Hús dagsins: Strandgata 53

Strandagata 53 stendur á horni Strandgötu og Laufásgötu á Oddeyrartanga, gegntP6210886 Oddeyrarbryggju þar sem m.a. Eimskip hefur aðsetur og drjúgur hluti vöruflutninga til og frá Akureyri fer um. Að ekki sé minnst á mörg skemmtiferðaskipin sem þarna leggjast að bryggju. En sögu hússins, sem reist var sem bílaverkstæði og bílageymsla má rekja til ársins 1935 en þá fékk Kristján Kristjánsson bifreiðarstöðvarstjóri (kallaður Bílakóngur) lóð norðan Strandgötu, austan við Steindór Jóhannesson að stærð 35x35m, til þess að reisa „geymsluskúr fyrir bíla“. Fékk hann að reisa bílageymsluhús á lóðinni, að „lengd meðfram Strandgötu 36,6m og með þvergötu 16m“. Þar er væntanlega átt við Laufásgötu sem ekki virðist hafa fengið nafn, en elsta heimildin sem timarit.is finnur um hana er frá 1948. Engu að síður er Laufásgötu að finna á einum elsta „skipulagsuppdrætti“ sem varðveist hefur af Oddeyrinni, sem er gerður svo snemma sem 1901 af Stefáni Kristjánssyni.

En bifreiðastöð Kristjáns eða BSA var fullbyggð 1936 og í nóvember það ár auglýsir Bifreiðastöðin að þeir taki til geymslu „ [...]í nýrri byggingu vorri að Strandgötu 53 bifreiðar, dráttarvélar, mótorhjól og hjólhesta“. Þá hóf BSA bifreiðaverkstæðis þarna, og nokkuð öruggt má telja húsið með þeim fyrstu hér í bæ sem byggð voru sem bílaverkstæði. Árið 1942 fékk Kristján lóðina stækkaða um 45m til norðurs meðfram Laufásgötu og ári síðar leyfi til að byggja á stækkaðri lóðinni. Viðbygging þessi, sem stendur meðfram Laufásgötu skyldi 11x12m á einni hæð með járnvörðu þaki. Árið 1967 var enn byggt við húsið til norðurs eftir teikningu Á. Berg.  Um áratugaskeið voru í húsinu bílasölur, bílaverkstæði, og einnig um skeið fiskmarkaður. Ekki veit síðuhafi til þess, að nokkurn tíma hafi verið búið í þessu húsi en það er alls ekki útilokað.

Á tíunda áratug 20. aldar var húsið hins vegar allt tekið í gegn að innan jafnt sem utan og innréttaður þarna skemmtistaður, sem lengst af var rekinn undir nafninu Oddvitinn. Þar mun hafa verið lengsti bar landsins. Skemmtistaðarekstur lagðist þarna af um 2010, en húsið var áfram nýtt til samkomuhalds. Árið 2015 var húsið keypti Heimskautaráð, undir stjórn Arngríms Jóhannssonar flugstjóra húsið. Voru gerðar á húsinu stórfelldar endurbætur og nú er þarna rekið stórmerkilegt og einstakt safn, Norðurslóðasetrið. Er það í stærri salnum, þar sem áður var lengsti bar landsins. Í smærri salnum, þeim eystri er hins vegar veitingasala á vegum setursins. Síðuhafi getur ekki annað en mælt með heimsókn á Norðurslóðasetrið; sjón er sögu ríkari og er þetta aðdáunarvert framtak hjá Arngrími og félögum. Eftir því sem síðuhafi kemst næst, hefur ekki verið unnin húsakönnun fyrir þetta svæði á Oddeyrartanga. Þannig liggur varðveislugildi Strandgötu 53 ekki fyrir, eða hvort húsið hafi yfir varðveislugildi. En húsið er traustlegt og í góðri hirðu, sem nýtt eftir gagngerar endurbætur á sl. árum og er til mikillar prýði. Húsið skartar stórskemmtilegum norðurslóðamyndum í gluggum. Myndin er tekin á sumarsólstöðum, 21. júní 2019.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 735, 14. feb. 1935. Fundur nr. 747, 14. júní 1935. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri


Hús dagsins: Strandgata 51

Austan elsta húss Oddeyrar eða kannski öllu heldur á Oddeyrartanga, Gránufélagshúsanna, liggur Kaldbaksgata til norðurs. Þar er að finna m.a. verkstæðis- og smáiðnaðarhús. Á horninu stendur reisulegt tvílyft steinsteypuhús frá upphafi fjórða áratugarins, Strandgata 51. Þarna var um hálfrar aldar skeið aðsetur eins rótgrónasta málmiðnaðarfyrirtæki landsins, sem enn er starfandi.

Síðla hausts 1929 óskaði Steindór Jóhannesson eftir því að fá að reisa verkstæðisbyggingu norðan og austan „hinna sameinuðu verzlana“ (Gránufélagshússins).P6210887 Ekki var hægt að ákveða nákvæmlega hvar húsið ætti að standa, en bygginganefnd taldi ekkert því til fyrirstöðu að byggja. Um mitt ár 1931 hefur verkstæðishús Steindór verið risið, því þá óskaði hann eftir því að byggja viðbót við verkstæðisbyggingu sína eina hæð á lágum grunni byggt úr járnbentri steinsteypu og með steinlofti yfir. Sex árum síðar fær hann að byggja hæð ofan á húsið og fékk húsið þá væntanlega það lag sem það síðan hefur.  Strandgata 51 er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með valmaþaki. Veggir eru múrhúðaðir og bárujárn á þaki. Gluggar eru heilir (póstlausir) og á framhlið er „iðnaðarhurð“ og inngöngudyr á vesturhlið. Húsið er sambyggt steinsteyptu verkstæðishúsi sem stendur við Kaldbaksgötu 2.  

Steindór Jóhannesson var Skagfirðingur, fæddur 1883 og uppalin í Lýtingsstaðahreppi og nam vélvirkjun í Danmörku í upphafi 20. aldar. Það var aldeilis nóg að gera á þeim vettvangi, þegar iðnaður, sjávarútvegur og samfélagið eins og það lagði sig var að vélvæðast. Árið 1914 stofnaði Steindór vélsmiðju sína á Torfunefi, en árið 1929 var starfsemin orðin það umsvifamikil að Steindór taldi nauðsynlegt að stækka við sig. Honum var bent á Oddeyrartanga fremur Torfunef til byggingar á nýju verkstæðishúsi og væntanlega hefur hann í kjölfarið sótt um að byggja á þessum stað.  Svo sem áður kemur fram, taldi bygginganefnd engin tormerki á byggingu þarna. Steindór starfrækti verkstæði sitt þarna og bjó ásamt fjölskyldu sinni, en eiginkona hans var Sigurbjörg Sigurbjarnardóttir, fædd og uppalin í Öxnadal. Verkstæðishúsið eða smiðjan norðan við stendur við við Kaldbaksgötu 2 og mun byggt af Steindóri og hans mönnum um 1940. Steindór Jóhannesson lést 1951, en þá hafði sonur hans, Steindór tekið við framkvæmdastjórn. Þess má geta, að Vélsmiðja Steindórs er enn starfrækt eftir 105 ár og er eitt elsta rótgrónasta málmiðnarfyrirtæki landsins. Sl. tæpa fjóra áratugi hefur fyrirtæki haft aðsetur við Fjölnisgötu, utarlega í Glerárþorpi, en hér var vélsmiðjan starfrækt allt til ársins 1981, eða í hálfa öld. Strandgata 51 og Kaldbaksgata 2 hafa hýst ýmsa starfsemi, en lengst af málmiðnað hvers konar. Framhúsið, þ.e. Strandgata 51 hefur lengst af verið skrifstofurými og íbúðir á efri hæð en smiðja í bakhúsinu við Kaldbaksgötu. Nú er starfrækt þarna blikksmiðjan Blikk- og tækniþjónustan og hefur verið um árabil. Húsið er í mjög góðri hirðu og lítur vel út. Myndin er tekin þann 21. júní 2019.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 639, 21. okt. 1929. Fundargerðir 1931-35. Fundur nr. 665, 30. júní 1931.

Fundagerðir 1935-41. Fundur nr. 795, 15. apríl 1937.

 Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri


Hús dagsins: Strandgata 6

Árið 1929 fékk Síldareinkasalan lóð undir skrifstofubyggingu P6210890og óskaði eftir grunninum í norðausturhorni „byggingarreits nr. 40“. Umræddur byggingarreitur er væntanlega samkvæmt fyrsta Aðalskipulagi Akureyrar sem samþykkt var fáeinum misserum áður eða 1927. Fékk Síldareinkasalan lóð 14x12m að stærð og heimilt að reisa þarna bráðabirgðabyggingu 10x15m. Lóðarleiga var 200kr á ári og uppsegjanleg með 6 mánaða fyrirvara að hálfu beggja samningsaðila. Ekki er vitað hver teiknaði húsið.

En Strandgata 6 er einlyft timburhús á lágum grunni með valmaþaki. Steníplötur á veggjum og bárujárn á þaki, og „verslunargluggar“ á framhlið og gluggi á austurhlið með einföldum þverpósti. Húsið skiptist raunar í tvær álmur, vesturhluti er með flötu þaki og er hann áfastur Strandgötu 4 (Nýja Bíó). Í upphafi mun þak húsið hafa verið einhalla (skúrþak) en valmaþak byggt síðar, og er húsið töluvert breytt frá upprunalegri gerð.  

Síldareinkasala Íslands var stofnsett þann 1. maí 1928 eftir lögum frá Alþingi um „einkasölu á útfluttri síld“. Framkvæmdastjórar Síldareinkasölunnar voru þrír, þeir Einar Olgeirsson, Ingvar Pálmason og Pétur Á. Ólafsson. Sem áður segir fékk Síldareinkasalan að reisa þarna bráðabirgðabyggingu og skemmst er frá því að segja, að 90 árum síðar stendur bygging þessi enn og hefur þjónað hinum ýmsu hlutverkum. Síldareinkasalan varð raunar ekki langlíf, en hún varð gjalþrota í desember 1931. Eftir það var húsið nýtt til íbúðar en einnig undir ýmsa starfsemi, þ.e. vestari hluti hússins. Þarna hefur m.a. verið starfrækt fiskbúð, véla- og raftækjasala. Þá var þarna rakarastofa um áratugaskeið. Frá fyrri hluta tíunda áratugarins og fram til hausts 2017  starfrækt þarna Nætursalan, veitinga- og sælgætissala. Þá var húsið aðalbiðstöð Strætisvagna Akureyrar og vagnstjórar þarna með kaffistofu; þarna byrja og enda allar ferðir strætisvagnanna. Enn eru vagnstjórar með aðstöðu í hluta hússins, sem er að öðru leyti ónotað.

Eftir því sem síðuhafi kemst næst, gerir núgildandi skipulag ráð fyrir því, að Strandgata 6 víki. Þannig er líklegast að  Strandgata 6 verði rifin og að þar með ljúki a.m.k. 90 ára sögu „bráðabirgðabyggingar“ Síldareinkasölunnar. Hins vegar má geta þess, að mörg dæmi eru um að gömul timburhús séu flutt og hljóti „framhaldslíf“ á nýjum stað og er það e.t.v. ekki útilokað í þessu tilfelli. Myndin er tekin þann 21. júní 2019.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 624, 31. jan. 1929. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri


Hús dagsins: Strandgata 13b

Af gatnamótum Helgamagrastrætis og Bjarkarstígs bregðum við okkur niður á Oddeyri; á Miðbæjarsvæðið en á baklóð nærri horni Strandgötu og Glerárgötu lúrir lágreist og vinalegt steinhús frá 3. áratug 20. aldar...

Strandgötu 13b reisti Grímur Valdimarsson bifreiðasmiður árið 1926 sem verkstæðishús.PB110712 Hann fékk leyfi til að reisa hús úr steinsteypu á lóð Kristjáns Þorvaldssonar á lóðarmörkum að norðan og 10 álnir (6,3m) frá verkstæði Óskars Sigurgeirssonar (þ.e. Strandgötu 11b). Skilyrði var, að eldvarnarveggur væri á húsinu norðanverðu og húsið mætti ekki standa nær lóð Óskars en 5 álnir (3,15m).  Umrædd lóð Kristjáns Þorvaldssonar var Strandgata 13. Húsið er sem áður segir byggt 1926 en fékk ekki númerið 13b fyrr en löngu síðar. Elstu heimildir sem finnast á timarit.is um Strandgötu 13b eru frá 1952 en þær eiga væntanlega ekki við þetta hús heldur viðbyggingu norðan við Strandgötu 13, sem nú er löngu horfin.  

Strandgata 13b er einlyft steinsteypuhús með háu risi og þverpóstum í gluggum veggir múrhúðaðir en bárujárn á þaki. Húsið mun að mestu óbreytt frá upphafi en hefur gegn um tíðina hýst hina ýmsu starfsemi, lengi vel verkstæði. ekki er greinarhöfundi kunnugt um að búið hafi verið í húsinu. Það getur þó meira en vel verið; kannski kannast einhver lesandi þessarar greinar við það. Nú er rekin þarna verslun með kristilegan varning, Litla húsið, og hefur hún verið starfrækt þarna frá því snemma á níunda áratugnum.  

Grímur Valdimarsson, sem byggði Strandgötu 13b, var sem áður segir bifreiðasmiður og var sá fyrsti á Norðurlandi sem lagði þá iðngrein fyrir sig. Hann hafði áður numið trésmíði og fólst bifreiðasmíðin m.a. í því, að smíða yfirbyggingar yfir bíla. Sjálfsagt hafa þó nokkrir þeirra bíla sem Grímur smíðaði varðveist og verið gerðir upp.  Í fjórða bindi bókaflokksins Aldnir hafa orðið birtast endurminningar Gríms og ekki er annað hægt hér, en að mæla með þeirri lesningu. Þar segir hann m.a. nokkuð ítarlega frá byggingu Glerárvirkjunar árið 1921 en hann starfaði þar sem verkamaður.

Strandgata 13b er einfalt og látlaust hús, því sem næst óbreytt frá upphaflegri gerð. Árið 2014 var unnin Húsakönnun um Miðbæ og neðri hluta Ytri Brekku. Þar er varðveislugildi hússins ekki talið verulegt, en engu að síður er Strandgata 13b hið geðþekkasta hús, í góðri hirðu og snyrtilegt. Myndin er tekin þann  11. nóvember 2019.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 585, 7. ágúst 1926. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Erlingur Davíðsson 1975. Aldnir hafa orðið, IV bindi. Akureyri: Skjaldborg. 

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Af Brekkunni og niður á Oddeyri

Í umfjölluninni hér á síðunni um Helgamagrastræti er ég kominn að gatnamótum Helgamagrastrætis og Bjarkarstígs. Þykir mér upplagt, svona á "krossgötum" eða gatnamótum, að bregða mér aðeins í aðra átt, áður en ég lýk við Helgamagrastrætið norðan Bjarkarstígs. Hyggst ég þannig bregða mér aðeins af Ytri Brekkunni og niður á Oddeyri og taka fyrir nokkur hús, m.a. við Strandgötu.   


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Sept. 2019
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 54
  • Sl. viku: 291
  • Frá upphafi: 420166

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 205
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband