Færsluflokkur: Bloggar

Hús dagsins: Munkaþverárstræti 31

Munkaþverárstræti 31 mun byggt 1942. En sumarið 1941 P2180733fékk Jósef Sigurðsson leyfi til að reisa íbúðarhús á leigulóð sinni á Munkaþverárstræti 31, ein hæð og kjallari undir fjórðungi hússins, byggt úr steinsteypu en útveggir úr r-steini og húsið með flötu þaki. Grunnflötur hússins 10,7x9,75m ásamt útskoti á NA horni, 4,85x1,4m og útbygging á norðurhlið, 2x2,3. Teikningar hafa líklega ekki varðveist en þær gerði Adam K. sbr. Húsakönnun 2015. Árið 1947 var bílskúr byggður á lóðinni en hann teiknaði A.M. Þar gæti mögulega verið um að ræða annan Adam, Magnússon, trésmíðameistara sem reisti m.a. hús við Munkaþverárstræti 8 og síðar Bjarkarstíg. Hugsanlegt er einnig, að fangamarkið sé Á.M. en  Ásgeir Markússon hét sá sem teiknaði járnabindinguna í bílskúrinn. Eru þetta aðeins getgátur höfundar.

En Munkaþverárstræti 31 er einlyft steinsteypuhús í funkisstíl með flötu þaki á lágum grunni en bakálma hússins er með aflíðandi einhalla þaki. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum en víður „stofugluggi“ á bakbyggingu. Norðurálma hússins skagar eilítið fram úr þeirri syðri og í kverkinni á milli eru inngöngudyr. Viðbygging að vestanverðu (bakatil) er byggð 1962 eftir teikningum Jóns Geirs Ágústssonar.   Jósef Sigurðsson, sá er byggði átti það ekki í mörg ár því í júní 1946 auglýsir hann húsið til sölu. Þá eignaðist húsið Jón Sigurðsson, myndasmiður en hann stóð fyrir byggingu bílskúrsins, en hann seldi húsið 1956. Síðan hafa ýmsir átt húsið og búið hér, en öllum hefur eigendum og íbúum auðnast að halda húsinu vel við. Það er a.m.k. í mjög góðri hirðu nú árið 2018. Húsið er einfalt og látlaust en stórglæsilegt engu að síður, dæmigert funkishús, og telst hluti varðveisluverðar heildar við Munkaþverárstrætið skv. Húsakönnun 2015. Lóðin er römmuð inn götumegin  með steyptum vegg með járnavirki sem að öllum líkindum er frá 1947 líkt og bílskúrinn ( er a.m.k. á sömu teikningum). Lóðin er  vel hirt og gróin með gróskumiklum reynitrjám. Meðfylgjandi mynd er hins vegar tekin þann 18. febrúar [2018], þ.a. eðlilega voru þau ekki gróskumikil þá. Ein íbúð er í húsinu.  

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41, fundur nr. 878, 4. júlí 1941.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Norðurbrekkan

Eins og ég hef minnst á oftar en einu sinni, og töluvert oftar en tvisvar, hyggst ég komaP7030782 skrifum um hús á neðri hluta Ytribrekku út á bók. Eða öllu heldur reyna það. Síðustu tvo mánuði hefur söfnun verið í gangi á Karolina Fund fyrir prentun bókarinnar, en ég stend sjálfur að útgáfu og dreifingu. Alltént miðast þessi tilraun við það fyrirkomulag.

Nú eru aðeins tvær vikur eftir af söfnuninni og enn vantar mikið upp á að takmarkið náist. Því er um að gera, að sem flestir leggi sitt af mörkum á söfnunarsíðunni. 

Þetta tekur aðeins nokkrar mínútur og eitt eintak kostar 35 evrur (ca. 4200kr). Svo getur þú valið aukaefni.

Fyrirkomulagið á Karolina Fund kann að vefjast fyrir einhverjum en ef smellt er á þessa slóð á þetta að ganga svona fyrir sig:

Hægra megin á síðunni velur þú hvaða útfærslu þú vilt. Frjáls framlög, eitt eintak, eintak með aukaefni o.s.frv. 

Því næst fyllir þú út vinstra megin á síðunni:

Efst hakar þú við að þú hafir ekki skráð þig áður, ef þetta er í fyrsta sinn sem þú tekur þarna þátt.

Nafn

Netfang

Lykilorð (eitthvað sem þú býrð til sjálf/ur)

Samþykkja notendaskilmála (User agreement)

og velur Leggja í púkk.

Þetta er framkvæmt gegn um kreditkort svo næst ætti að birtast möguleikinn á að gefa þau númer upp.

Ef þetta gengur upp, á ég að fá póst og fljótlega færð þú þakkarpóst frá mér.

Þakka öllum sem styrkt hafa verkefnið nú þegar laughing

 

 

 

 

 

 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 30

Munkaþverárstræti 30 reisti Ingólfur Bjargmundsson rafmagnsverkfræðingur árið 1942 P2180729 en það var á fundi Bygginganefndar Akureyri þann 19. September 1941 sem honum var heimiluð bygging. Húsið skyldi byggt skv. „meðfylgjandi teikningu“  steinsteypt með járnklæddu valmaþaki úr timbri, 12x8,5m að stærð þ.e. um 100 fermetrar að grunnfleti.  Umrædda teikningu gerði Friðjón Axfjörð, en hún er ekki aðgengileg á Landupplýsingakerfinu, hefur e.t.v. ekki varðveist.

En Munkaþverárstræti 30 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með valmaþaki, með hornglugga í anda Fúnkís-stefnunnar til suðvesturs. Einfaldir, lóðréttir póstar eru í gluggum en bárujárn er á þaki en veggir eru klæddir steiningu, sem sumir kalla skeljasand. Árið 1981 var húsinu breytt lítillega þ.e. gluggum og þakbrún en ekki mun hafa verið byggt við húsið. Teikningar af þeim breytingum gerði Haukur Haraldsson.

Ingólfur Bjargmundsson, sá er byggði húsið mun ekki hafa búið þarna í mörg ár en húsið var auglýst til sölu í mars 1945 . Þá hafa feðgarnir Haraldur Þorvaldsson verkamaður og Valdimar sonur, síðar forstjóri Pylsugerðar KEA, líklega flust þangað ásamt fjölskyldum sínum. Haraldur var áður bóndi  fyrst á Eyvindarstöðum í Sölvadal, sem er um 40 km framan Akureyrar og síðar á Kífsá í Kræklingahlíð, neðan Hlíðarfjalls. Alla tíð hefur húsið verið íbúðarhús og nú eru tvær íbúðir í húsinu. Það er í góðu standi og lítur vel og hefur skv. Húsakönnun 2015 varðveislugildi sem hluti samstæðra funkishúsa.  Myndin er tekin 18. feb. 2018.

P6190768

 Hér má sjá Kífsá, en þar var Haraldur Þorvaldsson, lengi búsettur í Munkaþverárstræti 30, bóndi á árunum kringum 1920. Aðeins hluti íbúðarhúss er enn uppistandandi, en bærinn fór í eyði 1961.  Kífsá er ofarlega í Kræklingahlíð, u.þ.b. kílómetra norðan við Lögmannshlíð og töluvert ofar í hlíðinni. Ofar má sjá nafnlausan foss sem mun einn sá hæsti í Eyjafjarðarsýslu, um 30-40m. Myndin er tekin af Lögmannshlíðarvegi (sem á kortavef ja.is er kallast einfaldlega Lögmannshlíðin) á góðviðrisdegi, 20. júní 2018.

 

 

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41, fundur nr. 885, 19. sept 1941.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 28

Munkaþverárstræti 28 byggði Henning Kondrup árið 1944, og var byggingaleyfi hans afgreitt fjórum dögum fyrir stofnun Lýðveldisins Íslands á Þingvöllum.P2180730 En það var þann 13. júní 1944 sem Henning var heimilað að reisa íbúðarhús úr steinsteypu, eina hæð á kjallara með lágu risi, neðri hæðin steinsteypt með steinlofti en efri hæð hlaðin úr r-steini. Teikningar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson. Enda þótt byggingaleyfi segði fyrir um lágt ris varð raunin sú að þak hússins var flatt, alltént segir í Húsakönnun 2015 að húsið hafi síðar fengið valmaþak. En á upprunalegum teikningum er gert ráð fyrir slíku þaki.

Munkaþverárstræti 28 er steinsteypuhús, einlyft með lágu valmaþaki og á háum kjallara. Bárujárn er á þaki og veggir múrsléttaðir. Á hæð eru svalir til suðurs. Inngöngudyr eru að norðvestanverðu og eru tröppur að þeim yfirbyggðar, þ.e. þakið  slúttir yfir. Á norðurhlið eru gluggar með margskiptum póstar, þar af er annar við útitröppur. Annars eru  einfaldir lóðréttir póstar í gluggum hússins. Húsið er í góðri hirðu og lítur vel út og mun næsta lítið breytt frá upphafi, og er í húsakönnun 2015 sagt hluti raðar samstæðra funkishúsa, og telst þannig með 1. stigs varðveislugildi. Myndin er tekin þ. 18. feb. 2018

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41.  Fundur nr. 979, 13. júní 1944.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Norðurbrekkan milli Gils og klappa

Eins og gestum þessarar síðu mun vera kunnugt um, stendur yfir tilraun hjá mér til að gerast rithöfundur. Hyggst ég gefa út hluta skrifa sem komið hafa fram á þessum vef á bók og er handritið tilbúið. Útgáfa þessarar bókar er þó algjörlega háð því, að söfnun takist á Karolina Fund. Hér er hægt að tryggja sér eintak af bókinni með því að fylla út reitina til vinstri en hægra megin á síðu er hægt að velja útfærslu. Þið getið m.a. keypt eitt eintak, fengið nafn á þakkarlista fyrir aukaþóknun, fengið handskrifaðan aukafróðleik, fengið 2 eintök og annað með afslætti svo dæmi séu tekin. Eintakið kostar 30 evrur eða um 4200 krónur. Um að gera að hvetja áhugasama að taka þátt í þessu og minni ég á að fari svo að söfnun takist ekki, er styrkurinn endurgreiddur. 

Í liðinni viku fékk ég í hendur nk. "prufueintak" af fyrirhugaðri bók Er nokkuð ánægður með útkomuna þó ekki sé hún gallalaus. Enn eru ýmsar ásláttarvillur sem þarf að laga og ýmislegt þess háttar. Ljóst er, að ég þarf að endurljósmynda fjölda húsa vegna slælegra gæða, en það höfðu þeir hjá prentsmiðjunni bent mér á. Líklega kemur það til af því, að ég asnaðist til að skera af upprunalegum myndum og rétta þær af, án þess að gæta að upplausninni. En til þess er nú þessi prufa, sjá hvað betur má fara hvað varðar bæði texta og myndir: Ekki kemur til greina að bjóða kaupendum bókar upp á eitthvert hrafnaspark ! En svona kemur bókin til með að líta út:

P7030782

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P7030780

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P7030781

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nú er tæpur mánuður til stefnu til að tryggja það að bókin komi út, og aðeins hafa safnast 16 %. Þannig að nú þarf að láta þetta berast ! 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 27

Munkaþverárstræti 27 byggði Ásgrímur Garibaldason árið 1940. P2180728Hann fékk haustið 1938 leyfi til að byggja íbúðarhús við Munkaþverárstræti, ein hæð með lágu valmaþaki og kjallari undir hálfu húsinu. Teikningarnar að húsinu gerði Stefán Reykjalín. Munkaþverárstræti 27 er steinsteypuhús, ein hæð á háum kjallara með lágu valmaþaki og bogadregnu útskoti til suðurs.  

Þar er um að ræða viðbyggingu frá 1983, eftir teikningum Hauks Haraldssonar. Bárujárn er á þaki og veggir múrhúðaðir og einfaldir póstar í gluggum, flestir með lóðréttum póstum með opnanlegum þverfögum. Á norðanverðri lóð, við götu stendur steinsteyptur bílskúr, byggður 1983, einnig eftir teikningum Hauks Haraldssonar. Hann er skástæður við götu sem nýtir pláss lóðar undir bílastæði ágætlega. Steyptur kantur er við lóðarmörk og bílastæði inn á lóð og steyptar tröppur upp að húsinu við hlið bílskúrs. Líkt og öll húsin við Munkaþverástrætið vestanvert stendur húsið nokkuð hærra en gatan.  Húsið hefur mest alla tíð verið einbýli, herbergi, stofur og eldhús á hæð en í kjallara var m.a. rými sem titlað er „frístundir, geymsla“.  Ásgrímur Garibaldason og eiginkona hans, Þórhildur Jónsdóttir bjuggu hér um áratugaskeið. Nokkrum árum áður en þau fluttu hingað byggðu þau annað hús á Ytri Brekkunni, eða Hamarstíg 3. Munkaþverárstræti 27 er stórbrotið og glæsilegt hús. Bogadregna stigahúsið gefur húsinu einnig sérstakan svip eða einkenni og samspil húss og bílskúr kemur skemmtilega út, þó vitaskuld sé þetta mikil breyting frá upprunalegri mynd svo sem fram kemur í Húsakönnun 2015. En Munkaþverárstræti 27 er glæsilegt hús í góðu standi, hús og lóð til mikillar prýði í götumynd. Myndin er tekin þann 18. febrúar 2018.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41.  Fundur nr. 828, 27. sept. 1938.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 26.

Sniðgata er á meðal stystu og bröttustu gatna Akureyrar. P2180717Tengir hún saman Brekkugötu og Munkaþverárstræti og liggur skáhallt upp og til suðurs, norðvestan og ofan Amtsbókasafnsins. Gatan liggur  á milli húsa nr. 25 og 27 við Brekkugötu og húsa 24 og 26 við Munkaþverárstræti.  En það var einmitt vorið 1936 sem Stefán Randversson frá Ytri – Villingadal í Saurbæjarhreppi, fékk leyfi til að reisa íbúðarhús úr steinsteypu  á horni Munkaþverárstræti og Sniðgötu, byggt úr steinsteypu, ein hæð á háum kjallara. Er þar um að ræða Munkaþverárstræti 26. Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson.

Húsið er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara með lágu valmaþaki og á háum kjallara. Veggir eru múrhúðaðir og bárujárn á þaki en breiðir krosspóstar í gluggum. Á suðurhlið er lítill inngönguskúr eða dyraskýli úr timbri. Húsið er að ytra byrði nánast óbreytt frá upphafi,líklega aðeins að dyraskýlinu á austurhlið undanskildu. Húsið er teiknað sem einbýlishús með eldhús, stofu og herbergjum á hæð en m.a. þvottahús og geymslur í kjallara. Margir hafa búið hér í lengri eða skemmri tíma. Um miðja 20.öldina var hér búsettur P. Chr. Lihn. Hann starfaði sem skógerðarmeistari á Iðunni en var einnig ötull garðyrkjumaður. Hér var sérlega gróskumikill skrúðgarður ásamt gróðurhúsi, þar sem Lihn ræktaði m.a. grasker sbr. þessa mynd hér.

Munkaþverárstræti er snoturt og vel við haldið funkishús. Í Húsakönnun 2015 er það talið hluti af samstæðri heild áþekkra funkishúsi og sagt svo til upprunalegt í útliti. Þá er á lóðarmörkum girðing með járnaverki og steinstöplum. Myndin er tekin sunnudaginn 18. febrúar 2018.

Heimildir

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41.  Fundur nr. 774, 11. maí 1936.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minni að sjálfsögðu á söfnunina á Karolina Fund fyrir prentun fyrirhugaðrar bókar; Norðurbrekkan milli Gils og klappa. Það er raunar þannig, að útgáfan stendur og fellur með þessari söfnun þannig að til mikils er að vinna fyrir áhugasama.


Hús dagsins 9 ára; 9 hús númer 9.

Það var þann 25.júní árið 2009 að ég hóf að birta myndir af eldri húsum á Akureyri ásamt textum. Fyrsta færalan var aðeins 3-4 setningar að mig minnir, enda var ætlunin aðeins sú að birta myndir og örstutt söguágrip. En með árunum fóru eigin kröfur vaxandi. Fyrst um sinn snerist þetta aðeins um að setja inn myndir og skrifa það sem ég mundi en þegar frá leið fór ég að fletta upp í bókum. Um Innbæinn og Oddeyrina (þ.e. elsta hluta hennar) hafa lengi verið til ítarlegar húsakönnunarbækur og svo er það auðvitað Akureyri; Höfuðborg hins bjarta norðurs eftir Steindór Steindórsson. Síðar uppgötvaði ég vef Landupplýsingakerfisins en eftir að Oddeyrinni og Innbænum sleppti var ekki hlaupið að því að komast að því hverjir byggðu húsin. Af einhverjum ástæðum hugkvæmdist mér ekki að sækja Héraðsskjalasafnið fyrr en fyrir fáeinum árum. Trúlega datt mér einfaldlega ekki í hug, að hægt væri að finna þar gögn frá Bygginganefnd o.fl. eða þá að þau væru ekki aðgengileg almenningi. En þessar heimildir eru afar öflugar, að ekki sé minnst á Jónsbók, en þar eru birtar Bygginganefndarupplýsingar fyrir hvert hús sem stóð á Akureyri um 1933-35. Það getur nefnilega verið dálítið "púsluspil" að fletta upp í Bygginganefndarfundargerðum frá 3. og 4. áratug því þar er lóðum og húsum undantekningalítið lýst sem "næsta lóð vestan við Jón Jónsson, þriðja að norðan" við tilteknar götur. Ég hef svosem verið frekar skriflatur upp á síðkastið, sé aðeins horft til þessarar síðu.  En í tilefni þess, að ég hef nú sett inn færslur á þessa síðu í níu ár hyggst ég hér birta tengla á 9 hús númer 9. 

Bjarmastígur 9

Oddagata 9

Fjólugata 9

Ránargata 9

Gilsbakkavegur 9

Munkaþverárstræti 9 

Spítalavegur 9

Lundargata 9

Goðabyggð 7; Silfrastaðir eða Vesturgata 9

 

Ég hef svosem verið frekar skriflatur upp á síðkastið, sé aðeins horft til þessarar síðu. En það kemur til af því, að ég hef fengist við að búa bókarhandrit til prentunar. "Norðurbrekkan milli Gils og klappa" og á hún að ná til neðri hluta Ytri Brekku. Enda þótt handritið liggi að miklu leyti fyrir hér á síðunni er mikil vinna að sníða af vankanta og villur og setja texta upp og myndir o.s.frv. Í sumum tilvikum hefur textinn sem til var fyrir frekar þvælst fyrir. En það er tómt mál að tala eða rita um þessa fyrirhuguðu bók ef ekki næst fjármagn til prentunar. Ég ligg aldeilis ekki á digrum sjóðum og hef enga slíka á bak við mig og treysti því alfarið á hópfjármögnun gegn um Karolina Fund. Hvet auðvitað sem flesta til að heita á, og færi þeim sem þegar hafa stutt við verkefnið mínar bestu þakkir. Minni einnig á, að enginn er rukkaður nema söfnun takist.


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 25

Ég held áfram umfjöllun um Munkaþverárstrætið og hús dagsins í dag, sumarsólstaða, er Munkaþverárstræti 25.

Á fjórða áratugnum var ekki algengt að konur stæðu fyrir húsbyggingum.P2180727 En það var tilfellið með húsin nr. 23 og 25 við Munkaþverárstrætið. Númer 23 byggði Guðrún Hólmgeirsdóttir en Guðríður Aðalsteinsdóttir byggði Munkaþverárstræti 25. Það var í marslok 1937 að Guðríður fékk leyfi til að  byggja íbúðarhús úr steinsteypu með járnklæddu timburþaki, ein hæð á kjallara og með lágu risi, 12,5x9,30. Líklega hefur húsinu þó frekar verið að ætlað að vera með valmaþaki en risi en teikningarnar, sem Tryggvi Jónatansson gerði gera ráð fyrir því.

Munkaþverárstræti 25 er einlyft steinhús á háum kjallara og með valmaþaki. Raunar mætti telja það tvílyft en hér hefur höfundur tilhneigingu til að fara eftir því upprunalegum lýsingum Bygginganefndar. Nema auðvitað húsum hafi verið breytt á annan hátt, sem er ekki tilfellið hér. Bárujárn er á þaki og veggir múrsléttaðir. Einfaldir lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum eru í flestum gluggum. Á suðurhlið er útskot með svölum en inngöngudyr og steyptar tröppur að þeim á norðurhlið. Húsið stendur hátt miðað við götubrún en fremst á lóð við götuna er steyptur bílskúr, byggður árið 1946 eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, og bjó sú er húsið byggði, Guðríður Aðalsteinsdóttir hér ásamt manni sínum Guðmundi Guðlaugsson um langt árabil. Hann var m.a. framkvæmdastjóri Kaffibrennslu Akureyrar. Húsið er frá upphafi einbýli en svo sem tíðkaðist á þeim tíma leigðu þau út herbergi.   Munkaþverárstræti er reisulegt hús og í mjög góðri hirðu og hefur samkvæmt Húsakönnun 2015 varðveislugildi sem hluti hinnar heillegrar raðar funkishúsa við norðanvert Munkaþverárstrætið. Lóðin er einnig til mikillar prýði, vel gróin bæði trjám og skrautgróðri. Myndin er tekin þ. 18. febrúar 2018

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41.  Fundur nr. 793, 31. Mars 1937.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

PS.  ÉG MINNI AÐ SJÁLFSÖGÐU á söfnunina inn á Karolina Fund. Hún stendur til 6.ágúst og mikið vantar upp á til þess að það geti orðið að veruleika, að hluti þessara skrifa komi út á bók.  Þess má líka geta, að ef þessi bók gengur upp er ekkert því til fyrirstöðu að ég komi annarri út; mögulega gæti þetta orðið nokkurra bóka flokkur. Minni á það, að ef söfnun tekst ekki og bókin verður ekki að veruleika er enginn rukkaður. Þetta eru einungis áheit sem koma aðeins til framkvæmda ef söfnun tekst.


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 24

Munkaþverárstræti 24 mun Gísli Sigurjónsson bifreiðarstjóri hafa reist árið 1938, en hann fékk lóð norðan við Bjarna Rósantsson þ.e. Munkaþverárstræti 22.P2180718 Gísli fékk leyfi til að reisa hús á lóðinni, 10x8,4m að stærð, á einni hæð á kjallara og með flötu þaki. Teikningarnar að húsinu, eins og svo mörgum öðrum á Akureyri á þessum tíma gerði Tryggvi Jónatansson. Árið 1999 var byggt á húsið lágt valmaþak eftir teikningum Bjarna Reykjalín en að öðrum leyti mun húsið lítt breytt frá upphafi.

Munkaþverárstræti 24 er einlyft r- steinhús í funkisstíl. Það stendur á háum kjallara og er með bárujárnsklæddu valmaþaki en veggir eru múrsléttaðir. Í gluggum eru lóðréttir póstar með opnanlegum fögum þvert yfir. Horngluggar eru á suðurhlið. Inngöngudyr og steyptar tröppur að götu eru á norðurhlið og svalir til austurs og verönd neðan við þær. Þak slúttir yfir inngöngutröppur og svalir. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, og bjó Gísli Sigurjónsson hér alla sína tíð, en hann lést í ársbyrjun 1987. Eiginkona Gísla, Sigríður Baldvinsson frá Steindyrum í Svarfaðardal gegndi stöðu framkvæmdastjóra Pöntunarfélags Verkalýðsins á fimmta áratugnum. Það var trúlega ekki algengt um og fyrir miðja 20.öld að konur væru forstjórar félaga og samtaka á borð við Pöntunarfélagið. Sigríður var einnig ein af stofnfélögum Húsmæðrafélags Akureyrar, en einnig var hún í stjórn Húsmæðraskólafélagsins sem hafði m.a. veg og vanda af byggingu Húsmæðraskólans við Þórunnarstræti, sem tekinn var í notkun 1945.  Sigríður lést í janúar 1951, langt fyrir aldur fram eða 46 ára.

En Munkaþverárstræti er reisulegt hús og í góðri hirðu, með tiltölulega nýlegu þaki. Það er hluti langrar og heillegrar raðar funkishúsa við Munkaþverárstræti og mun hafa 1.stigs varðveislugildi sem hluti af heild skv. Húsakönnun 2015. Myndin er tekin þ. 18. feb 2018.

P4190714

 

 

 

 

 

 

 

 

Gamli Húsmæðraskólinn að Þórunnarstræti 99 var byggður árin 1942-45 en Sigríður Baldvinsdóttir forstjóri í Munkaþverárstræti 24 var einn stjórnarmeðlima Húsmæðraskólafélags Akureyrar. Í tenglinum í textanum hér að ofan þakkar hún f.h. stjórnarinnar fyrir gjafir til byggingarinnar árið 1943. Húsið hefur hýst ýmsa starfsemi þessi rúmu 70 ár, Skammtímavistun hefur verið á efri hæðum frá 2013 en í maí 2016 voru nýjar höfuðstöðvar Skátafélagsins Klakks vígðar í húsinu. Á þessari mynd eru skátar að búa sig í hátíðarskrúðgöngu á Sumardaginn fyrsta sl. 19.apríl. 

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41Fundur nr.811, 19. Feb 1938. Fundur nr. 814, 2. apríl 1937.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • IMG_3323 - afrit
  • Leifshús
  • Skjámynd 2025-07-29 101559
  • Skanni 20250728 (3)
  • Skanni 20250728 (3)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.8.): 4
  • Sl. sólarhring: 32
  • Sl. viku: 251
  • Frá upphafi: 453685

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 191
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband