Hús dagsins: Lögbergsgata 3

Það var í febrúar 1938 að Gunnar Eiríksson leigðaP2100882 byggingarlóð sunnan „Lögbergsstrætis“ sem nefnt er svo í bókunum Byggingarnefndar, aðra lóð neðan frá. Þess má hins vegar geta, í þessu samhengi, að heitið Lögbergsgata er frá maí 1928, en veganefnd gaf þá fjölmörgum götum skv. nýju skipulagi nöfn. Lögbergsstræti finnst hins vegar ekki á timarit.is. Gunnar fékk í kjölfarið að byggja íbúðarhús úr steinsteypu á kjallara undir austurhluta, útveggir úr r-steini og stærð hússins 10,6x8,5m. Teikningarnar að húsinu gerði Friðjón Axfjörð. Þær teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfi en þar má hins vegar finna teikningar Mikaels Jóhannssonar af breytingum á þaki hússins frá 1960.  Ekki virðast þær breytingar hafa verið stórvægilegar.

Lögbergsgata 3 er dæmi um látlaust og einfalt funkishús, einlyft steinsteypuhús á kjallara með einhalla, aflíðandi þak. Veggir eru múrsléttaðir og pappi á þaki en einfaldir þverpóstar að neðanverðu í gluggum. Horngluggar eru til SV og NA. Á framhlið, í kverkinni milli útskots til norðurs eru inngöngudyr og steyptar tröppur upp að þeim.  

Margir hafa átt húsið og búið svo sem gengur og gerist með 80 ára gömul hús. Á fimmta áratugnum stundaði Þorvaldur Jónsson bókbindari iðn sína þarna og auglýsti t.d. gyllingar á innbundnar bækur. En í húsinu bjuggu lengi vel þau Erlingur Davíðsson frá Stóru - Hámundarstöðum á Árskógsströnd og Katrín Kristjánsdóttir frá Eyvík á Tjörnesi. Erlingur var lengi vel ritstjóri Dags en einnig mjög afkastamikill rithöfundur og eftir hann liggja fjölmargar bækur, ævisögur og æviágrip og ber þar helst að nefna bókaflokkinn Aldnir hafa orðið. En þær bækur,  komu út hjá bókaútgáfunni Skjaldborg frá upphafi 8. áratugarins  til loka þess 9. og geyma frásagnir á annað hundrað karla og kvenna, sem flest voru fædd áratugina í kring um aldamótin 1900. Þar sögðu frá bændur, sjómenn, forstjórar, verkamenn, kennarar, hannyrðakonur, alþingismenn, húsmæður o.fl, valinkunnir, óþekktir og víðfrægir; einfaldlega fólk úr öllum stéttum og lögum samfélagsins. Má nærri geta, hversu dýrmætur heimildasjóður þessar bækur eru orðnar öllum þessum árum síðar. Hefur síðuhafi ósjaldan flett upp í Öldnum hafa orðið við vinnslu pistlanna hér, og mæli ég svo sannarlega með þessum bókum.

Lögbergsgata 3 er dæmi um einfalt funkishús, látlaust og smekklegt og svo til óbreytt frá upphafi en engu að síður í góðri hirðu. Húsið er í góðri hirðu, sem og lóðin og fær húsið varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015. Myndin er tekin sunnudaginn 10. febrúar 2019.

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 811, þ. 22. feb. 1938. Fundur nr. 815, 23. apríl 1938. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


Hús dagsins: Lögbergsgata 1

Lögbergsgata er stutt og nokkuð brött gata sem liggur til vesturs og upp frá Oddeyrargötu upp að Helgamagrastræti. Neðri og eystri endi götunnar liggur nokkurn veginn beint upp af Oddagötu, á milli húsa nr. 36 og 38 við Oddeyrargötu. Gatan liggur samsíða Þingvallastræti og liggja baklóðir gatnanna saman. Húsin við götuna eru byggð á árunum 1938-46 og  standa  þau öll sunnan megin við götuna og bera oddatölunúmer en norðan götunnar eru hornhús við Hlíðargötu og Holtagötu. En þær götur liggja á milli Lögbergsgötu í suðri og Hamarstígs í norðri. Lögbergsgata er um 150 metrar að lengd.

Lögbergsgata 1

Árið 1938 fær Steingrímur Kristjánsson austustu lóð P2100881sunnan Lögbergsgötu og byggingarleyfi fyrir steinsteyptu húsi með flötu þaki. Það varð reyndar svo, eftir því sem hverfið milli Þingvallastrætis og Hamarstígs byggðist upp, að öll hús við Lögbergsgötu stóðu sunnan hennar, en norðanmegin voru hornlóðir Hlíðargötu og Holtagötu. Árið 1939 var hús Steingríms risið af grunni, en teikningarnar gerði Tryggvi Jónatansson.

 Lögbergsgata 1 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara, jafnvel mætti kalla húsið tvílyft með lágu valmaþaki, bárujárni á þaki og múrhúð á veggjum. Lóðréttir póstar eru í gluggum og á austurhlið eru tröppur upp að inngöngudyrum á hæð og dyraskýli yfir þeim. Horngluggar í anda funkisstefnunnar, sem alls ráðandi var undir lok fjórða áratugar 20. aldar, eru til SV á húsinu.

Steingrímur Kristjánsson, sá er byggði húsið, var lengst af bílstjóri og bifvélavirki, og var með þeim fyrstu hér í bæ sem tóku bifreiðapróf en síðar sneri hann sér að húsgagnabólstrun. Eiginkona Steingríms var Guðrún P. Hansen.  Stundaði Steingrímur iðn sína hér og árið 1952 auglýsir hann framleiðslu á rúllugardínum hér. Um miðja 20. öld var þannig hægt að verða sér út um m.a. bólstrun, rúllugardínur o.fl. á efri hæð og kjóla, blússur og kvenhatta á neðri hæð Lögbergsgötu 1. En á neðri hæð bjó tengdamóðir Steingríms, Sesselja Stefánsdóttir Hansen ásamt dætrum sínum Soffíu og Mörtu Nielsen.  Sú síðarnefnda tók að sér kjóla-   blússusaum og fékkst auk þess við kvenhatta. Steingrímur bjó hér til æviloka, en hann lést langt fyrir aldur fram í ársbyrjun 1962, fæddur 1899. Síðan hafa fjölmargir búið í húsinu. Húsið var upprunalega með flötu þaki, en árið 1999 var byggt á það valmaþak með 14° halla eftir teikningum Árna Gunnars Kristjánssonar og rúmum áratug síðar dyraskýli á austurhlið, eftir teikningum Águsts Hafsteinssonar. Að öðru leyti er húsið lítið breytt frá upphafi og er í góðri hirðu. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 10. febrúar 2019.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 823, þ. 19. sept 1938. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

 


Hús dagsins: Nótastöðin, Norðurtanga 1

Áður en við höldum af Holtagötunni suður á Lögbergsgötu skulum við bregða okkur niður á utanverða Oddeyri eða kannski öllu heldur neðarlega á Gleráreyrar. Það var alla vega kýrskýrt í bókunum Byggingarnefndar að þessi staður væri á Gleráreyrum. Mér er ekki kunnugt um, hvar mörk Oddeyrar og Gleráreyra liggja (ef þau liggja nokkurs staðar „formlega“ ) en einhvern veginn hef ég bitið í mig þá (rang)hugmynd að Gleráreyrum hljóti að sleppa þegar komið er fram fyrir Mylluklöpp; það heiti Oddeyri að bökkum Glerár þar austan við. Það er hins vegar rökrétt að álíta, að ósar Glerár nyrst á Oddeyri hljóti að kallast Gleráreyrar. (Svo er spurning hvort ein eyri þurfi að útiloka aðrar; að ysti hluti Oddeyrar heiti einfaldlega Gleráreyrar). En á þessum slóðum, neðst á Gleráreyrum skammt frá athafnasvæði Slippsins stendur háreist iðnaðarhús sem sjá má á mörgum gömlum myndum (frá miðri 20. öld) af Oddeyrinni sem lengst úti í buskanum og er þannig greinilega eitt elsta húsið á þessu svæði. En þarna er um að ræða Nótastöðina, en hún er byggð árið 1945. Þá var þessi staður um hálfum kílómetra frá ystu byggðum Oddeyrar.

Vorið 1945 sótti Óli Konráðsson um lóð á Gleráreyrum, 2500- 3000m2. PB150014Jafnframt sótti hann um leyfi til að reisa byggingu á lóðinni „sem á að vera stöð til hreinsa, lita og þurrka snurpunætur (6 þurrkhjallar, litunar- og suðuker), nótageymsla og nótavinnustofa“. (Bygg.nefnd. Ak. 1945: nr.1011). en Óli fær lóð neðarlega á Gleráreyrum, norður af iðnaðarplássi sem fyrirhugað er á skipulagsuppdrætti frá 28. febrúar 1944. Lóðarstærð átti að ákvarðast af síðari mælingum. Óli fékk einnig leyfi til að reisa hús á lóðinni, skv. uppdrætti í febrúar 1945, 28,2x11,5m að stærð auk skúrbyggingar sunnan úr húsinu 5x5m. Vorið 1946 var húsið risið, en þá var lóðin ákvörðuð 3000 fermetrar, enda lá húsið við suðurmörk lóðar. Þar er um að ræða húsið, sem æ síðan er þekkt sem Nótastöðin, eða Nótastöðin Oddi en stöðin var rekin undir því nafni áratugum saman. Nótastöðin er háreist (3-4 hæðir) steinsteypuhús, með háu risi og kvistútskoti til suðurs. Sunnan á er einnig þrílyft viðbygging með lágu einhalla þaki. Í húsinu er netagerðarsalur ásamt skrifstofum. Bárujárn er á þaki en veggir múrhúðaðir.

Óli Konráðsson, útgerðarmaður, sem fæddur var á Fáskrúðsfirði árið 1900 starfrækti P9080001netagerð á neðri hæð í húsi sínu Eiðsvallagötu 4, uns hann reisti Nótastöðina sem var ein sú fullkomnasta á landinu á sinni tíð. Nærri má geta, hvílík bylting það hefur verið að flytjast með starfsemina í nýbyggðu Nótastöðina á Gleráreyrum  ef húsið er borið saman við neðri hæð Eiðsvallagötu 4 (sjá mynd t.h.), sem er ca. 8x10m að grunnfleti. Óli Konráðsson lést úr krabbameini, aðeins 48 ára að aldri,  þremur árum síðar eða 1948.  Árið 1953 eða fimm árum síðar keypti hlutafélagið Nótastöðin hf. í nótastöðina ásamt öllum búnaði. Félagið var í  eigu Útgerðarfélags KEA, Gjögurs hf, og útgerðarmannanna Valtýs Þorsteinssonar, Leós Sigurðarsonar, Guðmundar Jörundssonar og Egils Júlíussonar (sá síðast taldi á Dalvík, en allir hinir á Akureyri). Elstu heimildir um Netagerðina Odda eru einmitt frá 1953, en „Nótastöðin Oddi“  birtist fyrst á prenti skv. timarit.is í september 1966. Síðar voru lagðar göturnar Tangar um athafnasvæðin neðst á Oddeyri og Gleráreyrum, og fékk húsið númerið 1 við götuna Norðurtanga, það heimilisfang kemur fyrst fyrir á prenti árið 1990. Skemmst er frá því að segja, að í húsinu hafa verið framleidd net og veiðarfæri h.u.b. óslitið  þessi 74 ár sem húsið hefur staðið, nokkur síðustu ár undir merkjum Fjarðanets.  Þarna hefur fjöldi manns stundað atvinnu, margir árum saman og þannig mikil saga að baki þessu reisulega húsi. Ekki er höfundi kunnugt um, að nokkurn tíma hafi verið búið í Nótastöðinni.

Það er álit þess sem þetta ritar, að þegar eldri hverfi og hús eru skoðuð og metin til varðveislugildis eða friðunar verði einnig að huga að iðnaðar- og atvinnuhúsnæði sem margt hvert hefur mikið sögulegt gildi, þótt e.t.v sé það ekki alltaf augnayndi. En það á nú reyndar aldeilis ekki við um Nótastöðina við Norðurtanga að hún sé ekkert augnayndi því stílhreint og glæsilegt er húsið og þar að auki í góðri hirðu. Myndin er tekin þann 15. nóvember 2014.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1027, 20. apríl 1945. Fundur nr. 1054, 20. maí 1946. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafniu á Akureyri.


Hús við Holtagötu

Hér eru umfjallanir um húsin tólf sem standa við Holtagötu, birt frá febrúarlokum til aprílbyrjunar 2019.

Holtagata 1         1938

Holtagata 2         1938

Holtagata 3         1941

Holtagata 4         1943

Holtagata 5         1939

Holtagata 6         1942

Holtagata 7         1941

Holtagata 8         1942

Holtagata 9         1939

Holtagata 10       1947

Holtagata 11       1939

Holtagata 12      1949

Meðaltal byggingarára við Hlíðargötu er 1941,5 þannig að meðalaldur húsa við Holtagötu er u.þ.b. 78 ár árið 2019.


Hús við Hlíðargötu

Hér eru húsin ellefu við Hlíðargötu, sem ég tók fyrir hér á síðunni á fyrstu vikum ársins 2019, á einu bretti.

Hlíðargata 1       (1939)

Hlíðargata 3       (1944)

Hlíðargata 4       (1942)

Hlíðargata 5       (1942)

Hlíðargata 6       (1948)

Hlíðargata 7       (1939)

Hlíðargata 8       (1939)

Hlíðargata 9       (1939)

Hlíðargata 10     (1944)

Hlíðargata 11     (1946)

Meðaltal byggingarára við Hlíðargötu er 1942,2 þ.e. meðalaldur Hlíðargötuhúsa árið 2019 er 77 ár.


Hús dagsins: Holtagata 12

Holtagata 12 er ysta hús austanmegin Holtagötu stendur á PA090830horni götunnar og Hamarstígs. Húsið byggði Gunnar Sigurjónsson eftir eigin teikningu 1948-49, en hann fékk haustið 1947 lóð „þar sem mætast Holtagata og Hamarstígur, norður af íbúðarhúsi Jóhanns Franklín [Holtagata 10].“ Vorið 1948 fær hann svo byggingarleyfi til að byggja íbúðarhús samkvæmt „meðfylgjandi teikningu“  en ekki er um frekari lýsingu á hinu fyrirhugaða húsi að ræða. Árið 1955 byggir Gunnar bílskúr á norðvesturhorni lóðar, ásamt steyptri girðingu, eftir eigin teikningum. Húsið hefur frá upphafi verið tvíbýlishús og ýmsir búið þarna um lengri og skemmri tíma. Árið 1960 kaupa þeir Sigurður Þ. Gunnarsson og Ólafur Gunnarsson eignarhlut Gunnars í húsinu, þ.e. efri hæðina og bílskúrinn.

Holtagata 10 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki, útskotum til suðurs og vesturs. Í kverkinni við vesturútskot eru inngöngudyr og steyptar tröppur á efri hæð en svalir við suðurskot. Gluggar eru með lóðréttum póstum og bárujárn á þaki en steining er á veggjum.

Húsið er í upprunalegri mynd, skv. Húsakönnun 2015, ekki hefur verið byggt við það og á veggjum er enn upprunaleg steining. Sú klæðning er stundum sögð „viðhaldsfrí“ vegna þess hve lengi hún endist samanborið við aðrar utanhússklæðningar. En auðvitað er það svo, að ekkert mannanna verk er viðhaldsfrítt. Holtagata 12 er nokkuð dæmigert fyrir tvíbýlishús frá miðri síðustu öld, steinsteypuhús í funkisstíl með valmaþaki. Húsið tekur þátt í götumynd bæði Holtagötu og Hamarstígs, sem hornhús og hefur varðveislugildi 1, skv. áðurnefndri P4010505Húsakönnun. Á lóðarmörkum er steyptur veggur, sem er líkast til frá 1955, eða þegar bílskúrinn var byggður. Lóðin er einnig vel hirt og gróin og ber það mest á tveimur grenitrjám sem standa annars vegar sunnan við og hins vegar norðaustan við húsið. Myndin  af húsinu er tekin þann 9. október 2018 en þann dag var undirritaður á vappi með mynavélina í haustblíðunni um m.a. Hlíðargötu og Holtagötu. Myndin af trénu er hins vegar tekin þann 1. apríl 2017.

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1084, þ. 19. sept. 1947. Fundur nr. 1094, 7. maí 1948. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Holtagata 11

PA090831 

Holtagötu 11 byggði Jón Sólnes bankastjóri og síðar Alþingismaður árin 1939-40 eftir að Guðmundur Ólafsson hafði afsalað sér lóð og byggingarleyfi sínu til hans (sjá umfjöllun um Holtagötu 9). Hafði Guðmundur fengið byggingarleyfi fyrir steinhúsi, ca 8,6x7,20m að stærð, á einni hæð á kjallara undir hálfu húsinu og með einhalla („höllu“) þaki úr timbri, járnklætt. Í október 1939 fær Jón samþykkta breytingu á húsinu, sem nefnd tekur að hafi verið til bóta, en ekki kemur fram í hverju sú breyting var fólgin.

Holtagata 11 er einlyft timburklætt steinsteypuhús með háu risi og miðjukvisti, sem þó er raunar mun nær austurstafni en þeim vestari.  Um miðja 20. Öld þekktist sú aðferð að múrhúða eldri timburhús og var kallað forskalning. Í tilfelli Holtagötu 11 má segja að þessu sé snúið við, þar er steinhús  er timburklætt. Segja má, að timburklæðningin ljái húsinu ákveðin sérkenni í miðri steinsteypuhúsaþyrpingu. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum en bárujárn á þaki. Á austurhlið eru svalir á báðum hæðum.

 

Jón og Inga Sólnes bjuggu hér í ein níu ár eða til 1949, svo sem fram kemur í æviminningum hans, sem Halldór Halldórsson skráði (1984: 27). Þá fluttu þau í Bjarkarstíg 4, lítið eitt utar á Brekkunni þar sem þau bjuggu alla tíð síðan. Jón G. Sólnes (1910-1986) þarf eflaust vart að kynna fyrir mörgum lesendum en hann var valinkunnur fyrir hin ýmsu embættisstörf, bankastjóri, bæjarfulltrúi og Alþingismaður. Í hugum margra tengjast nöfn Jóns G. Sólness og Kröflu órjúfanlegum böndum en hann var einn helsti forvígismaður Kröfluvirkjunar, sat í fyrstu Kröflunefnd og var formaður og framkvæmdastjóri virkjunarinnar. Lög um „Jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall“ voru samþykkt snemma í apríl 1974 og var virkjunin gangsett 1977. Eins og títt er með stórframkvæmdir mætti Kröfluvirkjun þó nokkurri andstöðu og hafði Vilmundur Gylfason þar mikið í frammi. Stóð Jón oft í stórræðum við byggingu Kröfluvirkjunar og ekki bara við andstæðinga hennar heldur jafnvel landvættina sjálfa; því á meðan byggingu virkjunarinnar stóð geisuðu hinir miklu Kröflueldar. Halldór Halldórsson skráði, sem áður segir, æviminningar Jóns G. Sólness í samnefndri bók og var hún gefin út af Erni og Örlygi árið 1984. 

Á árunum 1997- 2000 var húsið allt tekið í yfirhalningu, byggð á það rishæð og flest allt endurnýjað. Breyttist þá nokkuð yfirbragð og stíll hússins og „Engin ummerki funkisstílsins eru lengur á húsinu“ svo sem segir í Húsakönnun 2015 (Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta 2015:134).  En Húsakönnun metur breytingar í ágætum hlutföllum og að húsið líti vel út. Sá sem þetta ritar getur svo sannarlega tekið undir það. Sem hornhús tekur húsið þátt í götumyndum bæði Holtagötu og Hamarstígs. Sem fyrr segi hlaut húsið gagngerar endurbætur  fyrir um tveimur áratugum er þetta áttræða hús nokkurn veginn sem nýtt og er til prýði í umhverfinu. Sömu sögu er að segja af lóðinni, sem prýdd er fjölbreytilegum runna- og blómabeðum og þá standa tvær stæðilegar furur austan og norðan við húsið. Ein íbúð mun í húsinu. Myndin er tekin þann 9. október 2018.

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 842, þ. 18. sept. 1939. Fundur nr. 842, 6. Okt. 1939. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Halldór Halldórsson. (1984). Jón G. Sólnes. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Hús dagsins: Holtagata 10

Holtagötu 10 mun Jóhann Franklín bakarameistari hafa byggt árið 1946, PA090829en lóðina fékk hann 1945. Nokkrum árum áður, eða í árslok 1941, hafði Guðmundur Ólafsson fengið lóðina ásamt nr. 8, en ekki byggt þarna. Ekki fann höfundur byggingarleyfi fyrir Holtagötu 10 í bókunum Byggingarnefndar en Jónas Franklín fékk allavega lóðina árið 1945 og nærtækast að gera ráð fyrir, að hann hafi byggt húsið. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson.

Holtagata 10 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki, útskotum til suðurs og vesturs. Í kverkinni við vesturútskot eru inngöngudyr og steyptar tröppur á efri hæð en svalir við suðurskot. Gluggar eru með lóðréttum póstum og bárujárn á þaki en veggir eru múrsléttaðir.

Húsið var frá upphafi tveir eignarhlutar, hvor á sinni hæð og árið 1946 rak Björgvin Friðriksson klæðskerastofu á neðri hæð hússins. Þremur árum síðar auglýsir Jóhann Franklín neðri hæðina til sölu, en hann bjó hins vegar þarna ásamt fjölskyldu sinni til dánardægurs árið 1978.  Eiginkona Jóhanns, María Jóhannesdóttir Franklín náði 102 ára aldri, lést 2016. Ýmsir hafa búið í húsinu um lengri eða skemmri tíma þessi rúmu 70 ár sem það hefur staðið. Húsið hefur verið tvíbýli mest alla tíð, íbúðirnar á efri og neðri hæð. Árið 1995 var byggt við húsið til norðurs og byggður bílskúr á lóðinni en að öðru leyti er húsið óbreytt frá upphafi. Á lóðarmörkum er steypt girðing með járnavirki, sem er einmitt í stíl við handrið á útitröppum og svölum. Húsið hlýtur varðveislugildi 1 í Húsakönnun 2015, og viðbygging sögð fara húsinu vel. Að byggja við hús svo haganlega falli að upprunalegu húsi, líkt og í tilfelli Holtagötu 10 er ákveðin list. Lóð er einnig vel gróin og í góðri hirðu, sunnan við húsið er um 10 metra hátt stæðilegt grenitré, sem höfundur giskar á að sé blágreni. Myndin er tekin þann 9. október 2018.

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 894, þ. 29. des. 1941. Fundur nr. 1012, 27. apríl 1945. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Holtagata 9

Í marsbyrjun 1939 var Holtagatan að mestu leyti óbyggð, ePA090828n þá stóðu aðeins hús nr. 1 og 2 við hana, hvor tveggja tiltölulega nýreist. En þá fékk Guðmundur Ólafsson úthlutað tveimur ystu lóðum við götuna vestanverða, þ.e. nr. 9 og 11. Hann fékk síðan byggingarleyfi 30. maí um vorið fyrir húsum við báðar lóðirnar. Húsin teiknaði sonur Guðmundar, Stefán Reykjalín. Mögulega hefur hann fengið lóðirnar og tekið að sér að reisa hús í einhvers konar verktöku en nokkrum mánuðum síðar afsalar hann sér báðum lóðunum, ásamt byggingarleyfum til annarra. En það var semsagt þann 18. september 1939 sem Guðmundur yfirfærði lóð og væntanlegt hús á nafn Hjartar Gíslasonar. Húsið sem byggja skyldi á Holtagötu 9 var byggt úr steini, ein hæð með „höllu“ þaki og þak úr timbri, járnklætt. Stærð að grunnfleti 10,45x5,90m og útskot að stærð 1,6x4,0m.

 Þannig að Hjörtur Gíslason hefur væntanlega byggt húsið eða a.m.k. lokið við byggingu þess. Hjörtur, sem var frá Bolungarvík og kona hans Lilja Sigurðardóttur frá Steiná í Svartárdal og börn þeirra bjuggu hér um nokkurra ára skeið en fluttust síðar í Þórunnarstræti. Hann starfaði sem rútubílstjóri, hjá KEA og hjá Flugfélagi Íslands en er líklega þekktastur sem rithöfundur. Þekktustu verk hans eru líklega barnabækur hans um Salómon svarta sem út komu 1960 og 1961 (Salómon svarti og Bjartur), sem löngu eru orðnar sígildar. Margir hafa átt og búið í húsinu gegn um tíðina, og hefur það alla tíð verið einbýlishús. Ýmsar og margvíslegar breytingar hafa verið gerðar á Holtagötu gegn um tíðina, rishæð var byggð 1981 og bílskúr fjórum árum síðar, hvort tveggja eftir teikningum Bjarna Reykjalín. Síðar var risi breytt, eftir teikningum Grétars Ólafssonar. Um 2000 var byggður sólskáli við, einnig eftir teikningum Bjarna Reykjalín.

Holtagata 9 er einlyft steinsteypuhús með háu portbyggðu risi. Portbyggt ris er hugtak sem ekki hefur sést lengi á þessari síðu, og kannski rétt að rifja upp merkingu þess. En portbyggt merkir einfaldlega að gólfflötur rishæðar stendur lægra en mót veggja og þaks.  Stór gaflkvistur eða burst er á suðurhlið hússins og þríhyrndur kvistur á bakhlið (sólskáli) til vesturs.  Áfastur bílskúr er á suðurhlið og svalir ofan á honum. Í gluggum eru einfaldir lóðréttir póstar. Neðri hæð hússins er klædd svokölluðum steníplötum en neðri hluti rishæðar (port) timburklæddur og bárujárn á þaki. Húsið er sem áður segir mikið breytt frá upphafi og segir í Húsakönnun 2015 að það „Húsið ber ekki lengur nein ummerki funkisstíls“. (Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta 2015:132). Engu að síður er húsið stórbrotið og hefur svo sannarlega sín sérkenni. Þrjú nyrstu húsin við Holtagötuna vestanverða, sem öll eru eftir Stefán Reykjalín eiga þessa sameiginlegu breytingasögu, þ.e. í upphafi funkishús með flötum eða lágum þökum og fengu seinna meir risþök. En þetta stórbrotna hús er í mjög góðri hirðu og lítur vel út, og sama máli gegnir um lóðina. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 9. okt. 2018

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 830 þ. 3. mars 1939. Fundur nr. 835, 30. maí 1939. Fundur nr. 842, 18. sept. 1939. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Holtagata 8

Árið 1942, nánar til tekið þann 30. apríl fékk Guðmundur PA090826Ólafsson lóð og byggingarleyfi á Holtagötu 8. Byggingarleyfið hljóðaði upp á hús að stærð 9,45x7,30m auk útskots að vestan 1,4x3,8m. Byggt úr steinsteypu og kjallaraloft úr járnbentri steinsteypu, húsið með skúrþaki úr timbri. Byggingarnefnd vildi frekar valmaþak en skúrþak. Síðar á árinu 1942, eða 18. september fær Gísli Ólafsson hins vegar lóðina en ekkert er tekið fram í bókunum Byggingarnefndar hvort byggingarréttindi eða húsið, sem þá var væntanlega í byggingu fylgi með. Teikningarnar að húsinu gerði Stefán Reykjalín.

Holtagata 8 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með háu risi og miðjukvisti. Rishæðin er úr timbri, byggð ofan á húsið um miðjan 10. áratug 20. aldar. Gluggar eru flestir með einföldum lóðréttum póstum með opnanlegum þverfögum, bárujárn er á þaki og steining á veggjum en ris er klætt láréttri timburklæðningu.

Gísli Ólafsson mun hafa átt húsið hálfan annan áratug en árið 1959 selur hann eigninni þeim Kristjáni Albertssyni og Einari Gunnlaugsson, svo sem fram kemur í Viðskiptatíðindum fyrir Akureyri og Eyjafjarðarsýslu.  Ef heimilisfanginu „Holtagötu 8“ er flett upp á timarit.is, birtast 33 niðurstöður.  Sú elsta sem gagnagrunnurinn finnur er frá Oddi Kristjánssyni, sem þarna er búsettur, en hann auglýsir til sölu galvaniserað bárujárn í desember 1945.  Margir hafa átt húsið og búið þarna í gegn um tíðina. Árið 1996 var byggð á húsið rishæð eftir teikningum Bjarna Reykjalín og fékk húsið þá það útlit sem það hefur æ síðan. Hefur húsið þannig hlotið gagngerar endurbætur og eina hæð í „kaupbæti“ fyrir rúmum tveimur áratugum. Þessi samsetning er óneitanlega áhugaverð, funkishús með steiningu að neðan en timburhús að ofan og setur húsið þannig skemmtilegan svip á götumyndina. Húsið er fyrir vikið nokkuð hærra en nærliggjandi hús. Þó nokkur hús við Holtagötu eiga þessa breytingasögu þ.e. funkishús með lágum eða flötum þökum sem síðar fengu há risþök og aðra hæð fyrir vikið. Húsið er í mjög góðri hirðu og sama er að segja um lóðina, en við mörk hennar mun upprunaleg girðing með steyptum stöplum. Tvær íbúðir eru í húsinu. Myndin er tekin þann 9. Október 2018.

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 895, þ. 19. sept. 1941. Fundur nr. 907, þ. 30. apríl 1942. Fundur nr. 942, 18. sept 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • IMG_3045
  • P6171046
  • P6171045
  • IMG 3018
  • IMG 3024a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 36
  • Sl. viku: 235
  • Frá upphafi: 446777

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 162
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband