Hús við Gránufélagsgötu (að Hjalteyrargötu)

Hér eru pistlar um þau hús við Gránufélagsgötu sem ég hef tekið fyrir, og hyggst taka fyrir síðar, aðgengilegir á einum stað. Gránufélagsgata liggur samsíða Strandgötu og þverar Oddeyrina frá rótum brekkunar niður að Oddeyrartanga. Númerakerfi hennar er á köflum mjög sérstakt, svo ekki sé meira sagt, og hér birtast húsin í þeirri röð sem þau standa við götuna. Hér eru hús við þann hluta götunnar sem liggur ofan Hjalteyrargötu. 

Gránufélagsgata 4 (1945)

Gránufélagsgata 7 (1912)

Gránufélagsgata 10 (1946) ATH. Sambyggt Lundargötu 7.

Gránufélagsgata 12(áður 28) (1931)

Gránufélagsgata 16 (1926)

Gránufélagsgata 18 (1906)

Gránufélagsgata 19 (1925)

Gránufélagsgata 20 (1908)

Gránufélagsgata 21 (1919)

Gránufélagsgata 22 (1922)

Gránufélagsgata 23 (1934)

Gránufélagsgata 27 (1926)

Gránufélagagata 39, 41, 41a (1929)

Gránufélagsgata 43 (1930)

Gránufélagsgata 29 (1917)

Gránufélagsgata 31 (2002)

Gránufélagsgata 33 (1917)

Gránufélagsgata 35 (1923)

Á Gránufélagsgötu 37 standa nýleg (2003) íbúðarhús. Neðan Hjalteyrargötu eru að mestu iðnaðarhúsnæði en þar eru einnig nokkrar íbúðir. Mögulega mun ég einhvern tíma taka þau fyrir hér, en þessi hús eru mörg hver komin á virðulegan aldur og eiga auðvitað mikla sögu.  

 


Hús dagsins: Laxagata 8

Laxagata 8 stendur á áttræðu þegar þetta er ritað, en húsið reisti Sigurður Rósmundsson árið 1935. Teikningar gerði Stefán G. Reykjalín og eru þær dagsettar 8.febrúar 1935 og þar má sjá upprunalega herbergjaskipan hússins.

P8140175 Húsið er steinsteypt, einlyft á háum kjallara með háu risi og stórum “hornstæðum” kvisti með aflíðandi þaki á sunnanverðri framhlið. Á bakhlið er einnig kvistur með aflíðandi þaki. Láréttir þverpóstar eru í glugga utan í kjallara þar sem þeir eru lóðréttir en á þaki er bárujárn. Húsið hefur eitt einkenni funkisstefnu, þ.e. hornglugga og eru þeir á framhlið en einnig er einn slíkur á kvisti framhliðar Húsið er klætt utan með steinmulningi og ekki ósennilegt að um upprunalega klæðningu sé að ræða.

Kvistirnir eru seinni tíma viðbót við húsið en ekki eru heimildir fyrir því hvenær þeir voru byggðir, mögulega var það ekki samtímis, en að öðru leyti mun húsið að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð. Ég gat ekki fundið heimildir um neina verslun eða þjónustustarfsemi í Laxagötu 8 við uppslátt á timarit.is en ljóst er að þarna hafa margir átt heimili. Laxagata 8 er skemmtilegt og sérstakt hús í útliti og nýtur sín vel í götumyndinni. Sérkennilegur hornkvisturinn og horngluggarnir gefa húsinu sérstakan svip en húsið er þó ekki talið hafa sérstakt varðveislugildi umfram önnur hús við Laxagötuna. Lóðin er einnig vel gróin gróskumiklum reynitrjám sem voru einmitt í fullum skrúða þennan ágústdag, 14.8. 2015 þegar myndin var tekin.

 

Heimildir:

Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf

Tenglar í texta vísa beint á heimildir.

 


Hús dagsins: Laxagata 6 og Laxagata 7

Lengst af skrifaði ég allar húsafærslur beint inn á síðuna. En svo fór ég að hugsa að gaman gæti verið að eiga þessar færslur sem handrit og auk þess dregur það mjög úr mál -og innsláttarvillum að færa hann á milli. (Nógu margar eru þær nú samt í þessum færslumembarassed). En nú vill svo til, að færslur um öll húsin við Laxagötu eru komnar inn í skjal hjá mér og því ekkert sem segir að þær þurfi að mjatlast hér inn ein og ein. Svo hér koma umfjallanir um hús nr. 6 og 7. 

Laxagata 6

Laxagötu 6 reistu þau Ólafur Magnússon sundkennari og Ingibjörg Baldvinsdóttir kona hans árið 1933. Hönnuður hússins var Árni Stefánsson.P8140179 Húsið er einlyft timburhús með háu risi og stendur á mjög háum steyptum grunni. Áfastur kjallara að norðanverðu er steypt viðbygging með flötu þaki, upprunalega reist sem bílskúr. Ekki er vitað hvenær skúrinn er byggður en ljóst er að hann var risinn árið 1970. Á suðurhlið er inngönguskúr með geirarisi og steyptar tröppur upp að honum. Í gluggum eru eins konar þrískiptir þverpóstar, bárujárn á þaki en steinblikk á veggjum. Litglerjaður gluggi með skrautpóstum er á inngönguskúr mót suðri, og svipar nokkuð til sveitserstíls, sem var ráðandi í húsum efnamanna um aldamótin 1900. Árið 1970 var húsið teiknað upp og ástand skráð og virðist það vera í góðu standi þá, utan sem innan. Þá er húsið í eigu dánarbús Ólafs Magnússonar en hann lést vorið 1970. Hér er minningargrein Ingvars Gíslasonar um Ólaf Magnússon. Húsinu hefur líkast til alla tíð verið vel við haldið, alla vega er það í góðu standi nú og lítur vel út. Það er að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð a.m.k. að utanverðu og er talið hafa varðveislugildi fyrir götumynd Laxagötu. Húsið er sem áður segir í góðu standi og lóð er einnig vel gróin og vel hirt og þar hefur verið reistur timburpallur með skjólgirðingum og steyptar stéttir og bílastæði. Bílskúr hefur verið innréttaður sem forstofa en ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin 14.ágúst 2015.

 

 

Laxagata 7 

Laxagötu skipa þó nokkrir fulltrúar hinna ýmsu byggingargerða íbúðarhúsa frá fyrri hluta 20.aldar, enda þótt húsin séu aðeins sjö. Þar má finna timburparhús með risi og kvisti, timburhús með háu risi, steinsteypt parhús með háu risi auk kirkju og steinhús með með risi og miðjukvisti; “timburhúsalagi”. Þá má finna bárujárnsklæðningu og steinblikk, sléttan múr en einnig tvö hús klædd steinmulningi. Annað þeirra er Laxagata 7. Húsið er það nyrsta við götuna en Laxagata 9, sem áður var elsta hús við götuna (b.1925) var rifið um 1995.P8140174

En Laxagötu 7 reisti Eiríkur Einarsson eftir teikningum Snorra Guðmundssonar árið 1943. Þær teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu góða en hér má sjá uppmælingateikningar Haraldar Árnasonar frá 1991 vegna svalabyggingar. Laxagata 7 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki, klætt steinmulningi eða skeljasandi eða perluákasti eða hvað menn vilja kalla þessa veggklæðningu. Bárujárn er á þaki en einfaldir póstar með láréttum fögum í gluggum. Á suðurhlið eru steyptar tröppur og inngangur á efri hæð en á vesturhlið eru svalir. Þá er litil álma á suðurhlið en þar eru inngöngudyr. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, líkast til með einni íbúð á hvorri hæð og hafa margir átt þarna heimili. Samkvæmt Húsakönnun Ómars Ívarssonar er húsið að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð og ástand hússins sagt nokkuð gott. Þessi mynd er tekin 14. ágúst 2015.

 

 

Heimildir:

Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf

 

Tenglar í texta vísa beint á netheimildir.

 

 

 

 


Hús dagsins: Laxagata 5, "Kirkjan"

Götumynd Laxagötu er fjölbreytt og skemmtileg þó aðeins standi sjö hús við götuna. P8140177Sú bygging sem er kannski mest áberandi er Laxagata 5 eða “kirkjan” en hér er um að ræða fullgilda kirkjubyggingu með turni. En kirkju þessa reisti Aðventistasöfnuðurinn með þá O.J. Olsen og O. Frenning í broddi fylkingar árið 1933. Í skjölum byggingarnefndar er talað um kirkju innan gæsalappa og jafnframt tekið fram að söfnuður muni gefa alla vinnu við bygginguna. Upprunalegar teikningar hafa varðveist sjá hér, en þær eru hvorki áritaðar né dagsettar. Húsið er hefðbundið timburgrindarhús á steyptum grunni og með risi og turni á framhlið. þak bárujárnsklætt og steinblikk á veggjum en á turni er hins vegar slétt þakjárn. Gluggar eru stórir og víðir með margskiptum rúðum og eru þrír gluggar á hvorri hlið og einn á turni.

Ekki þekki ég það hversu lengi Aðventistar nýttu þessa kirkju sína en ekki hefur það verið um margra ára skeið. Torfi Maronsson nuddlæknir rak þarna nudd- og ljóslækningastofu á 5. og 6.áratugnum en fluttist úr húsinu með þá starfsemi árið 1960 og stóð húsið autt um einhver misseri . Vorið 1961 sýna Karlakór Akureyrar og Lúðrasveitin húsinu áhuga og var húsið um áratugaskeið aðsetur þeirra, en einnig hafði kvennadeild Slysavarnarfélagsins aðsetur í húsinu. Laxagata 5 hefur því löngum verið vettvangur söngs, samkoma og tónlistarflutnings. Nú gegnir húsið hlutverki aðseturs og æfingaaðstöðu Harmonikkuunnenda við Eyjafjörð en félagið keypti hlut Lúðrasveitarinnar í húsinu árið 2010. Þannig að nú eru dragspil þanin dátt í Laxagötu 5 þar sem áður ómaði lúðrablástur. Laxagata 5 er nánast óbreytt frá upphaflegri gerð að utan sem innan. Ómar Ívarsson telur húsið ekki hafa sérstakt gildi fyrir götumyndina en saga hússins og byggingarlagið gefi því töluvert gildi, auk þess sem húsið er afhelguð kirkja. Þeim sem þetta ritar þykir rík ástæða til þess að kirkjan við Laxagötu verði varðveitt áfram. Húsið virðist vel byggt og í nokkuð góðu standi. Þessi mynd er tekin 14.ágúst 2015 og með á mynd er stórglæsilegur Opel Rekord, A-518. Hann er árgerð 1961 (skv. uppflettingu í Ökutækjaskrá) og væntanlega er mikil saga á bak við hann. Það væri meira en vel þegið, ef einhver myndi lauma fróðleiksmolum um A518 hingað inn á athugasemdir eða Gestabók smile(ekki verður hægt að birta athugasemdir við færslu eftir 5.okt en gestabókin er alltaf opin) 

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar.Fundargerðir 1930-35:Fundur nr. 705,17.8.1933. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf

Tenglar í texta vísa beint á netheimildir.

 


Hús dagsins: Laxagata 4

Haustið 1931 fékk Sigfús Grímsson leyfi til að reisa steinsteypt íbúðarhús við Laxagötu og tveimur árum síðar var honum leyft að reisa forstofu á norðurhlið. P8140180Þá voru einnig gerðar breytingar á húsinu 1938. Teikningarnar af húsinu voru eftir Tryggva Jónatanssonar en þær virðast ekki hafa varðveist; alltént eru þær ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu. Laxagata 4 er einlyft steinsteypuhús á nokkuð háum kjallara og með háu portbyggðu risi. Miðjukvistur er á framhlið en lágur kvistur með aflíðandi, hallandi þaki á bakhlið. Háaloft er yfir rishæð og þar eru smáir gluggar á göflum og á kvisti. Á norðurgafli er forstofubygging og steyptar tröppur að inngangi og ofan á henni svalir. Áföst inngönguskúr að austan er einnig viðbygging með skúrþaki Bárujárn er á þaki hússins en krosspóstar í gluggum. Á lóðinni stendur einnig einlyft bakhús með lágu risi, byggt um 1946 eftir teikningum undirritaðum af “Snorra” , þ.e. Snorra Guðmundssyni en þá byggingu reisti Baldur Helgason trésmíðameistari og rak hann þar smíðaverkstæði. Nú er þessi bygging að held nýtt sem geymsla. Framhúsið hefur að ég held alla tíða aðeins verið nýtt til íbúðar og er það einbýli. Laxagata 4 er stórglæsilegt hús með nokkuð hefðbundnu lagi. Tryggvi Jónatansson teiknaði þó nokkur hús með þessu lagi á síðari hluta þriðja áratugarins og í upphafi þess fjórða, m.a. Fjólugötu 8 sem er timburhús, mjög svipað þessu húsi í útliti. Laxagata 4 er til mikillar prýði í götumynd Laxagötu sem er nokkuð fjölbreytt þó húsin séu ekki mörg. Ein íbúð er í húsinu. Myndin af íbúðarhúsinu er tekin 14.ágúst 2015.

 

 

Hér að neðan sést bakhúsið á Laxagötu 4 en húsið byggði Baldur Helgason sem verkstæði um 1946. Myndin er tekin í fyrradag, 15.sept.2014.

P9150225

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1930-35: Fundur nr. 670, 21.sept.1931.

Fundur nr. 701, 15.júní 1933.

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

 

Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf

 

 


Hús dagsins: Laxagata 3

Laxagötu 3 reistu bræðurnir Ebenharð og Oddur Jónssynir árið 1933.P8140178 Voru þeir frá Hofi í Svarfaðardal. Húsinu var lýst í byggingarleyfi til Ebenharðs sem íbúðarhúsi, 16x8m ein hæð á kjallara og með lágu risi. Ekki verður annað séð en að þessi lýsing eigi enn við húsið. Húsið er einlyft á háum kjallara (sjálfsagt álitamál hvort kalla eigi kjallara jarðhæð í þessu tilfelli) og með nokkuð lágu risi, líklega er það rúmlega manngengt. Hver mörkin eru milli lágra og hárra risþaka er örugglega einnig á reiki, líkt og munur á kjallara og jarðhæð. Krosspóstar eru í gluggum hússins og bárujárn á þaki. Húsið hefur alla tíð verið parhús, Laxagata 3a og 3b og er að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð. Á lóðinni stendur einnig bílskúr, byggður um 1995. Laxagata 3 er einfalt og látlaust hús en stórglæsilegt engu að síður. Það er í góðri hirðu og lítur vel út og er talið hafa varðveislugildi fyrir fallega ásýnd við vestanverða Laxagötu. Þessi mynd er tekin 14.8.2015.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35: Fundur nr. 701, 15.6.1933

Manntal á Akureyri 1940.

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf

 

Tenglar í texta.

 


Hús dagsins: Laxagata 2

Síðasta hús dagsins, Gránufélagsgata 7 stendur á horni þeirrar götu og Laxagötu en sú síðarnefnda er stutt þvergata sem liggur til norðurs frá Gránufélagsgötu. Laxagatan er eftir því sem ég kemst næst eina gatan á Akureyri sem heitir eftir fiskitegund en trúlega er algengast að Akureyrargötur dragi nöfn sín af höfuðbólum, staðháttum og örnefnum. Segja má að íbúar við austanverða Laxagaötuna séu með bæjarstjórnkerfið í bakgarðinum því næst neðan götunnar stendur Ráðhúsið. laughingLaxagatan byggðist að mestu á fyrri hluta 4.áratugarinsm og eru öll húsin sem nú standa við hana byggð 1932-35 að einu undanskildu sem byggt er 1940. En syðst við Laxagötuna austanverða, næst norðan við Gránufélagsgötu 7, stendur vinalegt gult bárujárnshús með rauðu þaki.

Laxagata 2

Árið 1931 fékk Jón Stefánsson leyfi til að reisa hús á þessari lóð, 6,4x14,95m, ein hæð með porti og háu risi. P8140181Fyrst um sinn vildi hann hafa húsið kjallaralaust en nefndin vildi ekki leyfa það og skyldi kjallari, a.m.k. 1,25m hár standa undir húsinu. Ári síðar reis hús Jóns af grunni. Teikningar af húsinu gerði Halldór Halldórsson byggingarfulltrúi.

Laxagata 2 er einlyft timburhús með portbyggðu risi og stendur húsið á steyptum kjallara. Miðjukvistur er á götuhlið en langur kvistur með skúrþaki á bakhlið. Í gluggum eru krosspóstar, “tvíbreiðir” eða sexskiptir á framhlið og í kvisti. Inngangar og steyptar tröppur upp að þeim eru á göflum. Allt er húsið bárujárnsklætt og hefur líkast til verið svo frá upphafi, en þegar húsið var byggt (1932) virðist járnvörn skilyrði fyrir byggingu timburhúsa. Samkvæmt uppmælingarteikningum er húsið 789 rúmmetrar að stærð.

Húsið hefur að öllum líkindum verið parhús frá upphafi og skipst í miðju. Við leit í gagnagrunni timarit.is var ekki að sjá auglýsingar frá neinum fyrirtækjum eða verslunum í Laxagötu 2 en líkt og gengur og gerist finnast ýmsar tilkynningar m.a. um stórafmæli heimilisfólks eða almennar smáauglýsingar. Einnig má sjá hvenær íbúðir eða herbergi í húsinu hafa verið til sölu eða leigu. Húsið er líkast til að stærstum hluta óbreytt frá upphafi að ytra byrði. Húsið er af nokkuð dæmigerðri timburhúsagerð og var þetta lag, hæð-hátt ris-miðjukvistur einnig ráðandi í elstu steinsteypuhúsunum. Í húsakönnun sem unnin var fyrir Akureyrarbæ var húsið sagt hafa varðveislugildi fyrir “fallega ásýnd með öðrum húsum við austanverða Laxagötuna” (Ómar Ívarsson, 2011) Nú eru fjórar íbúðir í húsinu, á hæð og í risi í hvorum hluta. Þessi mynd er tekin þ. 14.ágúst 2015.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 670 21.9.1931

Fundur nr. 671 5.10.1931

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf

 

Tenglar í texta.

 

 

 

 


Kókómjólkurferna og plastpoki

Þessi fyrirsögn getur gefið ýmislegt til kynna- en þess má geta strax að hér er um aðra SKÁTASÖGU að ræða. Vettvangur síðustu sögu sem ég deildi hér var Fálkafell en hér berum við niður handan Eyjafjarðar í öðrum skála að nafni Valhöll. Hann  stendur í Vaðlaheiði í landi Halllands, h.u.b beint ofan gangnamunna fyrirhugaðra Vaðlaheiðarganga. 

    Í félagsútilegu í september 2011 voru samankomnir á fjórða tug skáta í Valhöll. Einn dagskrárliðinn átti ég að hafa umsjón með eða skipuleggja en þegar til kastanna kom hafði ég að sjálfsögðu steingleymt að hugsa út í það. En skáti er ávallt viðbúinn. Á u.þ.b. fjórum sekúndum laust þessari einföldu hugmynd í kollinn á mér: Sendum flokkana í gönguferðir um umhverfið og týna hluti, mega vera hvaða hlutir sem er, og semja um þá sögu. Svo skulu þau flytja þessa sögu á kvöldvöku um kvöldið. (En fyrir þá sem ókunnir eru skátastarfi má geta að í öllum útilegum eru kvöldvökur þar sem sungið er og flutt frumsamin skemmtiatriði). Ég gerði mér fyrirfram hugmyndir um að krakkarnir myndu safna laufum, greinum, plöntum og steinum en það gerðu þau ekki eingöngu, heldur týndu þau að megninu til rusl. Það var því ófyrirséður bónus, að þau hreinsuðu örlítið til í nágrenni skálans. Því miður man ég ekki allar sögurnar sem krakkarnir bjuggu til um hlutina sem þau fundu, nema þessa einu sem var einstaklega eftirminnileg. Hún snerist um ástir kókómjólkurfernu og sundurtætts plastpoka sem hópurinn hafði fundið. Sami hópurinn hafði einnig fundið hald eða efsta hluta skafts af malarskóflu. Þannig endaði sagan á brúðkaupi kókómjólkurfernu og plastpoka og sá sem gaf þau saman var...séra Skófluskaft laughing

 

P9240322

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þessi mynd er tekin í umræddri útilegu, laugardaginn 24.sept. 2011.

 


Hús dagsins: Gránufélagsgata 7

 

Fá íbúðarhús standa við Gránufélagsgötuna ofan Glerárgötu. P7240118Þau hafa nokkur týnt tölunni gegn um tíðina en á horni Gránufélagsgötu og Laxagötu stendur þó tvílyft steinhús. Það er eitt af elstu húsum við götuna, líklega það þriðja elsta en aðeins númer 18 og 20 eru eldri.

En Gránufélagsgötu 7 reistu þau Ingvar Ingvason og Guðrún Rósa Magnúsdóttir árið 1912, en húsið var þó ekki fullklárað fyrr en um 1915. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með háu risi. Það stendur á lágum grunni, kjallaralaust og á norðurhlið hússins er lítill skúr. Í gluggum eru þverpóstar með þrískiptum efri póstum en í risi eru krosspóstar. Bárujárn er á þaki.

Árið 1912 fékk Ingvar Ingvason leyfi til að byggja hús á túni Vigfúsar Sigfússonar, á horni Gránufélagsgötu og Túngötu, tvílyft 10x12 álnir að stærð og með 2,5al. Tröppu á vesturstafni. Þá áskildi nefndin að settir væru “ 2 gluggar á lopthæð hússins á austurstafni”. Ekki fylgir sögunni hvaða ástæður láu þar að baki. Síðla árs 1914 óskar Ingvar eftir að fá að byggja skúr 2,5x2,5m norðan við hálfbyggt hús sitt. Þar stillir Bygginganefnd honum upp við vegg; að hann skuli klára húsið innan árs frá dagsetningu fundargerðar, ellegar falli húsbyggingarleyfi hans úr gildi! Svo virðist sem Ingvar hafi lokið við húsið- því réttum hundrað árum síðar stendur það enn !

Í Fasteignamati árið 1918 er húsinu lýst sem íbúðarhúsi úr steinsteypu, með pappaklæddu þaki, einlyft með lágu risi, ein íbúð 4 herbergi auk geymslu, 7,5x6,3m að grunnfleti. Húsið er þá virt á 1800 kr en lóð, sem þá var eign Ragnars Ólafssonar var metin á kr. 1000. Árið 1920 fékk Ingvari leyfi til að setja “vinkilris” á hús sitt, auk þess sem honum leyft að færa dyr af vesturstafni yfir á þann eystri. Hefur húsið þá líkast til fengið það útlit sem það hefur nú. Margir hafa átt heima í Gránufélagsgötu 7 gegn um tíðina. Ingvar og Guðrún bjuggu líkast til þarna til ársins 1933 en þá fluttust þau til Reykjavíkur. Hér er viðtal við Guðrúnu frá 1966 en þá náði hún 100 ára aldri. Nú eru í húsinu tvær íbúðir og hefur verið svo um áratugaskeið. Húsið er í ágætu standi og sómir sér vel í umhverfi sínu. Myndin er tekin þ. 24.júlí 2015.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1902-21:

Fundur nr. 373, 17.sept 1912

Fundur nr. 399, 7.nóv 1914

Fundur nr. 475, 5.maí 1920

Óútgefin rit en innbundin afrit af öllum fundargerðum Bygginganefndar eru varðveittar á Héraðskjalasafninu.

Fasteignamat á Akureyri 1918. Varðveitt á Hskj.s Ak.

 


Eitt af stórvirkjum tónlistarsögunnar

Fjölmargir færir og valinkunnir tónlistarmenn, innlendir og erlendir, eiga það sameiginlegt að vera fæddir 1945 og fagna því sjötugsafmæli sínu á þessu ári. Tveir þeirra, sem eru kannski ekki sérlega áberandi nú um stundir, eru hljómborðsleikarinn og söngvarinn Doug Ingle og trommarinn Ron Bushy. Þeir eiga báðir stórafmæli í þessum mánuði, Ingle er fæddur 9.sept. en Bushy 23.sept. 1945 en þeir voru meðlimir amerísku "psychadelic" rokksveitarinnar Iron Butterfly. Frægðarsól þeirrar sveitar reis vafalítið hæst á árunum kringum 1970 en sveitin hefur starfað með löngum hléum og talsverðum mannabreytingum eftir 1971 og er enn að !   Ásamt þeim skipuðu sveitina á upphafsárum hennar bassaleikarinn Lee Dormann (1942-2012) og gítarleikarinn Erik Brann (1950-2003) á gítar.

    Í stuttu máli má lýsa músík Iron Butterfly sem svipaðri t.d. Deep Purple, Led Zeppelin og Trúbroti.  Ég þori að fullyrða, að  allra þekktasta lag þeirra Iron Butterfly liða hljóti að vera hið 17 mínútna stórbrotna meistaraverk IN-A-GADDA-DA-VIDA frá 1968. (Titillinn á auðvitað að vera In The Garden of Eden, en er ævinlega stafsettur eftir hálf þvoglumæltum framburði í flutningi) Doug Ingle er skráður höfundur lagsins og Bushy leikur þar mjög stórt hlutverk með einu annálaðasta trommusólói rokksögunnar. Þrátt fyrir að vera hátt í fimmfalt  lengra en flest hefðbundin dægurlög er texti lagsins aðeins fjórar línur, sungnar þrisvar; tvisvar í upphafi og einu sinni í lokin. Að öðru leyti er lagið eins konar veisluhlaðborð af hammond- og gítarsólóum, bassinn fær einnig að njóta sín að ógleymdu áðurnefndu trommusólói Bushy sem er ca. 4 mínútur að lengd. Ég ætla ekkert að lýsa þessari snilld neitt frekar heldur láta myndbandið hér fylgja með. Því ef mynd segir 1000 orð segir myndband meira en 100.000...  

 (Heimildir: sjá tengil í texta)

PS. Svona er In-A-Gadda-Da-Vida í flutningi íbúa Springfield.

  


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Sept. 2015
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • IMG_3045
  • P6171046
  • P6171045
  • IMG 3018
  • IMG 3024a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 60
  • Sl. sólarhring: 224
  • Sl. viku: 419
  • Frá upphafi: 446010

Annað

  • Innlit í dag: 51
  • Innlit sl. viku: 288
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband