Færsluflokkur: Bloggar

Hús dagsins: Norðurgata 47

Norðurgötu 47 reisti Gestur Halldórsson árið 1946. P4220991Hann fékk þriðju lóð frá reit Byggingafélagsins (Norðurgötu 39-41) og leyfi til byggingar steinsteypts húss á tveimur hæðum, 11x10m að grunnfleti með steyptu lofti og timburþaki. Bygginganefnd setti honum það skilyrði, að undir húsinu yrði 40 cm sökkull, miðaður við götuhæð. Á kortavef Akureyrar má finna járnateikningar eftir Halldór Halldórsson en ekki ljóst þar, hvort hann sé hönnuður hússins.

Norðurgata 47 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki. Steining er á veggjum, bárujárn á þaki og lóðréttir póstar í gluggum. Horngluggar í anda funkisstefnunar til suðurs.

Gestur Halldórsson, sem reisti húsið, var húsasmiður, fæddur að Vöglum í Miklabæjarsókn í Skagafirði.   Ef Norðurgötu 47 er flett upp á timarit.is í þgf. koma upp rúmlega 50 niðurstöður, sú elsta frá janúar 1950. Þar auglýsir Rögnvaldur Rögnvaldsson, búsettur í húsinu, að hann taki að sér hreingerningar. Sex árum síðar auglýsir Gestur Halldórsson, sem byggði húsið, neðri hæðina til sölu. Svo vill, til að á sömu opnu í Degi þann 9. ágúst 1956 þar sem auglýsing Gests birtist, auglýsir Jón Sigtryggsson efri hæðina til sölu. Þannig má ætla að húsið eigendaskipti hafi verið á báðum hæðum síðsumars eða haustið 1956. Á sömu opnu er einnig áhugaverð grein, með fyrirsögninni „Yngstu bændurnir kunna ekki að slá“, þar sem bornir eru saman sláttuhættir þess tíma og fyrri. Sjálfsagt hafa hæðirnar skipt þó nokkrum sinnum um eigendur og íbúa síðan en öllum auðnast að halda húsinu vel við í hvívetna. Tvær íbúðir eru í húsinu, á sinni hæð hvor.

Norðurgata 47 er reisulegt en látlaust hús í góðri hirðu og er líkast til að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði. Það er hluti af langri og heilsteyptri röð sviplíkra steinhúsa og til prýði sem slíkt. Þar sem höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar eindregið álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Allt frá 19. aldar timburhúsunum í suðri til og með langrar heilsteyptar raðar steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. Öld, norðan Eyrarvegar. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1045, 1. mars 1946. Fundur nr. 1049, 12. apríl 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Norðurgata 46

Haustið 1946 fékk Þórólfur Sigurðsson lóðina og byggingarleyfi skv. teikningu.P4220986 Ekki var um frekari lýsingu að ræða en bygginganefnd krafðist hins vegar breytinga á teikningu. Teikningar að húsinu eru ekki aðgengilegar á kortagrunni Akureyrarbæjar, en elstu teikningar sem þar eru að finna eru raflagnateikningar eftir Sig. Þorgrímsson frá 1946. Þar finnast einnig teikningar Jóns Geirs Ágústssonar frá 1962 af breytingum á neðri hæð, en ekki tekið fram í hverju þær breytingar felast.

Norðurgata 46 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og þrískiptir, lóðréttir póstar í gluggum. Á suðvesturhorni eru síðir og breiðir horngluggar og á miðri framhlið eru svalir með skrautlegu járnavirki.

Þórólfur Sigurðsson, sem byggði húsið var fæddur árið 1902 í Syðra- Dalsgerði í Saurbæjarhreppi. Hann var bóndi þar og einnig á Saurbæ árin 1931-33 en starfaði lengst af sem húsasmiður. Bjó hann hér og seinni kona hans, Sigurpálína Jónsdóttir frá Hauganesi, um árabil. Margir hafa búið hér um lengri og skemmri tíma. Ef húsinu er flett upp á timarit.is koma upp 44 niðurstöður, sú elsta frá október 1950, þar sem Aðalsteinn Þórólfsson auglýsir barnavagn til sölu. Árið 2017 þjónaði húsið sem kvikmyndasett fyrir stuttmyndina Saman og saman með þeim stórleikkonum Sunnu Borg og Sögu Jónsdóttur í aðalhlutverkum. Leikstjóri var Hreiðar Júlíusson.

Húsið er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði í umhverfinu og þegar þetta er ritað skartar húsið skemmtilegum gulbrúnum lit. Líkt og við flest hús við ytri hluta Norðurgötu er steyptur veggur með járnavirki á lóðarmörkum. Ein íbúð er í húsinu.  

Þar sem höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar eindregið álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Þ.á.m. hin langa og heilsteypta röð steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. öld, norðan Eyrarvegar. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1064, 20. sept. 1946. Fundur nr. 1067, 25. okt. 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Svona á að gera þetta !

Á mótum Tryggvabrautar og Hvannavallareit eða hinum svokallaða Hvannavallareit, á móts við Glerártorg, stendur til að reisa nýja verslun Krónunnar. Stefnt er að opnun hennar haustið 2022. Til þess að rýma fyrir nýbyggingunni þurftu eldri byggingar að víkja, m.a. áttræðir herbraggar. En í þessu tilfelli er það aldeilis ekki svo, að húsin séu mölvuð niður á dagparti, mokað á vörubílspall og sturtað í landfyllingu. Onei, braggarnir voru skrúfaðir í sundur, part fyrir part og bárujárnsplötu fyrir bárujárnsplötu og verða endurreistir á vegum verktaka. Þá var þarna einnig vöruskemma, hlaðið stálgrindarhús byggt 1962, en hana munu bændur nýta á Steinsstöðum í Öxnadal. Ég tel það ætíð fagnaðarefni, ef hægt er að komast hjá algjöru niðurrifi eldri bygginga, er mjög eindreginn húsverndunarsinni. Auðvitað er það svo, að aldrei er hægt að varðveita öll hús skilyrðislaust og koma þar til ýmsar ástæður. En þurfi hús nauðsynlega að víkja, á að leita allra leið til þess, að flytja þau og að þau öðlist "framhaldslíf" á nýjum slóðum. Líkt og tilfellið er hér. Þarna eru ekki einungis sjónarmiðin um varðveislu eldri mannvirkja, heldur er ekki síður um að ræða stórfellda endurnýtingu á nýtilegu efni. Stórkostlegt!

P5090990

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Braggarnir teknir niður þ. 9. maí. sl.

187950170_110349584479178_3451637630645891783_n

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er verið að taka niður fyrrum vöruskemmu KEA, 20. maí 2021.

Hér má sjá Húsakönnun um Hvannavallareitinn. Þar er einmitt lagt til, að braggarnir verði teknir niður og varðveittir annars staðar.

Hér má sjá vöruskemmuna (26. jan. 2014) og braggana (14. okt. 2019).

P1260043  PA140851


Hús dagsins: Norðurgata 45

Norðurgötu 45 reisti Finnur Daníelsson árið 1954 en lóðina fékk P4220990hann haustið 1953. Byggingaleyfið fékk hann þann 10. júní 1954 en ekki er um frekari lýsingu á húsinu að ræða í bókunum bygginganefndar. Teikningarnar gerði Stefán Reykjalín.

Norðurgata 45 er tvílyft steinhús með háu valmaþaki. Útskot eru norðanmegin á fram- og bakhlið og svalir til suðurs áfastar þeim. Í gluggum eru breiðir krosspóstar, bárujárn á þaki og steining á veggjum.  Á svölum á framhlið eru steypt skraut, fjórir ramma með þrískiptu merki, sem minnir á spaða vindmyllu og setur það skemmtilegan svip á húsið, ásamt þykkum steyptum ramma utan um stigahúsglugga á framhlið.

Ef Norðurgötu 45 er flett upp á timarit.is koma 26 niðurstöður, það eru hinar ýmsar tilkynningar og auglýsingar frá hinum fjölmörgu íbúum hússins gegnum tíðina. Finnur G.K. Daníelsson (1909-1999), frá Vöðlum í Önundarfirði, sem byggði húsið var lengst af sjómaður og skipstjóri á hinum ýmsu bátum og skipum. Síðar starfaði hann sem fiskmatsmaður og við skrifstofu á bifreiðaverkstæðinu Baug, sem var til húsa þar sem nú er verslun Hagkaupa, yst við Norðurgötu. Hann var á efri árum nokkuð ötull við að birta hinar ýmsu sögur af sjómannsferli sínum m.a. í Sjómannablaðinu og Víkingi. Kona Finns var Guðmunda Pétursdóttir frá Skagaströnd, lengi vel umboðsmaður happdrættis DAS á Akureyri.  Bjuggu þau hér í rúma þrjá áratugi. Hafa síðan ýmsir átt hér heima, en öllum auðnast að halda húsinu vel við í hvívetna.

Norðurgata 45 er látlaust en glæst hús og nokkuð skrautlegt. Það er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði. Það sama á við um steyptan vegg með járnavirki, sem aðskilur lóð og götu. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein á hvorri hæð. Þar sem höfundi er ekki kunnugt um, að húsakönnun hafi verið unnin um Norðurgötu norðan Eyrarvegar liggur ekki fyrir hér hvort húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar álit þess sem þetta ritar, að öll Norðurgatan skuli njóta óskoraðs varðveislugildis. Þ.á.m. hin langa og heilsteypta röð steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. Öld, norðan Eyrarvegar. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.

  Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1179, 9. okt. 1953. Fundur nr. 1248, 10. júní  1954. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Norðurgata 43

Árið 1946 fékk Tryggvi Gunnarsson lóð og byggingarleyfi við „götu norðan Eyrarvegar“P4220980 (Víðivelli). Fékk hann að reisa tveggja hæða hús úr steinsteypu, þak og loft efri hæðar úr timbri. Stærð hússins 10x8,5m. Húsið reisti Tryggvi eftir eigin teikningum.

Norðurgata 43 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki.Krosspóstar eru í gluggum, bárujárn á þaki og veggir múrsléttaðir. Svalir eru til suðvesturs og horngluggar, í anda funkisstíls til suðurs.

Tryggvi Gunnarsson, sem byggði húsið, var skipasmiður og starfaði lengst af á Skipasmíðastöð KEA. Hann teiknaði og stjórnaði fjölmargra báta, þ.á.m. hinum valinkunna Húna II árið 1963. Hann var kvæntur Stellu Sigurgeirsdóttur og bjuggu þau hér um árabil, en húsið hefur nokkrum sinnum skipt um eigendur og íbúa, svo sem gengur og gerist á þremur aldarfjórðungum. Norðvestanmegin á lóðinni stendur bílskúr, byggður 1959 eftir teikningum Guðlaugs Friðþjófssonar. Húsið var lengst af einbýlishús en var fyrir fáeinum árum breytt í gistiheimili með nokkrum herbergjum.

Norðurgata 43 er látlaust en glæst hús í mjög góðri hirðu, sem lóðin og umhverfi þess. Sunnan við húsið stendur gróskumikill heggur, sem fyrrihluta sumars skartar hvítum blómum. Á lóðinni er einnig mjög ræktarlegt grenitré. Klifurjurt, sem síðuhafi kann víst ekki að tegundagreina, á suðurvegg hússins er einnig til mikillar prýði. Lóðin er girt miklum steinvegg með skrautlegu járnavirki, sem væntanlega er frá svipuðum tíma og húsið var byggt og einnig vel við haldið. Höfundi er ekki kunnugt um að húsakönnun hafi verið unnin um þennan ysta hluta Norðurgötu og þekkir því ekki til hugsanlegs varðveislugildis. En húsið er svo sannarlega varðveisluvert eins og þau flest öll, á þessum slóðum. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1044, 23. feb. 1946. Fundur nr. 1051, 26. apríl 1946. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Norðurgata 41

Á reitnum sem afmarkast af Eyrarvegi í suðri, Sólvöllum í vestri, P4220981Víðivöllum í norðri og Norðurgötu í austri standa fjölmörg sams konar hús, parhús með lágu risi. Þessi byggð eru hús sem Byggingafélag Akureyrar reisti á fimmta áratug 20. aldar, eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar og Bárðar Ísleifssonar og voru ætluð sem verkamannabústaðir. Árið 1939 fékk Byggingafélag Akureyrar einfaldlega „allar lóðir norðan Fjólugötu og við Eyrargötu“, við norðurmörk þéttbýlis Oddeyrar. Byggingafélaginu var að eigin ósk veittur langur frestur til að á lóðunum og á áratug eða svo ris húsin risu eitt af öðru. Tvö hús af þessari gerð standa við Norðurgötuna, á milli Eyrarvegar í suðri og Víðivalla í suðri, Norðurgata 39 og 41 og voru þau byggð 1946-47. Nyrðra húsið, nr. 41 stendur á horni Norðurgötu og Víðivalla.

Norðurgata 41 er einlyft steinhús með lágu risi, krosspóstum í gluggum og með steiningarmúr á veggjum. Húsið er parhús og telst suðurhlutinn 41a og norðurhlutinn 41b. Byggt var við norðurhlutann árið 2000 eftir teikningum Haraldar S. Árnasonar. Á vesturmörkum lóðar eru einnig bílskúrar.

Ef heimilisfanginu „Norðurgötu 41“ er flett upp á gagnagrunninn timarit.is koma upp 42 niðurstöður. Þar má sjá nöfn ýmissa sem búið hafa hér í gegnum tíðina en á meðal fyrstu íbúa hússins voru Gunnar Árni Sigþórsson múrarameistari og Kamilla Karlsdóttir. Húsið er í mjög góðri hirðu og allt umhverfi þess hið snyrtilegasta. Á lóðarmörkum norðanmegin er steyptur kantur, væntanlega frá svipuðum tíma og húsið var byggt en sunnanmegin er nýleg skrautleg timburgirðing. Ekki hefur verið unnin húsakönnun fyrir þetta svæði en í greinargerð um Rammahluta Aðalskipulags Oddeyrar eru taldar upp áhugaverðar heildir, þ.á.m. áhugaverð smágerðra parhúsa við Víðivelli og Eyrarveg. Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson o.fl. 2017: 12). Þessi hús tilheyra raunar þeirri heild enda þótt þau standi við Norðurgötu. Húsin tilheyra í raun tveimur áhugaverðum heildum, annars vegar parhúsahverfinu kennt við Eyrarveg og Víðivelli og hins vegar fjölbreyttri og skemmtilegri götumynd Norðurgötu. Myndin er tekin á sumardaginn fyrsta, 22. apríl 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 841, 26. ágúst 1939. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Manntalsspjaldskrá fyrir Akureyri. 1941-50. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. 2017. Rammahluti Aðalskipulags Akureyrar. Oddeyri. Tillaga. Pdf-skjal á https://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Oddeyri/Rammahluti/170425_oddeyri_tillaga.pdf


Hús dagsins: Norðurgata 44

Norðurgötu 44 reisti Þorsteinn Sigurbjörnsson árið 1946. P4220985Hann fékk lóðina og leyfi til þess að reisa hús á tveimur hæðum úr steinsteypu með valmaþaki úr timbri, að stærð 10,7x8,2m. Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson.

Norðurgata 44 er tvílyft steinhús með lágu valmaþaki. Veggir eru með steiningarmúr, bárujárn á þaki og einfaldir, lóðréttir póstar í gluggum. Austanmegin á suðurhlið er útskot með svölum til suðvesturs á efri hæð.

Þorsteinn Sigurbjörnsson, sem reisti húsið var fæddur á Fagrabæ í Grýtubakkahreppi og vann lengst af sem kokkur á hinum ýmsu skipa. Hann var kvæntur Sigríði Guðnadóttur frá Meðalheimi á Svalbarðsströnd. Þau bjuggu hér í um hálfa öld, en Þorsteinn lést 1994 og Sigríður árið 2001.  Húsið er að mestu leyti óbreytt frá upphafi, en það er ekki óalgengt þegar sömu eigendur voru frá upphafi um áratugaskeið. Í upphafi virðist húsið hafa verið einbýlishús en nú eru í því tvær íbúðir, ein á hvorri hæð.

Norðurgata 44 er látlaust en glæst hús og í mjög góðri hirðu. Á því er t.d. nýlegt þakjárn. Suðvestanvið húsið er verklegur sólpallur úr timbri og á lóðarmörkum er steyptur verkur með járnavirki, sem móðins var um miðja 20. öld og eru mikil prýði. Höfundi er ekki kunnugt um húsakönnun hafi verið unnin fyrir þetta svæði eða að húsið hafi varðveislugildi. Af öðrum mannvirkjum á lóðinni má nefna bílskúr á norðausturhorni, sem Þorsteinn og Sigríður byggðu um 1962 en bílskúrinn teiknaði Páll Friðfinnsson. Allt er húsið, umhverfi þess og lóð vel frágengið og snyrtilegt og til mikillar prýði. Myndin er tekin þann 22. apríl 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1045, 1. mars 1946. Fundur nr. 1051, 26. apríl 1946. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Norðurgata 39

Á reitnum sem afmarkast af Eyrarvegi í suðri, Sólvöllum í vestri, Víðivöllum í norðri og Norðurgötu í austri standa fjölmörg sams konar hús, parhús með láguP4220982 risi. Þessi byggð eru hús sem Byggingafélag Akureyrar reisti á fimmta áratug 20. aldar, eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar  og voru ætluð sem verkamannabústaðir.

26. ágúst 1939 fékk Byggingafélag Akureyrar einfaldlega „allar lóðir norðan Fjólugötu og við Eyrargötu“. Á þeim tíma markaði Fjólugata nokkurn veginn endimörk þéttbýlis Oddeyrar í norðri en umrædd Eyrargata, næsta gata norðan við, hlaut síðar nafnið Eyrarvegur. Byggingafélagið vildi að ekki yrði skylt að byggja þar fyrr en að 10 – 15 árum liðnum. Orðið var við þessu, en húsin risu eitt af öðru á næsta áratug. Norðurgata 39 og 41 voru byggð 1946-47.

Norðurgata 39 er einlyft steinhús með lágu risi, krosspóstum í gluggum og með steiningarmúr á veggjum. Húsið er parhús og telst suðurhlutinn 39a og norðurhlutinn 39b.

Á meðal fyrstu íbúa hússins voru þau Jón A. Jónsson málarameistari, ættaður úr Skagafirði og Hörgárdal og Hjördís Stefánsdóttir frá Haganesi við Mývatn. Þau munu hafa flutt inn í 39a árið 1946.  Húsið mun næsta lítið breytt frá upphafi og er í góðri hirðu. Hafa síðan margir búið í húsinu um lengri eða skemmri en öllum eigendum auðnast að halda húsinu og umhverfi þess mjög vel við. Húsið er a.m.k. í afbragðs hirðu. Árið 2001 var byggður bílskúr, eftir teikningum Árna Gunnars Kristjánssonar, við norðvesturhorn hússins. Höfundi er ekki kunnugt um varðveislugildi hússins, en húsið er annars vegar hluti umfangsmikillar samstæðar heildar verkamannabústaða frá fimmta áratug 20. aldar og hins vegar götumyndar Norðurgötu. Myndin er tekin þ. 22. apríl 2021.

Heimildir:  Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 841, 26. ágúst 1939.

Manntalsspjaldskrá fyrir Akureyri. 1941-50. Hvort tveggja varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Norðurgata 42

Á næstu vikum mun ég taka fyrir ysta og yngsta hluta Norðurgötu á Oddeyrinni, þ.e. þann hluta götunnar sem liggur norðan Eyrarvegar. Þann 22. apríl sl. brá ég mér í göngutúr með myndavélina og ljósmyndaði þau hús og svo var kíkt á kortavef Akureyrar, þar sem ég sá oftast nær hverjir byggðu og þá var arkað upp á Héraðsskjalsafn og umræddum nöfnum flett upp. Og svo vindur það upp á sig; fyrst ég tek fyrir ysta hluta Norðurgötu er auðvitað ekki nema sanngjarnt, að samliggjandi hlutar Ránargötu og Ægisgötu verði einnig til umfjöllunar seinna meir. Hér er Norðurgata 42. 

 

Nöfnin Magnús og Jóhann þekkja flestir landsmenn sem dúett tveggja frábærra tónlistarmanna,P4220984 sem skemmt hafa þjóðinni með óviðjafnanlegum lagasmíðum í hálfa öld. Það voru hins vegar aðrir tveir Magnús og Jóhann sem reistu Norðurgötu 42 fyrir þremur aldarfjórðungum. Þeir Jóhann Sigurðsson og Magnús Stefánsson reistu húsið árið 1946, eftir teikningum hins fyrrnefnda.  Lóðina fékk Jóhann þann 1. mars það ár og rúmum mánuði síðar fékk hann, ásamt Magnúsi, byggingarleyfi. Fengu þeir að reisa steinsteypt hús, eina hæð á háum kjallara og með valmaþaki, 10,9x8,5m auk útskots að norðan, 2,5x5,7m.

Magnús Stefánsson (1907-2000) var fæddur á Kambfelli í Djúpadal og starfaði lengst af á efnaverksmiðjunni Sjöfn, m.a. sem verkstjóri. Hann var kvæntur Guðrúnu Björgu Methúsalemsdóttur (1916-2005), frá Tunguseli á Langaseli.   Jóhann Sigurðsson (1910-2001) var úr Svarfaðardal, fæddur og uppalin á Göngustöðum. Hann starfaði sem smiður, kom m.a. að byggingu loftskeytastöðva víða um land, m.a. á Heiðarfjalli og Gufunesi en starfaði síðar við viðhald og smíðar hjá Sambandsverksmiðjunum. Eiginkona Jóhanns var Brynhildur Klara Kristinsdóttir (1915-2003) frá Jörva á Húsavík. Bjuggu þau í húsinu um áratugaskeið, Magnús og Guðrún allt fram undir aldamót. Mun íbúðaskipan óbreytt frá upphafi, ein íbúð á hvorri hæð.

Enda þótt húsið sé sagt ein hæð á kjallara í byggingarleyfi er líkast til óhætt að fullyrða, að húsið sé tvílyft. Það er með lágu valmaþaki, einföldum póstum í gluggum, bárujárni á þaki og sléttum múr á veggjum. Á efri hæð eru svalir til suðvesturs. Húsið er líkast að mestu óbreytt frá upphafi og er í mjög góðri hirðu.

Húsið er hluti nokkuð langrar og heilsteyptrar raðar tveggja hæða steinhúsa í funkisstíl frá miðri 20. öld. Sú götumynd má segja að sé ysti kaflinn í kaflaskiptri og áhugaverðri götumynd Norðurgötu, sem er ein lengsta gatan á Oddeyri og byggð á afar löngum tíma. Þar má finna timburhús frá síðari hluta 19. aldar og nokkrar gerðir steinhúsa frá 3., 4. og 5. áratug 20. aldar. Eiginlega má segja, að gatan sé eins og safn um mismunandi húsagerðir frá þessu tímabili. Því er það skoðun síðuhafa, að gjörvöll Norðurgatan eigi að njóta óskoraðs varðveislugildis eða jafnvel friðunar (þó síðuhafa sé kunnugt um, að ekki tíðkist að friða heilar götur).Ekki liggur fyrir húsakönnun fyrir þennan ytri hluti Oddeyrar, svo höfundur viti til, svo ekki er honum kunnugt um varðveislugildi hússins. Framan við húsið stendur mjög gróskumikið reynitré. Er það til mikillar prýði, líkt og húsið og lóðin í heild sinni. Myndin er tekin á sumardaginn fyrsta, 22. apríl, 2021.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1044, 1. mars 1946. Fundur nr. 1050, 12. apríl 1946.


Hús dagsins: Strandgata 3 (og forverar á lóð)

Eitt stærsta hús Miðbæjarins stendur næstefst við Strandgötu,P1190957 austan við Landsbankahúsið. Segja má, að húsið standi við fjórar götur, því að vestanverðu liggur húsið við Túngötu (efsta þvergatan norður úr Strandgötu), austurhliðin að Geislagötu og bakhliðin að Bankastíg. Síðasttalda gatan tengir saman Túngötu/Hólabraut við Geislagötu, framan við Geislagötu 5, sem um áratugaskeið hýsti Búnaðarbankann og arftaka hans. Um er að ræða Strandgötu 3. Húsið er eitt það yngsta við Strandgötuna og er byggt á árunum 1998-2000 af SS-Byggi en húsið var teiknað á Úti-Inni Arkitektastofu af Baldri Ólafi Svavarssyni.

Húsið er í stórum dráttum þrjár álmur, suðurálma er sex hæðir (sjö hæða turn) með flötu þaki en norðurálma er þrjár hæðir, einnig með flötu þaki. Álmurnar tengjast með einlyftri byggingu, sem er bogadregin meðfarm horni Strandgötu og Túngötu. Undir húsinu er bílastæðakjallari og stendur innkeyrsluhús, þríhyrnd steinsteypt bygging með grasi á þekju skammt vestan norðurálmu. Veggir eru múrhúðaðir og gluggar flestir póstlausir, dúkur á þaki. Á efri hæðum suðurálmu eru fjórar svalir á hverri hæð, til NA og SV. Húsið er á að giska um 25 m hátt.

Nú er sá sem þetta ritar í þeirri stöðu, að muna vel byggingu hússins og aðdraganda þess. Minnist síðuhafi þess, að hafa fyrst séð minnst á hugmyndina um sex hæða stórhýsi við Ráðhústorg í einhverjum kosningabæklingi fyrir sveitarstjórnarkosningar vorið 1998. Ekki voru menn á eitt sáttir við þessar hugmyndir- eins og oft vill verða þegar reisa á stórhýsi í rótgrónum hverfum. Um það leyti var á þessum slóðum plan eða bílastæði, sem hjólabrettakappar nýttu mikið og vinsælt að safnast þarna saman. Þarna hafði áður staðið lítið einlyft timburhús, sem hýsti Nætursöluna, en það hús var rifið snemma á 10. áratugnum. Þá var þarna afgreiðsla Bifreiðarstöðvar Akureyrar, sem Kristján Kristjánsson reisti á þriðja áratugnum en það hús var flutt af þessum stað áratugum fyrr. Strandgata 3 er nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð. Húsið hefur hýst hina ýmsu starfsemi, t.d. var á fyrstu hæðum hússins veitingastaður að nafni Gleðibankinn. Hann var allt í senn, vídeóleiga, skyndibitastaður og spilakassasalur; sannkallaður Gleðibanki. Á götuhæð eru nú afgreiðsla Sjóvá-Almennra í suðurálmu, afgreiðsla Póstsins norðanmegin í norðurálmu og verslun Símans vestanmegin í „milliálmu“. Á efri hæðum  eru skrifstofur m.a. lífeyrissjóða en íbúðir eru á efri hæðum suðurálmu. Húsið er, vegna stærðar sinnar, mjög áberandi kennileiti í Miðbænum. Það er sagt, í Húsakönnun 2014, hafa gildi fyrir Ráðhústorgs og nágrennis og standa á áberandi stað í Miðbænum. Það er þó ekki talið hafa verulegt varðveislugildi, enda á það sjaldnast við um byggingar á þrítugsaldri. Myndin er tekin 19. janúar 2020, horft til suðvesturs af Geislagötu.   

Núverandi hús er svosem ekki fyrsta stórhýsið á lóðinni. Fyrsta húsið sem reis á þessum slóðum var tvílyft timburhús á háum kjallara og með háu risi og þremur burstum. Það hús var eitt af stærstu húsum Oddeyrar á þeim tíma og kallaðist Hornhúsið eða Horngrýti, en það byggðu þeir Kolbeinn Árnason og Ásgeir Pétursson árið 1905. Þeir fengu leyfi til að reisa hús, „16x26al. [ca.10x16,3m] með útskotum á báðum framhliðarhornum, 1 al. [63cm] til hvorrar hliðar. Þetta glæsta hús stóð einungis í hálft annað ár, því að kvöldi 18. október 1906 kom upp eldur í húsinu sem fyrir tilstilli óhagstæðrar vindáttar og frumstæðra brunavarna breiddist út til næstu húsa og brunnu þau öll til ösku. Er þessi stórbruni jafnan kallaður Oddeyrarbruninn. Á þessari mynd sést Hornhúsið á Strandgötu 5, h.u.b. fyrir miðri mynd.

Í marsbyrjun 1907 fékk Jón nokkur Norðmann leyfi til þess að endurbyggja húsið.P5170978 Hugðist hann reisa það á grunni Hornhússins en nefnd gat ekki orðið við því þar sem ákveðið hafði verið að færa götulínuna. Reisti Jón veglegt timburhús með háu risi og miðjukvisti en mjög fljótlega keypti Ragnar Ólafsson, kaupmaður og athafnamaður húsið og átti það lengi á eftir. Í húsinu voru íbúðir, ýmsar verslanir, m.a. Leðurvörur, útibú Búnaðarbankans og sápubúð á fyrri hluta 20. aldar. Hús þetta stendur enn og er það með víðförlari húsum, því tvisvar hefur það verið flutt. Upp úr 1970 var það flutt að Lónsá í Glæsibæjarhreppi, um 5 km leið og fékk þar nefnið Berghóll. Um 2015 var það svo aftur flutt, aðra 5 km út á Moldhaugaháls, þar sem það mun nú nýtt sem aðstaða fyrir starfsmenn malarnáma á svæðinu.

Hér má sjá umrætt hús, sem Jón Norðmann reisti á Strandgötu 5 árið 1907 og stóð þar í rúm 60 ár. Nú stendur það á Moldhaugahálsi, skammt norðan og ofan við bæinn Moldhauga, um 9 km frá miðbæ Akureyrar.   

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 282, 23. des. 1904. Fundur nr. 283, 12. jan. 1905. Fundur nr. 324. 2. mars 1907 . Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • IMG_3323 - afrit
  • Leifshús
  • Skjámynd 2025-07-29 101559
  • Skanni 20250728 (3)
  • Skanni 20250728 (3)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.8.): 2
  • Sl. sólarhring: 50
  • Sl. viku: 488
  • Frá upphafi: 453436

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 302
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband