Hús dagsins: Helgamagrastræti 36

Árið 1944 fékk Þorsteinn Benediktsson þessa lóð og byggingarleyfiP5030898 fyrir steinsteyptu íbúðarhúsi, á einni hæð með kjallara undir hluta og járnklæddu valmaþaki úr timbri. Stærð hússins 10,65x8,6 auk útskots að vestan, 5x1,4m. Fullbyggt mun húsið hafa verið 1945.  Teikningarnar að Helgamagrastræti 36 gerði Tryggvi Jónatansson, eins og að mörgum húsum á Akureyri á 4. og 5. áratug 20. aldar.

Helgamagrastræti 36 er einlyft steinsteypuhús á kjallara og með valmaþaki, útskoti til austurs á framhlið og inngangi í kverkinni á milli. Á suðurhlið er viðbygging, sólskáli úr gleri. Steining er á veggjum og bárujárn á þaki en einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum.

Þau Þorsteinn Benediktsson og Guðrún Jóhannsdóttir, sem byggðu húsið bjuggu þar um áratugaskeið eða allt til æviloka. Hann lést árið 1977 en hún 1981. Árið 1956 byggðu þau bílskúr á baklóð hússins og stendur hann enn, og er hann byggður eftir teikningum þeirra Gunnars Óskarssonar og Páls Friðfinnssonar. Ýmsir hafa átt húsið og búið þar eftir þeirra dag. Húsið mun alla tíð hafa verið einbýlishús og hefur ekki tekið stórvægilegum breytingum að ytra byrði. Sólskáli var byggður við suðurhlið hússins árið 2002 eftir teikningum Haraldar Árnasonar. Meðfram vesturhlið og að sólskálanum er grindverk eða veggur úr gleri. Lóðin er gróin og í góðri hirðu og á lóðarmörkum steyptur veggur sem líklega er frá svipuðum tíma og húsið var byggt.

Helgamagrastræti 36 er traustlegt hús og í góðri hirðu, það hlýtur í Húsakönnun 2015 varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 983, þ. 21. júlí 1944. Fundur nr. 986, 18. ágúst 1944. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


"Stórafmælishús" á Akureyri

Ég haft ófá orð um það hér, að vefur þessi eigi 10 ára afmæli á þessu ári og birt ýmislegt til gagns og kannski ekki síst gamans af því tilefni. Meðal annars lista yfir 100 elstu hús Akureyrar og birt yfirlit yfir alla pistla frá upphafi. En það er ekki bara þessi vefur þessi sem á stórafmæli, heldur einnig mörg elstu hús Akureyrar. Hér eru hús, komin á annað hundraðið í aldursárum, sem eiga stórafmæli í ár. Að sjálfsögðu er ævinlega örlítill fyrirvari á byggingarárum elstu húsanna.

170 ára:

Þrjú hús, sem öll standa við Aðalstræti eru talin byggð 1849 og eru því 170 ára í ár. Þjóðskáldið Matthías Jochumsson (sem bjó einmitt í Aðalstræti 50) var um fermingu þegar þessi hús voru byggð og Thomas Edison, sem fann upp ljósaperuna og fleiri hagnýta hluti var tveggja ára. Þessi hús voru 69 ára þegar Ísland varð fullvalda og 95 ára þegar Lýðveldið Ísland var stofnað á Þingvöllum. Og fyrst minnst er á stofnun Lýðveldisins má koma því, að aldursár þessara húsa eru álíka mörg og fjöldi daga frá áramótum til 17. júní. 

Nonnahús, Aðalstræti 54.

p5230010.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Friðbjarnarhús, Aðalstræti 46.

P8150041

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Aðalstræti 50.

P8150042 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

160 ára:

Gamla apótekið, Aðalstræti 4, sem nýverið hlaut gagngerar endurbætur og er nú ein af perlum Innbæjarins er byggt 1859 og á því "tvöfalt áttræðisafmæli" í ár. Húsið er þremur árum eldra en Akureyrarkaupstaður, sem stofnaður var 1862.

P8070678

 

 

 

 

 

 

 

 

 

140 ára:

Lundargata 2, Háskenshús var byggt 1879 og er þannig jafnaldri Alberts Einstein.

 p2100007.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

120 ára:

Aðalstræti 17, Norðurgata 1, Norðurgata 3 og Spítalavegur 9 eru byggð 1899.

P6190009

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P6220121

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  

 

 

p6220122.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P7310010

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

110 ára:

Hamborg, Hafnarstræti 94 er byggt 1909.

PC020866

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

100 ára:

Eftir því sem ég kemst næst eru þrjú hús innan þéttbýlismarka Akureyrar (Ath. þekki því miður ekki til varðandi Grímsey og Hrísey) sem byggð eru 1919 og bætast því í ár í hóp þeirra 150-200 Akureyrarhúsa sem náð hafa 100 árum. Húsin eru Oddeyrargata 8, Gránufélagsgata 21 og Hafnarstræti 82.

P5030002

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P5050001 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

p3060054.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Að sjálfsögðu óska ég öllum hlutaðeigandi, íbúum og eigendum umræddra húsa sem og fyrirtækjum og stofnunum sem þar eiga aðsetur til hamingju með stórafmælin.smilecool 


Hús dagsins: Helgamagrastræti 34

Á síðasta degi febrúarmánaðar 1942 hélt Bygginganefnd Akureyrar sinn 900. fund frá stofnun hennar árið 1857 (Bygginganefnd var fimm árum eldri en kaupstaðurinn sjálfur). P5030900Á meðal þess sem nefndin tók fyrir á þessum „tímamóta“ fundi var úthlutun lóða við norðanvert Helgamagrastrætið. Aðra lóð frá Krabbastíg (Bjarkarstíg) fékk Sigurður Pálsson en næstu lóð norðan við, þ.e. nr. 34 hlaut Ingólfur Kristinsson, starfsmaður Gefjunar. Skömmu síðar fékk Ingólfur að reisa íbúðarhús á einni hæð með kjallara undir þriðjungi grunnflatar, byggt úr r-steini með járnklæddu timburþaki. Stærð að grunnfleti 11,5x9,4m að grunnfleti, auk útskots að vestan, 1x6m.  Húsið var byggt eftir teikningum Páls Friðfinnssonar

Helgamagrastræti 34 er einlyft steinsteypuhús á lágum grunni með lágu valmaþaki. Útskot á framhlið til vesturs og inngangur í kverkinni á milli. Einfaldir póstar í gluggum og horngluggar funkisstefnunnar á sínum stað, og vísa þeir til suðurs. Veggir eru með steiningu og bárujárn á þaki.

Ingólfur Kristinsson, sem byggði húsið bjó hér um áratugaskeið ásamt fjölskyldu sinni, en hann var kvæntur Grétu Jónsdóttur. Þau voru bæði fædd og uppalin á Akureyri. Sem áður segir vann Ingólfur hjá Gefjun en lengst af starfaði hann við Sundlaug Akureyrar. Ingólfur lést 1993 en Gréta 1982. Ýmsir hafa átt og búið í húsinu, sem er nánast óbreytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði. Árið 1992 var byggður bílskúr á lóðinni, eftir teikningum Haraldar S. Árnasonar og einnig er á lóðinni voldug timburverönd við suður- og vesturhlið. Lóðin og húsið er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði. Þakjárn virðist nýlegt sem og steiningarmúr á veggjum. Húsið hlýtur, í Húsakönnun 2015, varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 900, þ. 28. febrúar 1942. Fundur nr. 906 þ. 24. apríl 1942 Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Helgamagrastræti 32

Helgamagrastræti 32 reisti Sigurður Pálsson árin 1942-43 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. P5030901Hann fékk í lok febrúar 1942 lóð austan Helgamagrastrætis, aðra lóð norðan væntanlegs Krabbastígs, sem nokkrum misserum síðar varð Bjarkarstígur. Í júlí sama ár er Sigurði heimilað að reisa íbúðarhús úr r-steini á steyptum kjallara, með steinlofti og járnklæddu timburþaki. Stærð hússins 12,20x9,5m.

Helgamagrastræti 32 er funkishús af stærri gerð, þ.e. að flatarmáli en er ekki háreist, einlyft steinhús með lágu valmaþaki. Útskot er nyrst á framhlið og inngöngudyr í kverkinni á milli og svalir sem skaga út fyrir suðurhorn hússins í boga. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum, bárujárn á þaki og steining á veggjum. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, einbýlishús. Um miðja 20. öld fluttust í Helgamagrastræti 32 þau Friðjón Skarphéðinsson og Sigríður Ólafsdóttir. Friðjón, sem fæddur var á Oddstöðum á Miðdölum árið 1909, var skipaður bæjarfógeti á Akureyri og sýslumaður í Eyjafirði árið 1945 og gegndi þeim embættum um árabil. Hann sat  á Alþingi 1956-´63 og gegndi í eitt ár, 1958-59, sem dómsmála- landbúnaðar- og félagsmálaráðherra. Bjuggu þau Friðjón og Sigríður hér fram undir 1967 en þá fluttust þau til Reykjavíkur þar sem hann gegndi stöðu yfirborgarfógeta. Friðjón lést árið 1996.   

Ýmsir hafa átt húsið og búið í gegn um tíðina. Á tíunda áratug 20. aldar átti Leikfélag Akureyrar húsið og var húsið þá nýtt sem tímabundinn íverustaður leikara og leikstjóra sem komu til bæjarins að taka þátt í leiksýningum. Var húsið nokkuð endurnýjað að innan þegar það var í eigu leikfélagsins, en ekki voru gerðar neinar stórvægilegar breytingar á húsinu. Húsið er raunar að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð en hefur alla tíð hlotið gott viðhald. Sama er að segja af lóð, sem er víðlend og vel gróin. Húsið er einfalt og látlaust að gerð, en verklegt járnhandrið á svölum setur nokkurn svip á húsið og skemmtilegan. Á lóðarmörkum er steyptur veggur, líklega upprunalegur og er hann einnig í góðri hirðu, og segir í Húsakönnun 2015 að veggurinn og handriðið gefi [...]húsinu gott heildaryfirbragð“. (Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta 2015:95). Þar er húsið metið með varðveislugildi 1, sem hluti af áhugaverðri heild. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 900, þ. 28. febrúar 1942. Fundur nr. 24. júlí 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Helgamagrastræti 30

Eftir nokkurra vikna viðdvöl á Oddeyri og Oddeyrartanga höldum við aftur upp á Brekku og í Helgamagrastrætið, að ysta hluta götunnar, þ.e. norðan Bjarkarstígs. Þess má til gamans geta, að í dag eru liðin 80 ár síðan götuheitið Helgamagrastræti birtist fyrst á prenti. Það var í blaðinu Íslendingi þann 6. október 1939, en þar auglýsti Kristinn Sigmundsson til sölu ýmis konar grænmeti til sölu í Helgamagrastræti 3. Því má að sjálfsögðu halda til haga, að Kristinn var föðurafi þess sem þetta ritar. En á norðausturhorni Helgamagrastrætis og Bjarkarstígs stendur Helgamagrastræti 30: 

Helgamagrastræti 30 reisti Bjarni Rósantsson múrarameistari árið 1942.P5030902 Hann fékk lóð, þá fyrstu austan Helgamagrastrætis og norðan Krabbastígs, en í mars 1942 var nafnið Bjarkarstígur ekki komið til heldur hét gatan Krabbastígur upp að Helgamagrastræti. Það var svo í júní sama ár, sem Bjarna var leyft að byggja hús, eina hæð á kjallara, byggt úr steinsteypu með steinlofti yfir kjallara og steinþaki. Stærð hússins 11x9m. Bjarni gerði sjálfur teikningarnar að húsinu.

Helgamagrastræti 30 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara. Húsið er tvær álmur og sú syðri breiðari og á hvorri álmu eru há einhalla þök (skúrþök). Halla þökin, sem eru timburþök með breiðum köntum, hvor til sinnar áttar og mynda þannig skipt risþak. Einfaldir póstar eru í gluggum, múrhúð á veggjum og bárujárn á þaki.

Bjarni Rósantsson, sem var frá Efstalandi í Öxnadal, starfaði um árabil sem byggingameistari Akureyrarbæjar. Á meðal fjölmargra húsa sem Bjarni byggði eða kom að byggingu má nefna hús Iðnskólans við Þingvallastræti 23, sem fullbyggt var 1969 og er nú Icelandair Hotel. Þá byggði einnig eigið hús við Munkaþverárstræti 22 árið 1936, eða sex árum áður en hann byggði Helgamagrastræti 30. Bjarni bjó hér ásamt fjölskyldu sinni um áratugaskeið, en eiginkona hét  Björg Hallgrímsdóttir. Hann lést árið 1973, þá búsettur hér en hún lést 1988. Ýmsir hafa átt húsið og búið hér eftir tíð þeirra Bjarna og Bjargar. Á níunda áratugnum og fram yfir 1990 var rekin í húsinu verslunin Hestasport.   Upprunalega var húsið með flötu þaki, en ekki fylgir sögunni hvenær risþak var byggt á húsið eða heldur hver hannaði þær breytingar. Þá er bílskúr áfastur við húsið að norðanverðu, líklega byggður fáeinum árum síðar en húsið. Árið 1995 var byggt á húsið skyggni yfir inngöngudyr og gluggum hússins breytt, eftir teikningum Fanneyjar Hauksdóttur. Húsið er í mjög góðri hirðu og er til prýði, hvort heldur sem er í götumynd Helgamagrastrætis eða Bjarkarstígs. Þá er lóðin mjög gróin, svo sem gengur og gerist á þessum slóðum og ber þar mikið á gróskumiklum birkitrjám. Í Húsakönnun 2015 hlýtur húsið varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild funkishúsa, þrátt fyrir að teljast mikið breytt frá upphafi. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á  slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 901, þ. 6. mars 1942. Fundur nr. 26. júní 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Gránufélagsgata 48

Laufásgata liggur til norðurs frá Strandgötu á Oddeyrartanga og tengist Hjalteyrargötu að norðan. Við hana standa að mestu verkstæðishús o.fl. auk athafnasvæða að austanverðu. Gránufélagsgata þverar Laufásgötu og á suðaustur horni gatnanna tveggja stendur reisulegt steinhús, Gránufélagsgata 48.PC290882

Gránufélagsgötu 48 reisti Sigfús Baldvinsson útgerðarmaður og síldarsaltandi frá Tjörn í Svarfaðardal. Hann fékk árið 1943 lóð á leigu meðfram Gránufélagsgötu að sunnan, og norður af lóð Kristjáns Kristjánssonar (Strandgata 53). Þá fékk hann leyfi til að reisa geymsluhús, byggt úr steinsteypu með timburþaki, ein hæð með háu risi. Í gögnum bygginganefndar er húsið sagt 20x41m að stærð en líklega hefur það misritast og átt við 20x14m. Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson. Þær teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu en þar má finna upprunalegar raflagnateikningar frá janúar 1944 ásamt teikningum Jóns Geirs Ágústssonar frá 2001 vegna lítils háttar breytinga á innra skipulagi ásamt neyðarútgöngum.

Gránufélagsgata 48 er einlyft steinsteypuhús með háu risi. Tveir kvistir með einhalla þaki eru á hvorri hlið þekju. Bárujárn er á þaki en veggir múrsléttaðir og krosspóstar í flestum gluggum. Sigfús Baldvinsson og kona hans Ólöf Guðmundsdóttir fædd á Gásum við Eyjafjörð, voru búsett í Fjólugötu 10, norðar og ofar á Eyrinni, en það hús reistu þau árið 1933.  Sigfús var stórtækur útgerðarmaður og síldarsaltandi og stóð fyrir eigin rekstri frá árinu 1930, en áður hafði hann verið sjómaður hjá útgerð Ásgeirs Péturssonar. Sigfús var einn stofnenda Netagerðarinnar Odda árið 1933. Sigfús stundaði atvinnurekstur allt til hinsta dags, en hann lést 1969, 75 ára að aldri.  Gránufélagsgata 48 var sem áður segir byggt sem geymsluhús en þar hafa einnig alla tíð verið íbúðir, þ.e. í risi og vesturhluta. Sonur Sigfúsar, Snorri, bjó þarna um áratugaskeið ásamt fjölskyldu sinni. Gránufélagsgata 48 hefur á 76 árum hýst ýmsa starfsemi,  Netagerð, Nótaverkstæðið Oddi var starfrækt þarna um árabil á vegum Sigfúsar og árið 1972 eru auglýstar þarna til sölu Brøyt-gröfur á vegum fyrirtækisins Landverks, og síðar Heildverslunin Eyfjörð sf. Á tíunda áratugnum var þarna verslunin Köfun.

Nú eru í húsinu, auk íbúðar vinnustofur listamanna á efri hæð og austurenda neðri hæðar. Húsið er næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð að utan. Gránufélagsgata 48 hlaut töluverðar endurbætur að utan sem innan á fyrsta áratug þessarar aldar og er í mjög góðri hirðu. Ekki veit sá sem þetta ritar til þess, að húsið hafi verið metið til varðveislugildis, en það er hans álit, að sögulegt gildi iðnaðarhúsa á Oddeyrartanga frá fyrri helmingi síðustu aldar hljóti að vera töluvert. Þar hefur ýmis starfsemi farið fram gegn um tíðina og húsin geyma mikla sögu um atvinnustarfsemi liðinna tíma. Og ekki bara liðinni tíma; því í flestum umræddra húsa er enn unnið og starfað að iðn, framleiðslu sem og listum, svo sem í tilfelli Gránufélagsgötu 48.  Myndin er tekin þann 29. desember 2018.  

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 904, 27. Mars 1943. Fundur nr. 919, 24. júlí 1942. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Okt. 2019
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • IMG_1565
  • IMG_1569
  • IMG_1568
  • IMG_1564
  • IMG_1567

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 23
  • Sl. sólarhring: 46
  • Sl. viku: 608
  • Frá upphafi: 420810

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 485
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband