Hús dagsins: Munkaþverárstræti 17

 

Munkaþverárstræti 17 reisti Snorri Pálsson múrarameistari árið 1937. P2180721Hann fékk um vorið það ár leyfi til að reisa hús á leigulóð sinni við Munkaþverárstræti, 8x10m ein hæð á kjallara. Húsið yrði byggt úr r-steini en kjallari og burðarveggir úr steinsteypu. Teikningarnar, sem ekki eru aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu, gerði Þórður S. Aðalsteinsson. Árið 1953 var byggt við húsið til suðurs, álma sem snýr A-V og er lengri en upprunalegi hluti hússins. Þá var þakkanti einnig breytt ásamt ýmsu smálegu s.s. gluggapóstum, en hönnuður þeirra breytinga var Mikael Jóhannesson. Árið 1987 var einnig byggður bílskúr, sambyggður viðbyggingu frá 1953 og er þak hans gólf svala eða sólpalls sunnanvert við húsið. Bílskúrinn, sem stendur við götu framan við SA horn hússins teiknaði Einar Jóhannesson Fékk húsið þá það lag sem það síðan hefur.

En Munkaþverárstræti er einlyft steinsteypuhús í Funkisstíl, með flötu dúk- eða pappaklæddu þaki og háum þakkanti úr timbri. Gluggapóstar eru einfaldir með lóðréttum fögum. Inngöngudyr er á litlu bíslagi á norðurhlið og steyptar tröppur upp að því. Heimildir fyrir byggingarári hússins eru nokkuð áreiðanlegar, bókanir Bygginganefndar og Húsakönnun 2015. Hins vegar er það svo, að elsta heimildin sem timarit.is finnur um Munkaþverárstræti 17 er frá nóvember 1935, þar sem Robert nokkur Abraham auglýsir kennslu í píanóleik á því heimilisfangi. Hugsanlegt er, að þarna sé einfaldlega um að ræða prentvillu. Á fimmta áratugnum kemur Jón Baldvinsson, búsettur hér, nokkuð oft fyrir í auglýsingum blaða, en hann auglýsti m.a. eftir starfsfólki fyrir síldarsöltun á Siglufirði.

Munkaþverárstræti er skemmtilegt og vel við haldið funkishús. Lóðin er einnig vel gróin og þar eru nokkur stæðileg grenitré. Myndin er tekin þann 18.feb 2018.

Heimildir

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41 Fundur nr. 796, 7.maí 1937. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Gleðilegt sumar

Óska öllum gleðilegs sumars með þökk fyrir veturinn cool

P4190734

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér má sjá skáta ganga fylktu liði niður Kaupangsstræti á leið í skátamessu í Akureyrarkikju  kl. 11 í morgun.

 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 18

Það var sannarlega kominn tími á nýjan Húsapistil, sýnist sá síðasti hafa birst 19.mars. En ég á nóg af húsamyndum á "lager" og nóg að skrifa. Þann 18.febrúar sl. ljósmyndaði ég allan norðurhluta Munkaþverárstrætis og hér er eitt þeirra húsa: P2180719

Munkaþverárstræti er norðan megin á horni Krabbastígs og Munkaþverárstrætis. En árið 1937 fékk Þorvaldur Jónsson leyfi til að reisa hús, eina hæð á kjallara með valmaþaki að stærð 11,20x8m á leigulóð sinni við Munkaþverárstræti 18. Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson. Munkaþverárstræti 18 er einlyft steinhús í funkisstíl, á háum kjallara með valmaþaki og forstofubyggingu á norðurhlið, og svölum til suðurs. Þakdúkur er á þaki en krosspóstar með breiðum miðfögum í gluggum.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús líklega tvíbýlt frá upphafi en alla vega eru nú tvær íbúðir, hvor á sinni hæð. Ekki er að sjá heimildir um stórfelldan verslunarrekstur eða aðra starfsemi í húsinu, sé heimilisfanginu flett upp á timarit.is. Munkaþverárstræti er syðst langrar funkishúsaraðar við Munkaþverárstrætið en við mót götunnar og Krabbastígs/Bjarkarstígs verða nokkurs konar vatnaskil í götumyndinni, þar sem funkis tekur við af steinsteypuklassík. Nyrðri hluti götunnar er að mestu byggður örlítið síðar, eða eftir 1935-37, en gatan sunnan Krabbastígs að mestu byggð 1930-34. Munkaþverárstræti 18 er snyrtilegt og vel hirt hús og virðist í góðu standi og sömu sögu er að segja af lóðinni. Húsið er að mestu óbreytt frá upphafi en 1967 voru svalir byggðar á húsið eftir teikningum Jóns Geirs Ágústssonar,en hann teiknaði einnig bílskúr sem byggður var á lóðinni 1970. Myndin er tekin þann 18.febrúar 2018.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 801, 9.júlí 1937.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 


Kærar þakkir Guðni Már

Allt hefur sinn tíma segir einhvers staðar, og það á að sjálfsögðu líka við um góða- eða öllu heldur framúrskarandi frábæra- útvarpsþætti á borð við Næturvaktina með Guðna Má Henningssyni. Það skal þó tekið fram, að ég efast ekki hætishót um að eftirmaður hans á Næturvaktinni komi til með að standa sig frábærlega.

Það vill svo til, að tónlistarval Næturvaktarinnar hefur fallið einstaklega vel að mínum tónlistarsmekk og oft um að ræða tónlist sem maður heyrir sjaldan annars staðar á öldum ljósvakans. Svo ég nefni dæmi, það líða oft margir dagar- ef ekki vikur- milli þess að maður heyri Led Zeppelin eða Uriah Heep lög í útvarpi. Í þætti gærkvöldsins spilaði Guðni a.m.k. tvö lög með hvorri sveit í 5 klst. þætti. Þetta er ekkert einsdæmi. Þá hefur maður h.u.b. getað gengið að þvi vísu, að Guðni spili meistara Bjartmar Guðlaugsson í hverjum þætti. El Paso Marty Robbins spilaði hann reglulega sem og  My friend the wind Demis Roussos  hvort tveggja dæmi um perlur sem heyrðust reglulega hjá Guðna en eru afar sjaldheyrðar annars staðar. Og allir "meistararnir",  íslenskir sem erlendir sem of langt mál væri að telja upp. Tónlistarvalið var ekki ósvipað því sem gerðist í Hvítum Mávum Gests Einars Jónassonar, sællar minningar. Það er hins vegar ekki svo, tónlist á borð við framangreinda, sem ég kalla oft einu nafni "Gömlu góðu" heyrist ALDREI í útvarpi annars, ég nefni sem dæmi góðan þátt KK á Rás 1; Á Reki á laugardagsmorgnum auk þess sem margir dagskrárgerðarmenn Á Rás 2 og Bylgju lauma stundum perlum á "fóninn". Á Næturvaktinni er Guðni Már skemmtilega afslappaður og mikil þekking og alúð fyrir viðfangsefninu skín í gegn um viðtækið. Þá hefur  alltaf verið skemmtilegt að heyra spjall hans við þá sem hringja inn, margir sem hringja reglulega og spjalla oft heillengi um daginn og veginn, þetta verður svona notalegt kaffispjall í beinni. Sjálfur gerðist ég reyndar aldrei svo frægur að hringja inn, lét nægja að hlusta.

 Og fyrst minnst er á notalegt spjall skal að sjálfsögðu nefnt Auglitið, sem var á dagskrá á sunnudögum til hausts 2014. Þar var svipað uppi á teningnum hvað tónlistarval varðaði en það sem oft var mest spennandi var þegar fasti, ákveðni trommutaktur Fun Boy Three & Bananarama lagsins It ain´t what you do it´s the way you are doing it tók að hljóma. Það þýddi, að Keli Vert var mættur í hús. Spjall þeirra tveggja gat orðið algjörlega óborganlegt, í senn fræðandi og stórfyndið. Lögðu þeir upp með að tala um mat og matargerð en spjallið fór oftar en ekki út um víðan völl og þá byrjaði gamanið. Minnisstæðast er e.t.v. þegar sú hugmynd fæddist í beinni útsendingu að steypa páskaegg úr Prins Póló, eða þegar þeir blésu óvænt til bjúgnahátíðar, sem mér skilst að sé orðin árviss viðburður á hótelinu sem Keli rekur á Snæfellsnesi.

Það ber e.t.v. vott um sjálfhverfu að koma þessu að, en það rétt að geta þess, að fjölmargir húsapistlarnir hér á þessari síðu eru skrifaðir á laugardagskvöldum undir ljúfum tónum og spjalli Næturvaktarinnar - pistlar frá 2013-14 margir hverjir á sunnudögum undir Auglitinu. Sem dæmi má nefna, allar greinar hér frá útmánuðum 2015 um Ægisgötu og Ránargötu á Oddeyrinni. Þá tamdi ég mér beinlínis þá venju, að skrifa á laugardagskvöldum meðan ég hlustaði á Næturvaktina.

Síðasta lagið sem Guðni spilaði á Næturvaktinni í gærkvöld var Hawaíski söngurinn Aloha- Oe í flutningi Johnny Cash. Einstaklega vel valið loka- lokalag.

Þakka Guðna Má Henningssyni kærlega fyrir góða skemmtun og ljúfa tóna öll þessi ár og óska honum góðs gengis og alls hins besta á nýjum slóðum. laughingcool


mbl.is Hefur bara hafnað Händel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2018
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 54
  • Sl. viku: 301
  • Frá upphafi: 420176

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 215
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband