28.2.2011 | 17:18
Hús dagsins: Nokkur býli í Glerárþorpi
Í grófum dráttum er Akureyri skipt upp í tvo hluta, þ.e. norðan og sunnan Glerár. Gleráin skiptir bænum einnig í póstnúmerin 600(sunnan) og 603(norðan). Sunnan ár eru hverfin Innbærinn, Oddeyri, Brekkan og Naustahverfi en byggðin norðan ár er að öllu jöfnu kölluð Þorpið en það skiptist í Giljahverfi, Síðuhverfi, Hlíðar og Holt. Þorpið er raunar stytting á Glerárþorp- en sjálfur hef ég yfirleitt ímyndað mér Glerárþorp sem byggðina syðst og næst ánni, þ.e. sem nú afmarkast af Hlíðunum og Holtum. En á þeim slóðum þar var áður dreifbýlisþorp þar sem voru fjölmörg smábýli- byggðin var mikið strjálli þar sem nú eru efri byggðir Síðu- og Giljahverfis. Hverfin norðan ár eru miklu yngri raunar var Glerárþorp ekki lagt undir Akureyrarkaupstað fyrr en um 1955. Þéttbýlismyndun í Glerárþorpi hófst ekki fyrr en 1960-65, elst eru Hlíðahverfin og Holtin en næstu hverfi byggðust svo að mestu á næstu áratugum, áðurnefnt Hlíðahverfi 1970-80, Síðuhverfið 1980-90 og Giljahverfið tók að byggjast eftir 1990. En á mörgum stöðum í þessum hverfum er algengt að rekast á hús sem greinilega eru eldri en hverfið í kring. Oftar en ekki standa þau á geysimiklum lóðum og stundum á skjön við götuna. Er þar oft um að ræða gömul býli en fjölmörg þeirra standa enn þó mörg þeirra hafi vikið með öllu fyrir nýrri byggð. En á fyrrihluta 20. aldar voru sem áður tugir smábýla í Glerárþorpi. Var það uppúr 1890 sem byggðin tók að myndast, að mestu í landi Bandagerðis. Sjaldan voru þetta stórar eða merkilegar byggingar né mikill bústofn, oftar en ekki var um að ræða torfkofa eða skúrræfla- enda var það jafnan efnalítið fólk sem byggði Glerárþorp. Árið 1908 virðist byggðin hafa verið orðin það fjölmenn að byggja þurfti skóla fyrir börnin úr Glerárþorpi og reis það hús í Sandgerðisbót. Kallaðist húsið Ós og stendur það enn. Hér eru myndir af nokkrum eldri húsum í Glerárþorpi.
Sæborg, rétt ofan við Óseyri. Einlyft timburhús með portbyggðu risi, bárujárnsklætt á háum steinkjallara. Sæborg var byggð 1906 og er sennilega elsta hús sem enn stendur í Glerárþorpi. Er þetta eitt færri býla í Glerárþorpi þar sem upprunalegt hús stendur enn.
Bergstaðir, einlyft steinsteypuhús með risi, byggt 1926. Stendur við Lyngholt 2 en þessi hlið snýr að Hörgárbraut, sem er hluti Þjóðvegar 1. Þetta hús skartaði um nokkurra ára skeið Pepsi merkinu á þaki en hver sagan á bakvið það man ég nú ekki.
Lundgarður, nokkuð dæmigert fúnkíshús, ferköntuð lögun allsráðandi og horngluggar áberandi. Húsið á sjötugsafmæli á þessu ári, steypt 1941. Húsið stendur NV og ofan Þórsvallar.
Skútar, býlið stofnað um 1925 en þetta hús sem steinsteypt einlyft með risi og stórum miðjukvisti var byggt 1950. Húsið stendur við klettaborgir á hárri brekku skammt austan Skarðshlíðar. Um Skútabrekkuna liggur Þjóðvegur 1 þ.e. Hörgárbraut. Fyrstu blokkirnar í Glerárþorpi risu við Skarðshlíð um 1965, rétt neðan Skúta.
Allar myndirnar eru teknar 13.febrúar 2011 nema myndin af Sæborg sem er tekin í kvöldsólinni þann 27.maí 2007.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.2.2011 | 20:55
Ólík systurfjöll
Dyngjur og stapar eru fjöll sem ekki finnast á mörgum stöðum í heiminum en Ísland er einn þeirra. Oft þykir mér full djúpt tekið í árinni í fullyrðingum um það hvað allt er einstakt hér og finnist hvergi annars staðar í heiminum- það er sjaldnast staðreyndin en hins vegar er margt hér sem er sjaldgæft og sumt algjörlega einstakt. En ég er á því að hinar mörgu íslensku náttúruperlur séu alveg nógu glæsilegar, hvort sem til eru svipuð fyrirbæri annars staðar í heiminum eða ekki. En að dyngjum og stöpum. Dyngjur eru fjöll sem líta út eins og undirskálar á hvolfi, aflíðandi og hringlaga. Þær eru því oft ansi drjúgar að flatarmáli því þær eru ekkert endilega mjög lágar. Og fá fjöll eru eins auðveld uppgöngu- eðlilega. Ein þekktasta dyngjan er líklega Skjaldbreið(ur) (1060m) sunnan Langjökuls en aðrar dyngjur eru t.d. Ok (1141m) á Kaldadal og Trölladyngja(um 1500m) sunnan við Vatnajökul- en það mun hæsta dyngja landsins. Dyngjan sem sést hér til hliðar- örlítið vinstra megin við miðju- heitir Kollóttadyngja og er 1180 m y.s. Stapar kallast fjöll sem eru nær hringlaga en með þéttingsbröttum skriðurunnum hlíðum og klettabelti efst en flatir að ofan- en oft er lítill strýtukollur fyrir miðju. Löguninni mætti líkja við skál á hvolfi eða þykka rjómatertu (hnallþóru) eða hringborð sbr. enska heitið"table mountain". Stapar eru ólíkt erfiðari uppgöngu en dyngjur og oftar en ekki er eina færa gönguleiðin á stapa bundin við skorninga eða vik í hamrastálinu- og oft er það ógurlegt brölt sem jafnvel krefst klifurbúnaðar. Nágranni Kollóttudyngju er einn þekktasti stapinn á landinu, Herðubreið (1682m).
Þegar að er gáð má sjá að ekki virðist óalgengt að stapi og dyngja séu í nágrenni hvort við annað. Skammt frá Skjaldbreið er stapinn Hlöðufell(1188m) , og risastapinn Þórisjökull(1350m) er skammt frá Okinu. Kistufell (um 1400m) nefnist stapi undir Vatnajökli í nágrenni Trölladyngju. En dyngjur og stapar eru að upplagi "sömu" fjöllin. Bíddu nú við , hvernig getur það staðist? Þessi fjöll eru eins ólík og gömul Lada og Range Rover. Jú. Dyngjur verða til við dyngjugos, sem eru löng, basísk hraungos sem hlaða dyngjunum upp. Almennt mun talið að dyngjur myndist í einu gosi. En þegar dyngjugos verður undir jökli getur hraunið hvergi runnið heldur hleðst upp þar til það nær uppúr jöklinum. Að lokum nær hraunið á yfirborðið og ef það stendur einhvern tíma eftir það getur hlaðist upp dyngja ofar yfirborði jökulsins. Þegar jökullinn hopar stendur svo stapin eftir og brúnirnar sem náðu yfir jökulinn hrynjaog mynda hlíðarnar. Þannig að dyngja og stapi er faktíst sama fyrirbærið- nema stapinn varð til undir jökli. Nú má ímynda sér hvers konar ógurlegur fyrirgangur hefur verið við myndun stapanna. Stór dyngjugos brjóta sér væntanlega ekki leið gegn um 1000metra jökulstál þegjandi og hljóðalaust, gígantískt magn af ís bráðnar og gjóskan í kjölfarið heldur varla neitt smáræði. Það hefði allavega orðið örðugt um þotuflug þegar gosin sem mynduðu t.d. Herðubreið eða Eiríksjökul stóðu yfir.
Myndin af Kollóttudyngju og nágrenni hennar er tekin 16.ágúst 2003 ofan af Herðubreið en myndin af Herðubreið er tekin 24.júlí 2010 úr Herðubreiðarlindum. Eru þær teknar á tvær ólíkar vélar, sú eldri á 4 megapíxla Trust en sú nýrri á 6 megapíxla Olympus FE120.
Bloggar | Breytt 22.2.2011 kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2011 | 17:56
Hús dagsins: Hafnarstræti 79
Hafnarstræti 79 reistu þeir Óli P. Kristjánsson og Hjalti Sigurðsson árið 1923. Húsið er nyrst fjögurra steinsteyptra stórhýsa frá árunum 1922-23 sem reist voru á landræmu er varð til við gerð uppfyllingar framan við Hafnarstræti. En Hafnarstræti 79 er tvílyft steinsteypuhús með háu risi á háum kjallara. Húsið hefur eitt einkenni elstu steinhúsa, steypta lista utanum glugga, en rammar utan um glugga voru oft áberandi á timburhúsum. Stundum voru svona rammar á steinhúsum bogadregnir. Húsið er tvær álmur, framhús og bakálma sem gengur inn í brekkuna á bakvið. Líklega hafa þeir Óli og Hjalti skipt húsinu í tvo eignarhluta og stórir gluggar á kjallara gefa til kynna að þar hafi verið verslunarpláss. Einhvern tíma hafa verið smíðaðar veglegar suðursvalir á ofaná stigabyggingu á bakálmu. Nú er húsið hins vegar þríbýli, íbúðir í kjallara, 1.hæð og 2.hæð og risi. Í dag er aðeins búið í hluta hússins en nú standa yfir gagngerar endurbætur á efri hæðum. Hafnarstræti 79 er stórfínt hús og verður eflaust enn glæsilegra að loknum endurbótum. Umhverfi hússins og húsana í kring er nokkuð sérstakt, nánast ekkert "undirlendi" en snarbrött, skógi vaxin brekka fyrir ofan. Þessi mynd er tekin 12.feb. 2011.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2011 | 18:34
Hús dagsins: Hafnarstræti 71
Hafnarstræti 71 mun vera byggt 1922 af Tómasi Björnssyni kaupmanni. Húsið er steinsteypt, tvílyft á háum kjallara með lágu risi. En húsið er eitt fyrsta húsið sem byggt var á fjörukantinum sem myndaðist þegar uppfyllingin þar sem m.a. Umferðarmiðstöðin stendur en þá var brekkunni þarna ofan við einfaldlega mokað út í fjöruna. Og líklega hefur lítið af stórvirkum vinnuvélum komið að því verki, fyrir um 90 árum síðan. 1923-25 risu síðan næstu hús nr. 73, 77og 79*. Á neðstu hæð hefur sennilega verið verslunarrými frá upphafi en íbúðir á efri hæðum. Ekki hefur verið starfsemi á neðstu hæð í nokkur ár , en síðast var þar snyrtistofa. Umhverfi hússins hefur þó nokkuð breyst frá upphafi, en þegar húsið var reist stóð það því sem næst í fjöruborðinu en nú er það ca. 100m frá fjörunni (-sú fjara er reyndar manngerð og innan við 40ára gömul). Ekki var stingandi strá í brekkunni bröttu ofan við en nú er þar veglegur skógur. Í trjáþykkninu litlu ofan við húsið stendur gömul fánastöng- líklega frá því fyrir tíð trjánna. Þessi mynd er tekin í ljósaskiptunum sl. laugardag 12.febrúar 2011.
*Hafnarstræti 79 er viðfangsefni næsta pistils, sem væntanlegur er um helgina.
Fylgist með hér á www.arnorbl.blog
Bloggar | Breytt 19.2.2011 kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2011 | 16:37
Hús dagsins: Ægisgata 14.
Í síðasta pistli, og einhverntíma áður, hef ég vikið að svokölluðum Fúnkís stíl í byggingagerð. En þegar farið var að byggja steinsteypuhús að einhverju ráði (um 1920) var ekki óalgengt að þau líktu eftir lagi timburhúsa. Húsin oft tveggja hæða, tvílyft eða einlyft með kjallara, grunnflötur lengri en breiddin, risþak og kannski kvistur. En á nokkrum áratugum fóru smám saman að koma fram sérstakar byggingargerðir steinhúsa, og eftir 1930 fóru að sjást svokölluð fúnkís hús. Helstu sérkenni voru ferningslaga grunnflötur (stundum voru þó útbyggingar eða útskot) og valmaþak og sérstakir horngluggar líkt og sjá má á Ægisgötu 14. Þessi hús voru hugsuð með góða nýtingu í huga, hverjum einasta krók og kima ráðstafað- líklega að koma sem mestu fyrir á sem minnstum fleti. (Fúnkís er raunar dregið af orðinu functional eða Functionalism sem vísar til virkni eða nýtni ) Enda voru þessi hús reist á tímum mikilla þrenginga, á 4. og 5.áratug 20.aldar. Allt skraut eða prjál var skorið niður og gluggapóstar voru einfaldir. Hins vegar voru gluggar stærri og víðari en gerðist á eldri húsum.
Húsið á myndinni er nokkuð dæmigert fyrir hús af Fúnkís gerð en það stendur við Ægisgötu 14. Ægisgata stendur næst ofan við Hríseyjargötu og gengur þvert á Eiðsvallagötu, en hún liggur samsíða Strandgötu um 200m norðar. Við Ægisgötu standa mörg svipuð hús og flest eftir sama teiknara. Ægisgata 14 er reist árið 1936 og á því stórafmæli á þessu ári, 75ára. Er það byggt eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar en Ægisgatan er einmitt heilsteypt götumynd margra smárra einbýlishúsa Tryggva í Fúnkísstíl en þau voru flest reist á bilinu 1935-45. Byggt hefur verið við mörg þessara húsa í seinni tíð, eins og gengur og gerist. Ægisgata 14 er einbýli eins og flest húsanna í Ægisgötu og hefur verið alla tíð. Þessi mynd er tekin sl. laugardag 12.2. 2011, en þetta hús stendur næst ofan við Hríseyjargötu 21, sem ég tók fyrir í síðustu færslu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2011 | 17:10
Hús dagsins: Hríseyjargata 21; "Langavitleysa"
Hríseyjargata er neðsta íbúðarþvergatan sem gengur norður úr Strandgötu. Hún er líka sú næstlengsta af þeim á eftir Norðurgötu. Hún er mikið yngri (þ.e. húsin við hana) en efri göturnar, Lundargata, syðsti hluti Norðurgötu og Grundargata en hún byggðist aðallega árin 1920-40. Hinar göturnar voru flestar byggðar fyrir 1900.
En húsið á meðfylgjandi mynd er það efsta við Hríseyjargötu, er númer 21. Er þetta einlyft steinhús með söðulþaki* byggt eftir teikningum Halldórs Halldórssonar árið 1942. Húsið er sennilega fyrsta skipulagða raðhús Akureyrar en í því eru fjórar íbúðir. Gránufélagsgata 39-41, töluvert eldra hús sunnar á Eyrinni, eftir sama teiknara, er að vísu þrenn hús í röð en það myndi frekar flokkast sem fjölbýlishús eða blokk frekar en raðhús. Hríseyjargata 21 er að nokkru leiti undir áhrifum frá svoköllum fúnkís stíl sem var mjög ríkjandi í húsbyggingum á þessum tíma. Helstu sérkenni fúnkíshúsa var ferningslaga grunnflötur, valmaþak og gluggar á hornum- sem eru reyndar ekki í þessu húsi. En flest slík hús voru sem áður segir nær ferningslaga með valmaþaki og það gildir um mörg hús í næsta nágrenni, en þetta er svolítið einsog slíkt hús hafi verið teygt um þrjár lengdir. Þetta þótti því svolítið sérstakt að gerð og talsvert ráðandi í umhverfinu og hefur húsið löngum verið kallað Langavitleysa. Það þykir mér eiginlega dálítið niðrandi viðurnefni á þessu húsi sem er annars stórglæsilegt að sjá, einfalt og látlaust, í góðri umhirðu og til mikillar prýði í umhverfi sínu. Þessi mynd er tekin í ljósaskiptunum sl. laugardag, 12.febrúar 2011.
*Söðulþak mætti segja að væri valmaþak sem búið er að teygja úr. Þ.e. valmaþak hefur pýramídalag og getur þ.a.l. aðeins verið yfir ferningslaga grunnfleti en þegar flöturinn er lengri en breiddin og mænir gengur í gegn er talað um söðulþak.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2011 | 17:50
Svipmyndir af Vetrarsport 2011
Í síðustu færslu deildi ég nokkrum myndum frá Vetrarsport sýningum á liðnum árum- en hér eru nokkrar frá sýningunni þetta árið. Þó þetta sé kannski fyrst og fremst "tryllitækjasýning" þá kenndi þarna ýmissa grasa og þarna mátti skoða flest það sem tengdist vetrarsporti- útbúnaður hvers konar bæði hvað varðar öryggismál, fatnað, fararskjóta og einnig var ýmis ferðaþjónusta með kynningar. En ég kíkti semsagt í Bogann í gær og var með myndavélina og hér eru nokkrar svipmyndir.
Jeppinn er af gerðinni Ford Explorer. Hann gæti verið árgerð ca. 1990-95 en hefur fengið dágóða yfirhalningu. Dekkinn er 46 tommur, en til þess að koma svona belgjum undir jeppanna þarf stórfelldar breytingar. Það er ekki bara nóg að tjakka yfirbygginguna upp og skella dekkjunum undir. Ónei. Það þarf viðamiklar breytingar á h.u.b öllu því sem við kemur vélbúnaði, rafkerfi, stýrisbúnaði, drifbúnaði dempurum, fjöðrum o.s.frv. þannig að oft stendur fátt eftir upprunalegt í bílnum. Ekki kann ég deili á græna tryllitækinu t.h. en þetta minnir mig helst á eitthvað sem maður byggði úr Lego-kubbum.
Broncoinn t.v. er 37 ára, árgerð 1974. En líkt og með Explorerinn er sennilega fátt upprunalegt í honum þessum. Hann er á "44" dekkjum og vélin er 460 rúmtommur að stærð skilar yfir 400 hestöflum. Amerískar vélar eru jafnan sagðar í kúbiktommum, enda er það sú mælieining sem þar er notuð. Þannig kann mörgum að finnast ruglandi þegar talað er um 318 (þrír-átján) , 351 og 427 vélar sem ógurlega rokka en á sama tíma um 1600 og 2000 vélar í fólksbílum. (Málið kann að flækjast ennþá meira þegar talað er um 2ja og 3ja lítra vélar.) En þetta skýrist af því í fyrsta lagi að þegar talað er um 1600 vél er átt við 1600 rúmcentimetra. Í einum líter eru 1000 rúmsentimetrar. Þannig er áðurnefnd 1600 vél 1,6lítrar. Hvað varðar "amerísku stærðina" 318 þá er um að ræða 318 rúmtommur. Ein rúmtomma samsvarar tening sem er tomma*tomma*tomma eða 2,54*2,54*2,54= ca. 16 rúmcentimetrar. Þannig er 318 ameríska vélin 16*318 eða 5088 rúmcentimetrar.Vélin í Bronconum er þannig 460*16= 7360 rúmcm. eða 7,3L sem er bara þó nokkuð. Subaru Justy eru af mörgum talin ein sönnun máltækisins "margur er knár þó hann sé smár" en þessir kaggar eru hvorki stórir né öflugir en bæði fjórhjóladrifnir og léttir og hefur maður heyrt ýmsar sögur af torfæru- og snjóaksturseiginleikum þeirra. Þessi rauði er sannarlega vel "dekkjaður"!
Polaris sexhjól 6x6 með sturtupalli- eða 6 hjóla fjórhjól eins og sumir gárungar kalla það; Sex hjóla fjórhjól þykja víst mjög hentug til að flytja ferkantaða rúllubagga
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2011 | 15:28
Nokkur tryllitæki
Oft fer ég út að viðra myndavélina. Þá eru það einkum hús, bílar og fjöll sem verða fyrir linsunni hjá mér, eins og lesendur síðunnar hafa e.t.v. tekið eftir. En hér eru nokkrar tryllitækjamyndir úr safninu mínu. Ég á orðið dágott safn af bílamyndum af ýmsum sýningum en einnig hef ég tekið myndir á förnum vegi. Hér eru nokkur tryllitæki, en ég þekki ekki slík deili á þeim þannig að ég geti skrifað mikið um þau- en læt frekar myndirnar tala sínu máli.Myndirnar eiga það hinsvegar sameiginlegt að vera teknar á sýningum Vetrarsport- árlegri sýningu vélsleðamanna á Eyjafjarðarsvæðinu. Þar eru alls ekki bara sleðar heldur öll möguleg tryllitæki til vetrarferða (og sumarferða líka) jeppar og allur mögulegur búnaður til útiveru. Vetrarsport 2011 verður einmitt haldin um helgina í Boganum og er liður í vetrarhátíðinni Éljagangur sem nú stendur yfir. (Að vísu er ekki éljum fyrir að fara norðan heiða eins og er, hitinn um 5 stig, nánast auð jörð og Vaðlaheiðin skjöldótt) Á sýninguna mun ég auðvitað kíkja með myndavélina og mjög líklega deilir maður einhverjum sýnishornum.
Neðst f.v. : Hér má sjá 43ára Land Cruiser, árg.1968 (hann var reyndar "ekki nema" 36 þegar myndin var tekin ) og vélsleða á ýmsum aldri. Fjórhjólið til vinstri fyrir miðju væri ansi hentugt þegar fannfergi er mikið og ryðja þarf svæði sem er annars vegar of stórt til að handmokstrar og hins vegar of þröngt fyrir stærri moksturstæki. Ekki veit ég hvað Polaris farartækið fyrir miðju myndi kallast en þetta er einskonar yfirbyggt fjórhjól á beltum (fjórbelti væri þá etv. nærtækara heiti en fjórhjól). Eflaust óstöðvandi í vetrarfærð á fjöllum. Gula tryllitækið efst t.v. er eflaust mikið þarfaþing fyrir bændur og fjallakappa. Mörg torfærutæki eru ekki hentug- jafnvel ólögleg til vegaumferðar og þá kemur traust farartæki á borð við þennan 6 hjóla GMC pickup efst t.h. í góðar þarfir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2011 | 14:33
Hús dagsins: Oddeyrargata 1
Oddeyrargata er nokkuð löng gata sem sker Brekkuna skáhallt ofan við Miðbæinn. Hún er að mestu byggð árin 1920-35 og við hana standa mörg reisuleg hús við stórar og gróskumiklar lóðir. Hún var um 1930 ásamt Brekkugötunni við efri mörk þéttbýlis en eftir 1935 tóku efri götur, Holtagata, Hlíðargata, Munkaþverárstræti og Bjarkarstígur (þar sem við vorum stödd í síðasta pistli um Davíðshús) að byggjast. Efst þessarar byggðar var Helgamagrastræti en þar reis fjöldi húsa 1936-37 öll svipuð að gerð. En ofan við byggðina voru beitarlönd en á þessum árum voru kýr á mörgum heimilum í kaupstaðnum. Kúm Oddeyringa var smalað upp og niður Oddeyrargötuna sem fékk þannig við viðurnefnið Kúagata.
En neðsta hús, nr. 1 við Oddeyrargötuna er lítið einlyft steinhús með háu risi. Það er byggt 1922 eftir teikningum Sveinbjarnar Jónssonar, en hann teiknaði og byggði tugi húsa á Akureyri og víðar. Oddeyrargata 1 er reist úr r-steini sem var uppfinning Sveinbjarnar frá 1919 og er húsið því með fyrstu r-steina húsunum. Það fyrsta er tveimur árum eldra og stendur einmitt litlu ofar við Oddeyrargötuna, nr.15. En r-steinninn var mjög vinsæll í húsbyggingum á fyrri hluta 20.aldar. Oddeyrargata 1 er hannað sem einbýlishús og hefur verið að ég held alla tíð. Húsið er í mjög góðri hirðu, er einfalt og látlaust en þó sérstætt í útliti og örlítill, hallandi kvistur á risinu, beint upp af smáglugga á framhlið gefur húsinu skemmtilegan svip. Ekki veit ég hvort kvisturinn er upprunalegur eða seinni tíma viðbót. Þessi mynd er tekin 2.2.2011.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.2.2011 | 18:06
Hús dagsins: Bjarkarstígur 6; Davíðshús
Það eru nokkur hús hér á Akureyri sem ég hef sett mér sem skylduviðfang, fyrst ég er að fjalla um skrautleg og/eða sögufræg hús hér í bæ. Eitt þeirra fór ég að ljósmynda ( ásamt fáeinum öðrum) í dag en þetta hús stendur við eina bröttustu götu bæjarins, Bjarkarstíg, nánar tiltekið Bjarkarstíg 6. En þetta er Davíðshús, kennt við Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) en húsið reisti hann árið 1944 og bjó þar til dánardags. Húsið er steinsteypt, einlyft á kjallara, grunnflötur nánast ferningslaga með valmaþaki; með nokkuð dæmigerðu lagi steinhúsa þess tíma en dálítið stærra og veglegra en almennt gekk og gerðist. Akureyrarbær erfði húsið eftir Davíð og er þar varðveitt mikið bókasafn hans og vistarverur eins og þær voru í hans tíð; í rauninni er engu líkara en að skáldið hafi bara brugðið sér frá í kaffi. Þar er einnig íbúð fyrir fræðimenn og rithöfunda sem leigð er út. Hér má finna nánari upplýsingar um Davíðshús. Myndin er tekin fyrr í dag, 2.2.2011.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 19
- Sl. sólarhring: 39
- Sl. viku: 282
- Frá upphafi: 450411
Annað
- Innlit í dag: 17
- Innlit sl. viku: 181
- Gestir í dag: 17
- IP-tölur í dag: 17
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar