Hús dagsins: Hólabraut 12; Borgarbíó

Hólabraut 12, eða Borgarbíó var reist árið 1986 sem viðbygging við Geislagötu 7, HótelP1190959 Varðborg. Borgarbíó hafði þá verið starfrækt í áratugi í vesturálmu hótelsins, sem upphaflega var samkomusalur hótelsins. Þegar nýbygging kvikmyndahússins var risin, varð aðkoman að bíóinu frá Hólabraut og telst Borgarbíó standa við Hólabraut 12.  Teikningar að húsinu gerði Birgir Ágústsson, en húsið er viðbygging við vesturálmu Geislagötu 7, sem Stefán Reykjalín teiknaði.

Hólabraut 12 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki, þ.e.a.s. vesturálman, sem hýsi afgreiðslu, anddyri og skrifstofur. Sýningarsalir eru áfastir austan og sunnanmegin og eru þeir með aflíðandi risþökum. Bárujárn er á þaki og múr á veggjum. Hugtakið einlyft, tvílyft orka kannski nokkuð tvímælis þegar í hlut eiga salir kvikmyndahúsa. Þetta er þó nokkuð einfalt: Sýningarsalir Borgarbíós eru einfaldlega einlyftir, enda þótt hæðin jafnist á við a.m.k. tvær „staðlaðar“ lofthæðir (250cm). Þeir eru nefnilega bara ein hæð, þó lofthæðin sé u.þ.b. tvöföld. En nóg af orðhengilshætti.

Borgarbíó hóf fyrst starfsemi sína í janúar 1956 og fóru sýningar þá fram í vesturálmu Geislagötu 7, þar sem áður var samkomusalur Hótels Norðurlands. Framkvæmdastjóri kvikmyndahússins var Stefán Ágúst Kristjánsson. Templarar höfðu þá staðið fyrir kvikmyndasýningum í um áratug og fóru þær fram í Hafnarstræti 67. Kallast það hús Skjaldborg og kallaðist það Skjaldborgarbíó. Voru það áðurnefndur Stefán Ágúst Kristjánsson og Guðbjörn Björnsson sem hófu starfsemi þess, en Guðbjörn lést um svipað leyti.  Þannig mætti draga þá ályktun, að hugtakið Borgarbíó vísi fremur til Varðborgar en Skjaldborgar- eða einfaldlega „borganna“ beggja. Lesendur mega endilega senda mér ábendingar hvað þetta varðar. (Akureyri hefur löngum verið rík af hinum ýmsu borgum; Varðborg, Skjaldborg, Hamborg, Rósinborg o.fl.).

Það var síðan árið 1986 að ráðist var í byggingu núverandi húsakynna, sem eru í raun viðbygging við upprunalega salinn í Varðborg. Sá salur er enn í fullri notkun og er nú A-salur, en nýrri salurinn, sá sem snýr til suðurs, er B-salur. Borgarbíó hefur verið starfrækt óslitið í þessum húsakynnum frá 1987. Um árabil var Borgarbíó eina starfandi kvikmyndahús bæjarins, eða þar til að sýningar hófust aftur í Nýja Bíó (nú Sambíó) árið 1998.  Ýmsar breytingar hafa þó verið gerðar á innra skipulagi, sölum og búnaði kvikmyndahússins gegn um tíðina, svo sem vænta má, en húsið er að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð að ytra byrði. Svo sem vænta má, þegar í hlut á ríflega þrítug bygging, er húsið ekki talið hafa varðveislugildi í Húsakönnun 2014 en gildi þess fyrir götumynd Hólabrautar og umhverfi er talið nokkuð. Borgarbíó er látlaus en glæst bygging og í mjög góðri hirðu. Þessi mynd er tekin 19. janúar 2020.

 

Svo mælir sá sem þetta ritar auðvitað með því (þegar um hægist í veirufaraldri- annars með ýtrustu varúð) að skella sér á góða mynd í Borgarbíó wink

 

Heimildir: Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf


Hús dagsins: Geislagata 7; Hótel Norðurland, Hótel Varðborg.

Að reisa fjögurra hæða hótel á Akureyri hafa eflaust þótt stórhuga áform á árum síðari heimstyrjaldar. P1190954En það var í september 1942 sem Karl Friðriksson, útgerðarmaður og veitingamaður, lagði fram leyfi fyrir slíkri byggingu við Geislagötu til Bygginganefndar. Nefndin synjaði umsókn Karls að svo stöddu og bætti auk þess við, að engin skólpveita væri á þessu svæði og skildi hann kosta hana sjálfur (!) Hálfum öðrum mánuði síðar, 23. október 1942 fjallar Bygginganefnd aftur um fyrirhugaða hótelbyggingu Karls. Fellst nefndin á að leyfa bygginguna en frestar fullnaðarleyfi, þar eð hafa þurfi samráð við skipulagsnefnd. Þann 11. desember  veitti Bygginganefnd fullnaðarleyfi fyrir hótelbyggingu. Hafði byggingin lækkað um eina hæð í ferlinu, því leyfið var fyrir byggingu á þremur hæðum, 33x10m auk útbyggingar, 10x12m. Skyldi byggingunni lokið á sex árum. Teikningarnar að húsinu gerði Stefán Reykjalín.

Geislagata 7 er þriggja hæða steinsteypuhús með flötu þaki. Norðausturhorn hússins er hvasst og húsið þannig „hornskakkt“ en norðurhlið þess er samsíða Gránufélagsgötu. Vesturálma hússins er einni hæð lægri, en hún hýsir sýningarsal með mikilli lofthæð og þannig ekki hægt að kalla hana tveggja hæða. Gluggar eru flestir með einföldum lóðréttum póstum og veggir múrhúðaðir, en dúkur á þaki. Svalir eru nokkrar á húsinu, á framhlið og suðurhlið.

Það var hins vegar réttu ári síðar, eða í desember 1943 að Karl auglýsti eftirfarandi í Morgunblaðinu: Hefi opnað nýtt gistihús við Geislagötu 7 Akureyri undir nafninu „Hótel Norðurland“. Kemur þar jafnframt fram, að þar komnir í notkun stórir og rúmgóðir veitingasalir en herbergi verði ekki tilbúin fyrr en síðar um veturinn. Svo skemmtilega vildi til, að salir hótelsins voru tilbúnir í tæka tíð fyrir þrítugsafmæli Karls, 22. desember 1943. Þannig gat hann slegið saman reisugildi hússins og afmælisveislu. Nokkrum dögum áður, 11. desember, réttu ári eftir að Karl hafði fullnaðarleyfi fyrir byggingu hótelsins, hafði Karlakórinn Geysir haldið þar afmælishátíð.   Mikið var skrifað í blöðin um jólaleytið og árslok 1943 um opnun hins veglega hótels. Enda var það aldeilis ekki á hverjum degi sem ný hótel voru tekin í notkun. Í Alþýðumanninum  (sjá tengilinum Karlakórinn Geysi) segir t.d. eftirfarandi: „Neðri hæð hússins er nú fullger og tekin í notkun, en það er stór samkomusalur, um 200 fermetrar að stærð, tvær rúmgóðar kaffistofur, eldhús, fatageymsla, 2 snyrtiherbergi og stórt anddyri. Á efri hæð eiga að verða gistiherbergi, en sú hæð er í smíðum.“

En hver var hinn dugmikli og eljusami Karl Friðriksson sem, fyrir þrítugsafmæli sitt, tókst að reisa eitt af stærstu og veglegri hótelum bæjarins ? Hótel, sem státaði m.a. stærsta samkomusal landsins og er enn þann í dag fullburðug hótelbygging, nærri áttatíu árum síðar. Karl Friðriksson var fæddur á Akureyri árið 1913. Hann var sonur Friðriks Einarssonar, útgerðarmanns frá Fáskrúðsfirði og Halldóra Jónsdóttur sem var frá Sandgerði í Glerárþorpi. Karl var fyrst og fremst útgerðarmaður og hóf þann feril ansi ungur; ellefu ára gamall reri hann til fiskjar á árabát og 13 ára var hann kominn á trillu. (Líkt og alkunna er, tíðkaðist raunar almennt á þessum árum að börn til sjávar og sveita færu ung að vinna). Útgerðin og störf henni tengd var hans aðalstarf alla tíð, en meðfram þeim stundaði hann veitingamennsku og hótelrekstur. Þegar hann reisti Hótel Norðurland hafði hann um skeið rekið Hressingarskálann, veitingaskála sem starfræktur var í bakhúsi við Strandgötu 13. Karl seldi Hótel Norðurland árið 1952 og yfirgaf þá hótel- og veitingareksturinn. Í bili- því, síðar hann rak hann farfuglaheimili ásamt konu sinni, Guðrúnu Fabricius. Karl var yfirverkstjóri hjá Útgerðarfélagi Akureyrar frá 1956- 68 en þá tók hann við stöðu yfirfiskmatsmanns Norðurlands eystra. Karl Friðriksson lést árið 1979.

Árið 1952 keyptu Templarar hótelbygginguna og hugðust koma sér þar upp félagsheimili. Breyttu þeir nafni hótelsins í Hótel Varðborg. Var það rekið undir því nafni vel á fjórða tug ára, en árið 1989 keyptu Ferðaskrifstofa Akureyrar og Flugfélag Norðurlands bygginguna af Templurum. Var nafninu þá breytt í Hótel Norðurland, líkt og það hét í upphafi á árum Karls Friðrikssonar. Í stuttu máli sagt, hefur húsið verið hótel óslitið í 77 ár. Syðst á jarðhæð voru lengi vel veitingastaðir, t.d. Pizza 67 og Bing Dao á 10. áratugnum, síðar aðrir staðir en um 2010 var það rými tekið undir gistirými.  Skömmu eftir að Templarar keyptu húsið breyttu þeir samkomusal hússins í sýningarsal og hófu þar að sýna þar kvikmyndir. Kallaðist það Borgarbíó.  Borgarbíó var formlega tekið í notkun 22. janúar 1956. Nafnið er líklega dregið af Varðborg (?), en um nokkurra ára skeið höfðu templarar rekið bíó í annarri „borg“ á Akureyri, þ.e. Skjaldborg við Hafnarstræti 67. Kallaðist það Skjaldborgarbíó. Sýningarsalurinn var í vesturálmu hússins, þar sem áður var samkomusalur hótelsins. Um miðjan níunda áratuginn var byggt við sýningarsalinn, og sýningarsalirnir þannig orðnir tveir. Í nýbyggingunni, sem snýr að Hólabraut, og telst nr. 12 við þá götu, var einnig anddyri og afgreiðsla kvikmyndahússins. Enn er Borgarbíó starfandi í þessum húsakynnum, og eldri salurinn A-salur en sá yngri er B-salur. Teikningarnar að þeirri byggingu gerði Birgir Ágústsson. Nánar um bíóhúsið í næsta pistli.

Hótel Norðurland er látlaus en glæst og reisuleg bygging og eitt kennileita á svæðinu. Í stórum dráttum er það lítt breytt að ytra byrði en hefur að sjálfsögðu tekið hinum ýmsu breytingum að innan. Í Húsakönnun 2014 er húsið sagt hafa gildi fyrir götumynd Geislagötu en ekki talið að varðveislugildi hússins sé verulegt. Hins vegar gefur auga leið, að hótel og samkomuhús til tæpra 80 ára hljóti að skipa stóran sess í hugum margra, Akureyringa sem og ferðamanna gegnum tíðina, og hafa þó nokkurt gildi þess vegna. Húsið er í mjög góðri hirðu og hefur alla tíð hlotið afbragð viðhald. Sem áður segir er enn hótelrekstur í húsinu, undir hinu upprunalega nafni, Hótel Norðurland og er rekið af Keahótelum. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1941-1948. Fundur nr. 924, 4. sept. 1942. Fundur nr. 930, 23. okt. 1942. Fundur nr. 933, 11. des. 1942. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


Hús við Skipagötuna

Hér eru hús við Skipagötuna, sem ég hef tekið fyrir á þessari síðu:

Skipagata 1 1931

Skipagata 2 1933

Skipagata 4 1933

Skipagata 5 1931

Skipagata 6 1942

Skipagata 7 1942

Skipagata 8 1939

Skipagata 9 1996

Skipagata 12 1949

Skipagata 14 1952/1984

Skipagata 16 1992

Skipagata 18 1935

Að venju birti ég upplýsingar um meðalaldur húsa við götuna. Menn geta velt fyrir sér tilgangingum með þessum útreikningum en hann er raunar sá eini, að ég hef gaman af honum. laughing  Við Skipagötu standa 12 hús (fjórar "sambyggingar") á aldrinum 24-89 ára (2020).  Meðaltal byggingára Skipagötuhúsa er 1950,7 og þannig er meðalaldur þeirra árið 2020 um 70 ár.

 


Hús dagsins: Skipagata 16

Skipagötu 16 reistu þau Friðrik Vestmann og Guðrún Hjaltadóttir árið 1992P1190983 eftir teikningum Fanneyjar Hauksdóttur. Þau höfðu um árabil rekið ljósmyndafyrirtækið Pedrómyndir og var húsið reist undir starfsemi þess en íbúð þeirra hjóna var á efstu hæð hússins.

Skipagata 16 er reisulegt og svipmikið stórhýsi, steinsteypt á fjórum hæðum. Gluggar á fyrstu og annarri hæð eru stórir og víðir (verslunargluggar) og á efstu hæð eru miklar bogadregnar svalir áberandi. Efri hæðir hússins eru nokkuð minni að grunnfleti, og því er breið „sylla“ norðanmegin á húsinu. Húsið er mjög prýtt hinum ýmsu formum, smáum tíglum og hringlaga gluggum og sívalar súlur eru áberandi á framhlið og norðurhlið.  Helsta sérkenni hússins er þó  óneitanlega mikill hringlaga turn norðvestanmegin á húsinu. Í júní 1992 var nýtt húsnæði Pedrómynda tekið í notkun og enn er fyrirtækið starfrækt á jarðhæðinni. Enn er íbúð á efstu hæð en samkomusalir, skrifstofurými og fasteignasala á annarri og þriðju hæð.

Skipagata 16 er reisulegt og skrautlegt hús og ágætt kennileiti í Miðbænum og kallast nokkuð skemmtilega á við Alþýðuhúsið. Turninn gefur húsinu einmitt sérstakan og skemmtilegan svip, en löng hefð er fyrir turnum á Akureyrskum stórhýsum, sbr. Samkomuhúsið (1906) og húsið vestan við Skipagötu 16, þ.e. Hafnarstræti 96, París, bárujárnsklætt timburhús frá 1913. Í Húsakönnun 2014 er húsið sagt hafa mikið gildi fyrir götumynd- og það réttilega. Ekki er hins vegar talið að varðveislugildi hússins sé verulegt, enda á það sjaldnast við um svo „ungar“ byggingar. En kannski öðlast Skipagata 16 varðveislugildi - eða jafnvel friðun - síðar á þessari öld. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.


Hús dagsins: Skipagata 14; Alþýðuhúsið.

Skipagata 14 er eitt af tilkomumestu stórhýsum MiðbæjarinsP1190984 og nokkuð áberandi kennileiti, t.d. séð frá þjóðveginum, Torfunefi og Hofi. Húsið er að mestu byggt árin 1983-84 en elsti hluti hússins, neðsta hæðin, var byggður um 1952. Þá stóð til að reisa mikla byggingu KEA. Norðurhluti byggingarinnar reis að fullu, fjórar hæðir, og varð Skipagata 12. Skipagata 14 var hins vegar lengi vel aðeins ein hæð. Bygging  efri hæða Skipagötu 14 var samvinnuverkefni verkalýðsfélaganna á Akureyri og var ætlað að verða sameiginlegt aðsetur þeirra. Kallast húsið Alþýðuhúsið. Teikningarnar að húsinu gerði Aðalsteinn Júlíusson á Teiknistofunni Sf. vorið 1983. Nyrðri hluti neðri hæðar var hins vegar byggður eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar; „Verzlunarhús KEA og T.B.“ sem dagsettar eru 22. júlí 1952.  

Skipagata 14 er fimm hæða steinsteypuhús með valmaþaki. Efsta hæðin er eilítið smærri að grunnfleti, eða með svokölluðu „penthouse“ lagi. Járn og þakdúkur er á þaki og múrhúð, ýmist slétt eða hömruð á veggjum.

Fyrstu árin eftir að neðsta hæð Skipagötu 14 reis hýsti hún afgreiðslu KEA, en í október 1959 innréttaði kaupfélagið veglegt þvottahús þarna. Nánar tiltekið Þvottahúsið Mjöll og var það starfrækt í húsnæðinu um árabil. Á suðurhluta lóðarinnar stóð einnig timburhús, sem flutt hafði verið á lóðina frá Svalbarðseyri, svonefnt Rauða hús.  Þar var um að ræða timburhús, byggt um aldamótin 1900 og stóð upprunalega á Svalbarðsströnd, en flutt á þennan stað árið 1911. Þar voru á seinni árum afgreiðslur flutningafyrirtækja, m.a. Péturs og Valdimars. Rauða hús var fjarlægt í júní 1983, og flutt fram að Botni í Hrafnagilshreppi. Skömmu síðar hófst bygging Alþýðuhússins

Hið nýja Alþýðuhús var formlega tekið í notkun 26. júlí 1984. Á neðstu hæð hefur alla tíð verið útibú Íslandsbanka (Glitnis meðan hann var og hét) en veitingastaðir á efstu hæð. Enn er húsið aðsetur fjölmargra verkalýðsfélaga og einnig hefur Vinnumálastofnun aðsetur á annarri hæð. Þá eru hinar ýmsar skrifstofur og samkomusalir í húsinu. Kröfuganga Akureyringa á verkalýðsdaginn, 1. maí, leggur ævinlega af stað frá húsinu.  Þá hefur efsta hæðin („penthouse“ hæðin) alla tíð hýst veitingastaði. Lengi vel var þar veitingastaður sem hét Fiðlarinn- væntanlega vísun í Fiðlarann á þakinu. Enn er veitingarekstur á efstu hæð, veitingahúsið Strikið. Útsýnið frá veitingasölunum er hreint og klárt stórkostlegt, yfir Pollinn, Eyrina, út eftir og fram eftir. sem KEA Skipagata 14 er ekki talin hafa varðveislugildi, enda á það yfirleitt við um eldri hús.

Skipagata 14, Alþýðuhúsið, fellur vel inn í götumynd Skipagötu og umhverfið, hönnun þess hefur að mörgu leyti tekið mið að nærliggjandi byggingum.  Húsið er, í Húsakönnun 2014, ekki talið hafa verulegt varðveislugildi (enda á það yfirleitt ekki við um þetta „nýleg“ hús) en talið hafa gildi fyrir götumynd Skipagötu. Enda er um að ræða áberandi og glæst kennileiti í Miðbænum. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.


Mislangur kílómetri ;)

Á umhverfinu má sjá hinar ýmsu hliðar og sumar athyglisverðar og spaugilegar. Hér eru tvær myndir, af sjónarhornum sem flestir þeir sem eiga leið um Þjóðveg 1 (Leiruveg) inn á Akureyri eða á Akureyrarflugvöll, kannast við. Þetta eru semsagt skiltin við vegamót Hringvegar og Eyjafjarðarbrautar vestri annars vegar og við afleggjarann að Akureyrarflugvelli hins vegar. Á flugvallarafleggjaraskiltunum stendur, svo sem sjá má, Hrafnagil 10- Akureyri 3 (Hrafnagil í suðurátt). Á skiltunum við vegamótin við Leiruveg stendur Hrafnagil 10-Akureyri 2. Þegar farið er á milli þessara tveggja skilta, í norðurátt eða úteftir, hefur vegfarandi semsagt færst 1km nær miðbæ Akureyrar en ekki náð að færast kílómetra lengra frá Hrafnagili. Hið sama er uppi á teningnum á leiðinni frameftir, vegfarandi færist 1km frá miðbæ Akureyrar, en nær ekki sömu vegalend í átt að HrafnagiliAf þessu má ráða, að þessi vegalengd hljóti að vera 1km í aðra áttina en eitthvað rétt innan við 1 km í hina.winklaughing 

P7010969P7010971


Hús dagsins: Skipagata 12

Skráð byggingarár Skipagötu 12 er 1949. Engu að síður er það svo, P1190981að eina bókun Byggingarnefndar sem greinarhöfundur -sem er aldeilis ekki óskeikull- fann um húsið er frá árinu 1952. En þá fengu Kaupfélag Eyfirðinga og Tómas Björnsson „að reisa norðurhluta fyrirhugaðrar bygginga á sameiginlegum lóðum“. Í Húsakönnun 2014 er hönnuður hússins sagður ókunnur en á Landupplýsingakerfinu má finna þessar teikningar, gerðar af Mikael Jóhannessyni. Á þessum teikningum Loga Más Einarsson af endurbótum hússins. Upprunalegar teikningar virðast ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu en þar eru hins vegar teikningar af innra skipulagi hússins, eftir Mikael Jóhannesson. Húsið, Verslunarhús KEA, átti að skiptast í nokkur rými fyrir „léttan iðnað eða skrifstofur“ og áformuð lengd skv. teikningum nærri 26m en lengd hússins meðfram götu er um 12m. Þannig má ætla, miðað við upplýsingar frá Bygginganefnd og teikningar, að aðeins um téðan norðurhluta að ræða. Suðurhlutinn reis ekki í fyrirhugaðri mynd, en rúmum þremur áratugum síðar reis hins vegar mikið stórhýsi á Skipagötu 14, áfast nr. 12 (sjálfsagt halda einhverjir, að um sé að ræða eitt og sama húsið). Reis það ofan á jarðhæð byggingar, sem þegar var áföst. 

Skipagata 12 er fjórlyft steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki. Efsta hæð er inndregin frá austurhlið og eru þar svalir eftir endilöngu.  Veggir eru múrsléttaðir og þakpappi á þaki. Gluggar með einföldum þverpóstum með þrískiptu efri fögum, en verslunargluggar á jarðhæð. Á norðurhlið er kringlóttur gluggi ofarlega, sem gefur húsinu ákveðinn svip, en þessi gafl hefur löngum verið skreyttur flennistórum auglýsingamyndum.

Skipagata 12 hefur frá upphafi hýst hina ýmsa verslun og þjónustu, líkt og húsin öll við Skipagötuna. Meðal annars má nefna afgreiðslu hins valinkunna póst- og flutningabáts Drangs, Ferðafélag Akureyrar og Sjómannafélag Eyjafjarðar. Að ógleymdri Gufupressun fatahreinsun. Á níunda áratugnum var opnaður hér kjúklingastaðurinn Crown Chicken og um árabil prýddi nokkurs konar táknmynd staðarins: reffilegur hani, norðurhlið hússins. Hefur síðan verið veitingarekstur á jarðhæð, nú er þar starfræktur Akureyri Fish and chips. Á efri hæðum eru skrifstofurými  og íbúð á efstu hæð.

Ekki er talið að gildi hússins sé verulegt umfram önnur hús við Skipagötu, en húsaröðin hefur nokkuð gildi sem slík. Húsið er, líkt og húsin utar við Skipagötu, byggt í anda skipulagsins frá 1927. Húsið er í mjög góðri hirðu og mun að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1948-1957. Fundur nr. 1159, 1. ágúst 1952. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


Vesturbrú vígð í gær

Þann 15. september 2019 var ég á ferðinni á hjóli um Vaðlaheiði. Á bakaleiðinni gerði sunnan slagveður (í kaldara lagi af sunnanvindi að vera) og hugðist ég fara svokallaða Þverbraut, gömlu brýrnar þrjár yfir óshólma Eyjafjarðarár. Þegar komið var að vestursporð vestustu brúarinnar blasti við heldur óskemmtileg sjón. Þar hafði verið komið fyrir girðingargrind, sömu gerðar og notuð er til afmörkunar byggingarsvæða og annarri í vinkil. Heldur þótti okkur félögunum þetta súrt og töldum það hefði verið lágmarks kurteisi, að láta vita hinu megin, að leiðin væri lokuð í annan endann. Því urðum við að snúa við þarna í slagviðrinu og halda út Eyjafjarðarbraut eystri og yfir Leiruveginn. Ég hefði ekki boðið í það, að reka þarna hrossastóð og þurfa að snúa því á punktinum. 

Nokkru síðar var upplýst í fjölmiðlum, að brúin hefði lent inn á stækkuðu öryggissvæði Akureyrarflugvallar. Óhjákvæmilega var klippt á ansi skemmtilega göngu- og hjólaleið en auðvitað hljóta öryggismál flugvallar að vega þyngra en útivistarleið. Í september í fyrra gat maður allt eins ímyndað sér, að þessi skemmtilega göngu- hjóla- og reiðleið heyrði sögunni til. Varla yrði ráðist í margra milljóna framkvæmd við nýja brú þarna? Og hvar myndi hún vera; hversu sunnarlega ? Yrði hún Eyjafjarðarsveitar- eða Akureyrarmegin sveitarfélagamarkanna ? Og hvenær kæmi hún ? Líklega yrði maður að sætta sig við orðinn hlut. Gönguleiðir eru líka víða um Akureyri og nærsveitir og lítið mál er að hjóla fram að Miðbraut milli Laugalands og Hrafnagils, vilji maður bregða sér á þessar stuttan hring frameftir. Öðru máli gegnir hins vegar um hestamenn. Þverbrautin var eina leið Akureyrskra hestamanna að högum og aðstöðu í Hólmunum og reiðvegi frameftir. Því var þeim mikið kappsmál að fá nýja brú og munu þeir hafa haft mestan veg og vanda af því, að ráðist var í smíði nýrrar brúar.

Í gær, 1. júlí,  var komið að vígslu nýrrar brúar. Var það hátíðleg og skemmtileg stund í sólríku og góðu veðri, þó tæki að blása nokkuð úr norðri þegar á leið. Karlakór Akureyrar flutti nokkur lög og ávarp flutti Guðmundur Baldvin Guðmundsson bæjarfulltrúi. Kynntar voru niðurstöður úr nafnasamkeppni fyrir nýju brúna og var nafnið Vesturbrú fyrir valinu. Er það vel viðeigandi, þar eð brúin er yfir vestustu kvísl Eyjafjarðarár. Það var svo Sigurður Ingi Jóhannsson sem klippti á borðann ásamt ungri hestakonu úr Létti. Það voru einmitt félagar í Létti sem riðu hópreið yfir brúna og í kjölfarið fylgdu skokkarar, þá hjólreiðamenn (þ.m.t. sá sem þetta ritar) og gangandi. Austanmegin var síðan boðið upp á léttar veitingar. Hér eru nokkrar myndir: 

P7010963

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P7010965

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P7010980

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P7010983

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P7010986

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P7010988

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Til fróðleiks má nefna, að Vesturbrú mun vera fyrsta brúin sem rís yfir Eyjafjarðará á 21. öld og með henni telst mér til, að ellefu brýr séu á Eyjafjarðará.

Og hverjar eru þessar ellefu brýr ? Þær eru, eftir því sem ég kemst næst, talið frá suðri (fremst) til norðurs:

1. Brú við Halldórsstaði

2. Brú við Vatnsenda/Leyning

3. Hringmelsbrú (Bogabrú við Sandhóla)

4. Brú á móts við Möðruvelli

5. Reiðbrú við Melgerðismela

6. Brú á Miðbraut (Hrafnagil-Laugaland)

7. Vesturbrú

8.-10. Brýrnar á Þverbrautinni yfir Hólmana

11. Brúin á Leiruvegi (er eiginlega eins utarlega og hægt er á ánni, liggur eiginlega yfir Pollinn). 

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2020
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.7.): 27
  • Sl. sólarhring: 27
  • Sl. viku: 302
  • Frá upphafi: 451070

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 236
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband