Hús dagsins: Strandgata 3 (og forverar á lóð)

Eitt stærsta hús Miðbæjarins stendur næstefst við Strandgötu,P1190957 austan við Landsbankahúsið. Segja má, að húsið standi við fjórar götur, því að vestanverðu liggur húsið við Túngötu (efsta þvergatan norður úr Strandgötu), austurhliðin að Geislagötu og bakhliðin að Bankastíg. Síðasttalda gatan tengir saman Túngötu/Hólabraut við Geislagötu, framan við Geislagötu 5, sem um áratugaskeið hýsti Búnaðarbankann og arftaka hans. Um er að ræða Strandgötu 3. Húsið er eitt það yngsta við Strandgötuna og er byggt á árunum 1998-2000 af SS-Byggi en húsið var teiknað á Úti-Inni Arkitektastofu af Baldri Ólafi Svavarssyni.

Húsið er í stórum dráttum þrjár álmur, suðurálma er sex hæðir (sjö hæða turn) með flötu þaki en norðurálma er þrjár hæðir, einnig með flötu þaki. Álmurnar tengjast með einlyftri byggingu, sem er bogadregin meðfarm horni Strandgötu og Túngötu. Undir húsinu er bílastæðakjallari og stendur innkeyrsluhús, þríhyrnd steinsteypt bygging með grasi á þekju skammt vestan norðurálmu. Veggir eru múrhúðaðir og gluggar flestir póstlausir, dúkur á þaki. Á efri hæðum suðurálmu eru fjórar svalir á hverri hæð, til NA og SV. Húsið er á að giska um 25 m hátt.

Nú er sá sem þetta ritar í þeirri stöðu, að muna vel byggingu hússins og aðdraganda þess. Minnist síðuhafi þess, að hafa fyrst séð minnst á hugmyndina um sex hæða stórhýsi við Ráðhústorg í einhverjum kosningabæklingi fyrir sveitarstjórnarkosningar vorið 1998. Ekki voru menn á eitt sáttir við þessar hugmyndir- eins og oft vill verða þegar reisa á stórhýsi í rótgrónum hverfum. Um það leyti var á þessum slóðum plan eða bílastæði, sem hjólabrettakappar nýttu mikið og vinsælt að safnast þarna saman. Þarna hafði áður staðið lítið einlyft timburhús, sem hýsti Nætursöluna, en það hús var rifið snemma á 10. áratugnum. Þá var þarna afgreiðsla Bifreiðarstöðvar Akureyrar, sem Kristján Kristjánsson reisti á þriðja áratugnum en það hús var flutt af þessum stað áratugum fyrr. Strandgata 3 er nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð. Húsið hefur hýst hina ýmsu starfsemi, t.d. var á fyrstu hæðum hússins veitingastaður að nafni Gleðibankinn. Hann var allt í senn, vídeóleiga, skyndibitastaður og spilakassasalur; sannkallaður Gleðibanki. Á götuhæð eru nú afgreiðsla Sjóvá-Almennra í suðurálmu, afgreiðsla Póstsins norðanmegin í norðurálmu og verslun Símans vestanmegin í „milliálmu“. Á efri hæðum  eru skrifstofur m.a. lífeyrissjóða en íbúðir eru á efri hæðum suðurálmu. Húsið er, vegna stærðar sinnar, mjög áberandi kennileiti í Miðbænum. Það er sagt, í Húsakönnun 2014, hafa gildi fyrir Ráðhústorgs og nágrennis og standa á áberandi stað í Miðbænum. Það er þó ekki talið hafa verulegt varðveislugildi, enda á það sjaldnast við um byggingar á þrítugsaldri. Myndin er tekin 19. janúar 2020, horft til suðvesturs af Geislagötu.   

Núverandi hús er svosem ekki fyrsta stórhýsið á lóðinni. Fyrsta húsið sem reis á þessum slóðum var tvílyft timburhús á háum kjallara og með háu risi og þremur burstum. Það hús var eitt af stærstu húsum Oddeyrar á þeim tíma og kallaðist Hornhúsið eða Horngrýti, en það byggðu þeir Kolbeinn Árnason og Ásgeir Pétursson árið 1905. Þeir fengu leyfi til að reisa hús, „16x26al. [ca.10x16,3m] með útskotum á báðum framhliðarhornum, 1 al. [63cm] til hvorrar hliðar. Þetta glæsta hús stóð einungis í hálft annað ár, því að kvöldi 18. október 1906 kom upp eldur í húsinu sem fyrir tilstilli óhagstæðrar vindáttar og frumstæðra brunavarna breiddist út til næstu húsa og brunnu þau öll til ösku. Er þessi stórbruni jafnan kallaður Oddeyrarbruninn. Á þessari mynd sést Hornhúsið á Strandgötu 5, h.u.b. fyrir miðri mynd.

Í marsbyrjun 1907 fékk Jón nokkur Norðmann leyfi til þess að endurbyggja húsið.P5170978 Hugðist hann reisa það á grunni Hornhússins en nefnd gat ekki orðið við því þar sem ákveðið hafði verið að færa götulínuna. Reisti Jón veglegt timburhús með háu risi og miðjukvisti en mjög fljótlega keypti Ragnar Ólafsson, kaupmaður og athafnamaður húsið og átti það lengi á eftir. Í húsinu voru íbúðir, ýmsar verslanir, m.a. Leðurvörur, útibú Búnaðarbankans og sápubúð á fyrri hluta 20. aldar. Hús þetta stendur enn og er það með víðförlari húsum, því tvisvar hefur það verið flutt. Upp úr 1970 var það flutt að Lónsá í Glæsibæjarhreppi, um 5 km leið og fékk þar nefnið Berghóll. Um 2015 var það svo aftur flutt, aðra 5 km út á Moldhaugaháls, þar sem það mun nú nýtt sem aðstaða fyrir starfsmenn malarnáma á svæðinu.

Hér má sjá umrætt hús, sem Jón Norðmann reisti á Strandgötu 5 árið 1907 og stóð þar í rúm 60 ár. Nú stendur það á Moldhaugahálsi, skammt norðan og ofan við bæinn Moldhauga, um 9 km frá miðbæ Akureyrar.   

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 282, 23. des. 1904. Fundur nr. 283, 12. jan. 1905. Fundur nr. 324. 2. mars 1907 . Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


Hús dagsins: Hvoll í Glerárþorpi (Stafholt 10)

Fyrir réttum áratug (19. apríl) og degi betur birti ég mynd af Hvoli í Glerárþorpi ásamt nokkrum öðrum af gömlu býlum Glerárþorps. Ekki var umfjöllunin löng, aðeins fáeinar setningar. Hér er öllu ítarlegri grein um hið látlausa og geðþekka, hátt í 12 áratuga gamla timburhús ofan Sandgerðisbótar. Heimildir um Glerárþorpsbýlin eru að mörgu leyti takmarkaðri og óaðgengilegri heldur en um húsin á t.d. Oddeyri, Innbænum og Brekkunni. Ég hef ekki fundið skipulagðar húsakannanir um þau, líkt og til eru um hin hverfin- en mögulega eru þær til þó ég hafi ekki vitneskju um það. Glerárþorpsbýlanna er ekki getið í Byggðum Eyjafjarðar enda töldust þau fæst til fullgildra býla samkvæmt hefðbundnum skilgreiningumog gögn Bygginganefndar Akureyrar fyrir 1955 ná ekki yfir Glerárþorp- einfaldlega vegna þess að það var ekki hluti Akureyrar fyrir þann tíma. Ein ítarlegasta heimildin er grein Lárusar Zophoníassonar, Glerárþorp- 100 ára byggð, sem birtist í tímaritinu Súlum árið 1980. 

Hvoll  stendur við götuna Stafholt, lítið eitt vestan við Krossanesbraut,PB130488 vestan og ofan Sandgerðisbótar. Húsið mun eitt elsta uppistandandi hús í Glerárþorpi, að Lögmannshlíðarkirkju undanskilinni, byggt um 1905.

Hvoll er einlyft timburhús með háu risi og á lágum grunni. Á austurstafni er viðbygging með aflíðandi einhalla þaki og inngönguskúr að framanverðu. Húsið er allt bárujárnsklætt, nema hvað inngönguskúr er timburklæddur. Þverpóstar í gluggum.

Heimildum ber raunar ekki saman um hvenær húsið er byggt, í bókinni Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs er húsið sagt byggt 1902 en í grein Lárusar Zophoníassonar um byggðasögu Glerárþorps, sem birtist í tímaritinu Súlum (10. árg., 1980) er húsið sagt byggt 1905. En þann 22. mars það ár mun Jakob nokkur Sigurgeirsson hafa fengið leyfi til að reisa þarna þurrabúð. Jakob var fæddur í Vindhælishreppi í Húnavatnssýslu árið 1859 og vann m.a. sem matsveinn á skipum. Ekki fylgja lýsingar á þurrabúðinni og engar teikningar finnast af húsinu á kortavef Akureyrar. Höfundur getur sér til, að vesturhluti hússins, sá með háa risinu sé elsti hluti hússins. Höfðu þau Jakob og Pálína verið í húsmennsku í tvö ár á Melstað, sunnar í Glerárþorpi.

 Í Manntali 1910 eru fjórir einstaklingar skráðir til heimilis á Hvoli í Lögmannshlíðarsókn, fyrrgreindur Jakob, kona hans Pálína Einarsdóttir, Njáll sonur þeirra og leigjandi að nafni Steinmóður Þórsteinsson. Pálína var framan úr Saurbæjarhreppi, nánar tiltekið frá Ytri- Villingadal. Bjuggu Jakob (d. 1926) og Pálína (d.1948) á Hvoli til dánardægurs og Njáll sonur þeirra um langt árabil eftir þeirra dag. Þannig var Hvoll í eigu sömu fjölskyldu um áratugaskeið. Þegar Glerárþorp var lagt undir lögsagnarumdæmi Akureyrarkaupstaðar tók fljótlega að myndast þéttbýli. Uppbygging þéttbýlis hófst syðst og austast, Holta- og Hlíðahverfi. Síðu- og Giljahverfi byggðust löngu síðar. Gömlu býli Þorpsins fengu öll númer við götur hverfana, og varð Hvoll nr. 10 við Stafholt.

Hvoll er í afbragðs góðri hirðu og til mikillar prýði, og sama er að segja af umhverfi þess. Það stendur á áberandi og skemmtilegum stað, á hól ofan Stafholts skammt frá Krossanesbraut, sem er ein af stofnbrautum hverfisins. Umhverfis húsið og neðan þess er gróskumikill asparlundur. Hús á borð við Hvol, gömul býli í nýrri hverfum, setja ævinlega skemmtilegan svip á umhverfið og hef ég áður lýst þeirri skoðun, að slík hús ættu að njóta varðveislugildis eða friðunar. Hvoll er væntanlega aldursfriðað skv. lögum nr. 80/2012 um menningarminjar, þar eð það er orðið 100 ára gamalt. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 13. nóvember 2016.

Heimildir: Lárus Zophoníasson.1980. „Glerárþorp – 100 ára byggð“. Súlur X. árg. (bls. 3-33)

Steindór Steindórsson. (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


Hús dagsins: Ráðhús Akureyrar (Geislagata 9, gamla Slökkvistöðin)

Aðsetur bæjarstjórnar og stjórnsýslu Akureyrarbæjar, m.ö.o. Ráðhús bæjarins erPB010971 að Geislagötu 9. Húsið er eina hús Geislagötu norðan Gránufélagsgötu og stendur á móts við Sjallann. Vestan hússins eru bakgarðar húsa við austanverða Laxagötu og nokkurn spöl norðan Ráðhússins er Akureyrarvöllur. Austan hússins er Glerárgata. Húsið er reisulegt steinsteypuhús á fjórum hæðum og kjallara, með háu valmaþaki, byggt árin 1949-66, auk viðbyggingar frá árinu 2000, eftir teikningum Eiríks Einarssonar og Sigurðar Guðmundssonar. Þá er viðbygging á einni hæð með flötu þaki að vestanverðu, byggð eftir teikningum Svans Eiríkssonar. Efsta hæð er örlítið inndregin og slúttir þakbrún langt úr fyrir veggi. Gluggar eru með skiptum þverpóstum. Þakdúkur og bárujárn er á þaki og veggir eru múrhúðaðir.

Það var á fundi bæjarstjórnar þann 6. júlí 1948, að samþykkt var að reisa nýja slökkvistöð. Skyldi henni valinn staður við vestanverða Geislagötu, norðan við Verslunarmannahúsið [Gránufélagsgata 9, rifin 1981] og skyldi húsið verða veglegt, þriggja til fjögurra hæða og með skrifstofum á efri hæðum.  Það var hins vegar ekki fyrr en ári síðar, eða 29. júlí 1949, að bygginganefnd samþykkti, eftir tillögu bæjarstjórnar, fyrir sitt leyti byggingarleyfi fyrir nýju slökkvistöðinni. Ekki hafði nefndin um það fleiri orð, en þess má geta, að í þessum sama dagskrárlið fundarins samþykkti nefndin einnig byggingu Sjúkrahússins (FSA) og viðbyggingar við Barnaskólann. Í janúar 1950 er sagt frá í Degi, að á nýliðnu ári hafi hinar ýmsu stórbyggingar verið í smíðum, áðurnefnt sjúkrahús, sundlaugarbyggingin, heimavist MA og slökkvistöðin Það mun hafa verið í ársbyrjun 1953, að slökkviliðið flutti inn í hið nýja hús, sem þá var aðeins fyrsta hæðin. Jafnframt hófst þá sólarhringvakt útkallsliðs slökkviliðsins. Skömmu áður, eða í 3. ágúst 1952 hafði Náttúrugripasafn Akureyrar verið opnað almenningi í „Nýju Slökkvistöðinni“.  Árið 1959 var hafist handa við byggingu efri hæða hússins og sjö árum síðar var húsið fullgert. Um haustið 1966 taldist húsið svo fullnýtt þegar Rafveita Akureyrar fluttist í húsið. Var hún á þriðju hæðinni ásamt tæknideild bæjarins, bæjarskrifstofur og skrifstofa bæjarstjóra á annarri hæð og fundarsalur og kaffistofa á fjórðu hæð.

Slökkvilið bæjarins hafði aðsetur á jarðhæð hússins í rétt 40 ár en núverandi slökkvistöð Akureyrar, við Þórsstíg á norðanverðri Oddeyri var tekin í notkun 1993. Um 1998 var byggt við húsið til vesturs, ein hæð með flötu þaki og fékk húsið það lag sem það nú hefur. Að utanverðu er Ráðhúsið að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð, en eins og nærri má geta hefur innra skipulagi þess oftsinnis verið breytt og bætt í samræmi við kröfur um aðstöðu og aðgengi. Þegar húsið er skoðað á kortavef Akureyrar birtast um 140 mismunandi teikningar (upprunalegar teikningar þó ekki þar á meðal). Fyrir rúmum áratug eða svo var t.d. inngangi og anddyri breytt og fast við fyrri inngöngudyr, við stigahúsið, var sett lyfta. Er hún öll glerjuð, svo lyftuferð á efri hæðir hússins jafngildir nokkurra sekúndna „útsýnistúr“ yfir Oddeyrina. 

Ráðhúsið, eða gamla Slökkvistöðin, er eitt af helstu kennileitum Oddeyrar og Miðbæjarsvæðisins, ásamt Sjallanum, JMJ-húsinu og Hótel Norðurlandi svo fáein séu nefnd, á þessum slóðum. Í Húsakönnun 2014 er Ráðhúsið sagt hafa gildi fyrir umhverfi sitt sem reisuleg bygging á áberandi stað, og menningasögulegt gildi þess verulegt sem Ráðhús bæjarins. Kannski friðun hússins væri æskileg...?

Myndin er tekin 1. nóvember 2020.

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1948-1957. Fundur nr. 1112, 29. júlí. 1949. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

Jón Hjaltason. 2016. Bærinn brennur. Akureyri: Völuspá útgáfa.


Gleðilega páska

Óska ykkur öllum, nær og fjær gleðilegra páska.laughingcool

Páskamyndin í ár er tekin við mót Grænásbrautar og Skógarbrautar á Ásbrú í Reykjanesbæ, sl. miðvikudag, 31. mars og sýnir m.a. Fagradalsfjall. Það sem virðast vera skýjabólstrar fyrir miðri mynd er í raun gosmökkur úr Geldingadölum. Í góðu skyggni má sjá rjúka úr fjallinu líkt og úr skorsteini.

P331001 


Hús dagsins: Sandvík í Glerárþorpi (Lyngholt 30)

Sandvík stendur um skammt  sunnan og ofan Sandgerðisbótar og er númer 30 við götunaP5220054 Lyngholt.  Húsið byggði Kristján Jósefsson trésmiður og síldarmatsmaður árið 1929. Hann var Þingeyingur, fæddur að Ytri-Leikskálaá í Þóroddsstaðasókn.

Sandvík er reisulegt einlyft steinhús á háum kjallara (aðeins niðurgrafinn öðru megin þar eð húsið stendur í brekku) og með miðjukvisti. Á norðurstafni er útskot, lítið eitt lægra en húsið, hornsneitt með risi. Krosspóstar eru í gluggum, timburklæðning á veggjum og  bárujárn á þaki. Ekki liggur fyrir hver teiknaði húsið, en það er af nokkuð dæmigerðri gerð stærri steinsteyptra íbúðarhúsa frá fyrri hluta 20. aldar.

Þegar steinhúsið á Sandvík var byggt var það með þeim stærri og veglegri í Þorpinu, ekki ósvipað húsum við t.d. Munkaþverárstræti og Eyrarlandsveg, á Akureyri. Glerárþorp var þá þyrping smábýla og tilheyrði Glæsibæjarhreppi. Sjaldnast var um stórbúskap að ræða á býlum Glerárþorps, enda lönd fæstra þeirra það víðlend, að þau gætu framfleytt miklum bústofni.  En ekki fara endilega saman magn og gæði og ekki allt fengið með því fyrrnefnda einu og sér. Síðuhafa er ekki kunnugt um skepnuhald á Sandvík (Glerárþorpsbýlin eru ekki á síðum bókanna góðu, um Byggðir Eyjafjarðar) en vafalítið hafa þar verið fáeinar kindur, kýr og hænsni.  Eftir að Þorpið var lagt undir Akureyri hófst þar uppbygging þéttbýlis, þ.á.m. við göturnar Lyngholt og Steinholt. Var þá búskap, hversu smár eða stór sem hann var í sniðum, sjálfhætt. Býlin fengu flest númer við hinar nýju götur, og varð Sandvík hús númer 12 við Steinholt.   Árið 1976 var götuheitunum breytt og Steinholt lagt niður. Þau hús, sem staðið höfðu við Steinholt fengu þannig ný númer við Lyngholt. Sandvík eða Steinholt 12, varð Lyngholt 30.

Áðurnefndur Kristján Jósefsson, sem byggði húsið lést 1951, en sonur hans, Jósep og tengdadóttir Guðrún Jóhannesdóttir bjuggu þar áfram um áratugaskeið. Jósep Kristjánsson, eða Jósep í Sandvík var mikilvirkur myndlistarmaður og var annálaður fyrir landslagsmálverk. Eflaust státa fjölmörg heimili af einhverju verka Jóseps í Sandvík uppi á veggjum.

Sandvík er reisulegt hús og í góðri hirðu. Það var gert upp af mikilli vandvirkni og natni um 1995, m.a. klætt upp á nýtt og er síðan allt hið glæstasta. Voru þær framkvæmdir eftir teikningum Aðalsteins V. Júlíussonar. Umhverfi hússins er einnig mjög snyrtilegt, gróskumikið og í góðri hirðu. Þá stendur húsið á skemmtilegum stað og blasir við hverjum þeim sem leið eiga um Krossanesbrautina til norðurs. Eðlilega mynda býlin gömlu í Glerárþorpi ekki heildstæðar götumyndir, heldur standa á víð og dreif, innan um yngri byggð. Við götuna Lyngholt standa nokkur gömul býli auk Sandvíkur, m.a. Kristnes, Bergstaðir og Lyngholt, sem gatan dregur nafn sitt af. Um varðveislugildi býlana í Glerárþorpi er síðuhafa ókunnugt um, en að hans áliti ættu þau öll að njóta varðveislugildis- ef ekki friðunar. Myndin er tekin þann 22. maí 2011.

Heimildir: Lárus Zophoníasson.1980. „Glerárþorp – 100 ára byggð“. Súlur X. árg. (bls. 3-33)


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2021
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30  

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 45
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 202
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband