28.5.2020 | 18:06
Hús dagsins: Hólabraut 16
Hólabraut 16 er íbúðar- og verslunarhúsnæði, byggt í áföngum 1945-53 af þeim Eyþóri og Guðmundi Tómassonum. Þá var byggt við húsið 1986 og 2014. En árið 1945 fékk Guðmundur Tómasson leyfi til að reisa íbúðarhús á lóð sinni við Hólabraut. Um var að ræða hús úr steinsteypu með steingólfum og járnklæddu valmaþaki úr timbri, tvær hæðir á lágum kjallara, 15x8,8m að grunnfleti auk útbyggingar að austan 8x6,3m. Bygginganefnd setti hins vegar ófrávíkjanlegt skilyrði, að steinþak væri á húsinu. Og árið 1948 mun húsið hafa verið fullbyggt, þ.e. elsti hluti þess. Guðmundur gerði sjálfur teikningarnar að fyrsta áfanga hússins. Það var hins vegar í júlí 1953 sem Eyþór fær, fyrir hönd súkkulaðiverksmiðjunnar Lindu leyfi til að reisa 2 hæða álmu að stærð 14x8m á austur og suðurtakmörkum lóðarinnar Hólabrautar 16. Árið 1949 hafði Eyþór nefnilega stofnað hina valinkunnu súkkulaðiverksmiðju í húsinu og eðlilega þurfti starfsemin að stækka við sig. Var þá byggt við húsið til austurs og suðurs, líkt og fram kemur í byggingalýsingum og var sá hluti hússins með háu valmaþaki. Teikningarnar að þeirri álmu gerði Snorri Guðmundsson.
Hólabraut 16 er tvílyft steinsteypuhús með flötu þaki og háu valmaþaki að hluta. Syðst og vestast er einlyft útbygging með svölum á þekju. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki. Einfaldir póstar eru í gluggum en verslunargluggar á suðurhluta neðri hæðar.
Súkkulaðiverksmiðjan Linda var starfrækt hér allt til ársins 1962 að hún flutti í nýbyggt stórhýsi utar á Oddeyrinni þ.e. við Hvannavelli (sjá mynd hér að neðan) sem síðan er þekkt sem Linduhúsið. En þeir bræður frá Bústöðum í Austurdal í Skagafirði, Eyþór og Guðmundur Tómasson starfræktu á tímabili hvor sína verksmiðju, þ.e. kexverksmiðjuna Lorelei og Súkkulaðiverksmiðjuna Lindu. Eyþór Tómasson (1906-1988) var ævinlega kallaður Eyþór í Lindu og var hann mikils metinn athafnamaður hér í bæ. Líkt og oft vill verða með slíka heiðursmenn var hann einnig mikill karakter og mörg fleyg orð eftir honum höfð. Hann mun t.d. hafa fullyrt að ekki væru allir peningar til fjár og inntur eftir hvað hann hafði fengið í hádegismat mun hann hafa svarað af bragði þetta voru bölvaðar sellur [gellur]. Árið 2009 kom út bókin Kvistagöt og tréhestar eftir Jón Hjaltason (sjá heimildaskrá), en hún er safn af kímni- og gamansögum af hinum ýmsu nafntoguðu heiðursmönnum á Eyjafjarðarsvæðinu. Þar er m.a. að finna kafla um Eyþór í Lindu. Mælir greinarhöfundur eindregið með þeirri lesningu- og raunar téðri bók í heild sinni. Sælgætisgerðina Lindu þarf vart að kynna fyrir lesendum, eða Lindubuffin, Ískexið og Lindukonfektið sem landsmenn hafa maulað sl. áratugi við mörg tækifæri. Enn eru mörg vörumerki Lindu framleidd en verksmiðjan sameinaðist Góu í Hafnarfirði árið 1993. Linda er nefnd í hinu sígilda Vor Akureyri, texta Kristjáns frá Djúpalæk við erlent lag, sem Hljómsveit Ingimars Eydal gerði ódauðlegt árið 1968.
Við höfum Lindu/ Við höfum KEA
Og heilsudrykkinn Thule, Amaro og SÍS.
Síðastliðna áratugi hefur verslun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins eða í daglegu tali manna Ríkið verið starfrækt á neðri hæð hússins en íbúð er á efri hæð. Árið 1986 var byggt við húsið til suðurs, anddyri verslunar og svalir ofan á og um 2014 var byggt við verslunarhúsnæðið til austurs. Húsið sem slíkt er ekki talið hafa varðveislugildi en tekur þátt í götumynd Hólabrautar sem talin er varðveisluverð. Hólabraut 16 er í mjög góðri hirðu, enda hefur tiltölulega nýlega verið byggt við húsið. Hlaut húsið um leið hinar ýmsu endurbætur, auk þess sem því hefur líkast til alla tíð verið vel við haldið. Myndin af Hólabraut 16 er tekin þann 19. janúar 2020 en myndin af Linduhúsinu við Hvannavelli 14, er tekin fyrr í dag, 28. maí 2020.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1172, 17. júlí 1953.
Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Guðjón Ingi Eiríksson. 2018. Ekki misskilja mig vitlaust; misskilningur og ambögur. Reykjavík: Hólar.
Jón Hjaltason. 2009. Kvistagöt og tréhestar. Akureyri: Völuspá.
Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2020 | 13:29
Hús dagsins: Hólabraut 22
Hólabraut 22 munu þau Eiríkur Einarsson og Rut Ófeigsdóttir hafa reist árið 1947. Við yfirferð á bókunum bygginganefndar fann sá sem þetta ritar hvergi bókun sem átt gæti við Hólabraut 22. En húsið er byggt árið 1947 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar og það sama ár eru íbúar hússins skráðir téð Eiríkur og Rut.
Hólabraut 22 er steinsteypuhús af þeirri gerð sem algeng var um miðja 20. öld, tvílyft með lágu valmaþaki og horngluggum í anda funkisstefnunar. Útskot er á suðurhlið með áföstum svölum á efri hæð.
Þau Eiríkur og Rut höfðu áður verið bændur að Sveinsstöðum, Breiðagerði og Lýtingsstöðum áður en þau fluttu til Akureyrar. Þau byggðu fáeinum árum húsið að Laxagötu 7 en fluttu svo yfir bakgarðinn, ef svo mætti segja, því það hús stendur næst austan við Hólabraut 22. Eiríkur hafði um tíma umsjón með auglýsingum og afgreiðslu fyrir blaðið Íslending. Þannig birtast margir tugir niðurstaða á timarit.is fyrir heimilisfangið Hólabraut 22 á timarit.is, þar eð heimilisfangi Eiríks var getið í hverju blaði árin 1950-52. Eiríkur Einarsson mun hafa verið mikill hagyrðingur og hér má sjá nokkrar vísur eftir hann. Eiríkur lést langt fyrir aldur fram árið 1952, en Rut bjó áfram allt til dánardægurs, 1981. Hún mun hafa selt mönnum fæði heima m.a. námsmönnum. Slíkt var raunar ekki á óalgengt á áratugunum um og eftir miðja 20. öld, að húsmæður seldu mönnum fæði á matmálstímum; kostgöngurum sem kallaðir voru. Var enda lítið, svo ekki sé meira sagt, um skyndibitastaði eða hádegishlaðborð á þeim tíma. Margir hafa búið hér og átt húsið eftir tíð Eiríks og Rutar, en húsið hefur líkast alla tíð verið tvíbýli.
Hólabraut 22 er reisulegt og traustlegt hús í mjög góðri hirðu. Líkt og húsin austan Hólabrautar er það ekki talið hafa afgerandi varðveislugildi eitt og sér, en hluti heildar sem hefur nokkurt varðveislugildi. Tvær í búðir eru á húsinu, ein á hvorri hæð. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.
Heimildir:
Manntal á Akureyri (spjaldskrá) 1941-50. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2020 | 17:57
Hús dagsins: Hólabraut 20
Árið 1944 fékk Hallur Helgason leyfi til að reisa hús við Hólabraut, á tveimur hæðum með valmaþaki. Stærð hússins að grunnfleti 10x8,5m auk útskots að sunnanverðu 7,6x1,5m. Í bókunum bygginganefndar kemur fram, að Hallur hafi lagt fram uppdrátt frá Sverri Ragnars, en í Húsakönnun 2011 er hönnuður hússins sagður Guðmundur Gunnarsson. (Ómar Ívarsson 2011: án bls.) Upprunalegar teikningar eru hins vegar ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu, en þar má hins vegar finna burðarvirkisteikningar, dagsettar í júní 1944 og undirritaðar af H. Halldórssyni. (Sem er líklega Halldór Halldórsson, byggingafulltrúi).
Hólabraut 20 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki. Á suðurhlið er útskot og svalir á efri hæð og inngöngudyr og stétt í kverkinni á milli. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki.
Þegar þetta birtist eru rétt 75 ár síðan Hólabrautar 20 var fyrst getið á prenti, en það var þann 15. maí 1945, að Hallur Helgason auglýsti eftir stúlkum til starfa við síldarsöltun á Siglufirði það sumarið. Hallur Helgason, sem byggði Hólabraut 20, var fæddur hér í bæ árið 1900. Hann lauk prófi frá Vélstjórnarskólanum árið 1925 og starfaði alla tíð sem vélstjóri og yfirvélstjóri á hinum ýmsu skipum. Lengst af starfaði hann hjá Útgerðarfélagi Akureyrar en áður var hann hjá Síldaverksmiðju ríkisins. Hallur lést langt fyrir aldur fram árið 1956. Hann var kvæntur Guðbjörgu Sigurlín Bjarnadóttur (1905-1993) frá Vestmannaeyjum. Árið 1957 hefur neðri hæð hússins verið tveir eignarhlutar, en þá kemur fram í Viðskiptatíðindum að Grímur Stefánsson selji Sigríði Guðmundsdóttur norðurenda neðri hæðar. Margir hafa átt hér heima síðan bæði um lengri og skemmri tíma. Á meðal þeirra má nefna Jónas Rafnar lækni, sem var yfirlæknir á Kristneshæli í Eyjafirði frá stofnun og um áratugaskeið eftir það.
Hólabraut 20 er látlaust en reisulegt og glæst hús. Það er í afbragðs góðri hirðu og hefur líkast til alla tíð hlotið gott viðhald, a.m.k. á síðustu árum. Lóðin er einnig vel gróin og vel hirt. Líkt og húsin austan Hólabrautar er það ekki talið hafa afgerandi varðveislugildi eitt og sér, en hluti heildar sem hefur nokkurt varðveislugildi. Tvær í búðir eru á húsinu, ein á hvorri hæð. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 981, 30. júní 1944.
Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2020 | 16:35
Samgöngur og samskipti
Ein helsta samgöngubót síðari ára fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur á Akureyrarsvæðinu er stígur sem liggur frá Torfunefi meðfram Drottningarbraut. Stígurinn, sem lagður var í áföngum árin 2014-18, liggur meðfram brautinni fram að Flugvelli og Kjarnaskógsafleggjara og raunar alveg fram að Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit.
Það var einhverju sinni fyrir fáeinum árum, að ég var á ferð hjólandi um á umræddum stíg. Einu sinni sem oftar. Ákvað, eins og lög gera ráð fyrir, að hringja bjöllu þar sem ég nálgaðist fólk, sem var gangandi í sömu átt. Skemmst er frá því að segja, að fólkið brást vægast sagt illa við og hreytti á eftir mér ónotum um "helvítis frekju í hjólafólki sem léti eins og það ætti stíginn". Tók væntanlega bjölluhringingunni sem skilyrðislausri skipun um að víkja strax, svo ég gæti nú þeyst áfram.
Svo var það öðru sinni, að ég var á göngu á sama stíg. Skyndilega ruddist fram úr mér a.m.k. 20 manna hjólahópur (líklega á 30km hraða). Margir öskruðu og görguðu eitthvað á þá leið að ég skyldi víkja (enginn hringdi bjöllu). Fáeinir þeirra sendu mér gneistandi illskusvip, að því er virtist fyrir það, að ég skyldi hreinlega ekki hafa vikið niður í fjöruborð með nægum fyrirvara. Þannig hefðu þeir, fyrir kæruleysið í mér, þurft að lækka hraðann niður að hámarkshraða í íbúðagötum. Það er stundum vandlifað
Rétt er að geta þess, að um er að ræða tvö algjör undantekningatilvik; að þessum tilvikum undanskildum hef ég ALDREI, hvorki fyrr né síðar, lent í svona uppákomum, hvorki á þessum stíg né öðrum. Nær allir sem eiga leið þarna um, sem og um aðra stíga Akureyrar sýna gagnkvæma tillitssemi- það er a.m.k. mín reynsla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.5.2020 | 10:35
Hús dagsins: Hólabraut 19
Kannski mætti orða það svo, að húsin vestan Hólabrautar standi þar sem Oddeyrin mæti Brekkunni. Alltént er það svo, að vestan götunnar tekur landi að halla nokkuð skarpt upp á við, áleiðis á Ytri Brekkuna. Ysta húsið vestan Hólabrautar er nr. 19.
Það var árið 1944 sem Björgvin Magnússon fékk lóð og byggingarleyfi á Hólabraut 19. Fékk hann leyfi til að reisa hús, byggt úr steinsteypu með járnbentu steinlofti og lágu valmaþaki. Stærð að grunnfleti 11x7,95m auk útskota; 1,20x6,20m að austan og 1,50x4,25m að sunnanverðu. Teikningarnar að húsinu gerði Guðmundur Tómasson byggingameistari.
Hólabraut 19 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki. Húsið myndi líklega flokkast sem svokallað byggingameistarafunkis en það skartar horngluggum til suðurs. Svalir eru á efri hæð til suðvesturs. Bárujárn er á þaki, lóðréttir póstar í gluggum og gróf steining eða steinmulningur á veggjum.
Þegar heimilisfanginu Hólabraut 19 er flett upp á gagnagrunninum timarit.is koma upp 118 niðurstöður. Sú elsta er úr Degi 28. febrúar 1946 og þar segir Þú sem tókst rauð rennilásstígvél nr. 39 og skildir eftir önnur minn, á skautaísnum á þriðjudaginn, gjörðu svo vel að skipta í Hólabraut 19. Undir skrifar Ragna á Gefjun. Umrædd Ragna á Gefjun hét fullu nafni Ragnheiður Hannesdóttir, frá Syðri Ey á Skagaströnd. Ragna starfaði við afgreiðslu á Gefjun hér í bæ í tæpa tvo áratugi eða frá 1935. Hún fluttist til Reykjavíkur árið 1954 en hélt þar áfram störfum á Gefjun-Iðunn. Líkast til hefur húsið verið tvíbýli frá upphafi og ein íbúð á hvorri hæð, og margir átt hér heima á þremur aldarfjórðungum. Í húsinu var einnig um tíma, á fyrri hluta 6. áratugarins, starfrækt reiðhjólaverkstæði Hannesar Halldórssonar.
Hólabraut 19 er reisulegt og traustlegt hús. Lóðin er einnig gróin og til mikillar prýði í umhverfinu. En næsta umhverfi Hólabrautar 19 er hvanngræn brekka, sem skilur að Hólabraut og Brekkugötu. Brekka þessi er þéttingsbrött upp við Brekkugötu og nýtist börnum sem sleðabrekka á vetrum. Er það álit undirritaðs, að varðveita ætti brekku þessa sem útivistarsvæði og jafnvel mætti koma þar fyrir stökkpöllum o.þ.h. leiktækjum fyrir sleða, skíði og snjóbretti. En nóg um það. Hólabraut 19 er snyrtilegt og glæst hús í góðri hirðu og til mikillar prýði í götumyndinni. Það mun að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð. Hólabraut 19 svipar nokkuð til húsanna handan götunnar, sem byggð eru svipuðum tíma. Næstu hús sunnan við, Hólabraut 15 og 17 bera annað svipmót en þau eru líka ívið eldri, byggð snemma á 4. áratugnum. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein á hvorri hæð. Myndin af Hólabraut 19 er tekin þann 19. janúar 2020, en myndin hér til hliðar sem sýnir brekkuna vestan Hólabrautar er tekin 18. ágúst 2015. Húsin á myndinni eru nr. 25 - 31 við Brekkugötu.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 971, 14. apríl 1944. Fundur nr. 991, 15. sept. 1944.
Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2020 | 11:59
Hús dagsins: Hólabraut 18
Við bregðum okkur af "rúntinum" svokallaða við Skipagötu út á sunnan- og ofanverða Oddeyri en þar, undir brekkurótum liggur Hólabrautin frá Gránufélagsgötu að Akureyrarvelli. Í hugum margra telst sá hluti Oddeyrar sem liggur ofan (vestan) Glerárgötu, þ.m.t. Hólabrautin, til Miðbæjarins.
Hólabraut 18 reisti Guðmundur Tómasson byggingameistari árið 1944. Hann fékk aðra lóð austanmegin Hólabrautar, norðan Gránufélagsgötu auk byggingarleyfis snemma árs 1943. Fékk hann að reisa hús úr steinsteypu, tvær hæðir á lágum grunni með valmaþaki, 10,4x7,85m, auk útskots að vestan, 4,7x1,2m. Hann óskaði jafnframt eftir að fá leyfi til að reisa 7x11m skúr á baklóð. Það fylgir raunar sögunni, að hann hafði þegar hafið byggingu skúrsins, og hefði þurft leyfi fyrir honum fyrirfram. Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson, en viðbyggingu teiknaði Guðmundur Gunnarsson.
Hólabraut 18 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki en einfaldir þver- eða lóðréttir póstar í flestum gluggum. Byggt var við húsið 1955 og er sú viðbygging samliggjandi næsta húsi, Hólabraut 16, þar sem ÁTVR (Ríkið) er til húsa. Á efri hæð, sunnanmegin eru voldugar steyptar svalir, sem standa á stólpum og mynda þar með skýli við inngang neðri hæðar.
Skagfirski trésmiðurinn og kexsmiðjuforstjórinn Guðmundur Tómasson er sjálfsagt orðinn lesendum þessarar vefsíðu að góðu kunnur. Að ekki sé minnst á þá lesendur sem e.t.v. þekktu hann persónulega. Guðmundur teiknaði og byggði þó nokkur hús á Akureyri áratugina 1930-50, og starfrækti verkstæði og smíðaði m.a. líkkistur. Á meðal annarra húsa Guðmundar má nefna Helgamagrastræti 23 og Skipagötu 2, sem var einmitt umfjöllunarefni þar síðasta pistils hér. Þeir bræður Eyþór (löngum kenndur við Lindu) og Guðmundur Tómassynir starfræktu á Hólabraut 18 trésmíðaverkstæði. Í Degi þann 19. mars 1947 mátti einmitt sjá auglýsingu þess efnis, að líkkistuvinnustofa þeirra væri flutt í Hólabraut 18. En fleira var smíðað á Hólabraut 18 um miðja 20. öld. Eflaust kannast einhverjir við hin sígildu Leifsleikföng. Þau voru smíðuð og framleidd á Hólabraut 18 en Baldvin Leifur Ásgeirsson frá Gautstöðum á Svalbarðsströnd bjó hér um árabil og starfrækti fram til 1960 leikfangasmiðju sína, téð Leifsleikföng. Leikföngin voru afar vinsæl og sannkölluð barnagull, en á þessum árum var innflutningur á slíkum gripum smár í sniðum, svo ekki sé meira sagt. Þá rak Baldvin hér síðar þvottahúsið Mjallhvíti. Einnig var hér starfrækt fyrir Olivetti ritvélar og reiknivélar á áttunda áratugnum. Þá hafa margir átt og búið í Hólabraut 18 um lengri og skemmri tíma. Nú eru í húsinu þrjár íbúðir.
Hólabraut 18 er reisulegt og glæst hús og í mjög góðri hirðu. Húsakönnun fyrir reit þann er afmarkast af Hólabraut í vestri, Gránufélagsgötu í suðri, Laxagötu í austri og Smáragötu í norðri var unnin árið 2011. Þar telst húsið ekki hafa sérstakt varðveislugildi umfram önnur, en götumynd Hólabrautar talin hafa nokkurt gildi. Ekki er annað hægt en að taka undir það, enda Hólabrautin skemmtileg og áhugaverð götumynd, enda þótt stutt sé. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 945, 23. jan. 1943.
Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.
Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.7.): 18
- Sl. sólarhring: 28
- Sl. viku: 293
- Frá upphafi: 451061
Annað
- Innlit í dag: 17
- Innlit sl. viku: 227
- Gestir í dag: 17
- IP-tölur í dag: 16
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar