23.10.2019 | 18:57
"Stórafmælishús" á Akureyri
Ég haft ófá orð um það hér, að vefur þessi eigi 10 ára afmæli á þessu ári og birt ýmislegt til gagns og kannski ekki síst gamans af því tilefni. Meðal annars lista yfir 100 elstu hús Akureyrar og birt yfirlit yfir alla pistla frá upphafi. En það er ekki bara þessi vefur þessi sem á stórafmæli, heldur einnig mörg elstu hús Akureyrar. Hér eru hús, komin á annað hundraðið í aldursárum, sem eiga stórafmæli í ár. Að sjálfsögðu er ævinlega örlítill fyrirvari á byggingarárum elstu húsanna.
170 ára:
Þrjú hús, sem öll standa við Aðalstræti eru talin byggð 1849 og eru því 170 ára í ár. Þjóðskáldið Matthías Jochumsson (sem bjó einmitt í Aðalstræti 50) var um fermingu þegar þessi hús voru byggð og Thomas Edison, sem fann upp ljósaperuna og fleiri hagnýta hluti var tveggja ára. Þessi hús voru 69 ára þegar Ísland varð fullvalda og 95 ára þegar Lýðveldið Ísland var stofnað á Þingvöllum. Og fyrst minnst er á stofnun Lýðveldisins má koma því, að aldursár þessara húsa eru álíka mörg og fjöldi daga frá áramótum til 17. júní.
Nonnahús, Aðalstræti 54.
Friðbjarnarhús, Aðalstræti 46.
Aðalstræti 50.
160 ára:
Gamla apótekið, Aðalstræti 4, sem nýverið hlaut gagngerar endurbætur og er nú ein af perlum Innbæjarins er byggt 1859 og á því "tvöfalt áttræðisafmæli" í ár. Húsið er þremur árum eldra en Akureyrarkaupstaður, sem stofnaður var 1862.
140 ára:
Lundargata 2, Háskenshús var byggt 1879 og er þannig jafnaldri Alberts Einstein.
120 ára:
Aðalstræti 17, Norðurgata 1, Norðurgata 3 og Spítalavegur 9 eru byggð 1899.
110 ára:
Hamborg, Hafnarstræti 94 er byggt 1909.
100 ára:
Eftir því sem ég kemst næst eru þrjú hús innan þéttbýlismarka Akureyrar (Ath. þekki því miður ekki til varðandi Grímsey og Hrísey) sem byggð eru 1919 og bætast því í ár í hóp þeirra 150-200 Akureyrarhúsa sem náð hafa 100 árum. Húsin eru Oddeyrargata 8, Gránufélagsgata 21 og Hafnarstræti 82.
Að sjálfsögðu óska ég öllum hlutaðeigandi, íbúum og eigendum umræddra húsa sem og fyrirtækjum og stofnunum sem þar eiga aðsetur til hamingju með stórafmælin.
Bloggar | Breytt 10.11.2019 kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.10.2019 | 19:50
Hús dagsins: Helgamagrastræti 34
Á síðasta degi febrúarmánaðar 1942 hélt Bygginganefnd Akureyrar sinn 900. fund frá stofnun hennar árið 1857 (Bygginganefnd var fimm árum eldri en kaupstaðurinn sjálfur). Á meðal þess sem nefndin tók fyrir á þessum tímamóta fundi var úthlutun lóða við norðanvert Helgamagrastrætið. Aðra lóð frá Krabbastíg (Bjarkarstíg) fékk Sigurður Pálsson en næstu lóð norðan við, þ.e. nr. 34 hlaut Ingólfur Kristinsson, starfsmaður Gefjunar. Skömmu síðar fékk Ingólfur að reisa íbúðarhús á einni hæð með kjallara undir þriðjungi grunnflatar, byggt úr r-steini með járnklæddu timburþaki. Stærð að grunnfleti 11,5x9,4m að grunnfleti, auk útskots að vestan, 1x6m. Húsið var byggt eftir teikningum Páls Friðfinnssonar
Helgamagrastræti 34 er einlyft steinsteypuhús á lágum grunni með lágu valmaþaki. Útskot á framhlið til vesturs og inngangur í kverkinni á milli. Einfaldir póstar í gluggum og horngluggar funkisstefnunnar á sínum stað, og vísa þeir til suðurs. Veggir eru með steiningu og bárujárn á þaki.
Ingólfur Kristinsson, sem byggði húsið bjó hér um áratugaskeið ásamt fjölskyldu sinni, en hann var kvæntur Grétu Jónsdóttur. Þau voru bæði fædd og uppalin á Akureyri. Sem áður segir vann Ingólfur hjá Gefjun en lengst af starfaði hann við Sundlaug Akureyrar. Ingólfur lést 1993 en Gréta 1982. Ýmsir hafa átt og búið í húsinu, sem er nánast óbreytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði. Árið 1992 var byggður bílskúr á lóðinni, eftir teikningum Haraldar S. Árnasonar og einnig er á lóðinni voldug timburverönd við suður- og vesturhlið. Lóðin og húsið er í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði. Þakjárn virðist nýlegt sem og steiningarmúr á veggjum. Húsið hlýtur, í Húsakönnun 2015, varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 900, þ. 28. febrúar 1942. Fundur nr. 906 þ. 24. apríl 1942 Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2019 | 19:32
Hús dagsins: Helgamagrastræti 32
Helgamagrastræti 32 reisti Sigurður Pálsson árin 1942-43 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Hann fékk í lok febrúar 1942 lóð austan Helgamagrastrætis, aðra lóð norðan væntanlegs Krabbastígs, sem nokkrum misserum síðar varð Bjarkarstígur. Í júlí sama ár er Sigurði heimilað að reisa íbúðarhús úr r-steini á steyptum kjallara, með steinlofti og járnklæddu timburþaki. Stærð hússins 12,20x9,5m.
Helgamagrastræti 32 er funkishús af stærri gerð, þ.e. að flatarmáli en er ekki háreist, einlyft steinhús með lágu valmaþaki. Útskot er nyrst á framhlið og inngöngudyr í kverkinni á milli og svalir sem skaga út fyrir suðurhorn hússins í boga. Einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum, bárujárn á þaki og steining á veggjum. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, einbýlishús. Um miðja 20. öld fluttust í Helgamagrastræti 32 þau Friðjón Skarphéðinsson og Sigríður Ólafsdóttir. Friðjón, sem fæddur var á Oddstöðum á Miðdölum árið 1909, var skipaður bæjarfógeti á Akureyri og sýslumaður í Eyjafirði árið 1945 og gegndi þeim embættum um árabil. Hann sat á Alþingi 1956-´63 og gegndi í eitt ár, 1958-59, sem dómsmála- landbúnaðar- og félagsmálaráðherra. Bjuggu þau Friðjón og Sigríður hér fram undir 1967 en þá fluttust þau til Reykjavíkur þar sem hann gegndi stöðu yfirborgarfógeta. Friðjón lést árið 1996.
Ýmsir hafa átt húsið og búið í gegn um tíðina. Á tíunda áratug 20. aldar átti Leikfélag Akureyrar húsið og var húsið þá nýtt sem tímabundinn íverustaður leikara og leikstjóra sem komu til bæjarins að taka þátt í leiksýningum. Var húsið nokkuð endurnýjað að innan þegar það var í eigu leikfélagsins, en ekki voru gerðar neinar stórvægilegar breytingar á húsinu. Húsið er raunar að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð en hefur alla tíð hlotið gott viðhald. Sama er að segja af lóð, sem er víðlend og vel gróin. Húsið er einfalt og látlaust að gerð, en verklegt járnhandrið á svölum setur nokkurn svip á húsið og skemmtilegan. Á lóðarmörkum er steyptur veggur, líklega upprunalegur og er hann einnig í góðri hirðu, og segir í Húsakönnun 2015 að veggurinn og handriðið gefi [...]húsinu gott heildaryfirbragð. (Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta 2015:95). Þar er húsið metið með varðveislugildi 1, sem hluti af áhugaverðri heild. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 900, þ. 28. febrúar 1942. Fundur nr. 24. júlí 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2019 | 12:18
Hús dagsins: Helgamagrastræti 30
Eftir nokkurra vikna viðdvöl á Oddeyri og Oddeyrartanga höldum við aftur upp á Brekku og í Helgamagrastrætið, að ysta hluta götunnar, þ.e. norðan Bjarkarstígs. Þess má til gamans geta, að í dag eru liðin 80 ár síðan götuheitið Helgamagrastræti birtist fyrst á prenti. Það var í blaðinu Íslendingi þann 6. október 1939, en þar auglýsti Kristinn Sigmundsson til sölu ýmis konar grænmeti til sölu í Helgamagrastræti 3. Því má að sjálfsögðu halda til haga, að Kristinn var föðurafi þess sem þetta ritar. En á norðausturhorni Helgamagrastrætis og Bjarkarstígs stendur Helgamagrastræti 30:
Helgamagrastræti 30 reisti Bjarni Rósantsson múrarameistari árið 1942. Hann fékk lóð, þá fyrstu austan Helgamagrastrætis og norðan Krabbastígs, en í mars 1942 var nafnið Bjarkarstígur ekki komið til heldur hét gatan Krabbastígur upp að Helgamagrastræti. Það var svo í júní sama ár, sem Bjarna var leyft að byggja hús, eina hæð á kjallara, byggt úr steinsteypu með steinlofti yfir kjallara og steinþaki. Stærð hússins 11x9m. Bjarni gerði sjálfur teikningarnar að húsinu.
Helgamagrastræti 30 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara. Húsið er tvær álmur og sú syðri breiðari og á hvorri álmu eru há einhalla þök (skúrþök). Halla þökin, sem eru timburþök með breiðum köntum, hvor til sinnar áttar og mynda þannig skipt risþak. Einfaldir póstar eru í gluggum, múrhúð á veggjum og bárujárn á þaki.
Bjarni Rósantsson, sem var frá Efstalandi í Öxnadal, starfaði um árabil sem byggingameistari Akureyrarbæjar. Á meðal fjölmargra húsa sem Bjarni byggði eða kom að byggingu má nefna hús Iðnskólans við Þingvallastræti 23, sem fullbyggt var 1969 og er nú Icelandair Hotel. Þá byggði einnig eigið hús við Munkaþverárstræti 22 árið 1936, eða sex árum áður en hann byggði Helgamagrastræti 30. Bjarni bjó hér ásamt fjölskyldu sinni um áratugaskeið, en eiginkona hét Björg Hallgrímsdóttir. Hann lést árið 1973, þá búsettur hér en hún lést 1988. Ýmsir hafa átt húsið og búið hér eftir tíð þeirra Bjarna og Bjargar. Á níunda áratugnum og fram yfir 1990 var rekin í húsinu verslunin Hestasport. Upprunalega var húsið með flötu þaki, en ekki fylgir sögunni hvenær risþak var byggt á húsið eða heldur hver hannaði þær breytingar. Þá er bílskúr áfastur við húsið að norðanverðu, líklega byggður fáeinum árum síðar en húsið. Árið 1995 var byggt á húsið skyggni yfir inngöngudyr og gluggum hússins breytt, eftir teikningum Fanneyjar Hauksdóttur. Húsið er í mjög góðri hirðu og er til prýði, hvort heldur sem er í götumynd Helgamagrastrætis eða Bjarkarstígs. Þá er lóðin mjög gróin, svo sem gengur og gerist á þessum slóðum og ber þar mikið á gróskumiklum birkitrjám. Í Húsakönnun 2015 hlýtur húsið varðveislugildi 1 sem hluti af áhugaverðri heild funkishúsa, þrátt fyrir að teljast mikið breytt frá upphafi. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.
Heimildir:
Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 901, þ. 6. mars 1942. Fundur nr. 26. júní 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2019 | 16:58
Hús dagsins: Gránufélagsgata 48
Laufásgata liggur til norðurs frá Strandgötu á Oddeyrartanga og tengist Hjalteyrargötu að norðan. Við hana standa að mestu verkstæðishús o.fl. auk athafnasvæða að austanverðu. Gránufélagsgata þverar Laufásgötu og á suðaustur horni gatnanna tveggja stendur reisulegt steinhús, Gránufélagsgata 48.
Gránufélagsgötu 48 reisti Sigfús Baldvinsson útgerðarmaður og síldarsaltandi frá Tjörn í Svarfaðardal. Hann fékk árið 1943 lóð á leigu meðfram Gránufélagsgötu að sunnan, og norður af lóð Kristjáns Kristjánssonar (Strandgata 53). Þá fékk hann leyfi til að reisa geymsluhús, byggt úr steinsteypu með timburþaki, ein hæð með háu risi. Í gögnum bygginganefndar er húsið sagt 20x41m að stærð en líklega hefur það misritast og átt við 20x14m. Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson. Þær teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu en þar má finna upprunalegar raflagnateikningar frá janúar 1944 ásamt teikningum Jóns Geirs Ágústssonar frá 2001 vegna lítils háttar breytinga á innra skipulagi ásamt neyðarútgöngum.
Gránufélagsgata 48 er einlyft steinsteypuhús með háu risi. Tveir kvistir með einhalla þaki eru á hvorri hlið þekju. Bárujárn er á þaki en veggir múrsléttaðir og krosspóstar í flestum gluggum. Sigfús Baldvinsson og kona hans Ólöf Guðmundsdóttir fædd á Gásum við Eyjafjörð, voru búsett í Fjólugötu 10, norðar og ofar á Eyrinni, en það hús reistu þau árið 1933. Sigfús var stórtækur útgerðarmaður og síldarsaltandi og stóð fyrir eigin rekstri frá árinu 1930, en áður hafði hann verið sjómaður hjá útgerð Ásgeirs Péturssonar. Sigfús var einn stofnenda Netagerðarinnar Odda árið 1933. Sigfús stundaði atvinnurekstur allt til hinsta dags, en hann lést 1969, 75 ára að aldri. Gránufélagsgata 48 var sem áður segir byggt sem geymsluhús en þar hafa einnig alla tíð verið íbúðir, þ.e. í risi og vesturhluta. Sonur Sigfúsar, Snorri, bjó þarna um áratugaskeið ásamt fjölskyldu sinni. Gránufélagsgata 48 hefur á 76 árum hýst ýmsa starfsemi, Netagerð, Nótaverkstæðið Oddi var starfrækt þarna um árabil á vegum Sigfúsar og árið 1972 eru auglýstar þarna til sölu Brøyt-gröfur á vegum fyrirtækisins Landverks, og síðar Heildverslunin Eyfjörð sf. Á tíunda áratugnum var þarna verslunin Köfun.
Nú eru í húsinu, auk íbúðar vinnustofur listamanna á efri hæð og austurenda neðri hæðar. Húsið er næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð að utan. Gránufélagsgata 48 hlaut töluverðar endurbætur að utan sem innan á fyrsta áratug þessarar aldar og er í mjög góðri hirðu. Ekki veit sá sem þetta ritar til þess, að húsið hafi verið metið til varðveislugildis, en það er hans álit, að sögulegt gildi iðnaðarhúsa á Oddeyrartanga frá fyrri helmingi síðustu aldar hljóti að vera töluvert. Þar hefur ýmis starfsemi farið fram gegn um tíðina og húsin geyma mikla sögu um atvinnustarfsemi liðinna tíma. Og ekki bara liðinni tíma; því í flestum umræddra húsa er enn unnið og starfað að iðn, framleiðslu sem og listum, svo sem í tilfelli Gránufélagsgötu 48. Myndin er tekin þann 29. desember 2018.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 904, 27. Mars 1943. Fundur nr. 919, 24. júlí 1942. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Bloggar | Breytt 5.10.2019 kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2019 | 15:44
Hús dagsins: Strandgata 53
Strandagata 53 stendur á horni Strandgötu og Laufásgötu á Oddeyrartanga, gegnt Oddeyrarbryggju þar sem m.a. Eimskip hefur aðsetur og drjúgur hluti vöruflutninga til og frá Akureyri fer um. Að ekki sé minnst á mörg skemmtiferðaskipin sem þarna leggjast að bryggju. En sögu hússins, sem reist var sem bílaverkstæði og bílageymsla má rekja til ársins 1935 en þá fékk Kristján Kristjánsson bifreiðarstöðvarstjóri (kallaður Bílakóngur) lóð norðan Strandgötu, austan við Steindór Jóhannesson að stærð 35x35m, til þess að reisa geymsluskúr fyrir bíla. Fékk hann að reisa bílageymsluhús á lóðinni, að lengd meðfram Strandgötu 36,6m og með þvergötu 16m. Þar er væntanlega átt við Laufásgötu sem ekki virðist hafa fengið nafn, en elsta heimildin sem timarit.is finnur um hana er frá 1948. Engu að síður er Laufásgötu að finna á einum elsta skipulagsuppdrætti sem varðveist hefur af Oddeyrinni, sem er gerður svo snemma sem 1901 af Stefáni Kristjánssyni.
En bifreiðastöð Kristjáns eða BSA var fullbyggð 1936 og í nóvember það ár auglýsir Bifreiðastöðin að þeir taki til geymslu [...]í nýrri byggingu vorri að Strandgötu 53 bifreiðar, dráttarvélar, mótorhjól og hjólhesta. Þá hóf BSA bifreiðaverkstæðis þarna, og nokkuð öruggt má telja húsið með þeim fyrstu hér í bæ sem byggð voru sem bílaverkstæði. Árið 1942 fékk Kristján lóðina stækkaða um 45m til norðurs meðfram Laufásgötu og ári síðar leyfi til að byggja á stækkaðri lóðinni. Viðbygging þessi, sem stendur meðfram Laufásgötu skyldi 11x12m á einni hæð með járnvörðu þaki. Árið 1967 var enn byggt við húsið til norðurs eftir teikningu Á. Berg. Um áratugaskeið voru í húsinu bílasölur, bílaverkstæði, og einnig um skeið fiskmarkaður. Ekki veit síðuhafi til þess, að nokkurn tíma hafi verið búið í þessu húsi en það er alls ekki útilokað.
Á tíunda áratug 20. aldar var húsið hins vegar allt tekið í gegn að innan jafnt sem utan og innréttaður þarna skemmtistaður, sem lengst af var rekinn undir nafninu Oddvitinn. Þar mun hafa verið lengsti bar landsins. Skemmtistaðarekstur lagðist þarna af um 2010, en húsið var áfram nýtt til samkomuhalds. Árið 2015 var húsið keypti Heimskautaráð, undir stjórn Arngríms Jóhannssonar flugstjóra húsið. Voru gerðar á húsinu stórfelldar endurbætur og nú er þarna rekið stórmerkilegt og einstakt safn, Norðurslóðasetrið. Er það í stærri salnum, þar sem áður var lengsti bar landsins. Í smærri salnum, þeim eystri er hins vegar veitingasala á vegum setursins. Síðuhafi getur ekki annað en mælt með heimsókn á Norðurslóðasetrið; sjón er sögu ríkari og er þetta aðdáunarvert framtak hjá Arngrími og félögum. Eftir því sem síðuhafi kemst næst, hefur ekki verið unnin húsakönnun fyrir þetta svæði á Oddeyrartanga. Þannig liggur varðveislugildi Strandgötu 53 ekki fyrir, eða hvort húsið hafi yfir varðveislugildi. En húsið er traustlegt og í góðri hirðu, sem nýtt eftir gagngerar endurbætur á sl. árum og er til mikillar prýði. Húsið skartar stórskemmtilegum norðurslóðamyndum í gluggum. Myndin er tekin á sumarsólstöðum, 21. júní 2019.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 735, 14. feb. 1935. Fundur nr. 747, 14. júní 1935. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2019 | 12:55
Hús dagsins: Strandgata 51
Austan elsta húss Oddeyrar eða kannski öllu heldur á Oddeyrartanga, Gránufélagshúsanna, liggur Kaldbaksgata til norðurs. Þar er að finna m.a. verkstæðis- og smáiðnaðarhús. Á horninu stendur reisulegt tvílyft steinsteypuhús frá upphafi fjórða áratugarins, Strandgata 51. Þarna var um hálfrar aldar skeið aðsetur eins rótgrónasta málmiðnaðarfyrirtæki landsins, sem enn er starfandi.
Síðla hausts 1929 óskaði Steindór Jóhannesson eftir því að fá að reisa verkstæðisbyggingu norðan og austan hinna sameinuðu verzlana (Gránufélagshússins). Ekki var hægt að ákveða nákvæmlega hvar húsið ætti að standa, en bygginganefnd taldi ekkert því til fyrirstöðu að byggja. Um mitt ár 1931 hefur verkstæðishús Steindór verið risið, því þá óskaði hann eftir því að byggja viðbót við verkstæðisbyggingu sína eina hæð á lágum grunni byggt úr járnbentri steinsteypu og með steinlofti yfir. Sex árum síðar fær hann að byggja hæð ofan á húsið og fékk húsið þá væntanlega það lag sem það síðan hefur. Strandgata 51 er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með valmaþaki. Veggir eru múrhúðaðir og bárujárn á þaki. Gluggar eru heilir (póstlausir) og á framhlið er iðnaðarhurð og inngöngudyr á vesturhlið. Húsið er sambyggt steinsteyptu verkstæðishúsi sem stendur við Kaldbaksgötu 2.
Steindór Jóhannesson var Skagfirðingur, fæddur 1883 og uppalin í Lýtingsstaðahreppi og nam vélvirkjun í Danmörku í upphafi 20. aldar. Það var aldeilis nóg að gera á þeim vettvangi, þegar iðnaður, sjávarútvegur og samfélagið eins og það lagði sig var að vélvæðast. Árið 1914 stofnaði Steindór vélsmiðju sína á Torfunefi, en árið 1929 var starfsemin orðin það umsvifamikil að Steindór taldi nauðsynlegt að stækka við sig. Honum var bent á Oddeyrartanga fremur Torfunef til byggingar á nýju verkstæðishúsi og væntanlega hefur hann í kjölfarið sótt um að byggja á þessum stað. Svo sem áður kemur fram, taldi bygginganefnd engin tormerki á byggingu þarna. Steindór starfrækti verkstæði sitt þarna og bjó ásamt fjölskyldu sinni, en eiginkona hans var Sigurbjörg Sigurbjarnardóttir, fædd og uppalin í Öxnadal. Verkstæðishúsið eða smiðjan norðan við stendur við við Kaldbaksgötu 2 og mun byggt af Steindóri og hans mönnum um 1940. Steindór Jóhannesson lést 1951, en þá hafði sonur hans, Steindór tekið við framkvæmdastjórn. Þess má geta, að Vélsmiðja Steindórs er enn starfrækt eftir 105 ár og er eitt elsta rótgrónasta málmiðnarfyrirtæki landsins. Sl. tæpa fjóra áratugi hefur fyrirtæki haft aðsetur við Fjölnisgötu, utarlega í Glerárþorpi, en hér var vélsmiðjan starfrækt allt til ársins 1981, eða í hálfa öld. Strandgata 51 og Kaldbaksgata 2 hafa hýst ýmsa starfsemi, en lengst af málmiðnað hvers konar. Framhúsið, þ.e. Strandgata 51 hefur lengst af verið skrifstofurými og íbúðir á efri hæð en smiðja í bakhúsinu við Kaldbaksgötu. Nú er starfrækt þarna blikksmiðjan Blikk- og tækniþjónustan og hefur verið um árabil. Húsið er í mjög góðri hirðu og lítur vel út. Myndin er tekin þann 21. júní 2019.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 639, 21. okt. 1929. Fundargerðir 1931-35. Fundur nr. 665, 30. júní 1931.
Fundagerðir 1935-41. Fundur nr. 795, 15. apríl 1937.
Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2019 | 15:51
Hús dagsins: Strandgata 6
Árið 1929 fékk Síldareinkasalan lóð undir skrifstofubyggingu og óskaði eftir grunninum í norðausturhorni byggingarreits nr. 40. Umræddur byggingarreitur er væntanlega samkvæmt fyrsta Aðalskipulagi Akureyrar sem samþykkt var fáeinum misserum áður eða 1927. Fékk Síldareinkasalan lóð 14x12m að stærð og heimilt að reisa þarna bráðabirgðabyggingu 10x15m. Lóðarleiga var 200kr á ári og uppsegjanleg með 6 mánaða fyrirvara að hálfu beggja samningsaðila. Ekki er vitað hver teiknaði húsið.
En Strandgata 6 er einlyft timburhús á lágum grunni með valmaþaki. Steníplötur á veggjum og bárujárn á þaki, og verslunargluggar á framhlið og gluggi á austurhlið með einföldum þverpósti. Húsið skiptist raunar í tvær álmur, vesturhluti er með flötu þaki og er hann áfastur Strandgötu 4 (Nýja Bíó). Í upphafi mun þak húsið hafa verið einhalla (skúrþak) en valmaþak byggt síðar, og er húsið töluvert breytt frá upprunalegri gerð.
Síldareinkasala Íslands var stofnsett þann 1. maí 1928 eftir lögum frá Alþingi um einkasölu á útfluttri síld. Framkvæmdastjórar Síldareinkasölunnar voru þrír, þeir Einar Olgeirsson, Ingvar Pálmason og Pétur Á. Ólafsson. Sem áður segir fékk Síldareinkasalan að reisa þarna bráðabirgðabyggingu og skemmst er frá því að segja, að 90 árum síðar stendur bygging þessi enn og hefur þjónað hinum ýmsu hlutverkum. Síldareinkasalan varð raunar ekki langlíf, en hún varð gjalþrota í desember 1931. Eftir það var húsið nýtt til íbúðar en einnig undir ýmsa starfsemi, þ.e. vestari hluti hússins. Þarna hefur m.a. verið starfrækt fiskbúð, véla- og raftækjasala. Þá var þarna rakarastofa um áratugaskeið. Frá fyrri hluta tíunda áratugarins og fram til hausts 2017 starfrækt þarna Nætursalan, veitinga- og sælgætissala. Þá var húsið aðalbiðstöð Strætisvagna Akureyrar og vagnstjórar þarna með kaffistofu; þarna byrja og enda allar ferðir strætisvagnanna. Enn eru vagnstjórar með aðstöðu í hluta hússins, sem er að öðru leyti ónotað.
Eftir því sem síðuhafi kemst næst, gerir núgildandi skipulag ráð fyrir því, að Strandgata 6 víki. Þannig er líklegast að Strandgata 6 verði rifin og að þar með ljúki a.m.k. 90 ára sögu bráðabirgðabyggingar Síldareinkasölunnar. Hins vegar má geta þess, að mörg dæmi eru um að gömul timburhús séu flutt og hljóti framhaldslíf á nýjum stað og er það e.t.v. ekki útilokað í þessu tilfelli. Myndin er tekin þann 21. júní 2019.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 624, 31. jan. 1929. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.9.2019 | 20:10
Hús dagsins: Strandgata 13b
Af gatnamótum Helgamagrastrætis og Bjarkarstígs bregðum við okkur niður á Oddeyri; á Miðbæjarsvæðið en á baklóð nærri horni Strandgötu og Glerárgötu lúrir lágreist og vinalegt steinhús frá 3. áratug 20. aldar...
Strandgötu 13b reisti Grímur Valdimarsson bifreiðasmiður árið 1926 sem verkstæðishús. Hann fékk leyfi til að reisa hús úr steinsteypu á lóð Kristjáns Þorvaldssonar á lóðarmörkum að norðan og 10 álnir (6,3m) frá verkstæði Óskars Sigurgeirssonar (þ.e. Strandgötu 11b). Skilyrði var, að eldvarnarveggur væri á húsinu norðanverðu og húsið mætti ekki standa nær lóð Óskars en 5 álnir (3,15m). Umrædd lóð Kristjáns Þorvaldssonar var Strandgata 13. Húsið er sem áður segir byggt 1926 en fékk ekki númerið 13b fyrr en löngu síðar. Elstu heimildir sem finnast á timarit.is um Strandgötu 13b eru frá 1952 en þær eiga væntanlega ekki við þetta hús heldur viðbyggingu norðan við Strandgötu 13, sem nú er löngu horfin.
Strandgata 13b er einlyft steinsteypuhús með háu risi og þverpóstum í gluggum veggir múrhúðaðir en bárujárn á þaki. Húsið mun að mestu óbreytt frá upphafi en hefur gegn um tíðina hýst hina ýmsu starfsemi, lengi vel verkstæði. ekki er greinarhöfundi kunnugt um að búið hafi verið í húsinu. Það getur þó meira en vel verið; kannski kannast einhver lesandi þessarar greinar við það. Nú er rekin þarna verslun með kristilegan varning, Litla húsið, og hefur hún verið starfrækt þarna frá því snemma á níunda áratugnum.
Grímur Valdimarsson, sem byggði Strandgötu 13b, var sem áður segir bifreiðasmiður og var sá fyrsti á Norðurlandi sem lagði þá iðngrein fyrir sig. Hann hafði áður numið trésmíði og fólst bifreiðasmíðin m.a. í því, að smíða yfirbyggingar yfir bíla. Sjálfsagt hafa þó nokkrir þeirra bíla sem Grímur smíðaði varðveist og verið gerðir upp. Í fjórða bindi bókaflokksins Aldnir hafa orðið birtast endurminningar Gríms og ekki er annað hægt hér, en að mæla með þeirri lesningu. Þar segir hann m.a. nokkuð ítarlega frá byggingu Glerárvirkjunar árið 1921 en hann starfaði þar sem verkamaður.
Strandgata 13b er einfalt og látlaust hús, því sem næst óbreytt frá upphaflegri gerð. Árið 2014 var unnin Húsakönnun um Miðbæ og neðri hluta Ytri Brekku. Þar er varðveislugildi hússins ekki talið verulegt, en engu að síður er Strandgata 13b hið geðþekkasta hús, í góðri hirðu og snyrtilegt. Myndin er tekin þann 11. nóvember 2019.
Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 585, 7. ágúst 1926. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Erlingur Davíðsson 1975. Aldnir hafa orðið, IV bindi. Akureyri: Skjaldborg.
Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2019 | 15:21
Af Brekkunni og niður á Oddeyri
Í umfjölluninni hér á síðunni um Helgamagrastræti er ég kominn að gatnamótum Helgamagrastrætis og Bjarkarstígs. Þykir mér upplagt, svona á "krossgötum" eða gatnamótum, að bregða mér aðeins í aðra átt, áður en ég lýk við Helgamagrastrætið norðan Bjarkarstígs. Hyggst ég þannig bregða mér aðeins af Ytri Brekkunni og niður á Oddeyri og taka fyrir nokkur hús, m.a. við Strandgötu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnór Bliki Hallmundsson
Tenglar
Mínir tenglar
- Minjastofnun Heimasíða Minjastofnunar, fróðleikur um gömul um hús og mannvirki
- Landupplýsingakerfi Akureyrarkaupstaðar Hér er hægt að skoða Akureyri eins og hún leggur sig, tæknilegar upplýsingar og byggingarárs HvERS EINASTA húss í bænum og teikningar af sumum þeirra.
- Gamlar myndir frá Akureyri Stórskemmtileg myndasíða Rúnars Vestmann. Hér má sjá gnægð gamalla mynda af Akureyri.
- Náttúrufræðistofnun
- timarit.is Öflugur vefur til hvers kyns heimildaöflunar
- Umhverfisstofnun
Á síðunni minni
- Svona verður Húsapistill til Lesendur leiddir í allann sannleikan um tilurð dæmigerðs Húsapistils. Sett saman í tilefni af 10 ára afmælis h.d.
- 100 elstu hús Akureyrar 100, eða öllu heldur, 103 elstu húsin sem enn standa á Akureyri
- Húsapistlar 2023 "Hús dagsins" greinar árið 2023
- Húsapistlar 2021 "Hús dagsins" greinar árið 2021
- Húsapistlar 2022 "Hús dagsins" greinar árið 2022
- Húsapistlar 2020 "Hús dagsins" greinar ársins 2020
- Húsapistlar 2019 "Hús dagsins" greinar ársins 2019
- Húsapistlar 2018 "Hús dagsins" greinar ársins 2018
- Húsapistlar 2017 "Hús dagsins" greinar ársins 2017
- Húsapistlar 2016 "Hús dagsins" greinar á árinu 2016.
- Húsapistlar 2015 Hús sem ég skrifaði um árið 2015.
- Húsapistlar 2014 Hús sem ég skrifaði um árið 2014.
- Húsapistlar 2013 "Hús dagsins" greinar ársins 2013
- Húsapistlar 2012 "Hús dagsins" greinar ársins 2012
- Húsapistlar 2011 "Hús dagsins" greinar ársins 2011
- Húsapistlar 2010 "Hús dagsins" greinar ársins 2010
- Húsapistlar 2009 "Hús dagsins" greinar ársins 2009
- Bæjarbrunarnir á Akureyri í upphafi 20.aldar Stutt grein um brunanna miklu í Innbænum 1901 og 1912 og Oddeyrarbrunann 1906
- Akureyri- 150 ára sögustiklur Árið 2012 tók ég saman í stuttu máli byggðasögu Akureyrar, m.t.t. mannvirkjauppbyggingar o.fl.
Ytri Brekka
- Bjarmastígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarmastíg.
- Bjarkarstígur Hús sem ég fjallað um, við Bjarkarstíg á Brekkunni
- Brekkugata Hús við Brekkugötu sem ég hef skrifað um hér.
- Gilsbakkavegur Hús við Gilsbakkaveg, sem ég hef fjallað um hér.
- Hamarstígur (neðan Þórunnarstrætis) Hús sem ég hef fjallað um, við Hamarstíg
- Hlíðargata Hús sem ég fjallað um, við Hlíðargötu.
- Holtagata Hús sem ég fjallað um, við Holtagötu.
- Klapparstígur- Krabbastígur Söguágrip húsanna við Klapparstíg og Krabbastíg
- Lögbergsgata Hús sem ég hef fjallað um, við Lögbergsgötu.
- Munkaþverárstræti Umfjallanir um hús Munkaþverárstræti, Brekkunni.
- Oddagata Hús sem ég fjallað um við Oddagötu á Neðri-Brekku.
- Oddeyrargata Hús við Oddeyrargötu sem ég hef skrifað um hér.
- Þingvallastræti Hús sem ég fjallað um, við Þingvallastræti
- Sniðgata Hús sem ég hef fjallað um, við Sniðgötu.
- Helgamagrastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Helgamagrastræti.
Syðri Brekka
- Býli á Brekkunni Gömul býli og önnur hús á Brekkunni, bæði Syðri og Ytri
- Eyrarlandsvegur Hér eru greinar um hús sem standa við Eyrararlandsveg á Brekkunni.
- Eyrarlandsstofa Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum
- Hrafnagilsstræti Hús sem ég fjallað um, við Hrafnagilsstræti
- Möðruvallastræti Hús sem ég hef fjallað um, við Möðruvallastræti.
- Skólastígur Hús sem ég hef fjallað um, við Skólastíg
Oddeyri
- Eiðsvallagata Söguágrip um hús við Eiðsvallagötu á Akureyri.
- Fjólugata Hús sem ég fjallað um, við Fjólugötu á Oddeyri
- Gránufélagsgata Hús sem ég fjallað um við Gránufélagsgötu á Eyrinni.
- Hríseyjargata Hús sem ég hef fjallað um, við Hríseyjargötu.
- Laxagata Hús sem ég fjallað um við Laxagötu á Eyrinni.
- Lundargata Hús sem ég fjallað um við Lundargötu á Eyrinni.
- Norðurgata (sunnan Eyrarvegar) Umfjallanir um hús við Norðurgötu á Eyrinni, ritað frá júní 2009 til feb.2015
- Ránargata Stutt söguágrip húsana við sunnanverða Ránargötu á Oddeyri.
- Strandgata Hús sem ég fjallað um, við Strandgötu
- Geislagata, Glerárgata, Hólabraut, Grundargötu Nokkrar götur á Oddeyri
- Ægisgata Hús sem ég fjallað um, við Ægisgötu á Oddeyri
- Sláturhúsið á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga b.1928.
- Nótastöðin Nótastöðin á Gleráreyrum/Oddeyri, b. 1945.
- Grænagata Hús sem ég hef fjallað um, við Grænugötu
- Eyrarvegur Færslur um hús við Eyrarveg
Innbær
- Aðalstræti Hús sem ég hef fjallað um við Aðalstræti
- Hafnarstræti í Innbænum Hafnarstræti að mörkum Innbæjar og Miðbæjar.
- Lækjargata Söguágrip um hús við Lækjargötu í Innbænum á Akureyri.
- Spítalavegur Hús sem ég hef fjallað um við Spítalaveg sem liggur milli Innbæjar og S-Brekku
Miðbær
- Hafnarstræti: Miðbær Hús sem ég hef fjallað um í Miðbæjarhluta Hafnarstrætis
- Ráðhústorg Ráðhústorg 1-5.
- Skipagata Hús sem ég hef fjallað um, við Skipagötu
Glerárþorp
- Glerárþorp Býli og önnur hús í Glerárþorpi
Eyjafjarðarsveit
- Freyvangur Umfjöllun um félagsheimilið Freyvang Eyjafjarðarsveit (Öngulsstaðahreppi)
- Laugarborg Umfjöllun um félagsheimilið Laugarborg Eyjafjarðarsveit (Hrafnagilshreppi)
- Sólgarður Umfjöllun um félagsheimilið Sólgarð Eyjafjarðarsveit (Saurbæjarhreppi)
- Þighúsið á Hrafnagili Umfjöllun um fyrrum félagsheimilið og þinghúsið á Hrafnagili
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.5.): 8
- Sl. sólarhring: 25
- Sl. viku: 266
- Frá upphafi: 446721
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 168
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar