Færsluflokkur: Bloggar

Næstu "Hús dagsins" verða á Ísafirði.

Ekki er ég nú vanur að vera með yfirlýsingar um næstu færslur hjá mér eða hvenær þær koma. En nú vill svo til að ég mun ekki uppfæra fyrr en í fyrsta lagi 30. þessa mánaðar. En ég hef ákveðið að í ágústmánuður verður helgaður Ísafirði í "Húsum dagsins"- en þá mun ég birta myndir sem ég tók af húsum í elstu hverfunum þar, í blíðskaparveðri þann 12.júlí sl. Það er nefnilega ekkert sem segir að "Hús dagsins" þurfi endilega að standa á Akureyri- þó það sé jú minn "heimavöllur".


Hús dagsins (nr.155): Nokkur hús í Miðbænum

Hér eru nokkur hús sem standa í og við Miðbæ Akureyrar, myndir sem ég tók sl. vetur en hef ekki komið að.

Fyrst er það Turninn, Hafnarstræti 100b sem stendur dálítið skemmtilega í porti á milli 4 hæða steinsteypuhúsa, Hafnarstræti 100 og 102. P3180109Er þetta söluturn í orðsins fyllstu merkingu því efst trónir þessi skemmtilegi turn. Turninn er byggður 1927 og er agnarlítið einlyft timburhús, (kannski 4x5m á grunnfleti)með valmaþaki og klæddur steinblikki. Þarna var sælgætisverslun að ég held frá upphafi og allt til ársins 2007 en þá opnaði þarna veitingastaðurinn Indian Curry Hut en veitingarýni má sjá hér . Mæli ég eindregið með matnum frá Curry Hut, bæði fyrir þá sem dálæti hafa á Indverskum mat og aðra. Þessi mynd er tekin sunnudaginn 18.mars 2012.

Skammt frá Turninum, skáhallt á móti í gilkjafti Skátagilsins stendur Hafnarstræti 107bP3180110 Það byggði Ingimar Jónsson og er það sagt byggt á milli 1910-20 (freistandi að giska á 1915 sem er millivegurinn Wink). Húsið var (og er) Ingimarshús eftir fyrsta eigandanum. Er það tvílyft steinsteypuhús með lágu risi. Síðustu ár hafði það staðið autt og ónótað og bjóst ég allt eins við því að það yrði rifið. En sem betur fer hafði ég þar á röngu að standa, því sl. vetur var húsið allt tekið í gegn að innan og skipt um glugga, gamaldags sexrúðugluggar í stað þverpósta sem höfðu verið í áratugi. Og í byrjun sumars var opnað þarna kaffihúsið Kaffi Ilmur. Þangað hef ég einu sinni farið og fengið mér kaffi og vöfflu- hvort tveggja algjört lostæti. Er einstaklega notalegt að koma þar inn og sér maður greinilega að hér er um fyrrum íbúðarrými að ræða- sem gefur staðnum fyrir vikið heimilislegan blæ. Þessa mynd tók ég 18.mars sl. en þá var endurgerð hússins í fullum gangi og gluggarnir nýju nýkomnir.

Við Ráðhústorg teljast standa nokkur hús sem öll eru sambyggð. P5010024Ráðhústorg 1-5 afmarka Ráðhústorg í suðri en þetta eru ein fyrstu margra hæða stórhýsin á Akureyri. Þetta er steinsteypt hús á fimm hæðum byggð í áföngum frá 1930-39 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar og byggingarmeistarar voru Indriði Helgason, Ólafur Ágústsson og Þorsteinn M. Jónsson. Voru þettalengi einar stærstu byggingarnar í bænum og hafa eflaust þótt dálítið "erlendis". Í þessum húsum voru frá upphafi og eru enn verslanir, veitingastaðir og skrifstofur og nokkrar íbúðir einnig en það yrði langur, langur listi að telja upp alla þá starfsemi sem haft hefur aðsetur í húsunum við Ráðhústorg. Þessi mynd er, eins og sjá má, tekin 1.maí sl.

 

 

 

Geislagata 10 er byggð 1925. P5010019 Það er einlyft timburhús á háum kjallara með háu portbyggðu risi, klætt steinblikki. Það er þó nokkuð svipað norsku timburhúsunum stóru, katalóghúsunum, sem mikið var byggt af uppúr aldamótum en mikið yngra. Það er raunar reist dálítið "seint" af timburstórhýsi að vera en þarna má segja að "steinsteypuöld" hafi verið gengin í garð en eftir 1915 er mun minna byggt af timburhúsum hér í bæ. Húsið var verulega farið að láta á sjá uppúr 1990 en var allt tekið í gegn að utan sem innan. Þá voru byggðar þessar miklu svalir framan á húsið- sem gefa því alveg nýjaan og skemmtilegan svip. Sennilega hefur frá upphafi verið verlsunarrými í kjallara og íbúðir og/eða skrifstofur á efri hæðum. Síðustu ár hefur verið gistiheimili og leiguíbúðir á hæð og í risi. Þegar ég man fyrst eftir mér var rakarastofa í kjallaranum og fór ég einu sinni þangað í klippingu um 1990. Fimm árum seinna var þar komin vídeóleiga sem var starfrækt þarna til ársins 2007 en stóð rýmið autt þar til í fyrravor að þarna var opnað kaffihús, Kaffi Költ. (Og hér kemur enn ein veitingarýninWink) Er það mjög skemmtilegt og sérstakt kaffihús. Það er einnig prjóna- og handverksbúð. Þar er hægt að blaða í bókum og einnig er þarna heilmikið vínylplötusafn sem gestir og gangandi mega setja á "fóninn" ef þeim sýnist svo, og þá er þarna hægt að grípa í spil. Ég sest oft þarna inn og fæ mér þá jafnan kaffi og vöfflu en stundum einnig epla- og karamelluköku. Mæli eindregið með Kaffi Költ! Þessi mynd er tekin 1.maí 2012.


Svipmyndir að vestan

Ég hef ekki verið neitt sérstaklega duglegur að uppfæra sl. vikur (og kem ekki til með að vera það næstu tvær vikur heldur) En það er  einfaldlega vegna þess að yfir hásumarið er það að sitja við tölvuna ekki mjög ofarlega á forgangslistanum ég er frekar á ferðinni eða úti að viðra mig. Í síðustu viku brá ég mér á Vestfirði, um Djúpið á Ísafjörð. Þetta var í fyrsta skipti sem ég kom þangað en ýmislegt hafði ég heyrt af náttúrufegurð og hrikalegu landslagi. Ekki varð ég svikinn af því- auk þess sem við hrepptum eins frábært veður og orðið gat. Þar myndaði ég heil ósköp þ.m.t. mikið af gömlum húsum en á Ísafirði er mikil og heilsteypt torfa gamalla húsa. Þau mun ég fjalla um í "Húsum dagsins" á komandi vikum, en hér eru fáeinar svipmyndir úr Djúpinu. Þær eru teknar 12.júlí sl.

P7120060  P7120127

Til vinstri: Svartalogn í Álftafirði rétt fyrir kl. 9 að morgni. Svartalogn er það kallað þegar firðirnir við Djúpið eru svo sléttir að fjöllin speglast á milli, þannig að vatnsflöturinn verður svartur eða dökkur. Þarna glittir reyndar í smá sólarglætu við fjöruborðið hinu megin. Hægra megin er horft frá mynni Álftafjarðar yfir til Súðavíkur en fjallið ofan við heitir Kofri (635m).

P7120067  P7120126

T.v. Óshlíð, undir Búðarhyrnu (t.v.) og Arafjalli er einn alræmdasti slysakafli íslenskra þjóðvega vegna grjóthruns og snjóflóða en hér sést hún frá mynni Skutulsfjarðar. Óshlíðarvegur var lagður um 1950 og kom Bolungarvík í vegasamband við Djúpið en Óshlíðargöng milli Hnífsdals og Bolungarvíkur  leystu hann af hólmi 60 árum síðar. En hinu megin í Skutulsfirði eru önnur göng, í gegn um Arnarneshamar, á myndinni t.h. Þau eru að vísu ekki löng, aðeins 35m en eru fyrstu jarðgöngin á Íslandi og voru þau sprengd í gegn um hamarinn árið 1949 á svipuðum tíma og Óshlíðarvegur var lagður.

P7120046 P7110053

Skötufjörður er einn fjarðanna við Ísafjarðardjúpið. Ef við teljum frá Skutulsfirði, þar sem Ísafjarðarkaupstaður stendur og teljum firðina fram eftir Djúpinu er hann sá fjórði á eftir Álftafirði, Seyðisfirði og Hestfirði. Vestan megin í firðinum má finna forna hringlaga grjóthleðslu, sem kallast Hlaðið (á myndinni t.v.) Hlaðið er jafnvel talið vera frá landnámsöld og þykir minna á sams konar hleðslur sem tíðkuðust á Írlandi. Á myndinni til hægri er síðan mikil selasamkoma en þeir eru algeng sjón við flæðarmálið í Skötufirði eins og víðar við Djúpið.


Hús dagsins (nr. 154): Litli - Garður við Eyjafjarðarbraut

Þeir sem átt hafa leið frá Akureyrarflugvelli inn í bæinn kunna að hafa tekið eftir húsinu á myndinni, en það stendur við Eyjafjarðarbrautina um 300m norðan afleggjarans að Flugvellinum. P6300035En húsið er eitt af mörgum húsum sem Sveinbjörn Jónsson teiknaði en það er reist úr r-steini, sem var einmitt hans uppfinning og framleiðsla. En fyrst hófst búskapur á Litla-Garði um 1909 en fyrsti ábúandinn hét Benedikt Sigurðsson. Fyrsta byggingin var torfbær en núverandi hús reistu synir Benedikts, Jón og Þorsteinn. En íbúðarhúsið á Litla-Garði á stórafmæli í ár, nírætt, en það er reist 1922 í hópi fyrstu r-steinhúsa á landinu og þ.a.l. í heiminum! Húsið er tvílyft með valmaþaki en norður úr húsinu gengur einlyft viðbygging með lágu risi, byggð 1958. (Ekki fylgir sögunni hvort sú bygging er einnig úr r-steini eða steinsteypt). Búskapur var í Litla-Garði allt til ársins 1987 og enn stendur hlaða með braggaþaki um 30 metra norðan hússins. Árið 1970 bjuggu á Litla-Garði hjónin Karl Ásgrímur Ágústsson og Þórhalla Steinsdóttir og voru þau með 12 fjár og 32 hross. Nú er húsið einbýlishús en  hlaðan var útbúin sem tónleikasalur um 2003. Allar eru byggingarnar í frábæru standi, sem og umhverfi hússins sem er allt vel gróið. Þessi mynd er tekin sl. laugardag, 30.6.2012.

Heimildir: Ármann Dalmannson (ritstj.), Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II.bindi. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Friðrik Olgeirsson, Halldór Reynisson, Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál. Reykjavík: Fjölvi.

Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.


Hús dagsins (nr. 153): Norðurgata 33

Norðurgata 33 er eitt fjölmargra húsa sem Sveinbjörn Jónsson teiknaði- en húsið er byggt árið 1926 af Sigurði Björnssyni. P6200058Það ár voru reist þrenn hús eftir Sveinbjörn við Norðurgötu ,nr. 26 og 16 auk þessa húss. Norðurgata 33 er tvílyft r-steinhús með lágu risi og inngöngubyggingu og tröppum á norðurgafli. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð og hefur líkast til verið svo frá upphafi. Húsið hefur um nokkurra ára skeið verið nyrsta hús við Norðurgötu en nærliggjandi hús eru reist eftir 1929. Húsið er í góðri hirðu og til prýði- sem og lóðin umhverfis húsið. Þessi mynd er tekin um miðnæturbil á Sumarsólstöðum, 20.júní 2012.

Nokkur tryllitæki af sýningu Bílaklúbbs Akureyrar 17.6.2012.

Að venju var haldin vegleg bílasýning í Boganum á vegum Bílaklúbbs Akureyrar þann 17.júní sl. og að venju var ég á staðnum með myndavélina meðferðis. Hér eru nokkrir gæðingar af sýningunni.

P6170044   P6170065

Þessir tveir eru á svipuðum aldri- en eiga svosem fátt sameiginlegt en það. Hægra megin er Toyota Land Cruiser árgerð 1968 en þessi vinsæli gæðingur hefur verið framleiddur í yfir 60 ár. Þessi er búinn sex strokka vél F135, og virðist að mestu óbreyttur. Til vinstri er Chevrolet Chevelle Malibu árgerð 1970, vélin er V8 307. Og hvað þýðir það, kunna kannski einhverjir að spyrja. V8 þýðir einfaldlega að strokkarnir eru átta og liggja í V, þ.e. þeir mynda 45° horn hvor á móti öðrum á sveifarásnum. Í minni vélum liggja þeir oftast í beinni röð og er þá talað um línuvélar- en þegar strokkafjöldinn er kominn yfir sex verða línuvélar óþægilega langar. 307 vél stendur svo fyrir 307 kúbiktommur en það er amerískt mál yfir slagrými vélar. Hér og í Evrópu er þessi stærð gefin í  rúmsentimetrum eða lítrum- sem  jafngilda 1000 rúmsentimetrum. Sumum finnst kannski ruglingslegt að talað sé um "1600" og "2000" vélar í meðalfólksbílum en á sama tíma eru vélar í stórum amerískum drekum bara "427" eða "518" . En sá munur liggur í rúmtommum og rúmsentimetrum: Ein rúmtomma er 2,54cm*2,54cm*2,54cm= 16,378rúmsentimetrar. 307 vél er þannig 307*16,378= 5030 rúmsentimetrar eða 5 lítrar.

P6170038  P6170032

Chevroletinn af árgerð 1942 til vinstri hefur sennilega talist öflugt og stórtækt flutningatæki á sínum tíma. Hann er þó sennilega 5-10 sinnum léttari en þessi 70 árum yngri  MAN-trukkur til hægri- sem er af gerðinni TGX26-480. (Síðasta talan stendur væntanlega fyrir hestaflafjöldan en vélin er sex strokka og 480 hestöfl) MAN flutningabíllinn getur gengið bæði á dísilolíu og metani en grænu kútarnir munu vera undir hið síðarnefnda. Hér eru ítarlegar upplýsingar um þetta umhverfisvæna tryllitæki: http://www.landflutningar.is/media/flutningathjonusta/Gerdarlysing-okutaekis.pdf

Þetta er að sjálfsögðu bara brot af þeim myndum sem ég tók- en hér er ég með fleiri:

http://www.facebook.com/media/set/?set=a.2236219200421.60004.1696225131&type=3


Hús dagsins (nr.152): Enn fleiri býli í Glerárþorpi

Síðast fjallaði ég um Melgerði í Glerárþorpi þar sem móðurfjölskyldan mín bjó á 6. og 7.áratug síðustu aldar. Enn berum við niður í Glerárþorpi og hér eru nokkur hús- og einn húsgrunnur!

P6180034Byrjum ofanfrá: Fyrsta húsið stendur rétt neðan við Hlíðarbraut, eða við Sunnuhlíð 17 stendur húsið Viðarholt en þar stendur upprunalegt hús, byggt 1916. Það hefur sennilegast verið byggt við húsið, jafnvel oftar en einu sinni, t.d. inngönguskúr og álman á bakvið. En húsið er einlyft timburhús með lágu risi, múrhúðað og bárujárnsklætt. Það er í góðri hirðu- sem og víðlend og gróin lóð umhverfis húsið. Ein íbúð er í húsinu.

P6180031

Lynghóll , Barmahlíð 6 stendur á hól um 200m sunnan Viðarholts, en Sunnuhlíðin liggur í vinkil upp og ofan við þann hól og Barmahlíðin gengur suður úr henni neðst, líkt og heimreið upp að Lynghóli og Vallholti sem stóð næst sunnan við. En Lynghóll er einlyft steinsteypt einbýlishús með lágu risi í tveimur álmum, byggt 1949. Upprunalega var byggt á Lynghóli 1920 en ekki er mér kunnugt um hvort eldra hús var rifið eða núverandi hús hafi verið byggt við - eða utan um það upprunalega.

 

 

 

Vallholt  stóð við Barmahlíð 8 rétt sunnan við Lynghól. Það var einlyft timburhús, byggt 1925 P6180033og  líkast til eitthvað byggt við það síðar. Það var nokkuð sérstakt að gerð- einlyft með háu risi og tveimur burstum. Vallholt brann að kvöldi 30.september 2009 og á myndinni til hliðar má sjá  það sem eftir stendur- steyptur grunnur og tröppur og stétt.  Gegnum trjáþykknið fyrir miðri mynd sést í suðurgafl Lynghóls.

Hér má sjá mynd af Vallholti: http://mennta.hi.is/vefir/saga/torf/2003/einhamar_horgardal_og_vallholt_akureyri/

Vallholt brennur, af vef Landpóstsins: http://landpostur.is/news/husbruni_i_barmahlid_-_einn_a_sjukrahus/

P6180036

Árbakki stendur neðar í Þorpinu, við Lönguhlíð 11 niður við Glerá, nv. við kjaft Glerárgils. Upprunalega var byggt þarna árið 1918. Húsið sem nú stendur  er hinsvegar einlyft steinsteypt einbýlishús í fúnkísstíl með skúrþaki. En sá hluti hússins sem sést á myndinni er hinsvegar viðbygging frá því um 1970. Hún er einnig einlyft með skúrþaki sem hallar á móti þaki eldra hússins.

Árgerði stendur neðar við Lönguhlíðina, um 250 m austan við Árbakka.P6180037 Upprunalegt hús stóð nokkuð nær ánni og var reist 1903. Húsið sem nú stendur er hins vegar byggt 1931, einlyft steinsteypuhús á kjallara með háu portbyggðu risi. Þá er viðbygging við austurgafl hússins, einlyft með skúrþaki. Ein íbúð mun vera í húsinu. Húsið fékk mikla yfirhalningu skömmu eftir 2000, allt klætt og skipt um þakklæðningar og er nú í hinu besta ásigkomulagi og til mikillar prýði.  Myndirnar í þessari færslu eru allar teknar 18.júní 2012.

 

 

 

 

Heimildir: Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; Höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Sumarsólstöður á Oddeyri

Ég hef komið mér upp þeim vana að fara út í göngutúr um miðnætti á Sumarsólstöðum- og helst með myndavélina meðferðis. Þessar myndir tók ég á tólfta tímanum sl. miðvikudag 20.júní- sem voru einmitt Sumarsólstöður. Ætla að láta myndirnar að mestu tala sínu máli.

P6200056  P6200059

Tvær valinkunnar götur á Eyrinni, á vinstri myndinni er horft suður Norðurgötuna en á þeirri hægri er horft frá Norðurgötu og inn (austur) Eiðsvallagötuna.

P6200060 P6200061

T.v. Horft frá gatnamótum Eiðsvallagötu og Norðurgötu, á sama stað og myndin efst til hægri er tekin nema í stað þess að horfa austur Eiðsvallagötu er horft norður Norðurgötu. Þarna sést leikvallarhús á Eiðsvelli og Norðurgata 31 (byggt 1931) http://www.arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/entry/1172403/. Og t.h. er það Súlutindurinn, eða Ytri Súla en sú Syðri gægist fram vinstra megin við hana ásamt Bónda fjær. Það er enn dálítill snjór í Súlunni en á hlýjum sumrum tekur snjó nánast alveg upp í fjallinu- seint í ágúst eða byrjun september. Húsin fremst á myndinni eru Lundargata 2 (byggt 1879, ljósgrænt) http://arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/entry/906027/  og Strandgata 21 (byggt 1886, hvítt með gráum þakkanti). http://arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/entry/1027952/?t=1268062408

P6200062  P6200063

Ég segi stundum að Strandgatan sé einn besti útsýnisstaður Akureyrar- þrátt fyrir að liggja við sjávarmál. En þar er frábært útsýni fram Eyjafjörð- sem skartar sínu fegursta á sumarkvöldum. Þarna má sjá frá vinstri Kaupangssveitarfjall, Staðarbyggðarfjall og Tungnafjall rauðbleik í kvöldsólinni. Og í flæðarmálinu voru þessar ágætu endur að búa sig til miðnætursunds.


Hús dagsins (nr.151): Melgerði

1.maí sl. brá ég mér í myndahjóltúr um Melgerðisásinn og fylgdi því eftir með pistlum næstu dagana á eftir. P5010011Þannig vildi til að eitt býli átti ég eftir þegar ég birti hátíðarpistillinn og í kjölfarið söguágripið og það er býlið sem Ásinn er nefndur eftir, nefnilega Melgerði. En Melgerði er með elstu býlum Glerárþorps, þar hófst upprunalega búskapur árið 1880. En húsið sem nú stendur þar var reist árið 1930.  Núverandi hús er steinsteypt parhús, tvílyft á kjallara með skúrþaki. Sunnan úr húsinu gengur einlyft steinhlaðin viðbygging og ofan á henni eru miklar svalir. Móðurafi minn, Hörður Adolfsson og Áskell Sigurðsson, langafi minn reistu þá byggingu um 1957-8. Þá hefur verið reistur mikill glerskáli bakatil á norðurenda. Eins og venjan er með gömul býli í Glerárþorpi er lóðin kringum Melgerði geysi víðlend og vel gróin.  Melgerði er frá upphafi parhús og þarna hafa margir búið gegnum tíðina. Mamma mín, Anna Lilja Harðardóttir ólst hér upp til 11ára aldurs og margar góðar sögur hef ég fengið að heyra úr Melgerði. Þá var Þorpið töluvert öðruvísi en nú, fjölmörg smábýli með búskap og ekkert þéttbýli svo orð væri á gerandi. En mamma bjó þarna þegar fyrsta íbúðablokkin var reist í Glerárþorpi 1965, h.u.b. í túnfætinum á Melgerði. Einnig þegar Veganesti, ein fyrsta vegasjoppa Akureyrar var reist á svipuðum tíma.  Þá gat orðið ansi hvasst þarna og í verstu veðrunum var oft setið innan við gluggana og horft á  ljósastaurinn utan við sveiflast í byljunum. Þá hafði stundum þurft að flýja efri hæðina vegnan hvins í svalahandriðinu. Staurinn stendur enn og sést hann á myndinni, en oft var oft óttast um að hann færi um koll!  Ég gæti trúað að nú sé öllu skjólsælla á þessum stað, en þar hjálpar til aukin gróður og meiri byggð. Auk þess er eflaust ágætt skjól af Boganum, fjölnotahúsi Þórs sem tekið var í notkun 2004. Þessi mynd er tekin 1.maí 2012.


Á göngu um Glerárgil.

Síðastliðin laugardag, 9.júní, brá ég mér í gönguferð á vegum Ferðafélags Akureyrar um Glerárgilið- eins og það leggur sig- þ.e. Efra og Neðra Gilið. Lagt var af stað frá gömlu Öskuhaugunum og gengið niður með ánni. Gilið er í raun náttúruperla rétt við byggðina og raunar er neðri hluti gilsins í byggðinni. Ég hef gengið um Neðra Gilið mörg hundruð sinnum liggur mér við að segja (meira að segja skrifað um það pistil) en ég hafði satt best að segja aldrei kíkt niður í Efra Gilið. Það er mikið hrikalegra allt að 100m þar sem það er dýpst- en hér eru nokkrar myndir úr göngunni sem ég hyggst að mestu láta tala sínu máli.

 Svipmyndir úr Glerárgili 9.6. 2012

P6090032P6090033

Þessi brú er sú efsta á Gleránni, stendur í um 250m hæð rétt framan við gömlu Öskuhaugana. Á myndinni t.h. má sjá Súlutind í baksýn. Þarna má segja að Gilið byrji en það heldur áfram um 5km leið allt niður að Gleráreyrum. Brýrnar yfir Glerá eru þó nokkuð margar en ég hef gert þeim skil hér http://arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/entry/962275/

(Þess má reyndar geta að það sem kemur fram í pistlinum um brú fremst á Glerárdal er ekki rétt, hún hefur gefið sig vegna snjóalaga)

P6090035

Þjóðarjurtin, Holtasóley (Dryas octopelata). Þessi er ofarlega í Gilinu en plantan vex víða á Glerárdalssvæðinu.

P6090044  P6090045

Til vinstri: Horft yfir Glerárgil frá Laugarhóli. Hóllinn þurfti reyndar að víkja að mestu vegna heitavatnsboranaframkvæmda um 1970-80.  Enn jarðhiti hafði verið virkjaður löngu áður í hólnum þar sem leitt var heitt vatn niður í Sundlaug Akureyrar um 1930 eftir pípu sem enn stendur að miklu leyti þó ekki sé hún í notkun. Hún sést einmitt á myndinni hægra megin.

P6090046Hér má sjá þar sem Glerárgilið er einna dýpst- þetta er neðan við Laugarhól en af hólnum og niður að ánni eru 100m, ég þurfti að snúa myndavélinni lóðrétt (tek ævinlega allar mínar myndir lárétt) til að ná öllum klettaveggnum en hamrastálið er um 80m hátt- svipað og Hallgrímskirkja og Turninn í Smáralind.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • IMG_3045
  • P6171046
  • P6171045
  • IMG 3018
  • IMG 3024a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 33
  • Sl. viku: 182
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 137
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband