Hús við Fjólugötu

Fjólugata er gata á Oddeyrinni, liggur í A-V á milli Glerárgötu og Norðurgötu. Við hana standa hús, byggð á 4. og 5.áratug 20.aldar. Eldri húsin við götuna, 1-10, tók ég fyrir sumarið 2015 en hús 11-20 hef ég tekið fyrir á síðustu vikum.

Fjólugata 1 (1933) birt 4.ágúst 2015

Fjólugata 2 (1932) birt 8.ágúst 2015

Fjólugata 3 (1933)birt 11.ágúst 2015

Fjólugata 4 (1932)birt 14.ágúst 2015

Fjólugata 5 (1933) birt 15.ágúst 2015

Fjólugata 6 (1933) birt 18.ágúst 2015

Fjólugata 7 (1934)birt 22.ágúst 2015

Fjólugata 8 (1933) birt 23.ágúst 2015

Fjólugata 9 (1934) birt 25.ágúst 2015

Fjólugata 10 (1933) birt 29.ágúst 2015

Fjólugata 11 (1938) birt 11.jan 2018

Fjólugata 12 (1945) birt 12.feb 2018

Fjólugata 13 (1938) birt 23.jan 2018

Fjólugata 14 (1944) birt 22.feb 2018

Fjólugata 15 (1938) birt 4.feb 2018

Fjólugata 16 (1941) birt 2.mars 2018

Fjólugata 18 (1943) birt 7.mars 2018

Fjólugata 20 (1943) birt 19.mars 2018

Meðalaldur húsa við Fjólugötu árið 2018 er 81,3 ár.

 


Hús dagsins: Fjólugata 20

Árið 1942 fengu þeir Sigurður Björnsson og Stefán Þórarinsson hornlóð Fjólugötu og Hörgárbrautar (síðar Glerárgötu) P3030714og fengu þeir að byggja þar steinsteypt hús með steinlofti og steinþaki, grunnflötur ferningslaga, 8,3m á kant auk útskots að vestan, 1x4m. Teikningar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson. Áratug eftir byggingu hússins, þ.e. árið 1953 var byggt við húsið að austanverðu og til norðurs og líkast til hefur valmaþak verið byggt á húsið við sama tækifæri, en upprunalega var þak hússins flatt. Þær teikningar eru undirritaðar af Sigurði Björnssyni. En Fjólugata 20 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki og á lágum grunni. Bárujárn er á þaki en einfaldir, lóðréttir póstar í gluggum, og horngluggar í anda Funkis – stefnunnar á SV-horni. Svalir eru til vesturs á viðbyggingu en til suðvesturs í kverkinni á milli álma.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús en um tíma var starfrækt þarna húsgagnasmíðaverkstæði, Húsgagnavinnustofa Stefáns Þórarinssonar; sbr. þessa auglýsingu frá 1955. Kannski einhverjir lesendur sem muna eftir þessu verkstæði og húsgögnum þaðan- og eflaust leynast húsgögn frá Stefáni Þórarinssyni í stofum eða geymslum hér og þar. Fjólugata 20 er traustlegt hús og í góðri hirðu. Það stendur á horni Fjólugötu og fjölförnustu götu Akureyrar- þjóðvegar 1 raunar og hélt ég raunar lengi vel, að þetta hús stæði við Glerárgötu. Lóðin er stór og vel gróin ogP3030715 ber þar mikið á stórri Alaskaösp. Myndirnar eru teknar þann 3.mars sl. en öspin nýtur sín auðvitað betur í sumarskrúða en á þessari mynd.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundagerðir 1941-48. Fundur nr. 922, 28.ágúst. 1942. Fundur nr. 925, 11.sept. 1942. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 


Hús dagsins: Fjólugata 18

 

 

Árið 1943 fékk Valtýr Þorsteinsson útgerðarmaður frá Rauðuvík á Árskógsströnd leyfi til að reisa hús á leigulóð sinni við Fjólugötu. P1070727Lóðina hafði hann fengið haustinu áður, var hún sögð næst sunnan við hús Gunnars Jónssonar, þ.e. Fjólugata 16. Valtýr fékk leyfi til að reisa hús samkvæmt framlagðri teikningu, sem undirrituð er af honum sjálfum. Húsið yrði tvær hæðir með flötu þaki, gólf og veggir úr steinsteypu og stærð 13x5,3 + 10x4,2m. Húsið er þannig byggt í tveimur álmum, sú fremri (syðri) styttri og í kverkum milli álma eru annars vegar svalir til suðvesturs og inngöngudyr í suðaustri.Valtýr Þorsteinsson var umsvifamikill útgerðarmaður og mun hafa starfrækt skrifstofur og framkvæmdastjórn fyrirtækis síns héðan um tíma. Hann stundaði einnig síldarsöltun, ásamt Hreiðari syni sínum setti hann á stofn Norðursíld á Raufarhöfn 1950. Hann byggði vélbátinn Gylfa EA 628 árið 1939 en hafði áður stundað veiðar á opnum bátum en Valtýr Þorsteinsson hf gerði út mörg fengsæl fiskiskip gegn um tíðina, m.a. Þórð Jónasson.

Húsin 16 og 18 við Fjólugötu voru í upphafi ekki óáþekk, nokkuð dæmigerð funkis-hús með flötum þökum. En síðar fékk nr. 16 valmaþak en á Fjólugötu 18 var þriðja hæðin byggð ofan á. Árið 1958 byggt var e.k. upphækkað valmaþak, eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar. Þriðja hæðin er þannig nokkurs konar millistig þakhæðar og fullgerðar hæðar, en en nokkur dæmi eru um svona viðbætur á hús hér í bæ; t.d. Munkaþverárstræti 12, sem ég hef ég tekið fyrir á þessum vef. Þessi þakgerð er nokkuð sérstæð, e.k. mansard valmaþaki. Mansardþök eru að því leytinu til sniðug, að undir þeim nýtist gólfflötur mikið betur heldur en undir hefðbundnum ris – og valmaþökum. Á sama tíma var byggt við húsið, álma með lágu þaki að norðan og vestan og þar var þvottahús, eitt fyrir hvora hæð, auk miðstöðvarrýmis í kjallara. Árið 2006 skemmdust efri hæðir hússins í bruna en voru í kjölfarið voru þær endurnýjaðar frá grunni.

Fjólugata 18 er þrílyft steinshús með lágu valmaþaki (telja má þakhæð sem fullgilda hæð). Járn er á þaki en gluggapóstar 1. og 2. hæðar flestir þrískiptir lóðrétt með opnanlegu þverfagi í miðju en á þriðju hæð eru gluggar póstalausur með lóðréttu opnanlegu fagi, rúðulausum. Horngluggar til suðvesturs og svalir á þeim hornum, í kverkum milli fram og bakálmu. Húsið er í mjög góðri hirðu og lítur vel út. Þakhæðin gefur húsinu óneitanlega sérstakan svip. Myndin er tekin þann 7.janúar 2018, fyrir réttum og sléttum tveimur mánuðum þegar þetta er birt.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundagerðir 1941-48. Fundur nr. 924, 4.sept. 1942. Fundur nr. 945, 11.júní 1943. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 


Hús dagsins: Fjólugata 16

Fjólugötu 16 reisti Gunnar Jónsson skipasmiður árið 1941. P1070726Hann fékk þ. 9.maí 1941 leyfi til að byggja hús á leigulóð sinni við Fjólugötu tveggja hæða hús úr steinsteypu, 8,5x9m, tvær hæðir með flötu þaki auk útbygginga til enda, 1,5x4,8m. Ári síðar var honum leyft að byggja við húsið til norðurs, 3,8x3,8m steinsteypta byggingu. Þessi lýsing á að mestu leyti við húsið enn í dag, nema hvað í stað flata þaksins er á húsinu upphækkað valmaþak með háum kanti. Það vill nefnilega svo til, að flöt þök eru ekki sérlega heppileg við íslenskar aðstæður, þó þau reynist mögulega vel t.d. Við Miðjarðarhafið. Því er ekki óalgengt að hús í funkis stíl með flötum þökum hafi verið breytt á þessa leið. Í sumum tilvikum, líkt og í tilfelli næsta húss vestan við, Fjólugötu var byggð hæð ofan á. Teikningar að húsinu hafa varðveist en þær virðast óundirritaðar. Gunnar Jónsson átti húsið til ársins 1955 en þá auglýsir hann húsið til sölu. Í auglýsingunni má sjá, að lóðin er 1136 fermetrar, sem er þó nokkuð víðlent miðað við það sem gengur og gerist á Oddeyrinni. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, með einni íbúð á hvorri hæð. Árið 1988 var húsið stækkað til norðurs, þ.e. byggt við bakbygginguna og á þeim teikningum er einnig gert ráð fyrir utanáliggjandi tröppum á austurhlið.

Fjólugata 16 er sem áður segir, tvílyft steinsteypuhús með járnklæddu valmaþaki. Útskot eru bæði á austur- og vesturhlið, annað þeirra inngönguskúr en á vesturhlið eru svalir við útskot. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum og horngluggar til suðurs og vesturs. Húsið virðist traustlegt og í góðu standi, nokkuð dæmigert fyrir hús frá því um 1940, undir áhrifum funkis-stefnu. Ekki hefur, mér vitanlega, verið unnin húsakönnun fyrir Fjólugötuna og því óvíst um varðveislugildi hússins, en Fjólugatan öll er einstaklega smekkleg og snotur gata. Myndin er tekin 7.janúar 2018.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1941-48. Fundur nr. 874, 9.maí 1941. Fundur nr. 911, 22.maí 1942. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2018
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 54
  • Sl. viku: 290
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 204
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband