Færsluflokkur: Bloggar

Til hamingju Akureyri 150 ára !

Í dag 29.ágúst 2012 eru liðin 150 ár síðan Akureyri, þá tæplega 300manna þorp undir Brekkunni fékk kaupstaðarréttindi (bærinn sjálfur  þ.e. byggðin er auðvitað talsvert eldri) og er því Akureyrarkaupstaður 150 ára í dag.

Óska öllum Akureyringum, nær og fjær- og landsmönnum öllum og Akureyri sjálfri því til hamingju með 150 ára afmælið. Smile

P2250078

P4110024

P6200053

Meðfylgjandi myndir sýna Akureyri á ýmsum árstímum frá ýmsum sjónarhornum. 

150 ára söguágripið sem ég tók saman í vor : http://arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/day/2012/6/4/


Hús dagsins (nr.164): Silfurgata 8? og Smiðjugata 6

Húsin sem fylgja með þessari færslu myndaði ég þar sem mér þótti þau einstaklega skrautleg og áhugaverð. P7120113Á húsinu hér til hliðar sá ég hvorki númer né heldur byggingarár- sem er raunar nokkuð algengt á Ísafirði en mér reiknast til að þetta hús standi á Silfurgötu 8. Alltént stendur það næst á bak við Silfurgötu 6 sem ég tók fyrir í færslu um daginn. En þetta hús gæti ég svo sannarlega ímyndað mér að sé byggt í áföngum  og það nokkrum. En húsið liggur í vinkil, önnur álman er tvílyft með lágu risi og tveimur viðbyggingum, önnur einlyft með skúrþaki á gafli og hin inngönguskúr framan á. Sá hluti virðist múrhúðaðar en ég geri ráð fyrir að allt húsið sé timburhús. Önnur álman er einlyft með háu risi sem virðist hafa verið lyft og tengist tvílyftu byggingunni með kvisti. Gluggapóstar eru fjölbreyttir bæði hvað varðar stærð og gerð. Húsið er í góðu standi og ætti að mínu mati tvímælalaust að njóta friðunar, þó ekki væri nema vegna skemmtilegs útlits!

Smiðjugata 6 er öllu látlausara og einfaldara að gerð, tvílyft timburhús með lágu risi, klætt láréttum timburborðumP7120110Smiðjugata er mjög gömul gata en húsið er nærri hálfrar annnarar aldar gamalt, byggt 1864. Hugsanlegt er að það hafi verið einlyft með risi og hækkað síðar, en það skal ósagt látið hér. En Smiðjugata 6 er svipmikið og skemmtilegt og það sem gefur því þennan skemmtilega svip eru kannski ekki fölsku gluggahlerarnir, þeir eru svona skemmtilega "erlendis" ;) Þó er líklegt að húsið hafi einhverntíma verið "augngstungið" þ.e. að krosspóstum eða sexrúðugluggum verið skipt út fyrir núverandi gluggaskipan. Húsið er annars í góðri hirðu og til mikillar prýði í götumyndinni.


Hús dagsins (nr.163): Nokkur hús við Tangagötu.

Tangagata liggur neðarlega á eyrinni þar sem eldri hverfi Ísafjarðar standa, niðri á bökkum, er það kallað. Neðan við og samsíða Tangagötu er Sundstræti en sú gata liggur við strandlengjuna en ofan við er dálítið styttri gata sem heitir Smiðjugata og Brunngata þar ofan.  Þessar götur liggja Norður-Suður en þær byrja við Skipagötu en Þvergata er næst austan við hana. Þessar götur liggja Austur-Vestur. Þá liggur Silfurgatan- sem komið hefur við sögu hér, gegn um Tangagötu. En við götuna standa mörg minni timburhús, byggð fyrir aldamótin 1900. Ekki hef ég nú vitneskju um hverjir byggðu eða bjuggu í þessum húsum, en bygginagarárin standa í mörgum tilvikum utan á húsunum.

Tangagata 19 er byggt 1898.P7120118 Það er einlyft timburhús með háu risi, á lágum kjallara. Svo maður geti nú í byggingasögu þessa hús myndi ég halda að a.m.k. tvisvar hafi verið bætt við það, í fyrsta lagi einlyft viðbygging á norðurgafli og eins inngönguskúr á framhlið. Húsið er í góðu standi og hefur líkast til verið "tekið í gegn" á allra síðustu áratugum. Húsið er líkast til einbýli en fyrr á árum gætu hins vegar hafa búið þarna nokkrar fjölskyldur.

 

 

 

 

 

Tangagata 24 er 116 ára og er í mjög góðu ásigkomulagi, á því er ný klæðning og nýlegar gluggar.P7120117  Húsið er tvílyft með lágu risi á lágum kjallara. Inngönguskúr framan á er líkast til seinni tíma viðbygging. Þá er einnig hugsanlegt að húsið hafi í fyrndinni verið einlyft með háu risi en hækkað um eina hæð.

 

 

 

 

 

 

Tangagata 33 er einlyft timburhús með háu risi, byggt 1885. P7120119Það er kallað Bubbuhús og því kennt við Bubbu nokkra sem ég þekki ekki frekari deili á. Hvort hún byggði húsið eða bjó þar lengi en hún hefur líkast til verið mikil heiðurskona. Húsið virðist í góðu standi, járnklætt með krosspóstum í gluggum. Ég er nokkuð viss um að einlyfti hluti hússins með flata þakinu sé seinni tíma viðbygging.  Líkast er húsið einbýli en þarna hafa sjálfsagt búið margar fjölskyldur í einu á fyrri hluta 20.aldar.


Hús dagsins (nr. 162): Silfurgata 11; Félagsbakaríið.

Ragúel Árni Bjarnason teiknaði og byggði mörg stór og glæsileg timburhús í norska stílnum á Ísafirði meðan hann starfaði þar sem timburmeistari 1905-07. P7120114Tvö hús, sem talin eru undir Amerískum áhrifum Silfurgötu 2 og 6, hef ég tekið fyrir í síðustu færslu en húsið hér á myndinni stendur einnig við Silfurgötu. En Silfurgata 11 var byggð 1906 eftir teikningum Ragúels Árna fyrir Bökunarfélag Ísfirðinga og Arnór Kristjánsson kaupmann en hann átti helming hússins á móti Bökunarfélaginu. Hefur húsið því síðan verið Félagsbakaríið. En Félagsbakaríið er tvílyft timburhús á háum steyptum kjallara með háu portbyggðu risi. Á því eru tveir kvistir á framhlið en þrír minni á bakhlið. Tvær svalir eru framan á húsinu en á svalir er eitthvað sem sást sjaldan á húsum árið 1906- það var þá helst á nýjum Sveitserhúsum. Allt er húsið bárujárnsklætt. Lengi vel var þarna brauðgerð en þarna var einnig trésmíðaverkstæði og prentsmiðja en annars hefur húsið verið íbúðarhús. Þegar mest var bjuggu 56 manns í þessu húsi. Á sama tíma var bakaríið starfandi í húsinu þ.a. líklega bjó allt þetta fólk á efri hæðunum, hugsanlega einhverjir í kjallaranum. Húsið mun fyrir fáum árum hafa fengið talsverða yfirhalningu bæði að utan og innan og er nú allt hið stórglæsilegasta. Nú eru í þessu húsi líklega 5 íbúðir, tvær á hvorri hæð og ein í risi. Þessi mynd er tekin 12.júlí 2012 líkt og allar Ísafjarðarmyndirnar mínar.

Heimild:

Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi. Reykjavík: Mál og Menning.


Hús dagsins (nr. 161): Silfurgata 2 og 6

Ein af aðslgötunum í eldri hverfum Ísafjarðar er Silfurgatan. Þar standa mörg stór og glæsileg timburhús frá fyrri hluta 20.aldar. P7120104Neðst við götuna standa tvenn svipuð hús, enda byggð eftir sömu teikningu. Það eru Silfurgata 2, blátt hús sem hér sést næst á myndinni og Silfurgata 6, gráhvítt, sést ofar við götuna. Húsin teiknaði og byggði Ragúel Árni Bjarnason árið 1906. Ragúel var fæddur á Bolungarvík 1878. Hann nam húsasmíðar í Osló en fluttist til Ísafjarðar 1905 og hóf rekstur verkstæðis og teiknaði auk þess þó nokkur hús sem oftar en ekki voru vegleg og skrautleg stórhýsi. Enda var þetta á hátindi Sveitser tískunnar norsku sem hann nam ytra og starfaði hér. En sem áður segir reisti Ragúel húsin um 1906 en verkkaupar voru kaupmennirnir Karl Olgeirsson (nr. 2) og Jóhann Þorsteinsson (nr. 6). Húsin eru tvílyft á lágum grunni, nær ferningslaga að grunnfleti með aflíðandi hallandi þökum og skreyttum þakköntum en hornin eru skáuð og þar eru kvistir. Nr. 2 er timburklædd en nr. 6 bárujárnsklædd. Húsin eru nokkuð sérstæð að gerð og útliti og  talin undir áhrifum frá byggingarstíl sem tíðkaðist vestan hafs t.d. í Chicago. En húsin hafa bæði þjónað svipuðum hlutverkum þessa rúmu öld, íbúðir á efri hæð og verslanir á neðri hæð. Bæði eru húsin í góðu standi og eru til mikillar prýði í götumyndinni. Þessi mynd er tekin 12.júlí sl.

Heimild:

Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi. Reykjavík: Mál og Menning.


Hús dagsins (nr. 160): Turnhúsið

Turnhúsið er yngst þeirra fjögurra 18.aldar húsa sem enn standa í Neðstakaupstað, en það mun reist 1784.P7120103 Það er líkt og Tjöruhúsið stokkahús en þau tvö hús eru reist á svipuðum tíma, en Krambúðin og Faktorshúsið eru reist áratugum fyrr. Stokkahús er hlaðin úr láréttum bjálkum og þegar komið er inn í Turnhúsið sést sú byggingargerð vel. Samliggjandi bjálkar eru festir saman á grópum (ekki ósvipað og leikfangakubbar sem festa má saman) og skeytt saman með málmfjöður en á hornum eru bjálkarnir festir saman hálft í hálft. Tjöruhúsið er einlyft með háu risi, raunar það háu að tvær manngengar hæðir eru í risinu! Því eru þrjár hæðir í húsinu- þaraf tvær í risi. Á miðju risi er síðan turn með háu valmaþaki sem gefur húsinu áberandi svip og nafngiftina. Ekki er stór gólfflöturinn þar en þangað upp liggur brattur stigi og hægt að líta þar út um glugga. Turnhúsið var upprunalega reist sem vörugeymsluhús fyrir einokunarverslunina og þjónaði þeim tilgangi áfram eftir hennar dag- en verslun var gefin frjáls þremur árum eftir að húsið var byggt. Hvort að turninn mikli var á húsinu frá upphafi er ég ekki viss en hann mun einhvern tíma hafa verið notaður til að fylgjast með skipakomum. Þar var einnig unnt fyrir forstjóra að fylgjast vinnu á planinu fyrir framan en þar fór m.a. fram mikil saltfiskvinnsla. Nánar um saltfiskinn hér: http://www.nedsti.is/saltfiskur/  Fyrr á árum- vel fram á 20.öld var Neðstikaupstaður og svæðið þar um kring meira og minna þakið saltfiskbreiðum. Turnhúsið var sem áður segir geymsluhús en nú hefur verið komið þar fyrir Sjóminjasafni á vegum Byggðasafns Vestfjarða og þar kennir svo sannarlega ýmissa grasa. Þar er hægt að sjá flest það sem tilheyrir sjósókn fyrri ára- og alda, útbúnað og veiðarfæri og verkfæri notuð til að smíða búnaðinn, líkön af skipum auk mikils harmonikkusafns. Ég mæli eindregið með því að þeir sem leið eiga um Neðstakaupstað líti á safnið- það verður enginn svikinn af því- og auk þess að borða á Tjöruhúsinu! Myndirnar með færslunni eru teknar 12.7.2012.

P7120096  P7120099

T.h. Hluti af Harmonikkusafninu á 2.hæð Turnhússins. Á myndinni vinstra megin er horft úr Turninum fram Skutulsfjörðinn, og eins og sjá má er útsýnið stórfínt. Fyrir miðju er Engidalur en Tungudalur opnast vinstra megin á myndinni, en fjallið Kubbi skilur á milli dalanna tveggja. Hæsti tindur Kubba er Háafell (602m).

Heimildir:

Byggðasafn Vestfjarða (án árs). Heimasíða. Slóðin: http://www.nedsti.is/

Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi. Reykjavík: Mál og Menning.


Hús dagsins (nr.159): Tjöruhúsið

Þau fjögur 18.aldar hús sem enn standa í Neðstakaupstað hef ég tekið fyrir í aldursröð. P7120101Það þriðja elsta er Tjöruhúsið sem sést hér á myndinni, en það mun reist um 1782. (Skv. heimasíðu Byggðasafns Vestfjarða www.nedsti.is er byggingarárið 1781 en skv. Hjörleifi, Kjell og Magnúsi (2003: 229) er það byggt 1782. En eitt ár til eða frá skiptir kannski litlu þegar aldursárin eru um 230; það er um 0,5% skekkja !) En Tjöruhúsið er af gerð svokallaðra stokkahúsa en það er byggingargerð sem var algeng í Skandinavíu, Danmörku þá aðallega. Hún er mjög svipuð byggingaraðferð og bolhús (sjá Faktorshúsið í síðustu færslu), veggir hlaðnir úr þykkum bjálkum en þeim er skeytt saman með öðrum hætti en í bolhúsunum. En Tjöruhúsið er eins og önnur hús í Neðstakaupstað reist fyrir dönsku einokunarverslunina sem pakkhús eða vörugeymsla og gegndi því hlutverki í marga tugi ára, raunar vel á aðra öld. Einokunarverslunin átti þetta hús þó ekki lengi, því hún leið undir lok fáeinum árum eftir að það var reist eða 1787. Húsið hefur gegn um þennan tíma gegnt að mestu svipuðu hlutverki sem geymlsuhús fyrir iðnað eða verslun. Líklega hefur einhverntíma verið geymd þarna tjara- sbr. nafngiftina en ekki veit ég hvort nokkurn tíma hafi verið búið í Tjöruhúsinu. Það hefur nú verið gert upp og er mjög nálægt upprunalegu útliti. Nú er þar samnefndur veitingastaður rekinn á sumrin og var ég staddur á hádegi þar 12.júlí. Því lá beint við að borða á Tjöruhúsinu og það er staður sem ég mæli svo sannarlega með! Fiskisúpan þar er allavega alveg frábær.  Hér eru fleiri meðmæli með veitingastaðnum í Tjöruhúsinu: http://www.tripadvisor.com/Restaurant_Review-g189967-d1099110-Reviews-Tjoruhusid-Isafjordur.html

Heimildir:

Byggðasafn Vestfjarða (án árs). Heimasíða. Slóðin: http://www.nedsti.is/

Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi. Reykjavík: Mál og Menning.


Hús dagsins (nr.158): Faktorshúsið

Fjögur elstu hús Ísafjarðar standa í þyrpingu framarlega á eyrinni í hinum forna Neðstakaupstað, húsið hér á myndinni er það næst elsta. En hér er um að ræða Faktorshúsið. P7120102Árið 1764 var tekin sú ákvörðun að Íslandskaupmenn hefðu vetursetu á Vestfjörðum- en þarna var einokunarverslunin enn við lýði og fram að því var að öllu jöfnu aðeins  verslað yfir  sumartíman.  Ári síðar, 1765 var þetta hús reist sem íbúðarhús fyrir kaupmennina, sem m.a. versluðu í Krambúðinni. Þarna hafa verslunarstjórarnir væntanlega búið sbr. heiti hússins en þeir kölluðust Faktorar, uppá dönskuna. !  Húsið kom tilsniðið að utan ásamt nokkrum öðrum íbúðarhúsum fyrir verslunarmenn- m.a. stendur annað slíkt hús á Eyrarbakka. Faktorshúsið er einlyft með háu risi og er af svokallaðri bolhúsagerð. Oftar en ekki bjuggu sumarkaupmennirnir í óvönduðum húsum en þetta var heilsárshús átti að halda veðri, vatni og vindum, varanlegur bústaður. Og varanlegt var það- stendur enn eftir 247 ár og í frábæru standi. Bolhús eru hins  plankahús, hlaðin inní grind úr plönkum sem skeyttir eru saman í nót á lóðréttum stoðum við horn og við op í veggjum. Húsinu var breytt talsvert bæði að utan sem innan á miðri 19. öld og fékk þá það lag sem það hefur nú. Fyrsta símalínan á Íslandi var lögð árið 1889 milli Faktorshússins og verslunarhúss Ásgeirs Ásgeirssonar. Sennilega hefur Ásgeir verið búsettur í Faktorshúsinu og lagt símalínuna úr versluninni og heim til sín. Ásgeirsverslun var á þeim tíma eitt stærsta verlsunarfélagið á landinu og átti mörg útibú. Kastalinn veglegi á Arngerðareyri við Ísafjarðardjúp var reistur fyrir útibússtjóra Ásgeirsverslunar. En Faktorshúsið var allt tekið til endurbóta 1977 og haldið var í þau einkenni sem það fékk á 19.öld. Timburklæðning, svokölluð listasúð er á húsinu bæði á veggjum og þaki og er húsið kolsvart eins og flest timburhús á svipuðum aldri sem voru tjörguð í upphafi. Margskiptir póstar eru í gluggum. Húsið er einbýlishús og er sennilega með allra elstu húsum á landinu sem enn er búið í. Mynd frá 12.júlí sl. 

Heimildir:

Byggðasafn Vestfjarða (án árs). Heimasíða. Slóðin: http://www.nedsti.is/

Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi. Reykjavík: Mál og Menning.


Hús dagsins (nr. 157): Krambúðin í Neðstakaupstað

Ísafjörður sem áður hét Eyrarkaupstaður eða Eyri við Skutulsfjörð er gamall bær, þar eru heimildir um verslun frá 16. öld og eyrinni við Skutulsfjörð stóðu hús á tíma einokunarverslunar snemma á 17.öld.P7120081 Undir lok 18.aldar var risin þarna lítill kaupstaður framarlega á eyrinni, Neðstikaupstaður og nokkur þeirra húsa standa enn. Elst þessara húsa er húsið hér á myndinni, Krambúðin. Húsið er elsta hús sem ég hef nokkru sinni tekið fyrir hér á síðunni. Þar hafði elsta hús Akureyrar, Laxdalshús, byggt 1795, vinninginn þar til nú en Krambúðin er miklu eldri. (Raunar verður Laxdalshús komið í 5. sæti yfir elstu húsin hér á síðunni þegar umfjölluninni minni um Neðstakaupstað, því þar standa  fjögur hús sem eru byggð 1757-1784.)

En Krambúðin er elsta hús sem enn stendur á Ísafirði, byggt 1757 af dönskum einokunarkaupmönnum og er útlit þess er nokkuð dæmigert fyrir hús frá þessum tíma hérlendis, einlyft á lágum sökkli með bröttu risi og borðaklæðningu og kolsvart að lit. En þessi svarti litur sem er svo áberandi á þessum elstu húsum kemur til af því að á þessum tíma tíðkaðist að hús væru tjörguð til að verja fyrir veðri og vindum, en málning var dýr og illfáanleg. Nú er bárujárn á þaki og kvistir á risi eru eflaust seinni tíma viðbætur. Að öðru leyti mun húsið næsta lítið breytt að utan. Húsið er grindarhús eða bindingsverkshús. En það er í raun hálfgildis millistig steinhúsa og timburhúsa, þ.e. húsið er byggt upp á timburgrind en í grind var múrhleðsla. Húsin voru svo yfirleitt klædd borðaklæðningu að utan en múrhleðslan þótti óþétt fyrir Íslenskar aðstæður.   Eins og nafnið gefur til kynna var húsið upprunalega krambúð en þannig verslunum mætti  líkja við matvöruverslun eða kjörbúðir. Verslunarrými var í suðurenda en vörugeymsla í þeim nyrðri og verslað var í Krambúðinni í rúm 150 ár, en um 1920 var það tekið í gegn að innan og breytt í íbúðarhús. Enn er búið í húsinu og er það einbýlishús. Allt er húsið og umhverfi þess hið glæsilegasta að sjá og hefur líkast til verið haldið vel við haldið þessi 255 ár sem það hefur staðið. Húsið er klárlega með allra elstu íbúðarhúsum landsins- gott ef ekki það elsta. Ásamt nokkrum öðrum stórglæsilegum húsum, þar af fjórum yfir 220 ára, myndar það þessu skemmtilegu og sögulegu heild sem Neðstikaupstaður er. Eins og oft er með svona gamlar húsatorfur eru þau fá orðin eftir sem enn standa og gildi húsanna því mikið. Nú er Byggðasafn Vestfjarða (tengill hér að neðan í heimildaskrá) með höfuðstöðvar í Neðstakaupstað. Þessi mynd er tekin 12.júlí 2012.

Heimildir:

Byggðasafn Vestfjarða (án árs). Heimasíða. Slóðin: http://www.nedsti.is/ 

Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi. Reykjavík: Mál og Menning.


Hús dagsins (nr. 156): Arngerðareyri við Ísafjarðardjúp; Kastalinn.

Síðustu vikuna dvaldi ég á Úlfljótsvatni á Landsmóti Skáta og mátti ekkert vera að því að skrifa inná síðuna- tók mér bara tölvufrí. P7110051En eins og ég sagði þá munu Hús dagsins í ágúst verða að mestu leyti frá Ísafirði og því fer e.t.v. vel á því að síðasta Hús júlímánaðar er einmitt staðsett á leiðinni þangað. En þetta hús stendur við Ísafjörð, fremst í Ísafjarðardjúpi þar sem komið er niður af Steingrímsfjarðarheiði og vekur eflaust athygli flestra sem eiga leið um Djúpveg. En hér er um að ræða Arngerðareyri. Þar voru áður mikil umsvif, þarna var höfn og ferjustaður, hótel og verslun en nú standa einungis eftir leifar af bryggju, hálfhrunin hlaða og svo fyrrum íbúðarhús verslunarstjórans, sem sést hér á myndinni. Verslunin var útibú frá Ásgeirsverslun, miklu verslunarfélagi sem átti höfuðstöðvar á Ísafirði. Það var stofnað árið 1852 af Ásgeiri Ásgeirssyni athafnamanni, en hér er ítarlegri fróðleikur um Ásgeirsverslun. Húsið mun reist í tíð Sigurðar Þórðarsonar útibústjóra Ásgeirsverslunar. Húsið er kallað Kastalinn, en ferkantað kögur á þakbrúnum og einskonar turn framan á gefur óneitanlega kastalalegan svip. Byggingarár er á huldu, en ég gæti ímyndað mér að húsið sé byggt nálægt 1920, en allavega vel fyrir miðja 20.öld. En húsið er steinsteypt í tveimur álmum, önnur einlyft en hin tvílyft (kastalaturninn) en þak er flatt. Húsið hefur vafalítið verið eitt af vandaðri og sérstæðari steinsteypuhúsum landsins þegar það var byggt, en í árdaga steypunnar var algengast að hús væru byggð með hefðbundnu "timburhúsalagi", þ.e. rétthyrningslaga grunnflötur og hátt ris. Húsið hefur staðið yfirgefið í áratugi, frá því um 1970 (skv. frétt hér að neðan hefur það verið yfirgefið í rúm 40 ár) og er því eðlilega í slæmu ásigkomulagi, líkt og sjá má á myndinni. En þrátt fyrir niðurníðslu ber húsið þess greinilega merki að hafa verið vandað og vel byggt í upphafi og glæsileikinn skín í gegn þrátt fyrir allt. Þessi mynd er tekin þ. 11.júlí sl.

PS. Hér er frétt RúV frá því í gær um tilvonandi endurbyggingu Kastalans. http://www.ruv.is/frett/gera-upp-kastala-a-arngerdareyri  Þannig að eftir nokkur ár verður þetta hús eflaust orðið ein af mörgum perlum við Djúpið Smile


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • IMG_3045
  • P6171046
  • P6171045
  • IMG 3018
  • IMG 3024a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 24
  • Sl. viku: 181
  • Frá upphafi: 446840

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 140
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband