Færsluflokkur: Bloggar
5.11.2012 | 19:27
200 "Hús dagsins". Og hvað svo?
Húsapistlarnir eru nú komnir vel á annað hundrað og enn eru nokkur hús sem mér finnst mér þurfa að koma að. Það gæti vel farið svo að loks þegar ég ákveð að láta staðar numið í þessu verði pistlarnir orðnir um 200. En hvað svo. Sjálfsagt mun maður halda áfram með pistla á síðuna en eitthvað yrði líklega að verða um þessar umfjallanir- annað en að "daga uppi" hér á síðunni. Ég hef svosem heyrt það frá utanaðkomandi að þessi skrif mín séu hálfgerð "menningarverðmæti" og muni auka gildi sitt þegar fram líða stundir t.d. ef ske kynni að eitthvert "Hús dagsins" væri rifið. En það sem ég gæti séð fyrir mér gerast með þetta efni væri að setja þetta upp sem einhverskonar gagnagrunn, þar sem velja mætti hús og þessir pistlar birtast. Því þetta form sem er á moggablogginu gerir auðvitað það að verkum að grúska þarf mikið um síðuna til að finna ákveðið hús og ekki bætir úr að röðin er tilviljanakennd. En síða með "gagnagrunnsforminu" myndi hafa þetta flokkað eftir t.d. bæjum, bæjarhverfum eða eftir götum. Ef af þessu yrði þá væri það einnig spurning hvort að pistlarnir yrðu uppfærðir reglulega eða þeir stæðu óbreyttir frá því þeir væru skrifaðir- og þá fylgdi dagsetning með. En þess má geta að í sumum tilvikum eru upplýsingar sem koma fram í pistlunum mínum orðnar þannig séð "úreltar" þar sem elstu pistlarnir eru orðnir rúmlega 3 ára. Og elstu myndirnar hér eru rúmlega 7 ára en sjaldan hafa húsin breyst mikið frá því myndirnar voru teknar, mesta lagi skipt um lit. Svo hef ég nú verið hvattur til að koma þessu efni í bók. Það er vissulega einn möguleiki, en þá yrði það aftur spurning hvort maður uppfærði pistlana eða setti þá einfaldlega beint í bók eins og þeir koma fyrir á síðunni. Sú bók myndi frekar flokkast sem ljósmyndabók frekar en fræðirit en auðvitað er þessi síða fyrst og fremst orðin til í kringum myndirnar af húsunum- textinn fróðleikur sem maður hefur viðað að sér af áhugamennsku gegn um árin og uppfyllir ekki kröfur um að teljast fræðitexti. Auk þess sem ég hef svosem enga sérfræðimenntun á þessu sviði. En hvað sem verður þá mun maður örugglega gera eitthvað meira með þetta efni þegar þar að kemur, hvort sem það verður bók eða öðruvísi skipulögð síða eða hvað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2012 | 16:21
Fyrir og eftir: Hótel Akureyri, Hafnarstræti 98
Nú hef ég birt myndir og stutta pistla um gömul, skrautleg og áhugaverð hús í rúm 3 ár. Flest eru þessi hús svipuð í dag og hafa lítið breyst síðustu ár en á því eru þó undantekningar. Sumar myndirnar eru teknar þegar hús eru í miðri endurgerð, eða áður en endurgerð hófst. Hótel Akureyri kallast 89 ára timburhús í miðbæ Akureyrar, nánar tiltekið við Hafnarstræti 98. Þegar ég fjallaði um það á sínum tíma (ágúst 2009) beið það endurbóta en hér eru myndir af húsinu teknar fyrir 5 árum síðan, 31.ágúst 2007. Þann dag gat það þess vegna verið dagaspursmál hvenær húsið yrði rifið og vildi ég endilega eiga myndir af þessu horfna húsi.
En húsið var svo "skyndifriðað" daginn eftir og skömmu seinna var það keypt til endurbyggingar. Húsið stóð reyndar autt í talsverðan tíma áður en það endurbætur hófust, en sumarið 2010 var það allt málað snjóhvítt og verslunargluggar á neðstu hæð skreyttir gömlum ljósmyndum. En sl. vor lauk endurbótum á húsinu og nú er starfandi í húsinu gistiheimili og minjagripaverslunin Geysir. Og á þessum tveim myndum má sjá Hótel Akureyri þá hlið sem snýr að göngugötunni, 31.ágúst 2007 annars vegar og 30.júní 2012 hinsvegar og þar sést greinilega hversu glæsilega tókst til við endurgerð hússins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2012 | 20:48
Hús dagsins (nr. 170): Aðalstræti 8
Það verður stöðugt erfiðara að finna "kandítata" fyrir Hús dagsins. Af þeirri einföldu ástæðu að ég er búinn að mynda og taka fyrir svo mörg hús hér á Akureyri að ég þarf alltaf að leggjast í pælingar hvaða hús ég skuli mynda næst og svo er það nú meiraðsegja þannig að ég þarf að kafa vel ofaní myndasafnið mitt, því ég man oft ekki hvort ég hef tekið einhver hús fyrir eða ekki sl. 3 árin hér á síðunni. En við skoðun á myndasafninu mínu sá ég eitt hús sem ég myndaði fyrir rúmum tveimur árum síðan og ekki hefur fengið umfjöllun hér- lent á milli skips og bryggju ef svo mætti segja. En það er hið 83 ára gamla steinsteypuhús við Aðalstræti 8.
En á þessari lóð, sem stendur í kjafti Búðargils á horni Aðalstrætis og Lækjargötu hafa staðið mörg hús, það fyrsta líklega reist fyrir aldamótin 1800. Alltént sést hús á uppdrætti frá 1808 á þessari lóð. Nýtt hús var byggt á lóðinni 1836, kallað Möllershús en það brann 1901 í einum Bæjarbrunanna. Húsið sem reist var 1902 á grunni þess húss var tvílyft timburhús en það reisti séra Geir Sæmundsson. Séra Geirshús brann hins vegar grunna 1929 og náði því sama aldri og Jimi Hendrix, Jim Morrisson, Kurt Cobain og Amy Winwhouse þ.e. 27 ára! En húsið sem sést á myndinni reisti sonur Geirs, Jón Pétursson Geirsson árið 1929. Það er tvílyft steinsteypuhús með háu risi á nokkuð háum kjallara. Á suðurgafli hússins er forstofubygging, hvort hún er seinni tíma viðbygging eða frá upphafi er mér hins vegar ókunnugt um. Uppi á henni eru svalir með skrautlegu, steyptu handriði. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, lengst af með tveimur íbúðum hvor á sinni hæð en má vera að þær hafi einhvern tíma verið fleiri. Einhvers staðar minnir mig að ég hafi lesið að á meðan Seinni Heimstyrjöldinni stóð hafi þetta hús hafi verið eitt þeirra húsa þar sem bæjarbúar áttu að leita skjóls ef loftvarnarmerki heyrðust. Þannig að húsið hefur líkast til verið talið afar rammgert. Sem það eflaust er, kjallaraveggir virðast allavega þykkir. Húsið hefur alla tíð fengið gott viðhald og er í góðri hirðu, sem og víðlend lóð bakvið húsið. Nú eru að ég held þrjár íbúðir í húsinu. Þessi mynd er tekin þann 31.júlí 2010 í stórskemmtilegri Sögugöngu um Innbæinn. Leiðsögumaður var Gísli Sigurgeirsson og fjöldi þátttakenda hljóp á tugum og gott ef þeir losuðu ekki hundraðið.
Bloggar | Breytt 26.10.2012 kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2012 | 22:48
Hús dagsins (nr. 169): Norska húsið, Stykkishólmi.
Síðustu tvo mánuði hef ég birt hér pistla um nokkur gömul og glæsileg hús á Ísafirði þar sem ég dvaldi daglangt í sumar. Það er hins vegar alveg á hreinu að Ísafjörður verðskuldar alveg heila síðu á borð við þessa hér enda þar miklar torfur gamalla og sögufrægra húsa og mikilla menningarverðmæta. En nú berum við niður í Stykkishólmi þar sem ég leit við daginn eftir. Húsið á myndinni kallast Norska húsið en það er reist árið 1832 sem íbúðarhús af Árna Thorlacius kaupmanni og mun það vera innflutt frá Arendal í Noregi. Er það tvílyft timburhús, hlaðið úr láréttum stokkum eða bjálkum, með söðulþaki á lágum grunni. Það er mjög svipað því byggingarlagi sem almennt tíðkaðist í stærri íbúðarhúsum í Noregi á þeim tíma; undir nýklassískum stíl, en nokkuð stærra og veglegra en gekk og gerðist með íbúðarhús hér. Einhvern tíma skyldist mér að Gamli Spítalinn, Aðalstræti 14 á Akureyri væri líkast til fyrsta tvílyfta íbúðarhúsið sem reis hérlendis. Það virðist ekki hafa verið rétt, því Norska húsið er þremur árum eldra en Gamli Spítalinn sem reistur var 1835! Húsið var í upphafi verslunar og íbúðarhús Árna Thorlaciusar en seinn meir var því skipt upp í fleiri íbúðir, herbergjaskipa og byggt við það og 1970 var það orðið heldur hrörlegt en þá keypti sýslunefnd Snæfells- og Hnappadalssýslu húsið og nokkrum árum seinna eða 1978 hófust á því gagngerar endurbætur, sem Hörður Ágústsson hafði umsjón með. Nú er að mestu búið að færa húsið til upprunans. Nú hefur Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla aðsetur í húsinu og þar m.a. krambúð, safn á efri hæð um kaupmannshjónin Árna Thorlacius og Önnu Magdalenu Steenback, en á neðri hæð er Æðarsetur Íslands. Þessi mynd af Norska húsinu er tekin 13.júlí 2012.
Heimild:
Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi. Reykjavík: Mál og Menning.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2012 | 19:49
Hús dagsins (nr. 168): Krókur 1
Fyrir um mánuði síðan skrifaði ég um húsið sem langalangalangafi minn, Jens Kristján Arngrímsson, járnsmiður og um tíma bæjarstjóri á Ísafirði reisti fyrir um 160 árum síðan. En húsið hér á myndinni stendur undir brekkurótunum þar sem Djúpvegurinn heldur áfram út Skutulsfjörðinn og áleiðis á Hnífsdal. Þetta er Krókur 1 en Krókur er lítil gata sem liggur upp af Túngötunni. Heitir hún eftir Króksbænum sem stóð á svipuðum slóðum, líkast til bakvið Krók 1.
Húsið er einlyft steinhús á lágum kjallara með háu risi það og stendur á dálítilli brekku upp af veginum. En Krók 1 byggði sonur Jens Kristjáns, Ásgrímur Kristjánsson (1877-1954) árið 1921 og bjó hann þar um árabil ásamt konu sinni Sigríði Friðriksdóttur (1874-1954) frá Bíldsey í Helgafellssókn á Snæfellsnesi. Hann stundaði sjóinn en vann síðar við ýmis verkamannastörf á Ísafirði en hún var húsmóðir hér að Króki. Þau heiðurshjónin í Króki voru semsagt langalangafi og langalangamma þess sem þetta ritar. Móðurafi minn, Hörður G. Adolfsson ólst upp í þessu húsi en hann er sonarsonur Ásgríms og Sigríðar. Samkvæmt honum er húsið lítið sem ekkert breytt frá því hann bjó þar (á 3. og 4.áratugnum). Forstofubyggingin hefur t.d. verið frá upphafi en ég var nokkuð viss þegar ég sá húsið að hún væri síðari tíma viðbygging. Umhverfið er að vísu talsvert breytt, gróðurinn meiri og sólpallurinn er reistur mun síðar- slík mannvirki voru lítt þekkt á fyrri hluta 20.aldar. Húsið er einbýlishús og hefur alla tíð verið. Húsið er í góðri hirðu og lítið sem ekkert breytt frá fyrstu gerð. Eins og fram hefur komið nokkuð greinilega hér í pistlinum og öðrum þá á ég ættir að rekja til Ísafjarðar. Þangað kom ég í fyrsta skipti nú síðasta sumar og varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Bærinn og allt umhverfi hans er einstaklega fallegt og heillandi. Þá er Ísafjörður algjört gósenland fyrir áhugamenn um gömul og skrautleg hús. Þá var alveg sérstaklega gaman að sjá bæði þetta hús sem og Smiðjugötu 2, þessi hús forfeðra minna, í svona góðri hirðu og svona vel útlítandi. Þessa mynd tók ég 12.júlí sl. en þá dvaldi ég ásamt fjölskyldunni dagpart á Ísafirði áður en haldið var aftur um Djúpið og yfir í Dalina. Á þessum stutta tíma náði ég að kíkja á gamla bæinn, í Neðstakaupstað og í hádegismat Tjöruhúsinu en hefði auðvitað gjarnan viljað dvelja lengur. En einhvern tíma kíkir maður aftur vestur- það er alveg á hreinu!
Bloggar | Breytt 24.5.2016 kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2012 | 19:42
Í stuði. 90 ár frá rafmagnsvæðingu Akureyrarkaupstaðar.
Fyrir mánuði síðan fagnaði Akureyrarkaupstaður 150ára afmæli sínu. En bærinn var rafmagnslaus í slétta 6 áratugi og mánuði betur- því 30.september 1922- fyrir 90 árum síðan- var rafmagni úr Glerárvirkjun hleypt á bæinn og bæjarbúar gátu nú allir sem einn lagt grútar- og olíuljósunum, kolavélunum og 60 kerta perurnar lýstu upp hvern krók og kima frá og með þeim degi. Eða ekki. Skv. 4.bindi Sögu Akureyrar e. Jón Hjaltason (2004) voru það fá heimili eða 36 sem nutu rafmagnstengingar og í ljósastaura sem reistir höfðu verið vantaði perur af réttri gerð. Auk þess mun rafmagnið hafa verið flöktandi fyrstu misserin- en Glerárvirkjun annaði svosem engan vegin raforkuþörf alls bæjarins. Og sú notkun var sennilega varla nema til ljósa og eldunar. En allavega, í dag eru 90 ár síðan Rafveita Akureyrar var tekin í notkun svo hér eru nokkrar "rafmagnaðar" myndir frá Akureyri og nágrenni. Saga Glerárvirkjunar og stöðvarhúss er svo aftur efni í annan pistil (Glerárvirkjun verður "Hús dagsins" eða "Mannvirki dagsins" hér von bráðar!).
Heimildir: Jón Hjaltason. 2004. Saga Akureyrar IV bindi 1918-1940; Vályndir tímar. Akureyri: Akureyrarbær.
Heimasíða Norðurorku: http://www.no.is/is/um-no/sagan/rafveitan
Glerárstífla. Hún var steypt 1921-22 og framleiddi rafmagn í nærri 4 áratugi en var í hvíld álíka lengi uns hún var endurræst 2005. Þessi mynd er tekin 20.desember 2006 í einhverri mestu asahláku sem komið hafði í áraraðir. Það gerist ekki oft að það flæði yfir yfirfallið vinstra megin á myndinni, en þarna er það á bólakafi. Rauða stálbrúin ofan á stíflunni var reist 1998 og var töluverð bylting fyrir gangandi umferð milli Glerárþorps og Brekku.
Þessi mynd er tekin 18.febrúar 2005 en þá var unnið að endurbyggingu Glerárstíflu. Hér er búið að leggja nýja vatnspípu frá stíflunni niður í stöðvarhús en fallhæðin er 15metrar. Vatnsaflsvirkjanir byggjast nefnilega á því að fallþungi vatnsins snýr hverflunum sem framleiða rafmagnið; því meiri fallhæð því meira afl. Þess vegna er æði vinsælt hjá rafmagnsframleiðendum að virkja til fjalla- en það er aftur afar óvinsælt hjá náttúruverndarfrömuðum!
Hér er stöðvarhús Glerárvirkjunar í endurbyggingu vorið 2005, en upprunalega stöðvarhúsið frá 1922 var rifið um 1980. Ég hélt ég ætti nú nýrri mynd af húsinu en þetta- en þegar ég fletti í gegn um myndasafnið var þetta eina myndin sem ég fann. Þannig að það er ljóst að ég þarf að mynda stöðvarhúsið uppá nýtt áður en ég tek það og virkjunina fyrir í "Húsum dagsins"...
Þessi mynd varð nú að fylgja með- þó það sé yfir hálf öld síðan dreifikerfi Akureyrarrafmagns fór að mestu leyti úr lofti ofaní jörð. En þessi staurastæða stendur skáhallt ofan Halllands í Vaðlaheiði, nokkurn vegin beint ofan fyrir ofan fyrirhugaðan gangnamunna Vaðalaheiðarganga og er ein af nokkur hundruð á Laxárlínu sem flytur rafmagn frá Laxárvirkjun til Akureyrar og hefur gert frá 1939. Þessi mynd er tekin í lok nóvember 2008.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síðustu vikur hef ég birt hér myndir og umfjallanir um eldri timburhús á Ísafirði en áður en við skiljum við Ísafjörð og höldum norður aftur er rétt að birta hér tvö stór og áberandi steinsteypuhús. En þegar komið er inní bæinn eftir Djúpvegi blasir Eyrartúnið við og þar stendur Gamli Spítalinn. Húsið er byggt 1923-25 eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar og er tvílyft steinsteypuhús með háu söðulþaki, fimm kvistum einum stórum með svölum í miðjunni. Þótti þetta ein vandaðasta sjúkrahúsbygging landsins þegar hún var vígð 17.júní 1925 og þjónaði húsið hlutverki sínu sem sjúkrahús í rúm 60ár eða til 1989 en var þá auvðitað löngu orðið ófullnægjandi nútíma kröfum. Árið 2003 var húsið gert að Safnahúsi en þar er nú bókasafn, héraðsskjalasafn aðstaða fyrir listsýningar og minningarstofur um Vilmund Jónsson landlækni og Guðmund G. Hagalín rithöfund. Hér er meiri fróðleikur um byggingarsögu hússins og sjúkrahúsa Ísafjarðar.
Við Hafnarstræti 2 við Silfurtorg stendur Bókhlaðan, mikið tvílyft steinsteypuhús með háu risi tveimur áberandi kvistum. Húsið var byggð 1928 eftir Aðalskipulagi Ísafjarðar frá 1927 en skipulagið var hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi en nokkrum mánuðum síðar var Aðalskipulag Akureyrarbæjar samþykkt. Húsið er stórglæsilegt og áberandi og setur mikinn svip á umhverfið og áberandi eru bogadregnar línur í kvistum. Þá stendur húsið á horni og liggur í mjúkum boga meðfram Silfurtorginu. Það kæmi mér ekki á óvart að húsið væri eitt það mest myndaða á Ísafirði. Ég kíkti einmitt inní þessa verslun á göngu minni um Ísafjörð 12.júlí sl. En húsið var semsagt byggt fyrir Bókhlöðuna, bókaverslun Jónasar Tómassonar, sem stofnuð var 1920, og hefur því verið starfrækt bókaverslun í þessu húsi frá upphafi. Í meira en 80 ár var rekstur Bókhlöðunnar í höndum sömu fjölskyldu. Enn er rekin bókaverslun í þessu húsi, nú undir merkjum Eymundsson. Ég kíkti þarna inn á göngu minni um miðbæ Ísafjarðar 12.júlí í sumar. Erindið var að athuga með nýtt minniskort í myndavélina: Þannig var nefnilega mál með vexti að þarna eru svo mörg skrautleg og áhugaverð hús að plássið sem ég átti eftir á kubbnum rúmaði engan vegin allar þær húsamyndir sem ég hugðist taka- því svo átti ég eftir að mynda í fjörðunum í Djúpinu! En þó ég þræddi flestar ef ekki allar bóka- og ljósmyndabúðir Ísafjarðar náði ég ekki að finna passandi kort, xD fyrir Olympus (það voru aðeins til sD).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2012 | 20:44
Hús dagsins (nr. 166): Smiðjugata 2
Smiðjugata er stutt og þröng gata neðarlega á eyrinni sem gamli bærinn á Ísafirði stendur á. Hún er næst ofan Tangagötu og gengur milli Skipagötu og Silfurgötu og sker á leiðinni Þvergötu. Hún er talsvert styttri en Tangagata og Sundstræti. En neðst við götuna stendur húsið sem hér sést til hliðar en það er Smiðjugata 2. Húsið reisti Jens Kristján Arngrímsson járnsmiður árið 1853. Húsið er lítið breytt frá fyrstu gerð a.m.k. að utan en húsið er einlyft timburhús með háu risi á lágum kjallara. Jens Kristján eða Kristján eins og hann var jafnan kallaður bjó í húsinu ásamt fjölskyldu sinni og hafði þar einnig járnsmiðju. Líklega hefur húsið verið fyrsta húsið við götuna eða allavega gatan verið nafnlaus því nafnið Smiðjugata er dregið af járnsmiðju Kristjáns. Jens Kristján var einn fjögurra helstu hvatamanna Ísafjarðarbúa við að aðskilnað frá Eyrarhreppi. Þetta var um svipað leyti og Akureyri fékk kaupstaðarréttindi eða 1862. Hinir þrír voru Hinrik Sigurðsson, Hjálmar Jónsson og Lárus Snorrason og voru þeir ásamt Kristjáni fyrsta bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, en þeir töldust þó ekki löglega kjörnir en lögleg bæjarstjórn var kosin 1866 þegar bærinn fékk kaupstaðarréttindi. En Jens Kristján var kjörinn bæjarstjóri í þessari bráðabirgða bæjarstjórn- og telst því fyrsti bæjarstjóri Ísafjarðar. Margir hafa búið í þessu húsi frá því á dögum Jens Kristjáns járnsmiðs og bæjarstjóra en hann lést 1898. Jens Kristján eignaðist 10 börn með fjórum konum, en aðeins fimm þeirra lifðu fram á fullorðinsár. Afkomendur Kristjáns eru þó orðnir mjög margir og er ég einn þeirra. Sonur hans, Ásgrímur Kristjánsson var fæddur 1.október 1877, sennilega í þessu húsi, en hann var langalangafi minn. Húsið er í mjög góðri hirðu og lýtur stórglæsilega út sem og allt umhverfi þess. Myndin er tekin 12.júlí 2012.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.9.2012 | 20:57
September kemur á óvart!
Svona fréttum og fréttamyndum man ég vel eftir árið 1991, þegar Stauraveðrið svokallaða gekk yfir landið. Þá brast á mikill norðanhvellur, og hiti rétt við frostmark þannig að mikil bleyta fylgdi með og ísing sligaði margar háspennulínur. Það vill nefnilega svo til að eðlismassi frosins vatns er um 0,92 g/ rúmsentimetrar og þ.a.l. er einn rúmmeter 920kg. Og það safnast þegar saman kemur tugir kílómetra af raflínum- þá verða rúmmetrarnir og þ.a.l. tonnin ansi mörg! T.d. er mér minnisstæð staurastæða Laxárlínu við Eyjafjarðarbraut Eystri, skammt norðan Ytra-Gils kubbuð í sundur og þarna varð rafmagnslaust um meira og minna allan Eyjafjörð- og víðar að mig minnir dögum saman. Olli miklum baga víða þar sem mjaltavélar stoppuðu og hús hituð með rafmagni urðu köld. En þetta var í byrjun í janúar sem er e.t.v. mun "eðlilegri" árstími fyrir svona hvelli. Að svona áhlaup komi í fyrrihluta september er óneitanlega sérstakt, t.d. borið saman við 2010 var hlýjasta helgi sumarsins í byrjun þessa sama mánaðar og oft hangir hitastigið í tveggja stafa tölu stóran hluta mánaðarins. Og ég hef margoft lýst þeirri skoðun hér að september sé einn sumarmánaðanna og ekki tímabært að tala um haust fyrr en um eða eftir miðjan mánuðinn í fyrsta lagi! En haustlægðir í september geta orðið ansi öflugar- en þessari fylgdi kannski meiri kuldi en oftast. Því fellur þessi haustrigning sem slydda. September og maí, mánuðurnir sem ég segi að skilji sumarið frá vetrinum sitt hvoru megin eru sennilega þeir mánuðir sem hægt er með réttu að kalla sýnishornamánuði; allt veður frá 20stiga hita og sól og snjóbylur geta nefnilega átt sér stað í þeim mánuðum.
![]() |
Brotnir eins og eldspýtur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2012 | 18:21
Hús dagsins (nr.165) : Túngata 3
Ég skrifaði hér fyrr í sumar að ég myndi vera með "Ísafjarðarþema" í Húsum dagsins í ágúst. Enn þó kominn sé september þá mun ég halda áfram með nokkra Ísafjarðarpistla. Þetta hús stendur dálítið ofar en húsin sem ég hef skrifað um en þau standa í Neðstakaupstað, við Silfurgötu eða niðri á Bökkum. En þetta stórglæsilega hús stendur við Túngötu 3 og er það reist árið 1930 á þessum stað eftir teikningum Jóns H. Sigmundssonar. Húsið var upprunalega byggt við Hattareyri við Álftafjörð um aldamótin af norskum síldveiðimönnum en tekið niður 1930 og aftur byggt á þessum stað. Þá var húsið stækkað og bætt á það tveimur kvistum. En húsið er einlyft timburhús á háum steinsteyptum kjallara með háu portbyggðu risi og tveim samliggjandi miðjukvistum. Er húsið bárujárnsklætt og hefur líkast til verið svo frá upphafi. Húsið er kallað Grímshús (eða Grimsby) eftir Grími Kristgeirssyni rakara sem bjó hér um miðja öldina. Hann var faðir forseta Íslands, Hr. Ólafs Ragnars Grímsson og mun hann fæddur í þessu húsi. Túngata 3 er í góðu ástandi og til mikillar prýði en það er nokkuð áberandi við Eyrartúnið líkt og mörg húsin við Túngötuna. Þessi mynd er tekin 12.júlí sl.
Heimild:
Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi. Reykjavík: Mál og Menning.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.5.): 33
- Sl. sólarhring: 33
- Sl. viku: 213
- Frá upphafi: 446872
Annað
- Innlit í dag: 20
- Innlit sl. viku: 159
- Gestir í dag: 18
- IP-tölur í dag: 18
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar