Færsluflokkur: Bloggar

Kærar þakkir Guðni Már

Allt hefur sinn tíma segir einhvers staðar, og það á að sjálfsögðu líka við um góða- eða öllu heldur framúrskarandi frábæra- útvarpsþætti á borð við Næturvaktina með Guðna Má Henningssyni. Það skal þó tekið fram, að ég efast ekki hætishót um að eftirmaður hans á Næturvaktinni komi til með að standa sig frábærlega.

Það vill svo til, að tónlistarval Næturvaktarinnar hefur fallið einstaklega vel að mínum tónlistarsmekk og oft um að ræða tónlist sem maður heyrir sjaldan annars staðar á öldum ljósvakans. Svo ég nefni dæmi, það líða oft margir dagar- ef ekki vikur- milli þess að maður heyri Led Zeppelin eða Uriah Heep lög í útvarpi. Í þætti gærkvöldsins spilaði Guðni a.m.k. tvö lög með hvorri sveit í 5 klst. þætti. Þetta er ekkert einsdæmi. Þá hefur maður h.u.b. getað gengið að þvi vísu, að Guðni spili meistara Bjartmar Guðlaugsson í hverjum þætti. El Paso Marty Robbins spilaði hann reglulega sem og  My friend the wind Demis Roussos  hvort tveggja dæmi um perlur sem heyrðust reglulega hjá Guðna en eru afar sjaldheyrðar annars staðar. Og allir "meistararnir",  íslenskir sem erlendir sem of langt mál væri að telja upp. Tónlistarvalið var ekki ósvipað því sem gerðist í Hvítum Mávum Gests Einars Jónassonar, sællar minningar. Það er hins vegar ekki svo, tónlist á borð við framangreinda, sem ég kalla oft einu nafni "Gömlu góðu" heyrist ALDREI í útvarpi annars, ég nefni sem dæmi góðan þátt KK á Rás 1; Á Reki á laugardagsmorgnum auk þess sem margir dagskrárgerðarmenn Á Rás 2 og Bylgju lauma stundum perlum á "fóninn". Á Næturvaktinni er Guðni Már skemmtilega afslappaður og mikil þekking og alúð fyrir viðfangsefninu skín í gegn um viðtækið. Þá hefur  alltaf verið skemmtilegt að heyra spjall hans við þá sem hringja inn, margir sem hringja reglulega og spjalla oft heillengi um daginn og veginn, þetta verður svona notalegt kaffispjall í beinni. Sjálfur gerðist ég reyndar aldrei svo frægur að hringja inn, lét nægja að hlusta.

 Og fyrst minnst er á notalegt spjall skal að sjálfsögðu nefnt Auglitið, sem var á dagskrá á sunnudögum til hausts 2014. Þar var svipað uppi á teningnum hvað tónlistarval varðaði en það sem oft var mest spennandi var þegar fasti, ákveðni trommutaktur Fun Boy Three & Bananarama lagsins It ain´t what you do it´s the way you are doing it tók að hljóma. Það þýddi, að Keli Vert var mættur í hús. Spjall þeirra tveggja gat orðið algjörlega óborganlegt, í senn fræðandi og stórfyndið. Lögðu þeir upp með að tala um mat og matargerð en spjallið fór oftar en ekki út um víðan völl og þá byrjaði gamanið. Minnisstæðast er e.t.v. þegar sú hugmynd fæddist í beinni útsendingu að steypa páskaegg úr Prins Póló, eða þegar þeir blésu óvænt til bjúgnahátíðar, sem mér skilst að sé orðin árviss viðburður á hótelinu sem Keli rekur á Snæfellsnesi.

Það ber e.t.v. vott um sjálfhverfu að koma þessu að, en það rétt að geta þess, að fjölmargir húsapistlarnir hér á þessari síðu eru skrifaðir á laugardagskvöldum undir ljúfum tónum og spjalli Næturvaktarinnar - pistlar frá 2013-14 margir hverjir á sunnudögum undir Auglitinu. Sem dæmi má nefna, allar greinar hér frá útmánuðum 2015 um Ægisgötu og Ránargötu á Oddeyrinni. Þá tamdi ég mér beinlínis þá venju, að skrifa á laugardagskvöldum meðan ég hlustaði á Næturvaktina.

Síðasta lagið sem Guðni spilaði á Næturvaktinni í gærkvöld var Hawaíski söngurinn Aloha- Oe í flutningi Johnny Cash. Einstaklega vel valið loka- lokalag.

Þakka Guðna Má Henningssyni kærlega fyrir góða skemmtun og ljúfa tóna öll þessi ár og óska honum góðs gengis og alls hins besta á nýjum slóðum. laughingcool


mbl.is Hefur bara hafnað Händel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús við Fjólugötu

Fjólugata er gata á Oddeyrinni, liggur í A-V á milli Glerárgötu og Norðurgötu. Við hana standa hús, byggð á 4. og 5.áratug 20.aldar. Eldri húsin við götuna, 1-10, tók ég fyrir sumarið 2015 en hús 11-20 hef ég tekið fyrir á síðustu vikum.

Fjólugata 1 (1933) birt 4.ágúst 2015

Fjólugata 2 (1932) birt 8.ágúst 2015

Fjólugata 3 (1933)birt 11.ágúst 2015

Fjólugata 4 (1932)birt 14.ágúst 2015

Fjólugata 5 (1933) birt 15.ágúst 2015

Fjólugata 6 (1933) birt 18.ágúst 2015

Fjólugata 7 (1934)birt 22.ágúst 2015

Fjólugata 8 (1933) birt 23.ágúst 2015

Fjólugata 9 (1934) birt 25.ágúst 2015

Fjólugata 10 (1933) birt 29.ágúst 2015

Fjólugata 11 (1938) birt 11.jan 2018

Fjólugata 12 (1945) birt 12.feb 2018

Fjólugata 13 (1938) birt 23.jan 2018

Fjólugata 14 (1944) birt 22.feb 2018

Fjólugata 15 (1938) birt 4.feb 2018

Fjólugata 16 (1941) birt 2.mars 2018

Fjólugata 18 (1943) birt 7.mars 2018

Fjólugata 20 (1943) birt 19.mars 2018

Meðalaldur húsa við Fjólugötu árið 2018 er 81,3 ár.

 


Hús dagsins: Fjólugata 20

Árið 1942 fengu þeir Sigurður Björnsson og Stefán Þórarinsson hornlóð Fjólugötu og Hörgárbrautar (síðar Glerárgötu) P3030714og fengu þeir að byggja þar steinsteypt hús með steinlofti og steinþaki, grunnflötur ferningslaga, 8,3m á kant auk útskots að vestan, 1x4m. Teikningar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson. Áratug eftir byggingu hússins, þ.e. árið 1953 var byggt við húsið að austanverðu og til norðurs og líkast til hefur valmaþak verið byggt á húsið við sama tækifæri, en upprunalega var þak hússins flatt. Þær teikningar eru undirritaðar af Sigurði Björnssyni. En Fjólugata 20 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki og á lágum grunni. Bárujárn er á þaki en einfaldir, lóðréttir póstar í gluggum, og horngluggar í anda Funkis – stefnunnar á SV-horni. Svalir eru til vesturs á viðbyggingu en til suðvesturs í kverkinni á milli álma.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús en um tíma var starfrækt þarna húsgagnasmíðaverkstæði, Húsgagnavinnustofa Stefáns Þórarinssonar; sbr. þessa auglýsingu frá 1955. Kannski einhverjir lesendur sem muna eftir þessu verkstæði og húsgögnum þaðan- og eflaust leynast húsgögn frá Stefáni Þórarinssyni í stofum eða geymslum hér og þar. Fjólugata 20 er traustlegt hús og í góðri hirðu. Það stendur á horni Fjólugötu og fjölförnustu götu Akureyrar- þjóðvegar 1 raunar og hélt ég raunar lengi vel, að þetta hús stæði við Glerárgötu. Lóðin er stór og vel gróin ogP3030715 ber þar mikið á stórri Alaskaösp. Myndirnar eru teknar þann 3.mars sl. en öspin nýtur sín auðvitað betur í sumarskrúða en á þessari mynd.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundagerðir 1941-48. Fundur nr. 922, 28.ágúst. 1942. Fundur nr. 925, 11.sept. 1942. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 


Hús dagsins: Fjólugata 18

 

 

Árið 1943 fékk Valtýr Þorsteinsson útgerðarmaður frá Rauðuvík á Árskógsströnd leyfi til að reisa hús á leigulóð sinni við Fjólugötu. P1070727Lóðina hafði hann fengið haustinu áður, var hún sögð næst sunnan við hús Gunnars Jónssonar, þ.e. Fjólugata 16. Valtýr fékk leyfi til að reisa hús samkvæmt framlagðri teikningu, sem undirrituð er af honum sjálfum. Húsið yrði tvær hæðir með flötu þaki, gólf og veggir úr steinsteypu og stærð 13x5,3 + 10x4,2m. Húsið er þannig byggt í tveimur álmum, sú fremri (syðri) styttri og í kverkum milli álma eru annars vegar svalir til suðvesturs og inngöngudyr í suðaustri.Valtýr Þorsteinsson var umsvifamikill útgerðarmaður og mun hafa starfrækt skrifstofur og framkvæmdastjórn fyrirtækis síns héðan um tíma. Hann stundaði einnig síldarsöltun, ásamt Hreiðari syni sínum setti hann á stofn Norðursíld á Raufarhöfn 1950. Hann byggði vélbátinn Gylfa EA 628 árið 1939 en hafði áður stundað veiðar á opnum bátum en Valtýr Þorsteinsson hf gerði út mörg fengsæl fiskiskip gegn um tíðina, m.a. Þórð Jónasson.

Húsin 16 og 18 við Fjólugötu voru í upphafi ekki óáþekk, nokkuð dæmigerð funkis-hús með flötum þökum. En síðar fékk nr. 16 valmaþak en á Fjólugötu 18 var þriðja hæðin byggð ofan á. Árið 1958 byggt var e.k. upphækkað valmaþak, eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar. Þriðja hæðin er þannig nokkurs konar millistig þakhæðar og fullgerðar hæðar, en en nokkur dæmi eru um svona viðbætur á hús hér í bæ; t.d. Munkaþverárstræti 12, sem ég hef ég tekið fyrir á þessum vef. Þessi þakgerð er nokkuð sérstæð, e.k. mansard valmaþaki. Mansardþök eru að því leytinu til sniðug, að undir þeim nýtist gólfflötur mikið betur heldur en undir hefðbundnum ris – og valmaþökum. Á sama tíma var byggt við húsið, álma með lágu þaki að norðan og vestan og þar var þvottahús, eitt fyrir hvora hæð, auk miðstöðvarrýmis í kjallara. Árið 2006 skemmdust efri hæðir hússins í bruna en voru í kjölfarið voru þær endurnýjaðar frá grunni.

Fjólugata 18 er þrílyft steinshús með lágu valmaþaki (telja má þakhæð sem fullgilda hæð). Járn er á þaki en gluggapóstar 1. og 2. hæðar flestir þrískiptir lóðrétt með opnanlegu þverfagi í miðju en á þriðju hæð eru gluggar póstalausur með lóðréttu opnanlegu fagi, rúðulausum. Horngluggar til suðvesturs og svalir á þeim hornum, í kverkum milli fram og bakálmu. Húsið er í mjög góðri hirðu og lítur vel út. Þakhæðin gefur húsinu óneitanlega sérstakan svip. Myndin er tekin þann 7.janúar 2018, fyrir réttum og sléttum tveimur mánuðum þegar þetta er birt.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundagerðir 1941-48. Fundur nr. 924, 4.sept. 1942. Fundur nr. 945, 11.júní 1943. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 


Hús dagsins: Fjólugata 16

Fjólugötu 16 reisti Gunnar Jónsson skipasmiður árið 1941. P1070726Hann fékk þ. 9.maí 1941 leyfi til að byggja hús á leigulóð sinni við Fjólugötu tveggja hæða hús úr steinsteypu, 8,5x9m, tvær hæðir með flötu þaki auk útbygginga til enda, 1,5x4,8m. Ári síðar var honum leyft að byggja við húsið til norðurs, 3,8x3,8m steinsteypta byggingu. Þessi lýsing á að mestu leyti við húsið enn í dag, nema hvað í stað flata þaksins er á húsinu upphækkað valmaþak með háum kanti. Það vill nefnilega svo til, að flöt þök eru ekki sérlega heppileg við íslenskar aðstæður, þó þau reynist mögulega vel t.d. Við Miðjarðarhafið. Því er ekki óalgengt að hús í funkis stíl með flötum þökum hafi verið breytt á þessa leið. Í sumum tilvikum, líkt og í tilfelli næsta húss vestan við, Fjólugötu var byggð hæð ofan á. Teikningar að húsinu hafa varðveist en þær virðast óundirritaðar. Gunnar Jónsson átti húsið til ársins 1955 en þá auglýsir hann húsið til sölu. Í auglýsingunni má sjá, að lóðin er 1136 fermetrar, sem er þó nokkuð víðlent miðað við það sem gengur og gerist á Oddeyrinni. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, með einni íbúð á hvorri hæð. Árið 1988 var húsið stækkað til norðurs, þ.e. byggt við bakbygginguna og á þeim teikningum er einnig gert ráð fyrir utanáliggjandi tröppum á austurhlið.

Fjólugata 16 er sem áður segir, tvílyft steinsteypuhús með járnklæddu valmaþaki. Útskot eru bæði á austur- og vesturhlið, annað þeirra inngönguskúr en á vesturhlið eru svalir við útskot. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum og horngluggar til suðurs og vesturs. Húsið virðist traustlegt og í góðu standi, nokkuð dæmigert fyrir hús frá því um 1940, undir áhrifum funkis-stefnu. Ekki hefur, mér vitanlega, verið unnin húsakönnun fyrir Fjólugötuna og því óvíst um varðveislugildi hússins, en Fjólugatan öll er einstaklega smekkleg og snotur gata. Myndin er tekin 7.janúar 2018.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1941-48. Fundur nr. 874, 9.maí 1941. Fundur nr. 911, 22.maí 1942. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Fjólugata 14

Fjólugötu 14 byggði Jón Gíslason eftir eigin teikningum árið 1944. P1070728Ekki er að finna byggingarleyfi eða lýsingu í bókunum Bygginganefndar, en í júní 1943 er Bjarna M. Jónssyni veittur frestur til að ljúka við hús sitt, en þar kemur fram að grunnur og lagnir séu tilbúnir. Jafnframt er honum leigð lóðin til 15.júní 1944 og því má reikna með að umræddur frestur hafi verið eitt ár. er talað um hús Jóns Gíslasonar. Því hefur byggingarréttur áðurnefnds Bjarna líklega yfirfærst á Jón í millitíðinni. En Fjólugata 14 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki og útskoti með svölum til vesturs. Þar eru horngluggar til suðurs. Húsið er klætt perluákasti eða steinmulningi en bárujárn er á þaki. Einfaldir, lóðréttir póstar eru í gluggum. Á austurhlið eru tröppur upp á efri hæð. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og þar hafa margir búið gegn um tíðina. Árið 1961 var byggður bílskúr innst á lóðinni og um 1998 voru gerðar smávægilegar breytingar á inngangi efri hæðar; forstofubygging og geymslu undir tröppum, en hönnuður þeirra var Bergur Steingrímsson (sjá tengil á upprunalegar teikningar, breytingar færðar inn þar). Að öðru leyti er húsið næsta óbreytt frá upphafi en engu að síður í góðri hirðu og lítur vel út. Lóðin er býsna víðlend, nærri 1000 fermetrar, en óvíða er að finna stærri lóðir á Oddeyri en vestast við Fjólugötu og Eyrarveg, næst norðan við. Myndin er tekin þann 7.jan. 2018.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1941-48. Fundur nr. 947, 25.júní 1943. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Fjólugata 12

Vorið 1942 fengu þeir Loftur Einarsson og Ari Jóhannesson þessa lóð, P1070725en ekki getið byggingarleyfis. Trúlega er ekki óvarlegt að áætla, að þeir hafi byggt húsið. Húsið var þó ekki byggt fyrr en árið 1945, en teikningarnar gerði F. Jóhannsson. Síðla sumars það ár er neðri hæð hússins auglýst til sölu í Degi. (Á sömu síðu í Degi má einnig sjá auglýsingu frá Kristni Sigmundssyni, föðurafa höfundar, þar sem hann auglýsir til sölu Buick bíltæki) Húsið er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með bárujárnsklæddu valmaþaki, og veggir eru múrsléttaðir. Lóðréttir póstar eru í gluggum og horngluggar í anda Funkis-stefnu til suðvesturs á báðum hæðum. Á vesturhlið er lítil útskotsálma til og steyptar tröppur upp á aðra hæð upp að henni. Inngöngudyr á neðri hæð eru á suðurhlið og þar er sólpallur eða verönd úr timbri. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús með einni íbúð á hvorri hæð. Það er líkast til lítið breytt frá fyrstu gerð. Lóð hússins er býsna stór en á þessum slóðum eru lóðirnar nokkuð víðlendar. Kemur það til af því, að Fjólugatan og gatan norðan við, Eyrarvegur, sveigja til gagnstæðra átta og breikkar bilið milli gatnanna eftir því sem vestar dregur, nær Glerárgötu. Húsaröðin frá 12-18 er rúmum áratug yngri en röðin frá 2-10, en í síðarnefndu röðinni eru að mestu leyti timburhús en 12-18 er skipuð steinsteypuhúsum. Ég veit ekki til þess, að húsakönnun hafi verið unnin fyrir þetta svæði þ.a. hugsanlegt varðveislugildi þessara húsaraðar liggur ekki fyrir. En hvað sem því líður, er Fjólugata 12 traustlegt hús og í góðu standi, hús sem og lóð til mikillar prýði. Myndin er tekin þann 7.janúar 2018.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1941-48. Fundur nr. 908, 5.maí 1942. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 


Hús dagsins: Fjólugata 15

Vestasta húsið við Fjólugötu sunnanmegin er Fjólugata 15, P1070729en það er eitt þriggja húsa sem reist voru á lóðum Byggingafélags Akureyrar árin 1937-38. Lóðirnar voru framleigðar til félagsmanna og hlutu tvær fjölskyldur hvert hús.( Í Manntali 1940 eru auk tveggja fjölskyldna í hverju þessara húsa 1-2 leigjendur) og lóð nr. 15 fengu þeir Guðmundur Baldvinsson og Jón Þórarinsson og reistu þar húsið sem enn stendur. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús með einni íbúð á hvorri hæð og geymslum í kjallara. Ekki er að finna heimildir um verslun eða þjónustustarfsemi í húsinu ef heimilisfanginu er flett upp á timarit.is. Fjólugata 15 er, líkt og gús nr.11 og 13, tvílyft steinsteypuhús með lágu risi og á lágum kjallara. Svalir eru yfir vesturhluta neðri hæðar og glerskáli; sólstofa á suðurhelmingi þeirra. Einfaldir póstar eru í gluggum og bárujárn á þaki. Á suðvesturhorni neðri hæðar er horngluggi í anda Funkis-stefnu en að öðru leyti er ekki að sjá að slíkra áhrifa gæti á húsinu. Tvær inngöngudyr eru á framhlið, hvor að sinni hæð. Húsið er í mjög góðu standi og lítur mjög vel út. Árið 2006 var húsið einangrað og klætt með Steni-plötum og skipt um þakklæðningu og því er húsið að mörgu leyti sem nýtt. Lóðin er vel hirt og gróin og römmuð inn af steyptum kanti með járnavirki. Tvær íbúðir eru í húsinu. Myndin er tekin þann 7.jan 2018.

Sem áður segir, er húsið vestast af þremur sams konar húsum, líklega eftir teikningu Halldórs Halldórssonar (?). Húsin eru í góðu standi og líta vel út, en hafa hvert um sig tekið misjafnlega miklum breytingum á þessum 80 árum sem þau hafa staðið. Ég veit ekki til þess, að nein húsakönnun hafi verið unnin fyrir Fjólugötuna, þannig að ekki liggur fyrir hvort þessi hús hafi varðveislugildi. Yrði ég spurður álits, segði ég hiklaust að þessi þrenning, Fjólugata 11-15, hlyti ótvírætt varðveislugildi sem heild. (En ég hef svo sem hvorki þekki þekkingu né kunnáttu til að dæma um slíkt, aðeins áhuga wink

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1935-41. Fundur nr. 804, 4.sept. 1937. Fundur nr. 808, 8.nóv 1938.

Manntal 1940.

Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 


Hús dagsins: Fjólugata 13

Árið 1937 fékk Byggingafélag Akureyrar m.a. útvísað þremur vestustu lóðunum við Fjólugötu. P1070723Var það Halldór Halldórsson byggingafulltrúi sem fór þess á leit, fyrir hönd áðurnefnds Byggingafélags, að fá þessar lóðir. Félagið hugðist reisa þar hús, sem yrðu tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með risþaki, og með svölum yfir neðri hæð að hluta. Þarna var um að ræða hús nr. 11, 13 og 15 við Fjólugötu sem öll munu reist eftir sömu teikningu 1937-38. Þessar lóðir og hús Byggingafélagsins voru áframleigðar til félagsmanna sem reistu og bjuggu í húsinu, númer 11 fengu Gísli Ólafsson og Bjarni Erlendsson en nr. 13 fengu þeir Hermann Ingimundarson trésmiður og Halldór Stefánsson. Þess má geta, að Halldór var tengdafaðir Hermanns. Bjuggu þau hvor á sinni hæð, Hermann og kona hans Anna Halldórsdóttir ásamt fimm börnum þeirra og Halldór og kona hans Ingibjörg Lýðsdóttir. Hefur húsið alla tíð verið íbúðarhús, ein íbúð á hvorri hæð. Árið1940 búa auk Hermanns og Önnu og Halldórs og Ingibjargar tvær ungar systur frá Litladal, Þorgerður og Guðrún Magnúsdætur.

Fjólugata 13 er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi og á lágum kjallara. Yfir vestasta hluta neðri hæðar eru svalir og er efri hæð því nokkuð minni að grunnfleti. Einfaldir póstar eru í gluggum og bárujárn á þaki. Á suðvesturhorni neðri hæðar er horngluggi í anda Funkis-stefnu en að öðru leyti er ekki að sjá að slíkra áhrifa gæti á húsinu. Tvær inngöngudyr eru á framhlið, hvor að sinni hæð. Húsið er í góðu standi og lítur vel út, vel við haldið. Á Landupplýsingakerfinu finnast engar teikningar af húsinu, en það gæti m.a. bent til þess, að engar breytingar hafi verið gerðar á húsinu sem krefjast sérteikninga. Því má gera ráð fyrir, að húsið næsta óbreytt frá upprunalegri gerð. Myndin er tekin þann 7.janúar 2018.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1935-41. Fundur nr. 804, 4.sept. 1937. Fundur nr. 808, 8.nóv 1938.

Manntal 1940.

Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Fjólugata 11

Er ekki upplagt, að fyrsta "Hús dagsins" á nýju ári sé númer 11 og birtist á 11.degi þess...Hér tek ég upp þráðinn í Fjólugötu á Oddeyri en vestast við þá götu eru þrjú sams konar hús sem öll eru áttræð í ár. 

Árið 1937 fékk Byggingafélag Akureyrar m.a. útvísað þremur vestustu lóðunum við Fjólugötu. Var það Halldór Halldórsson byggingafulltrúi sem fór þess á leit, fyrir hönd áðurnefnds Byggingafélags, að fá þessar lóðir.P1070724 Félagið hugðist reisa þar hús, sem yrðu tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með risþaki, og með svölum yfir neðri hæð að hluta. Þarna var um að ræða hús nr. 11, 13 og 15 við Fjólugötu sem öll munu reist eftir sömu teikningu 1937-38.  Skömmu eftir að Byggingafélagið fékk þessar lóðir voru lóðirnar leigðar, einstaklingum. Lóð númer 11 fengu þeir Bjarni Erlendsson og Gísli Ólafsson og reistu þeir húsið eftir áðurnefndri forskrift byggingafélagsins. Bjó Gísli á neðri hæð en Gísli á þeirri efri. Gísli fékk árið 1943 leyfi til að byggja yfir svalirnar að hluta. Byggði hann yfir norðvesturhlutann en árið 2003 var byggt yfir svalarýmið til suðvesturs, eftir teikningum Þrastar Sigurðssonar. Fékk húsið þá það lag sem það nú hefur. Fjólugata 11 er sem áður segir tvílyft steinsteypuhús á lágum kjallara og með lágu risi. Um tíma bjuggu í húsinu þau Jenna Jensdóttir og Hreiðar Stefánsson sem starfræktu Smábarnaskólann og voru einnig mikilvirkir rithöfundar, líklega hvað þekktust fyrir Öddubækurnar. Skólin var rekinn í Verslunarmannahúsinu, sem stóð við Gránufélagsgötu 9 en það er horfið- eins og raunar hvert einasta hús sem stóð norðan Gránufélagsgötu, vestan Glerárgötu.

Fjólugata 11 er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi og á lágum kjallara. Einfaldir póstar með lóðréttum póstum eru í gluggum og bárujárn á þaki og tvær inngöngudyr eru á framhlið og svalir út af efri hæð til suðurs, frá svipuðum tíma og byggt var yfir gömlu svalirnar. Húsið er í góðu standi og lítur vel út, en ekki eru mörg ár frá gagngerum endurbótum á efri hæð. Það er eitt þriggja húsa sem Byggingafélagið lét reisa 1938 eftir sömu teikningu en eins og gengur og gerist hafa þau tekið ýmsum breytingum, mis miklum, og eru hvert með sínu lagi þó líkindi séu augljós. Húsið er ekki ósvipað í laginu og næstu hús neðan við, þ.e. 1-9 en nokkuð hærra og stærra að grunnfleti. Myndin er tekin þann 7.janúar 2018.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1935-41. Fundur nr. 804, 4.sept. 1937. Fundur nr. 808, 8.nóv 1938.

Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 945, 11.júní 1943

Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • IMG_3323 - afrit
  • Leifshús
  • Skjámynd 2025-07-29 101559
  • Skanni 20250728 (3)
  • Skanni 20250728 (3)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.8.): 32
  • Sl. sólarhring: 44
  • Sl. viku: 279
  • Frá upphafi: 453713

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 209
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband