var einnig hótel eða gistiheimili um árabil. Haustið 1997 var þetta hús farið að láta á sjá. Þá var ráðist í umfangsmikla framkvæmd á húsinu en því var lyft um tæpa tvo metra og steyptur undir það nýr kjallari. Í kjölfarið var svo ráðist í endurbyggingu á efri hæðum hússins og var henni lokið að mestu 1999. Í kjallaranum hefur síðan verið veitingarekstur en fasteignasala og skrifstofur eru á efri hæðum. Eins og áður segir eru öll þessi hús byggð 1907.
Myndirnar í þessari færslu eru teknar í febrúar 2007.
Bloggar | Breytt 12.11.2009 kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.11.2009 | 16:49
Hús dagsins; Strandgata 3 og 7. Timbur og Steinsteypa. Andstæður
Í síðustu færslu var ég með einskonar andstæðuþema þar sem ég birti myndir af gamalli háspennulínu í Vaðlaheiði að vetri til annars vegar og risastórri mastrastæðu í Orlando að sumri til hins vegar (ekki það að komi mikill vetur á þeim stað). Í þessum húsapistli eru andstæðurnar ráðandi og í þetta sinn Nýtt og Gamalt og raunar stórt og lítið líka. En á þessari mynd sem er af Strandgötu 5 t.v. og fyrir miðri mynd og 7 t.h. kallast skemmtilega á gamli og nýji tíminn í byggingarlist, timbur og steinsteypa.
Strandgata 3 var byggð árin 1998 til 2000 og er því langyngsta hús sem ég hef tekið fyrir í Húsum dagsins hingað til. Bygging þessa húss var ekki óumdeild, enda þótti mörgum þetta helst til of stórt fyrir þennan stað, enda húsið á 7 hæðum og sennilega 25-30 metrar þar sem það er hæst. Þess má einnig geta að aðeins sést um helmingur hússins á þessari mynd, en þriggja hæða álma meðfram Geislagötu er í hvarfi á bak við Strandgötu 7 á þessari mynd. Áður en stórhýsið reis var þarna bílastæði og plan sem var vinsælt til hjólabrettaiðkunar. Í Strandgötu 3 er að finna afgreiðslu Íslandspóst, verslanir og skrifstofur og íbúðir eru á efri hæðum í hæsta hlutanum.
Strandgata 7 var reist 1907. Þar mun hafa verið rekið hótel fyrstu áratugina en Kaupfélag Verkamanna eignaðist húsið ásamt verkalýðsfélögum, þar sem félögin höfðu skrifstofur og samkomusal. Gekk þá húsið undir nafninu Verkalýðshúsið. Húsgagnaverslunin Augsýn var til húsa þarna um áratugaskeið en flutti úr því 1997. Þá var þetta hús var komið í mikla niðurníðslu en það var endurbyggt fljótlega var þar opnað kaffihúsið Kaffi Akureyri sem enn er starfandi.
En sagan er ekki öll sögð. Við Lónsbakka, rétt norðan þéttbýlismarka Akureyrar stendur þetta hús sem kallast Berghóll. Þetta hús var reist 1908 og stóð þar sem nú er Strandgata 3 (en við Strandgötu var það aftur á móti nr. 5 ). Árið 1970 var það hins vegar flutt þessa 5km leið norður að Lónsbakka þar sem það stendur enn. Nú eru í Berghóli að ég held 2 íbúðir en það var verslunarhús meðan það stóð við Strandgötuna, lengi vel sápuverslun. Myndirnar í færslunni eru teknar 2007, efri myndin í febrúar en myndin af Berghóli að kvöldi 21.maí gegnum bílrúðu á ferð ( þ.e. bíllinn er á ferð ekki rúðan )
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2009 | 00:35
Háspennulínur; andstæður
Eins og undarlega og það kann að hljóma frá hörðum umhverfissinna sem ég er hef ég löngum heillast af háspennulínum. Eitthvað hef ég nú tekið myndir af þeim og hér eru tvær raflínumyndir þar sem andstæðurnar, heitt og kalt, lítið og stórt kallast skemmtilega á:
Efri myndin er tekin í apríl 2007 í Vaðlaheiði og sýnir raflínu af eldri gerðinni, með A-laga "þverslám". Mér skilst að elstu dreifilínur hafi verið með þessu lagi, en þessi mun reist um 1940. Þarna var hitinn í kringum -5°C það er svipað og lægsta skráða hitastig sem mælst hefur þar sem neðri myndin er tekin. Flestar myndirnar á þessari síðu eru teknar í Eyjafirði en þótt ótrúlegt megi virðast þá er þessi mynd ekki þaðan
. Nei, þetta þriggja hæða háspennumastur er staðsett í Orlando í Florida, USA. Myndin er tekin í maí 2008. Mér fannst svolítið magnað að hugsa til þess að hér má ekki einusinni tjalda nema í 10m fjarlægð frá háspennulínum og stærstu línur hér eru nú bara eins og túngirðingar miðað við þessa. Þessi lá hins vegar þvert í gegn um íbúðarhverfi og á sumum stöðum nánast í bakgörðum húsa. Óvenjulangt var til línunar frá húsinu sem ég tók þessa mynd við. Og af því að ég minntist á hitastig þá var aðeins hlýrra þarna heldur en í Vaðlaheiðinni eða 32°C.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2009 | 18:24
Kaffisopinn hressa kann
Einu sinni var ég staddur á balli. Ég var orðinn dálítið þyrstur en ég drekk ekki áfengi en er á fullu í kaffinu "í staðinn". Ég drekk a.m.k. fimm bolla af þeim drykk dag hvern og þeir geta hæglega farið yfir 10. Ef ég einhverra hluta hef ekki náð nægum nætursvefni ( lesist: vaknað snemma eftir að hafa farið seint að sofa ) bæti ég það upp með rótsterkum kaffibolla, einum eða tveimur til. Ef ég þarf nauðsynlega að halda vöku þá er kaffið nauðsynlegt. Ég hef einhvern vegin aldrei geta vanið mig á að drekka hina fjölmörgu orkudrykki sem í boði eru, drekk þá bara kaffi. Enda kaffið mun ódýrari kostur en að kaupa fjórðung úr lítra af einhverri sykurleðju á 300kall. Þannig að ef ég fer "út á lífið" þá þamba ég kaffi eins og flestir aðrir þamba áfengið.
En aftur af sögunni sem ég byrjaði á í upphafi. Ég fór á barinn og kom mér fyrir í röðinni. Eftir litla stund kom að mér og ég bað um kaffi. Afgreiðslustelpan virtist vera mjög hissa og sagði mér að bíða aðeins. Hún fór og talaði við eldri konu sem einnig var afgreiða og heyrði ég nokkurnvegin hvað þær sögðu. Aumingja stelpan vissi greinilega ekkert hvað hún átti að gera og bar hún þessa "undarlegu" pöntun mína undir konuna, sem greinilega var yfir staðnum. Konan hugsaði sig aðeins um en ég sá hana benda og segja henni að hella bara uppá á bakvið. Stúlkan kom aftur og sagði mér að það væri smábið, hún þyrfti að hella upp á. Alltílagi segi ég. Seinna fór hún aftur á bakvið og spurði konuna hvað hún ætti að rukka mig. Ég heyrði ekki alveg hvað hún sagði en fékk að vita það eftir smástund þegar ég fékk bollan minn af svörtu og sykurlausu. Kaffið var frítt. Þetta er náttúrulega dæmi um fyrirmyndar þjónustu, einhverjir hefðu sennilega bara slengt því framan í mig að þau seldu ekki kaffi og búið mál en þarna var greinilega vilji til að hlaupa eftir hverju sem er. En mér fannst þetta svolítið skondið. Þetta var svona svipað og ég væri að biðja um eitthvað algjört eitur sem ekki mætti sjást og væri bara selt undir borðið og alls ekki nema einhver bæði um það sérstaklega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.10.2009 | 17:51
Hús dagsins: Aðalstræti 46; Friðbjarnarhús
Aðalstræti 46 var reist árið 1856, en sá sem byggði húsið hét Steinn Kristjánsson. Sonur hans var Friðbjörn bóksali en þetta hús er kennt við hann. Hann var eigandi hússins 1884 en þá var stúkan Ísafold stofnuð í húsinu. Var þetta upphaf af starfi Góðtemplarareglunnar, en sá félagsskapur var m.a. á bakvið byggingu Samkomuhússins seinna meir. Friðbjörn Steinsson bjó hér til síðasta dags, 1918 en síðan urðu eigendaskipti tíð. Upp úr 1960 eignuðust templarar húsið aftur og gerðu það upp. Þeir settu á safn um regluna í húsinu og hefur húsið það hlutverki enn í dag. Líkt og Aðalstræti 50, sem ég fjallaði um fyrir réttri viku var Friðbjarnarhús í hópi fyrstu húsa sem voru friðuð á Akureyri. Var það 1978. Friðbjarnarhús var friðað í A flokki en það var friðun sem tók til alls hússins. A flokkur þýðir að húsið er lítið breytt frá fyrstu gerð að innan sem utan. Þá hefur sögulegt gildi örugglega haft einhver áhrif á friðunina. Fyrir framan húsið er gamall ljósastaur úr steypujárni, ætti að sjást greinilega á þessari mynd. Þessi mynd er tekin 15.ágúst sl. í sama túr og ég tók myndina í síðusta húsapistli.
Viðbót 29.10. kl. 17.43: Nú rétt í þessu heyrði ég í svæðisútvarpi Norðurlands að Góðtemplarareglan hygðist afhenda Akureyrarbæ húsið með það í huga að það verði í umsjón Minjasafnsins.
Bloggar | Breytt 29.10.2009 kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2009 | 14:48
Jálkar á virðulegum aldri
Hér eru nokkrir trukkar sem komnir eru af léttasta skeiði ef svo mætti segja. Þessi gamli Benz hefur örugglega flutt ófá tonn af ýmis konar varningi hundruð þúsundir kílómetra. Þarna (myndin er tekin 2004 eða 05) er hann á númerum og líklega í fullri notkun þrátt fyrir háan aldur. Ég myndi giska á að þessi væri frá 1962 eða þar um bil.
Þessi Volvo, árgerð 1959, mun hafa verið í eigu KEA lengst af. Án þess að ég viti það dettur mér í hug að hann hafi byrjað feril sinn sem mjólkurbíll en síðar flutt ýmsan varning fyrir félagið. Gæti einnig hafa flutt búfénað seinna meir. Mun hafa verið grár upprunalega en seinna málaður í þessum lit. Eins og Benzinn er hann á númerum þegar þessi mynd er tekin ( myndirnar eru teknar á sama augnabliki þar sem þeir stóðu hlið við hlið við Fjölnisgötu austan Síðuhverfis ) og sennilegast í fullu fjöri.
Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hugmynd um hvað þessi vígalegi snjóbíll hérna neðst er gamall. Sennilega er hann á svipuðum aldri og hinir tveir. Flott eintak þarna á ferð. ( þó hann sé nú reyndar kyrrstæður á myndinni... )
Vek einnig á athygli á að nú hef ég flokkað bíla og húsamyndir í sér albúm hérna til hliðar, þar eru allar slíkar myndir sem ég hef birt hér á síðunni. Það er einfaldara að skoða albúmin heldur en að leita í gegn um færslurnar.
P.S. Ef einhver hefur upplýsingar eða fróðleik ( árgerðir, fyrri notkun e.þ.h. ) um bílana hér í færslunni ( og fleiri færslum ) eru slíkar upplýsingar þegnar með þökkum hérna í athugasemdunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.10.2009 | 15:52
Hús dagsins: Aðalstræti 50
Hús dagsins á stórafmæli í ár, það er sextánrætt ef svo mætti komast að orði, þ.e. 160 ára. En Aðalstræti 50 byggði Björn Jónsson prentari og ritstjóri árið 1849. Er húsið eitt þeirra allra elstu á Akureyri. Björn hóf þarna rekstur prentsmiðju og starfrækti hana þarna til æviloka 1886. Hann annaðist útgáfu og prentun blaðsins Norðra, síðar Norðanfara í þessu húsi. Séra Matthías Jochumsson settist að á Akureyri 1886 og bjó hann í þessu húsi fyrstu 17 árin þar til hann reisti glæsihýsið Sigurhæðir neðan Akureyrarkirkju ( sem aftur reis ekki fyrr en löngu seinna ). Síðan hafa margir búið húsinu og það oft skipt um eigendur en því hefur alla tíð verið vel við haldið. Þetta hús var í hópi fyrstu húsa á Akureyri sem voru friðuð skv. þjóðminjalögum um 1980. Með í þeim hópi voru m.a. Hafnarstræti 18, Gamli Spítalinn, Samkomuhúsið, Laxdalshús og Gamla Prentsmiðjan. Þá voru hús friðuð í A eða B flokki. B flokkur tók til ytra byrði húsana en A var einskonar alfriðun. Er þetta hús friðað í B-flokki. Húsið var lengi vel klætt sk. rósajárni* og gluggar með þevrpóstum en um 2000 var það tekið til gagngerra endurbóta og hefur nú verið fært til h.u.b. upprunalegs útlits. Sú endurgerð hefur líkast til aukið varðveislugildi hússins enn frekar. Þessi mynd er tekin 15.ágúst 2009.
*Rósajárn er raunar ekki járn heldur ál-zinkblönduklæðning. Kostur við þá klæðningu er að hún tærist síður en bárujárn. Klæðningin er áþekk múrsteinahleðslu og er stundum líka kölluð steinblikk. Er næsta sjaldgæf utan Akureyrar.
Bloggar | Breytt 22.10.2009 kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.10.2009 | 19:27
Fjallafærir
Hér koma nokkrar myndir af jeppum sem eiga það sameiginlegt að vera "verklegir" eða mikið breyttir. Rík hefð er fyrir jeppabreytingum hérlendis. Breytingarnar ganga í öllum tilfellum út á að bílarnir séu fjallafærir á hvaða tíma ársins sem er, hvernig sem færðin er. Einkenni þessara breytinga eru hin ógurlegu dekk sem sett eru undir. Þau eru þó eingöngu toppurinn á ísjakanum. Flestir jeppar þurfa að gangast undir gríðarlega yfirhalningu til að hægt sé að koma dekkjunum undir, stundum þarf nánast að smíða þá upp á nýtt. En látum nú myndirnar tala sínu máli. Hér efst er Nissan Patrol ef ég man rétt árgerð 1994. Hann er á "38" dekkjum og ekki að sjá á honum að hann láti neitt stoppa sig.
Hér er svo Toyota Hilux sem komin er til ára sinna, sennilega árgerð ca. 1990, einnig á "38". Hann er greinilega búinn rauðum hásingum- ekki amalegt það.
Hér gefur að líta Ford F350. Hann er líklega nýr þegar þessi mynd er tekin, mars 2006. Dekkin eru "46" en þessi bíll er um fjögur tonn þ.a. ekki veitir af. Þessi er líkast til á fjórða hundrað hestöfl.
Þessi Dodge Ram t.h. er á 49 tommu dekkjum. Þeir gerast ekki mikið verklegri en þessi en þrátt fyrir rúm 3 tonn ætti þessi að fljóta yfir hvað sem fyrir verður.
Og þrátt fyrir að þessi Suzuki Fox virðist nú ekki til stórræðana samanborið við stórgæðingana hér en hann á nú samt rétt á að kallast fjallafær. Á Suzuki Fox sannast nefnilega máltækið margur er knár þó hann sér smár. Þessir bílar, sem eru yfirleitt innan við 60 hestöfl komast beinlínis allt og mörg dæmi þess að þeir hafi hreinlega flogið framúr ógurlegum torfærutröllum sem setið hafa föst. Stutt hjólabil, snaggaraleg bygging og það hversu léttir þeir eru gera þá færa í flestan s(n)jó. Þessi er líklega árgerð um 1985.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2009 | 17:35
Hús dagsins: Gránufélagsgata 39-41; "Sambyggingin"
Gránufélagsgata 39, 41a og 41 var byggð á árunum 1929-30 eftir teikningum Halldórs Halldórssonar. Þetta eru raunar þrjú sambyggð hús og hafa sumir kallað þetta hús Sambygginguna. Þó þetta hús beri þrjú númer og er þ.a.l. þrjú hús mun ég hér tala um það sem eitt, en greina á milli vesturhluta (39), miðhluta (41a) og austurhluta (41). Er þetta líkast til eitt fyrsta skipulagða fjölbýlishúsið á Akureyri .
Árið 1927 var fyrsta skipulag fyrir Akureyrarbæ samþykkt. Þar var gert ráð fyrir þéttri byggð fjölbýlishúsa sk. randbyggingum á Oddeyri og torgum á milli. Þannig áttu göturnar að byggjast á löngum og háreistum fjölbýlishúsum og eldri húsanna ( sem nb. standa flest enn ) beið í mörgum tilfellum skjótt niðurrif. Hefði skipulagi þessu verið framfylgt til hins ýtrasta hefði byggðin á Oddeyri líkast til orðið áþekk byggðinni við -Vallagöturnar í Vesturbæ Reykjavíkur ( Verkamannabústaðirnir, göturnar hjá Grund). En þó skipulagið væri stórhuga endaði það nú svo að nú stendur aðeins þetta hús og næsta neðan við nr. 43 sem minnisvarðar um það. Þá er einskonar torg á milli þeirra, sem nú þjónar sem bílastæði fyrir íbúa húsanna og leikskólann Iðavöll, sem er staðsettur á reitnum góða sem afmarkast af Gránufélagsgötu í suðri, Norðurgötu í vestri, Eiðsvallagötu í norðri og Hríseyjargötu í austri. Nú eru sjö íbúðir í húsinu, þrjár í austurenda, þrjár í vesturenda og ein í miðhluta. Líkast til hafa þær verið mun fleiri þegar húsið var byggt, jafnvel yfir 10. Þessi mynd er tekin í janúar árið 2005.
Um númerakerfi Gránufélagsgötunnar hef ég minnst á áður í pistli um skringileg númerakerfi en þar segir m.a.: Að vestan er röðin hefðbundin 19, 21, 23 og 27. En við hliðina á 27 stendur 39,41a og 41. Þessi hús eru ein heild, stórt þrílyft steinhús, kallað Sambyggingin. Neðan 41 stendur svo 43, eins og vera ber. En svo heldur gatan áfram frá 29, neðan við 43. Hús nr. 16 stendur beint á móti 43 og beint á móti 33 er 22. Aldrei hef ég heyrt neina skýringu á því hverju þetta sæti. Ég bjó í Gránufélagsgötu 27 (næsta húsi við 39-41) í tvö ár og oft börðu að dyrum póstsendingarfólk eða pizzasendlar algjörlega "lost" við að finna tiltekin hús í götunni. Þau urðu svo oft enn meira forviða þegar maður benti þeim hingað og þangað að húsunum sem leitað var að.
Bloggar | Breytt 17.10.2009 kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.10.2009 | 18:14
Annar brúapistill: Eyjafjarðará
Í síðustu færslu tók ég fyrir Glerá og allar brýrnar sem yfir hana liggja, en þær eru æði margar eða raunar svo margar að ef þeim væri dreift með jöfnu millibili væru aðeins 1,5km á milli þeirra. Hins vegar er óvíst að þetta geri hana að mest brúuðu á landsins miðað við lengd. Eflaust má víða um land finna litlar lækjarsprænur með hærra "brúarhlutfalli" ef svo mætti að orði komast. Þá komum við að skilgreiningaratriði hvað ætti að telja á eða læk og jafnvel hvað ætti að kalla brú. Ekki fer ég nánar út í sálma hér. En í beinu framhaldi af brúapistli um Glerá er eðlilegt að taka fyrir annað vatnsfall sem rennur í nágrenni Akureyrar. Reyndar er þetta vatnsfall ekki nema að örlitlu leyti innan við sveitarfélagsmarka Akureyrar en neðstu 3km af þessu fljóti, sem er alls 60km renna þar um. Þarna á ég að sjálfsögðu við Eyjafjarðará. Á henni eru einnig nokkuð margar brýr, sumar aflagðar og sumar í fullri notkun. Byrjum neðst.
Það má kannski deila um hvort Leiruvegur, þjóðvegur nr. 1 og brúin á honum liggi yfir Eyjafjarðaránna eða fjörðinn sjálfan en ég ætla að miða við ánna. Í hugum margra liggja eflaust mörkin milli fjarðar og ár við veginn. ( Hugsa reyndar að fæstir séu neitt að pæla í þessu yfirhöfuð ) En þar er komin ein brú. Gamli þjóðvegurinn sunnan flugvallar leggur til einar þrjár brýr en þær eru komnar vel til ára sinna, þó ekki sé mér kunnugt um byggingarár þeirra. Þar með eru brýrnar orðnar fjórar. Skammt sunnan Hrafnagils liggur síðan Miðbrautin. Það er eftir því sem ég kemst næst nýjasta brúin yfir Eyjafjarðará, byggð um 1988. Þó er hún einbreið eins og raunar allar brýr yfir ánna utan Leirubrú. Sjötta brúin er við Melgerðismela, lítið eitt framan við Fellshlíð er brú ætluð hestamönnum. Til móts við Möðruvelli (austanmegin), 26km frá Akureyri er síðan önnur brú. Kallast það stór Eyjafjarðarhringur þegar farið er frá Akureyri og yfir þá brú og aftur til baka hinu megin, en lítill ef farið er yfir Miðbraut. Þá eru brýrnar orðnar sjö. Næst er ansi skemmtileg gömul bogabrú, byggð 1933, kölluð Hringmelsbrú. Er hún við bæinn Sandhóla um 30km framan Akureyrar. Níunda brúin er um 7km sunnar, en það er frumstæð göngubrú rétt undir hólaþyrpingunni við Hólavatn við merki Ártúns og Skáldstaða (vestanmegin). Sunnan undir hólunum er síðan brú fyrir bílaumferð. Sú brú og áðurnefnd bogabrú loka síðan um 20km hring fremst í firðinum, sem ég myndi kalla Hólahring og er það stærsti Eyjafjarðarhringurinn ef sá hringur er tekin til viðbótar við þann stóra. Ég hefði reyndar kallað þann hring, stóra Eyjafjarðarhringinn og Hólahring Eyjafjarðaráttuna. Sú leið er alls um 100km og skal eindregið mælt með bíltúrum þessar hringleiðir fyrir hvern þann sem heimsækir Akureyri eða Eyjafjarðarsveitir. Fremsta brúin er á heimreiðinni að bænum Halldórsstöðum og Tjörnum sem standa báðir austanmegin um 46km frá Akureyri. Sú brú var reist 1968 og mun hafa leyst af tvær brýr sem voru á sitt hvorri heimreiðinni. Þannig er heildarfjöldi brúa í byggð yfir Eyjafjarðará 11. Ekki veit ég hvort fleiri brýr leynast frammi á Eyjafjarðardal en ef einhver hefur upplýsingar um slíkt eru þær vel þegnar.
Sú heimild sem ég studdist við í þessum pistli, varðandi byggingarár brúnna o.þ.h. er bókin Byggðir Eyjafjarðar 1990, gefin út af Búnaðarsambandi Eyjafjarðar 1993.
Bloggar | Breytt 12.10.2009 kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.7.): 117
- Sl. sólarhring: 120
- Sl. viku: 436
- Frá upphafi: 450720
Annað
- Innlit í dag: 91
- Innlit sl. viku: 326
- Gestir í dag: 89
- IP-tölur í dag: 87
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar