9.9.2009 | 17:11
Nokkrir stórgæðingar
Hér ætla ég að deila með ykkur nokkrum myndum úr bílamyndasafninu mínu. En eins og komið hefur fram áður eru það helst hús, bílar og fjöll sem ég tek fyrir þegar ég fer út að mynda. Ein tegund sem alltaf hefur heillað mig eru Róverarnir. Rover mun vera algengt hundanafn í ensku og algeng þýðing á því nafni hefur verið Tryggur. Eflaust á það vel við um Land Roverana. Komast allt og ganga endalaust ( eða svo er alla vega sagt ).
Hér eru nokkrir eðal gæðingar á ýmsum aldri en þessar myndir tók ég árin 2004 og 2005.
Hér má líta þrjár týpur af Land Rover, efsta er ef mér skjátlast ekki af Series III en sá hvíti mundi vera Series II. Ekki er mér kunnugt um árgerðir þeirra en eitt er víst að sá hvíti er frá 1970 eða fyrr og sá blái ( efri ) er frá 1971 eða seinna. Hvernig er hægt að sjá það ? Jú, fyrir 1971 voru aðalljósin staðsett innan við hjólaskálarnar. Miðjumyndin er síðan 1988 árgerð af Land Rover Defender sem er einskonar "nýtísku jeppi" með gamla lúkkinu. Aðalsmerki Róverana hefur alltaf verið einfaldleiki og hrá hönnun og þeim eiginleikum er haldið við í Defendernum. En hvers vegna að halda því við? Er ekki lúxusinn það sem allir vilja? Það er nú einusinni þannig að jeppar eru ætlaðir fyrir hörku og erfiðar aðstæður. Þeir þurfa að vera þannig að úr garði gerðir að menn veigri sér ekki við að "láta þá finna fyrir því". Það er einhvern vegin mun auðveldara þegar í hlut á tiltölulega einfaldur og grófgerður bíll heldur en einhver lúxus limmósína.
En talandi um lúxusbíla. Hér er einn Range Rover, stundum kallaður fyrsti lúxusjeppinn. Þessi hér er árgerð 1986 og vakti hann athygli mína fyrir það hvað hann virtist ótrúlega vel með farin, virkaði eins og nýr úr kassanum þar sem hann stóð á bílasölu Höldurs í janúar 2004.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.9.2009 | 15:25
TOP 5: Elstu hús í Innbænum
Í kjölfar færslunnar á undan verður þessi listi að fylgja með. Þar sem Innbærinn er elsti bæjarhlutinn, miklu eldri en Oddeyrin er þetta með öðrum orðum listi yfir elstu hús á Akureyri.
- Hafnarstræti 11 (214), Laxdalshús. Reist 1795.
- Aðalstræti 14 (174), Gamli Spítalinn. Reist 1835.
- Lækjargata 2a (169) og Aðalstræti 52 (169) eru jafngömul og deila 3. og 4. sætinu, reist 1840.
- sjá að ofan
- Aðalstræti 62 (167). Reist 1842.
Ég get hreinlega ekki staðist mátið að fara út í tölfræði. En meðalaldur fimm elstu húsa Akureyrar er (214+174+169+169+167)/5=178,6 ár.
Á Oddeyri er meðalaldur þeirra fimm elstu (136+133+130+129+129)/5= 131,4 ár.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2009 | 14:50
TOP 5: Elstu hús á Oddeyri
Mér datt í hug að setja saman svona lista fyrst ég er búinn að skrifa um elsta og næst elsta hús á Oddeyri. Byggingarár húsanna geta að vísu verið á reiki en ég miða við þau ártöl sem flestar heimildir segja.
- Strandgata 49 (136), Gránufélagshúsin. Reist 1873.
- Strandgata 27 (133). Reist 1876.
- Lundargata 2 (130). Reist 1879.
- Norðurgata 11(129) og 17, Gamla Prentsmiðjan (129) deila 4. og 5. sætinu en þau eru bæði byggð 1880.
- sjá að ofan.
Hér svífur Séð og Heyrt andinn yfir vötnum, en glöggir lesendur hafa kannski fundið út að tölurnar í svigunum eru aldursár húsanna!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2009 | 15:14
Hús dagsins: Strandgata 27
Við skoðun á færslum síðustu vikurnar komst ég að því að ég hafði ekki skrifað staf um Oddeyrina í rúman mánuð og yrði að bæta úr því hið snarasta. Síðast skrifaði ég um Gránufélagshúsin, þ.28.júlí en það er elsta hús á Oddeyrinni. Húsið hér til á hliðar skipar annað sætið en það er Strandgata 27 en það er reist 1876 af manni að nafni Jón Halldórsson. Upprunalega var þetta parhús, en austurhlutinn er löngu horfinn. Hann virðist hafa verið ein hæð og ris á meðan vesturhlutinn, þ.e. þetta hús var tvær hæðir og ris. Það þarf ekki annað en að líta á húsið til að sjá þar var verslun á jarðhæð. Hvernig sjáum við það ? Jú stóri glugginn á framhlið til hliðar við dyr bendir ótvírætt til þess. Íbúðaskipan hefur eflaust verið síbreytileg, þarna hafa vafalítið búið margar fjölskyldur í einu í eina tíð, síðan íbúðum smám saman fækkað og nú er þetta einbýlishús. Þá er það e.t.v. sérstakt með sögu þessa hús að það hefur raunar minnkað frá upphafi en mjög algengt er að þetta gömul hús að þau hafa verið stækkuð, byggt við þau oftar er en einu sinni. Þessi mynd er tekin snemma árs 2005.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2009 | 18:27
Dýpstu afkimar Eyjafjarðar
Þessi síða er raunar orðin til utan um myndir sem ég hef tekið og fróðleik sem ég grúskað um það sem á myndunum er. Ég hef sérstaklega gaman að deila myndum af svæðum kannski ekki allir þekkja. Svona einhverskonar kynningarstarfsemi. Þá finnst mér um að gera að koma að einhverjum fróðleik um þessi svæði eða hús sem á myndunum eru- þó myndin segi auðvitað meira en 1000 orð. Hér eru nokkrar svipmyndir frá afdölum í innanverðum Eyjafirði.
Hér berum við niður í Djúpadal, dagsetningin er uppstigningadagur 25.maí 2006. Djúpidalur er mestur afdala Eyjafjarða ,mynni hans um 25km frá Akureyri og út frá honum greinast nokkrir dalir. Á miðri mynd er fjallið Mælifell, 1155m en vinstra megin heldur Djúpidalur áfram en hægra megin Mælifells heitir Strjúgsárdalur. Í fjarskanum undir Mæilfelli, t.h. má sjá Hvassafellshnjúk en hann er 1160m. Til vinstri sést hlíð Hleiðargarðsfjalls en það er um 1000m. Fremst er svo uppistöðulón Djúpadalsvirkjunar en sú virkjun varð fyrir gríðarlegum skemmdum í aftaka asahláku um jólaleyti 2006 þegar stíflan brast. Gaman væri að birta einhverja leiðarlýsingu upp á fjöllin- en ég hef ekki gengið uppá þau og tel mig þessvegna ekki þess umkominn að gera það.
Þessi mynd er tekin við Leyningshóla 16.mars 2008. Þarna eru um 42 km til Akureyrar. Horft er fram Eyjafjarðardal en það orkar svolítið tvímælis að kalla hann afdal því hann er raunar framhald af Eyjafirði. Þaðan liggur leiðin upp í Laugafell og er hann þannig dyr Eyjafjarðar að miðhálendinu. Ef mynd er stækkuð má greina bæina Hólsgerði (t.h.) í mynni dalsins og Tjarnir (t.v., í eyði) beint á móti. Dalurinn til hægri heitir Glerárdalur en fjallið sem sólin skín er að öllum líkindum Selfjall (1084m).
Hér er horft fram Villingadal, en hann liggur samsíða Eyjafjarðardal vestan megin. Fjallið Torfufell (1241m, sér í hlíð þess lengst til vinstri) skilur á milli. Aðeins einn bær, samnefndur dalnum, er í dalnum og liggur vegurinn þangað upp Leyningshóla, sem fylla upp í mynni dalsins. Ekki er mér kunnugt um nöfn fjallana og smádalanna en efast ekki um að þau hafi öll nöfn. ( Fjallið örlítið hægra megin miðju held ég að sé Leyningsöxl.) Það er nú einusinni þannig að allstaðar þar sem byggð ból eru leynast örnefni. Þessi mynd er tekin um ellefuleytið að kvöldi, 25.júní 2008.
Það má kannski koma því að allar myndir sem ég set á síðuna eru eins og þær "koma af beljunni". Engu hefur verið breytt, ekkert lagað og ekkert "fótósjoppað".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.9.2009 | 19:02
Góðir þættir
Ég festist ekki auðveldlega yfir sjónvarpsseríum. Mér finnst hálfómögulegt að þurfa alltaf að múlbinda mig á einhverjum ákveðnum tíma vikunnar, alltaf, yfir einhverju glápi. Þannig sé ég kannski bara einn og einn þátt af hinum og þessum seríum en næ ekki að komast inn í þráðinn. Nema þá að þættirnir séu mér þeim mun meira að skapi. Það eru sennilega mest kannski 3 þáttaraðir sem ég get verið "húkt" á í einu. Ef þessi tala er eitthvað hærri er sjónvarpið hálfpartinn farið að stjórna manni. En það eru vissir þættir sem ég reyni helst alltaf að sjá. Tveim ólíkum þáttaröðum mæli ég sérstaklega með en það eru:
Simpson fjölskyldan hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan sýningar á þeirri seríu hófust hérlendis. Það var vorið 1991 ef ég man rétt. Þættirnir standa einhvern vegin alltaf fyrir sínu, en á löngum tíma hafa þeir vissulega þróast og tekið breytingum. Uppátækjum Homers og fjölskyldu eru engin takmörk sett og hafa enst í yfir 400 þætti. Það er líka alltaf hægt að horfa sömu þættina aftur og aftur og hafa jafngaman af þeim.
Út og Suður á ekki margt sameiginlegt með The Simpsons en þeir þættir eru einnig í miklu uppáhaldi og ég reyni helst alltaf að sjá þá. Upphafsstefið skipar sér sennilega í flokk þeirra mest grípandi og skemmtilegustu og var það raunar ástæða þess að ég gaf þessum þáttum gaum upphaflega. Gísli Einarsson er einstaklega fundvís á skemmtilega og spennandi viðmælendur þar sem hann flakkar um landið og tekur hús á alls konar fólki. Oft blandast inn í fróðleikur og skemmtun í boði annað hvort viðmælenda eða Gísla sjálfs.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.8.2009 | 14:06
Hús dagsins: Hafnarstræti 91-93; KEA húsið
Þetta hús ætti að vera öllum sem einhvern tíma hafa komið til Akureyrar kunnuglegt. KEA húsið stendur á mótum Kaupangsstrætis og Hafnarstrætis og framhliðin snýr að fyrrnefndu götunni. En þetta er líklega eitt þekktasta götuhorn Akureyrar og margir segja að þetta sé fallegasta götuhorn landsins. En húsið var reist árið 1930 fyrir Kaupfélag Eyfirðinga, KEA og hafði það þarna sínar höfuðstöðvar í 76 ár, en það fluttist alfarið úr húsinu 2006. Húsið var eitt stærsta og veglegasta hús bæjarins á þeim tíma. Steinsteypt, þrjár hæðir og ris, grunnflötur L-laga og myndar mikið port á bakvið. Í kringum glugga og á þaki er skraut sem eflaust flokkast undir einhvern sérstakan stíl, en hann kann ég nú ekki að nefna. Þá eru gólf milli hæða öll steypt en það þekktist aðeins í fáum tilvikum á þeim tíma, þá helst í stórum, opinberum byggingum. Lengst af voru hinar ýmsu skrifstofur Kaupfélagsins á efri hæðum og verslun, Vöruhús KEA á þeirri neðstu. Margir muna eflaust eftir húsinu með rauðum neon stöfum sem myndaði "Kaupfélag Eyfirðinga" á framhlið, KEA tíglinum eða Sambandsmerkinu efst og á Hafnarstrætishlið var skilti, myndað úr bláum sexhyrningum á þar stóð "Vöruhús KEA". KEA hætti þarna verslunarrekstri 1996 og fluttist verslunin Bókval í rými Vöruhússins og er hún enn starfandi þar undir merkjum Eymundssonar. Þar er einnig rekið bókakaffi, kaffihús Te og Kaffi sem fluttist úr Hafnarstræti 98, Hótel Akureyri sem ég fjallaði um síðast. Árið 2006 fluttist KEA úr húsinu og tók á sama tíma upp nýtt merki sem leysti af tígulinn fræga og var hann í kjölfarið fjarlægður af húsinu. Nú eru ýmis fyrirtæki, m.a. Intrum á efri hæðum og merki þess fyrirtækis komið í stað KEA merkisins. Mörgum þótti brotthvarf tígulsins af húsinu hin mesta hneisa og jafnvel móðgun við sögu Akureyrar, enda KEA nátengt þeirri sögu á 20.öldinni. Þessi mynd er tekin nokkrum mánuðum eftir að tígullinn fór, febrúar 2007 en rúðupóstar neðstu hæðar halda merkjum KEA enn á lofti, eins og sjá má.
Hér má svo sjá KEA tígulinn margfræga, en þessi er utan á gamalli skemmu við Tryggvabraut. Áður var þetta merki býsna algengt á verslunarhúsum á Akureyri en nú held ég að þetta sé eini staðurinn sem tígullinn er sjáanlegur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.8.2009 | 13:21
Hús dagsins: Hafnarstræti 98
Efst í göngugötunni gegn um miðbæ Akureyrar standa þrjú eldri bárujárnsklædd hús. Eru þetta hús nr. 94, Hamborg (100)* og nr. 96, París (96) og nr. 98, Hótel Akureyri (86) sem ég hyggst taka fyrir í færslu dagsins. Myndin til hliðar er tekin fyrir réttum tveimur árum, 31. ágúst 2007 og var raunar ekki að ástæðulausu að ég tók þessa mynd. Jú, á þessum tíma gat það þess vegna verið dagaspursmál hvenær húsið yrði rifið. En húsið, sem er þrílyft timburhús með háu risi reisti maður að nafni Sigurður Bjarnason árið 1923. Á þeim tíma var orðið sjaldgæft að menn reistu stórhýsi úr timbri, enda steinsteypan að miklu leyti tekin við sem aðal byggingarefnið. Fljótlega var hafinn hótelrekstur á efri hæðum hússins og kallaðist Hótel Akureyri og hefur það nafn haldist síðan. Ætli það séu ekki ca. 15-20ár síðan hótelrekstur lagðist af í húsinu, en ekki er mér fullkunnugt um það. En ýmis konar starfsemi hefur verið í þessu húsi, hótel og veitinga-og skemmtistaðir (Dropinn m.a.) á efri hæðum og verslanir á jarðhæð. Vinstri grænir höfðu þarna aðsetur 2006-2007. Sjónvarpsstöðin Aksjón var starfrækt á annarri hæð hússins fyrsta starfsárið 1997. Þá var Kristjánsbakarí til húsa áratugum saman í miðrými. Sú sjoppa hafði mikinn sjarma. Veggir klæddir einhverskonar eftirlíkingu af múrhleðslu og gólfin marrandi og brakandi. Plássið var afar þröngt, varla nema 4-5m á breiddina og lengdin einhverjum örfáum metrum meiri. Samt fékkst þarna allt til alls, brauðið var afgreitt norðanmegin, í austurenda var drykkjarkælir en á suðurvegg var m.a. hægt að fá kex, pakkasúpur, tómatssósu og fiskibollur í dós. Ef maður stóð við afgreiðsluborðið var hægt að teygja sig yfir í vöruhilluna hinu megin. Árið 2007 var húsið keypt til niðurrifs, og reisa átti fjögurra hæða stórhýsi í staðin og áttu m.a. VG og bakaríið að fá inni í þeirri byggingu. Í ágúst og september reis hávær andstaða við niðurrifið sem endaði með því að menntamálaráðherra skarst í leikinn og friðaði húsið í skyndi. Skömmu seinna keyptu KEA og fleiri aðilar húsið til endurbyggingar og stendur húsið enn og bíður þess að vera tekið í gegn. Þá verður húsið eflaust svipuð prýði á miðbænum eins og næstu hús, París og Hamborg.
*Talan í sviga vísar til aldurs húsana; Séð og Heyrt stíllinn á þessu!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.8.2009 | 14:12
Hús dagsins; Hafnarstræti 94; Hamborg
Ég hef svolítið farið þá leið í færslunum mínum að láta eitt leiða af öðru. T.d. komu Samkomuhúsið og Gamli Barnaskólinn í röð, fjöllin í Súlnafjallgarðinum og Gamli Spítalinn og Apótekið komu í röð. Síðast fjallaði ég um París og kom inn á hús nefnd eftir stórborgum og í beinu framhaldi er rökrétt að taka fyrir næsta hús ofan neðan við, Hafnarstræti 94 a.k.a. Hamborg.
Hafnarstræti 94 á stórafmæli í ár en það er akkúrat 100 ára ( á þessari mynd er það reyndar 97 ). En húsið reisti stórkaupmaðurinn Jóhannes Þorsteinsson árið 1909. Hann var bróðir Sigvalda Þorsteinssonar sem reisti París, næsta hús fjórum árum síðar. Rak hann þarna verslunina Hamborg og hefur húsið verið kallað það síðan. Stíll hússins er afar sérstakur og nánast einstakur. Það er ferningslaga á grunnfleti með valmaþaki* og hornkvistum sem gefa húsinu sérsatakan svip. Í heila öld frá upphafi hefur verið verslunarrekstur á neðri hæð en íbúð eða skrifstofur á þeirri efri. Líklega um miðja síðustu öld var húsið forskalað með skeljasandsmúr og skipt um gluggapósta. Þegar þessi mynd er tekin, 18.apríl 2006, er endurgerð í fullum gangi. Nú hefur húsið verið fært í sem næst upprunalegt horf að utan. Frá 2007 hefur verið rekin 10-11 verslun í húsinu en lengi vel var þarna íþróttavöruverslunin Sporthúsið.
*Valmaþak er þak með píramýdalagi, algengt á ferningslaga húsum.
Uppfærsla, ágúst 2020: Pistlinum, sem þegar þetta er ritað er skrifaður fyrir 11 árum síðan, fylgir mynd, tekin á meðan húsið í viðgerð. Því er ljúft og skylt, að birta hér nýja mynd sem sýnir Hamborg eins og hún lítur út í dag, en sú mynd er tekin 2. desember 2018. Þá má bæta því við fyrri skrif, að 10-11 verslunin er löngu farin úr húsinu, og nú er þar verslun Rammagerðarinar.
Bloggar | Breytt 15.8.2020 kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2009 | 13:32
Út að viðra myndavélina
Ég fer ansi oft út á göngu og oft er myndavélin með í för. Stundum fer ég gagngert út til að viðra vélina, en oftar er það nú svo ef maður rekst á eitthvað merkilegt þá er maður myndavélarlaus og öfugt, ef ég ætla að mynda eitthvað er ekkert að sjá. Ekki er ég kannski með einhverja ægilega ljósmyndadellu og ef dýr og fín tæki eru mælikvarði á slíkt er alls ekki svo. O nei, mín vél er lítil og handhæg 3 ára gömul Olympus Fe120, 6 megapixla og tek ég mestallar myndir á sömu stillingu, Program. Flóknara er það nú ekki. Flestallar myndir á þessari síðu eru teknar á þeirri vél. Ég segi reyndar hér til hliðar að ég myndi hitt og þetta auk eins og annars en það er kannski ekki alls kostar rétt. Því þegar upp er staðið þá mynda ég að mestu leyti aðeins þrennt; byggingar, fjöll og bíla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.7.): 5
- Sl. sólarhring: 82
- Sl. viku: 406
- Frá upphafi: 450728
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 302
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar