Hús dagsins: Hafnarstræti 23b

Hafnarstræti 23b reisti Axel Schiöth bakari árið 1926. P5140026Hann fékk haustið 1925 leyfi til að reisa tvílyft  geymsluhús á baklóð sinni (Hafnarstræti 23), að ummáli 15,5x7m með hallandi þaki til vesturs. Húsið skyldi byggjast úr steinsteypu. Ekki liggja fyrir heimildir um hönnuð hússins.

Hafnarstræti 23b er tvílyft steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki (skúrþaki). Stendur húsið fast upp í brekkurótum og neðri hæð niðurgrafin að vestanverðu. Veggir eru múrsléttaðir og einfaldir þverpóstar í gluggum. Í upphafi voru nokkurs konar ferkantað kögur  á þakkanti framhliðar, líkt og á kastala, en síðar var þaki breytt, og fékk það lag sem það nú hefur.

Upprunalega var geymsla á neðri hæð en íbúð á þeirri efri en árið 1968 var neðri hæð breytt í íbúð. Um tíma var Axel með brugghús í húsinu, en bruggun öls og baksturs var oftar en ekki hliðarbúgrein bakara, og raunar nauðsynleg, vegna framleiðslu á geri.

Hafnarstræti 23b er einfalt og látlaust hús og í góðri hirðu. Líkt og gengur og gerist með bakhús almennt lætur það lítið yfir sér og ekki ráðandi í götumynd en engu að síður áhugavert og skemmtilegt hús og til mikillar prýði. Í Húsakönnun 2012 fær húsið eftirfarandi umsögn: „Samstæð hús og heild sem lagt er til að vernda með hverfisvernd í deiliskipulagi (gult)“ (Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, 2012: án bls.) Tvær íbúðir eru í húsinu. Myndin er tekin þann 14. maí 2015.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 575, 17. okt 1926. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

 

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


Hús dagsins: Hafnarstræti 21

Lóðin Hafnarstræti 21 á sér ríflega 200 ára sögu, en upprunalega var hún hluti af landareign Hans Lever, sem byggði þar sem nú eru hús nr. 19 og 21, árið 1818. P5140027Þarna mun hann hafa reist pakkhús. Lever var um tíma verslunarstjóri Kyhns- verslunar og er hann e.t.v. einna þekktastur fyrir það, að hafa kennt Akureyringum að rækta kartöflur í upphafi 19. aldar. Munu kartöflugarðar Akureyringa í Búðargili hafa verið eitt helsta kennileiti bæjarins framan af þeirri öld (og rétt að geta þess hér, að enn eru ræktaðar kartöflur í Búðargili). Á síðari hluta 19. aldar var faktorinn E.E. Möller með umsvif þarna, byggði þarna hlöðu 1871 og fjós 1887. Síðar komst lóðin í eigu Höepfnersverslunar og Akureyrarbæjar árið 1933.

Núverandi hús á Hafnarstræti 21 reistu þeir  Tómas Jónsson og sonur hans, Jón Guðbjörn Tómasson, árin 1956-57 eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar.  Húsið er tvílyft steinhús, með valmaþaki. Á suðurhlið er útskot og austanmegin við það tröppur og inngöngudyr á efri hæð en svalir á efri hæð og sólpallur á neðri hæð vestanmegin. Bárujárn er á þaki og veggir múrsléttaðir.

Tómas Jónsson, (1916-2003) sem lengst af starfaði sem slökkviliðsmaður (brunavörður) var Akureyringur, nánar tiltekið Innbæingur en foreldrar hans voru þau Jón Emil Tómasson og Sigurlína Sigurgeirsdóttir frá Öngulsstöðum. Bjuggu þau um áratugaskeið í Lækjargötu 6 ásamt börnum sínum og afkomendum.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og bjuggu þau Tómas Jónsson og Hulda Emilsdóttir (1919-1966) bjuggu í húsinu allan sinn aldur á móti Jóni og Þóreyju Bergsdóttur. Búa hin síðarnefndu enn á neðri hæðinni.

Hafnarstræti 21 er reisulegt og glæst hús og í afbragðs góðri hirðu. Sömu sögu er að segja af lóð sem er vel hirt og til mikillar prýði í umhverfinu. Framan við húsið er eitt af gróskumeiri og stæðilegri grenitrjám Innbæjarins, sem hefur um árabil skartað mikilli og litríkri ljósaskreytingu fyrir jólin, vegfarendum Hafnarstrætisins til ánægju og yndisauka. Í Húsakönnun 2012 fær húsið eftirfarandi umsögn: „Samstæð hús og heild sem lagt er til að vernda með hverfisvernd í deiliskipulagi (gult)“ (Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, 2012: án bls.). Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin þann 14. maí 2015.

 

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


Hús dagsins: Hafnarstræti 17

Einn skelfilegasti atburður mannkynssögunnar, kjarnorkuárásin á japönsku PB290972borgina Hiroshima átti sér stað þann 6. ágúst 1945.  Sama dag, hinu megin á jarðkúlunni , gerði Tryggvi Jónatansson múrarameistari teikningar að húsi Aðalgeirs Kristjánssonar við Hafnarstræti 17. Fjórum dögum síðar fékk Aðalgeir samþykkt byggingarleyfi fyrir umræddu húsi, sem myndi vera 8x9m að stærð, steinsteypt með steinlofti, efri hæð úr steini og þakið flatt steinþak. Lóðina hafði Aðalgeir fengið um vorið, og samkvæmt því sem tíðkaðist í bókun byggingarnefndar var númer lóðar ekki tilgreint heldur lóðin einfaldlega sögð „næst norðan við Karl Jónasson“ [Hafnarstræti 15]

Hafnarstræti 17 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki. Steining er á veggjum og bárujárn á þaki og einfaldir þverpóstar í gluggar. Þykkir, steyptir rammar utan um glugga og dyr gefa húsinu sérstakan svip og þá er á norðurhlið skraut, líklega steypt, sem minnir á halastjörnu.

Á lóðinni stóðu áður verslunarhús Gudmanns og síðar Höepfnersverslunar. Fyrirrennari hússins brann árið 1912 í einum af þremur „bæjarbrununum“, einum af mestu stórbrunum í sögu Akureyrar. Stóð lóðin auð í röska þrjá áratugi, uns  Aðalgeir Kristjánsson reisti þarna húsið sem enn stendur. Byggingarleyfið fékk hann 1945 en skráð byggingarár er 1949. Þá hefur húsið verið fullbyggt. Aðalgeir Kristjánsson, verkamaður, var úr Þingeyjarsýslu, uppalinn á Máskoti í Reykjadal (skráður þar í Manntali 1901). Hann var kvæntur Ölmu Magnúsdóttur, sem var fædd árið 1896 á Akureyri og uppalin í nærsveitum, búsett árið 1901 að Kaupangsbakka. Bjuggu þau hér til æviloka, Aðalgeir lést árið 1975 en Alma árið 1986. Hafa síðan ýmsir átt og búið í þessu ágæta og reisulega húsi, og öllum auðnast að halda því vel við. Húsið er alltént í mjög góðri hirðu og hefur lítið sem ekkert verið breytt frá upphaflegri gerð.

Húsið er að upplagi nokkuð látlaust en engu að síður nokkuð skemmtilegt og skrautlegt. Setja gluggarammar á það skemmtilegan svip og ljá húsinu ákveðið sérkenni. Þá er „halastjarnan“ á norðurhlið áberandi skraut, en húsið blasir við hverjum þeim sem leið eiga um mót Aðalstrætis og Hafnarstræti, milli „Höepfners og Thuliunusar“. Í Húsakönnun 2012 er húsið sagt hluti samstæðrar heildar, sem lagt er til að hljóti varðveislugildi með hverfisnefnd í deiliskipulagi, en þessi röð tveggja hæða steinhúsa er í samræmi við fyrsta Aðalskipulag bæjarins, sem gert var 1927. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 29. nóvember 2020.

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1010, 13. apríl 1945. Fundur  10. ágúst 1945.  Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


Hús dagsins: Hafnarstræti 9

Hafnarstræti 9 er ein af elstu lóðum Akureyrar, enda stóð upprunalegi PB290973verslunarstaðurinn á þessum slóðum. Húsið stendur nefnilega á „hinni eiginlegu“Akureyri, sem mynduð er af framburði Búðarlækjarins en löngu orðin umkringd uppfyllingum. Þarna stóð hús sem óvíst var hvenær var byggt (mögulega um aldamót 1800) sem Höepfnersverslun notaði sem sláturhús og geymslu- og á tímabili sútun. En það hús var rifið árið 1934. Það hús sem nú stendur á  Hafnarstræti 9 reisti Jón Antonsson, en hann fékk snemma sumars 1948 leyfi til að reisa hús á lóð sinni, eftir framlögðum uppdrætti. Ekki fylgdi nánari lýsing húsinu. Teikningarnar að húsinu gerði Sigurður Hannesson.(ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu)

En Hafnarstræti 9 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki. Norðurhelmingur austurhliðar, sem snýr að götu, skagar eilítið fram og í kverkinni á milli eru svalir á annarri hæð. Bárujárn er á þaki,  veggir múrsléttaðir og einfaldir, lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum í flestum gluggum.

Húsið var frá upphafi tvíbýli og voru fyrstu eigendur téður Jón Antonsson frá Finnastöðum í Eyjafirði og Ari Hallgrímsson, endurskoðandi. Hann var Akureyringur, sonur Hallgríms Davíðssonar verslunarstjóra Höepfnersverslunar en fjölskylda hans bjó í Höepfnershúsi við Hafnarstræti 20 og þar áður í Laxdalshúsi, elsta húsi bæjarins sem enn stendur. Síðarnefnda er húsið stendur einmitt  næst norðan við Hafnastræti 9. Í Hafnarstræti 9 var um árabil  rekin bókabúð, Bókaverzlun Snæbjarnar Jónssonar sem m.a. verslaði með erlendur bækur.

Þá var fyrirtækið Verkval til heimilis að Hafnarstræti 9 á níunda áratug 20. aldar. Árið 1973 var byggður bílskúr nyrst á lóðinni, eftir teikningum Birgis Ágústssonar.

                Húsið er í mjög góðri hirðu og lítur vel út, reisulegt og traustlegt. Það er næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð;  uppganga á austurhlið er reyndar síðari tíma breyting. Allt er húsið og lóðin hið snyrtilegasta, sem og lóðin sem er vel gróin og prýdd trjágróðri m.a. reyni- og grenitrjám. Í Húsakönnun 2012 segir, að húsið sé hluti af samstæðri heild sem lagt er til að hljóti varðveislugildi sem slík.  Myndin er tekin 29. nóvember 2020. 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1096, 4. júní 1948  Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs Reykjavík: Örn og Örlygur.


Hús dagsins: Hafnarstræti 7

Síðastliðna mánuði hef ég einbeitt mér að götum með upphafsstafinn G, þ.e. Geislagötu, Glerárgötu, Grænugötu og Gránufélagsgötu. Er þá ekki upplagt, að færa sig að næsta staf í stafrófinu, H-inu. Hér er Hafnarstræti 7.

Hafnarstræti 7 reistu þau Arthur Benediktsson og Hulda Sigurjónsdóttir árið 1947.P5140019 Arthur fékk lóðina í febrúar 1946 og sumarið 1947 fékk hann leyfi, fyrir hönd, Huldu að reisa hús samkvæmt framlögðum uppdrætti. Ekki koma fram mál eða lýsingar á húsinu, sem oft tíðkaðist í bókunum bygginganefndar. Umræddan uppdrátt að húsinu gerði Friðjón Axfjörð. Á þeim slóðum sem húsið stendur stóðu fyrstu hús sem byggð voru á Akureyri á tímum Einokunarverslunarinnar. Þau eru nú öll horfin, einhver þeirra brunnu en önnur voru rifin. Ekkert hús stendur enn á Akureyri frá tímum Einokunarverslunar, elsta hús bæjarins, Laxdalshús er byggt tæpum áratug eftir lok hennar. Forveri núverandi húss á lóðinni  var hús sem Peter nokkur Eeg reisti um 1790, og mun það hafa verið annað íbúðarhús sem reist var á Akureyri.. Fljótlega komst síðar það í eigu Friðriks Lynge stórkaupmanns. Bærinn eignaðist það 1877 og hýsti það barnaskóla bæjarins til aldamóta, en síðar var það nýtt sem geymsla og íshús. Var það húsið rifið árið 1942.

Hafnarstræti 7 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki, útskotum að sunnan og vestan, bárujárni á þaki og steiningarmúr á veggjum. Krosspóstar eru í gluggum. Svalir eru á norðvesturhorni hússins, á báðum hæðum.

Arthur Benediktsson starfaði lengst af við gúmmíviðgerðir og rak einmitt hjólbarðaverkstæði hér. Hann reisti bílskúr á lóðinni árið 1970 eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar.   Þau Arthur og Hulda bjuggu hér til æviloka, en hann lést árið 1986 en hún 2002. Húsið hélst í eigu fjölskyldunnar, en sonur þeirra Benedikt bjó hér áfram, ásamt konu sinni Hrönn Friðriksdóttur. Árið 2017 skrifaði Kristín Aðalsteinsdóttir og gaf út vandaða bók um Innbæinn, húsin og íbúa þeirra. Á meðal viðmælenda voru þau Benedikt Arthursson, Hrönn Friðriksdóttir og Arnar Þór Benediktsson í Hafnarstræti 7. Segir Benedikt frá því, að húsið hafi verið reist þegar húsið var reist, hafi ekkert verið til af byggingarefni, og m.a. var öll íbúðin máluð grá, með herskipamálningu. Þá héldu þau Arthur og Hulda ýmsar skepnur m.a. hænsni í kofa hér á lóðinni og kindur í kofa í Búðargili.

Hafnarstræti 7 er reisulegt og traustlegt hús og í mjög góðri hirðu. Þá er lóðin gróin og vel hirt og til mikillar prýði í umhverfinu, lóðin jafnt sem húsið. Í Húsakönnun 2012 segir, að húsið sé hluti af samstæðri heild sem lagt er til að hljóti varðveislugildi sem slík.  Húsið er hluti nokkuð fjölbreyttrar götumyndar syðsta hluta Hafnarstrætis. Hún samanstendur að mestu leyti af steinhúsum í funkisstíl frá 4. og 5. Áratug 20. aldar, en þar leynast einnig sveitserhús frá aldamótum 1900 og elsta hús Akureyrar, Laxdalshús. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 14. maí 2015.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1044, 23. feb. 1946. Fundur  21. júlí 1948.  Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Húsin og Fólkið. (Viðtal við Benedikt Arthursson, Hrönn Friðriksdóttur og Arnar Má Benediktsson). Akureyri: Höfundur.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs Reykjavík: Örn og Örlygur.

 


Hús dagsins: Geislagata 5

Geislagötu 5 reisti Kristján Kristjánsson bílasali (kallaður bílakóngur) árið 1952, P1190958eftir teikningum Gunnlaugs Halldórssonar. Hann fékk vorið 1951 leyfi til þess að reisa hús á þessum stað, 21x12m að stærð, allt að fimm hæða hátt.  Hann mun hafa þurft að leita umsagnar m.a. eiganda næstu húsa og skipulagsyfirvalda. Bygginganefnd heimilaði bygginguna með fyrirvara um umsögn skipulagsyfirvalda, en fyrir lá, að Templarar sem áttu næsta hús norðan við, Hótel Norðurland, samþykktu bygginguna fyrir sitt leyti. Tæpum tveim árum síðar, eða í mars 1953, voru fullnaðarteikningar lagðar fram en endanlega hæð hússins, sem þá var risið, var raunar óákveðin.  

En stórhýsi Kristjáns bílakóngs varð ekki fimm hæðir heldur þrjár og er að mestu leyti óbreytt frá upphafi; þriggja hæða steinsteypuhús með flötu eða aflíðandi þaki. Veggir eru múrsléttaðir, dúkur er á þaki og gluggar flestir póstlausir en síðir verslunargluggar á jarðhæð. Á framhlið er lítil anddyrisbygging úr gleri. 

Í upphafi var húsið reist sem bílasala og skrifstofuhús, höfuðstöðvar fyrirtækja Kristjáns Kristjánssonar. Elstu auglýsingar, sem timarit.is finnur um Geislagötu 5 eru einmitt frá nóvember og desembermánuði 1953, þar sem auglýst er ný bílasala, Bílasalan Hf. Ekki virðist þar hafa verið um bílasölu í eiginlegum skilningi að ræða, heldur eru auglýstir þarna til sölu varahlutir í Ford, en einnig þvottavélar, kæliskápar og hrærivélar; nýmóðins tæki um miðja síðustu öld. Í Alþýðumanninum, 8. des. 1953 segir orðrétt: „VEGLEG BÚÐ Bílasalan h.f. hefir opnað veglega búð í Geislagötu 5, hinni myndarlegu byggingu Kristjáns Kristjánssonar, forstjóra BSA. Verzlun þessi verzlar með bifreiðavarahluti, kæliskápa og ýmis rafurmagns-heimilistæki. Einnig skrifstofuáhöld. Búðarplássið er stórt og mjög vistlegt.“  Á sjötta áratugnum var einnig starfræktur þarna tískufatamarkaður, sem hét einfaldlega  Markaðurinn Þá er þetta hús í hugum margra óneitanlega tengt hinni valinkunnu húsgagnaframleiðslu Valbjörk, en verslun fyrirtækisins var um nokkurt skeið staðsett á þriðju hæð hússins. Valbjarkarhúsgögn prýddu flest heimili á Akureyri og nærsveitum upp úr miðri síðustu öld og prýða mörg þeirra enn; á þeim árum var ævinlega um að ræða vandaða smíði í húsgögnum, sem gerð var til þess að endast.

Kristján Kristjánsson seldi húsið árið 1961. Grípum niður í frásögn Alþýðublaðsins þ. 15. sept. 1961:

„BÚNAÐARBANKINN hefur keypt stórhýsi Kr. Kristjánssonar, Geislagötu 5, á Akureyri, og er .ætlunin að útibúi Búnaðarbankans þar færi þangað starfsemi sína. Kristján byggði Geislagötu 5 fyrir einum 10 árum, en síðan fluttust viðskipti hans hingað til Rvíkur í stórum mæli. Hann hafði og hefur umfangs mikinn rekstur á Akureyri en virðist nú ætla að selja flest þar. [...] Útibú Búnaðarbankans á Akureyri er nú til húsa í Strandgötu 5 og mun húsnæðið þykja orðið lítið og óhentugt. Alþýðublaðinu hefur ekki, tekizt að afla sér upplýsinga um söluverðið á hinu nýja húsnæði útibúsins, Geislagötu 5, sem er fjögurra hæða [svo; húsið er sannarlega þriggja hæða] og með stærstu húsum Akureyrar, ef ekki stærst fyrir ut an verksmiðjubyggingar.  Blaðið hefur heyrt að söluverðið hafi numið fimm milljónum, en veit engar sönnur á því. Fasteignaverðið er rúm þrjú hundruð þrjátíu og fjögur þúsund og óhætt að margfalda það með fimm, en þá kemur út rúm ein og hálf milljón sem söluverð, en að sjálfsögðu hefur verð hússins verið hærra. Húsið stendur á góðum stað, nærri Ráðhústorgi og bætir úr skák, að í framtíðinni er talið að Geislagatan verði eins konar Laugavegur þeirra Akureyringa í framtíðinni.“

Hvort Geislagatan varð einhvern tíma, eða er, sambærileg við Laugaveg skal ósagt látið hér. Margir sjá þó eflaust samsvörum í nærliggjandi götum Miðbæjarins við verslunargötur Reykjavíkur, kannski einna helst þó í ysta hluta Hafnarstrætis og Skipagötu/Ráðhústorgi. En nóg um það. Geislagata 5 var í tæpa sex áratugi aðalútibú Búnaðarbankans - síðar KB og Arionbanka eða til vorsins 2019. Þá fluttits útibúið  á Glerártorg sem vill svo til, að er einmitt að stofni til byggt á hluta umræddra verksmiðjubygginga, sem minnst er á í greininni hér að ofan.

Geislagata 5 er reisulegt hús og í mjög góðu standi, hefur enda alla tíð hlotið gott viðhald. Jafnvel þótt húsið sé hvorki stórbrotið í útliti né það prýði mikið skraut er það engu að síður eitt af kennileitum Miðbæjarsvæðisins. Í Húsakönnun 2014 er það sagt hafa mikið gildi fyrir götumynd Geislagötu og Hólabrautar, en vesturstafn hússins snýr að síðarnefndu götunni. Þar er varðveislugildi hússins ekki talið verulegt.  Þegar þetta er ritað, stendur húsið að mestu ónotað en bíður nýrra eigenda og nýrrar starfsemi. Kannski verður þarna hótel, kannski íbúðir eða eitthvað allt annað. Hver veit, nema ein hæð eða tvær til viðbótar verði einhvern tíma byggðar ofan á húsið, og húsið nái þeim hæðum sem Kristján „bílakóngur“ Kristjánsson ætlaði í upphafi. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1948-1957. Fundur nr. 1136, 4. maí 1951. Fundur nr. 1166, 6. mars 1953.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


Hús dagsins: Gránufélagsgata 45

Þau láta ekki mikið yfir sér verkstæðishúsin á reitnum sem afmarkast af Gránufélagsgötu í suðri, Laufásgötu í austri og Hjalteyrargötu í vestri.PB030971 Í flestum tilfellum er um að ræða látlausar og lágreistar byggingar, lausar við prjál og íburð. En standa þær engu að síður fyrir sínu og hafa gert um áratugaskeið, jafnvel frá miðri síðustu öld. Þeirra á meðal er Gránufélagsgata 45. Húsið var reist árið 1951 fyrir Trésmíðaverkstæðið Skjöld, en það áttu og ráku þeir Árni Jakob Stefánsson, Jón H. Þorvaldsson, Lýður Bogason og Steindór Pálmason. Teikningarnar að húsinu gerði Mikael Jóhannesson og voru þær gerðar á teiknistofu KEA.

Gránufélagsgata 45 er einlyft timburhús með lágu risi. Bárujárn er á þaki og á veggjum að hluta, en vesturstafn er timburklæddur. Einfaldir póstar eru í gluggum.  Húsið hefur mest alla tíð verið smíðaverkstæði og er líkast til óbreytt að mestu að ytra byrði. Skjöldur var starfandi fram á 7. áratug, og á 8. áratugnum var starfrækt í húsinu trésmíðaverkstæðið Ýr.  Þá var bílasala á Gránufélagsgötu 45 frá 1980 og fram eftir 9. áratugnum, Bílasalan Stórholt frá 1980-84 og Bílasala Norðurlands frá  1984. . Nú er starfrækt í húsinu Trésmiðjan Ösp.

Ekki veit sá sem þetta ritar til þess, að húsið hafi varðveislugildi, frekar en nærliggjandi hús þessi þyrping iðnaðar- og verkstæðishúsa er í öllu falli áhugaverð. Í framtíðarskipulagi er gert ráð fyrir uppbyggingu á þessu svæði, og gert ráð fyrir svokallaðri blandaðri byggð, þ.e. íbúðum og atvinnustarfsemi. Þess má geta, að gegnt Gránufélagsgötu 45 er einn „frægasti“ reitur Akureyrar sl, misseri, en á þeim reit, sem afmarkast af Gránufélagsgötu í norðri, Kaldbaksgötu í austri, Hjalteyrargötu í vestri og Strandgötu í suðri eru uppi áform um að reisa 7-8 hæða byggingar (gert ráð fyrir 11 hæðum í upphafi). Þær uppbyggingarhugmyndir eru umdeildar, svo ekki sé meira sagt....

Myndin er tekin þann 3.  nóvember 2020.


Hús dagsins: Gránufélagsgata 47

Gránufélagsgata 47 stendur á norðausturhorni Gránufélagsgötu og Kaldbaksgötu.PB010976 Húsið reisti Jóhannes Kristjánsson bifvélavirki, frá Syðra Hvarfi í Svarfaðardal, sem bílaverkstæði árin 1944-47, en skráð byggingarár hússins er 1947. Það var sumarið 1944 sem Jóhannes sótti um lóðina vestan Kaldbaksgötu og norðan Gránufélagsgötu undir bílaverkstæði. Byggingarnefnd lagðist gegn því, þar sem þar var ráðgert að reisa íbúðabyggð. Sótti Jóhannes þá um lóðina handan Kaldbaksgötu, þ.e. norðan Gránufélagsgötu en austan Kaldbaksgötu, í sama tilgangi og fékk hana. Fékk hann einnig að flytja þangað hermannaskála, væntanlega til bráðabirgða. Þannig mætti álykta, að samkvæmt þáverandi skipulagsáformum, hafi Kaldbaksgötu verið ætlað að skilja að íbúðasvæði og athafnasvæði. Árið 1947 hafði Jóhannes reist varanlegt hús og er þar um að ræða steinsteypt hús með háu risi. Ekki liggur fyrir hver teiknaði elsta hluta hússins; þær teikningar a.m.k. ekki aðgengilegar á kortasjánni. Síðar voru reistar hærri álmur til með lágu risi. Liggja þær meðfram Kaldbaksgötu. Að austan er húsið áfast Gránufélagsgötu 49.

Gránufélagsgata 47 er sem áður segir tvær álmur, PB010977sú elsta við Gránufélagsgötu og snýr A-V en yngri álmur snúa N-S. Yngri álmur eru reistar á bilinu 1975- 2014. Yngri álmur eru tvílyftar með lágu risi en elsta álman einlyft með háu risi og kvisti austarlega á þekju. Hugtökin einlyft og tvílyft eiga e.t.v. tæplega við í tilfellum iðnaðarhúsnæðis, sem oftar en ekki eru einn geymur og engin milliloft. Þannig eru þessi hugtök aðeins til viðmiðunar. Allt er húsið klætt bárujárni.

Húsið hefur alla tíð hýst hinar ýmsu vélsmiðjur og bílaverkstæði. Ef heimilisfanginu er flett upp á gagnargrunninum timarit.is birtast þar 131 niðurstaða. Elsta heimildin um Gránufélagsgötu 47 er frá febrúar 1952, auglýsing frá Bílaverkstæði Jóhannesar Kristjánssonar. Jóhannes Kristjánsson rak verkstæði sitt þarna um áratugaskeið, eða fram yfir 1990. Á 10. Áratugnum eru þarna m.a. Véla- og stálsmiðjan og Bílaverkstæði Jóns Gunnars.    Nú er starfrækt í húsinu Vélsmiðjan Hamar, sem festi kaup á Véla- og stálsmiðjunni árið 2005. Líkt og gengur gerist hefur húsið verið stækkað í áföngum, enda eðlilegt að starfsemi sem þessi færi út kvíarnar eftir því sem árin líða. Fyrst mun húsið hafa verið stækkað 1977, eftir teikningum Tómasar Búa Böðvarssonar, þá 1990 eftir teikningum Birgis Ágústssonar. Árið 2014 var byggt við húsið til norðurs, eftir teikningum Hauks Ásgeirssonar. Um leið var húsið allt klætt bárujárni og fékk þá það lag sem það nú hefur.  Líklega hefur húsið ekki varðveislugildi, en eftir endurbætur er það sem nýtt að utan og til mikillar prýði í umhverfinu. Á þessu svæði standa mörg áhugaverð iðnaðar- og verkstæðishús, sum þeirra frá miðri eða fyrri hluta síðusta aldar. Myndirnar eru teknar þann 1. nóvember 2020.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 983, 21. júlí 1944. Fundur nr. 985, 11. ágúst 1944. Fundur nr. 990, 8. sept. 1944.Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Gránufélagsgata 46

Kaldbaksgata  er ein þvergatnanna sem ganga suður á Strandgötu. PC290879Hún þverar Gránufélagsgötu, og á syðra horni gatnanna tveggja stendur Gránufélagsgata 46, steinsteypt hús sem byggt var 1942, merkt stórum stöfum Valsmíði.  Síðla árs 1941 fékk Þór O. Björnsson lóð „næst utan við Höskuld Steindórsson“, 30-40m meðfram götu og 25 á dýpt (breidd). Um vorið 1942 bókar Byggingarnefnd að  lóðin sem Þór hafi fengið á horni færist á Harald Andrésson. Fékk Haraldur að reisa verkstæðisbyggingu, eina hæð og ris, 15x10m, byggt úr steinsteypu með járnklæddu timburþaki. Teikningarnar að húsinu virðast áritaðar af Snorra. Þar gæti mögulega verið um að ræða Snorra Pálsson múrarameistara.

Gránufélagsgata 46 er steinsteypuhús, vesturhluti einlyftur með háu risi en austurhluti er tvílyftur að hálfu; þ.e. nyrðri hlutinn er tvær hæðir og ris aflíðandi en sunnanmegin er hátt ris og veggur jafn hár og á vestri álmu. Á þaki er bárujárn og ýmis konar gluggar og dyr á húsinu, svo sem gengur og gerist með iðnaðarhúsnæði.

Húsið er byggt í tveimur áföngum, 1942 og 1959. Upprunalega var húsið ein hæð með risi, þ.e. vesturhluti hússins en árið 1959 var byggt við húsið, sem þá var sagt „Sameinuðu verkstæðin Marz h/f“, tveggja hæða álma til austurs. Sú álma hýsti auk verkstæðis kaffistofu og geymslu á efri hæð. Teikninguna að viðbyggingunni gerði Guðlaugur Friðþjófsson, á teiknistofu KEA. En skemmst er frá því að segja, að húsið hefur alla tíð verið iðnaðar- og verkstæðishús, í upphafi og um árabil blikksmiðja undir nafni Hinna sameinuðu verksmiðja Marz hf. Síðustu áratugi hefur húsið hýst trésmíðaverkstæði, nánar tiltekið hið rótgrónu fyrirtæki Valsmíði. Um tíma, á árunum um 2010, var starfrækt hér lítil sælgætisverksmiðja, Kökur og konfekt. Hvort einhvern tíma hafi verið búið í Gránufélagsgötu 46 er síðuhafa ókunnugt um.

Gránufélagsgata 46 er eitt af mörgum rótgrónum iðnaðar- og verkstæðishúsum Oddeyrartangans. Það er skemmtilegt og sérstakt að gerð, þó einfalt sé og látlaust. Húsið er líkast til næsta óbreytt frá upphaflegri gerð, eða frá því síðari áfangi var byggður. Húsið, sem er í mjög góðri hirðu og til prýði er líklega ekki talið hafa varðveislugildi en iðnaðarhúsin á þessum reit eru svo sannarlega áhugaverð heild, enda þótt einhver þeirra megi muna sinn fífil fegurri.  En það á hins vegar ekki við um Gránufélagsgötu 46. Myndin er tekin þann 29. desember 2018.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 891, 21. nóv. 1941. Fundur nr. 909, 8. maí 1942. Fundur nr. 990, 8. sept. 1944.Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Gránufélagsgata 49

Oddeyrartangi gengur suðaustur úr Oddeyri. Þar eru að mestu iðnaðar- og verkstæðishús og hafa verið svo frá fornu fari. Raunar frá upphafi byggðar á Oddeyri, en elstu húsin þar eru einmitt hús verslunarfélagsins Gránufélagsins við Strandgötu, byggð 1873. Við það félag er kennd Gránufélagsgata, sem liggur samsíða Strandgötu frá austri til vestur og þverar Oddeyrina allt frá brekkurótum niður að tanga. Á horni götunnar og Laufásgötu standa tvö verkstæðis- og íbúðarhús, og norðan megin er Gránufélagsgata 49.

      Þann 5. maí 1945, tveimur dögum áður en lokum PC290881Seinni Heimstyrjaldar var lýst yfir í Evrópu, heimilaði Bygginganefnd Akureyrar Guðmundi Magnússyni að reisa verksmiðjuhús skv. „meðfylgjandi uppdrætti“. Húsið byggt úr steinsteypu og steinlofti og rishæð. Lóðin var tilgreind 25x40m, 25m meðfram Gránufélagsgötu og 40m meðfram Laufásgötu. Þessi lóðarmörk voru þó með þeim fyrirvara, að yrði ekki „[...] byggt meðfram Laufásgötu fyrir lok árs ´46 fellur norðurhelmingur lóðar aftur til bæjarins endurgjaldslaust.“ (Bygg. nefnd Ak. 1945: nr. 1014). Umræddur uppdráttur virðist ekki aðgengilegur á Landupplýsingakerfi, en þar má sjá járnateikningar, áritaðar af H. Halldórssyni og dagsettar í apríl 1945. Ekki er ólíklegt, að þar sé um að ræða Halldór Halldórsson. Árið 1961 var byggt við húsið til norðurs og árið 1988 var byggt á milli hússins og Laufásgötu 3.

            Gránufélagsgata 49 er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi, þ.e. suðurálma en norðurálma er einlyft með skúrþaki. Bárujárn er á veggjum á þaki og einfaldir póstar í gluggum.  

Guðmundur Magnússon reisti húsið sem trésmíðaverkstæði en það hefur hýst hina ýmsu starfsemi gegnum tíðina. En um áratugaskeið voru rekin trésmíðaverkstæði undir hinum ýmsu nöfnum. Fyrstu árin var í húsinu  trésmíðaverkstæði og byggingarvöruverslun, Grótta og árið 1955 er þarna til húsa trésmíðavinnustofan Þór hf. Verkstæðið Þór var starfrækt þarna í um tvo áratugi, en fluttist út á Óseyri, nyrst á Oddeyri, við ósa Glerár, í ársbyrjun. Þá fluttist hingað trésmíðaverkstæðið Þinur. Þá var rafvélaverkstæðið- og verslunin Ljósgjafinn hér til húsa í um tvo áratugi, frá því um 1975 en á tíunda áratugnum var einnig starfrækt hér prentsmiðja, Hlíðarprent.  Svo stiklað sé á stóru, um þau mörgu fyrirtæki og starfsemi sem þetta ágæta hús hefur hýst. Frá tíð Ljósgjafans hafa ýmis rafmagnsverkstæði verið í húsinu, nú er þar fyrirtækið Rafröst.

Húsið var tekið til gagngerra endurbóta fyrir um áratug, klætt bárujárni og er fyrir vikið sem nýtt að sjá og til mikillar prýði í umhverfinu. Síðuhafi veit ekki til þess, að húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar hluti nokkuð heilsteyptrar torfu iðnaðar- og verkstæðishúsnæðis, frá því um og fyrir miðja síðustu öld. Byggingarnar á þessu svæði eru kannski ekki þær háreistustu, fegurstu eða skrautlegustu, en hafa engu að síður þó nokkurt gildi; þarna liggur óslitin iðnaðar- og atvinnusaga margra áratuga ( og raunar hálfrar annarrar aldar, ef miðað er við upphaf Gránufélagsins). Tvö iðnaðarrými eru í húsinu, annað í syðri hluta og hitt í nyrðri hluta; viðbyggingu frá 1961. Þá hefur löngum verið íbúð á efri hæð, og er enn. Myndin er tekin þann 29. desember 2018.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1014, 5. maí 1945. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • IMG_3045
  • P6171046
  • P6171045
  • IMG 3018
  • IMG 3024a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 138
  • Sl. viku: 436
  • Frá upphafi: 446090

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 321
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband