Súlnafjallgarðurinn; Bóndi

P6270044Í pistlum mínum um Kerlingu og Súlur hef ég minnst á Súlnafjallgarðinn án þess að útskýra það hugtak nánar. En Súlnafjallgarðurinn svokallaði er fjallaröðin sem nær frá Súlum í norðri að Kerlingu í suðri og skilur á milli Glerárdals, Finnastaðadals og Eyjafjarðarsveitar. Dalamegin er fjallgarðurinn að mestu leyti snarbrattur niður að ám og lítið undirlendi en Eyjafjarðarmegin er miklar og grónar brekkur og klapparholt upp undir fjallsrætur í um 500m hæð og nyrst, eða norðaustast eru Súlumýrar sem eins og margir Súlugöngumenn vita eru ansi víðlendar. Að mýrunum meðtöldum spannar fjallgarður þessi um 20 km. Þessi fjallahringur telst hluti af hinu hrikalega fjalllendi sem Tröllaskaginn er og rís hann hæst í Kerlingu, 1538m. Þessi mynd, sem tekin er neðan Vagla í Eyjafirði, júní 2006, sýnir fjallgarðinn allan frá Súlum. Lengst til vinstri sést Röðullinn, fjallgarður framan Kerlingar en örlítið sést í Kerlinguna sjálfa. Norðan Kerlingar eru svo klettadrangarnir Þríklakkar, en þeir eru í kringum 1370-1400m. Fyrir miðri mynd er svo Bóndi (1361m). Af Bónda er síðan há og brött grjóthlíð niður á eiðið milli hans og Súlna. Liggur það í um 1100 m hæð og er marflatt og sumstaðar nokkuð breitt. Strýtutindurinn hægra megin á myndinni heitir Stóri Krummi ( 1190m ). Á milli hans og Bónda er svo klettadrangurinn Litli-Krummi en hann sést trúlega betur ef myndin er skoðuð í fullri stærð.

Hægt er að ganga á bæði Krummana og Bónda frá Hrafnagili. ( Flestum þykir  karlmönnunum þó eflaust eftirsóknarverðara að fara uppá Kellinguna en Bóndan, en förum ekki nánar út í það...Wink) Er þá Reykánni fylgt eftir til upptaka frá tónlistarhúsinu Laugarborg. Við upptökin er svo sveigt til hægri ( norðurs ) ef ætlunin er að fara á Stóra- Krumma en til vinstri ef fara Bóndinn er fyrir valinu. Geta má þess að Krummarnir eru einungis klettadrangar og ekki hægt að ganga á hæstu punktana með góðu móti; þangað þarf að príla. Bóndinn er hins vegar svipaður og Ytrisúlan myndi ég segja. Löng og brött grjótbrekka og hátindurinn oddhvass, þ.a. plássið er ekki mikið. Útsýnið er aftur á móti ívið meira, það sést að mestu leyti yfir Hlíðarfjall þó hæstu tindar þess, Kista og Strýta hafi 80-90m framyfir. Þríklakkar og Kerling byrgja svo sýn til suðurs, en vel sést til SA yfir hálendið að Vatnajökli. Ganga á Bónda tekur á góðum degi um 8klst upp og niður, með nauðsynlegum stoppum. Þá er auðvitað fara Súlnaleiðina niður.

 


Kerling, annað sjónarhorn

P3160030 Þegar ég var að grúska í myndasafni mínu eftir góðum myndum af Kerlingu í gærkvöldi yfirsást mér þessi mynd. Hún er tekin neðan Fellshlíðar, handan ár og sýnir Finnastaðadalinn og suðurhlið Kerlngar og Röðuls. Gönguleiðina frá Finnastöðum má greina, upp með ánni ( svart strik á miðri mynd ) klettastallinn og gilið. Skuggi er á öllu fjallinu en u.þ.b. þar sem sólarglætan er á Jómfrúnni ( strýtutindurinn örlítið t.h. við miðju ) er sveigt meðfram Röðlinum. Myndin er tekin síðdegis þ. 16. mars 2008, dagsbirtan líkt og á síðsumardegi en vetur ríkir enn.

Kerling í Eyjafirði

P5060003Í pistli mínum um Súlur minntist ég á Kerlingu, en hún liggur um 7km sunnan þeirra og sést á myndinni hér til hliðar. Kerling er 1538m y.s. og telst hæsta fjall á Norðurlandi. Hún er talin 8-9milljón ára gömul, hluti fornrar megineldstöðvar eins og hin fjöllin við Glerárdal. Háfjallið sjálft liggur í A-V á bakvið Súlnafjallgarðin sjálfan en framan við það er skagar önnur fjallaröð, Röðullinn, sem sést á neðri myndinni. Tindurinn fremst í röðlinum er kölluð Jómfrú ( örlítið vinstra megin við miðju á myndinni ). Á milli Röðuls og Súlnafjallgarðs er dalverpi sem kallast Kvarnárdalur. Sunnan Röðuls og Kerlingar er Finnastaðadalur en hann á vatnaskil með Glerárdal. Undir Kerlingu eru a.m.k. þrír grjótjöklar ( samskonar og skálarjökullinn í Hlíðarfjalli sem ég hef skrifað um hér.) Annar er NA megin, undir hamrastálinu sem sést á efri mynd. Hann heitir Lambárjökull. Hinn er í skál SA megin en mér er ekki kunnugt um nafn á honum ( ef hann er ekki nafnlaus ). Yfir síðarnefnda jökulinn er algengasta gönguleiðin á fjallið. Þriðja snjóskáli151n er síðan SV megin, skáhallt ofan við botn Glerárdals. Að ganga á Kerlingu er h.u.b. öllum fært en það er ólíkt erfiðara en að ganga á Súlur. Sennilega er Finnastaðaleið fjölförnust. Þá er gengið upp með Finnastaðaá að mynni Finnastaðadals en þar er stefnan tekin beint á Jómfrúnna upp klettastalla, en mikið gil eða dalur sker brekkuna hinu megin. Við efri kjaft gilsins, rétt undir Jómfrúnni er svo gengið eftir Röðlinum inn í skálina. Er þetta nokkuð löng leið þar sem hækkun er lítil. Í botni skálarinnar er svo afar brött fönn upp á hátindinn en þar bíður gestabók og varða. En skálin getur hins vegar verið varasöm yfirferðar. Sprungusvæði er þar neðst við brekkurætur og síðsumars og á haustin eru sprungurnar galopnar. Þá þarf að brölta upp á hátindinn að austanverðu upp lausagrjót og klungur. Sú leið er alls ekki hentug fyrir lofthrædda. Þessi ganga tekur á góðum degi um fimm tíma, hækkunin er 1450m. Auðveldasta leiðin á Kerlingu er líklega frá skálanum Lamba í Glerárdal. Er reyndar dálítil brött og stórgrýtt efst en þar munar mestu að ekki þarf að sigra nema rúman helming hæðarinnar, eða um 800m. Hins vegar þarf einhvern vegin að koma sér í Lamba, og þangað er 4-5 tíma gangur frá Ruslahaugum. Því er algengt að menn taki tvo daga í Lambaleiðina. Útsýnið af Kerlingu er hreint og út sagt stórkostlegt. Í besta skyggni má sjá alla stóru jöklana, Vatna-, Hofs,- og Langjökul og allt austurland frá Dyrfjöllum að Snæfelli, Herðubreið, Mývatnsöræfin, Ódáðahraun. Í vestri sjást svo fjöllin á Holtavörðuheiði og Strandir og næst er Tröllaskaginn eins og útbreitt landakort. Sennilega eru fáir "víðsýnni" útsýnisstaðir á landinu en Kerling. Þeir sem komið hafa á Súlur (Ytrisúlu ) kannast við að þar er plássið ekki mikið; ef margir eru í hópnum þurfa menn að skiptast á að vera á hátindinum. Uppi á Kerlingu er hins vegar geysi víðlend háslétta, flatarmál hennar er líklega svipað og hálf Akureyri. Ofan af Kerlingu má  fara niður á Súlnafjallgarðinn og fylgja honum eftir og niður af Súlum. Eða niður Glerárdalsmegin og koma niður í Lamba ef farin Finnastaðaleið upp eða öfugt. Ganga á Kerlingu tekur að öllu jöfnu um 8-10 klst. upp og niður. Myndirnar við þessa færslu eru teknar í maí 2006 og september 2004.


Hús dagsins: Hafnarstræti 96; París

P2110025Hafnarstræti 96 er eitt þeirra húsa sem setur svip á miðbæinn, stendur ofarlega í göngugötunni. Helsta sérkenni hússins eru turnarnir tveir og skreyttur kvistur- undir áhrifum frá norska Sveitzer stílnum. Húsið er byggt 1913 af kaupmanninum Sigvalda Jóhannessyni og nefndi hann verslun sína París. Nokkur önnur hús á Akureyri bera nöfn erlendra stórborga. Nærtækasta dæmið er Hamborg, Hafnarstræti 94 (byggt 1909) hvíta húsið til hægri. Í Aðalstræti er húsið Berlín og tvö önnur hús í Hafnarstræti voru kölluð Rotterdam og Jerúsalem. Síðustu tvö eru horfin fyrir mörgum áratugum. Verslunarrekstur hefur verið á neðstu hæð hússins öll þessi 96 ár og núna er rekið þarna kaffihúsið Bláa Kannan og Blómabúð Akureyrar er tiltölulega nýflutt úr húsinu en hún hafði verið þarna áratugum saman. Kjallari var innréttaður sem krá fyrir um tíu árum síðan og er þar nú hinn víðfrægi tónleikastaður Græni Hatturinn.  Lengi vel var fataverslun á annarri hæð hússins en nú er búið á efri hæðum. Þá var þarna vinsæl leikfangaverslun sem var aldrei kölluð annað en Siggi Gúmm, eftir eigandanum, en getur vel hugsast að hún hafi heitað eitthvað allt annað. Það var mikið ævintýri fyrir unga menn að koma í þá sjoppu og  dót kennt við Playmo, Lego, GI-Joe, He-Man og Rambo freistaði ansi oft og stundum svo mikið að þeir urðu óþarflega argir og frekir...


Hús dagsins: Aðalstræti 4, Gamla Apótekið

Hús dagsins á stórafmæli, 150 ára, í ár en það var reist árið 1859P6050026 af Jóhanni P. Thorarenssen lyfsala. En síðast skrifaði ég um Gamla Spítalan og kannski rökrétt að skrifa næst um Gamla Apótekið. Líklegt er margir sem heimsótt hafa Akureyri  kannist við þetta hús en það stendur beint ofan við ísbúðina þjóðkunnu, Brynju. Hús þetta var eitt stærsta og veglegasta sem risið hafði í bænum. Lengd og breidd hússins var einnig óvenju mikil- þ.a. húsið var á allan hátt rýmra en gekk og gerðist með íbúðarhús. Þá stóð húsið hærra uppi en önnur hús í bænum og var því mjög áberandi.  Teiknari hússins Jón Chr. Stephanson var menntaður í Danmörku og mun húsið vera undir miklum áhrifum þaðan. Stór kvistur og sneiðingar á göflum gefa húsinu sérstakan svip og líkist það kanski einna helst Stjórnarráðshúsinu fljótt á litið.  Apótek var í húsinu allt til ársins 1929 en síðan þá hefur húsið verið íbúðarhús. Nú eru þrjár íbúðir í húsinu en trúlega hafa þær verið fleiri gegn um tíðina. Húsinu hefur verið haldið vel við en er gjörbreytt frá fyrstu gerð. Upprunaleg var það timburklætt með með stórum sexrúðugluggum og skrautlegum palli framan við. En uppúr 1950 var húsið húðað skeljasandsmúr, forskalað eins og það er kallað og gluggapóstum breytt. Algengt var á þessum árum að  gömul timburhús væru múrhúðuð, það þótti trúlega einfaldara og ódýrara heldur en að skipta um klæðningu. Þessi mynd er tekin 5.júní 2006, í sama göngutúr og ég tók myndina af Gamla Spítalanum.


16.ágúst: Skálin í Hlíðarfjalli farin í sundur

P8160045Fyrir rúmri viku síðan skrifaði ég um snjóskálina í Hlíðarfjalli. Ég tók síðan eftir því í fyrradag að snjórinn í skálinni er farinn í sundur þetta sumarið eins og sést á meðfylgjandi mynd. Þetta hefur þannig gerst hvert einasta sumar frá 2003 en þá gerðist það í fyrsta sinn í manna minnum. Miðað við síðustu ár var sl. vetur töluvert snjóþungur og hélt ég raunar lengi vel að skálin myndi haldast þetta sumarið; vorhret og snjókoma til fjalla seinni hluta júlí myndu hugsanlega hjálpa til. En það er sumsé útséð mað það. Líklega fer það svo að það verði einsdæmi að skálin haldist yfir sumar og jafnvel algengt að hún hverfi alveg.

aths. 20.8. í skrifum mínum hef ég miðað við lóðrétta skarðið í neðri fönn en þannig hef ég alltaf skilið að "skálin fari í sundur". Það getur hins vegar vel verið misskilningur hjá mér, þ.e. að frekar sé miðað við lárétta skarðið milli efri og neðri skálar sem greinilega er ekki farið í sundur enn.


Hús dagsins: Aðalstræti 14, Gamli Spítalinn

P6050024Aðalstræti 14 eða Gamli Spítalinn var reistur 1835 og er því næst elsta hús sem enn stendur á Akureyri. Er húsið talið fyrsta tvílyfta íbúðarhúsið hérlendis. En húsið reistu þeir Baldvin Hinriksson og Eggert Johnsen, sá fyrrnefndi hóf bygginguna og seldi húsið óklárað til Eggerts sem lauk byggingunni. Fyrstu 40 árin var húsið íbúðarhús en árið 1873 gaf kaupmaðurinn Friðrik C.M. Gudmann bænum húsið sem hæli fyrir sjúklinga eða spítala. Var spítalinn vígður 7.júlí 1874. Þá var reist viðbygging norðan við húsið ( ljósgræn t.h.) og var hún lengst af einlyft með háu risi. Sjúkrarými voru á efri hæð suðurhluta en íbúð fyrir lækni. Líkhús og þvottahús var í norðurenda sem og baðhús fyrir almenning, líkast til það fyrsta á Akureyri. Húsið var spítali í um aldarfjórðung en 1898 fluttist spítalinn í nýtt og vandað hús við Spítalaveg. Síðan þá hefur húsið verið íbúðarhús lengst af. Enn er búið í norðurendanum, en hann eyðilagðist í eldsvoða 1961 og var gjörbreytt við endurbyggingu. Ekki hefur verið búið í suðurenda í áratugi en sá hluti hafði merkilega lítið verið breytt í gegn um tíðina. Unnið hefur verið að endurgerð hans í um áratug en öll sú endurgerð miðast við að halda sem í mest hið upprunalega. Við endurgerðina hefur m.a. fundist gamalt eldstæði sem ekki var vitað um; það hafði verið falið undir veggjum einhvern tíma, hugsanlega þegar húsið var innréttað sem spítali. Þá hefur grjóthlaðinn kjallari verið endurhlaðinn. Öfugt við mörg eldri hús mun Gamla Spítalanum alla tíð hafa verið vel við haldið og aldrei verið í niðurníðslu í lengri tíma. Eftir því sem ég best veit er hugmyndin sú að opna í húsinu lækningaminjasafn þegar endurgerð þess líkur. Þessi mynd er tekin í júní 2006 en húsið hefur tekið nokkrum breytingum síðan þá, m.a. verið málað og settir í það nýir gluggar og útihurð.

Súlur

Fyrst ég á annað borð er byrjaður að skrifa um fjöll er allt eins gott að halda því áfram. Getur einhver ímyndað af hverju myndin  hér P7160100að neðan er. Þetta er, eins ótrúlegt og það kann að hljóma, Súlutindur, ofan Akureyrar. Súlur eru sannkallað bæjarfjall Akureyringa en það er í raun aðeins önnur súlan, Ytrisúla sem sést frá Akureyri. Súlur er samheiti tveggja tinda, Ytri- og Syðri Súlna en fleirtöluheitið er jafnan notað yfir Ytrisúluna eina. Súlutindar eru taldir 8-9milljón ára gamlir, hluti fornrar megineldstöðvar sem mun hafa náð yfir fjallgarðinn að Kerlingu og Hlíðarfjall. Súlur tengjast með örmjóu eiði úr líparíti en sú bergtegund mjög ríkjandi í Súlunum. Súlur eru sagðar 1213m en það er hæð Syðri Súlu. Ytri Súla er örlítið lægri, um 1170m. Tindarnir eru frábrugnir í útliti, syðri tindurinn er nokkurn vegin ferningslaga og flatur að ofan en ytri tindur er í laginu eins og oddhvass pýramídi með þríhyrndan grunnflöt, en flöturinn á toppi Ytrisúlu er ca.15 fermetrar. Líkt og allt svæðið í kring eru Súlurnar mikið mótaðar af ísaldarjöklum. Myndin hér til hliðar sýnir einmitt gilskorninga sem eru fornir farvegir jökuláa, en mikið er um slíkar rásir í Ytrisúlu. Þeirra mest er sk. Djúpagil en þessi mynd er tekin í neðri kjafti þess í um 700 m hæð. P2210013Undir tindunum er mikil háslétta til norðausturs, Súlumýrar. Þær liggja að jafnaði í um 400m hæð en hæstu punktar þeirra fara yfir 500m. Súlur eru mjög fjölfarnar af göngufólki. Algengasta gönguleiðin liggur frá ruslahaugunum og er sú leið merkt með stikum. Þá hafa myndast stígar eftir þeirri leið. Sú leið liggur fyrst fram Glerárdalinn í átt að tindinum og er hækkunin lítil til að byrja með. Þá liggur hún eftir barmi Djúpagils upp á hátindinn. Einnig getur verið áhugavert að kíkja ofaní gilið en það tefur dálítið gönguna. Þessi ganga tekur ca. 2,5-3klst. Þá er einnig hægt að fara Mýrarnar ofan við Öskuhaugana eða beint frá Kjarnaskógi en þær leiðir eru mun lengri vegna Súlumýranna, en ruslahaugaleiðin sneiðir nokkurn vegin framhjá mýrarstallinum. Styst er sennilega að fara beint af augum upp frá Kristnesi. Þess má kannski geta að Súlur er eitt af þessum fjöllum þar sem menn freistast oft til að halda að næsti hjalli sé hátindurinn en svo er reynist ekki vera, enda röð af "fölskum tindum" við og ofan Djúpagils. Þegar upp er komið er ágætis útsýni. Í besta skyggni má sjá fjöllin á Austurlandi, Dyrfjöll í Borgarfirði, Herðubreið og Snæfell. Hlíðarfjallið byrgir hins vegar sýn til vesturs og fjöllin sunnan við (Bóndi, Kerling ) eru flest mikið hærri þannig að ekki sést þangað yfir. Þegar upp á Ytrisúlu er komið er aðeins fárra mínútna gangur yfir á þá syðri. Er þá venjan í Súlugöngum að láta staðar numið og halda niður, annað hvort sömu leið eða beint niður af Syðri Súlu niður að Hrafnagili. Ef menn eru hins vegar ekki þeim mun þreyttari er létt að fylgja fjallgarðinum eftir, upp á Bónda og þaðan yfir á Kerlingu en þá er komin ágætis dagsferð. Það er reyndar 400 metra viðbótarhækkun. Hitt er aftur algengara að menn fari á fyrst Kerlingu og fari svo tindana norðurúr og endi á Súlutindunum. Myndirnar í þessari færslu eru teknar í júlí 2006 og febrúar 2009.


Herðubreið 101

Þessi titill á færslunni vísar til þess að í dag, 13.ágúst, eru liðin 101 ár frá því fyrst var gengið upp á Herðubreið.021 Þar voru á ferðinni þýskur jarðfræðingur Hans Reck og Sigurður Sumarliðason bóndi og gengu þeir á fjallið að vest-norðvestan verðu líklega á svipuðum stað og núverandi uppganga er. En fjallið var fram að því talið ókleift. Herðubreið hefur löngum verið kölluð drottning Íslenskra fjalla og var árið 2002 kosin Þjóðarfjallið þar sem hún "keppti" við fjöll á borð við Snæfellsjökul og Heklu. Herðubreið er móbergsstapi en slík fjöll myndast í einu löngu hraungosi undir jökli en þá hleðst fjallið upp í einskonar kökustafla þar sem jökullinn hamlar útbreiðslu hraunsins. Ef ekki er jökull þegar svona gos á sér stað myndast dyngja, en dæmi um dyngjur eru Skjaldbreiður og Trölladyngja ( á því miður engar myndir af þeim ). Herðubreið myndaðist undir jökli á ísöld fyrir um 10 þúsund árum og er því mjög ungt fjall. Súlur og fjöllin við Akureyri eru t.a.m um 1000 sinnum eldri en Herðubreið!026

Herðubreið þykir mjög tilkomumikil end sérlega regluleg í lögun, stendur ein og sér og sést langt að. Hún rís um 1100 m frá umhverfi sínu og er raunar á "tveim hæðum" þ.e. fyrst er um 900 m hár stapi en ofan á er hátindurinn um 200 m há dyngja. Alls er hæðin 1682 m* yfir sjávarmáli sem gerir Herðubreið næsthæsta fjall landsins utan jökla ( aðeins Snæfell er hærra, 1833m ). Ekki er tæknilega erfitt að ganga á Herðubreið. Aðeins er um eina örugga leið að ræða fyrir þá sem ekki eru þeim mun vanari ( eða klikkaðri!!!) og með þeim mun sérhæfðari búnað til klifurs. Sú leið er vestanmegin á fjallinu í stóru skarði í klettabeltinu. Þetta er brött leið í lausagrjóti en mjög stutt og þegar komið er upp á brúnina er létt og þægileg ganga, reyndar í stórgrýti, upp á hátindinn. Þessi ganga tekur frá uppgöngustað um 2,5-3klst. en ef gengið er frá Herðubreiðarlindum bætast líklega um 3klst. við þann tíma. Best er að fara að morgni dags því mjög oft er komin skýjahula á fjallið um hádegi. Útsýnið er stórkostlegt. Á neðri myndinni er horft til hásuðurs þar sem sér til Kverkfjalla og yfir Herðubreiðartögl. Ódáðahraun alltsaman er eins og útbreitt landakort og til norðurs sér á haf út. Austfjarðafjöllin, Dyrfjöll í Borgarfirði, Snæfell í austri og í norðri sjást háfjöllin á Hlíðarfjalli ( Kista, Strýta ) og svo auðvitað Kerlingin. Útsýnið takmarkast að sjálfsögðu að skyggninu sem getur verið ansi misjafnt.

* Mín einkamæling á Herðubreið með loftþrýstingshæðarmæli, ágúst 2003, sýndi reyndar 1740m...


Hús dagsins: Hafnarstræti 53, Gamli Barnaskólinn

P3030007Gamli Barnaskólinn er reistur árið 1900 og var byggingameistari hússins Bjarni Einarsson. Mjög var vandað til verksins og mun þetta hafa verið með fyrstu húsum með fullkominni miðstöðvarkyndingu. Kennsla hófst í húsinu strax árið 1900 og var húsið skólahúsnæði til 1930 er Barnaskóli Íslands, kallaður svo, nú Rósenborg var reistur. Fyrstu árin var einnig gosdrykkjaverksmiðja í kjallara hússins. Staðsetning þessa húss er engin tilviljun. Þannig er mál með vexti að þegar fyrir lá að reisa ætti sameiginlegan barnaskóla fyrir Innbæ* og Oddeyri voru menn ekki á eitt sáttir hvar hann skyldi standa. Allir vildu hafa hann sem næst sér. Því var vegalengdin á milli nyrsta hluta Innbæjar og syðsta hluta Oddeyrar mældur út og fundin miðjan sem var einmitt þarna. Samkomuhúsið reis síðan 6 árum síðar á þessum stað, af sömu ástæðu; miðja vegu milli bæjarhlutana tveggja. Ekki hefur hinsvegar fylgt sögunni við hvaða punkta var miðað þegar þessi mæling var gerð. Alltént finnst mér þessi staður einhvern vegin vera mikið nær Innbænum en Oddeyri. ( Prófaði að gamni mínu að mæla þetta á korti. Ef miðað er við að Oddeyri byrji við Ráðhústorg og Innbær nái að Höepfnersbryggju er vegalengdin 700m að Oddeyri en 400m til Innbæjar ) Eftir að húsið lauk hlutverki sínu sem skóli var það að hluta til íbúðarhús en Amtsbókasafnið hafði þarna einnig aðsetur. Búið var í húsinu fram undir 1980 en eftir það var húsið notað sem geymsluhúsnæði af Leikfélagi Akureyrar. Þá var húsið komið í mikla vanhirðu. Húsið var þá tekið allt í gegn að utan en 2006-07 var húsið endurbyggt alveg að innan og einnig byggt við það að sunnan. Í ágúst 2007 opnaði þarna Saga Capital fjárfestingabanki og er húsið nú allt hið glæsilegasta bæði að utan og innan. Myndin sem fylgir þessari færslu er tekin í mars 2007, þegar endurbygging hússins var í fullum gangi og sjá má gáma fyrir framan þar sem ónýtir innviðir úr húsinu voru settir.

* Á þessum tíma var talað um Innbæinn sem Akureyri og Innbæingar kölluðust Akureyringar. Enda er hin eiginlega Akureyri undir Búðargili, þar sem nú er Höepfnersbryggja. Akureyri og Oddeyri voru þannig lengi tvö aðskilin byggðarlög.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.7.): 17
  • Sl. sólarhring: 54
  • Sl. viku: 418
  • Frá upphafi: 450740

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 313
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband