9.12.2012 | 14:49
Hús dagsins: Brekkugata 1a

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2012 | 20:21
Hús dagsins: Brekkugata 1
Fáar húsamyndir sem birst hafa hér á síðunni eru teknar í desember. Örlítið fleiri hafa birst teknar í mánuðunum sitt hvoru megin við, nóvember og janúar. Það kann að vera ákveðin synd- því líklegast er að hitta á húsin í sinni skrautlegustu mynd í kringum jólin en fyrir þessu er mjög einföld ástæða. Húsamyndirnar þurfa helst að vera í björtu, myndavélin mín virkar auk þess illa í myrkri. Og í desember er birtan minnst. En fyrr í dag fór ég í myndatúr og mun afraksturinn birtast hér næstu vikurnar. Og leiðin mín lá m.a. um Brekkugötu.
Elsta og neðsta húsið við Brekkugötu er Brekkugata 1. Það hús reisti Jósep Jóhannesson árið 1901. Var það í upphafi einlyft timburhús á háum kjallara með portbyggðu risi og miðjukvisti á framhlið. Ekki veit ég hvort miðjukvisturinn var á frá upphafi en hann var allavega kominn á um 1920. Næsta hús, Brekkugata 1a var reist úr steinsteypu áfast þessu húsi árið 1923, en það hús tek ég fyrir í næsta kafla. Um svipað leyti mun húsið hafa verið klætt steinblikki en einhvern tíma, sennilega sitt hvoru megin við 1950 voru gerðar gagngerar breytingar á þessu húsi. Var þá risinu lyft alveg og byggð önnur hæðin þ.a. nú er húsið tvílyft með hallandi aflíðandi þaki; skúrþaki og sennilega hefur húsið verið forskalað um svipað leyti. En miðgluggarnir á efstu hæð eru semsagt fyrrverandi kvistgluggar og á gafli má sjá tvo litla glugga sitt hvoru megin við stærri glugga. Það eru gluggar sem áður voru undir súð en látnir halda sér. Ég segi hér framar að húsið sé tvílyft. Sjálfsagt má telja álitamál hvort húsið er tvær eða þrjár hæðir. Sjálfum er mér ævinlega tamt að tala um steypta grunna timburhúsa sem kjallara en "kjallarinn" á þessu húsi er vissulega ekki niðurgrafinn- sem skilur í hugum margra á milli kjallara og fyrstu hæða. Nú er húsið íbúðar- og verslunarhús, skóbúð hefur verið á jarðhæðinni undanfarin ár en þarna var lengi vel kjörbúð KEA (ein af fjölmörgum) og ýmis starfsemi hefur verið þar þessi 111ár sem húsið hefur staðið. Íbúðir eru á efri hæðum, að ég held ein á hvorri hæð. Húsið lítur vel út og er í góðu standi og sómir sér vel þarna vestan megin Ráðhústorgs. Myndina tók ég fyrr í dag 8.des.
PS. Ef einhver veit eða man eftir hvenær húsinu var breytt má endilega senda mér línu, annaðhvort hér á athugasemdakerfi eða gestabók. Það sama gildir um alla pistla hér á síðunni, það má alltaf bæta einhverjum fróðleik við .
Þetta hús stendur örlítið ofar við götuna, en þetta er Brekkugata 5. Í upphafi var Brekkugata 1 mjög svipuð þessu húsi að gerð. Þessi mynd er ein fárra desembermyndanna minna, tekin 21.des. 2010.
Brekkugötu 5 tók ég fyrir hér á síðunni sumarið 2010: http://www.arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/entry/1072291/
Bloggar | Breytt 9.12.2012 kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2012 | 19:31
Hús dagsins: Eiðsvallagata 7 og Ránargata 2.
Áratugum saman var byggðin á Oddeyrinni að miklu leyti bundin við syðsta hlutan sem afmarkast af Strandgötu í suðri og Eiðsvallagötu í norðri þar sem eru þvergöturnar Lundargata, Norðurgata, Grundargata, Hríseyjargata og Hjalteyrargata. Eiðsvallagatan miðast við húsið Gamla Lund (hús sem var byggt 1858 en rifið um 1982 og nýtt hús reist á grunni þess) og Eiðsvöll. Sú gata tók að byggjast laust fyrir 1930 og það ár var parhúsið Eiðsvallagata 7 reist. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með háu risi. Höfundur hússins er óþekktur en það reistu Guðbjartur Friðriksson (eystri hluta) og Ólafur Bjargmann (vestari hluti) og bjuggu þeir þar ásamt fjölskyldum sínum- og hélst eystri hlutinn í eigu sömu fjölskyldu í yfir 7 áratugi. Frá upphafi hafa tvær íbúðir á tveimur hæðum og risi verið í sitt hvorum enda. Á göflum er kantskraut undir áhrifum frá Jugend-stíl og tveir litlir kvistir á framhlið. Báðir hlutar hússins hafa fengið gott viðhald frá upphafi og góða yfirhalningu á liðnum áratug, enda er húsið í frábæru standi og stórglæsilegt að sjá.
Skammt ofan Eiðsvallagötu 7 gengur Ránargatan til norðurs. Hún byggðist að mestu árin 1930-55 og 1931 var eitt elsta húsið við götuna, Ránargata 2 reist. Hér er um að ræða ekki ósvipað hús og Eiðsvallagata 7, tvílyft parhús byggt úr r-steini, með háu risi. Það er frá upphafi skipt í tvo eignarhluta og voru það bræðurnir Óskar og Magnús Gíslason sem reistu húsið eftir teikningum Sveinbjarnar Jónssonar- en ef hægt er að tala um "stórt nafn" í húsateikningum og húsbyggingum á Akureyri á þessum árum þá á það sannarlega við um Sveinbjörn. Húsið var upprunalega parhús en íbúðir hafa þó verið fleiri í húsinu. Einhvern tíma skyldist mér að húsið hafi verið hálfgert fjölbýli eftir miðja síðustu öld. Húsið er í góðu standi og lítur vel út. Í því eru að ég held tvær íbúðir, ein í hvorum enda. Í nyrðri enda eru upprunalegir gluggar en í syðri enda hafa einhvern tíma verið settir þverpóstar. Myndirnar með þessari færslu voru teknar á þeirri skemmtilegu dagsetningu 11.11.´12.
Bloggar | Breytt 3.12.2019 kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2012 | 14:34
Hús dagsins: Nokkur hús í austanverðu Glerárþorpi
Í gær var ég á ferðinni um Glerárhverfi, nánar tiltekið Holtahverfi en það er elsti hluti þéttbýlis í Glerárþorpi. Holtahverfi liggur austan Hörgárbrautar en Hlíðahverfið er vestan megin. Hér eru nokkur gömul býli sem standa þar og tek ég þau í þeirri röð sem ég gekk og myndaði þau:
Við Þverholt 4 stendur Holtakot. Húsið er byggt 1930 og er það einlyft, timburklætt steinsteypuhús með háu risi. Húsið er í góðri hirðu og hefur einhverntíma verið tekið í gegn frá grunni. Í bókinni Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs e. Steindór Steindórsson (bl.s 91-92) eru gefin upp upprunaleg byggingarár býlanna í Glerárþorpi og þar kemur fram að upprunalega var byggt á Holtakoti 1912. Gegnt húsinu er síðan leikskólinn Holtakot.
Á horni Þverholts og Krossanesbrautar stendur Brautarhóll. Er þetta einlyft steinhús með lágu risi, byggt 1928 og hefur sama húsið staðið þar frá upphafi. Aftan úr húsinu er einlyft bakbygging sem ég gæti ímyndað mér að sé seinni tíma viðbót. Húsinu er afar vel við haldið og lítur vel út, sem og stór og gróin lóð við húsið.
Litlu ofan Brautarhóls gegnt Krossanesbrautinni stendur Sæberg, einlyft steinsteypuhús með lágu söðulþaki, byggt 1954. Það er með síðustu húsum Glerárþorps sem byggt var í Glæsibæjarhreppi- því 1.janúar 1955 sameinaðist Glerárþorp Akureyri.
Bárufell er einlyft timburhús með háu risi á kjallara, byggt 1934. Það stendur dágóðan spöl frá Krossanesbraut á hárri brekkubrún litlu norðan og ofan við Sandgerðisbót.
Alveg við Krossanesbraut stendur Jötunfell, einlyft steinsteypuhús með lágu risi. Það er líkt og Sæberg byggt 1954 og er þarna um að ræða upprunaleg hús í báðum tilfellum og einnig á Bárufelli. Eins og kom fram fyrr í færslunni eru myndirnar teknar í gær, 24.11.2012.
Heimildir: Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs Reykjavík: Örn og Örlygur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2012 | 18:39
Hús dagsins: Sláturhús KEA á Oddeyrartanga.
Neðan Hjalteyrargötu, austast á Oddeyrinni er gamalgróið iðnaðarsvæði. Þar hafa gegn um áratugina verið athafnasvæði ÚA, Strýtu, fóðurvörudeildar KEA (nú Bústólpa) svo fáein stór nöfn iðnaðarsögu Akureyrar séu nefnd að ógleymdri Kjötiðnaðarstöð KEA sem síðar varð Norðlenska. En þar berum við niður í þessari færslu. En húsið á myndinni, Gamla Sláturhúsið, er ein elsta byggingin á svæði Norðlenska á Oddeyrartanga. Sláturhúsið var reist árið 1928 og er eitt af stórvirkjum byggingarmeistarans Sveinbjarnar Jónssonar, en hann teiknaði húsið og hafði umsjón með byggingu þess. Húsið er steinsteypt og fylgir sögunni að sandurinn í húsið var fenginn af hafsbotni. Var danskt dæluskip, Uffe, notað til verksins. Húsið er 25metrar á breidd og hæð upp á gafl um 10m skv. teikningum, en þær er að finna á bls. 87 í bókinni Byggingarmeistari í stein og stál. Eins og oft tíðkaðist á iðnaðarhúsum á fyrstu tugum 20.aldarinnar voru gluggar með margskiptum rúðum og bogadregnir og á teikningum er stór bogadregin skrautrúða fremst á húsinu fyrir miðju, og sjá má móta fyrir henni á myndinni. Húsið var eitt stærsta og fullkomnasta sláturhús landsins á þeim tíma, búið nýjustu og fullkomnustu tækni og var um áratugaskeið eitt það fullkomnasta. Enn er húsið í fullri notkun hjá Norðlenska þó ekki sé slátrað þar lengur. Líklega er þetta einhverskonar vinnslusalur í dag en húsið er ekki mikið breytt að utan frá fyrstu gerð, þó það sé nú orðið hluti að stærri húsasamstæðu. Húsið virðist í góðri hirðu. Ekki veit ég hvort húsið njóti friðunar en ég hefði sagt að auðvitað ætti svo að vera. (Raunar myndi ég segja að það ætti barasta að friða allar byggingar Sveinbjarnar Jónssonar!) Ég tók þessa mynd fyrr í dag þann 18.11. 2012. Þá lagði ég leið uppí miðbæ og hugðist mynda nokkur hús við Brekkugötu sem ég á eftir að taka fyrir hér- en þegar á hólminn var komið reyndist myndavélin batteríslaus.
Heimildir: Friðrik Olgeirsson, Halldór Reynisson, Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál. Reykjavík: Fjölvi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2012 | 14:56
Hús dagsins (nr.171): Grund í Eyjafirði
Í þessari færslu bregðum við okkur "frameftir" eins og það er kallað eða fram að Grund. En þetta forna höfuðból og kirkjustaður stendur rétt innan við 20km framan Akureyrar. Fram fjörðinn þýðir suður Eyjafjörðinn en norður fjörðinn er kallað úteftir. Sjálfur yfirfæri ég það miskunnarlaust á alla firði að þegar farið er frá mynni að botni kallist það að fara fram! En hér sjást tvennar miklar byggingar á Grund sem athafnamðurinn Magnús Sigurðsson, jafnan kenndur við bæinn, reisti sitt hvoru megin við aldamótin 1900.
Hægra megin er eldra íbúðarhúsið, sem nú kallast Grund II. Það er byggt 1890 og er tvílyft timburhús á lágum kjallara með háu risi. Það er allt bárujárnsklætt með þverpóstum en var upprunalega timburklætt með sexrúðugluggum. Að öðru leyti er húsið lítið breytt frá upphafi a.m.k. að utan en sennilega hafa einhverjar breytingar verið gerðar á herbergjaskipan á þessum 122 árum. Húsið er nokkuð örugglega einbýlishús en vel gæti hugsast að það skiptist í fleiri íbúðir.
Vinstra megin er kirkjan sem Magnús reisti árin 1904-05 á eigin kostnað. Hún var þá ein stærsta og mesta kirkjan í Eyjafirði mun skrautlegri en almennt tíðkaðist með sveitakirkjur sem oft voru lágreistar og aðeins með krossi, mesta lagi litlum turni. Kirkjan er augljóslega byggð undir áhrifum frá dómkirkjum erlendra stórborga og útskornin skraut í anda Sveitser byggingarlagsins norska, sem þá tíðkaðist mikið í stórum einbýlishúsum efnamanna. Önnur sérstaða kirkjunnar er sú að hún snýr norður-suður (eða fram og út m.v. fjörðinn) og mun það einsdæmi hér á landi þar sem kirkjur voru almennt byggðar þannig að þær snúi austur- vestur. Þessi mynd er tekin sl. vor þann 20.maí 2012.
Magnús á Grund var mikill athafnamaður og frumkvöðull, en auk þess að reisa þessa miklu kirkju einn og sjálfur flutti hann inn árið 1907 einn fyrsta bílinn sem notaður var að ráði, Grundarbílinn. Saga hans, sem er í sjálfu sér efni í heila færslu, er í stuttu máli að þetta var stóreflis sendibíll af gerðinni N.A.G. frá Þýskalandi. Hann var tæp 4 tonn- tómur- hafði burðargetu uppá 1,5 tonn, á gegnheilum dekkjum og innan við 10 hestöfl. Oft gekk vægast sagt illa að koma honum þessa leið milli Akureyrar og Grundar, sérstaklega ef blautt var enda var aðeins um hestatroðninga að ræða. Ferðirnar gátu tekið þrjár klukkustundir, meðalhraðin þ.a.l. um 7km/klst eða góður gönguhraði. Magnús ákvað að hætta nota bílinn árið 1909 eftir tveggja ára notkun enda reyndist í raun meira mál að notast við hann en hestvagna. Þremur árum síðar var tryllitækið selt úr landi og mörg ár liðu þar til bílar fóru að aka um sveitir Eyjafjarðar svo orð væri á gerandi.
Heimildir: Örn Sigurðsson og Ingibergur Bjarnason. 2003. Íslenska bílaöldin. Reykjavík: Mál og menning.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2012 | 19:27
200 "Hús dagsins". Og hvað svo?
Húsapistlarnir eru nú komnir vel á annað hundrað og enn eru nokkur hús sem mér finnst mér þurfa að koma að. Það gæti vel farið svo að loks þegar ég ákveð að láta staðar numið í þessu verði pistlarnir orðnir um 200. En hvað svo. Sjálfsagt mun maður halda áfram með pistla á síðuna en eitthvað yrði líklega að verða um þessar umfjallanir- annað en að "daga uppi" hér á síðunni. Ég hef svosem heyrt það frá utanaðkomandi að þessi skrif mín séu hálfgerð "menningarverðmæti" og muni auka gildi sitt þegar fram líða stundir t.d. ef ske kynni að eitthvert "Hús dagsins" væri rifið. En það sem ég gæti séð fyrir mér gerast með þetta efni væri að setja þetta upp sem einhverskonar gagnagrunn, þar sem velja mætti hús og þessir pistlar birtast. Því þetta form sem er á moggablogginu gerir auðvitað það að verkum að grúska þarf mikið um síðuna til að finna ákveðið hús og ekki bætir úr að röðin er tilviljanakennd. En síða með "gagnagrunnsforminu" myndi hafa þetta flokkað eftir t.d. bæjum, bæjarhverfum eða eftir götum. Ef af þessu yrði þá væri það einnig spurning hvort að pistlarnir yrðu uppfærðir reglulega eða þeir stæðu óbreyttir frá því þeir væru skrifaðir- og þá fylgdi dagsetning með. En þess má geta að í sumum tilvikum eru upplýsingar sem koma fram í pistlunum mínum orðnar þannig séð "úreltar" þar sem elstu pistlarnir eru orðnir rúmlega 3 ára. Og elstu myndirnar hér eru rúmlega 7 ára en sjaldan hafa húsin breyst mikið frá því myndirnar voru teknar, mesta lagi skipt um lit. Svo hef ég nú verið hvattur til að koma þessu efni í bók. Það er vissulega einn möguleiki, en þá yrði það aftur spurning hvort maður uppfærði pistlana eða setti þá einfaldlega beint í bók eins og þeir koma fyrir á síðunni. Sú bók myndi frekar flokkast sem ljósmyndabók frekar en fræðirit en auðvitað er þessi síða fyrst og fremst orðin til í kringum myndirnar af húsunum- textinn fróðleikur sem maður hefur viðað að sér af áhugamennsku gegn um árin og uppfyllir ekki kröfur um að teljast fræðitexti. Auk þess sem ég hef svosem enga sérfræðimenntun á þessu sviði. En hvað sem verður þá mun maður örugglega gera eitthvað meira með þetta efni þegar þar að kemur, hvort sem það verður bók eða öðruvísi skipulögð síða eða hvað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2012 | 16:21
Fyrir og eftir: Hótel Akureyri, Hafnarstræti 98
Nú hef ég birt myndir og stutta pistla um gömul, skrautleg og áhugaverð hús í rúm 3 ár. Flest eru þessi hús svipuð í dag og hafa lítið breyst síðustu ár en á því eru þó undantekningar. Sumar myndirnar eru teknar þegar hús eru í miðri endurgerð, eða áður en endurgerð hófst. Hótel Akureyri kallast 89 ára timburhús í miðbæ Akureyrar, nánar tiltekið við Hafnarstræti 98. Þegar ég fjallaði um það á sínum tíma (ágúst 2009) beið það endurbóta en hér eru myndir af húsinu teknar fyrir 5 árum síðan, 31.ágúst 2007. Þann dag gat það þess vegna verið dagaspursmál hvenær húsið yrði rifið og vildi ég endilega eiga myndir af þessu horfna húsi.
En húsið var svo "skyndifriðað" daginn eftir og skömmu seinna var það keypt til endurbyggingar. Húsið stóð reyndar autt í talsverðan tíma áður en það endurbætur hófust, en sumarið 2010 var það allt málað snjóhvítt og verslunargluggar á neðstu hæð skreyttir gömlum ljósmyndum. En sl. vor lauk endurbótum á húsinu og nú er starfandi í húsinu gistiheimili og minjagripaverslunin Geysir. Og á þessum tveim myndum má sjá Hótel Akureyri þá hlið sem snýr að göngugötunni, 31.ágúst 2007 annars vegar og 30.júní 2012 hinsvegar og þar sést greinilega hversu glæsilega tókst til við endurgerð hússins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2012 | 20:48
Hús dagsins (nr. 170): Aðalstræti 8
Það verður stöðugt erfiðara að finna "kandítata" fyrir Hús dagsins. Af þeirri einföldu ástæðu að ég er búinn að mynda og taka fyrir svo mörg hús hér á Akureyri að ég þarf alltaf að leggjast í pælingar hvaða hús ég skuli mynda næst og svo er það nú meiraðsegja þannig að ég þarf að kafa vel ofaní myndasafnið mitt, því ég man oft ekki hvort ég hef tekið einhver hús fyrir eða ekki sl. 3 árin hér á síðunni. En við skoðun á myndasafninu mínu sá ég eitt hús sem ég myndaði fyrir rúmum tveimur árum síðan og ekki hefur fengið umfjöllun hér- lent á milli skips og bryggju ef svo mætti segja. En það er hið 83 ára gamla steinsteypuhús við Aðalstræti 8.
En á þessari lóð, sem stendur í kjafti Búðargils á horni Aðalstrætis og Lækjargötu hafa staðið mörg hús, það fyrsta líklega reist fyrir aldamótin 1800. Alltént sést hús á uppdrætti frá 1808 á þessari lóð. Nýtt hús var byggt á lóðinni 1836, kallað Möllershús en það brann 1901 í einum Bæjarbrunanna. Húsið sem reist var 1902 á grunni þess húss var tvílyft timburhús en það reisti séra Geir Sæmundsson. Séra Geirshús brann hins vegar grunna 1929 og náði því sama aldri og Jimi Hendrix, Jim Morrisson, Kurt Cobain og Amy Winwhouse þ.e. 27 ára! En húsið sem sést á myndinni reisti sonur Geirs, Jón Pétursson Geirsson árið 1929. Það er tvílyft steinsteypuhús með háu risi á nokkuð háum kjallara. Á suðurgafli hússins er forstofubygging, hvort hún er seinni tíma viðbygging eða frá upphafi er mér hins vegar ókunnugt um. Uppi á henni eru svalir með skrautlegu, steyptu handriði. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, lengst af með tveimur íbúðum hvor á sinni hæð en má vera að þær hafi einhvern tíma verið fleiri. Einhvers staðar minnir mig að ég hafi lesið að á meðan Seinni Heimstyrjöldinni stóð hafi þetta hús hafi verið eitt þeirra húsa þar sem bæjarbúar áttu að leita skjóls ef loftvarnarmerki heyrðust. Þannig að húsið hefur líkast til verið talið afar rammgert. Sem það eflaust er, kjallaraveggir virðast allavega þykkir. Húsið hefur alla tíð fengið gott viðhald og er í góðri hirðu, sem og víðlend lóð bakvið húsið. Nú eru að ég held þrjár íbúðir í húsinu. Þessi mynd er tekin þann 31.júlí 2010 í stórskemmtilegri Sögugöngu um Innbæinn. Leiðsögumaður var Gísli Sigurgeirsson og fjöldi þátttakenda hljóp á tugum og gott ef þeir losuðu ekki hundraðið.
Bloggar | Breytt 26.10.2012 kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2012 | 22:48
Hús dagsins (nr. 169): Norska húsið, Stykkishólmi.
Síðustu tvo mánuði hef ég birt hér pistla um nokkur gömul og glæsileg hús á Ísafirði þar sem ég dvaldi daglangt í sumar. Það er hins vegar alveg á hreinu að Ísafjörður verðskuldar alveg heila síðu á borð við þessa hér enda þar miklar torfur gamalla og sögufrægra húsa og mikilla menningarverðmæta. En nú berum við niður í Stykkishólmi þar sem ég leit við daginn eftir. Húsið á myndinni kallast Norska húsið en það er reist árið 1832 sem íbúðarhús af Árna Thorlacius kaupmanni og mun það vera innflutt frá Arendal í Noregi. Er það tvílyft timburhús, hlaðið úr láréttum stokkum eða bjálkum, með söðulþaki á lágum grunni. Það er mjög svipað því byggingarlagi sem almennt tíðkaðist í stærri íbúðarhúsum í Noregi á þeim tíma; undir nýklassískum stíl, en nokkuð stærra og veglegra en gekk og gerðist með íbúðarhús hér. Einhvern tíma skyldist mér að Gamli Spítalinn, Aðalstræti 14 á Akureyri væri líkast til fyrsta tvílyfta íbúðarhúsið sem reis hérlendis. Það virðist ekki hafa verið rétt, því Norska húsið er þremur árum eldra en Gamli Spítalinn sem reistur var 1835! Húsið var í upphafi verslunar og íbúðarhús Árna Thorlaciusar en seinn meir var því skipt upp í fleiri íbúðir, herbergjaskipa og byggt við það og 1970 var það orðið heldur hrörlegt en þá keypti sýslunefnd Snæfells- og Hnappadalssýslu húsið og nokkrum árum seinna eða 1978 hófust á því gagngerar endurbætur, sem Hörður Ágústsson hafði umsjón með. Nú er að mestu búið að færa húsið til upprunans. Nú hefur Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla aðsetur í húsinu og þar m.a. krambúð, safn á efri hæð um kaupmannshjónin Árna Thorlacius og Önnu Magdalenu Steenback, en á neðri hæð er Æðarsetur Íslands. Þessi mynd af Norska húsinu er tekin 13.júlí 2012.
Heimild:
Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi. Reykjavík: Mál og Menning.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.7.): 0
- Sl. sólarhring: 55
- Sl. viku: 300
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 188
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar