Hús dagsins: Skipagata 5

Áfast Skipagötu 1 sunnanmegin er Skipagata 5.P1190971 En hvers vegna ekki númer 3 ? Fyrst ber að nefna, að lóðirnar og byggingarleyfin fyrir þessum húsum voru afgreidd samhliða í águstmánuði 1931. Þá fengu þeir Konráð Kristjánsson og Benedikt Ólafsson lóðir austan Skipagötu, í framhaldi af lóð Axel Kristjánssonar, 9m meðfram götu. Fengu þeir að reisa hús, þrílyft, 9x11m, byggð úr járnbentri steinsteypu með járnbentum steinloftum. Hús þessi voru- og eru sambyggð- og reisti Konráð Skipagötu 1 en Benedikt hús nr. 3. Benedikt hins vegar, hafði fengið lóð nr. 5 og vildi halda sig við það, enda þótt í opinberum gögnum sé talað um númer 3. Ástæðan fyrir þessu mun hafa verið sú, að upprunalega átti Ráðhústorg 7 að vera Skipagata 1, en þáverandi eigandi fékk því breytt. Í millitíðinni mun Benedikt hafa fest kaup á lóð nr. 5. Einhvern tíma mun hafa staðið til að breyta þessu og mannskapur mætt til að skipta um húsnúmer, en Benedikt fengið því hnekkt. (Heimild: María Elínar Arnfinnsdóttir, 2020).

Í heimildum á timarit.is birtast auglýsingar um verslun og starfsemi ýmist á Skipagötu 3 og 5 en fyrrnefnda heimilisfangið er sjaldséð í heimildum eftir 1965. Þá er valinkunn veiðarfæraverslun Grána, ýmist sögð á Skipagötu 5 eða 7, en hún mun alla tíð í Skipagötu 7. Þannig hafa númerin verið „flöktandi“ á húsum 5 og 7, sem urðu þá 3 og 5. Flest húsin í röðinni Ráðhústorgs- og Skipagöturöðinni austan megin voru reist í áföngum. Það á við um Skipagötu 5, fyrst byggði Benedikt jarðhæðina og lengst af var húsið tvær hæðir en 3. og 4. hæð hússins reistar árið 2014. Teikningarnar að húsinu gerði Halldór Halldórsson.

Skipagata 5 er fjögurra hæða steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki. Á efstu hæð eru svalir til vesturs með sólskála og á bakhlið, sem snýr að porti við Hofsbót. Á efri hæðum eru sexrúðupóstar í gluggum en síðir verslunargluggar að götu á neðri hæð. Gluggar efri hæða eru eilítið inndregnir og mynda gluggabil eins konar stöpla á milli, og er þessi hönnun nokkurn veginn í samræmi við næstu aðliggjandi hús.

Skipagata 5 hefur frá upphafi verið þjónustu- og verslunarhús, líkt og flest húsin í Miðbænum, en íbúðir á hæðum. Sem áður segir, er það lengi vel talið nr. 3, en „fimman“ virðist festast í sessi eftir 1960-65. Benedikt Jón Ólafsson, sem byggði húsið var málarameistari og rak þarna málningarvöruverslun um langt skeið og bjó í húsinu ásamt fjölskyldu sinni. Á meðal hinna ýmsu verslana á Skipagötu 5 gegn um áratugina má nefna Cesar, tískuvöruverslun unga fólksins , skóbúðina Skótískuna auk verslunarinnar Sirku. Sem áður segir var húsið lengst af tveggja hæða en árið 2014 voru byggðar ofan á húsið tvær hæðir, eftir teikningum Fanneyjar Hauksdóttur, og þannig orðið jafnhátt næsta húsi norðan við, Skipagötu 1.

Húsið er metið með ótvírætt varðveislugildi sem hluti húsaraðar, sem er „[...]einn mikilvægasti þátturinn í svipmóti miðbæjarins“ (Landslag arkitektastofa 2014: 53) Þessi húsaröð er hluti fyrirhugaðar randbyggðar samkvæmt fyrsta Aðalskipulagi bæjarins árið 1927, og ein af fáum minnisvörðum þetta fyrsta skipulag. Með byggingu efri hæða Skipagötu 5 má eiginlega segja, að húsið falli enn betur inn í götumyndina, þar sem orðið er samræmi í hæð samliggjandi húsa. Húsið er eins og gefur að skilja í mjög góðu standi, enda stutt frá endurbyggingu. Þrjár íbúðir eru á efri hæðum hússins en Cintamani verslun á jarðhæð. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

 

Heimildir:

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1930-1935. Fundur nr. 669, 24. ágúst 1931. Fundur nr. 670, 21. sept. 1931. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

María Elínar Arnfinnsdóttir. 2020. Munnleg heimild; svar („comment“) við innleggi undirritaðs á Facebook hópnum Miðbærinn 26. apríl. https://www.facebook.com/groups/208295845947836/?multi_permalinks=2675557199221676&notif_id=1587831911412786&notif_t=feedback_reaction_generic


Sumardagurinn fyrsti í Eyjafirði

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn. Síðastliðinn vetur hefur verið nokkuð illviðrasamur og snjóþungur, svona miðað við allra síðustu ár. Því eru eflaust langflestir fegnir, að sumarið sé gengið í garð, samkvæmt almanakinu. Í gær, sumardaginn fyrsta, skrapp ég svokallaðan stóra Eyjafjarðarhring í gærmorgun og að sjálfsögðu var myndavélin með í för. Eins og sjá má skein sól í heiði. Svona var sumardagurinn fyrsti í Eyjafirði:

P4230959

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hvassafellsfjall er býsna tilkomumikið fjall. Fremsti hluti fjallsins nefnist Hestur, 1207 m hár. Dalirnir Skjóldalur (hægra megin)og Djúpidalur hvor sínum megin við fjallið. 

P4230966

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er horft fram Djúpadal. Fjöllin f.v. Hleiðargarðsfjall, Mælifell, Hvassafellshnjúkur (ath. Hvassafellsfjall, sjá mynd hér að ofan og Hvassafellshnjúkur er ekki sama fjallið) og Litladalsfjall. Vetrarsnjórinn á undanhaldi, en Djúpidalurinn mun almennt ekki snjóþungt svæði. 

P4230964

 

 

 

 

 

 

 

 

  

Hér er horft yfir Eyjafjarðará, nærri eyðibýlinu Guðrúnarstöðum, að Melgerðismelum, höfuðvígi hestamanna, auk sviflugs- og flugmódelasmiða í Eyjafjarðarsveit og nágrenni. Á Melgerðismelum var flugvöllur frá hernámsárunum til ársins 1954, að Akureyrarflugvöllur var reistur.  

P4230963

 

 

 

 

 

 

 

 

  

Fremsti hluti (segi og skrifa FREMSTI samkvæmt Eyfirskri málvenju) Eyjafjarðar. Lengst til vinstri ber Hólafjall við brekkuna ofan við veginn, Eyjafjarðarbraut eystri. Um Hólafjall lá vegur áleiðis upp í Laugafell og náði sá vegur yfir 1000m hæð. Núverandi vegur fram Eyjafjarðardal leysti hann hins vegar af hólmi um 1975. Fjærst, örlítið hægra megin við miðja mynd má einmitt sjá Torfufellshnjúk (Torfufell). Austan Torfufellsins rennur Eyjafjarðará frá upptökum niður téðan Eyjafjarðardal, en vestan þess er Villingadalur. (Á þessari mynd er vestur til vinstri en austur til hægri). Tröllshöfði er nokkurn veginn fyrir mynd og lengst til hægri Hleiðargarðsfjall

P4230977

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Rauðhús, skammt ofan við Melgerðismela. Nú sumarhús. Litladalsfjall lengst til hægri. Sjálfsagt kannast einhverjir við frásögnina af kindinni Fannar-Höttu frá Rauðhúsum, en hún mun hafa lifað á kafi í fönn í 18 vikur (um 4 mánuði), snemma á 18. öld. 

P4230984

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er horft til norðurs frá göngu/hjólastígnum, sem tengir saman Akureyri og Hrafnagil. Myndin tekin við ytri afleggjara að Kristnesi. Vaðlaheiðin nánast alhvít og fróðlegt að bera snjóalögin þar saman við fjöllin á myndunum hér að ofan, um 30-40km framar í firðinum. Þau fjöll eru flest á bilinu 1100-1300m, en hæstu brúnir Vaðlaheiðar nærri 700m. 


Hús dagsins: Skipagata 2

Fyrsta Aðalskipulag Akureyrar, samþykkt árið 1927, P1190973gerði ráð fyrir svokölluðum randbyggingum á Miðbæjarsvæðinu og Oddeyrinni. Húsaraðirnar austan og sunnan Ráðhústorgs, og áfram suður Skipagötu eru byggðar í anda þessa skipulags. Á Eyrinni varð hins vegar minna úr þessum áformum og standa þar raunar aðeins ein slík „sambygging“ við Gránufélagsgötuna, auk tveggja stakra húsa við þá götu og Strandgötu. (Það er e.t.v. lán í óláni, að ekki varð meira úr byggingaráformum í anda skipulagsins á sunnanverðri Oddeyrinni; líkast til hefðu ófá timburhús frá síðari hluta 19. aldar fengið að fjúka fyrir nýbyggingum). En húsaraðirnar við Ráðhústorg og nyrst við Skipagötu eru samliggjandi; austanmegin er Skipagata 1-9 er áföst Ráðhústorgi 7-9 en vestan megin eru Skipagata 2-8 áföst Ráðhústorgi 1-5.

Það var sumarið 1933 að Guðmundur Tómasson fékk lóð sunnan við hús Ólafs Ágústssonar (Ráðhústorg 5). Lóðin var 13m meðfram götu, og hugðist Guðmundur reisa þarna verkstæðisbyggingu. Fékk hann byggingarleyfi fyrir húsi, 10,3x9,5m, þriggja hæða með háu risi. Fékk hann leyfi til að reisa fyrst jarðhæðina, en fullbyggt skyldi húsið vera innan fimm ára. Þ.e.a.s. fyrir sumarið 1938. Fyrsti áfangi hússins var risinn 1934, en líklega hefur húsið verið fullbyggt 1938, svo sem skilyrðið kvað á um, en það er alltént skráð byggingarár hússins.

Skipagata 2 er fjögurra hæða steinsteypuhús með einhalla, aflíðandi þaki. Efsta hæð er inndregin að framan, og eru þar svalir endilangri hliðinni. Á bakhlið eru svalir fyrir miðju á 2.- 4. hæð. Á þaki er þakpappi og veggir múrsléttaðir en skiptir þverpóstar í gluggum. Á jarðhæð eru „götusíðir“ verslunargluggar. Húsið er inni í miðri sambyggðri húsaröð, áfast Ráðhústorgi 5 að norðan og Skipagötu 4 að sunnan.  

Guðmundur Tómasson rak þarna trésmíðaverkstæði og smíðaði m.a. líkkistur. Hann söðlaði síðar um og stofnaði hina valinkunnu kexverksmiðju Lórelei.  Bróðir Guðmundar, Eyþór, var einnig forstjóri og löngum kenndur við sælgætisgerðina Lindu. Guðmundur var Skagfirðingar að uppruna, frá  Bústöðum í Goðdalasókn. Það er sammerkt með flestöllum eldri húsum Miðbæjarins, að ekki er unnt að telja upp alla þá verslun og þjónustu sem þar hefur verið starfrækt í tiltölulega stuttum pistlum. Þar er Skipagata 2 engin undantekning. Breska hernámsliðið hafði hér skrifstofu sem sá um og hafði eftirlit með skipaumferð og sjóflutningum, Sea Transport Office. Í ársbyrjun 1941 birtist auglýsing um, að ekkert fyrirtæki bæjarins megi eiga viðskipti við norsk skip, án skriflegrar beiðni frá téðri Sea Transport Office. Þann 2. júní 1944 opnaði Loftur Einarsson verslun sína Ásbyrgi í Skipagötu 2 og var þar seldur hinn ýmsi varningur, sem sjá mátti í auglýsingu í Nýjum kvöldvökum. Var sú verslun til húsa hér fram yfir 1960, og á sjöunda áratugnum var Bókabúðin Edda þarna til húsa. Svo fátt eitt sé nefnt. Auk fjölmargra verslana og fyrirtækja sem átt hafa heimili að Skipagötu hafa einnig fjölmargir búið á efri hæðum hússins.

Skipagata 2 og samliggjandi hús eru virkilega reisuleg og glæst stórhýsi. Þau eru ekki aðeins til prýði í Miðbænum heldur beinlínis móta þau umhverfið. Mörgum þykir há og mikil steinhús oft til óprýði (talað um steinkumbalda) en það er aldeilis ekki svo, að svo þurfi alltaf vera. Húsaröðin við Skipagötu og Ráðhústorg eru einmitt dæmi um stílhrein og glæst, steinsteypt stórhýsi. Húsið er metið með ótvírætt varðveislugildi í Húsakönnun 2014. Það er nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð og er í góðri hirðu.   Nú eru gistirými á efri hæðum en sl ár hafa verið veitingastaðir á jarðhæð. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

Heimildir:

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1930-1935. Fundur nr. 702, 29. júní 1933. Fundur nr. 706, 26. ágúst. 1933. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


Gleðilega páska

Óska öllum, nær og fjær, gleðilegra páska. laughing 

Páskamyndirnar eru tvær að þessu sinni, teknar um hálf ellefu í morgun, á páskadag, og eru þær teknar á Oddeyrartanga, neðarlega við Strandgötu. Önnur myndin er tekin fram fjörðinn, og sýnir Kaupangssveitina, Staðarbyggðarfjall og Tungnafjall, böðuð í páskasól. Á hinni er horft til Hlíðarfjalls og í forgrunni virðuleg húsaröðin við Strandgötu, ofar neðri Ytri Brekku. cool

P4120956

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P4120959  


Hús dagsins: Skipagata 1

Síðsumars 1931 fengu þeir Konráð Kristjánsson og Benedikt Ólafsson lóðir austan Skipagötu,P1190970 í framhaldi af lóð Axel Kristjánssonar, 9m meðfram götu. Fengu þeir að reisa hús, þrílyft, 9x11m, byggð úr járnbentri steinsteypu með járnbentum steinloftum. Hús þessi voru- og eru sambyggð- og reisti Konráð Skipagötu 1 en Benedikt hús nr. 3. Skráð byggingarár hússins er 1939 og hefur það líkast til verið fullbyggt þá, en það er sammerkt með flestum stórhýsa miðbæjarins, að þau eru byggð í áföngum. Teikningarnar að húsinu gerði Sigtryggur Jónsson.

    Skipagata 1 er fjögurra hæða steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki. Á efstu hæð eru svalir til vesturs með sólskála og á bakhlið, sem snýr að porti við Hofsbót. Á efri hæðum eru þverpóstar í gluggum en síðir verslunargluggar að götu á neðri hæð. Gluggar efri hæðar eru eilítið inndregnir og mynda gluggabil eins konar stöpla á milli, og er þessi hönnun nokkurn veginn í samræmi við næstu aðliggjandi hús. Á bakhlið er einlyft viðbygging, vörugeymsla, byggð 1963. 

    Það yrði nokkuð langt mál að telja upp alla þá verslun og þjónustu sem Skipagata 1 hefur hýst í tæpa níu áratugi. Ef heimilisfanginu er flett upp í þágufalli koma upp nákvæmlega 600 niðurstöður þegar þetta er ritað um páskaleyti 2020. Konráð S. Kristjánsson, sem byggði húsið, var járnsmiður og starfrækti þarna Reiðhjólaverkstæði Akureyrar á fjórða áratug sl. aldar. Þá rak Þorsteinn M. Jónsson bóksali og bókaútgefandi forlag sitt þarna. Á fimmta áratugnum er þarna til húsa Verslun Guðjóns Bernharðssonar og  var hinn valinkunna skóverslun M.H. Lyngdal einnig þarna til húsa um tíma. Frá því snemma á  6. áratugnum rak Brynjólfur Sveinsson verslun eða vöruhús. Sú verslun var þarna starfrækt um árabil og þar fengust m.a. leikföng, heimilistæki og sportvörur, svo fátt eitt sé nefnt. Sem áður segir hefur húsið hýst hinar ýmsu verslun, þjónustu og skrifstofur en efri hæðir löngum verið íbúðir. Þá var gistiheimili hér á efri hæðum um árabil. Nú er Fasteignasala Akureyrar á götuhæð, snyrtistofa á annarri hæð, tvær íbúðir á 3. Og 4. hæð, ein á hvorri hæð fyrir sig.  

   Húsið er metið með ótvírætt varðveislugildi sem hluti húsaraðar, sem er „[...]einn mikilvægasti þátturinn í svipmóti miðbæjarins“ (Landslag arkitektastofa 2014: 51) Þessi húsaröð er hluti fyrirhugaðar randbyggðar samkvæmt fyrsta Aðalskipulagi bæjarins árið 1927, og ein af fáum minnisvörðum þetta fyrsta skipulag. Húsið er í stórum dráttum óbreytt frá upphafi að ytra byrði, þó byggt hafi verið það bakatil og er í mjög góðri hirðu. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020. 

Heimildir

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1930-1935. Fundur nr. 669, 24. ágúst 1931. Fundur nr. 670, 21. sept. 1931. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


Hús við Ráðhústorg

Ráðhústorg í miðbæ Akureyrar kalla margir einfaldlega "Torgið". Ráðhústorg er líka heiti á stuttri götu sem liggur sunnan og austan megin torgsins. Liggur hún frá norðurenda Hafnarstrætis að Strandgötu í austri,og þar sem Ráðhústorg sveigir til norðurs gengur Skipagata til suðurs. En hvaða götur aðrar afmarka Ráðhústorgið? Það eru Strandgata í norðri, Brekkugata í norðvestri og Hafnarstræti í suðvestri.

Samkvæmt grófri mælingu á kortavef ja.is er gatan Ráðhústorg rúmir 60m að lengd. 

Við Ráðhústorg teljast standa fimm hús og hef ég tekið þau öll fyrir hér.

Ráðhústorg 1  (1939)

Ráðhústorg 3  (1930)

Ráðhústorg 5  (1938) Hús 1-5 sambyggð. Tók þau fyrir í örstuttu máli sumarið 2012.

Ráðhústorg 7 (1931)

Ráðhústorg 9 (1930)

Öll eru húsin byggð í áföngum á fjórða áratugnum og eru því öll á níræðisaldri þegar þetta er ritað (tvö elstu níræð í ár), meðalaldur árið 2020 er 86,4 ár.

 


Hús dagsins: Ráðhústorg 9

Konráð Kristjánsson og Vigfús Jónsson munu hafa hafið byggingu Ráðhústorgs 9 árið 1929.P1190967 Þann 16. maí 1929 fengu þeir að reisa hús skv. framlagðri teikningu (hönnuður ókunnur) á hornlóðinni austan Ráðhústorgs og sunnan Strandgötu. Fengu þeir leyfi til að reisa fyrstu hæð hússins til að byrja með, en það var í samræmi við byggingarleyfi sem Axel Kristjánsson hafði fengið fyrir Ráðhústorg. Skildi hús þeirra vera a.m.k. 11 metrar á breidd. En samkvæmt skipulagi áttu þarna að rísa þriggja hæða randbyggingar. Áskildi bæjarstjórn sér rétt til þess að krefjast þess  „[...] að byggt verði ofan á húsið jafn skjótt og full hæð er byggð til annarrar hvorrar handar“ (Bygg.nefnd. Ak. 1929: nr. 629). Þar er líklega átt við samliggjandi hús. Á mynd sem sést í bók Steindórs Steindórssonar (1993: 182), Akureyri Höfuðborg hins bjarta norðurs, má sjá að fyrsta hæð Ráðhústorgs 7 og 9 eru risin. Þar er myndin sögð tekin á sumardaginn fyrsta 1929. Það kom hins vegar í hlut Guðríðar Norðfjörð að ljúka við byggingu hússins, en 20. mars 1930 birtist auglýsing í Degi um útboð í byggingu hússins, eftir framlagðri teikningu og lýsingu.  Mánuði síðar, eða 22. apríl 1930 birtist auglýsing í Norðlingi, frá Verslun G. Norðfjörð,sem selur hreinlætisvörur,  tóbaks- og sælgætisvörur. Sama dag heimilaði Byggingarnefnd Guðríði að breyta gluggaskipan hússins.

Guðríður Norðfjörð, sem fædd var á Laugabóli við Arnarfjörð, var hárgreiðslukona og starfrækti hárgreiðslu- og snyrtistofu í Hafnarstræti 35 áður en hún byggði Ráðhústorg 9 og opnaði verslun. Hún stofnaði fyrstu kvenskátasveit á Akureyrar, Valkyrjuna , árið 1923. Starfaði hún aðeins skamman tíma en var endurvakin 1932 og hófst þá áratuga öflugt kvenskátastarf, allt þar til skátastarf kvenna og karla á Akureyri sameinaðist undir nafni Klakks árið 1987.

Ráðhústorg 9 er tvílyft steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki. Húsið er áfast Ráðhústorgi 7 að sunnanverðu og Strandgötu 4, Nýja Bíó, austanmegin. Snýr framhlið hússins þannig í vestur og norður, og er grunnflötur þess líkt og tveir samliggjandi fleygar í horninu milli Ráðhústorgs 7 og Nýja Bíós. Á efri hæð eru þverpóstar í gluggum en síðir verslunargluggar að götu á neðri hæð. Gluggar efri hæðar eru eilítið inndregnir og mynda gluggabil eins konar stöpla á milli, sem gefur byggingunni ákveðinn svip.

Líkt og flest hús í Miðbænum hefur húsið verið verslunar- og þjónustuhúsnæði frá upphafi, auk þess sem búið hefur verið í því. Ef heimilisfanginu „Ráðhústorgi 9“ er flett upp í gagnasafninu timarit.is, koma upp 623 niðurstöður. Guðríður Norðfjörð, rak sem áður segir verslun sína frá 1930 og eitthvað fram á 4. áratuginn, en árið 1937 er „Hornbúðin“ í Ráðhústorgi 9 auglýst til leigu með vorinu, og er Jón Sveinsson skrifaður fyrir henni. Þá hafði Bifreiðastöð Oddeyrar aðstöðu sína á neðri hæð. Þá var  Sparisjóður Akureyrar þarna til húsa í tæpa tvo áratugi, frá því um 1940 fram undir 1960. Þá hafa verið þarna rakarastofa, skrifstofa blaðsins Íslendings, og tískuvöruverslanir. Svo fátt eitt sé nefnt. Síðastliðin áratugi hefur húsið hýst veitinga- og skemmtistaði, Uppann, Ráðhúscafé og síðastliðin ár hefur þarna verið veitinga- og dansstaðurinn Café Amor.

Húsið er metið með ótvírætt varðveislugildi sem hluti húsaraðar, sem er „[...]einn mikilvægasti þátturinn í svipmóti miðbæjarins“ (Landslag arktitektastofa 2014: 48). Þessi húsaröð er hluti fyrirhugaðar randbyggðar samkvæmt fyrsta Aðalskipulagi bæjarins árið 1927, og ein af fáum minnisvörðum þetta fyrsta skipulag. Húsið er nokkurn veginn óbreytt frá upprunalegri gerð að ytra byrði og er í mjög góðri hirðu. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

 

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1921-1930. Fundur nr. 629, 16. maí 1929. Fundur nr. 645, 22. apríl 1930. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Hús dagsins: Ráðhústorg 7

Ráðhústorg 7 reisti Axel Kristjánsson kaupmaður frá Sauðárkróki árin 1929-35. P1190969Snemma árs 1929 fékk hann  lóð vestast á SA- horni byggingarreits nr. 40. Lóðin er 12x16m og veitt á bráðabirgða, en rúmum tveimur árum síðar er honum leyft að reisa íbúðar- og verslunarhús, þrílyft með kvisti á framhlið, 10+12,15x11m að stærð, byggt úr steinsteypu og steinlofti. Fylgir sögunni, að Axel þurfi ekki að ljúka við allt húsið það sumarið (1931) nema þann sem snýr að Ráðhústorgi en verði að ljúka við húsið um leið og þess yrði krafist. Teikningar að húsinu gerði Halldór Halldórsson. Var fyrsta hæð hússins þá þegar risin, en á mynd sem tekin er á sumardaginn fyrsta 1929 (Steindór Steindórsson 1993:182) má  sjá, að neðri hæðir Ráðhústorgs 7 og 9 eru risnar  Húsið varð raunar aldrei nema tveggja hæða, en fullbyggt mun húsið hafa verið 1935., en húsunum var frá upphafi ætlað, að mynda randbyggingu meðfram torginu, í samræmi við Aðalskipulag frá 1927. Þessi röð, sem byggðist á árunum 1929-1942 samanstendur raunar af alls fimm húsum, því sunnan Ráðhústorgs 7 standa Skipagata 1,5 og 7. (Af einhverjum ástæðum er engin Skipagata 3). Árið 1998 bættist síðan en við þessa röð þegar Skipagata 9 reis, en það hús er nokkuð frábrugðið hinum eldri.

Ráðhústorg 7 er tvílyft steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki. Grunnflötur hússins er fimmhyrningslaga, framhlið meðfram götu snýr til vesturs og norðvesturs, og aðliggjandi hús áföst norðaustanvið og sunnan við. Á efri hæð eru þverpóstar í gluggum en síðir verslunargluggar að götu á neðri hæð. Gluggar efri hæðar eru eilítið inndregnir og mynda gluggabil eins konar stöpla á milli, sem gefur byggingunni ákveðinn svip.

Ráðhústorg 7 hefur alla tíð verið verslunar- og skrifstofuhús, en einnig hefur verið búið þar. Síðla árs 1931 fluttist útibú Landsbankans hingað og var hér í rúma tvo áratugi. til húsa, (sjá mynd hér). Þá var Bifreiðastöð Oddeyrar, BSO einnig með aðsetur í húsinu. Annaðist bifreiðastöðin akstur m.a. til Dalvíkur og Húsavíkur auk „lengri og skemmri ferða“. Sumarið 1933 lögðu áætlunarferðir Bifreiðastöðvar Steindórs til Reykjavíkur upp frá BSO. Á stríðsárunum var Breska hernámsliðið með skrifstofu í Ráðhústorgi 7, Hirings and complaints office. Þeirri skrifstofu var ætlað að annast kvartanir, skaðabótakröfur eða samningamál um leigu varðandi setuliðið. Fór þriggja manna nefnd fyrir þessari skrifstofu, dr. Kristinn Guðmundsson (síðar utanríkisráðherra), Stokes major og captain Clive Morris.  Það yrði nokkuð langt mál að telja allar þær verslanir og skrifstofur sem verið hafa í húsinu, en þó skal hér tæpt á nokkrum þeirra.  Margir muna eflaust eftir húsgagnaverslun Jóhanns Ingimarssonar, Örkinni hans Nóa, en Jóhann var ævinlega kallaður Nói. Þá var Saumastofa Gefjunar í húsinu  á 6. og 7. áratugnum. Var hún opnuð skömmu fyrir jólin 1955, og starfrækt þarna í rúman áratug. Aftur hófst verslun með fatnað í Ráðhústorgi 7 þegar þar var opnuð verslunin Perfect, og hafa hér verið tískuverslanir síðustu árin. Á 1. áratug 20. aldar var starfræktur í Ráðhústorgi 7, sportbarinn Ali.

Húsið er metið með ótvírætt varðveislugildi sem hluti húsaraðar, sem er „[...]einn mikilvægasti þátturinn í svipmóti miðbæjarins“ (Landslag arktitektastofa 2014: 48). Þessi húsaröð er hluti fyrirhugaðar randbyggðar samkvæmt fyrsta Aðalskipulagi bæjarins árið 1927, og ein af fáum minnisvörðum þetta fyrsta skipulag. Húsið er nokkurn veginn óbreytt frá upprunalegri gerð að ytra byrði og er í mjög góðri hirðu. Nú eru tvö rými á götuhæð, í nyrðra rými er tískuvöruverslunin Didda Nóa en í syðra rými veitingastaðurinn Serrano. Á efri hæðum eru skrifstofur. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1921-1930. Fundur nr. 624, 31. jan. 1929. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 668, 6. ágúst 1931. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2020
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 54
  • Sl. sólarhring: 59
  • Sl. viku: 350
  • Frá upphafi: 421467

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 222
  • Gestir í dag: 35
  • IP-tölur í dag: 34

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband