Hús dagsins (nr. 168): Krókur 1

Fyrir um mánuði síðan skrifaði ég um húsið sem langalangalangafi minn, Jens Kristján Arngrímsson, járnsmiður og um tíma bæjarstjóri á Ísafirði reisti fyrir um 160 árum síðan. P7120125En húsið hér á myndinni stendur undir brekkurótunum þar sem Djúpvegurinn heldur áfram út Skutulsfjörðinn og áleiðis á Hnífsdal. Þetta er Krókur 1 en Krókur er lítil gata sem liggur upp af Túngötunni. Heitir hún eftir Króksbænum sem stóð á svipuðum slóðum, líkast til bakvið Krók 1.

Húsið er einlyft steinhús á lágum kjallara með háu risi það og stendur á dálítilli brekku upp af veginum. En Krók 1 byggði sonur Jens Kristjáns, Ásgrímur Kristjánsson (1877-1954) árið 1921 og bjó hann þar um árabil ásamt konu sinni Sigríði Friðriksdóttur (1874-1954) frá Bíldsey í Helgafellssókn á Snæfellsnesi. Hann stundaði sjóinn en vann síðar við ýmis verkamannastörf á Ísafirði en hún var húsmóðir hér að Króki. Þau heiðurshjónin í Króki voru semsagt langalangafi og langalangamma þess sem þetta ritar. Móðurafi minn, Hörður G. Adolfsson ólst upp í þessu húsi en hann er sonarsonur Ásgríms og Sigríðar. Samkvæmt honum er húsið lítið sem ekkert breytt frá því hann bjó þar (á 3. og 4.áratugnum). Forstofubyggingin hefur t.d. verið frá upphafi en ég var nokkuð viss þegar ég sá húsið að hún væri síðari tíma viðbygging. Umhverfið er að vísu talsvert breytt, gróðurinn meiri og sólpallurinn er reistur mun síðar- slík mannvirki voru lítt þekkt á fyrri hluta 20.aldar. Húsið er einbýlishús og hefur alla tíð verið. Húsið er í góðri hirðu og lítið sem ekkert breytt frá fyrstu gerð. Eins og fram hefur komið nokkuð greinilega hér í pistlinum og öðrum þá á ég ættir að rekja til Ísafjarðar. Þangað kom ég í fyrsta skipti nú síðasta sumar og varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Bærinn og allt umhverfi hans er einstaklega fallegt og heillandi. Þá er Ísafjörður algjört gósenland fyrir áhugamenn um gömul og skrautleg hús. Þá var alveg sérstaklega gaman að sjá bæði þetta hús sem og Smiðjugötu 2, þessi hús forfeðra minna, í svona góðri hirðu og svona vel útlítandi. Þessa mynd tók ég 12.júlí sl. en þá dvaldi ég ásamt fjölskyldunni dagpart á Ísafirði áður en haldið var aftur um Djúpið og yfir í Dalina. Á þessum stutta tíma náði ég að kíkja á gamla bæinn, í Neðstakaupstað og í hádegismat Tjöruhúsinu en hefði auðvitað gjarnan viljað dvelja lengur. En einhvern tíma kíkir maður aftur vestur- það er alveg á hreinu!


Í stuði. 90 ár frá rafmagnsvæðingu Akureyrarkaupstaðar.

Fyrir mánuði síðan fagnaði Akureyrarkaupstaður 150ára afmæli sínu. En bærinn var rafmagnslaus í slétta 6 áratugi og mánuði betur- því 30.september 1922- fyrir 90 árum síðan- var rafmagni úr Glerárvirkjun hleypt á bæinn og bæjarbúar gátu nú allir sem einn lagt grútar- og olíuljósunum, kolavélunum og 60 kerta perurnar lýstu upp hvern krók og kima frá og með þeim degi. Eða ekki. Skv. 4.bindi Sögu Akureyrar e. Jón Hjaltason (2004) voru það fá heimili eða 36 sem nutu rafmagnstengingar og í ljósastaura sem reistir höfðu verið vantaði perur af réttri gerð. Auk þess mun rafmagnið hafa verið flöktandi fyrstu misserin- en Glerárvirkjun annaði svosem engan vegin raforkuþörf alls bæjarins. Og sú notkun var sennilega varla nema til ljósa og eldunar. En allavega, í dag eru 90 ár síðan Rafveita Akureyrar var tekin í notkun svo hér eru nokkrar "rafmagnaðar" myndir frá Akureyri og nágrenni. Saga Glerárvirkjunar og stöðvarhúss er svo aftur efni í annan pistil (Glerárvirkjun verður "Hús dagsins" eða "Mannvirki dagsins" hér von bráðar!).

Heimildir: Jón Hjaltason. 2004. Saga Akureyrar IV bindi 1918-1940; Vályndir tímar. Akureyri: Akureyrarbær.

Heimasíða Norðurorku: http://www.no.is/is/um-no/sagan/rafveitan

PC200048

Glerárstífla. Hún var steypt 1921-22 og framleiddi rafmagn í nærri 4 áratugi en var í hvíld álíka lengi uns hún var endurræst 2005. Þessi mynd er tekin 20.desember 2006 í einhverri mestu asahláku sem komið hafði í áraraðir. Það gerist ekki oft að það flæði yfir yfirfallið vinstra megin á myndinni, en þarna er það á bólakafi. Rauða stálbrúin ofan á stíflunni var reist 1998 og var töluverð bylting fyrir gangandi umferð milli Glerárþorps og Brekku.

268

Þessi mynd er tekin 18.febrúar 2005 en þá var unnið að endurbyggingu Glerárstíflu. Hér er búið að leggja nýja vatnspípu frá stíflunni niður í stöðvarhús en fallhæðin er 15metrar. Vatnsaflsvirkjanir byggjast nefnilega á því að fallþungi vatnsins snýr hverflunum sem framleiða rafmagnið; því meiri fallhæð því meira afl. Þess vegna er æði vinsælt hjá rafmagnsframleiðendum að virkja til fjalla- en það er aftur  afar óvinsælt hjá náttúruverndarfrömuðum!

337

Hér er stöðvarhús Glerárvirkjunar í endurbyggingu vorið 2005, en upprunalega stöðvarhúsið frá 1922 var rifið um 1980. Ég hélt ég ætti nú nýrri mynd af húsinu en þetta- en þegar ég fletti í gegn um myndasafnið var þetta eina myndin sem ég fann. Þannig að það er ljóst að ég þarf að mynda stöðvarhúsið uppá nýtt áður en ég tek það og virkjunina fyrir í "Húsum dagsins"...

PB290055

Þessi mynd varð nú að fylgja með- þó það sé yfir hálf öld síðan dreifikerfi Akureyrarrafmagns fór að mestu leyti úr lofti ofaní jörð. En þessi staurastæða stendur skáhallt ofan Halllands í Vaðlaheiði, nokkurn vegin beint ofan fyrir ofan fyrirhugaðan gangnamunna Vaðalaheiðarganga og er ein af nokkur hundruð á Laxárlínu sem flytur rafmagn frá Laxárvirkjun til Akureyrar og hefur gert frá 1939. Þessi mynd er tekin í lok nóvember 2008.


Hús dagsins (nr. 167): Hafnarstræti 2; Bókhlaðan og Gamli Spítalinn á Eyrartúni

Síðustu vikur hef ég birt hér myndir og umfjallanir um eldri timburhús á Ísafirði en áður en við skiljum við Ísafjörð og höldum norður aftur er rétt að birta hér tvö stór og áberandi steinsteypuhús. P7120121En þegar komið er inní bæinn eftir Djúpvegi blasir Eyrartúnið við og þar stendur Gamli Spítalinn.  Húsið er byggt 1923-25 eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar og er tvílyft  steinsteypuhús með háu söðulþaki, fimm kvistum einum stórum með svölum í miðjunni. Þótti þetta ein vandaðasta sjúkrahúsbygging landsins þegar hún var vígð 17.júní 1925 og þjónaði húsið hlutverki sínu sem sjúkrahús í rúm 60ár eða til 1989 en var þá auvðitað löngu orðið ófullnægjandi nútíma kröfum. Árið 2003 var húsið gert að Safnahúsi en þar er nú bókasafn, héraðsskjalasafn aðstaða fyrir listsýningar og minningarstofur um Vilmund Jónsson landlækni og Guðmund G. Hagalín rithöfund. Hér er meiri fróðleikur um byggingarsögu hússins og sjúkrahúsa Ísafjarðar.

  Við Hafnarstræti 2 við Silfurtorg stendur Bókhlaðan, mikið tvílyft steinsteypuhús með háu risi tveimur áberandi kvistum. P7120107Húsið var byggð 1928 eftir Aðalskipulagi Ísafjarðar frá 1927 en skipulagið var hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi en nokkrum mánuðum síðar var Aðalskipulag Akureyrarbæjar samþykkt.  Húsið er stórglæsilegt og áberandi og setur mikinn svip á umhverfið og áberandi eru bogadregnar línur í kvistum. Þá stendur húsið á horni og liggur í mjúkum boga meðfram Silfurtorginu. Það kæmi mér ekki á óvart að húsið væri eitt það mest myndaða á Ísafirði. Ég kíkti einmitt inní þessa verslun á göngu minni um Ísafjörð 12.júlí sl. En  húsið var semsagt byggt fyrir Bókhlöðuna, bókaverslun Jónasar Tómassonar, sem stofnuð var 1920, og hefur því verið starfrækt bókaverslun í þessu húsi frá upphafi. Í  meira en 80 ár var rekstur Bókhlöðunnar í höndum sömu fjölskyldu. Enn er rekin bókaverslun í þessu húsi, nú undir merkjum Eymundsson. Ég kíkti þarna inn á göngu minni um miðbæ Ísafjarðar 12.júlí í sumar. Erindið var að athuga með nýtt minniskort í myndavélina: Þannig var nefnilega mál með vexti að þarna eru svo mörg skrautleg og áhugaverð hús að plássið sem ég átti eftir á kubbnum rúmaði engan vegin allar þær húsamyndir sem ég hugðist taka- því svo átti ég eftir að mynda í fjörðunum í Djúpinu! En þó ég þræddi flestar ef ekki allar bóka- og ljósmyndabúðir Ísafjarðar náði ég ekki að finna passandi kort, xD fyrir Olympus (það voru aðeins til sD).


Hús dagsins (nr. 166): Smiðjugata 2

Smiðjugata er stutt og þröng gata neðarlega á eyrinni sem gamli bærinn á Ísafirði stendur á. P7120108Hún er næst ofan Tangagötu og gengur milli Skipagötu og Silfurgötu og sker á leiðinni Þvergötu. Hún er talsvert styttri en Tangagata og Sundstræti. En neðst við götuna stendur húsið sem hér sést til hliðar en það er Smiðjugata 2.  Húsið reisti Jens Kristján Arngrímsson járnsmiður árið 1853. Húsið er lítið breytt frá fyrstu gerð a.m.k. að utan en húsið er einlyft timburhús með háu risi á lágum kjallara. Jens Kristján eða Kristján eins og hann var jafnan kallaður  bjó í húsinu ásamt fjölskyldu sinni og hafði þar einnig járnsmiðju. Líklega hefur húsið verið fyrsta húsið við götuna eða allavega gatan verið nafnlaus því nafnið Smiðjugata er dregið af járnsmiðju Kristjáns. Jens Kristján var einn fjögurra helstu hvatamanna Ísafjarðarbúa við að aðskilnað frá Eyrarhreppi. Þetta var um svipað leyti og Akureyri fékk kaupstaðarréttindi eða 1862. Hinir þrír voru Hinrik Sigurðsson, Hjálmar Jónsson og Lárus Snorrason og voru þeir ásamt Kristjáni fyrsta bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, en þeir töldust þó ekki löglega kjörnir en lögleg bæjarstjórn var kosin 1866 þegar bærinn fékk kaupstaðarréttindi. En Jens Kristján var kjörinn bæjarstjóri í þessari bráðabirgða bæjarstjórn- og telst því fyrsti bæjarstjóri Ísafjarðar. Margir hafa búið í þessu húsi frá því á dögum Jens Kristjáns járnsmiðs og bæjarstjóra en hann lést 1898. Jens Kristján eignaðist 10 börn með fjórum konum, en aðeins fimm þeirra lifðu fram á fullorðinsár. Afkomendur Kristjáns eru þó orðnir mjög margir og er ég einn þeirra. Sonur hans, Ásgrímur Kristjánsson var fæddur 1.október 1877, sennilega í þessu húsi, en hann var langalangafi minn.  Húsið er í mjög góðri hirðu og lýtur stórglæsilega út sem og allt umhverfi þess. Myndin er tekin 12.júlí 2012.


September kemur á óvart!

Svona fréttum og fréttamyndum man ég vel eftir árið 1991, þegar Stauraveðrið svokallaða gekk yfir landið. Þá brast á mikill norðanhvellur, og hiti rétt við frostmark þannig að mikil bleyta fylgdi með og ísing sligaði margar háspennulínur. Það vill nefnilega svo til að eðlismassi frosins vatns er um 0,92 g/ rúmsentimetrar og þ.a.l. er einn rúmmeter 920kg. Og það safnast þegar saman kemur tugir kílómetra af raflínum- þá verða rúmmetrarnir og þ.a.l. tonnin ansi mörg!   T.d. er mér minnisstæð staurastæða Laxárlínu við Eyjafjarðarbraut Eystri, skammt norðan Ytra-Gils kubbuð í sundur og þarna varð rafmagnslaust  um meira og minna allan Eyjafjörð- og víðar að mig minnir dögum saman. Olli miklum baga víða þar sem mjaltavélar stoppuðu og hús hituð með rafmagni urðu köld. En þetta var í byrjun í janúar sem er e.t.v. mun "eðlilegri" árstími fyrir svona hvelli.  Að svona áhlaup komi í fyrrihluta september er óneitanlega sérstakt, t.d. borið saman við  2010 var hlýjasta helgi sumarsins í byrjun þessa sama mánaðar og oft hangir hitastigið í tveggja stafa tölu stóran hluta mánaðarins. Og ég hef margoft lýst þeirri skoðun hér að september sé einn sumarmánaðanna og ekki tímabært að tala um haust fyrr en um eða eftir miðjan mánuðinn í fyrsta lagi! En haustlægðir í september geta orðið ansi öflugar- en þessari fylgdi kannski meiri kuldi en oftast. Því fellur þessi haustrigning sem slydda. September og maí, mánuðurnir sem ég segi að skilji sumarið frá vetrinum sitt hvoru megin eru sennilega þeir mánuðir sem hægt er með réttu að kalla sýnishornamánuði; allt veður frá 20stiga hita og sól og snjóbylur geta nefnilega átt sér stað í þeim mánuðum.


mbl.is Brotnir eins og eldspýtur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús dagsins (nr.165) : Túngata 3

Ég skrifaði hér fyrr í sumar að ég myndi vera með "Ísafjarðarþema" í Húsum dagsins í ágúst. P7120120Enn þó kominn sé september þá mun ég halda áfram með nokkra Ísafjarðarpistla. Þetta hús stendur dálítið ofar en húsin sem ég hef skrifað um en þau standa í Neðstakaupstað, við Silfurgötu eða niðri á Bökkum. En þetta stórglæsilega hús stendur við Túngötu 3 og er það reist árið 1930 á þessum stað eftir teikningum Jóns H. Sigmundssonar.  Húsið var upprunalega byggt við Hattareyri við Álftafjörð um aldamótin af norskum síldveiðimönnum en tekið niður 1930 og aftur byggt á þessum stað. Þá var húsið stækkað og bætt á það tveimur kvistum.  En húsið er einlyft timburhús á háum steinsteyptum kjallara með háu portbyggðu risi og tveim samliggjandi miðjukvistum. Er húsið bárujárnsklætt og hefur líkast til verið svo frá upphafi. Húsið er kallað Grímshús (eða Grimsby) eftir Grími Kristgeirssyni rakara sem bjó hér um miðja öldina. Hann var faðir forseta Íslands, Hr. Ólafs Ragnars Grímsson og mun hann fæddur í þessu húsi. Túngata 3 er í góðu ástandi og til mikillar prýði en það er nokkuð áberandi við Eyrartúnið líkt og mörg húsin við Túngötuna. Þessi mynd er tekin 12.júlí sl.

Heimild:

Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi. Reykjavík: Mál og Menning. 


Til hamingju Akureyri 150 ára !

Í dag 29.ágúst 2012 eru liðin 150 ár síðan Akureyri, þá tæplega 300manna þorp undir Brekkunni fékk kaupstaðarréttindi (bærinn sjálfur  þ.e. byggðin er auðvitað talsvert eldri) og er því Akureyrarkaupstaður 150 ára í dag.

Óska öllum Akureyringum, nær og fjær- og landsmönnum öllum og Akureyri sjálfri því til hamingju með 150 ára afmælið. Smile

P2250078

P4110024

P6200053

Meðfylgjandi myndir sýna Akureyri á ýmsum árstímum frá ýmsum sjónarhornum. 

150 ára söguágripið sem ég tók saman í vor : http://arnorbl.blog.is/blog/arnorbl/day/2012/6/4/


Hús dagsins (nr.164): Silfurgata 8? og Smiðjugata 6

Húsin sem fylgja með þessari færslu myndaði ég þar sem mér þótti þau einstaklega skrautleg og áhugaverð. P7120113Á húsinu hér til hliðar sá ég hvorki númer né heldur byggingarár- sem er raunar nokkuð algengt á Ísafirði en mér reiknast til að þetta hús standi á Silfurgötu 8. Alltént stendur það næst á bak við Silfurgötu 6 sem ég tók fyrir í færslu um daginn. En þetta hús gæti ég svo sannarlega ímyndað mér að sé byggt í áföngum  og það nokkrum. En húsið liggur í vinkil, önnur álman er tvílyft með lágu risi og tveimur viðbyggingum, önnur einlyft með skúrþaki á gafli og hin inngönguskúr framan á. Sá hluti virðist múrhúðaðar en ég geri ráð fyrir að allt húsið sé timburhús. Önnur álman er einlyft með háu risi sem virðist hafa verið lyft og tengist tvílyftu byggingunni með kvisti. Gluggapóstar eru fjölbreyttir bæði hvað varðar stærð og gerð. Húsið er í góðu standi og ætti að mínu mati tvímælalaust að njóta friðunar, þó ekki væri nema vegna skemmtilegs útlits!

Smiðjugata 6 er öllu látlausara og einfaldara að gerð, tvílyft timburhús með lágu risi, klætt láréttum timburborðumP7120110Smiðjugata er mjög gömul gata en húsið er nærri hálfrar annnarar aldar gamalt, byggt 1864. Hugsanlegt er að það hafi verið einlyft með risi og hækkað síðar, en það skal ósagt látið hér. En Smiðjugata 6 er svipmikið og skemmtilegt og það sem gefur því þennan skemmtilega svip eru kannski ekki fölsku gluggahlerarnir, þeir eru svona skemmtilega "erlendis" ;) Þó er líklegt að húsið hafi einhverntíma verið "augngstungið" þ.e. að krosspóstum eða sexrúðugluggum verið skipt út fyrir núverandi gluggaskipan. Húsið er annars í góðri hirðu og til mikillar prýði í götumyndinni.


Hús dagsins (nr.163): Nokkur hús við Tangagötu.

Tangagata liggur neðarlega á eyrinni þar sem eldri hverfi Ísafjarðar standa, niðri á bökkum, er það kallað. Neðan við og samsíða Tangagötu er Sundstræti en sú gata liggur við strandlengjuna en ofan við er dálítið styttri gata sem heitir Smiðjugata og Brunngata þar ofan.  Þessar götur liggja Norður-Suður en þær byrja við Skipagötu en Þvergata er næst austan við hana. Þessar götur liggja Austur-Vestur. Þá liggur Silfurgatan- sem komið hefur við sögu hér, gegn um Tangagötu. En við götuna standa mörg minni timburhús, byggð fyrir aldamótin 1900. Ekki hef ég nú vitneskju um hverjir byggðu eða bjuggu í þessum húsum, en bygginagarárin standa í mörgum tilvikum utan á húsunum.

Tangagata 19 er byggt 1898.P7120118 Það er einlyft timburhús með háu risi, á lágum kjallara. Svo maður geti nú í byggingasögu þessa hús myndi ég halda að a.m.k. tvisvar hafi verið bætt við það, í fyrsta lagi einlyft viðbygging á norðurgafli og eins inngönguskúr á framhlið. Húsið er í góðu standi og hefur líkast til verið "tekið í gegn" á allra síðustu áratugum. Húsið er líkast til einbýli en fyrr á árum gætu hins vegar hafa búið þarna nokkrar fjölskyldur.

 

 

 

 

 

Tangagata 24 er 116 ára og er í mjög góðu ásigkomulagi, á því er ný klæðning og nýlegar gluggar.P7120117  Húsið er tvílyft með lágu risi á lágum kjallara. Inngönguskúr framan á er líkast til seinni tíma viðbygging. Þá er einnig hugsanlegt að húsið hafi í fyrndinni verið einlyft með háu risi en hækkað um eina hæð.

 

 

 

 

 

 

Tangagata 33 er einlyft timburhús með háu risi, byggt 1885. P7120119Það er kallað Bubbuhús og því kennt við Bubbu nokkra sem ég þekki ekki frekari deili á. Hvort hún byggði húsið eða bjó þar lengi en hún hefur líkast til verið mikil heiðurskona. Húsið virðist í góðu standi, járnklætt með krosspóstum í gluggum. Ég er nokkuð viss um að einlyfti hluti hússins með flata þakinu sé seinni tíma viðbygging.  Líkast er húsið einbýli en þarna hafa sjálfsagt búið margar fjölskyldur í einu á fyrri hluta 20.aldar.


Hús dagsins (nr. 162): Silfurgata 11; Félagsbakaríið.

Ragúel Árni Bjarnason teiknaði og byggði mörg stór og glæsileg timburhús í norska stílnum á Ísafirði meðan hann starfaði þar sem timburmeistari 1905-07. P7120114Tvö hús, sem talin eru undir Amerískum áhrifum Silfurgötu 2 og 6, hef ég tekið fyrir í síðustu færslu en húsið hér á myndinni stendur einnig við Silfurgötu. En Silfurgata 11 var byggð 1906 eftir teikningum Ragúels Árna fyrir Bökunarfélag Ísfirðinga og Arnór Kristjánsson kaupmann en hann átti helming hússins á móti Bökunarfélaginu. Hefur húsið því síðan verið Félagsbakaríið. En Félagsbakaríið er tvílyft timburhús á háum steyptum kjallara með háu portbyggðu risi. Á því eru tveir kvistir á framhlið en þrír minni á bakhlið. Tvær svalir eru framan á húsinu en á svalir er eitthvað sem sást sjaldan á húsum árið 1906- það var þá helst á nýjum Sveitserhúsum. Allt er húsið bárujárnsklætt. Lengi vel var þarna brauðgerð en þarna var einnig trésmíðaverkstæði og prentsmiðja en annars hefur húsið verið íbúðarhús. Þegar mest var bjuggu 56 manns í þessu húsi. Á sama tíma var bakaríið starfandi í húsinu þ.a. líklega bjó allt þetta fólk á efri hæðunum, hugsanlega einhverjir í kjallaranum. Húsið mun fyrir fáum árum hafa fengið talsverða yfirhalningu bæði að utan og innan og er nú allt hið stórglæsilegasta. Nú eru í þessu húsi líklega 5 íbúðir, tvær á hvorri hæð og ein í risi. Þessi mynd er tekin 12.júlí 2012 líkt og allar Ísafjarðarmyndirnar mínar.

Heimild:

Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi. Reykjavík: Mál og Menning.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 49
  • Sl. sólarhring: 52
  • Sl. viku: 323
  • Frá upphafi: 450481

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 208
  • Gestir í dag: 34
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband