29.4.2021 | 17:31
Hús dagsins: Strandgata 3 (og forverar á lóð)
Eitt stærsta hús Miðbæjarins stendur næstefst við Strandgötu, austan við Landsbankahúsið. Segja má, að húsið standi við fjórar götur, því að vestanverðu liggur húsið við Túngötu (efsta þvergatan norður úr Strandgötu), austurhliðin að Geislagötu og bakhliðin að Bankastíg. Síðasttalda gatan tengir saman Túngötu/Hólabraut við Geislagötu, framan við Geislagötu 5, sem um áratugaskeið hýsti Búnaðarbankann og arftaka hans. Um er að ræða Strandgötu 3. Húsið er eitt það yngsta við Strandgötuna og er byggt á árunum 1998-2000 af SS-Byggi en húsið var teiknað á Úti-Inni Arkitektastofu af Baldri Ólafi Svavarssyni.
Húsið er í stórum dráttum þrjár álmur, suðurálma er sex hæðir (sjö hæða turn) með flötu þaki en norðurálma er þrjár hæðir, einnig með flötu þaki. Álmurnar tengjast með einlyftri byggingu, sem er bogadregin meðfarm horni Strandgötu og Túngötu. Undir húsinu er bílastæðakjallari og stendur innkeyrsluhús, þríhyrnd steinsteypt bygging með grasi á þekju skammt vestan norðurálmu. Veggir eru múrhúðaðir og gluggar flestir póstlausir, dúkur á þaki. Á efri hæðum suðurálmu eru fjórar svalir á hverri hæð, til NA og SV. Húsið er á að giska um 25 m hátt.
Nú er sá sem þetta ritar í þeirri stöðu, að muna vel byggingu hússins og aðdraganda þess. Minnist síðuhafi þess, að hafa fyrst séð minnst á hugmyndina um sex hæða stórhýsi við Ráðhústorg í einhverjum kosningabæklingi fyrir sveitarstjórnarkosningar vorið 1998. Ekki voru menn á eitt sáttir við þessar hugmyndir- eins og oft vill verða þegar reisa á stórhýsi í rótgrónum hverfum. Um það leyti var á þessum slóðum plan eða bílastæði, sem hjólabrettakappar nýttu mikið og vinsælt að safnast þarna saman. Þarna hafði áður staðið lítið einlyft timburhús, sem hýsti Nætursöluna, en það hús var rifið snemma á 10. áratugnum. Þá var þarna afgreiðsla Bifreiðarstöðvar Akureyrar, sem Kristján Kristjánsson reisti á þriðja áratugnum en það hús var flutt af þessum stað áratugum fyrr. Strandgata 3 er nokkurn veginn óbreytt frá upphaflegri gerð. Húsið hefur hýst hina ýmsu starfsemi, t.d. var á fyrstu hæðum hússins veitingastaður að nafni Gleðibankinn. Hann var allt í senn, vídeóleiga, skyndibitastaður og spilakassasalur; sannkallaður Gleðibanki. Á götuhæð eru nú afgreiðsla Sjóvá-Almennra í suðurálmu, afgreiðsla Póstsins norðanmegin í norðurálmu og verslun Símans vestanmegin í milliálmu. Á efri hæðum eru skrifstofur m.a. lífeyrissjóða en íbúðir eru á efri hæðum suðurálmu. Húsið er, vegna stærðar sinnar, mjög áberandi kennileiti í Miðbænum. Það er sagt, í Húsakönnun 2014, hafa gildi fyrir Ráðhústorgs og nágrennis og standa á áberandi stað í Miðbænum. Það er þó ekki talið hafa verulegt varðveislugildi, enda á það sjaldnast við um byggingar á þrítugsaldri. Myndin er tekin 19. janúar 2020, horft til suðvesturs af Geislagötu.
Núverandi hús er svosem ekki fyrsta stórhýsið á lóðinni. Fyrsta húsið sem reis á þessum slóðum var tvílyft timburhús á háum kjallara og með háu risi og þremur burstum. Það hús var eitt af stærstu húsum Oddeyrar á þeim tíma og kallaðist Hornhúsið eða Horngrýti, en það byggðu þeir Kolbeinn Árnason og Ásgeir Pétursson árið 1905. Þeir fengu leyfi til að reisa hús, 16x26al. [ca.10x16,3m] með útskotum á báðum framhliðarhornum, 1 al. [63cm] til hvorrar hliðar. Þetta glæsta hús stóð einungis í hálft annað ár, því að kvöldi 18. október 1906 kom upp eldur í húsinu sem fyrir tilstilli óhagstæðrar vindáttar og frumstæðra brunavarna breiddist út til næstu húsa og brunnu þau öll til ösku. Er þessi stórbruni jafnan kallaður Oddeyrarbruninn. Á þessari mynd sést Hornhúsið á Strandgötu 5, h.u.b. fyrir miðri mynd.
Í marsbyrjun 1907 fékk Jón nokkur Norðmann leyfi til þess að endurbyggja húsið. Hugðist hann reisa það á grunni Hornhússins en nefnd gat ekki orðið við því þar sem ákveðið hafði verið að færa götulínuna. Reisti Jón veglegt timburhús með háu risi og miðjukvisti en mjög fljótlega keypti Ragnar Ólafsson, kaupmaður og athafnamaður húsið og átti það lengi á eftir. Í húsinu voru íbúðir, ýmsar verslanir, m.a. Leðurvörur, útibú Búnaðarbankans og sápubúð á fyrri hluta 20. aldar. Hús þetta stendur enn og er það með víðförlari húsum, því tvisvar hefur það verið flutt. Upp úr 1970 var það flutt að Lónsá í Glæsibæjarhreppi, um 5 km leið og fékk þar nefnið Berghóll. Um 2015 var það svo aftur flutt, aðra 5 km út á Moldhaugaháls, þar sem það mun nú nýtt sem aðstaða fyrir starfsmenn malarnáma á svæðinu.
Hér má sjá umrætt hús, sem Jón Norðmann reisti á Strandgötu 5 árið 1907 og stóð þar í rúm 60 ár. Nú stendur það á Moldhaugahálsi, skammt norðan og ofan við bæinn Moldhauga, um 9 km frá miðbæ Akureyrar.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 282, 23. des. 1904. Fundur nr. 283, 12. jan. 1905. Fundur nr. 324. 2. mars 1907 . Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2021 | 15:35
Hús dagsins: Hvoll í Glerárþorpi (Stafholt 10)
Fyrir réttum áratug (19. apríl) og degi betur birti ég mynd af Hvoli í Glerárþorpi ásamt nokkrum öðrum af gömlu býlum Glerárþorps. Ekki var umfjöllunin löng, aðeins fáeinar setningar. Hér er öllu ítarlegri grein um hið látlausa og geðþekka, hátt í 12 áratuga gamla timburhús ofan Sandgerðisbótar. Heimildir um Glerárþorpsbýlin eru að mörgu leyti takmarkaðri og óaðgengilegri heldur en um húsin á t.d. Oddeyri, Innbænum og Brekkunni. Ég hef ekki fundið skipulagðar húsakannanir um þau, líkt og til eru um hin hverfin- en mögulega eru þær til þó ég hafi ekki vitneskju um það. Glerárþorpsbýlanna er ekki getið í Byggðum Eyjafjarðar enda töldust þau fæst til fullgildra býla samkvæmt hefðbundnum skilgreiningumog gögn Bygginganefndar Akureyrar fyrir 1955 ná ekki yfir Glerárþorp- einfaldlega vegna þess að það var ekki hluti Akureyrar fyrir þann tíma. Ein ítarlegasta heimildin er grein Lárusar Zophoníassonar, Glerárþorp- 100 ára byggð, sem birtist í tímaritinu Súlum árið 1980.
Hvoll stendur við götuna Stafholt, lítið eitt vestan við Krossanesbraut, vestan og ofan Sandgerðisbótar. Húsið mun eitt elsta uppistandandi hús í Glerárþorpi, að Lögmannshlíðarkirkju undanskilinni, byggt um 1905.
Hvoll er einlyft timburhús með háu risi og á lágum grunni. Á austurstafni er viðbygging með aflíðandi einhalla þaki og inngönguskúr að framanverðu. Húsið er allt bárujárnsklætt, nema hvað inngönguskúr er timburklæddur. Þverpóstar í gluggum.
Heimildum ber raunar ekki saman um hvenær húsið er byggt, í bókinni Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs er húsið sagt byggt 1902 en í grein Lárusar Zophoníassonar um byggðasögu Glerárþorps, sem birtist í tímaritinu Súlum (10. árg., 1980) er húsið sagt byggt 1905. En þann 22. mars það ár mun Jakob nokkur Sigurgeirsson hafa fengið leyfi til að reisa þarna þurrabúð. Jakob var fæddur í Vindhælishreppi í Húnavatnssýslu árið 1859 og vann m.a. sem matsveinn á skipum. Ekki fylgja lýsingar á þurrabúðinni og engar teikningar finnast af húsinu á kortavef Akureyrar. Höfundur getur sér til, að vesturhluti hússins, sá með háa risinu sé elsti hluti hússins. Höfðu þau Jakob og Pálína verið í húsmennsku í tvö ár á Melstað, sunnar í Glerárþorpi.
Í Manntali 1910 eru fjórir einstaklingar skráðir til heimilis á Hvoli í Lögmannshlíðarsókn, fyrrgreindur Jakob, kona hans Pálína Einarsdóttir, Njáll sonur þeirra og leigjandi að nafni Steinmóður Þórsteinsson. Pálína var framan úr Saurbæjarhreppi, nánar tiltekið frá Ytri- Villingadal. Bjuggu Jakob (d. 1926) og Pálína (d.1948) á Hvoli til dánardægurs og Njáll sonur þeirra um langt árabil eftir þeirra dag. Þannig var Hvoll í eigu sömu fjölskyldu um áratugaskeið. Þegar Glerárþorp var lagt undir lögsagnarumdæmi Akureyrarkaupstaðar tók fljótlega að myndast þéttbýli. Uppbygging þéttbýlis hófst syðst og austast, Holta- og Hlíðahverfi. Síðu- og Giljahverfi byggðust löngu síðar. Gömlu býli Þorpsins fengu öll númer við götur hverfana, og varð Hvoll nr. 10 við Stafholt.
Hvoll er í afbragðs góðri hirðu og til mikillar prýði, og sama er að segja af umhverfi þess. Það stendur á áberandi og skemmtilegum stað, á hól ofan Stafholts skammt frá Krossanesbraut, sem er ein af stofnbrautum hverfisins. Umhverfis húsið og neðan þess er gróskumikill asparlundur. Hús á borð við Hvol, gömul býli í nýrri hverfum, setja ævinlega skemmtilegan svip á umhverfið og hef ég áður lýst þeirri skoðun, að slík hús ættu að njóta varðveislugildis eða friðunar. Hvoll er væntanlega aldursfriðað skv. lögum nr. 80/2012 um menningarminjar, þar eð það er orðið 100 ára gamalt. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 13. nóvember 2016.
Heimildir: Lárus Zophoníasson.1980. Glerárþorp 100 ára byggð. Súlur X. árg. (bls. 3-33)
Steindór Steindórsson. (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2021 | 16:07
Hús dagsins: Ráðhús Akureyrar (Geislagata 9, gamla Slökkvistöðin)
Aðsetur bæjarstjórnar og stjórnsýslu Akureyrarbæjar, m.ö.o. Ráðhús bæjarins er að Geislagötu 9. Húsið er eina hús Geislagötu norðan Gránufélagsgötu og stendur á móts við Sjallann. Vestan hússins eru bakgarðar húsa við austanverða Laxagötu og nokkurn spöl norðan Ráðhússins er Akureyrarvöllur. Austan hússins er Glerárgata. Húsið er reisulegt steinsteypuhús á fjórum hæðum og kjallara, með háu valmaþaki, byggt árin 1949-66, auk viðbyggingar frá árinu 2000, eftir teikningum Eiríks Einarssonar og Sigurðar Guðmundssonar. Þá er viðbygging á einni hæð með flötu þaki að vestanverðu, byggð eftir teikningum Svans Eiríkssonar. Efsta hæð er örlítið inndregin og slúttir þakbrún langt úr fyrir veggi. Gluggar eru með skiptum þverpóstum. Þakdúkur og bárujárn er á þaki og veggir eru múrhúðaðir.
Það var á fundi bæjarstjórnar þann 6. júlí 1948, að samþykkt var að reisa nýja slökkvistöð. Skyldi henni valinn staður við vestanverða Geislagötu, norðan við Verslunarmannahúsið [Gránufélagsgata 9, rifin 1981] og skyldi húsið verða veglegt, þriggja til fjögurra hæða og með skrifstofum á efri hæðum. Það var hins vegar ekki fyrr en ári síðar, eða 29. júlí 1949, að bygginganefnd samþykkti, eftir tillögu bæjarstjórnar, fyrir sitt leyti byggingarleyfi fyrir nýju slökkvistöðinni. Ekki hafði nefndin um það fleiri orð, en þess má geta, að í þessum sama dagskrárlið fundarins samþykkti nefndin einnig byggingu Sjúkrahússins (FSA) og viðbyggingar við Barnaskólann. Í janúar 1950 er sagt frá í Degi, að á nýliðnu ári hafi hinar ýmsu stórbyggingar verið í smíðum, áðurnefnt sjúkrahús, sundlaugarbyggingin, heimavist MA og slökkvistöðin Það mun hafa verið í ársbyrjun 1953, að slökkviliðið flutti inn í hið nýja hús, sem þá var aðeins fyrsta hæðin. Jafnframt hófst þá sólarhringvakt útkallsliðs slökkviliðsins. Skömmu áður, eða í 3. ágúst 1952 hafði Náttúrugripasafn Akureyrar verið opnað almenningi í Nýju Slökkvistöðinni. Árið 1959 var hafist handa við byggingu efri hæða hússins og sjö árum síðar var húsið fullgert. Um haustið 1966 taldist húsið svo fullnýtt þegar Rafveita Akureyrar fluttist í húsið. Var hún á þriðju hæðinni ásamt tæknideild bæjarins, bæjarskrifstofur og skrifstofa bæjarstjóra á annarri hæð og fundarsalur og kaffistofa á fjórðu hæð.
Slökkvilið bæjarins hafði aðsetur á jarðhæð hússins í rétt 40 ár en núverandi slökkvistöð Akureyrar, við Þórsstíg á norðanverðri Oddeyri var tekin í notkun 1993. Um 1998 var byggt við húsið til vesturs, ein hæð með flötu þaki og fékk húsið það lag sem það nú hefur. Að utanverðu er Ráðhúsið að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð, en eins og nærri má geta hefur innra skipulagi þess oftsinnis verið breytt og bætt í samræmi við kröfur um aðstöðu og aðgengi. Þegar húsið er skoðað á kortavef Akureyrar birtast um 140 mismunandi teikningar (upprunalegar teikningar þó ekki þar á meðal). Fyrir rúmum áratug eða svo var t.d. inngangi og anddyri breytt og fast við fyrri inngöngudyr, við stigahúsið, var sett lyfta. Er hún öll glerjuð, svo lyftuferð á efri hæðir hússins jafngildir nokkurra sekúndna útsýnistúr yfir Oddeyrina.
Ráðhúsið, eða gamla Slökkvistöðin, er eitt af helstu kennileitum Oddeyrar og Miðbæjarsvæðisins, ásamt Sjallanum, JMJ-húsinu og Hótel Norðurlandi svo fáein séu nefnd, á þessum slóðum. Í Húsakönnun 2014 er Ráðhúsið sagt hafa gildi fyrir umhverfi sitt sem reisuleg bygging á áberandi stað, og menningasögulegt gildi þess verulegt sem Ráðhús bæjarins. Kannski friðun hússins væri æskileg...?
Myndin er tekin 1. nóvember 2020.
Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1948-1957. Fundur nr. 1112, 29. júlí. 1949. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Jón Hjaltason. 2016. Bærinn brennur. Akureyri: Völuspá útgáfa.
Bloggar | Breytt 13.4.2021 kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.4.2021 | 10:34
Gleðilega páska
Óska ykkur öllum, nær og fjær gleðilegra páska.
Páskamyndin í ár er tekin við mót Grænásbrautar og Skógarbrautar á Ásbrú í Reykjanesbæ, sl. miðvikudag, 31. mars og sýnir m.a. Fagradalsfjall. Það sem virðast vera skýjabólstrar fyrir miðri mynd er í raun gosmökkur úr Geldingadölum. Í góðu skyggni má sjá rjúka úr fjallinu líkt og úr skorsteini.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
2.4.2021 | 10:19
Hús dagsins: Sandvík í Glerárþorpi (Lyngholt 30)
Sandvík stendur um skammt sunnan og ofan Sandgerðisbótar og er númer 30 við götuna Lyngholt. Húsið byggði Kristján Jósefsson trésmiður og síldarmatsmaður árið 1929. Hann var Þingeyingur, fæddur að Ytri-Leikskálaá í Þóroddsstaðasókn.
Sandvík er reisulegt einlyft steinhús á háum kjallara (aðeins niðurgrafinn öðru megin þar eð húsið stendur í brekku) og með miðjukvisti. Á norðurstafni er útskot, lítið eitt lægra en húsið, hornsneitt með risi. Krosspóstar eru í gluggum, timburklæðning á veggjum og bárujárn á þaki. Ekki liggur fyrir hver teiknaði húsið, en það er af nokkuð dæmigerðri gerð stærri steinsteyptra íbúðarhúsa frá fyrri hluta 20. aldar.
Þegar steinhúsið á Sandvík var byggt var það með þeim stærri og veglegri í Þorpinu, ekki ósvipað húsum við t.d. Munkaþverárstræti og Eyrarlandsveg, á Akureyri. Glerárþorp var þá þyrping smábýla og tilheyrði Glæsibæjarhreppi. Sjaldnast var um stórbúskap að ræða á býlum Glerárþorps, enda lönd fæstra þeirra það víðlend, að þau gætu framfleytt miklum bústofni. En ekki fara endilega saman magn og gæði og ekki allt fengið með því fyrrnefnda einu og sér. Síðuhafa er ekki kunnugt um skepnuhald á Sandvík (Glerárþorpsbýlin eru ekki á síðum bókanna góðu, um Byggðir Eyjafjarðar) en vafalítið hafa þar verið fáeinar kindur, kýr og hænsni. Eftir að Þorpið var lagt undir Akureyri hófst þar uppbygging þéttbýlis, þ.á.m. við göturnar Lyngholt og Steinholt. Var þá búskap, hversu smár eða stór sem hann var í sniðum, sjálfhætt. Býlin fengu flest númer við hinar nýju götur, og varð Sandvík hús númer 12 við Steinholt. Árið 1976 var götuheitunum breytt og Steinholt lagt niður. Þau hús, sem staðið höfðu við Steinholt fengu þannig ný númer við Lyngholt. Sandvík eða Steinholt 12, varð Lyngholt 30.
Áðurnefndur Kristján Jósefsson, sem byggði húsið lést 1951, en sonur hans, Jósep og tengdadóttir Guðrún Jóhannesdóttir bjuggu þar áfram um áratugaskeið. Jósep Kristjánsson, eða Jósep í Sandvík var mikilvirkur myndlistarmaður og var annálaður fyrir landslagsmálverk. Eflaust státa fjölmörg heimili af einhverju verka Jóseps í Sandvík uppi á veggjum.
Sandvík er reisulegt hús og í góðri hirðu. Það var gert upp af mikilli vandvirkni og natni um 1995, m.a. klætt upp á nýtt og er síðan allt hið glæstasta. Voru þær framkvæmdir eftir teikningum Aðalsteins V. Júlíussonar. Umhverfi hússins er einnig mjög snyrtilegt, gróskumikið og í góðri hirðu. Þá stendur húsið á skemmtilegum stað og blasir við hverjum þeim sem leið eiga um Krossanesbrautina til norðurs. Eðlilega mynda býlin gömlu í Glerárþorpi ekki heildstæðar götumyndir, heldur standa á víð og dreif, innan um yngri byggð. Við götuna Lyngholt standa nokkur gömul býli auk Sandvíkur, m.a. Kristnes, Bergstaðir og Lyngholt, sem gatan dregur nafn sitt af. Um varðveislugildi býlana í Glerárþorpi er síðuhafa ókunnugt um, en að hans áliti ættu þau öll að njóta varðveislugildis- ef ekki friðunar. Myndin er tekin þann 22. maí 2011.
Heimildir: Lárus Zophoníasson.1980. Glerárþorp 100 ára byggð. Súlur X. árg. (bls. 3-33)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2021 | 16:20
Hús dagsins: Hofsbót 4
Um daginn vorum við stödd úti í Glerárþorpi, eftir að hafa dvalið um nokkurt skeið við syðstu byggðir Akureyrar. En nú förum við milliveginn- bókstaflega- því nú ber okkur niður í Miðbænum.
Hofsbót er stutt gata (um 150m) sem tengir efsta hluta Strandgötu í norðri og Skipagötu í suðri og liggur í boga yfir bílastæðasvæði Miðbæjarins. Þessi hringtenging er uppistaða í hinum valinkunna rúnthring Miðbæjarins. Kannski halda einhverjir, að Hofsbót dragi nafn sitt af Menningarhúsinu Hofi, en það er sjálfsögðu ekki svo, enda gatan til komin áratugum á undan Hofi. Hofsbót er gamalt heiti á Akureyrarhöfn eða krikanum við suðvesturhluta Oddeyrar og jafnvel Pollinum öllum (sbr. Steindór Steindórsson 1993: 134). Miðbæjarsvæðið hefur þannig löngum kallast Bótin, og íbúar þess Bótungar. Í upphafi 3. áratugs 21. Aldar stendur aðeins eitt hús við Hofsbót, en þeim kann að fjölga, gangi hugmyndir um nýtt Miðbæjarskipulag eftir.
Umrætt hús er Hofsbót 4. Húsið var fullbyggt 1988, en það var á vordögum 1987 að Verkfræðistofa Norðurlands auglýsti eftir tilboðum í byggingu 3500 m3 húss en auk þeirra stóðu Fatahreinsun Vigfúsar og Árna og þrír tannlæknar að byggingu hússins. Öllum tilboðum var hafnað. Engu að síður var bygging hússins hafin í lok september 1987. Byggingarmeistarar hússins voru Jón Björnsson, Björgvin Björnsson og Sigurður Arngrímsson en húsið var teiknað á teiknistofunni Form. Á upplýsingakorti Akureyrarbæjar birtast fjölmargar teikningar af húsinu og hlutum þess, áritaðar af Eiríki Jónssyni.
Hofsbót 4 er fjögurra hæða steinsteypuhús með flötu þaki. Efsta hæð er inndregin sunnan og þar eru svalir, en þá er einnig útbygging til vesturs og svalir ofan á þeim. Gluggasetning efri hæða er þannig, að þrír gluggar sitja saman með breiðum timburþiljum á milli, og hvert gluggastykki aðskilið af steyptum þverböndum. Á jarðhæð eru verslunargluggar. Efsta hæð er að mestu glerjuð, en þar er um nýlega framkvæmd að ræða. Veggir eru múrhúðaðir en dúkur á þaki.
Húsið hefur frá upphafi hýst hina ýmsu starfsemi, þarna var sem áður segir fatahreinsun á neðstu hæð, ljósmyndaþjónusa og framköllun, tannlæknastofur á efri hæðum og Verkfræðistofa Norðurlands var í húsinu frá byggingu. Hún sameinaðist árið 2011 verkfræðistofunni Eflu undir nafni hinnar síðarnefndu. Jarðhæð hefur löngum skipst í tvö verslunarrými; nú eru í syðri hluta rakarastofa en í vefnaðarvöruverslunin Vogue hefur verið í nyrðri hluta um árabil. Íbúð er á efstu hæðinni, en hún var innréttuð um 2018 eftir teikningum Árna Gunnars Kristjánssonar.
Fyrir fáeinum misserum fóru miklar endurbætur fram á efstu hæð hússins en að öðru leyti er það að mestu óbreytt frá upphafi. Húsið setur nokkurn svip á Miðbæinn og er í ágætu samræmi við nærliggjandi byggingar, hvað varðar stærð og útlit. Það tekur þátt í sameiginlegri sexhyrndri götumynd efsta hluta Strandgötu, Ráðhústorgs, Skipagötu og Hofsbótar, sem á uppruna sinn í fyrsta Aðalskipulagi Akureyrar frá 1927. Húsið er ekki talið hafa verulegt varðveislugildi í Húsakönnun 2014, enda á það yfirleitt ekki við um hús á þrítugs- eða fertugsaldri. Kannski mun Hofsbót 4 hljóta varðveislugildi þegar líða tekur á þessa öld...Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.
Heimildir: Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Steindór Steindórsson. (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.3.2021 | 16:02
Hús dagsins: Lyngholt í Glerárþorpi (Lyngholt 10)
Síðustu vikur hef ég haldið mig nærri syðri mörkum Akureyrarkaupstaðar, en nú færi ég mig norður yfir Glerá. Um Lyngholt í Glerárþorpi skrifaði ég stuttan pistil í árslok 2011. Hér er eilítið endurbættur og ítarlegri pistill...
Lyngholt stendur við samnefnda götu skammt norðan Glerár, steinsnar frá Hörgárbraut. Um er að ræða steinhús frá 3. áratug síðustu aldar. Upprunalega var byggður bær í Lyngholti árið 1903 og munu fyrstu ábúendur hafa verið þau Aðalsteinn Halldórsson og Kristbjörg Þorsteinsdóttir. Hann lést árið 1914 en hún bjó þar áfram ásamt börnum sínum.
Árið 1927 stóð Kristbjörg fyrir byggingu veglegs steinhúss í Lyngholti sem enn stendur. Ekki liggur fyrir hver teiknaði húsið, mögulega Halldór Halldórsson eða Tryggvi Jónatansson. Í fundargerðum Bygginganefndar Akureyrar frá þessum tíma stendur ekki stafur um Lyngholt, enda tilheyrði Glerárþorp ekki Akureyri á þeim tíma. Lyngholt er tvílyft steinsteypuhús á kjallara, með lágu risi.Á þaki er bárujárn, veggir múrsléttaðir og tvískiptir þverpóstar í gluggum.
Kristbjörg Þorsteinsdóttir bjó í Lyngholti ásamt stórfjölskyldu til æviloka, en hún lést árið 1947. Á meðal sex barna Kristbjargar og Aðalsteins var Steingrímur (1903 - 1993) verkalýðsleiðtogi og alþingismaður en hann sat á þingi fyrir Sameiningarflokk Alþýðu (Sósíalistaflokkinn) árin 1942-53, forseti efri deildar þingsins 1942-46. Hann bjó á Lyngholti til 1932 og hefur væntanlega komið að byggingu steinhússins ásamt móður sinni og systkinum. Líkt og tíðkaðist í Glerárþorpi var einhver búskapur í Lyngholti, en ekki var hann stór í sniðum. Honum var síðan sjálfhætt þegar þéttbýli tók að myndast í Þorpinu. Gatan Lyngholt tók að byggjast á sjötta áratug síðustu aldar og fékk bærinn númerið 10 við hina samnefndu götu. Elstu heimildir sem finnast á gagnagrunninum timarit.is um Lyngholt 10 eru frá 1957.
Lyngholt er lítt breytt frá upphafi að ytra byrði en er í mjög góðri hirðu og er til mikillar prýði í umhverfi sínu. Tvær íbúðir munu í húsinu, hvor á sinni hæð. Húsið stendur á nokkuð áberandi stað, rétt við Þjóðveg 1 gegnum bæinn. Það er álit undirritaðs, að býlin í Glerárþorpi, og fyrrum býli inni í þéttbýli yfirleitt, eigi að hljóta ótvírætt varðveislugildi eða jafnvel friðun. Lyngholt er þar að sjálfsögðu engin undantekning. Myndin er tekin þann 18. júní 2011.
Heimildir: Lárus Zophoníasson.1980. Glerárþorp 100 ára byggð. Súlur X. árg. (bls. 3-33)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2021 | 11:50
Hús dagsins: Galtalækur
Galtalækur stendur uppi á hól, nokkurn veginn lóðbeint á móti flugstöðvarbyggingu Akureyrarflugvallar. Sunnan hússins rennur Galtalækurinn um Grásteinsgil. Áður bar mikið á Galtalæk þegar ekið var um Drottningarbrautin við Flugvöllinn, en hóllinn, gilið og húsið er að mestu hulið skógi. (Það er líklega orðið óhætt, að tala fullum fetum um skóg í syðstu brekkum bæjarins).
Galtalækur, sem stendur tæpa 3 km frá Miðbænum, er steinsteypt, járnklætt hús, vesturálma einlyft með með háu en aflíðandi risi og snýr stafni mót austri en vesturálma, sem einnig er með háu risi, er háreistara og snýr stöfnum norður-suður. Fjöldi póstlausra glugga setja nokkurn svip á framhlið en sjá má í hendi sér, að húsið er fyrrverandi fjós og hlaða.
Í Byggðum Eyjafjarðar má ráða, að upphaf Galtalækjarbýlisins megi rekja til ársins 1908 er Sigurður Sigurðsson, framkvæmdastjóri Ræktunarfélagsins hóf þar búskap, smáan í sniðum. Galtalækur mun byggður úr landi Nausta. Það var síðan árið 1916 sem Ræktunarfélagið keypti af honum Galtalæk og hóf þar kúabúskap. Drjúgan hluta 20. aldar, eða allt til 1974, hafði Ræktunarfélagið og síðar Tilraunaráð ríkisins mikil umsvif á Galtalæk. Var þar rekin tilraunastöð og fór þar fram mikil uppbygging. Árið 1924 var m.a. reist á Galtalæk veglegt steinsteypt fjós og 1954 var íbúð fjósameistara, sem fluttist á Mela, breytt í fjós. Þá hafði Tilraunaráðið eignast bæði Mela og Háteig en síðarnefnda býlið var íbúð framkvæmdastjóra.
Var það einmitt framkvæmdastjórinn, Árni Jónsson, sem stóð fyrir byggingu fjóss og hlöðu árið 1961, sem enn standa. Upprunalegar teikningar er ekki að sjá á landupplýsingakorti Akureyrarbæjar, en þar má hins vegar sjá járnateikningar eftir Ásgeir Markússon. Húsið var að hluta til byggt á grunni gamla fjóssins. Rúmaði fjósið 40 mjólkurkýr og 6-8 kálfa (sjá nánar tengil: ítarleg viðtal við Árna Jónsson í Íslendingi, 15. des. 1961). Í hinu nýja og vandaða fjósi voru kýr fram til ársins 1974 (reyndar var hlé á kúabúskap Tilraunaráðsins 1965-´69). Fluttist þá starfsemin út að Möðruvöllum í Hörgárdal. Keypti Akureyrarbær eignirnar og árið 1975 komst húsið í eigu Flugbjörgunarsveitarinnar á Akureyri, gegn um makaskipti við bæinn. Björgunarsveitin innréttaði í fjósinu í félagsheimili og stjórnstöð. Húsið var aðsetur sveitarinnar í nær aldarfjórðung, en hún sameinaðist Hjálparsveit Skáta og Sjóbjörgunarsveitinni Súlum undir nafni hinnar síðasttöldu haustið 1999. (Gaman að geta þess, að húsnæði Hjálparsveitar Skáta var einmitt líka í gömlu fjósi, að Lundi).
Árið 2001 var húsinu breytt í íbúðarhús eftir teikningum Haraldar Árnasonar. Vesturálman varð íbúðarrými en austurálma (hlaðan) bílskúr. Er húsið nú einbýlishús. Galtalækur er reisulegt og glæst hús, með hið skemmtilega byggingarlag fjóss og hlöðu, og stendur á áberandi stað. Húsið er eitt af gömlu býlunum torfunni sunnan Innbæjarins og eru þau öll prýði í skemmtilegu og grónu umhverfi. Þessi býli, (frá suðri til norðurs), Brunná, Galtalækur, Melar, Litli-Garður og Háteigur ættu auðvitað öll að njóta einhvers varðveislugildis. Galtalækur er umlukinn smekklegum trjágróðri. Myndin er tekin þann 6. febrúar 2021, en þess má geta, að vegna fyrrnefnds trjágróðurs var einkar snúið að finna frambærilegt sjónarhorn á Galtalækjarhúsið.
Heimildir: Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2021 | 19:41
Hús dagsins: Brunná
Lítið eitt ofan Eyjafjarðarbrautar, við afleggjarann upp í Kjarnaskóg stendur Brunná. Húsið, sem er líkast til syðsta íbúðarhús Akureyrar, reistu þau Árni Böðvarsson og Hólmfríður Stefánsdóttir sumarið 1946, en byggingaleyfi fengu þau veturinn eftir, eða í mars 1947. Sunnan við húsið rennur Brunná (sjá mynd hér að neðan) en hún á upptök sín á Súlumýrum og fellur niður Löngukletta gegnum Hamrasvæðið og Kjarnaskóg og í Eyjafjarðará við flugbrautina.
Brunná er einlyft steinhús með lágu valmaþaki, með útskot á miðri framhlið. Veggir eru með sléttum múr og bárujárn á þaki en krosspóstar í gluggum. Aðrar byggingar á Brunná eru m.a. útihús og lítill geymsluskúr úr timbri og bárujárni um 50 metrum norðan íbúðarhússins. Frá Brunná eru rúmir 4km að Miðbæ Akureyrar, en um 500m að mörkum Akureyrar og Eyjafjarðarsveitar.
Upprunalega var byggt á Brunná, sem byggð er úr landi Kjarna, árið 1889 en þá lá jörðin undir Hrafnagilshrepp. Þar var að verki Baldvin Jónatansson, eigandi og ábúandi Kjarna, sem þarna hugðist starfrækja eins konar vegasjoppu, þ.e. selja ferðalöngum greiða, kaffi og vindla. Enda staðurinn í alfaraleið Upprunalega bæjarstæðið var nokkuð neðar og vestar en núverandi hús, á Brunnáreyri, mögulega á svipuðum slóðum og nú eru öryggismörk Akureyrarflugvallar. Brunná er ekki landmikil jörð en náði þó að framfleyta einhverjum tugum kinda, fáeinum kúm og hrossum á fyrri hluta 20. aldar. Árið 1930 fór Brunná í eyði og var það í hálfan annan áratug.
Árið 1946 eignuðust þau Árni Böðvarsson og Hólmfríður Stefánsdóttir Brunnárlandið. Höfðu þau búið á Melum, sem stendur spölkorn norðan og ofan Brunnár. Munu þau hafa búið í tjöldum á enginu við gamla bæjarstæðið meðan húsið var í byggingu (sbr. Guðmundur, Jóhannes og Kristján 1990: 716). Í Byggðum Eyjafjarðar kemur fram, að Brunnárhúsið sé byggt 1946. Það er hins vegar ekki fyrr en 7. mars 1947, sem Bygginganefnd Akureyrar heimilar Árna Böðvarssyni að reisa íbúðarhús á erfðafestulandi sínu, skv. meðfylgjandi uppdrætti. Réttum tveimur vikum fær Árni lóð undir hús sitt, sem hann hefur þegar reist á erfðafestulandi sínu. Þannig er ljóst, að húsið var risið. Óskaði Árni eftir lóð ca. 80 100m á lengd meðfram þjóðvegi og lóðarréttindi undir veg að húsinu. Fékk hann lóðina en nefndin féllst ekki á, að hann fengi sérstaka lóð undir veg en tók fram, að húsi þeirra verði séð fyrir vegi, er landið verður skipulagt til bygginga. Mögulega hafa verið einhverjar hugmyndir um uppbyggingu þéttbýlis á þessum slóðum síðar meir- þetta var fyrir tíma Kjarnaskógar.
Árni og Hólmfríður bjuggu á Brunná til ársins 1957 og keyptu þá Gústaf Jónsson og Hlín Jónsdóttir býlið. Árni stundaði kartöflurækt og hafði tvö hross og tólf kindur, en bústofn Brunnárbænda mun ekki hafa orðið mikið stærri en hjá honum, þó ábúendur hafi löngum haft hross, hænsni og fáeinar aðrar skepnur. Árið 1963 var byggt við húsið til norðurs eftir teikningum Hauks Árnasonar og fékk húsið þá það lag sem það síðan hefur. Að öðru leyti mun húsið lítið breytt frá upphafi. Húsið, sem er einfalt og látlaust er til mikillar prýði og má segja, að hið geðþekka steinhús heilsi öllum gestum Kjarnaskógar, sem þangað leggja leið sína frá Eyjafjarðarbraut. Á lóðinni er mikill trjágróður, m.a. belti af stæðilegum grenitrjám framan við húsið en trjágróðurinn sunnan og ofan hússins renna nokkurn veginn saman við Kjarnaskóg. Norðan og ofan hússins er beitarhólf hrossa. Myndirnar eru teknar þann 26. febrúar 2021.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1073, 7. mars 1947, nr. 1075, 21. mars 1947. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. II bindi. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2021 | 16:48
Hús dagsins: Melar, ofan Akureyrarflugvallar
Hátt upp í brekkunum ofan Akureyrarflugvallar, skammt norðan við Kjarnaskóg stendur húsið Melar. Býlið var stofnað árið 1918 af Þorsteini Kristjánssyni, en hann hafði fengið erfðafestuland úr landi Kjarna, um einn hektara að stærð. Núverandi hús er hins vegar ekki svo gamalt, en það reistu Árni Böðvarsson og Hólmfríður Stefánsdóttir árið 1938. Við athugun síðuhafa var ekki að sjá, að þeirra eða húsi þeirra væri getið í bókunum Bygginganefndar um það leyti, enda hefur þessi staður mögulega talist utan lögsögu hennar vegna fjarlægðar frá þéttbýlinu. En í Manntali 1940 kemur fram, að húsið sé tveggja ára og kemur þar einnig fram, að þar er hvorki salerni né vatnslögn.
Melar er einlyft r-steinshús á háum steyptum kjallara með einhalla, aflíðandi þaki. Veggir eru með múr og bárujárn á þaki og einfaldir póstar í gluggum.
Sem áður segir, hófst búskapur á Melum árið 1918. Ekki var um stórbýli að ræða og fyrsti ábúandinn ekki titlaður bóndi. Þar sem býlið var byggt úr landi Kjarna tilheyrði það í raun Hrafnagilshreppi. Það var nefnilega ekki fyrr en tveimur árum síðar, eða 1920, sem jarðirnar Hamrar og Kjarni voru formlega lagðar undir lögsagnarumdæmi Akureyrar, enda þótt bærinn síðarnefndu jörðina tíu árum fyrr. Árið 1925 keypti maður að nafni Benedikt Björnsson Mela en ábúendur þá voru bræður hans, Böðvar og Kristján. Böðvar lést árið 1933 og þremur árum síðar eru Melar sagðir fara í eyði. Nokkru síðar, mögulega 1938, keyptu synir Böðvars, þ.á.m. fyrrnefndur Árni, býlið af föðurbróður sínum og hófu þar mikla uppbyggingu. Auk hins nýja íbúðarhúss, sem enn stendur reistu þeir fjós og keyptu stærra erfðafestuland og varð jörðin alls 8 hektarar. Þegar mest var, samanstóð áhöfn Mela í tíð Árna og Hólmfríðar af fjórum kúm, 14 kindur og þremur hrossum. Árni og Hólmfríður bjuggu á Melum til ársins 1946 og átta árum síðar keypti Tilraunaráð ríkisins Mela. Eigandi þá var Erlingur Davíðsson, ritstjóri og rithöfundur. Tilraunaráðið hafði umsvif á torfunni sunnan og ofan Gróðrarstöðvarinnar til ársins 1974 er starfsemin var flutt að Möðruvöllum í Hörgárdal og húseignir hennar hér þ.m.t. Melar voru seldar. Hafa síðan ýmsir átt húsið og búið þar. Árið 1980 var byggt við húsið til norðurs, eftir teikningum Svans Eiríkssonar.
Íbúðarhúsið á Melum er reisulegt en látlaust hús í mjög góðri hirðu á einstaklega skemmtilegu bæjarstæði, hátt á brekkubrún. Hefur staðsetning þess verið enn meira áberandi, áður en bæjarbrekkurnar skrýddust trjágróðri en umhverfi hússins er einstaklega skemmtilegt; skógarreitur á aðra hönd og beitilönd hrossa á hina. Þá setur annað mannvirki norðan við húsið einnig skemmtilegan svip á umhverfið, en þar um að ræða skipstjórnarhús brú af skipi. Húsið á Melum er vitaskuld ekki þátttakandi í neinni götumynd- enn sem komið er- en hver veit nema þéttbýlið nái til Mela þegar fram líða stundir. Í því samhengi má nefna, að árið 2021 er bein loftlína frá Melum að Wilhelmínugötu, útvörð þéttbýlis í suðri á Akureyri, um 360 metrar. Tuttugu árum fyrr voru þessi sömu mörk um 1700 metrum norðan Mela, við Miðteig.
Meðfylgjandi mynd er einmitt tekin þann 6. febrúar 2021 á mótum Naustabrautar og téðrar Wilhelmínugötu, syðst í Naustahverfi (Hagahverfi).
Heimildir: Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. II bindi. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Manntal á Akureyri 1940.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 130
- Sl. sólarhring: 206
- Sl. viku: 489
- Frá upphafi: 446080
Annað
- Innlit í dag: 103
- Innlit sl. viku: 340
- Gestir í dag: 103
- IP-tölur í dag: 101
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar